Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 janúar, 2014

Við Dexter

Hef ekki horft jafn mikið á sjónvarp í hundrað ár. Klára heilu þáttaraðirnar hverja á fætur annarri og núna er ég í miðjum klíðum að fylgjast með ævintýrum raðmorðingjans Dexters. Ég tengdi við Dexter Morgan strax frá byrjun fyrst og fremst vegna þess að hann er svo reglubundinn. Svo mikið reyndar að það jaðrar við þráhyggju, og allt rask á rútínunni gerir hann pirraðan. I feel you, Dex. I feel you. 

Ægilega spennandi þættir og eins og öll góð afþreying hvort sem það eru bækur, bíó eða mússík - þá fer maður að hugsa soldið um sjálfan sig og hvernig hugur manns fúnkerar.

...

Sko, spennan í þáttunum er tvíþætt. Annars vegar fylgist maður spenntur með því hvernig hann eltir uppi glæpamenn og morðingja og þeir fá undantekningalaust makleg málagjöld. Að þessu leyti er þetta hefðbundinn hasar, svona thrill of the chase, sem flestir spennuþættir snúast um. Munurinn einfaldlega sá að í þáttunum um Dexter erum við í liði með raðmorðingjanum og ánægður fylgist maður með Dex murka úr fórnarlömbunum lífið. Hápunktur hvers þáttar myndi ég segja.

En maður fylgist líka spenntur með yfirhylmingunni því þættirnir fjalla kannski frekar um feluleikinn og það er auðvitað miklu meira intresant og það sem gerir þættina spes. Hann þarf að fela drápin og þetta eðli sitt fyrir fjölskyldu og vinnufélögum (giftur þriggja barna faðir / vinnur við réttarrannsóknir hjá lögreglunni í Miami). Dexter er nefnilega fíkill - hann verður að drepa. Hann verður að drepa eins og róninn verður að drekka og let's face it: Eins og ég verð að kaupa hljómplötur. I feel you, Dex. I feel you.

Það er þessi feluleikur sem fer alveg með mig stundum. Ég vil nefnilega alls ekki að það komist upp um hann Dex (ekki vegna þess að þá er þáttunum lokið - ég fagna því þegar þáttaröðum lýkur - þá getur maður byrjað að baða sig aftur, vaska upp, skipta á barninu og svona) og stundum vildi ég óska þess að handritshöfundurinn gæti skrifað nokkra þætti þar sem feluleiknum væri sleppt og Dex fengi bara að myrða í friði. Bara myrða, myrða og myrða. Enginn feluleikur -  ekkert vesen. Engin erfið eiginkona sem tortryggir mann um allt og allan andskotann, engin vinnufélagi sem grunar að maður gangi ekki alveg heill til skógar. Enginn ekki neitt. Bara við Dexter í gúddí fíling að raðmyrða eins og enginn sé morgundagurinn! Það væri svo notalegt!

Þegar svona er í pottinn búið er naflaskoðun líklega löngu tímabær.


29 janúar, 2014

Við Hitler

Ég játa fúslega að ég er einfaldlega að rembast við að halda þessu bloggi lifandi. Hef ekkert að segja en það er einhver djúp þörf - eða ættum við að segja "vilji" - til að skrifa eitthvað. Ríghalda í þennan sið að færa hugsanir í orð.

Málið er bara að ég hugsa mjög sjaldan. Hver hefur eiginlega tíma í þesslags?

Ég hef heyrt þá kenningu - ef kenningu skyldi kalla - að það sé óhollt að hugsa of mikið. Hugsi maður of mikið endar maður taugaveiklaður, jafnvel snarklikkaður, á hæli suður í Reykjavík. Þegar ég hugsa útí þetta - svona as we speak - held ég reyndar að þetta sé fremur almennt viðhorf. Ég veit að sumir foreldrar verða alveg miður sín komi barnið þeirra útúr skápnum sem hommi eða lesbía en það hlýtur að vera jafn erfitt fyrir þesskonar foreldra að barnið komi útúr skápnum sem menntamaður og/eða hugsuður (ekki endilega sami hluturinn - sumir menntamenn hugsa ekki og sumir hugsuðir eru illa menntaðir). 

Æi, hvurn fjandann er ég að blaðra?!

...

Held að vandamálið sé að mér stendur eiginlega orðið á sama um flest allt. Það er fátt sem kemur róti á huga minn. Það eru þá aðallega fréttir af misþyrmingu á dýrum sem hækka blóðþrýstinginn og ég hef reyndar velt talsvert fyrir mér kostum þess að taka upp matarsiði vegan-ismans þ.e. að hætta borða kjöt af siðferðilegum ástæðum. Held ég geti sagt að ég gangi með grænmetisætu í maganum - að minnsta kosti er ég haldinn hugmyndafræðilegu lystarstoli - og einhvern tímann kem ég útúr hinum margumrædda skáp varðandi þesskonar hneigðir. Þetta krefst meiriháttar andlegs styrks enda staða grænmetisæta arfaslök hér austast á útnára þótt ekki sé fastar að orði kveðið. Tala nú ekki um ef grænmetisátið er knúið áfram af dýravelvild. Hugsa að grænfóðursæturnar séu skör ofar pedófílum og fíkniefnaneytendum í hinni daglegu umræðu. Jafnvel bara á pari á slæmum dögunum eins og þegar PETA gerir athugasemdir við hreindýraveiðar.

Dæmi um ástandið:

Frændi konu minnar heyrði þjónustustúlku á kaffihúsinu Sumarlínu á Fáskrúðsfirði tala í símann við yfirmanninn til að tilkynna honum að til sín væru komnir þrír kúnnar í hádegismat (hvers vegna hún ákvað að hringja og segja honum þetta er efni í aðra hugleiðingu) en síðan leiðrétti hún sig: "Já, eða tveir menn og ein grænmetisæta."

Sub-human. Það er það sem við erum. Já, eða untermenschen eins og Adolf sagði. Viðeigandi að nota þýskuna. Hitler var jú grænmetisæta svona eins og mig langar að verða. Hann lét drauminn rætast. Annað en ég. Í þessu liggur munurinn. Munurinn á Hitler og mér. 

28 janúar, 2014

Zombie

Reyðarfjörður leikur Svalbarða í nýjum sjónvarpsþáttum. Það er afskaplega viðeigandi og alls ekki tilviljun.

...

Sef lítið. Hef lítið sofið. Mun sofa lítið. Hef áhyggjur af því hvaða skaða þetta muni valda. Er nú þegar farinn að hugsa sérkennilega. Tel víst að stúlkan sem ber út Moggann veiti mér eftirför. Leggi stein í götu mína við hvert tækifæri. Líður eins og von bráðar komist upp um mig en ég veit samt ekki hvurn andskotann ég hef gert af mér!

Guantanamo var barnaafmæli miðað við þetta ástand. Ætti kannski að líkja þessu við eitthvað annað en barnaafmæli. Skilst að þau séu engin barnaleikur. Finn útúr því seinna. Soon enough myndi ég halda.

Þeir kalla þetta bestu daga lífs þíns. What the...!


16 janúar, 2014

Fortíðin er eins og kunnugleg lykt...

...finnst mér stundum.

Stóð við eldhúsvaskinn í gærkvöldi og sinnti uppvaskinu sem ég var fastráðinn í þegar við Esther byrjuðum að búa. Allt í einu kom yfir mig þessi tilfinning, einhvers konar impression af liðinni tíð. Ég var bara minding my own business, einn heima og svoleiðis og mér finnst stundum eins og þessar tilfinningar herji á mann þá. Veit ekki. Kannski var þetta bara vegna þess að ég var búinn að fá mér einn bjór. Jú, líklega. Líklega var það áfengið sem kallaði fram nostalgíuna. Slíkt hendir. Slíkt hendir...

Allavega. Þetta var góð tilfinning og afleiðingin var sú að ég fór á Spotify og fann gamalt lag sem ég spilaði í ballhljómsveitinni Sívu í gamla daga. Það heitir "In the house of stone and light" en við sungum gjarnan "In the house of stolen light" (ekkert internet til að leiðrétta okkur). Lagið er löngu gleymd og söngvarinn líka - svokallað prímfrat (one hit wonder) if there ever was one. Træbalriðmi, panflautur og self ríflektandi lírík.

Gerist ekki betra.

eXTReMe Tracker