Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 desember, 2006

HSel og andi jólanna

Vildi bara minna á að góðvinur minn Helgi Seljan er byrjaður að blogga. Eftir að hafa lesið nokkrar línur komst ég að því að ég sakna hans úr blaðamennskunni. Flestir blaðamenn telja sig nefnilega vera nokkuð fyndna en Helgi er einn af þeim fáu sem er það í raun og veru. Vona að hann verði endingargóður bloggari. Ekkert er verra en prímfrat...

...

Keli bró gaf mér anþólógíu með Bryan fucking Adams í jólagjöf. Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa þessu og sagði við bróður minn, hamstola af bræði, að það væri greinilegt að hann "þekkti mig ekki neitt" og síðan rauk ég út og skellti á eftir mér þannig að skrautglösin sem mamma og pabbi keyptu í tilefni af því að ég yrði heima um jólin duttu úr hillunni fyrir ofan eldavélina og brotnuðu í mask á gólfinu. Vanþakklátur? You bet.

En hann bætti þetta síðan upp í dag (sem nota bene er afmælisdagurinn hans) og gaf mér nýju plötuna með J.J. Cale og Eric Clapton. Ég fyrirgaf honum samstundis. Svona kann ég nefnilega að meta.

...

Esther gaf mér "The Rock Snob's Dictionary: An Essential Lexicon of Rockological Knowledge". Ef það að hafa óaðfinnanlegan tónlistarsmekk er til vitnis um rokksnobb þá er ég rokksnobbari. Segir þessi bók allavega.

Annars var Esther ótrúlega kúl og gaf mér tvær mússíkbækur plús Orðabók andskotans. Ekkert að flækja hlutina þessi elska eða eins og hún sagði: "Ég ákvað að gefa þér eitthvað sem þú vissir ekki að þig langaði í."

En ég er hins vegar of snobbaður til að gera slíkt.

Vitandi að hún er með áhuga á ljósmyndun gaf ég henni American surfaces eftir bandaríska ljósmyndarann (og Andy Warhol-axlanuddarann) Stephen Shore sem er ofboðslega artí fartí ljósmyndari og fílaður í botn af fámenni klíku listfræðinga í Greenwich Village. Myndirnar hans eru - komst ég að á jóladag - groddalegur viðbjóður (aka ofboðslega listræn list) og minntu mig á myndirnar sem við Helgi og Björgvin Valur tókum fyrir "Stað vikunnar" í Austurgluggann. Ég fletti bókinni á jóladagskvöld og er enn að hugsa um hana. Það hlýtur að þýða að eitthvað sé varið í myndirnar. Ég fílósófera eitthvað um þessa bók seinna. Kannski. Og þó. Sennilega ekki.

Vona bara að Esther fíli hana.

24 desember, 2006

Jólin, jólin, jólin...

Góða fólk: Gleðileg jól!

21 desember, 2006

Topplistinn

Jæja, það er kominn tími á hinn árlega topplista sem ég kynni svo með hljóðrænum hætti í Útvarpi Neskaupstaðar einhvern tímann milli jóla og nýárs (var kominn dagsetning á þáttinn, Valdi? Og klikkar hún nokkuð?)

Aldrei þessu vant keypti ég slatta af nýjum plötum á árinu og það er vegna þess að ég keypti fleiri plötur í BT en í Tónspil. Ég flutti jú, eins lesendur vita, til Egilsstaða í sumar en ég dauðskammast mín samt fyrir þetta og hef nú þegar lofað Pjetri að snúa aftur "heim" á næsta ári. Meira hvað kaupmenn hafa mikil völd í litlum þorpum.

En jájá. Vindum okkur í þetta:

5. Sam's Town með Killers.

Ég veit að ég á eftir að sjá eftir þessari ákvörðun. Platan er sálmur um "alvöru" líf "alvöru" fólks í Bandaríkjunum og er hugsuð sem mótsvar við American idiot plötu Green day. Einhvers staðar las ég að söngvari Killers, Brandon Flowers, telji sig vera, allavega í augnablikinu, talsmann Guðs. Það heldur Bush líka. En allt í lagi þá. Þetta er bara rokk og ról og mér líkar það. Tónlistin á Sam's town er bæði stórfengleg og heimskuleg í senn. Svona eins og Bandaríkin.

4. Morph the cat með Donald Fagen.

Fyrir tuttugu og fjórum árum, tveimur árum eftir að Steely Dan hættu, gerði Donald Fagen plötuna Nightfly. Sú plata er svo safarík og sexí að maður trúir því varla að gyðingur hafi gert hana. Gyðingar eiga að gera kaldhæðnar og taugaveiklaðar plötur! Ég taldi í mörg ár að með Nightfly hefði Fagen toppað sig og endurkoma Steely Dan fyrir sex árum og tveimur plötum síðan hefur ekki gert neitt nema festa þessa skoðun mína í sessi.

En í vor kom þessi plata út. Og maður minn...

3. A blessing and a curse með Drive by truckers.

Fyrir svona tíu árum kom Suðurríkjarokkbandið Drive by truckers frá Alabama fram á sjónarsviðið. Þessir strákar (og ein stelpa) hlustuðu á The Replacements, Husker Du og REM í gaggó og höfðu þar með annars konar afstöðu til Suðurríkjarokks, sem samkvæmt skilgreiningu á að vera þungt kántrírokk (Gram Parsons með dassi af Led Zeppelin), en t.d. Kid Rock. Þessi áhrif frá bandarísku neðanjarðarrokki gera Suðurríkjarokk Drive by truckers öðruvísi, svona Carter-ískt ef rokkið hans Kid Rock er Bush-ískt.

Árið 2004 gáfu þeir út plötuna The dirty south sem mér finnst vera ein allra besta rokkplata seinni ára. Platan er metnaðarfull tilraun til að taka saman goðsagnirnar um Suðrið og mala þær mélinu smærra. Afstaða þeirra er einhvern veginn svona: Í Alabama er alltaf sól og blíða en maður venst hitanum aldrei og við erum vissulega úr sveitinni en samt höfum við aldrei mokað skít.

Aldrei vottar fyrir neinni minnimáttarkennd eða hroka. Þau elska Dixielandið og syngja um það í hverju lagi en þau gætu aldrei samið lag eins og Sweet home Alabama. Drive by truckers eru í andófi gegn stöðluðum hugmyndum um Suðurríkin. Suðrið er margbrotið, þversagnakennt og flókið segir textahöfundurinn Patterson Hood en hann las líka Edward Said í háskóla.

Drive by truckers gáfu út nýja plötu á árinu. Hún er öll smærri í sniðum en The dirty south. Lögin eru styttri og hógværari, meira að segja nokkur lög um ástina, og allt yfirbragð hennar er hlýlegra. Ég vona að þetta sé bara vísbending um það sem koma skal. Kannski eru þeir hinir nýju REM?

(A blessing and a curse fæst í Tónspil og hvergi annars staðar á landinu)

2. The trials of Van Occupanther með Midlake.

Þessir strákar koma frá Texas og ég las um þá í Classic rock einhvern tímann í sumar. Í blaðinu sagði að þetta væri svona gamaldags rokk í anda Fleetwood Mac og Crosby, Stills, Nash og Young. Þetta var nóg til að kveikja áhuga minn en þegar ég renndi plötunni í gegn í fyrsta skipti minnti hún mig einna helst á Paul McCartney í kringum 1972 - '73. Fyrir þann sem skrifar hér er það ekki endilega gott. En svo gerist eitthvað við frekari hlustun. Hún er eitthvað svo dularfull þessi plata, jafnvel sinister. Hún er einfaldlega mögnuð.

1. Modern times með Bob Dylan.

Menn segja að þetta sé besta plata Dylans síðan hann gaf út Blood on the tracks. Ég geng stundum lengra og segi að hún sé einfaldlega besta platan hans frá upphafi. En það er barnalegt að segja svoleiðis hluti og ekki vil ég vera barnalegur. Modern times á að bera saman við Time out of mind og Love and theft enda eru þessar þrjár plötur hugsaðar af Dylan sem einskonar trílógía. Ég kann ekkert að lýsa því af hverju mér finnst þessi plata svona góð. Vitna bara í Dylan sjálfan í nýlegu viðtali:

"Ég er hættur að reyna skilja lífið. Það þýðir ekkert. Maður kemst aldrei að neinni niðurstöðu."

Með öðrum orðum: Dylan er hættur að predika. Núna segir hann bara sögur og þegar sögumaðurinn er tæplega sjötugur og heitir Bob Dylan þá er von á góðu. Hann eftirlætur hins vegar hlustandanum að draga ályktanir. Þannig gera listamenn.

En svona er listinn í ár. Þið tjúnið auðvitað á Útvarp Neskaupstað þegar þátturinn fer í loftið.

Bíð með að segja óska ykkur gleðilegra jóla.

20 desember, 2006

Um pólitíska rétthugsun

Pólitísk rétthugsun og gagnrýni á pólitíska rétthugsun var einu sinni verulega frjó og skemmtileg umræða. Menn bentu réttilega á að það mátti á tímabili varla segja nokkuð um nokkurn mann eða konu án þess að maður yrði að lokum bendlaður við nasisma, fasisma eða sexisma.

Í bókinni Human stain eftir Philip Roth eru afleiðingar pólitískrar rétthugsunar í sinni ýktustu mynd sýndar:

"Do they exist or are they spooks?" er háskólakennarinn Coleman Silk látinn segja um nemendur sem hafa ekki látið sjá sig í tíma í nokkrar vikur. Í ljós kemur að nemendurnir eru svertingjar og Silk er látinn taka pokann sinn. Hann mátti ekki nota orðið spooks því það er gamalt amerískt orð yfir svertingja. En Silk var auðvitað bara að spyrja, svona í gríni, hvort þessir nemendur væru nokkuð draugar fyrst þeir sæust ekki í tíma.

Þessi umræða er hins vegar ekki lengur frjó heldur er hún skjól fyrir vondar skoðanir. Það er orðið skammaryrði að vera pólitískt rétthugsandi - meira skammaryrði en að vera útlendingahatari.

Dæmi: Þegar menn gagnrýna augljóslega vondar skoðanir Jóns Magnússonar lögmanns í innflytjendamálum eða augljóslega rangar skoðanir einhverra guðsmanna í málefnum samkynhneigðra eru gagnrýnendurnir ásakaðir um pólitíska rétthugsun og þeir lenda í því að þurfa að verjast slíkum ásökunum. Hreinsa sig af þeim! Hvers konar rugl er þetta?

...

Sko. Ef ég mætti ráða því hvort Ísland fylltist af Jónum Magnússonum og Gunnurum í Krossinum eða múslimum og hommum myndi ég hiklaust velja seinni hópinn. Það segir nefnilega voðalega lítið um þig ef þú ert múslimi eða hommi. Ég er engu nær. Það segir hins vegar talsvert mikið um þig ef þú ert Jón Magnússon eða Gunnar í Krossinum. Er ég PC? Jájá. Að minnsta kosti það allavega.

Er hljómsveitin Toto pönk 21. aldarinnar?

Popp er gegnsýrt af pólitískri rétthugsun og umræða um PC í poppi er þörf rétt eins og hún var þörf í þjóðfélagsumræðunni fyrir um tíu árum síðan. Í breskum blöðum eins og Q, Mojo og Uncut er manni sögð hin pólitískt rétthugsandi saga um hvernig Nirvana breytti gangi rokksins og bjargaði okkur frá karlrembusvínum á borð við David Coverdale. Eina blaðið sem ekki er vaðandi í forarpytti pólitískrar rétthugsunar er Classic rock en í síðasta tölublaði gáfu þeir nýjustu sólóplötu Paul Stanley (söngvara Kiss) fimm stjörnur og hrópuðu "meistaraverk!" Í Uncut fékk hún (surprise, surprise!) eina stjörnu.

Ég hef ekki heyrt nýjustu plötu Paul Stanley en ég segi samt húrra fyrir Classic rock! Að þora að halda slíku fram á tímum þar sem pólitískt rétthugsandi poppskríbentar eins og Dr. Gunni eru normið finnst mér aðdáunarvert.

Að þessu sögðu tilkynni ég hér með að ég ætla að fara á tónleikana með Toto á næsta ári í Höllinni (kannski á Nasa - hef ekki hugmynd). Því jafnvel þótt Toto hafi vissulega gert verulega leiðinleg lög (og reyndar gert mun fleiri leiðinleg en skemmtileg lög) bjuggu þeir til a.m.k tvær stórkostlegar iðnaðarrokkplötur, nefnilega Toto I og Toto IV, og Jeff Porcaro, blessuð sé minning hans, var einn mesti grúvbolti rokksins í tuttugu ár. Mun meiri grúvbolti en trommarinn í Smiths. Tékkið bara á Gaucho með Steely Dan og sannfærist.

Ég ætla að sitja á fremsta bekk og syngja með af innlifun, með tárin í augunum: "Meet you all the way, Roseanna jeee..."

18 desember, 2006

Bang your head

Blackie Lawless, söngvari hármetalbandsins WASP. Framlag hans til vestrænnar menningar verður seint ofmetið.

Jólabókin handa Kela bró í ár er Bang your head - The Rise and fall of heavy metal eftir poppskríbentinn David Konow. Ég náði í hana útá pósthús í morgun og er búinn að lesa síðustu tvo kaflana þar sem greint er frá niðurtúr hármetalsins í upphafi tíunda áratugarins. Mér sýnist þessi bók vera enn dæmið um að síðustu kaflarnir í rokkbókmenntum eru alltaf skemmtilegastir. Tilvera Ratt á tímum gruggrokks finnst mér hreinlega hilarious...

Menn dagsetja gjarnan endalok þungarokksins og segja að það hafi geispað golunni þann 24. september 1991 þegar Nirvana gaf út Nevermind. Út fór hárspreyið, inn kom táfýla.

Sebastian Bach, söngvari Skid Row, segir í Bang your head að tilkoma gruggrokksins hafi verið nokkurs konar "hefnd busanna". Eða eins og hann segir (fært í stílinn af mér): "Strákarnir sem ég lamdi í gaggó voru allt í einu orðnir milljónamæringar, ríðandi grúbbíunum mínum á meðan ég hafði ekki einu sinni efni á að fara í klamydíutékk."

Þó maðurinn sé auðvitað hálfviti er þetta skemmtilega bitur og raunsönn athugun hjá honum (þetta með klamydíutékkið kemur frá mér en einu sinni átti ég kunningja sem sagði stoltur frá því að hann væri kominn með "klammara". Langaði bara að koma þessu að einhvern veginn).

Ég man hvar ég var þegar ég heyrði Smells like teen spirit fyrst. Ég var auðvitað í Tónspil og hreifst strax af stórkostlegri innkomu Dave Grohl (þetta einfalda samspil bassatrommu og snerils skilgreinir hlutverk trommarans í rokkhljómsveit. Hann á að gera SVO lítið en um leið SVO mikið) þar sem hann markar upphaf flottasta og kraftmesta gítarriffs allra tíma sem lýkur þegar Kurt byrjar: "Load up your guns..." og byrjar svo aftur með herópi X-kynslóðarinnar: "With the lights out...entertain us...I feel stupid and contagious..." og allt það.

Svo ég gerist skáldlegur: Með einu gítarriffi gerði Kurt Cobain út af við heila tónlistarstefnu. Sumir vona að það hafi tryggt honum eilífa vist þarna efra. Ég er stundum meðal þeirra sem vona það. Ég var nefnilega nörd og ég mun alltaf vera nörd í hjarta mínu þó Þórey Péturs segi annað. Jafnvel þó ég gangi í skóm frá Campers og eigi kærustu um tvítugt.

Stundum finnst mér samt ósanngjarnt hvað mikið hefur verið gert úr framlagi Nevermind. Platan gerbreytti sennilega tónlistarsmekk (lífi?) einhverra en fyrir raunveruleg nörd voru Pixies, REM og Stone Roses löngu búnar að því.

15 desember, 2006

Þegar Pinochet flutti heim til mömmu og pabba

Þegar Pinochet dó um daginn varð mér hugsað til franska skiptinemans sem bjó hjá foreldrum mínum veturinn 1985/86. Hann hét Uge og eftirnafn hans var borið fram "Búdúvan". Við kölluðum hann Huga.

Hugi var fasisti eins og Pinochet og ég er ekkert að segja þetta til að kasta rýrð á hann. Ég kunni vel við Huga, enda hafði hann alltaf tíma til að spila fótbolta við mig, og hann kunni vel við mig. Ég held meira að segja að hann hafi kunnað best við mig af okkur bræðrum (verst kunni hann við Halldór).

En Hugi var sumsé fasisti og hann skammaðist sín ekkert fyrir það. Ég hef nefnilega kynnst fullt af fasistum í gegnum tíðina en fæstir viðurkenna að þeir séu fasistar. Þessir fasistar segja hluti eins og: "Þú veist alveg að ég hef ekkert á móti útlendingum en staðreyndin er sú að þeir eru að taka vinnu frá okkur og þeir hafa aðra siði en við sem geta verið stórhættulegir o.s.frv, o.s.frv, o.s.frv." Hugi hefði aldrei sagt neitt í líkingu við þetta. Hann hefði bara sagt: "Ég hef ekkert á móti útlendingum svo lengi sem þeir halda sig heima hjá sér og hananú!" Og þetta hefði hann sagt jafnvel þó hann væri Frakki á Íslandi. En það er önnur saga.

Þegar Hugi kom til okkar um mitt haust 1985 ákvað mamma að halda "franskan dag". Dagurinn var hugsaður sem nokkurs konar kynning fyrir famílíuna á franskri menningu og á því umhverfi sem Hugi spratt úr. Sennilega átti dagurinn að auka skilning okkar á Huga þannig að ef okkur þætti einhvern tímann eitthvað skrýtið í fari hans gætum við þó alténd rifjað upp franska daginn og þá e.t.v. sagt: "Aha! Þess vegna lætur hann svona!" Og ekki veitti af get ég sagt núna. En það er líka önnur saga.

Dagurinn byrjaði á frönskum morgunverði. Nýbakað brauð og einhver skinka frá heimahéraði Huga (sem ég man ekki nafnið á) var borið á borð fyrir mann og þvílíkt lostæti maður minn! Um leið og morgunverði lauk byrjaði Hugi að vinna að hádegismat. Hann tengdist eggjum lauslega og hver skammtur var á stærð við eitt egg. Á hverjum skammti var síðan lítill franskur fáni. Og hvað get ég sagt? Maturinn var hreinlega dýrðlegur þó maður yrði auðvitað ekki saddur af honum. Þess vegna verða franskar konur ekki feitar sjáiði til.

En meira eldaði Hugi ekki og mamma sauð hangikjöt eða eitthvað fyrir kvöldið. Í millitíðinni sýndi Hugi skyggnumyndir í stofunni.

Myndirnar voru flestar af fjölskyldu Huga en hann átti mörg systkini. Þetta voru ósköp venjulegar fjölskyldumyndir - systkinin í garðinum, systkinin á skíðum, systkinin í fótbolta o.s.frv. - þar til kom að myndum úr grímupartíi sem Hugi hafði haldið í tilefni af tvítugsafmæli sínu einhvern tímann fyrr á árinu. Þarna voru Ástríkur og Steinríkur, Lukku Láki, einn og einn hermaður og svo jafnvel einn eða tveir trúðar. En svo birtist Hugi. Hann var í hvítum jakkafötum með allskyns skraut og heiðursmerki og rýting hangandi við mittið. Rýtingurinn var langur og mjór. Hugi var með herforingjahatt. Skórnir voru nýpússaðir.

Keli bróðir, sem var nýbyrjaður að hlusta á popptónlist, leit á mig og sagði að Hugi væri augljóslega bassaleikarinn í Spandau Ballet. Hugi heyrði til hans og hló. "Non," sagði hann, benti á myndina af sjálfum sér upp á vegg og endurtók: "Pinochet, Pinochet, Pinochet..."

Keli vissi alveg hver Pinochet var. Hann hafði margoft heyrt pabba og Dóra bróður hans tala um Pinochet uppí eldhúsi og þá var yfirleitt aldrei talað um annað en "helvítis glæpamanninn hann Pinochet" og að það væri "réttast að skjóta þennan helvítis Pinochet ekki seinna en í dag" og margt, margt fleira í þessum dúr. Á meðan sat pabbi í hægindastólnum í stofunni og nuddaði á sér hökuna. Hugsi.

Hugi sýndi síðan ótal myndir af mömmu sinni og sjálfum sér. Þau virtust afar náin. En svo margar voru myndirnar að fjarvera pabba hans var orðin meira en lítið athyglisverð. Var pabbi hans kannski dáinn, hugsaði ég en sagði ekki neitt enda var ég frekar feiminn við þennan hávaxna, dökkhærða mann sem minnti mig á Araba. Pabbi var augljóslega að hugsa það sama og spurði:

"Áttu ekki til mynd af pabba þínum?"

"Hann vill ekki láta taka myndir af sér," ansaði Hugi á lélegri ensku en á sama augnabliki sýndi hann mynd af forsíðu fransks dagblaðs. Neðan við risastóra fyrirsögn, sem enginn í fjölskyldunni skildi, var mynd af óeirðalögreglumanni með skjöld og hjálm og stóra kylfu. Kylfuna notaði lögreglumaðurinn til að berja síðhærðan strák - skjöldin notaði hann til berja síðhærða stelpu. Efst uppí horni dagblaðsins stóð ártalið 1968.

Fjölskyldan horfði á nýjasta fjölskyldumeðliminn spurnaraugum. Af hverju er hann að sýna okkur þessa mynd? Eftir nokkur augnablik sagði Hugi:

"Mon papa!"

12 desember, 2006

Myndmennt í Nesskóla

Einu sinni, þegar ég var svona tíu ára, fékk ég allsérstakt verkefni í myndmenntartíma. Kennarinn var rauðsokka og nýskilin (eins og flestir byltingarsinnar á fertugsaldri árið 1985 voru ímynda ég mér stundum) og hún bað okkur um að teikna land. "Þetta á að vera draumalandið ykkar," útskýrði kennarinn.

Ég dró því upp Sovétríkin á bökunarpappír og hafði landabréfabók undir þannig að útlínurnar voru nokkuð nákvæmar. Það fór að minnsta kosti ekki á milli mála hvaða land ég var að teikna ólíkt vini mínum sem teiknaði mynd af Dauðastjörnunni úr Star Wars. Það var bara hnöttur og gat verið hvaða hnöttur sem var. Eins og ég sagði honum.

Án þess að ég muni út af hverju ákvað ég að lita Sovétríkin græn og ég var fullkomlega í eigin heimi, raulandi lagstúf af Dublinersplötunni hans pabba, þegar kennslukonan sagði við mig þannig að ég hrökk við:

"Sovétríkin eru falleg og það er alltaf jafn gaman að teikna þau."

"Ta...takk," stamaði ég.

"Þetta er vel valið hjá þér, Jón minn."

Rödd hennar var flöt og mörgum árum síðar hitti ég konu á geðdeild sem hafði nákvæmlega eins rödd. Fyrst hélt ég að sjúklingurinn væri myndlistarkennarinn en það meikaði auðvitað engan sens. "Af hverju talar hún svona skringilega?" spurði ég hjúkrunarfræðinginn á vaktinni. "Lithium," var svarið.

"Hvað ert þú að teikna?" spurði hún vin minn.

"Dauðastjörnuna," sagði hann brosandi. Hann lyfti myndinni upp og sýndi kennaranum draumalandið sitt.

"Myndin þín er flottari, Jón minn," sagði hún og virtist í raun og veru ánægð með myndina mína þó það væri auðvitað ómögulegt að segja til um það.

"En það er einn galli á henni, Jón minn."

Ég sagði ekki neitt.

"Sovétríkin eru ekki græn. Þau eru rauð."

07 desember, 2006

Dæmi um fyrstu kynni

Ég var nýbyrjaður að vinna á geðdeild, var ruglaður í hausnum og einmana. Soldið Murakamískur. Eitt sinn, eftir fyrstu vaktina mína minnir mig, var ég beðinn um að taka næturvakt. "Þú vinnur með Sverri," sagði Hilmar en verkefni hans var að koma mér inní nýju vinnuna. "Hann er snillingur og hlustar mikið á tónlist. Þú fílar hann." Hann var að reyna hughreysta mig en það mistókst því þegar ég er kynntur fyrir fólki sem ég "á að fíla" verð ég yfirleitt fyrir vonbrigðum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því.



Ég sat inná vaktherbergi með lappir uppá borði og las bók þegar Sverrir kom inn. Ég tók þær umsvifalaust af borðinu en þegar ég er nýbyrjaður í einhverri vinnu finnst mér allir vera yfirmenn, jafnvel þó þeir hafi bara unnið degi lengur en ég.

"Slakaðu á og haltu áfram að lesa," sagði Sverrir og settist fyrir framan tölvuna sem starfsmenn máttu nota þegar lítið var að gera. Sverrir byrjaði að tefla. Hann sagði ekki orð.

Ég gjóaði augunum að honum og virti hann fyrir mér um leið og ég þóttist vera lesa. Hann minnti mig á Donnie Darko - grannur og dökkur yfirlitum. Einhver hefði eflaust sagt hann dularfullan en þótt útlit hans væri eftirtektarvert fyllti það mig engri sérstakri forvitni. Kannski af því að ég hafði eytt deginum á geðdeild. Fötin hans voru svolítið gamaldags og nokkrum vikum síðar, þegar við vorum búnir að vinna nokkrar vaktir saman og meðal annars hjúkrað dauðvona manni, sagði hann mér að hann keypti fötin sín alltaf í herrafataverslun Guðsteins.

"Andskotinn!" sagði Sverrir eftir skák sem stóð í tuttugu mínútur eða svo. Hann slökkti á tölvunni. "Þú afsakar," sagði hann "en ég lofaði bróður mínum að taka eina skák við hann."

"Hvernig fór?" spurði ég.

"Hann vann."

"Er þetta yngri bróðir þinn?"

"Nei, eldri."

"Þá líður þér varla illa."

"Neinei. Stundum finnst mér samt eins og ég sé að taka hann en alltaf tekst mér að klúðra stöðunni sama hversu góð hún er. Það er eins og hann viti að ég klikki á ögurstundu og hafi alltaf fulla stjórn á skákinni." Rödd hans var mjúk. Sumir myndu lýsa henni sem útvarpsvænni.

Ég kinkaði kolli. Ég vissi hvað hann átti við.

Teflir þú?" spurði Sverrir.

"Nei," sagði ég og ákvað að segja honum skáksöguna mína. Hann virtist vera týpan sem gæti fundist hún skemmtileg. "Ég hætti að tefla þegar ég tapaði fyrir stelpu á skólamóti í þriðja bekk. Ég man að foreldrarnir fögnuðu þegar hún mátaði mig. "Já, hún lætur þessa drengi sko ekkert vaða yfir sig," sögðu þeir. Ég hef reynt að tefla síðan og mér gengur yfirleitt vel í svona fjögur, fimm skipti en þá ofmetnast ég og stelpan vinnur mig."

"Stelpan?"

"Já, eða svona tvífari hennar. Gæti verið karlkyns."

"Ég skil. Hvað ertu að lesa?"

"Murakami."

"Hvaða bók?"

"Sputnik sweetheart."

"Hvernig finnst þér hún?"

"Hún er ágæt. Mér finnst hún samt ekki nógu fyndin. Hann er ekki nógu kaldhæðinn höfundur. Fólk frá Japan hlýtur að vera leiðinlega einlægt."

Sverrir hugsaði í nokkur augnablik. Hann vildi móta þessa flóknu hugsun fyrst áður en hann opnaði munninn. "Sko," sagði hann svo. "Þú þarft að lesa nokkrar bækur til að sjá að Murakami er víst kaldhæðinn en það á ekki að skipta neinu máli. Það þarf ekki allt að vera kaldhæðið. Sögumaðurinn í Sputnik sweetheart er ástfanginn af stelpunni og síðan hverfur hún bara. Það er ekkert kaldhæðið við það. Það er eiginlega bara dapurlegt."

"Já, það er örugglega rétt," sagði ég.

"Kaldhæðni er annars vegar velferðarhúmor og hins vegar valdleysishúmor," hélt Sverrir áfram. "Við erum kaldhæðin þegar við vitum að við getum ekki tapað og við erum kaldhæðin þegar við vitum að það er eina leiðin til að segja eitthvað sem skiptir máli. Murakami er einhvers staðar þarna á milli."

Við hlógum þó þetta væri svosem ekkert drepfyndið. Ég kynnti mig.

06 desember, 2006

Hjólreiðar og þunglyndi

Einu sinni átti ég spjall við konu niðrá fjörðum. Þetta var um það leyti sem ég var blaðamaður og fólk fann sig knúið til að segja mér ýmislegt sem mig varðaði ekkert um. Oft kom þetta sér vel því maður gat leyft sér að spyrja fólk útí nánast hvað sem er.

Þar sem við stóðum fyrir utan kaupfélagið strunsaði fram hjá okkur maður sem gekk augljóslega ekki heill til skógar. Hann var um sextugt, með illa hirt yfirvaraskegg og með skurð á skallanum líkt og að framkvæmd hefði verið lóbótómía á honum fyrir fjörutíu árum eða svo. Ég þekkti aðeins til mannsins og vissi að hann var ein af skrítnu skrúfunum í plássinu en þó án þess að geta raunverulega talist þorpsfífl. Hann vantaði nefnilega glaðlyndið sem gjarnan einkennir fas þorpsfíflsins. En fyrst tilefnið gafst spurði ég konuna aðeins útí manninn.

"Við vitum svo sem ekki nákvæmlega hvað kom fyrir hann," sagði hún með svo ýktum sorgarsvip að ég hélt fyrst að hún væri að gera að gamni sínu. En hún var auðvitað bara að setja upp viðeigandi svip sem fólk setur upp í smáþorpum þegar það talar um ólukkufólkið við ókunnuga menn eins og mig. Gleymi fólk að setja hann upp er nefnilega hætt við að það gæti virst kaldlynt.

Hún hélt áfram: "Við vitum þó að hann var alveg í lagi fram að fermingu. Þá, bara eins og hendi væri veifað, varð hann þunglyndur."

"Ja hérna," sagði ég. "Vita menn ekki hvað gerðist?"

"Menn halda að hann hafi dottið af hjóli."

"Dottið af hjóli?"

"Já."

"Reiðhjóli þá?"

"Já."

"Datt hann af reiðhjóli og varð þunglyndur í kjölfarið?"

"Já."

"Ókei," sagði ég og kvaddi konuna. Ég ræsti Pólóinn minn og andaði pínulítið léttar.

05 desember, 2006

Smábæjarkvíði í anda kvikmyndanna

Hér er dimmt og kalt og ófært. Maðurinn sem seldi mér hamborgarann áðan hafði ekki rakað sig í tíu daga og ekki baðað sig í viku. Sennilega drakk hann þrjá fjórðu úr Jim Beam flöskunni sinni í gær því andremman var óvenju súr. Afganginn drakk hann í morgun. Ég veit að hann er skotinn í frænku sinni og ég veit að hann þolir ekki Pólverja. Hann er líka tortrygginn útí fólk með stúdentspróf. Ég er með háskólapróf. Ég borða hamborgarann minn skjálfhentur og þori ekki að kvarta þó það sé hárbrúskur í frönsku kartöflunum mínum.

Ég stend upp frá hálfkláruðum hamborgaranum og geng út. Hann kallar: "Drengur, þú gleymdir að borga!" Ég hrekk í kút og hleyp í burtu. Ég hugsa: Kvenfélögin niðrá fjörðum hafa ályktað gegn hommum í gegnum tíðina. Það er bara tímaspursmál hvenær kellingarnar banka uppá hjá mér með logandi kyndla og ryðgaðar heykvíslar! Af hverju bögga þær mig!? Ég er enginn hommi! Ég á kærustu!

04 desember, 2006

Frestun

Ég held að tölvukaupum veðri frestað fram yfir áramót. Helvítis reikningar sem ég vissi ekki af eru komnir í vanskil og þar sem ég er góður strákur þá o.s.frv.

...

Þetta er leiðinlegt fyrir ykkur því ég ætlaði, eins og áður sagði, að lonsa útvarpsþættinum mínum fyrir jól. Í honum ætla ég að fjalla um mússík en með þeirri nýbreytni að lagavali ræður þema þáttarins. Fyrsta þemað átti að vera fyrirbærið "nánd" og í þættinum ætlaði ég m.a. að segja frá því að annar bræðranna í söngdúóinu The Flibbets frá Suður Afríku er með samvaxnar tær og hinn er með flösuexem á bringunni og á milli rasskinnanna (sá þá í sturtu í Vesturbæjarlauginni) og þarf því að öllum líkindum að kaupa talsvert magn af sterakremi árlega. Beri hann ekki kremin á útbrotin reglulega er hætt við að þau byrji að lykta eins og mygluostur að því gefnu að útgufun og losun umfram vökva sé eðlileg hjá manninum. Á milli frásagna ætlaði ég að spila lög af nýju plötunni með Midlake sem er verulega drungaleg - almost gothic.

En. Þetta kemur allt saman hægt og rólega.

03 desember, 2006

Polly

Sit hér í Risinu í Neskaupstað með Keilueyjarstrákunum. Þeir sitja þessa stundina sveittir við að mixa lágstemmda alt-kántrí slagarann sem ég sagði ykkur einhvern tímann frá. Ég skipti mér ekki af þeirri vinnu. Þeir kunna þetta.

Slagarinn heitir Polly og verður kominn á síðuna okkar í kvöld. Enjoy...

...

Við erum líka byrjaðir að blogga. Við bloggum á ensku þannig að ef þið ætlið að kommenta vinsamlegast gerið það á útlensku líka.

...

Ferðin til Rvk gekk áfallalaust fyrir sig. Ég fékk ekki eitt einasta hræðslukast.

eXTReMe Tracker