Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

22 desember, 2004

Topp 5

Er að hlusta á svæðisútvarp RÚV. Þar eru miðaldra kallar að tala um samgöngur, álver, virkjun og fólksfjölgun - svona umræður má oft finna í Austurglugganum líka. Ég er að verða svo djöfulli leiður á þessu. Þessi sjálfumgleði í sveitarstjórnarpólitíkusum er ó só þreytandi. Hlakka til þegar samdrátturinn hefst og fólk byrjar að flýja suður aftur enda er miklu skemmtilegra að hlusta á fólk væla.

...

Jæja, sé að Trýtilbuxi er byrjaður á topp fimm listunum og best að láta ekki sitt eftir liggja. Byrjum á plötunum, annað væri stílbrot.

1. Love is hell/Ryan Adams.

Veit að þetta ofnotuð klisja en þessi plata er sú besta hingað til frá manninum með óheppilega nafnið. Þessi plata er svo fjandi, fjandi, fjandi góð og ég meina það!

2. SMiLE/Brian Wilson.

Hef ekki náð henni alveg en þrátt fyrir það er mússíkin betri en flest sem gefið hefur verið út undanfarin tja...tíu ár? Var reyndar að hlusta á hana í gær og sú hugmynd hvarflaði að mér að SMiLE væri að sumu leyti Pet sounds fremri. Kann að hafa verið rauðvínið sem ég var drekka en Pet sounds líður fyrir það á köflum að vera nánast of væmin. En...veit ekki hvað skal segja... SMiLE er eiginlega ólík öllu sem maður hefur heyrt nokkurn tímann og á þessum síðustu og verstu tímum er það út af fyrir sig stórkostlegt afrek.

3. Ocean rain/Echo and the bunnymen.

Þetta meistaraverk breskrar nýbylgju var endurútgefið á árinu með átta aukalögum og hefur glatt mig óskaplega í ferðum mínum um fjórðunginn. Gítarsólóið í titillaginu og ópið í Ian McCulloch sem kemur í kjölfarið eru ástæður þess að ég hef enn gaman af að hlusta á rokkmússík.

4. Lambchop/Aw c'mon og No you c'mon

101 Rvk eftir Hallgrím Helgason er löng og skemmtileg bók en maður ímyndar sér að með því að kötta af henni hundrað blaðsíður eða svo hefði hún orðið enn betri. En hvaða blaðsíður áttu að fara?

Sama má segja um það nýjasta frá Kótilettunum. Tvöfaldar plötur eru yfirleitt aldrei mjög heilsteyptar og þessi er engin undantekning. Þetta hefði orðið stórkostlegt einfalt albúm en þegar maður hugsar útí það þá má ekki sleppa einu einasta lagi.

5. Nick Cave/Abbatoir blues og The lyre of Orpheus

Hefði ég gert þennan lista fyrir tveimur mánuðum væri þessi í öðru sæti í stað SMiLE. Hún er vitaskuld frábær en einhverra hluta vegna er hún æ sjaldnar tekin fram. Kannski tek ég æði á næsta ári og spila á hana gat.

Talandi um gat - ég er farinn í mat...

Kv.

JK.



Prison notes

Manni er vitaskuld þvert um geð að viðurkenna það en svona er þetta barasta:

Eitt af því skemmtilegasta við þessa hátíð er endurkoma góðra vina úr borginni. Einn þeirra kom í mat til mín um daginn og sá sagði mér að ef marka mætti þessa bloggsíðu mína gerði ég ekkert annað í þessu þorpi annað en að kaupa geisladiska og stunda líkamsrækt (það er ekkert að marka þessa síðu mína en akkúrat núna er það allt önnur saga).

Þetta er auðvitað satt en samt reyndi ég verja mig hetjulega og sagðist gera margt annað - gat þó ekki nefnt það svona beint, gaf það frekar svona í skyn.

En allavega. Auðvitað gerir maður ekki neitt hérna en maður gerir sossum heldur ekki neitt voðalega margt í bænum. Lífið, hvar sem maður er staddur, hefur tilhneigingu til að verða röð af reglubundnum viðburðum; maður fer í búðina, maður fer í ríkið, maður fer á barinn, maður fær sér að reykja, maður droppar sýru og svo fer maður náttla í ræktina og í Tónspil eins og þið vitið.

Og maður fer vissulega oftar í ræktina hér en í Reykjavík því lífið í Neskaupstað er auðvitað um margt líkt lífi fanga í Sing Sing fangelsinu í New York eins og ég ímynda mér það (getur reyndar verið hvaða fangelsi sem er en mér finnst Sing Sing skemmtileg nafngift af augljósri ástæðu). Lífið tikkar áfram af óvenju kraftmiklu tilbreytingarleysi sem smám saman verður ávanabindandi. Það sést best þegar eitthvað óvænt kemur uppá en þá fer maður í kerfi sem mér skilst að séu einnig viðbrögð fanga sem hafa setið lengi inni. En þó maður viðurkenni að maður sé að verða (orðinn?) háður þessu þarf það ekki að þýða að manni líki þessi sífellda endurtekning. Ég nenni ekki að skrifa einhvern langhund um þetta og segi því bara að endurtekningin er NIÐURDREPANDI. Af þeirri ástæðu og af þeirri ástæðu einni er gott að fara í ræktina eða kaupa diska - þessar aðgerðir fá mig til að gleyma stað og stund - þær deyfa mig.

Enívei, mér finnst það sífellt meika meiri sens að segja fólki að ég sé "doing time" í Neskaupstað frekar en að ég búi þar. Gallinn við þessa líkingu er að ég veit ekki hvað dómurinn er langur og svo veit ég ekki heldur fyrir hvað ég sit inni.

Kannski sit ég inni fyrir lífstíð sem þarf ekkert að vera slæmt. Þetta fangelsi er ekkert verra en fangelsið fyrir sunnan.

Og hvað með sakirnar? Kannski sit ég inni fyrir rangar sakir? Eða sit ég kannski inni fyrir að hafa unnið fyrir Samfylkinguna?

Hvur veit? Skrýtnast við þetta allt saman er svo að maður er bara bærilega happí.

Kv.

JK.


10 desember, 2004

Crisis? What crisis?

Tíminn sýnir enga miskunn eða eins og einhver sagði; hann lætur ekki bíða eftir sér. Það eru að koma jól ENN EINU SINNI og þetta ár flaug framhjá mér án þess að ég tæki eftir því. Mig rámar í einhverja laxavinnu í sumar en ekki margt annað. Jújú, maður fór að vísu á nokkur ágæt fyllerí en þau eru löngu hætt að vera eftirminnileg - maður er hættur að koma sjálfum sér á óvart. Spurning um að byrja á sterkari vímugjöfum. Getur einhver reddað mér LSD?

Einu sinni var mér sagt að árin fram undir tvítugt væru lengi að líða en svo yrði maður fimmtugur á einni nóttu. Svei mér þá ef það er ekki sannleikskorn í þessu. Ég hreinlega man ekki hvað ég hef verið að bardúsa undanfarin tíu ár. Árin skutust bara upp í loftið við áramót og sprungu. Þau urðu að engu án þess að ég tæki eftir því - ég sat bara inni og horfði á sjónvarpið.

Sem dæmi þá hefur það gerst síðustu tvö ár að ég man ekki eftir afmælisdeginum mínum. Ég hef þakkað pent fyrir mig þegar einhver minnir mig á með viðeigandi kveðju en vitneskjan gerir mig leiðan. Tíminn æðir áfram. Af hverju getur hann ekki beðið í smá stund? Það er svo margt sem maður á eftir að klára!

Látum Roger Waters botna þetta endemis svartsýnisraus:

Ticking away the moments that make up a dull day
You fritter and waste the hours in an off hand way
Kicking around on a piece of ground in your hometown
Waiting for someone or something to show you the way

Annars er maður á erfiðum aldri. Aldurinn segir - svona út á við allavega - að maður sé ekki barn eða unglingur lengur en samt vill maður trúa því að ekkert hafi breyst – að maður sé ennþá gamli góði þorparinn. Og kannski er maður það en enginn trúir manni.

Góðir hálsar, Ryan Adams ætlar að ljúka þessari færslu hjá okkur dag en hann er einmitt á svipuðum aldri og ég. Enginn listamaður - sem ég hef hlustað á eða lesið - nær þeirri tilfinningu betur um að það sé tekið að rökkva í kaflanum um ungdómsárin:

So, I am in the twilight of my youth
Not that I'm going to remember
And have you seen the moon tonight
Is it full?
Still burning its embers
The people dancing in the corner, they seem happy
But I am sad

...

It seems so tragic... but it disappears like magic
Like magic

Kv.

JK.

ES. Ætli ég sé nokkuð svona jólabarn?

eXTReMe Tracker