Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 júní, 2006

HM

Ég hefði fyrirgefið Þjóðverjum að tapa fyrir Argentínumönnum en fyrst leikurinn fór svona þá er eins gott að þeir vinni keppnina. Áfram Þýskaland! Og áfram Scorpions!

...

Ég reikna ekki með því að liðið hérna inni hafi fylgst grannt með þýska landsliðinu í gegnum tíðina en hafa Þjóðverjar einhvern tímann tapað vítakeppni á HM?

Knúturinn.

29 júní, 2006

Phil

Einar vinur minn Solheim hefur oft rétt fyrir sér. Ég myndi aldrei viðurkenna það í hans návist en ég geri það hér enda eru þetta bloggheimar. Hér getur maður móðgað fólk og þegar maður hittir það í kaupfélaginu daginn eftir er eins og ekkert hafi í skorist. Ef menn eru móðgaðir í netheimum þá svara þeir fyrir sig í þessum sama heimi. Þetta er regla. Jack Nicholson varð ekkert móðgaður út í Michael Keaton þótt Batman dræpi trúðinn sem Jack "lék" í fyrstu myndinni!

...

Einar Solheim hefur sem sagt ótrúlega oft rétt fyrir sér. Það er vegna þess að hann er tiltölulega laus við tilgerð. En bíðum aðeins hæg! Það verður að vera á hreinu að ég er bara að tala um tónlistarsmekkinn hans. Ég er ekki að tala um fatasmekkinn hans. Mér fannst t.d. alveg gaga að hann skyldi á tímabili hafa gengið í einhverjum Hagkaupsjakkafötum. Á þessum tíma var hann forstjóri eða eitthvað svoleiðis og ég hugsa að hann hafi með þessum öreigajakkafötum verið að rembast við að ná sér í eitthvað street-cred!

Keyptu þér Armani-jakkaföt , drengur! Ertu búinn að því? Áttu mörg? Ó, ókei, flott.

...

En já, Einar hefur oft rétt fyrir sér enda er hann laus við tilgerð. Þegar Oasis/Blur æðið var sem mest hér í kringum 1995 og menn eins og ég flykktust útí búð til að kaupa The Great escape og What's the story morning glory fór Einar útí sömu búð og keypti nýju plötuna með Phil Collins. Þetta gerði hann vitandi að við myndum hæðast að honum fram yfir jól og áramót.

En hvað hefur gerst? Maður er löngu hættur að hlusta á Blur (tékka nú alltaf reglulega á Oasis) en hvað er í spilaranum núna? Jújú, læfplata með Genesis frá 1992.

...

Þegar ég fann hana í safninu hans Kela bróður í gærkvöld byrjaði ég undireins að hæðast að honum: "Haha, áttu Genesis! Eigum við ekki bara að fá okkur tvöfaldan gin og tónik eins og plebbar, klæða okkur upp og horfa aðeins á sjónvarpið, ha! Og skella okkur síðan á ball í Valaskálf! Koma heim og hlusta aðeins meira á Genesis! Hvar felur þú Michael Bolton eða best of Foreigner?"

En hvað sá ég svo? Jú, ég sá nafnið mitt á framhlið kápunnar rétt fyrir ofan höfuð Mike Rutherfords. Þetta var rithönd venjulegs sautján ára pilts sem óttaðist ekkert nema þá kannski að hann myndi falla á jólaprófinu í stærðfræði. Já, og náttúrulega að hann yrði hreinn sveinn allt sitt líf.

Og allt í einu mundi ég:

30. september, 1992, hádegi: Ég var að ganga heim úr skólanum (með John Lennon gleraugu, í köflóttri skyrtu að hætti eina Stone Roses aðdáandans á Norðfirði, í bláum gallabuxum og svörtum leðurskóm). Þennan dag var verið að bræða loðnu, reykurinn lá yfir bænum og fyllti vel útí öll skot. Á góðum degi hefði ég sagt að reykurinn væri eins og teppi sem breitt væri yfir bæinn og verndaði íbúana en þetta var ekki góður dagur. Ég var þungur í skapi:

Fyrr um morguninn, áður en ég fór í skólann, hafði ég legið hálfur undir sæng í rúminu mínu, orðinn tíu mínútum of seinn í skólann. Ómeðvitað endurtók ég, gráti næst: "Hvenær kemur að mér? Hvenær kemur að mér? Hvenær kemur að mér? Hvenær kemur að mér?" Á meðan gerði ég hið augljósa og hugsaði um rauðhærðu söngkonuna í B-52's. Þegar ég og rauðhausinn vorum í þann veginn að ljúka okkur af bankaði mamma harkalega á hurðina og sagði mér að drullast á lappir.

Reykurinn lagðist því yfir bæinn eins og mara.

...

Ég kom heim, smurði mér eina brauðsneið með kæfu, horfði útum gluggann og ... úff, ég hef ekki tíma fyrir þetta núna. Í sem skemmstu máli þá heyrði ég That's all í útvarpinu og tók gleði mína á ný. Fór rakleitt í símann, hringdi í Skífuna og bað afgreiðslumanninn um að senda mér bara hvað sem er með Phil Collins eða eitthvað nýtt með Genesis. Ég keypti aldrei svona vafasamar plötur í Tónspil. Í smábæjum er ekki hægt að treysta því að kaupmenn virði þagnarskyldu.

...

29. júní, 2005, afsakið 2006, hádegi: Tuttugu stiga hiti úti, ég sit fyrir framan tölvu og ímynda mér að ég sé að vinna, drekk kaffi og hlusta á Genesis. No worries.

Knúturinn.

23 júní, 2006

Djass

Hér á Egilsstöðum er djasshátíð í gangi. Reyndar virðist alltaf vera eitthvað í gangi hér efra. Um daginn var einhver “Skógardagur” og þegar ég gekk frá kaffihúsinu í Kleinunni í Bónus hitti ég konu sem var á fullu í að skipuleggja Ormsteiti, bæjarhátíð Héraðsmanna. Þegar hún er ekki að skipuleggja Ormsteiti skipuleggur hún einhvern happening á Eiðum.

Þetta er allt gott og blessað og bara ánægjulegt að sjá hvað samfélagið efra er duglegt að skemmta sjálfu sér. Þetta er, þegar öllu er á botninn hvolft, munurinn á Héraðsmönnum og Fjarðamönnum. Hinir fyrrnefndu eru alltaf með hugann við það hvernig hægt sé að bjarga sér við óviðunandi aðstæður því Héraðið er vissulega óviðunandi aðstaða. Spyrjið bara skógræktarbændurna sem berjast við að græða upp landið hér í kring í kulda og roki. Samt dettur þeim ekki í hug að hætta. Fjarðamenn eru hins vegar hinir sönnu þorparar Austurlands. Þeir hafa mestar áhyggjur af því hvað hinir hafa það gott. Jafnvel þó þeir hafi það fínt sjálfir.

Relative deprivation kallast þetta á fagmáli eða afstæður skortur.

...

En ég nenni ekki að tala um hrepparíg. Ég gerði nóg af því þegar ég var á Austurglugganum og niðurstaðan var alltaf sú sama: Fjarðamenn viðurkenna að þeir þola ekki Héraðsmenn og Héraðsmenn eru sannfærðir um að hrepparígur sé alvarlegt vandamál á Austurlandi, sérstaklega meðal fjarðabúa.

...

Ég ætla að tala um djass.

Ég veit að ég hef skrifað um djass á þessari síðu og þá yfirleitt til að mæra hann. Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er ég ótrúlega jákvæður og ég nenni ekki að skrifa um tónlist nema ég hafi gaman af henni (þess vegna hætti ég að skrifa tónlistargagnrýni. Ég hefði aldrei nennt að eyða orku í að rakka niður nýju Skítamóralsplötuna) og í öðru lagi er ég barnslega mikill Miles Davis- aðdáandi. Og Miles spilar eiginlega eina djassinn sem ég fíla. Og kannski er tónlist Miles ekki einu sinni djass. Hún er bara góð tónlist sem á allavega ekkert skylt við djassinn sem ég heyrði á opnunarhátíð Djasshátíðarinnar á Egilsstöðum á miðvikudagskvöldið.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að norska bandið sem ég man ekki hvað heitir en spilar á Eiðum í kvöld var stórskemmtilegt. En það var aðalnúmerið á miðvikudagskvöldið sem sannfærði mig endanlega um að það er eitthvað að í djasstónlist.

...

Í nýlegu viðtali við tímaritið Classic rock segir Greg Lake, bassaleikari King Grimson, ELP og fleiri banda, að djass sé tilfinningasnauð tónlist. Fyrst þegar ég las þetta fussaði ég og sveiaði: “Þetta kallar maður nú að kasta björgum í glerhúsi, þú ískaldi progrokk idjóti. Þú hefur greinilega aldrei heyrt In a silent way eða Bitches brew!” Hvað get ég sagt? Ég varð æfur!

...

Ég var bara tiltölulega nýbúinn að jafna mig þegar ég fór á tónleikana á miðvikudagskvöldið. Fyrst á svið var norska bandið og ég endurtek: Þau voru frábær. Og svo kom bandið So what! (með upphrópunarmerkinu), nefnt í höfuðið á frægasta lagi Miles.

Þau voru ekki frábær. Alveg hreint mjög fjarri því reyndar.

...

Nú. Ég hef farið ótal djasstónleika. Mun fleiri djasstónleika en rokktónleika þó ég sé meiri aðdáandi rokktónlistar. Framboðið af djasstónleikum er einfaldlega mikið. Tala nú ekki um þegar maður hefur að mestu alið manninn í smáþorpi á austurströndinni sem rekur sérstakan djassklúbb.

Og ég get sagt í fúlustu alvöru að mér leiðist alltaf á djasstónleikum eftir fjögur til fimm lög. Undantekningar á þessu eru engar. Þetta hefur alltaf gerst og mun alltaf gerast. Á fimmta lagi fer ég að geispa og gríp alltaf til sama ráðsins. Ég fer á fyllerí. Og þegar ég er fullur fíla ég alla tónlist hvort sem það er Sálin hans Jóns míns eða Jóel Pálsson. Fjandinn hafi það bara! Í dómgreindarleysinu fíla ég meira að segja Ragnheiði Gröndal! (Djók)

Kannski bjargaði það norska bandinu að það flutti bara þrjú lög en ég veit ekki hvað So what! flutti mörg lög. Kannski tíu, kannski hundrað, kannski þúsund. Allavega hélt ég að prógrammið myndi engan enda ætla taka. Og áður en þið spyrjið hvers vegna ég hafi bara ekki drukkið mig útúr heiminum fyrst þetta var svona erfitt þá er svarið einfalt. Ég var ekki með veskið á mér.

...

Vandamál hljómsveitarinnar So what! er það sama og vandamál margra annarra djassara (og ég hefði aldrei tekið eftir þessu nema vegna edrúmennskunnar). Vandamálið er, eins og Greg Lake bendir á, að það vantar alla tilfinningu í djasstónlist í dag. Eða kannski frekar: Það vantar alla ástríðu í djasstónlist. Nei, höfum það frekar:

Það vantar alla ástríðu í djasstónlistarmenn!

...

Ég veit að þetta er ekki frumleg greining en bíðið aðeins. Lofið mér að útskýra. Og lesið þetta endilega til enda. Tónlistarlegt innsæi Knútsins nær yfirnáttúrlegum hæðum eftir smástund.

...

Djass var á sínum tíma root-mússík. Hann var rödd einhverra sem þurftu að tala. Einhverra sem máttu aldrei tala en höfðu samt ótrúlega mikið að segja. Þetta voru menn eins og Charlie Parker, Miles Davis, John Coltrane og fleiri sem ég kann ekki að nefna því ég er, eins og kom fram að ofan, ekki neinn sérstakur aðdáandi djasstónlistar.

Þessir menn voru allir svertingjar sem er mikilvægt en ekki mikilvægt í sjálfu sér eins og kemur fram á eftir. Það sem máli skiptir er að þetta voru menn sem höfðu verið undirokaðir allt sitt líf og kunnu að syngja blús af því að þeirra líf var einn risastór blús. Eða eins og sögumaðurinn í smásögunni Sonny’ blues eftir James Baldwin segir þegar hann sér bróður sinn, sem er nýkominn úr grjótinu, spila á einhverri djassbúllu í lok sögunnar: “Sonny’s fingers filled the air with life, his life.”

...

Nú. Hvað gerðist? Af hverju er megnið af þeim djassi sem maður heyrir í dag steingeldur? Jú, svarið er einhvern veginn svona:

Djasstónlist er ekki lengur blús. Þeir sem hlusta á djass og spila djass í dag eru aðallega feitir úthverfaplebbar. Plebbar sem geta eingöngu sungið blús um tennisleikinn sem þeir töpuðu um síðustu helgi. Djass er orðinn, eins og franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu myndi eflaust hafa sagt, borgaralegt stöðutákn. Það að þú hlustir á djass og spilir djass þýðir einungis að þú hafir góðan og borgaralegan smekk. Það þýðir ekkert annað.

Og djass er orðinn, eins og allar aðrar háskólagreinar, sjálfhverfur. Hann vísar ekki lengur í neinn veruleika sem er áhugaverður. Hann vísar bara í sjálfan sig, í sína sögu, í sínar kenningar en fyrst og fremst í sínar klisjur. Djass er orðinn “jazz by numbers”.

...

Og í háskólum tala menn jafnvel þó þeir hafi ekkert að segja. Þar fá menn borgað fyrir að míga þó þeim sé aldrei mál.

Dæmi:

Þegar strákarnir í So what! renndu sér í gegnum alveg dæmalaust ömurlega útgáfu af Creep með Radiohead (þeir settu allir upp svona dæmigert hljómsveitareinkaglott þegar söngkonan söng ‘so fuckin’ special’. “Úúú, hvað við erum fríkaðir,” hugsuðu þeir) lokuðu þeir augunum, gítarleikarinn sat kæruleysislega, strauk gítarnum líkt og hann nennti því ekki, saxófónleikarinn smellti fingrum kæruleysislega í takt við kæruleysislegt trommubítið og bassaleikarinn horfði kæruleysislega á, sönglandi með sjálfum sér: Ú je, its grúví tæm beibí. Allir líkt og útúrsmakkaðir væru! Þessa mynd þekkið þið eflaust enda er þetta staðalmynd af djasshljómsveit. En gallinn er sá að þeir voru ekki útúrsmakkaðir! Ég veit betur! Ég sá þá drekka Sprite á barnum áður en þeir stigu á sviðið! Og gott ef þeir voru ekki að tala um fótbolta! Og þeir voru á Egilsstöðum! Hvernig í ósköpunum ætlar þú að spila djass ef þú ert staddur á Egilsstöðum og þitt helsta áhyggjuefni er hvort Hollendingar komist í undanúrslit á HM?

...

Nú. Hvert er ég búinn að leiða sjálfan mig?

Þarf maður semsagt að vera kúgaður svertingi til að djassa? Er ég kominn út í einhvern óþolandi essentialisma? Mega hvítir Evrópubúar einungis flytja tónlist eftir Mozart?

Neinei. Eins og Clapton sagði einhvern tímann þá er blús hugarástand. Sama má segja um djassinn. Og þetta heyri ég þegar ég hlusta á góðan vin minn hamra djass á gamla svarta píanóið sitt á Hagamel í Rvk. Hann er rauðhærður, kroppur hans er fölur og hann er í góðri vinnu hjá ríkinu. Með öðrum orðum: Hann er ekki kúgaður svertingi.

En lífið hefur kennt honum að stundum þarf maður bara að syngja blús. Og stundum þarf maður þess barasta ekki. Þá syngur vinur minn barbershop.

Knúturinn.

01 júní, 2006

Hvar varst þú þegar Tónspil opnaði?

Tileinkað Ástu Guðmundsdóttur sem er ekki Norðfirðingur. Hún þarf að vita þetta.

Ef þú ert ekki Norðfirðingur þá veistu ekki hvar þú varst þegar Tónspil opnaði. Og ef þú ert Norðfirðingur er mjög líklegt að þú vitir það ekki heldur. Ég vildi óska að ég vissi nákvæmlega hvaða dag það var sem þessi furðulega plötubúð rétt sunnan við heimskautsbauginn opnaði en svo öflugt er minni mitt ekki.

En ég man hins vegar þegar ég og Daddi sáum eigandann, Pjetur Hallgrímsson, í fyrsta sinn: Hann var síðhærður með hökuskegg og Camelsígaretta lafði útum vinstra munnvikið, eins ólíkur pabba mínum og hann gat verið. Ég var tólf ára og gerði mér enga grein fyrir því af hverju Pjetur var merkilegur maður, reyndar alveg einstakur hér um slóðir í þessum bæ manna sem klæðast flíspeysum alla daga ársins. Og síður en svo áttaði ég mig á mikilvægi þessa manns í mínu lífi. Ég vissi ekki fyrr en fyrir nokkrum klukkutímum að dagurinn sem ég gekk fyrst inní Tónspil var dagurinn sem líf mitt breyttist. Horfi ég í lófa minn núna sé ég hvar líflínan tekur nýja stefnu. Hún sveigir til vinstri mjög snemma, augljóslega um tólf ára aldur.

Það var nefnilega þennan dag haustið 1987 sem líf mitt breyttist. Þetta var dagurinn sem ástarsamband mitt við rokktónlist hófst. Saklaust áhugamál varð að ástríðu. Eða neinei, segjum bara sannleikann: Áhugamál varð að fíkn og eins og segir sig sjálft var eigandi búðarinnar dílerinn minn. Kæruleysisleg upprifjun (mig langar ekki til að vita sannleikann frekar en aðrir fíklar) leiðir í ljós að ég og bróðir minn höfum keypt plötur af Pjetri fyrir rúmlega þrjár milljónir.

En þarna sáum við hann semsagt; hann stóð fyrir innan búðargluggann í sínum svarta einkennisbúningi og málaði veggina í búðinni sinni hvíta. Ég ætla ekki að láta eftir mér að spekúlera í litaval búðareigandans en verð þó að segja að hvítur litur er tákn sakleysis og upphafs (er það ekki annars?). Ég þarf vart að benda ykkur á hversu táknrænt þetta er.

Við gengum upp af glugganum um leið og við sáum hann, líkt og við værum í leiðslu...já, best að útskýra af hverju ég nota fyrstu persónu fleirtölu.

Ég var nefnilega ekki einn að þvælast í miðbæ Neskaupstaðar þennan dag. Allir tólf ára strákar þurfa sinn partner in crime og minn partner árið 1987 (árið sem Whitesnake gaf út 1987) var Daddi. Hann var lítill, rauðhærður og ofdekraður af pabba sínum. Hann var besti vinur minn. Og þegar ég segi besti vinur minn þá meina ég sko langbesti vinur minn. Hann var eiginlega besti vinur minn þar til hans helsta markmið í lífinu var að verða heróínfíkill eins og Nikki Sixx, bassaleikari Mötley Crue. Það gerðist nokkrum árum síðar.

Þarna var hann svona kasjúal aðdáandi tónlistar og þá aðallega þeirrar sem við heyrðum í Bárujárni, þungarokksþætti Rásar 2 í umsjón Sigurðar Sverrissonar. Við höfðum þá þegar stofnað hljómsveitina Quarterflash (löngu síðar fann ég plötu með Quarterflash á Amazon. Ég vissi alltaf að þeir hefðu verið þessa heims) sem gaf út nokkrar plötur á viku og fylgdi þeim síðan eftir með lúftgítartónleikum í herberginu hans Dadda. Þennan dag - ímynda ég mér - var hljómsveitin Quarterflash nýbúin að gefa út plötuna Use it or lose it, skírð í höfuðið á uppáhaldslaginu okkar á Theatre of pain, þriðju plötu Mötley Crue, sem bróðir minn átti. Árið 1987 vorum við sem sagt bara venjulegir tólf ára strákar en þó með meiri áhuga á þungarokki en fótbolta.

Ég ímynda mér að skólinn hafi verið búinn. Við skruppum sennilega niðrá bryggju, reyndum að búa til færi en fundum enga beitu. Kannski spiluðum smá fótbolta í garðinum hjá Dadda. Hann ímyndaði sér að hann væri Peter Shilton og ég ímyndaði mér að ég væri Lothar Matthaus. Þegar staðann var orðinn 3-0 fyrir Þjóðverjum tókum við leikhlé og löbbuðum niður í bæ og það var þá sem við sáum þennan skrítna mann fyrir innan búðargluggann. Fyrir ofan dyrnar stóð Tónspil. Þetta gat ekki verið neitt annað en plötubúð. En Daddi spurði samt hvort þetta væri ekki örugglega plötubúð.

“Jújú,” sagði Pjetur, fremur þurr á manninn. Fyrir honum vorum við kannski ekkert nema framtíðar búðarhnuplarar. Hefði hann bara vitað að næstu árin færu allir beitningapeningarnir okkar í vasann á svörtu buxunum hans hefði hann kannski verið örlítið vinsamlegri. Og þó.

“Hvenær opnarðu?” spurði Daddi þá, ýtinn.

“Á morgun,” sagði Pjetur og drap á sígarettunni á gólfinu og gekk í burtu. Hann var búinn að mála gluggakistuna.

Inn um gluggann sáum við plöturekkann og ég fann í fyrsta skipti þennan óróa sem yfir mig kemur þegar ég geng framhjá plötubúð. Ég VERÐ, ég bara VERÐ að sjá hvað er í boði. Við Daddi kvöddum hvorn annan með þeim orðum að við myndum fara í búðina eftir skóla daginn eftir.

Af hverju hafði enginn sagt mér frá þessari búð, hugsaði ég á leiðinni heim til mín. Og af hverju hafði enginn sagt mér frá þessum manni? Bjó hann virkilega í sama bæ og ég og Daddi?

...

Pjetur stóð við búðarborðið þegar við komum, fætur krosslagðar, með vinstri hönd á mitti, þá hægri á búðarborðinu þannig að þrýstingurinn var einungis á þumalputta og vísifingur. Við búðarborðið stóð annar maður með ljóst hár og skegg sem líktist skeggi dverganna í ævintýrinu um Mjallhvíti. Ég man ekki um hvað þeir voru að tala en einhverra hluta vegna man ég núna eftir eftir orðunum “betra en frystihúsið” en það gæti vel verið rétt munað hjá mér því Pjetur hafði verið lyftarakall í frystihúsinu áður en hann fór í búðarrekstur. Upphaflega ætlaði hann að opna billjardbúllu en sem betur fer hætti hann við það. Og þó.

Við Daddi störðum og plöturekkann og byrjum hikandi að fletta í gegnum plöturnar. Umslögin voru tóm og í plastkápu. Megnið af plötunum hafði ég aldrei séð en kannaðist við nokkrar hljómsveitir úr Rokksögu Fjölva sem lá gatslitin á náttborðinu mínu heima. Daddi lyfti upp nýjustu plötu Kiss, Crazy nights, og gekk með hana að afgreiðsluborðinu. Pabbi hans hafði gefið honum pening en ég var blankur.

“Er hún góð?” spurði Daddi og var þarna að koma sér upp þessum ávana plötufíkla að spyrja alltaf hvort einhver plata sé góð, svona eins og þeir séu enn að hugsa sig um. Þetta minnir mig á þegar alkarnir kvarta undan því að bjórinn þeirra sé ekki nógu kaldur þó þeir hafi tuttugu mínútum áður verið að drekka hlandvolgt rauðspritt.

“Tja, hún þykir víst ágæt,” sagði Pjetur. “Ég er nú ekki enn búinn að hlusta á hana.” Hann hélt áfram að tala við manninn og Daddi velti kóverinu fyrir sér. Á bakhliðinni var Paul Stanley með sítt, krullað og kolsvart hár, með loðna bringu og í rifnum gallabuxum. Í stað renniláss á buxunum hafði hann stærðarinnar nælu. Við Daddi höfðum aldrei séð jafn loðinn karlmann og Paul. “Vá, hann er eins og villimaður,” sagði Daddi og horfði á mig líkt og þetta væri það skrýtnasta sem okkar tólf ára augu hefðu nokkurn tímann séð. Og það var líklega rétt hjá honum. Svona hafði ég aldrei séð áður, hann var miklu loðnari en meðlimir Dubliners á tvöfalda læfalbúminu hans pabba. Paul var skegglaus. Hann var metró löngu áður en það komst í tísku. Gene Simmons rak tunguna framan í okkur, klæddur leðurbuxum og leðurjakka. Það var eins og hann væri að segja: “Þorir þú að kaupa mig?”

(Þarna voru strákarnir í Kiss að reyna hressa upp á vinsældir sínar en platan Azylum sem kom út tveimur árum fyrr hafði ekki gengið sem skildi. Crazy nights átti að höfða til kvenkynsaðdáenda hljómsveitarinnar. Við Daddi höfðum vitaskuld ekki hugmynd um þetta þá.)

Daddi gekk að búðarborðinu og lagði plötuna á það. “Ég ætla að fá þessa,” sagði hann en um leið og sleppti orðinu rak hann í augun í svolítið undarlegt. Á borðinu var rekki með litlum plasthylkjum og eitt plasthylkið var með nákvæmlega eins mynd og var á Crazy nights plötunni, bara minni, miklu minni.

“Hvað er þetta?” sagði Daddi, áhugasamur og truflaði samtal Pjeturs við manninn með dvergaskeggið í annað sinn.

“Þetta kallast geisladiskur,” svaraði Pjetur. Við höfðum aldrei séð annað eins.

“Og hvað er það?”

“Tja, þetta er bara svipað og plata nema að þú setur hann ekki á plötuspilara heldur í svokallaðan geislaspilara. Þetta er það nýjasta.”

“Er þetta að koma í staðinn fyrir plötur?” spurði ég.

“Það segja sumir en ég er nú ekki viss um að platan hverfi svo auðveldlega. Hún er búin að festa sig í sessi,” svaraði Pjetur.

“En hvernig virkar þetta,” spurði Daddi, mun áhugasamari nú en hann var í skólanum fyrr um daginn.

“Tja, þú setur diskinn bara í geislaspilarann og ýtir á play. Eini munurinn er sá að það koma engar rispur á geisladiska,” sagði Pjetur og tók diskinn úr hulstrinu og rétti Dadda. Diskurinn var áletraður Kiss öðrum megin en hinum megin var ekkert, bara glitrandi flötur. Eins og geimsteinn.

“Og hvað. Þarf maður ekkert að snúa honum við?”

“Uuuu, nei, hann rennur bara allur í gegn.”

“Er semsagt tónlistin öll bara á annarri hliðinni?”

“Já, það má eiginlega segja það.” Þegar þarna var komið var Pjetur eilítið hissa á þessum áhuga hjá strákunum og upplifði sig sem einskonar kennara með doktorspróf í rokki. En samt gat hann ekki svarað næstu spurningu Dadda:

“Af hverju eru þá tvær hliðar á honum?”

eXTReMe Tracker