Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

24 ágúst, 2004

Klukkan er tuttugu mínútur gengin í sex og vinnudeginum er að ljúka. Sú goðsögn er lífseig að allir blaðamenn séu vinnufíklar. Nú er ég blaðamaður og þess vegna finnst mér það fremur truflandi hvað ég á auðvelt með að kúpla mig úr vinnunni þessi misserin. Ég horfi ekki einu sinni á fréttir og nenni ekki að lesa Dabbann þegar ég kem heim. Fæ mér bara göngu og reyni að hugsa um eitthvað annað. Held að þetta sé skynsamlegt.

--

Er að lesa aftur greinasafn Lester Bangs, Psychotic reactions and carburetor dung. Ástæðan er heimsókn Lou Reed til landsins en vegna hennar hefur áhugi minn kviknað aftur á bæði Reed og Bangs. Í bókinni eru klassískar greinar um Lou og eitt viðtal sem slær allt annað út. Lester elskaði nefnilega Lou og þess vegna þorði hann að segja nákvæmlega það sem honum datt í hug við hann. Það er engin virðing fólgin í því að vera nervus við svona menn - ótti er ekki það sama og virðing. Og Lou virtist fíla þetta attitút hjá Bangs. Í það minnsta bauð hann honum exclusive viðtöl þegar aðrir þurftu að bíða.

Að kalla mússíkjúrnalisma í dag blaðamennsku er móðgun við menn eins og Lester og Nick Tosches. Þetta voru menn sem lögðu hjartað að veði. Þeim tókst að koma brjálæðinu sem á að vera fylgifiskur rokksins á prent. Þetta gerir enginn lengur - sennilega vegna þess að enginn kann þetta lengur. Kannske vegna þess að rokkið er fyrir löngu dautt.

Kv.

JK.



21 ágúst, 2004

Og svo er Siggi byrjaður að blogga. Slóðin er http://sigginobb.blogspot.com

Kv.

JK.

Endalok LKOS

Einhvern tímann haustið 1989 eða síðla veturs 1990, sennilega um haustið, sat ég ásamt félögum mínum Dadda, Einari og Kela bróður í beituskúrnum fyrir neðan Tröllanaust. Við sátum á netatrossum í risinu í innri endanum þar sem Lilli gó hafði aðstöðu. Það var hljómsveitaræfing eða öllu heldur hljómsveitarfundur hjá Langa Kela og stubbunum. Og það voru mikilvæg málefni á dagskrá.

(Smá útúrdúr því áður en ég segi frá hinum mikilvægu málefnum langar mig aðeins til að minnast á vinnulag LKOS því ég hef aldrei verið í hljómsveit þar sem jafn mikill agi hefur ríkt. Það ríkti járnagi sem sjálfur Bismark hefði verið stoltur af. Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta hér upp er sú að hafi ég einhvern tímann átt séns á að meika það var það í þessari hljómsveit. Hún hafði allt sem góð þungarokksgrúbba þarf að hafa til meiksins.

En allavega. Við mættum stundvíslega klukkan átta og ef einhver mætti of seint, jafnvel fimm mínútum of seint, þurfti hann að gera grein fyrir óstundvísinni. Svo spiluðum við stanslaust til klukkan hálf tíu og tókum þá pásu en menn mættu sko með nesti - í mínu tilviki var það ein dós af Sóló (vinsæll appelsínudrykkur sem ekki er framleiddur í dag) og kaffisúkkulaði. Klukkan tíu byrjuðum við aftur og æfðum til ellefu en þá vildi ég hætta þó strákarnir væru yfirleitt tilbúnir að spila lengur. Við lentum aldrei á neinum kjaftatörnum og við læstum skúrnum svo enginn kæmist inn til að trufla okkur. Einu mennirnir sem máttu koma voru bræðurnir Ómar og Róbert, sennilega vegna þess að þeir hrósuðu okkur svo mikið. Og síðan voru þeir náttla náskyldir Dadda og hefðu aldrei gúdderað að standa úti).

Svo mikilvæg var dagskrá fundarins að hann hófst klukkan níu en ekki hálf tíu eins og venjulega. Þetta voru mál sem þurfti að ræða sem fyrst og ítarlega því tíminn var að hlaupa frá okkur. Við gerðum okkur grein fyrir því að við yrðum ekki alltaf fjórtán til seytján ára. Ég mætti á æfinguna með hnút í maganum.

Nú en hver voru þessi mikilvægu málefni spyrjið þið óþolinmóð.

Jú, nefnilega þessi: Hvenær ætluðum við að flytja til Bandaríkjanna og meika það? Um þetta var rætt í fúlustu alvöru inni í fúlum beituskúr á Norðfirði, einhvers staðar á austurströnd Íslands (í næsta skúr voru menn að þíða beitu fyrir morgundaginn). Það var meira að segja rætt um hvaða borg myndi henta okkur best - hvort það væri New York eða Los Angeles sem myndi taka betur á móti okkur. Los Angeles væri sennilega heppilegri enda okkar helstu áhrifavaldar þaðan s.s. Mötley Crue og WASP. Þessir strákar gætu nefnilega kannske hjálpað okkur þarna úti ef okkur vanhagaði um eitthvað.

Á meðan á þessu stóð var ég þögull, át mitt súkkulaði hikandi og hnúturinn í maganum hertist. Bróðir minn las mig auðvitað eins og opna bók og tók eftir því að ég var farinn að ókyrrast. Það gat eingöngu þýtt að ég var ekki viss í trúnni þ.e. rokktrúnni. Eðlilega verða allir að rokka af heilindum ef meikið á að takast og því spurði hann önugur:

"Hvað er að þér, Jón?! Þú segir ekki neitt!"

"Ha, ég...?"

"Já, hvert vilt þú fara? New York eða Los Angeles?"

"Uuuuu, ég bara veit það ekki..."

"Það er ekkert svar!"

Ég sá að ég yrði að svara einhverju því Daddi og Einar voru líka búnir að sjá í gegnum mig. If looks could kill maður minn, ójá. Ég man meira að segja að ég var að kroppa miðann af Sólódósinni í einhverri taugaveiklun þegar orðin féllu:

"Strákar? Eigum við ekki bara að fara til Svíþjóðar?"

Svo leit ég upp og strákarnir, sem voru gersamlega forviða, horfðu á hvern annan líkt og ég hefði verið að játa ást mína á Elton John þarna í risinu á mikilvægasta hljómsveitarfundi í sögu LKOS.

"Til Svíþjóðar?" sagði annað hvort Daddi eða Einar eftir langa og óþægilegustu þögn ævi minnar. Mig minnir að hann hafi farið að flissa. Flissið breyttist svo í hlátur.

Það varð svosem engin sprenging og við kláruðum æfinguna. En sennilega voru þeir að hugsa: Við verðum að fá nýjan trommara. Og það strax!

Enn í dag skammast ég mín fyrir þetta hálfkák. Þetta átti samt ekki að koma þeim á óvart. Ég var sá eini sem ekki átti gallajakka, ég var sá eini sem reykti ekki, ég vildi alltaf hætta á slaginu ellefu líkt og áður sagði og umfram allt var ég sá eini sem ekki var með sítt hár (á tímabili stóð til að kalla hljómsveitina Litli Jón og lubbarnir en hvaða hljómsveit kennir sig við trommarann?). Og þar fyrir utan var ég byrjaður að hlusta á Rem en það var leyndó þó mig gruni að Keli hafi vitað það. Allavega fannst mér hann ekki treysta mér fullkomlega.

En svona fór þetta. Við hættum einhverjum misserum síðar og í stað þess að hita upp fyrir WASP í Long Beach Arena í Kalíforn-æ-ei spilaði undirritaður "Á leiðinni" fyrir austfirskar fyllibyttur.

C'est la vie.

Kv.

JK.




20 ágúst, 2004

Var að taka einhvern sakleysing í "Í nærmynd" í blaðinu. Svona staðlaðar spurningar um mottó, kynhneigð og uppáhalds stellingu. Svo er spurt um helstu kosti og galla viðkomandi og undantekningalaust á fólk auðveldara með að telja upp gallana en kostina.

Það hefur enginn spurt mig en þetta er minn helsti galli:

Ég er frestari. Mætti í vinnu eldsnemma í morgun til að skrifa viðtal sem ég tók í gær. Klukkan er tíu mínútur yfir tólf og ég er ekki enn byrjaður. Búinn að vera á netinu, búinn að lesa öll héraðsfréttablöð vikunnar, fór í Tónspil og keypti mér plötu (Chicken skin music/Ry Cooder. Á henni er brilljant útgáfa af Jim Reeves slagaranum He´ll have to go), sat á klósettinu og las Framkvæmdafréttir af því að Steinunn Þóra (http://kaninka.net/steinunnthora/) fullyrti að þetta væri stórbrotið lesefni. Og svo er ég náttla að blogga hér og nú.

--

Fór á Rauða torgið fyrir viku síðan og viti menn - ég fékk á kjaftinn. Hef ekki fengið á kjaftinn síðan á sjómannadaginn 1993. Þá var ég reyndar bara fyrir og hnefinn átti að fara í bróður minn. Ég var búinn að gleyma því hvað það er hressandi að vera kýldur. Tilfinningin er einhvers konar sambland af spennu og gleði með smá dass af hræðslu. Nei fyrirgefiði, fremur stór skammtur af hræðslu. Verulega magnað, maður lifnar allur við.

--

Er að lesa ævisögu Johnny Rotten, fyrrum söngvara PIL og Sex pistols. Á bakinu eru alls kyns kvót í menn og konur hjá virtum tímaritum og dagblöðum sem segja bókina æðislega. Hann er víst svo sniðugur og djúpvitur. Við skulum bara hafa það á hreinu að John Lydon er hvorki sniðugur né djúpvitur. Hann er bara nastí og voða lítið sniðugur. Lesturinn hefur kallað fram sömu tilfinningar og þegar ég las Samúel eftir Mikael Torfason. Ég er uppgefinn og mig langar helst til að fara niður í sjoppu og taka mynd með Robin Williams - svona til að ballansera.

--

Mikið agalega var þetta undarlegt viðtal við Lou Reed í gær. Og mikið var ég sammála honum þegar hann sagðist ekki nenna tala um tæ kí eða hvað sem þetta nú heitir. Ég varð verulega vandræðalegur fyrir hönd spyrjandans og reyndar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar. Af hverju létu þeir ekki bara Árna Matt eða Jónatan Garðarsson taka viðtal við manninn? Eða Jón Gnarr? Þeir sem á annað borð nenntu að horfa á viðtalið og hafa einhvern áhuga á Lou Reed vilja heyra dópsögur og hvort það sé satt að hann og David Bowie hafi verið að hamast inn á klósetti við gerð Transformer sem by the way er frábær plata.

Kv.

JK.




16 ágúst, 2004

Þegar ég var lítill tilheyrði ég útbæ Neskaupstaðar og ég man eins og það hafi gerst í gær hvaða tilfinningar ég bar í brjósti til þeirra sem bjuggu í innbænum. Þeir voru asnar og áttu ekkert gott skilið svo ekki sé meira sagt. Svo byrjaði maður að kynnast þessu liði og viti menn: Margir af mínum bestu vinum eru uppaldir í innbænum! Hefði einhver sagt mér þetta þegar ég var sjö ára hefði ég í besta falli hlegið en í versta falli orðið móðgaður og krafist afsökunarbeiðni.

Hmmm...

Kv.

JK.

13 ágúst, 2004

Er að vinna tattúgrein fyrir blaðið og mundi þá eftir þessu:

Ég er ekki með tattú sjálfur en á þó eina tattúsögu sem gerðist fyrir tíu árum eða svo. Ég var nefnilega svo heppinn að eiga vin í Lundi í Svíþjóð og eitt sumarið skellti ég mér í heimsókn. Vinur minn tók á móti mér með bjór og kjötkássu sem í var m.a. þjóðarréttur Svía, sænskar kjötbollur. Vinur minn snerti ekki kássuna sjálfur enda var hann grænmetisæta af pólitískum ástæðum (þetta var í tísku um miðjan síðasta áratug aldarinnar sem leið. Stefnan kallaðist "straight edge" eða eitthvað svoleiðis). Kjötbollurnar kláraði ég á svipstundu en þá var eftir nóg af bjór sem drukkinn var með þeim hætti sem Íslendingar einir kunna: Hratt.

Oft kvikna hugmyndir í svona ástandi og ég fékk þá flugu í höfuðið að reggíkóngurinn Bob Marley, með allar sínar fléttur og marijúanasígarettu í kjaftinum, yrði að fá stað á öxlinni á mér. Vinur minn ákvað hins vegar að staðfesta grænmetispólitíkina. Til að gera langa sögu stutta þá var mér ekki hleypt inn á stofuna vegna ölvunar en vinur minn kom hins vegar skælbrosandi út með slagorð á maganum: “No meat” eða “Ekkert kjöt”.

Ég hitti félaga minn ekki aftur fyrr en nokkrum árum síðar í Bónus á Laugarveginum. Hann stóð í biðröðinni, hélt á pylsupakka ef ég man rétt og hafði stækkað talsvert.

Kv.

JK.




09 ágúst, 2004

Líf mitt í hljómplötum

Minn góði og skynsami vinur, Jón Hafliði, gerði svolítið óskynsamlegt á heimasíðu sinni (trytilbuxi.blogspot.com) því hann reyndi hið ómögulega: Að velja tíu bestu hljómplötur sögunnar. Þetta er náttla vonlaust því þessi listi breytist frá degi til dags og að velja eina og hafna annarri kallar fram sektarkennd og samviskubit gagnvart þeirri sem maður lét gossa. Því ekki á hún það skilið blessunin eftir alla þá ánægju sem hún hefur veitt manni. Ég ætla samt að reyna þetta en listinn verður tvískiptur. Annars vegar þær plötur sem alltaf virðast eiga upp á pallborðið hjá mér og komast reglulega á fóninn. Hins vegar er um að ræða plötur sem ég hef kokgleypt í einum bita og síðan ekki söguna meir. Þessar plötur eru ekki síður mikilvægar því þær eru einskonar sándtrökk fyrir viss tímabil ævinnar. Byrjum á hinum klassísku og þetta verður ekki í sérstakri röð. Þær eru allar í fyrsta sæti.

Pet sounds/Beach boys: Ég hef útskýrt ást mína á Beach boys og Pet sounds annars staðar á þessari síðu og læt það nægja.

Blood on the tracks/Bob Dylan: Dylan í ástarsorg. Byrjaði á því að hlusta á vínylinn hans pabba en hef keypt mörg eintök síðan því ég gef mitt reglulega. Ég fæ mér ekki oft bjór einsamall en þegar þessi fer í spilarann læt ég það eftir mér.

Time out of mind/Bob Dylan: Dylan er sá eini sem á tvær á þessum lista. Þvílík lífsreynsla sem fyrirfinnst á þessari plötu. Það er með ólíkindum ef satt skal segja.

Sea change/Beck: Mig langaði alltaf til að fíla Beck en það tókst ekki fyrr en hann gaf út þessa. Líkt og Dylan á Tracks er Beck í ástarsorg. Verulega góð plata fyrir rúntinn.

Harvest moon/Neil Young: Hljómurinn á henni er svo kyrrlátur að öll streita hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar Neil byrjar að kyrja: "She used to work in a diner..."

Blue/Joni Mitchell: Enn ein platan þar sem listamaðurinn er í ástarsorg. Líkt og með Tracks gef ég eintakið mitt af þessari reglulega. Gaf t.d. eintak í gær. Hejira á heima á þessum lista líka - nema hvað.

Graceland/Paul Simon: Langar alltaf til Afríku þegar ég heyri þessa.

Gaucho/Steely Dan: Langar alltaf í tvöfaldan viskí og stóran vindil þegar ég heyri þessa. Ég hef aldrei komið til Los Angeles en þegar hljómurinn af Gaucho kemur út úr hátölurunum finnst mér eins og ég sé að keyra á breiðgötu og það eru pálmatré hvert sem ég horfi. Hlýr vindur feykir mínu rauða hári aftur og ég er últra kúl.

Kind of blue/Miles Davis: Fyrir svona amatör djassista eins og mig er þetta platan.

Automatic for the people/Rem: Þeir eiga mörg meistarastykki en þessi er fremst. Og þá er hún góð - helvíti góð.

Og þá er það hinn listinn. Sennilega hef ég hlustað oftar á þessar en þær sem nefndar voru hér að ofan. Gersamlega obsessive hlustun sem skildi plöturnar eftir rispaðar og ónothæfar. Hef þó ekki lagt í að kaupa þær aftur enda hafa þær skilað sínu hlutverki.

Arena/Duran Duran: Bræður mínir gáfu mér þessa þegar ég var tíu ára og ég man ekki hvort ég skoðaði albúmið meira en ég hlustaði á plötuna. Sennilega horfði ég meira. Mínar fyrstu hetjur voru sum sé metrósexúal.

Come out and play/Twisted sister: Dee Snider og félagar björguðu mér frá metrósexúalpoppinu og fluttu mig yfir í metrósexúalþungarokkið. Ég man að ég læddi eintakinu mínu inn um herbergisgluggann minn því ég hélt að mamma yrði brjáluð þegar hún skildi hvers vegna blaðburðarlauninn mín voru svona fljót að hverfa. Hún fann plötuna skömmu síðar undir rúminu mínu og varð brjáluð.

Highway to hell/AC/DC: Lengi vel var þetta uppáhalds platan mín. Ég byrjaði að lúfttromma með þessari og áhrif hennar eru enn ríkjandi á minn fátæklega trommuleik.

Girls girls girls/Mötley crue: Fyrsta hljómsveitin mín, Langi Keli og stubbarnir, tók tíu lög með þessum metrósexúalrokkurum frá LA. Ætli einhver vilji gera betur?

Hysteria/Def Leppard: Hérna var ég byrjaður að mýkjast. Daddi vinur minn og Keli bróðir voru ekki sáttir. Þeim leist ekki á blikuna þegar ég kom með þá hugmynd á hljómsveitaræfingu hjá LKOS að taka Love bites. Ég skil þá vel í dag. Við tókum í staðinn Fuck like a beast með WASP en það var þá sem ég skildi frasann um tónlistarlegan ágreining.

Grace under pressure/Rush: Þetta var mómentið sem þungarokksdjöfullinn missti tökin á mér móður minni til mikillar gleði en bróður mínum til mikillar mæðu.

Green/Rem: Skúli Helga og Snorri Már gerðu mig að nýbylgjunerði í upphafi tíunda áratugar aldarinnar sem leið. Ég byrjaði að klæðast köflóttum skyrtum og þorði loksins að ganga með gleraugu.

Stone Roses/Stone Roses: Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég uppgötva einhverja tónlist fyrstur á landinu en hver heldur það svo sem ekki og hvaða fjandans máli skiptir það? Þessi á í raun heima á listanum efra enda rata Rósirnar oft í spilarann.

Achtung baby/U2: Menntaskólaárin mín fóru að mestu leyti í að kryfja þessa plötu til mergjar. Það var uppgötvun lífs míns þegar ég fattaði textann í End of the world. Mikið agalega var ég ánægður með sjálfan mig og deildi þessari skoðun með öllum sem vildu heyra og jafnvel líka þeim sem ekki vildu heyra. Seinna lærði ég að þetta var tómur misskilningur hjá mér. Við þetta má bæta að ég byrjaði að reykja smávindla um þetta leyti og er ekki hættur því enn.

Blood sugar sex magic/Red hot chili peppers: Ég og vinir mínir vorum allir hreinir sveinar um þetta leyti en hver þurfti kynlíf þegar Piparinn var annars vegar?

Harvest moon/Neil Young: Áhugi minn á kántrímússík byrjaði jólin 1993 þegar þáverandi mágkona mín gaf mér þessa í jólagjöf. Árið eftir gaf hún mér einhvern herrailm sem reyndar var ekki bara einhver herrailmur heldur Escape (for men). Hann hefur ekki haft eins mikil áhrif á mig - fannst hann alltaf of sterkur og nota Dreamer í dag. Silkimjúkur en samt þokkafullur. Vill einhver vita meira?

Steve Mcqueen/Prefab sprout: Fann þessa á útsölu í Tónspil sumarið '95. Var í hljómsveit á þessum tíma sem kallaði sig Síva og ég, bassaleikarinn og gítaristinn pældum okkur í gegnum Stevearann og sömdum lög í anda Prefab. Aðrir í hljómsveitinni skildu hvorki upp né niður í þessu og fyrr en varði vorum við byrjaðir að æfa án þeirra - sem var leyndó. Stuttu síðar hættum við eftir heiftarlegt rifrildi þar sem Prefab kom við sögu. Fæ alltaf kvíðahnút í magann þegar ég heyri lög eins og Faron Young í dag.

Outside/David Bowie: Ég sá Bowie í Höllinni sumarið 1996 og við tók æði sem stóð yfir fram á vor. Missti þá áhugann á honum og hef ekki hlustað á hann síðan. Finnst Bowie eiginlega alveg hundleiðinlegur.

Adore/Smashing pumpkins: Hlustaði á þennan þegar ég var á leiðinni í vinnuna í Holtagarðana sumarið 1998 (gjaldkeri hjá LÍ). Sukkaði alveg svakalega þetta sumar og í fyrsta og síðasta skipti á ævinni var ég tíður gestur á sólbaðsstofum og eins og það væri ekki nóg þá litaði ég hárið ljóst og Astró var uppáhalds staðurinn minn! Ég fæ hroll þegar ég hugsa um þetta sumar. Djísus fokkin Kræst! Verð að bæla þessa minningu niður við fyrsta tækifæri. Samt skrítið að sándtrakkið hafi verið þessi eðal mússík frá Seattle.

Jæja, ég er búinn að vera blogga í meira en klukkutíma. Þvílík andskotans tímaeyðsla. Það er greinilegt að ég er byrjaður á einhverju sem tekur langan, langan tíma að klára. Að sjálfsögðu geri ég það en ég læt staðar numið hér. Í næstu færslu verður liturinn vaxinn úr hárinu og kroppurinn farinn að fölna aftur. Ég var nefnilega búinn að uppgötva Pet sounds.

Kv.

JK





















08 ágúst, 2004

Af hverju ertu svona neikvæður?

Búinn að vera í fríi sem senn lýkur. Hef störf hjá my beloved Austurglugga eftir þrjá daga en ég kæri mig ekkert um að fara vinna aftur. Langar helst til að hanga heima hjá mér í leti í svona tvær vikur í viðbót. Hef ekki fengið eina einustu hugmynd að grein í heilan mánuð! Fyrir svona ári síðan gat ég varla farið að sofa á kvöldin vegna þess að heilinn í mér neitaði að hvíla sig. Spurningin er óumflýjanleg og verulega óþægileg: Er maður að brenna út?

Á aðalfundi Austurgluggans í síðustu viku fékk ég svo að vita að blaðið væri neikvætt undir minni stjórn - það gæfi alranga mynd af gleðinni fyrir austan. Allir væru gersamlega að springa úr hamingju og Austurglugginn væri svartur blettur á þeirri gleði.

Ég hringdi í vin minn og sagði honum frá þessu. Hann andvarpaði og sagði svo mæðulega: "Stjáni stuð er glaður." Jahá!

En ég hef verið að hugsa um þennan fund því það er mjög erfitt að neita því að maður sé neikvæður. Tökum dæmi:

Gleðipinni1: "Austurglugginn er smekklaus og nær ekki að endurspegla gleðina hérna!"

Gleðipinni2: "Af hverju ertu svona neikvæður? Af hverju getur þú ekki verið jákvæður eins og við hin?"

Sá neikvæði: "Ég barasta harðneita því að ég sé neikvæður!"

Fremur lummó eins og þið sjáið.

---

Fríið var tíðindalaust að öðru leyti en því að ég rifbeinsbrotnaði í laxavinnunni. Þetta er mitt fyrsta beinbrot og ég óttast að þetta verði eins og í fótboltanum í gamla daga. Maður náði að halda hreinu í fyrri hálfleik og svo fékk maður eitt mark á sig í upphafi þess seinni og leikurinn endaði með þrettán marka ósigri. Með öðrum orðum: Ég hálsbrotna fyrir jól.

Þessu ótengt þá spurði ég frænda minn síðasta daginn í laxavinnunni hvort hann tryði á Guð. Hann horfði á mig, hristi svo hausinn um leið og hann sagði: "Enginn hefur veitt mér eins mörg morðtilræði og Du-rottinn sjálfur." Fleyg orð eins og þessi skilja eftir sig langar þagnir.

---

Hef annars verið að hlusta á mússík af miklu kappi undanfarið og keypt alltof marga diska. Vinkona mín sagði mér í gær að pabbi hennar hefði bannað henni að kaupa geisladiska þegar honum fannst heldur lítið verða úr kaupinu hennar. Mikið vildi ég að einhver gæti bannað mér að kaupa diska. Má ekki setja lög um þetta? Bara í síðustu viku keypti ég nýja diskinn með Cure og sama dag keypti ég Talkie walkie með Air. Svo bætti ég um betur þremur dögum síðar og keypti Love is hell með Ryan Adams. Aumingja vesalings maðurinn að sitja uppi með þetta nafn, ha?

Kv.

JK.


eXTReMe Tracker