Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 apríl, 2013

Þróun mannsins

Er ekki kominn tími á annað blogg? Why not.

Ég vil byrja á því að fagna því, eins og stjórnmálamenn segja, að enginn les þetta blogg lengur. Mér finnst svo huggulegt um hér að lítast. Svona eins og að vera einn í löngu yfirgefnu húsi, í yfirgefnum firði. Maður skoðar herbergin, opnar skápa. Flettir í gömlum símaskrám. Næs. Verí næs.

En ég er líklega ekki að tala um bloggið mitt. Ég er örugglega að tala um heilann minn sem ég nota orðið sífellt minna.

...

Foucault, sá dauði franski hommi, sagði eitthvað á þá leið að það skipti ekki máli hverjir væru við völd. Við værum svo vel prógrammeruð að valdbeiting væri óþörf - við sæjum um bælinguna sjálf. Ég er í öllum aðalatriðum sammála manninum og því er ég ekkert voðalega sorrí yfir þessum úrslitum þótt ég sé designeraður vinstrimaður frá fæðingu. Mér er bara alveg sama um þetta en rembist auðvitað við að mynda mér skoðun viku fyrir kosningar enda fátt ömurlegra en að mæta ekki á kjörstað og hafa ekki skoðun.

Við Esther erum svolítið þannig að þegar annað okkar er duglegt að hreyfa sig þá nær hitt ekki að rífa sig frá sjónvarpinu. Þegar annað okkar dettur í grænmetið öskrar hver fruma í hinu á pítsur og hamborgara. Og þegar annað okkar verður úberpólitískt spókar hitt sig um í algeru skoðanaleysi.

...

"Ekki dæma, leyfðu hugsunum að koma og fara áreynslulaust." Þetta er meginlærdómurinn af því að stunda innhverfa íhugun. Ef þú nærð þessu ekki þá muntu aldrei geta íhugað sjálfum þér til gagns. Kannski er þetta búið að yfirfærast á líf mitt. Ég svíf um stefnulaus eins og lauf í breytilegri átt. Chopra myndi klappa mér á bakið og segja mig hafa náð mikilvægum þroska. Þá myndi ég segja við Chopra: Hvar eru andskotans verðlaunin?

...

Hlusta þessa dagana á nýja plötu með Boz nokkrum Scaggs. Hún heitir Memphis og þetta er dásamlega tilgerðarlaus tónlist - akkúrat alls aungvir stælar. Ég held að Boz hafi haldið að enginn myndi kaupa plötuna, að enginn hefði áhuga, en þar skjátlaðist honum alvarlega. Nærri 38 ára karlmaður á Reyðarfirði fylgist nefnilega með Boz. Honum er ekki sama hvað Boz lætur frá sér. Vonandi fréttir Boz ekki af þessu. Þá myndi hann nær örugglega fara að gera krappí tónlist aftur.

Boz nokkur Scaggs Tékk it.

10 apríl, 2013

Kannski maður skrifi...

...bara soldið. Hvers vegna ekki? Hef ekki "lyft upp penna" í að því er virðist tuttugu ár. Veit ekki af hverju ég hætti þessu - þetta var jú ansi skemmtilegt! Það er með þetta eins og margt annað í lífinu - maður missir lystina og snýr sér að öðru. Einu sinni fékk ég mohitokokteilinn geðþekka á heilann og gat undir það síðasta blandað alveg hreint "mean motherfucking mohito" skal ég segja ykkur en svo hætti ég því (les: gat ekki fjármagnað þetta vægast sagt umdeilda áhugamál) og sneri mér að öðru.

Allavega. Hér er ég á mínum gömlu bloggslóðum. Að koma hingað inn er eins og að heimsækja eyðibýli í yfirgefnum firði austur á landi. Rykfallið blogg útum allt!

En hvers vegna rýfur Knúturinn þögnina? Hann veit það ekki. Kannski vill hann bara æfa þessa "vöðva" aðeins? Kannski kemur einhver kláði vegna þess að kosningar eru í nánd? Kannski kallar staðan í pólitikinni á að maður eins og The Knút segi eitthvað? Kannski er þetta blogg eina vörn okkar gegn innrás frá Planet B?

Tja...

Að öðru. Fór á kosningafund í gær. Þann fyrsta og líkast til þann síðasta. Áhugi minn á pólitík hefur aldrei verið jafn lítill en á sama tíma reyni ég hvað ég get að tala ekki um að það sé "sami rassinn undir öllu þessu liði" eins   hinu íslenska hyski verður tíðrætt um. Auðvitað kýs ég. Kemur ekki annað til greina. Kýs flokkinn sem borgar sektina mína í bókasafni Reyðarfjarðar.

Meira síðar. Kannski.


eXTReMe Tracker