Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

25 janúar, 2006

Amma

Fyndið að koma inn í háskólaumhverfið aftur eftir fimm ára hlé. Maður er nokkurs konar tabula raza og allt sem ég les finnst mér áhugavert og nauðsynlegt innlegg í ritgerðina mína. Ég kýs að líta á þetta sem svo að ég sé leitandi persónuleiki - intellectually curious svo maður orði þetta nú almennilega.

En amma gamla hefði sagt að ég væri áhrifagjarn.

...

Ég heimsótti ömmu mína í fyrradag en þá "fagnaði" hún því að hafa afrekað áttatíu og níu ár hér á jörðinni. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir fólki sem er eldra en ég og mér finnst gaman að heyra ömmu segja mér sögur frá liðinni tíð. Hún sagði mér frá Halldóri afa mínum sem dó löngu áður en ég fæddist. "Hann var ansi þungur í skapi hann afi þinn," sagði hún þegar ég bað hana um að lýsa honum. "Og brennivínið sá til þess að hann varð ekki gamall."

"Af hverju var hann svona þungur í skapi?" spurði ég.

"Það veit ég ekki, drengur! Sumir bjóða bara ógæfunni besta sætið í kofanum. Þetta var hans lyndiseinkunn!"

Svona segir þroskað fólk. Hlutirnir eru stundum bara eins og þeir eru. Það er engin sérstök ástæða fyrir þeim þó geðlæknar og félagsvísindamenn vilji telja manni trú um annað.

Kv.

Knúturinn.

18 janúar, 2006

Skokk

Byrjaði að skokka í dag en þetta verður líkamsræktin í ár. Ef vel gengur þá held ég barasta að ég skelli mér í Barðneshlaupið í ágúst. Ójá...

...

Ég skokkaði frá Vesturbæjarlaug inn að Nauthólsvík og þar tók ég fimm armbeygjur. Einu sinni, meira að segja fyrir ekki svo löngu, gat ég tekið fjörutíu armbeygjur. Takmarkið er að ná a.m.k. að taka tuttugu áður en þorrasukkið hefst.

...

Í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni sat ung kona í bleiku bikíni. Hún var með lokuð augu og veitti því enga athygli þegar ég settist á móti henni. Ekkert virtist geta raskað ró hennar. Eftir um það bil fimm mínútur stóð hún upp og yfirgaf pottinn. Augu mín eltu hana þar til hún hvarf inní sturtuklefann. Örfáum andartökum síðar myndi hún afklæðast, hugsaði ég. Heitt vatn myndi renna niður líkama hennar. Ég æstist lítillega.

Maður á fertugsaldri með þykkt svart hár og alskegg sat hægra megin við mig. Hann las hugsanir mínar:

"Við erum bara með Haukdælum."

"Akkúrat," sagði ég. Maðurinn minnti mig á Jesú eins og hann var í biblíusögunum sem ég las í barnaskóla.

"Já, hún er falleg. Það vantar ekkert í þeirri deild." Hann teygði úr sér og setti hendur fyrir aftan bak. Dreyminn á svip.

"Þekkir þú hana?"

"Nú, þetta var hún Birgitta Haukdal."

"Núnú."

"Þess vegna sagði ég að við værum með Haukdælum. Af hverju hélstu að ég hefði sagt það?"

"Ég hélt bara að þú værir að vitna í einhverja Íslendingasögu."

"Hvaða sögu þá?"

"Það veit ég ekki."

(Þögn)

"Rosalega er hún með stór brjóst," sagði ég loks. "Þau eru miklu stærri en ég hélt."

"Jújú, hún er með ansi myndarleg brjóst en það er nú bara af því að hún er svo grönn. Þá virka þau miklu stærri." Maðurinn sagði þetta þannig að mér datt strax í hug að hann væri vísindamaður. Hann var með framsögn prófessors í stjórnmálafræði, áru manns sem hefur vald. Og hann var ekki hættur:

"Rassinn getur LÍKA virkað stærri ef þær eru grannar."

Hann talaði um konuna líkt og hún væri húsdýr. Hann var augljóslega líffræðingur. Stjórnmálafræðingur hefði lagt áherslu á fyrsta orðið.

Maðurinn teygði sig í takka og allt í einu var potturinn kominn á fleygiferð. Ég sá að fingur hans voru hrukkóttir. Hann hafði setið hér lengi.

Kv.

Knúturinn.

11 janúar, 2006

DV

Af því að ég hef hrósað DV nokkrum sinnum á þessum vettvangi ætla ég að spandera nokkrum orðum í þetta mál allra mála:

1. DV, sama hvað þeir segja í dag, demóníseruðu manninn í gær að óþörfu. Þeir ætluðu sér að búa til skrímsli - einhent skrímsli. Þetta var nastí og ritstjórunum til skammar.

2. Ég tel þó að DV beri enga ábyrgð á sjálfsvígi mannsins í gær. Svo einfaldar eru orsakir mannlegra harmleikja aldrei. Aldrei. Eða var það kannski líka Marilyn Manson að kenna að tveir brjálæðingar fríkuðu út í Columbine um árið? Menn vilja einfaldlega finna einhvern blóraböggul og þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn benda fyrst á fjölmiðla og fjölmiðlafígúrur.

3. Hjálmar Árnason og Bjarni ritstjóri eru pópulistar sem ekki er mark takandi á.

Kv.

Knúturinn.

10 janúar, 2006

AK

Ég fékk lánaða ævisögu Anthony Kiedis í gærkvöld og kláraði hana í morgun. Ég hef lesið svo margar svona ævisögur að ég las bara aðra hverja blaðsíðu. Rokkarasögur lúta nefnilega ákveðnum lögmálum, eru "generic" eins og ég held að bókmenntafræðingar myndu segja:

1. Hann elst upp í fátækt, oft í smábæ.

2. Hann flytur í borgina og finnur sálufélaga sem oft er gítarleikari því viðfangsefni sögunnar er yfirleitt söngvari.

3. Þeir stofna hljómsveit sem hægt og rólega meikar það. Rokkarinn verður stjarna.

4. Frægðin spillir stjörnunni. Sex, drugs and rokk and roll er málið en sífellt meiri áhersla er lögð á atriði nr. 2.

5. Sálufélaginn deyr (óverdósar eða kafnar í eigin ælu). Stjarnan safnar alskeggi og byrjar að endurskoða líf sitt. Fer jafnvel til Tíbet og finnur sjálfa sig. Hættir að vera stjarna og verður aftur að manneskju.

Sagan hans Anthony er einhvern veginn svona en umfram allt er hún manneskjuleg. Þó hann sé ein stærsta rokkstjarna seinni ára er hann bara náungi sem borar í nefið eins og við hin.

...

Björgvin Valur er Böddi segir DV. Fyrir þá sem ekki vita er Böddi aðalsöguhetjan í Roklandi, bitur menntamaður sem bloggar sig útí horn í smábæ. Ég las bókina um jólin og kunni vel við Bödda en hann og Björgvin eiga nú ekki margt sameiginlegt svosem. Annar fílar enska menningu og hinn þýska. En báðir blogga og báðir láta menn heyra það - ef menn eiga það skilið.

Kv.

Knúturinn.

04 janúar, 2006

Topp 5 ársins

Auðvitað byrja ég á mússíkinni...

Bestu plöturnar sem ég eignaðist

1. Cold roses með Ryan Adams

Þegar ég er niðri á jörðinni er ég almennt á þeirri skoðun að tónlistarmenn geri ekki fleiri en eitt meistaraverk á ferlinum. Augljósar undantekningar eru Miles (gerði þrjú), Bob (gerði þrjú og hann gæti jafnvel bætt við hinu fjórða) og Brian Wilson (gerði tvö en hið þriðja kemur aldrei).

Ryan gerði þrjár plötur á árinu. Fyrst Cold roses, síðan Jacksonville city nights og svo kom út platan 29 fyrir nokkrum dögum. Seinni plöturnar tvær eru góðar þó mér hafi ekki enn gefist tími til að melta 29 almennilega en Cold roses er meistaraverk – þetta fannst mér strax við fyrstu hlustun. Allir kostir Ryans sem túlkanda og lagahöfundar eru nýttir og síðan er hann með þetta ótrúlega band með sér sem grúvar eins og moðerfokker í hverju einasta helvítis lagi! Tvímælalaust besta back-up hljómsveit síðan The Band voru upp á sitt besta.

Ryan er ekki nema þrítugur og Cold roses er fyrsta meistaraverkið hans. Hann mun gera að minnsta kosti eitt í viðbót. Að öllum líkindum tvö.

2. Back in black með AC/DC

Þetta þarf ég ekki að útskýra en ég bið lesendur afsökunar á því að hafa ekki eignast hana fyrr en núna. En svo ég útskýri nú þá er málið þannig vaxið að Keli átti hana þannig að ég þurfti ekki að kaupa hana. En hann sagðist hafa týnt sínu eintaki þegar mig greip eitthvert AC/DC hungur fyrir austan um jólin og það var mér mikil ánægja að bæta úr því. Back in black er alveg jafn góð og hún hefur alltaf verið og “Let me put my love into you” hlýtur að teljast með betri lagatitlum rokksins.

3. Things we lost in the fire með Low

Mér hefur alltaf þótt Minnesota-fylki í Bandaríkjunum forvitnilegt af einhverri ástæðu en því miður var það ekki innifalið í Ameríkuferðinni minni í sumar. Low bætir skaðann tímabundið með þessari lágstemmdu plötu.

4. Bitches brew með Miles Davis

Ég hef skrifað um þessa einhvern tímann og nenni ekki að bæta neinu við.

5. The Country collection með Jerry Lee Lewis

Margir halda að Jerry hafi einungis gert Great balls of fire og Whole lotta shakin árið 1957 og síðan fuðrað upp. Það gæti þó ekki verið meiri vitleysa því Jerry átti skemmtilegan kántríferil á sjöunda áratugnum fram á þann áttunda. Þetta safn keypti ég í Memphis í sumar og ég tárast í hvert skipti sem Another time, another place byrjar. Fyrsta erindi textans má finna einhvers staðar á þessari síðu. Endilega lesið hann ef þið eruð í stuði fyrir smá sjálfsvorkunn.

Bestu bækurnar sem ég las

1. Hin feiga skepna eftir Philip Roth

Roth útskýrir af hverju menn á miðjum aldri fá gráa fiðringinn. Bók um kynlíf og dauða.

2. Glæpur og refsing eftir Dostójevskí

Bókin sýndi mér hvað menn geta gengið langt trúi þeir of heitt og blint á einhvern isma. Í lokin bjargar ástin hinni ólánsömu söguhetju og ég er sammála rithöfundinum að hún er eina göfuga kenndin sem mannskepnan býr yfir.

3. Minniblöð úr undirdjúpunum eftir Dostójevskí

Segir okkur hvernig einsemd fer með góða pilta. Glæpur og refsing gerir það reyndar líka en þetta er svona styttri versjón.

4. Lunar park eftir Bret Easton Ellis

Þvílíkt kombakk.

5. Sputnik sweetheart eftir Haruki Murakami

Ég hef ekki hugmynd um hvað bókin er en mikið var hún góð.

Það sniðugasta sem ég gerði á árinu

1. Ferðalagið til Bandaríkjanna

Ók frá Memphis TN til Vancouver í Kanada á tuttugu dögum. Þetta var gamall draumur sem loksins varð að veruleika þökk sé enskri vinkonu sem lét verkin tala og pantaði flugfar og bíl áður en mér tókst að hætta við.

2. Hætti í blaðamennsku

Hvað getur maður sagt? Ég hætti á Austurglugganum í ágúst eftir rúm tvö ár, vann á DV í tvær vikur og loks á Blaðinu í þrjá daga en gafst loksins upp, algerlega búinn að fá nóg af þessu djobbi. Horfi samt stoltur til baka og sakna tímans á Austurglugganum. Ég reikna ekkert frekar með því að maður fái aftur starf þar sem maður hefur algerlega frjálsar hendur. Ég er þakklátur þeim sem réðu mig þó þeir hafi drullað í buxurnar þegar þeir völdu arftakann (sem er fínasti kall þó hann búi til drepleiðinlegt blað. En þetta vildu þeir blessaðir...).

3. Byrjaði í skóla aftur

Eftir fimm ára hlé frá háskólanámi finn ég fyrir akademísku hungri.

4. Byrjaði að vinna á geðdeild LHS

Skemmtilegur vinnustaður og vanti yður ástæðu til að hætta að drekka eru þær auðfundnar á deild 33A.

Og þessu nátengt:

5. Bjórdrykkja með Sigurði og Huga

Ég á nokkra drykkjufélaga en þessir eru bestir (þeir eru líka fínir án áhrifa). Iðulega enda samverustundir okkar með rifrildi en það er allt í góðu.

Það sem ég ætla að gera á nýja árinu

1. Rækta tengsl við fjölskyldu og vini

Ég þykist vita að ég verði sjálfur að betri manni standi ég við þetta.

2. Fara í fjallgöngur eins oft og ég mögulega get

Ég og Hafliðinn gengum talsvert í haust eftir að við stofnuðum fjallgönguklúbbinn Tindabikkjurnar og í ár er ætlunin að gera enn betur. Hekla og Herðubreið here we come...

3. Halda áfram að uppgötva nýja gamla tónlist

Skefjalaus hlustun á Ryan Adams hefur opnað augu mín gagnvart Greatful dead en það verður fyrsta bandið sem ég ætla að kynna mér þegar aðeins dregur úr Ryan-æðinu, vonandi einhvern tímann í vor. Eins og allir alvöru tónlistarnördar á ég American beauty og Workingman’s dead sem báðar eru delisíus en ég vil meira, meira, meira!

4. Hætta að rífast um DV

Ég hef fært ótal rök fyrir því af hverju DV er gott blað og nú vil ég fá að hafa þessa skoðun í friði enda er hallærislegt að rífast enn um Dagblaðið á árinu 2006. Það er eitthvað svo last spring. Auðvitað drulla þeir á sig af og til en það gera hinir líka. Og þó það nú væri! Djöfull held ég að fjölmiðill með hreina bleiu yrði leiðinlegur.

5. Taka doktorsnámið með stæl

Þetta verður strembið verkefni en ég veit að ég mun klára það. Um jólin var ég spurður að því, á að giska þúsund sinnum, hvað ég ætlaði að gera að námi loknu og ég svaraði alltaf að ég vissi það ekki. Og það er dagsatt. Hvernig á maður sossum að vita það? Veist þú hvað þú ætlar að gera eftir fjögur ár? Ég hélt ekki.Líf manns væri nú óttalega litlaust ef svona hlutir væru á hreinu.

Skál fyrir 2006!

Kv.

Knúturinn.

ES. Já, og takk fyrir lesturinn. Það er ótrúlegt að einhver skuli nenna að lesa þessa hugaróra. Ekki veit ég af hverju en það er, eðli málsins samkvæmt, ekki mitt vandamál heldur þitt.

EES. Ég, ég meina hann, er enn í fríi.

eXTReMe Tracker