Maðurinn talaði um hyski af landsbyggðinni. Hann sagði ekki að allt fólk af landsbyggðinni væri hyski var það? Hann átti bara við framsóknarmenn er það ekki?
Allavega. Ég tók þetta ekki til mín en hef þetta um málið að segja:
1. Var þetta skörp greining á ástandinu eða hnyttin athugasemd um stöðuna frá helsta rithöfundi þjóðarinnar?
Neeee...þetta var hvorki fugl né fiskur. Þetta var úrillur status á
Facebook. Hef skrifað nokkra slíka sjálfur en þeir hafa ekki vakið neina athygli vegna þess að ég er ekki Einar Kárason. Fyrst og fremst var þetta merkilega tréhausaleg athugasemd og þá á ég bara við stílinn - ekki innihaldið sem var, eins og fyrr segir, hvorki fugl né fiskur. En við höfum svosem alltaf vitað að Einar Kárason er enginn Hallgrímur Helgason.
2. Var þetta til að bæta umræðuna?
Neeee...þeir einu sem eru ánægðir með sig í þessu máli eru framsóknarmenn sem fá kærkomna viðspyrnu í formi hrokafulla og lattelepjandi listamannsins úr 101. Þeir telja sig vita að miðbærinn sé morandi af þannig hyski en hvorki ég, né nokkur sem ég þekki, hefur hitt svona týpu í raun og veru. Og Einar Kárason er líka ánægður með sig en hann getur auðvitað ekki annað. Sagði í útvarpinu áðan að þetta hefði verið "úthugsað" hjá sér.
Hættu, Einar. Plís hættu.
3. Eru viðbrögð skrílsins verri en það sem var upphaflega sagt?
Auðvitað. Þau eru margfalt verri. Fátt slær út bókabrennur eða hótanir um slíkt þegar kemur að aumingjaskap
eins og sagan hefur því miður sýnt okkur óþarflega oft. Það er líka merki um ræfilshátt/heimsku að hætta að kaupa bækur vegna þess að manni finnst persóna höfundarins ómerkileg eða skoðanir hennar vondar. Sé það á annað borð hægt á fólk auðvitað að aðskilja listamanninn frá listinni eins og milljón sinnum hefur verið bent á.
Ekki hætta að hlusta á John Lennon þótt hann hafi verið, á köflum í það minnsta, ömurlegur eiginmaður og faðir. Hættu vegna þess að allt sem hann gaf út eftir 1971 var arfaslakt.
Og hananú.