Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

17 júní, 2004

Ég spurði uppáhalds frænda minn, Dóra frænda, hvort hann ætlaði að kjósa í forsetakosningunum. Svona svaraði hann orðrétt:

"Kjósa? Ójá, ég ætla sko að kjósa og ég ætla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson enda er hann sá besti forseti sem við höfum nokkru sinni átt. Þessi maður þorir að þagga niður í þessu helvítis íhaldi sem hefur fengið að vaða uppi óáreitt í mörg ár."

Svo varð hann æstari og byrjaði að berja í eldhúsborðið til áhersluauka. Í hvert skipti sem hann lamdi í borðið sullaðist upp úr kaffikönnunum okkar:

"Svo er það þessi helvítis kelling, þessi helvítis meri sem ætlar núna allt í einu að fara skipta sér af [þarna átti hann við frú Vigdísi Finnbogadóttur]. Hlustaðir þú á hana í útvarpinu í dag?" spurði frændi mig en beið ekki eftir svari:

"Ég skal bara segja þér það vinur minn að þetta helvítis pakk fyrir sunnan veit ekkert um hvað það er að tala. Þetta stóð situr á kaffihúsum og spjallar en hefur aldrei unnið eitt handtak á ævinni nema kannske í sjoppu á sumrin á meðan það var í skóla. Og hvað er þetta lið að gera núna, ha? Jújú, það situr á einhverju kaffihúsinu og semur dansa!" sagði hann. Hneykslunin var svo mikil að hann endurtók þetta:

"Það situr á kaffihúsi og semur einhverja andskotans dansa (ekki veitir af þremur upphrópunarmerkjum því kallinn var alveg orðinn klikk)!!!"

Ég ætla aldrei að segja frænda mínum að mér finnist gaman að hanga á kaffihúsum í borginni. Ég hef það mér þó kannske til málsbóta að ég sem ekki dansa - ekki svo ég muni allavega.

Kv.

JK.

14 júní, 2004

"Davíð Oddsson hefur verið dæmdur til dauða enda ómerkilegur."

Þetta heyrðist mér þulan segja í kvöldfréttunum áðan. Það greip mig einhver undarleg tilfinning - ég þori varla að segja það...

En sum sé, hún sagði reyndar að ummæli forsætisráðherra í garð Jóns Ólafssonar hins illa hefðu verið dæmd dauð og ómerk. Ekki alveg sami hluturinn og dauðadómur en hvað um það - sekur var hann. Freud hefði örugglega haft eitthvað um svona að segja. Skrifaði heilu bækurnar um misheyrn og mismæli.

---

Þegar ég var út í Svíþjóð fyrir tíu árum síðan keypti ég plötuna Heartbeat city með Cars. Plötuna keypti ég í feykilega góðri plötubúð í Lundi og valhoppaði heim til Dadda vinar míns hress og kátur. Búinn að leita að þessari plötu lengi.

Þarna taldi ég mig vera með ansi gott dóp í pokanum og hlakkaði óskaplega til að liggja upp í sófa með hedfón á hausnum og músíkina í botni. Strax á fyrstu sekúndunum áttaði ég mig á því að ég hafði gert mistök. Gervilegt sánd, ofurvæmnir textar og ömurleg hárgreiðsla. Allt það versta sem einkenndi tónlist níunda áratugarins virtist auðkenna Heartbeat city með Cars, einhvers konar blanda af Blondie og Def Leppard.

Það er alltaf jafn leiðinlegt fyrir fíkil að fá slæmt fix. Það á við plötufíkla jafnt sem heróínfíkla og ég fór á verulegan bömmer eftir þetta. Því rétt eins og heróínfíkillinn sem er alltaf að leita að fyrstu vímunni er plötufíkillinn ávallt að leita að nýrri Achtung baby eða nýrri Pet sounds - plötu sem hann getur gleymt sér yfir.

En jæja, þannig var það nú að ég fór upp í Hérað á dögunum. Eins og venjulega greip ég með mér nokkra diska. Í stresskasti tók ég þrjá úr safninu og hélt reyndar að þarna væri ég með í lúkunum tvo diska með Greatful dead og einn með Placebo. Ég hafði rétt fyrir mér með Greatful dead en þriðji diskurinn reyndist vera slæma trippið frá Svíþjóð, nebbla Heartbeat city með amríska bandinu Cars.

Og viti menn, diskurinn kemst ekki úr spilaranum! Hvert lagið á fætur öðru er dæmi um allt það besta sem níundi áratugurinn gaf af sér: Gervilegt sánd, ofurvæmnir textar og ömurleg hárgreiðsla!

Kv.

JK.

11 júní, 2004

Mér datt þetta í hug: Næst þegar minn árgangur heldur bekkjarmót þá ætti allur bekkurinn að fara niður í barnaskóla. Ekki til að spila fótbolta, ekki til að sjá gömlu kennslustofurnar og umfram allt ekki til að rifja upp gömlu góðu dagana.

Ég ætla að koma með þá uppástungu að við bjóðum hjúkrunarkonu með okkur sem tekur bekkinn í læknisskoðun. Þið munið hvernig þetta var:

"Úr spjörunum á stundinni!"

Kv.

JK.

08 júní, 2004

Það er nóg að gera hér. Blaðið farið í prentun og maður hangir bara yfir fréttunum á Rúv. Dao formaður í fýlu en það er ekkert nýtt. Mikið agalega hlýtur maður að hafa brenglaðar hugmyndir um lýðræði og stjórnmál yfirleitt, alinn upp við ríkisstjórn Dao. Annað hvort verða menn alveg hræðilega undirgefnir vegna þessa eða alltof uppreisnargjarnir. Veit ekki enn hvort ég verð.

---

Helgi Seljan, stjörnublaðamaðurinn minn, er farinn í frí þannig að maður þarf að bretta upp ermar og gerast fréttamaður - mikið agalegt puð er það! Er þó allur að koma til enda fékk ég toppmann til að leysa stjörnuna af. Sá heitir Björgvin Valur og hefur verið að standa sig eins og hetja.

Björgvin er búinn að vera hjá mér í tæpa viku og strax búinn að heyra þetta frá embættismanni í Fjarðabyggð þegar hann var að biðja embættismanninn um upplýsingar vegna fréttar sem hann var að vinna:

"Mér finnst nú reyndar geysilega skringilegt að þetta sé fjölmiðlamál svona löngu eftir að þessi verðkönnun fór fram. Spurning um tilgang. En hvað um það, svona er Ísland í dag." Svo endurtók hann þetta síðar: "Ég trúi nú reyndar ekki að Austurglugginn ætli að eyða plássi í þetta mál sem löngu er afgreitt og fyrnt." Þetta sagði maðurinn orðrétt í tölvupósti til blaðsins.

Þoli ekki þetta viðhorf sem reyndar er svo algengt hjá embættis- og stjórnmálamönnum að þið mynduð ekki trúa því. Það er verið að reyna koma því fyrir í kollinum á manni að það sé eitthvað athugavert við það að segja frá umræðu sem er í gangi í samfélaginu og í raun að greiða úr flækjunni ef einhver er.

Hafi menn ekkert að fela þá segja þeir bara sína hlið á málinu og sleppa svona helvítis vitleysu.

Kv.

JK.






01 júní, 2004

Ég hef tvisvar sinnum orðið orðlaus síðan ég flutti til Norðfjarðar.

Fyrra skiptið var einhvern tímann í desember. Ég var að fá mér göngutúr og gekk framhjá gömlum manni sem var að moka snjó af tröppunum heima hjá sér. Hann leit upp þegar ég kom askvaðandi og ég notaði þess vegna tækifærið og bauð góðan dag. Hann tók ekki undir kveðjuna heldur þótti honum nóg um og sagði hneykslaður:

"Hva, er bara verið að ganga!"

Ég gat ekkert sagt.

Seinna skiptið var núna um daginn. Það var föstudagur og ég ákvað að skreppa í ríkið og kaupa mér eina bjórkippu fyrir helgina. Soldið spes tilefni en það er önnur saga.

Nú, það var fremur kalt í veðri og ég var því með stóru rússahúfuna mína á höfðinu. Í biðröðinni stóð maður sem ég vann eitt sinn með í "Skemmunni" eins og sá vinnustaður var kallaður - saltfiskverkun SVN fyrir þá sem ekki vita eða muna. Ég kunni ekki við annað en að heilsa manninum enda hitti ég hann nær eingöngu á barnum og þá við svo ölvaðar kringumstæður að það er varla að marka.

En jæja, ekki hlaut þessi saklausa kveðja náð fyrir augum hans því hann sagði, líkt og ég væri orðinn algerlega snar (nú eða spurði þó mér finnist það ólíklegt enda maðurinn með fulla sjón):

"Hva, bara með húfu!"

Og ég var orðlaus.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker