Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 nóvember, 2005

Blaðið

Jæja, ég ætla ekki að þreyta lesendur á frekara blaðri um Dostójevskí og Miles Davis. Komum okkur aðeins niður á jörðina og tölum um Blaðið. Af hverju kemur Blaðið út? Hver er tilgangur þess og hvert er markmiðið? Hvað á það að segja? Ég tók þrjár vaktir á Blaðinu í haust og skildi aldrei hvert raison d'etre Blaðsins var. Það var bara.

Ef Blaðsmenn myndu leggjast í smá naflaskoðun gætu þeir eflaust gert gott blað því þarna starfa ágætir blaðamenn. En núna er það álíka sexí og Vilhjálmur Egilsson.

...

Bubbi forstjóri bara hættur og einhver Samherjagæi að taka við. Hvað er Bubbi að fara gera? Ætlar að hann að reyna meika það í óperuheiminum? Björgvin Valur segir heimsendi í nánd og að bláu dallar Síldarvinnslunnar verði Samherja-rauðir innan skamms...

Nú væri gaman að vera blaðamaður fyrir austan. Þetta er efni í fyrirtaks æsifréttamennsku.

...

Jón Hafliði tók mig í tanntékk í gær og sagði að ég væri með fínar tennur. Þetta hef ég aldrei heyrt áður. Ég er breyskur maður og ofmetnast auðveldlega. Hef þ.a.l. verið á nammifylleríi í allan dag.

Kv.

Knúturinn.

29 nóvember, 2005

Miles

Kiddi segir mig vera haldinn dreifbýliskomplexum þegar ég afsaka lestur á Dostójevskí. Vissulega er ég illa haldinn af slíkum komplexum eins og flestir landsbyggðarvargar í stórborg en ég held að ég hafi nú bara verið með svona tilbúið "self deprication with a pinch of irony" á enskan máta ef ég á að segja alveg eins og er - þetta var fullkomlega merkingarlaust blaður.

Svona geta víst stílvopnin snúist gjörsamlega í höndum þeirra sem ekki kunna með þau að fara og maður kemur út eins og flón. Flón!

(En samt, ef þú værir að labba á strönd í Portúgal og einhver náungi liggur á bakinu og les Stríð og frið er þá ekki hætt við að maður hugsi "djöfulsins viðrini", sparki í miltað á honum og hlaupi síðan burt, skrækjandi eins og lítil telpa með gaddavír í rassgatinu? Vitaskuld er kjallarinn í Furugrund ekki strönd, því fer alveg glymjandi fjarri en samt. En samt!)

...

Var að fá jólagjöf frá Englandi frá jú nó hú (vínk vínk höbba höbba) en Sas er alveg dæmalaust smekkleg hvað snertir val á gjöfum (Ókei. Ég mátti ráða sjálfur í þessu tilfelli). Ég opnaði náttla pakkann og í honum var endurútgáfa af hinu mikla meistaraverki Miles Davis - Bitches brew. Á þessari plötu sagði Miles skilið við formið í bili og platan er nær haftalaus. Eins og gefur að skilja er hún eitt óskiljanlegt kaós. En samt...það er eitthvað við hana.

...

Þegar ég var í félagsfræðinni las ég Foucault mér til skemmtunar. Ég gat lesið heilu kaflana án þess að skilja bofs í manninum en mér fannst samt gaman að lesa hann rétt eins og mér finnst stundum gaman að lesa texta á tungumálum sem ég kann ekki. Maður skynjar eitthvað stórfenglegt.

...

Fyrst þegar ég heyrði Bitches brew skildi ég ekki hvað var um að vera. Var þetta virkilega sami maður og gerði Kind of blue tíu árum fyrr? Engar melódíur og kúlið horfið?! Hvaða rugl var þetta eiginlega!? Var verið að spotta mann eina ferðina enn!?

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið en samt vildi ég hlusta aftur og aftur á plötuna. Eitthvað skynjaði ég.

Ég nota sögnina að "skynja" af yfirveguðu ráði því það er skásta orðið til að lýsa sambandi manns við góða tónlist. Það er þráðbeint og einlægt. Í raun og veru er bjánalegt að skilgreina það því sambandið er ekki vitsmunalegs eðlis. Það er eins og að útskýra ást.

Blaðamaðurinn Ralph Gleason segir þetta miklu betur en ég. Hér á hann við Miles:

"Music is the greatest of the arts...because it cuts through everything, needs no aids. It is. It simply is."

Kv.

Knúturinn.

28 nóvember, 2005

Tryggvi

Krakkafíflin sem veittust að Tryggva Hring um daginn fóru heim til hans í gær og iðruðust samkvæmt fréttum Bylgjunnar. Það er vissulega ágætt og sýnir að þessir drengir hafa samvisku en þvílík og önnur eins hegðun! Ráðast á gamlan mann með vatni og hveiti! Hvílík bíræfni! Óþokkar! Óþokkar! Óþokkar!

...

Fór á Sigur Rós í gær í Laugardalshöll og tónleikarnir fara hiklaust inn á topp 5 listann yfir bestu tónleika sem ég hef farið á. Á tónleikunum heyrði maður hvað nýja platan er nú agalega góð en hefðu þeir gert annað "hvítt albúm" hefði maður gefist upp á þeim. Svigaplatan var nefnilega ekki þung og tormelt eins og sumir segja. Hún var bara leiðinleg.

Topp 5

1. Apparat (Egilsbúð '04)
2. Hálfur undir sæng (Atóm '88)
3. Radiohead (Danmörk '95)
4. David Bowie (Höllin '96)
5. Sigur Rós (Höllin '05)

(6. Morcheeba, UK '01)

...

Upp á síðkastið hef ég verið að lesa Dostojevskí og ekki halda eitt augnablik herrar mínir og frúr að mér finnist þetta ekki tilgerðarlegt líka. Maður á annað hvort að vera löngu búinn að lesa nítjándu aldar rússabókmenntir eða barasta ekki hafa neinn áhuga á því. Maður á alls ekki að lesa þær hér og nú.

Ég hef lokið við Glæp og refsingu og Minnisblöð úr undirdjúpunum og nú undirbý ég mig fyrir Fjárhættuspilarann. Ég hef alla tíð verið hræddur við heimsbókmenntirnar enda var manni kennt í menntaskóla að taka þær svo hryllilega alvarlega að lesturinn gat ekki verið annað en kvöl og pína.

...

Fyrir ári síðan las ég viðtalsbókina við Shane, söngvara Pogues, og í henni er kafli um þá rithöfunda sem hann hefur hvað mest dálæti á. Í kaflanum nefnir hann til dæmis James Joyce en það virðist vera almenn skoðun að Joyce sé höfundur tyrfnustu skáldsagna allra tíma. Shane segir að vilji maður njóta þeirra verði maður að skilja að sögurnar eru í raun drepfyndnar. Þannig nálgaðist ég Dostojevskí, og viti menn, fyndnari bækur hef ég ekki lesið í mörg ár! Ekki síðan ég las Vaxtarverki Dadda held ég hreinlega (eða Ást við fyrsta hikk).

Annars mæli ég með viðtalsbókinni við Shane. Hann er fokkin snillingur.

Kv.

Knúturinn.

25 nóvember, 2005

Idol

Sá Idolið áðan og heyrði í söngkonu (Elfa hét hún held ég) sem á eflaust eftir að ná langt. Hún tók lag sem ég þekkti aðeins lítillega og söng það svo vel að mig setti hljóðan (sem er kannski ekki skrýtið. Soldið lúseralegt að fara ýlfra hér af kæti einn inní stofu). Þjóðin setti hana hins vegar í þriðja sætið sem var einu sæti of neðarlega og hún þurfti að fara heim. Einhver voðalega sæt dúkka og einhver náungi sem vill verða frægur komust áfram. Þetta er ástæðan fyrir því að við þurfum að leggja niður lýðræði og taka upp upplýst einræði.
...

Er að hlusta á bestu plötu shoegazertónlistarinnar, Loveless með My bloody valentine. Fyrir þá sem ekki vita hvað shoegazer er þá er þetta skilgreiningin á Allmusic.com og er alveg bærilega rétt held ég:

"A genre of late '80s and early '90s British indie-rock, named after the bands' motionless performing style, where they stood on stage and stared at the floor while they played. The sound of the music was overwhelmingly loud, with long, droning riffs, waves of distortion and cascades of feedback. Vocals and melodies disappeared into the walls of guitars, creating a wash of sound where no instrument was distinguishable from the other."

Ég hlustaði mikið á shoegazertónlist fyrir fimmtán árum eða svo og var Oxford-kvartettinn Ride í uppáhaldi, sérstaklega platan Going blank again (1992) sem ég og Atli Freyr eyddum ómældum tíma í að pæla okkur í gegnum, báðir nærsýnir náttúrulega og taugaveiklaðir. Þessari stefnu tilheyrðu hljómsveitir eins og Boo Radleys, Lush og Mazzy star en flestar eru gleymdar því tónlistin hefur elst illa ef undanskilin eru nokkur lög og einstaka plötur eins og Loveless sem er miklu meira en bara minnisvarði um löngu liðinn tíma, hún er klassísk rokkplata. Flest þessi bönd voru formúlubönd, lítið skárri en Skítamórall, og héldu að það væri nóg að glápa á gólfið í rifnum fötum, spila á gamlan Rickenbacker og tuða eitthvað í míkrafón. Þess vegna mun þetta djöfulsins pakk rotna í helv...neinei, bara að djóka.

Kv.

Knúturinn.

22 nóvember, 2005

Sælir eru þeir sem eiga ekkert til að læsa inni

Ég læsi alltaf íbúðinni minni en samt á ég ekkert sem nokkur maður hefur áhuga á að stela. Ég læsi bara af gömlum vana. Þetta breyttist í fyrradag þegar ég eignaðist í fyrsta sinn á ævinni alminnilega kaffivél. Núna drekk ég kaffi sem jafnast á við það sem maður fær á bestu kaffihúsum. Mmmmm...

Núna læsi ég íbúðinni ekki af pjúra skyldurækni og ég hef jafnvel íhugað þann möguleika að yfirgefa hana aldrei framar. Ég þarf ekki á neinu að halda þarna fyrir utan. Kjallarinn er mín paradís og mín líkkista ef svo ber undir.

18 nóvember, 2005

Föstudagsspjallið

Færsla dagsins er tileinkuð Leonard Cohen.

Ég mundi nefnilega allt í einu eftir einu Cohen-tengdu atviki sem átti sér stað í Tónspil jólin í hitteðfyrra. Það var Þorláksmessa og klukkan var að verða fjögur. Búðin var full af stressuðum viðskiptavinum og kallinn bað mig um að setja eitthvað fóninn.

Ég var orðinn hundleiður á öllum þessum helvítis jólalögum og skellti gulu safnplötunni með Cohen á fóninn. Mig minnir að það hafi verið Hildur Þórðar sem sagði að mikið væri gott að heyra eitthvað annað en Jólahjól og ég fylltist einhverri barnslegri gleði sem allir mússíknördar fyllast þegar þeim er hrósað fyrir góðan smekk.

En bossinn var ekki sammála. Fyrsta lag plötunnar, Suzanne, var um það bil hálfnað þegar hann slökkti og reif diskinn úr spilaranum. "Var ætlunin að drepa alla úr þunglyndi?" spurði hann og skellti einhverri jólaplötu með Jethro Tull á fóninn. "Flottar fraseringar, ha?" sagði hann síðan þegar fyrsta lagið komst af stað með látum. Og jú, þetta hafði æsandi áhrif á fólkið sem keypti meira fyrir vikið. Kallinn veit nú sínu viti er kemur að sálarfræði viðskipta og kaupsýslu.

Hvað um það. Ég er að hlusta á I'm your man og á henni er lagið Tower of song. Svona eru fyrstu tvö versin:

Well my friends are gone and my hair is grey. I ache
in the places where I used to play. And I'm crazy
for love but I'm not coming on. I'm just paying my
rent everyday in the Tower of song.

I said to Hank Williams: How lonely does it get?
Hank Williams hasn't answered yet. But I hear
him coughing all night long, a hundred floors
above me in the Tower of song.

Ekki skil ég þennan texta en ég skynja einhverja alveg glymjandi einveru í honum.

Góða helgi.

Knúturinn.

ES. Steinunn: Ég skal alveg hjálpa til í merkjaframleiðslunni. Hringdu bara.

17 nóvember, 2005

Kona og pönk

Þátturinn um pönkið í sjónvarpinu í gær var skemmtilegur en þar var fjallað um sögu pönksins og hvernig það hefur þróast undanfarin þrjátíu ár. Niðurstaðan var fyrirsjáanleg: Það var mat flestra sem talað var við að saga pönksins, frá MC5 til Green day, væri saga útþynningar. Þetta segjum við um alla hluti þegar við erum komin yfir þrítugt, heimur versnandi fer og allt það. Mér finnst allavega Green day flottir.

...

Það besta við pönkið finnst mér þetta heilbrigða viðhorf að gera bara hlutina (málið er ekki hvað þú getur heldur hvað þú gerir) og hugsa ekki útí afleiðingarnar. Í pönkinu var líka viðurkennt að til þess að koma sumum skilaboðum á framfæri þarf að hrista upp í fólki til og hneyksla það. Þessu trúi ég og fíla þess vegna hneykslunarartista eins og Andy Kaufman, Sverri Monster og DV. Veit samt ekki stundum hvaða skilaboð þeir eru að senda.

...

Sit hér og hlusta á Konuna hans Bubba. Þetta er ein af mínum eftirlætis "uppgjörs" plötum en á henni gerir hann upp við skilnað og dóp eins og þið vitið eflaust. Hefði Bubbi bara gert þessa plötu hefði það engu breytt. Allir eru sammála um að hún er sannkallað meistaraverk og Bubbi væri kóngur enn þann dag í dag.

En væri Kona hins vegar bók eftir Lindu P. eða einhverja svoleiðis yrði hún úthrópuð sem kerlingabókmenntir - soldið furðuleg tenging kannski en þið vitið hvað ég á við. Tónlistarmenn mega nefnilega vera miklu opinskárri um eigið líf án þess að vera sakaðir um tilfinningaklám. Þeir eru bara einlægir. Hvernig stendur á þessu?

16 nóvember, 2005

Sögur úr stríðinu

Það var gaman að hlusta á Mörð og Erp ræða um íslenska tungu í Kastljósinu áðan þó vissulega hefði viðtalið haft meira skemmtigildi ef fengið hefði verið eitthvert viðskiptafífl gegn Merði. Þau vilja nefnilega sum taka upp ensku af því að hún arðbærari en íslenskan.

Ekki að ég sé neinn sérstakur málfarsfasisti, síður en svo. Hef hreinlega ekki efni á því.

...

Mörður er góður náungi og einn skemmtilegasti frambjóðandinn sem ég kynntist í Samfylkingarvinnunni. Hann var allavega tvímælalaust sá duglegasti og virtist alltaf vera tilbúinn að láta teyma sig hvert sem er, gefa blöðrur og segja halló við börn.

...

Einu sinni rétt fyrir kosningar voru Ungir jafnaðarmenn að hefja auglýsingaherferð í sjónvarpinu þar sem m.a. frasinn "Ódýrari bleyjur" var notaður en ég íhugaði alvarlega að ganga út þegar ég sá að þetta var helsta stefnumál ungra jafnaðarmanna. Ég skipti kannski um skoðun seinna á ævinni en þangað til er ég algerlega á móti því að ungir foreldrar fái frítt spil í þessu þjóðfélagi. Hvað þá einstæðar mæður!

...

Allavega, einhvern veginn grunaði mig að "bleyja" væri vitlaust stafsett. Ég hringdi í Mörð og bað hann um að stafsetja orðið fyrir mig en hann var í Kringlunni að gefa blöðrur og tala við kjósendur. "B - L - E - I - A" sagði hann og skellti á. "Bleyja" var stafsett "bleia" eins og ég hélt.

Ég kom þessum skilaboðum áleiðis til kosningastjóra UJ sem trúði mér ekki í fyrstu en þegar ég sagðist hafa hringt í móðurmálsfræðing Samfylkingarinnar til að dobbultékka þetta dreif hann sig af stað til bjarga málunum en auglýsingin átti ekki að fara í loftið fyrr en daginn eftir. Það er skemmst frá því að segja að það var um seinan að breyta þessu. UJ vildi ódýrari bleyjur en ekki bleiur.

Þetta gerðist fáeinum dögum fyrir kosningar og stressið var orðið talsvert á skrifstofunni. Ég gleymdi þessu máli því um leið en einhvern veginn vissi framkvæmdastjórinn af þessu og hringdi í mig eftir miðnætti til að forvitnast um þetta “bleiumál” svokallaða. Ég hafði hreinlega ekki hugmynd um hvað hann var að tala og hélt í fyrstu að mér hefði sést yfir eitthvað gríðarlegt "bleiumál" í fjölmiðlum en eitt af verkefnum mínum var að vakta pressuna.

...

Þetta var þó ekki vandræðalegasta málið sem tengdist áróðursdeildinni í kosningabaráttunni. Áður en stóru mótmælin gegn Íraksstríðinu voru haldin á Lækjartorgi höfðum við látið merkjaframleiðanda útí bæ útbúa svona písmerki fyrir okkur, þið vitið, þetta fræga, og ætlunin var að allt Samfylkingarkrúið bæri slíkt merki á fyrsta degi mótmæla einhvern tímann í mars. Þegar dagurinn rann upp mætti Flosi Eiríks með fullan kassa af glænýjum písmerkjum sem við settum á okkur stolt enda fjandi fín merki. Svo tók allt skrifstofuliðið sér frí og dreif sig á Lækjartorg til að mótmæla. Sannir hippar.

Þegar ég var kominn inn í þvöguna hitti ég vinkonu mína og vinstrimanninn Kötu Odds. Hún tók strax eftir merkinu sem ég hafði sett á húfuna mína og hrósaði mér alveg sérstaklega fyrir það. En þegar hún skoðaði það betur fannst henni þetta eitthvað skrýtið. “Getur verið að þetta sé Benzmerkið,” sagði hún hikandi en það vantaði einn mikilvægan legg í það svo það gæti talist písmerki. Þetta var hægt að sannprófa með því að horfa í kringum sig því margir mættu með písfána niðrí bæ.

Ég fór aftur á skrifstofuna en þegar ég kom var framkvæmdastjórinn þegar mættur og sat við skrifborðið sitt hugsi og augljóslega pirraður.

“Heyrðu, þetta er ekki písmerkið,” sagði ég en einhverra hluta vegna finnst mér alveg sérlega gaman að flytja slæmar fréttir.

“Ég veit það,” hreytti stjórinn útúr sér en hann hafði farið inn á Fridur.is til að sjá hið eina og sanna písmerki. Í kjölfarið var öllum merkjunum safnað saman og send aftur til framleiðanda. Allir voru sammála um að fá Stefán Páls og Steinunni í verkið næst. Það þarf vart að taka fram að engum fannst þetta fyndið fyrr en eftir kosningar.

Kv.

Knúturinn.

15 nóvember, 2005

Segðu nei við fíkniefnadjöfulinn!

Ég var eiginlega alveg búinn að gefast upp á Strákunum því þeir hafa verið ótrúlega leiðinlegir upp á síðkastið - svona þreytandi kúk og piss-grín. En þátturinn í kvöld sýndi að einn þeirra er ótvíræður snillingur. Túlkun Péturs J. Sigfússonar á Jóni Ársæli í Sjálfstæðu fólki var viðbjóðslega fyndin og í fyrsta sinn í langan tíma hló ég upphátt yfir einhverju í sjónvarpinu. Þetta er mikið afrek hjá Pétri því ég er sterka þögla týpan eins og lesendur vita.

...

Heimildarmyndin hans Reynis Trausta um andskotans helvítis fíkniefnadjöfulinn var í sjónvarpinu áðan. Myndin átti að varpa ljósi á orsakir fíkniefnaneyslu hjá ungu fólki en ég var engu nær í lok myndarinnar. Ég hef ekki hugmynd um af hverju fólk misnotar vímuefni. En kannski var það punkturinn hjá Reyni: Það er ekki til nein töfralausn. Og miðað við sögu þessa fólks sem Reynir ræddi við má líka spyrja hvort það sé ekki ofur eðlilegt að sumt fólk noti dóp. Hvað finnst ykkur? Eigum við að starta alvöru umræðum svona einu sinni?

...

Bíð samt eftir að einhver geri mynd um miðaldra piparsveina sem detta í það um hverja helgi á Næsta bar og eru starfsfólki og öðrum gestum til ama og leiðinda. Brjóta að vísu engar hnéskeljar nema ef til vill sínar eigin þegar þeir rúlla eftir lokun niður Bankastræti í átt að leigubílaröðinni.

...

Fékk þetta komment í gær frá vini mínum sem vill meira blogg: "Vika liðin og þú þegir, ertu dauður eða málbein þitt brotið, kannski búinn að kynnast draumadísinni; mellu sem þolir þinn pervertisma og heimtar ekki greiðslu í hvert sinn?"

Svarið við spurningunni er nei. Ég hef ekki enn fundið mellu sem er til í tuskið endurgjaldslaust. En mér þætti vænt um að fá fleiri athugasemdir og spurningar í þessum dúr.

Kv.

Knúturinn.

11 nóvember, 2005

Nördar

Skrapp í 12 tóna í morgun til að kaupa ammilisgjöf handa vini mínum. Á meðan ég leitaði í djassrekkanum heyrði ég afgreiðslumennina rífast um gæði eða gæðaleysi á einhverjum bútleggum með John Coltrane. Þegar annar þeirra sá mig loksins benti hann mér á tíu titla sem væru mjög "heppilegir" og ég endaði með því að kaupa eitthvað sem "kikkar alveg rosalegan rass" eins og kallinn orðaði það.

Þegar ég vann í Tónspil jólin í hitteðfyrra þá mátti ég alls ekki bjóða fram aðstoð að fyrra bragði og kallinn tók mig afsíðis þegar hann sá mig fremja slíkan glæp á mínum fyrsta degi. "Jón, við erum ekki í Skífunni. Ef fólk vill aðstoð þá biður það um aðstoð," sagði hann mæddur.

Ég er sammála honum að því leyti að það er ekkert gaman þegar liðið í stóru búðunum byrjar að bögga mann en í litlum holum eins og Tónspil og 12 tónum finnst mér eitthvað svo kjút þegar afgreiðslumennirnir eru taugaveiklaðir besservisserar sem geta hvergi annars staðar fengið vinnu.

Góða helgi.

Knúturinn.

10 nóvember, 2005

Buk

Ég hef ósköp lítið að segja en í stað þess að þegja ætla ég að skilja ykkur eftir með brot úr ljóðinu As the sparrow eftir Charles Bukowski. Ljóðið er í bókinni The days run away like wild horses over the hill - bókatitlar verða ekki mikið flottari, ha? Bukowski var snillingur í að búa til flottar setningar sem þýddu svo mikið. Annað dæmi: You get so alone at times it just makes sense. Flott, ha?

Menn kalla Bukowski dónakarl og töffara og það má vel vera en hann hafði raunverulegt og meðfætt innsæi. Hann er ástæðan fyrir því að ég nenni að lesa skáldskap.

I am old when it is fashionable to be young.
I cry when it is fashionable to laugh.
I hated you when it would have taken less courage to love.

Skál!

09 nóvember, 2005

Öfund

Árið 1993 skiptist heimurinn í tvennt: Norður og Suður. Suðrið var auðvitað kúgað af Norðrinu þá eins og nú. Hryllilegt barasta! Hryllilegt!

En ég missti samt engan svefn. Ég var átján og heimurinn MINN skiptist í þá sem sváfu hjá og þeirra sem ekki sváfu hjá. Ég lá andvaka yfir þessu. Hvenær kemur röðin að mér, spurði ég sjálfan mig og vonaði heitt og innilega að stefnumótið sem besti böddíinn fór á um kvöldið myndi enda með niðurlægingu en ekki fullnægingu.

Ég hitti hann daginn eftir í skólanum. Hann leit ekki út eins og maður sem drífur sig framúr eldsnemma og fullur tilhlökkunar að hitta vinina með sögur af sínum fyrsta sigri. Þessi maður fór framúr af pjúra skyldurækni og leið augljóslega ofboðslega illa.

Þvílíkur léttir! Þetta kallaði sko á veisluhöld. Ég skrópaði í skólann það sem eftir var dags, fór niðrí bæ og keypti mér ís í brauði. Mér leið dásamlega þó ég væri enn hreinn sveinn.

08 nóvember, 2005

Manía

Ókei. Látum það flakka: Fyrir hádegi ætla ég að lesa HKL, Þórberg og Guðberg komplett. Síðan ætla ég að hringja í nokkra ritstjóra og bjóða fram aðstoð svo ég geti komist austur um jólin. Þá ætla ég að taka til í holunni og kaupa kjúklinga á tilboði í Bónus. Eftir hádegi ætla ég að finna mér kærustu og eignast með henni þrjú börn. Það fyrsta á að heita Gunnar eða Guðríður og hin eiga að heita einhverjum tilgerðarlegum white trash nöfnum eins og Kaktus eða Jordan - ég meina why not? Ef ég hef tíma ætla ég að hanna og smíða tímavél. Rokk and roll!

Kv.

Knúturinn.

07 nóvember, 2005

Kvikmyndahátið

Ég frétti í gær að það væri kvikmyndahátíð í gangi. Er einhver hérna inni sem hefur séð eitthvað gott? Á maður að sjá eitthvað á þessari hátíð?

Annars er merkilegt að það sé eingöngu hægt að sjá góðar myndir á kvikmyndahátíðum á Íslandi. Á milli þeirra er bara sýnt amerískt djönk og það virðast ekki vera nein takmörk fyrir lágkúrunni. Þetta kann að hljóma sem eitthvað hámenningarsnobb og það getur vel verið. Þetta lágmenningarsnobb gekk útí öfgar fyrir löngu.

...

Í Leicester var svona menningarmiðstöð sem ég heimsótti að minnsta kosti tvisvar í viku. Ég sakna hennar næstum því jafn mikið og ég sakna bresku matseldarinnar (fari þeir til helvítis sem ekki fíla breskan pöppamat).

Þarna kynntist maður köllum eins og Luis Bunuel, Akira Kurusawa og reyndar kynntist ég þarna Coenbræðrum en á þessum árum voru þeir ekki enn orðnir sellát hórur. Í hverri viku sá maður virkilega góða mynd sem eru verulega vanmetin lífsgæði. Hvenær sáu þið síðast svo góða mynd að hún gat kennt ykkur eitthvað um ykkur sjálf? Þetta er mjög óalgengt.

Eftirminnilegasta myndin sem ég sá var "That obscure object of desire" sem er síðasta myndin sem Bunuel leikstýrði. Hún fjallar um raunir eldri manns sem eignast unga kærustu sem vill ekki ríða og ef maður vill setja sig í freudískar stellingar þá fjallaði myndin væntanlega um kaþólsk samfélög og kynferðislega bælingu.

Allavega, svo trúverðug fannst mér frústrering gamla mannins að ég gat fullkomlega sett mig í spor hans. Það þurfti annan mann til að segja mér að það út af fyrir sig væri áhugavert. Ég var bara tuttugu og fimm ára gamall.

...

Rétt eins og í skíðamiðstöðinni í Oddsskarði var allur aðbúnaður til fyrirmyndar í menningarmiðstöðinni í Leicester. Sætin voru slitin en þægileg og af þeim stafaði staðin bjórlykt. Mig minnir að hljóðkerfið hafi verið eitt hátalarabox, kannski tvö, og maður mátti taka með sér bjór á sýningarnar. Og gott ef það mátti ekki reykja líka. Þegar sýningu lauk fór maður beint á barinn og hrundi í það. Í Bretlandi gat maður verið alvöru bóhem.

Kv.

Knúturinn.

03 nóvember, 2005

Þorgeir

Hef aldrei verið mikið fyrir íslenska rithöfunda en í gær var mér gefin bók eftir Þorgeir Þorgeirsson, skáld og kvikmyndagerðarmann, sem lést fyrir nokkru. Bókin er hreint afbragð og kannski maður byrji að kynna sér hvað landar manns hafa verið að bardúsa undanfarnar aldir.

Þá byrja ég að vinna hjá Landspítalanum í dag sem "starfsmaður" hvað sem það nú er. Hvað eru þá læknarnir ef ekki starfsmenn?

Kv.

Knúturinn.

02 nóvember, 2005

Kritík

Þessi dómur fór til Blaðsins í dag en ég veit ekkert hvort þeir birti hann. Lesendur Knútsins fá hann auðvitað óköttaðan.

Kv.

Knúturinn

Hlýlegur Bjartmar

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan söngvaskáldið Bjartmar Guðlaugsson var eftirlæti þjóðarinnar fyrir tuttugu árum eða svo. Lög eins og Sumarliði er fullur, Týnda kynslóðin og Ég er ekki alki eru fyrir löngu orðin klassísk, svo klassísk að menn hafa gleymt því hver samdi þau - þau eru orðin þjóðlög. Á þessum karíókítímum sem við lifum á trúir maður því varla að hann hafi notið slíkra vinsælda og því miður urðu þær til þess að allt sem hann hefur gert síðan hefur hlotið of litla athygli. Maðurinn hefur nefnilega nóg að segja.

Fyrir tveimur árum fréttist að Bjartmar væri fluttur aftur heim til Austurlands, nánar tiltekið á Eiða, og þar ætlaði hann iðga bæði myndlist og tónlist í friði frá skarkala höfuðborgarinnar. Afsprengi Austurlandsverunnar er ný plata sem ber óvenju dramatískan titil: Ekki barnanna beztur.

Aðalsmerki Bjartmars hafa alltaf verið textarnir og af þeim að dæma hefur maðurinn, sem stimplaður var raunsæispoppari á sínum tíma, minnkandi áhyggjur af því sem miður fer í samfélagi mannanna. Líkt og fyrirmyndir hans, þeir Dylan og Young, horfir Bjartmar inn á við í dag. Það er ólíklegt að sá Bjartmar sem flestir þekkja, sá kaldhæðni og en þó ekki alveg kaldranalegi, hefði getað samið fyrir tuttugu árum texta sem hljómar svona:

“Ekki barnanna beztur hvíslar bæjarmórallinn, og hann hvíslar og hann hvæsir, eins og stóra ástin mín.” Og maður veit að hann er að syngja um sjálfan sig. Þá gerir hann upp árin í höfuðborginni í laginu Reykjavík (í hundrað og einum): “Ég hef lifað ljúfa daga í daðrinu við þig. En aldrei verið sjúr á hvort þú elskir mig. Aldrei verið sjúr.” Þessi lög og fleiri eru lýsandi fyrir plötuna. Þau eru persónuleg en Bjartmar nálgast þau á sinn hátt sem forðar þeim frá því að verða væmin.

Söngvaskádið vinstrisinnaða er náttúrulega ekki hætt að gagnrýna markaðsþjóðfélagið og hann er síður en svo hættur að vera raunsær þegar hann fjallar um æskuslóðirnar austur á landi. “Jú, menn sóttu sjó, æ, einn og einn dó. Þetta var enginn blús,” syngur hann og hljómar ekki ósannfærandi. Honum er fúlasta alvara.

En helsti styrkur plötunnar felst í þessum persónulega blæ sem einkennir hana. Fyrir vikið er hún hlýleg sem er líkast til besta orðið til að lýsa henni og fágaður akústískur undirleikur gerir þennan persónulega blæ enn greinilegri. Bjartmar hefur gert ljúfa plötu í blíðunni fyrir austan og vonandi heldur hann áfram að horfa inn á við og lækna gömul sár á næstu plötu. Það fer honum best.

The tyranny of choice

Fékk póst frá spænskum vini mínum í morgun. Hann býr í Brasilíu og vill að ég komi í heimsókn til sín næsta sumar. Hann lofar góðu víni og góðu grasi. Hann getur reykt sitt gras sjálfur en ég er til í hitt.

Núna verður maður sumsé að ákveða hvort maður taki heilsurækt á Hornströndum eða úrkynjun í Rio næsta sumar. Hmmm...bara ef öll manns vandamál væru nú njörvuð niður með þessum hætti - í baráttu á milli góðs og ills. Á maður kannski að rækta garðinn sinn heima?

...

Vinur í raun: Heyrðu, ég sá þína fyrrverandi í Bónus í gær. Hún sagðist sakna þín og bað mig um að spyrja hvort þú værir ekki til í að hringja. Hún verður heima í kvöld.

Vinur á bömmer: Í alvöru?

Vinur í raun: Nei, ég var bara að grínast. Ég sá hana reyndar á Hverfisbarnum um helgina og hún var að skemmta sér með einhverjum fótboltastrákum. Hún virtist mjög drukkin.

...

Vinur í raun: Vertu ekki svona dapur. Vinkona systur minnar segir að þú sért soldið líkur Pierce Brosnan.

Vinur á bömmer: Í alvöru?

Vinur í raun: Nei maður, hvers konar sauður ertu?

...

Í dag finnst mér þetta vera tíu bestu plötur allra tíma:

Time out of mind/Dylan
Blood on the tracks/Dylan
Hejira/Joni Mitchell
In a silent way/Miles Davis
Harvest moon/Neil Young
Love is hell/Ryan Adams
Boatman's call/Nick Cave
Sticky fingers/Stones
Songs of faith and devotion/Depeche mode
Born to run/Springsteen

Bónus:

Kona/Bubbi

Kv.

Knúturinn.

01 nóvember, 2005

Another place, another time

One by one they're turning out the lights
I've been feedin' that ol' jukebox just to hold you tight
I guess its for the best I just put in my last dime
I heard you whisper "We'll meet again, another place, another time"
Chairs are stacked all over tables its closing time they say
I could wait right here forever if they'd only let me stay
Anywhere would be much better than the lonely room of mine
Through a lonely night a waitin' for
Another place, another time

(The Killer)

Landsbyggðarvargurinn Jerry Lee talar tungumál sem Knúturinn skilur. Og allir saman nú: Jerry á Neistaflug! Jerry á Neistaflug! Jerry á Neistaflug!
...

Skrifað undir áhrifum áfengis og Simons Pegg.

Sögusviðið er veitingastaðurinn 22 í 101 Reykjavík. Tveir vinir spjalla. Annar er á bömmer, hinn er að hjálpa til eftir bestu getu. Klukkan er fjögur og þrír bjórar eru komnir í hvorn maga. Barþjóninn er að spila uppáhalds tónlistina sína. Sennilega eitthvað með Gus Gus.

Vinur í raun: Mér þykir of vænt um þig til að koma með einhverjar klisjur en himnarnir hrynja ekki þó hún sé farin. Lífið heldur áfram og það eru fleiri fiskar í sjónum. Þú verður að líta á þetta sem nýtt tækifæri, ókei?

Vinur á bömmer: Takk, þú ert besti vinur sem ég hef átt.

Kv.

Knúturinn.

ES. "Ja, danke-ties" hugmyndin í síðustu færslu kom frá breska þættinum Brass eye. Þetta finnst mér svo mikil snilld að maður verður eiginlega að uppljóstra um heimildarmenn.

eXTReMe Tracker