Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 október, 2005

Ísbjarnarblús

Skrapp á pöbbinn með Sas í gær. Hún getur drukkið fimm til sex bjóra án þess að það sjái á henni en það er fyndið þegar áhrifin koma í ljós. Allt í einu fer þessi fágaði Englendingur, sem talar lýtalausa ensku og er með orðaforða á við Oscar Wilde, að tuldra eins og einhver Austurbæingur í London. Hún verður að endurtaka allt sem hún segir að minnsta kosti tvisvar sem fer í taugarnar á henni.

Annars fór hún í dag og kemur ekki aftur - allavega ekki til að heimsækja mig. Úti er ævintýri.

(Stelpur, þið getið myndað tvöfalda röð fyrir utan Furugrund 32 á laugardagsmorgun. Áheyrnarpróf fara fram frá klukkan 13 til 17.)

...

Á pöbbnum voru alvöru Írar að spila alvöru írska þjóðlagatónlist. Í pásu spilaði barþjónninn síðan einhverja safnplötu með svona ninetieshitturum og allt í einu mundi ég að tíundi áratugurinn var mun gjöfulli en sá níundi. Svona popplega séð voru the nineties meira svona póstmódernískir "Ja, danke-ties" ef þið skiljið hvað ég á við. Allt var leyfilegt og allir voru að farast úr íroníu.

Dæmi:

1. Bono byrjaði að ganga með sólgleraugu en hann meinti það náttúrlega ekki. Hann var bara að hæðast að rokkstjörnum sem ganga með sólgleraugu 24/7. Hann byrjaði að reykja smávindla en hann meinti það ekki heldur. Þetta voru háðskar reykingar.

2. Ég byrjaði loksins að dansa á dansleikjum en á kvöldvökum níunda áratugarins kom það ekki til greina. Ég meinti samt ekkert með dansinum. Ég var bara að hæðast að hinum fávitunum sem dönsuðu með lokuð augu eins og asnar við undirleik Sálarinnar hans Jóns míns. Minn dans var svo ýktur að það átti ekki að fara framhjá neinum að ég var ekki raunverulega að skemmta mér. Dansinn var athöfn, tákn um fyrirlitningu mína á plebbisma sem Stefán Hilmarsson og Guðmundur Jónsson stóðu fyrir. Þetta var háðskur dans, ójá.

"Ja, danke-ties" voru flóknir og lærdómsríkir tímar. Ég sakna þeirra.

...

Eitt af lögunum sem ég heyrði var M-lagið með Crash test dummies. Þetta lag var á plötunni God shuffled his feat sem kom út snemma árs 1993 og M-lagið var aðal hittarinn þá um sumarið. Þetta sumar var ég vélamaður í frystihúsinu í Neskaupstað. Ég hausaði, flakaði og roðfletti fisk í tíu tíma á dag og á meðan verkstjórinn leyfði það hlustaði ég á plötuna í vasadiskóinu mínu. Ég fílaði þessa melonkólíu í tætlur: "Once there was this kid who got into an accident and couldn't come to school..."

Ef verkstjórinn þurfti að ná sambandi við mann notaði hann öflugt vasaljós og beindi geislanum beint í augu manns og splittaði þannig heilabúinu í tvennt á fljótlegan og arðbæran hátt. Þetta var auðvitað skepnuskapur en hver sagði svosem að frystihúsvinna væri dans á rósum?

...

Einhvern tímann í júlí gafst hann upp á þessu (kannski týndi hann vasaljósinu) og bannaði okkur að vera með vasadiskó. Þetta gerði vinnuna enn óbærilegri og var hún þó slæm fyrir. Í tíu tíma þurfti maður að hlusta á taktfastan riðma í vélunum sem fylgdi manni síðan í bólið um kvöldið. Maður sofnaði og hjartað í manni sló á sama hraða og vélarnar. Draumarnir fjölluðu um aftökur. Ég var böðullinn.

...

Trúið mér, sumir öfunduðu mann af því að vera vélamaður. Maður fékk hvítan heilgalla (nokkurs konar einkennisbúningur hausarans) sem var hneppt að aftan og ég og Palli norski áttum okkur þann draum heitastan að vinna heilan dag naktir innanundir honum. Svona órar héldu manni gangandi eftir að vasadiskóin fengu að fjúka. Og það var þessi öfund sem gerði það að verkum að maður vildi alls ekki missa hausarastarfið. Eins og börn hugsuðum við sem svo að fyrst að aðrir vildu djobbin okkar væri sennilega best að ríghalda í þau.

...

Ég fyllist oft nostalgíu þegar ég hugsa um gömlu sumarstörfin. Ég á til dæmis ljúfar minningar um sumarið '91 í þegar ég vann í bátastöðinni og ég á yfirleitt ekki erfitt með að kreista fram bros þegar ég hugsa um árin í netagerðinni. Þetta voru ekki skemmtileg störf en maður vann með og talaði við snillinga eins og Sidda, Sigga Sal og Jónsa allan daginn. Það var ekki leiðinlegt.

Innskot. Einu sinni fílaði ég mig svo vel í netagerðinni að ég spurði Jónsa hvort ég ætti ekki bara að fara á samning hjá honum. Hann hristi hausinn og spurði hvort ég væri eitthvað ruglaður. Ég skildi þessa athugasemd aldrei. Var hann að gera lítið úr mér eða...?

...

En ég fyllist bara skelfingu þegar ég hugsa um frystihússumarið '93. Ég get ekki sagt neitt gott um þessa vinnu. Hún var einfaldlega gríðarlega niðurdrepandi og yfirnáttúrulega leiðinleg. Og ef einhver pólitískt rétthugsandi fáviti heldur að ég sé með þessu að tala illa um fólkið sem vinnur þessi störf má sá hinn sami fá sér í glas og skella sér á rúntinn mín vegna. Ég þekki ágætis fólk sem flakar og snyrtir fisk alla daga en ég hef aldrei heyrt það segja að þarna hafi það loksins fundið sína hillu eða sitt draumastarf.

...

Allir eru uppfullir af því að það sé merkileg reynsla að vinna í frystihúsi. Það er örugglega satt og rétt. En það var líka merkileg reynsla að vinna sem gjaldkeri í banka. Aldrei hefur nokkur maður spurt mig hvort það hafi ekki verið góð reynsla. Menn spyrja frekar hvort mér hafi ekki örugglega fundist djobbið "soldið hommalegt".

Hvað um það. Ég heyrði M-lagið og þetta var það sem ég hugsaði þar til Sas spurði mig hvort mér liði eitthvað illa. Allt er auðvitað í lagi sagði ég. Allt er í allrabesta lagi. Ég ætla nefnilega aldrei, aldrei, aldrei aftur að vinna í frystihúsi SVN.

Kv.

Knúturinn.

25 október, 2005

Dauðinn

Bara örstutt af því að ég er að drepast. Var að taka bloggrúnt dagsins og besti og frægasti tengdasonur Norðfjarðar heldur því fram á sinni síðu að belgíski Eurovisionfarinn Sandra Kim sé lifandi - ég hélt að hún væri dauð alveg eins og ég hélt að Bret Easton Ellis væri dauður. Leiðinlegt þegar veröld manns hrynur um eittleytið á þriðjudögum. Ömurlegt.

Ekki láta mig vita ef þið komist að því að Corey Haim sé lifandi. Í mínum huga er hann dauður, steindauður.

Knúturinn.

24 október, 2005

Fuglaflensa

Bloggið fellur niður næstu daga. Er kominn með þessa helvítis pest sem allir eru með. Þvílíkur viðbjóður.

Lag vikunnar: Flame of the west með Big country.

Kv.

Knúturinn.

21 október, 2005

Steikt hnetusmjörssamloka að hætti Elvis

Hvernig væri að hreinsa allt grænmeti úr ísskápnum og henda því í hundinn? Hvernig væri að prófa hnetusmjörssamloku að hætti Elvis og þyngjast aðeins?

Þið þurfið:

Einn banana

Tvær brauðsneiðar (fransbrauð)

Þrjár matskeiðar af hnetusmjöri

Tvær matskeiðar af smjöri (alvöru smjör, ekkert helv. Létt og laggott)

Svona gerir maður:

1. Stappið bananann.

2. Ristið brauðsneiðarnar.

3. Smyrjið aðra sneiðina með hnetusmjörinu og hina sneiðina með bananamaukinu.

4. Bræðið smjörið á pönnu og steikið samlokuna þar til hún er "golden brown" á báðum hliðum.

Berið samlokuna fram heita og gott er að drekka kakó með. Verði ykkur að góðu.

Lag dagsins: Are you hungry tonight?

Kv.

Knúturinn.

20 október, 2005

Synir Agga

Í gær stofnaði ég hljómsveit með Einari Solheim og (da brudders) Láka og Bjarna. Ég vil að hljómsveitin heiti Synir Agga og að við presenterum þá bræður sem nokkurs konar kyntákn hljómsveitarinnar. Ég er viss um að Einar er alveg til í að vera í aukahlutverki með mér. Ég sé þetta fyrir mér:

1. Listrænt metnaðarleysi hljómsveitarinnar verður strax til þess að við náum miklum vinsældum. Þegar fyrsta lagið okkar nær efsta sæti Bylgjulistans segja popp-intellektúallar, eins og Dr. Gunni og Jónatan Garðars, að lágmenningarsnobb hafi náð hámarki. Í samanburði við Syni Agga hljómi allt eins og hámenning.

2. Synir Agga vaða í kerlingum og dópi. Bjarni og Þorlákur leysa Halla og Ladda af sem frægustu bræður Íslands.

3. Synir Agga fara að rífast út af a) konum b) peningum c) dvergum. Og við þetta bætist að sjálfsögðu tónlistarlegur ágreiningur. Bjarni vill meira bítl en Þorlákur vill "pönka" þetta soldið upp.

4. Synir Agga hætta með látum og Þorlákur lætur hafa eftir sér í Séð og heyrt: "Ég er loksins frjáls!"

5. Synir Agga gefa út sólóplötur sem floppa.

6. Synir Agga koma aftur saman enda var heildin meiri en summa einstaklinganna. Þorlákur lætur hafa eftir sér í viðtali við Séð og heyrt: "Ég elska hann og hinir eru fínir líka."

...

My good friend Siggi Óla er þrjátíu og eins í dag. Til hamingju með daginn, bró!

...

Í bókinni sem fylgir með Best of Ultravox eru liner notes eftir Midge Ure. Þar segir hann að Dancing with tears in my eyes sé um mann sem á skammt eftir ólifað. "Hvað gerir maður sem er að deyja?" spyr Midge, leyndardómsfullur og einlægur í senn. Og ekki stendur á svari hjá þessu mikla eightiespoppíkoni: "Hann dansar við uppáhaldslagið sitt."

Midge, you are a wisdomizing genius.

Kv.

Knúturinn.

19 október, 2005

Born to run

Born to run, hið mikla meistaraverk Springsteens, er að koma út í þriðja sinn á geislaplötu. Þetta er þrjátíu ára afmælisútgáfa og ég ætla rétt að vona að Keli bróðir gefi mér hana í jólagjöf. Í staðinn fær hann eitthvað með Michael Schenker Group.

...

Annars er lítið að frétta af þessum vígstöðvum. Mig langar til að taka til í kjallaranum en ég er hræddur um að þá missi hann þennan sjarma sem hann hefur þegar bækur eru alls staðar nema í bókahillum, drullugir bollar í tugatali á eldhúsborðinu, dauður köttur í eldhúsvaskinum og óhreina tauið á gólfinu.

Lag dagsins: Dancing with tears in my eyes með Ultravox. Það er eitthvað við þetta lag sem grætir þrítugan doktorsnema.

Knúturinn.

18 október, 2005

Madness

Ég er þreyttur og hef ekkert að segja. Er að rembast við að lesa greinar um brjálsemi og landsbyggð en er algerlega heiladauður. Og svo er sessunautur minn á bókasafninu sí ropandi og prumpandi.

Sessunautur minn er stúlka.

Ekki að það skipti nokkru máli.

...

Sas er að koma um helgina sem eru stórkostlegt tíðindi - fyrir mig. Ætli ég verði ekki að taka pínulítið til í rottuholunni. Ekki mikið samt. Hún má ekki sjá að ég er desperat.

Lag dagsins: Vienna með Ultravox.

Kv.

Knúturinn.

17 október, 2005

Blaðið

Jamm, þá er maður búinn að koma sér í blaðamennskuna aftur. Tek sunnudagsvaktir á Blaðinu vonandi fram að áramótum og byrjaði í gær. Helvíti fínt að blanda þessu saman við skólann og gott að tala við alvöru fólk aftur.

Annars lofa ég því að gefa aldrei, aldrei, aldrei nokkurn tímann út einhverjar yfirlýsingar á þessari síðu aftur.

...

Svo átti ég fremur erfið samskipti við kött í morgun. Þetta var sami köttur og ég sagði ykkur frá um daginn. Ég stóð í strætóskýlinu og hann sat gegnt mér hinum megin við götuna. Nú var það hann sem horfði á mig og mér leið eins og karakter í bók eftir Stephen King. Dómharðara augnaráð á ketti hef ég ekki séð:

Djöfull ertu í ljótri úlpu.

Af hverju áttu ekki bíl?

Farðu í klippingu!

Þykist þú vera hippi?

Ég þoli ekki hippa.

En strætó kom sem betur fer á elleftu stundu og bjargaði mér. Ég ruddist aftast í strætóinn og rak töskuna mína í annan hvern nýbúa sem tók strætó númer fjögur klukkan níu í morgun frá Nýbýlavegi niðrí bæ. Ég settist við hliðina á einhverjum Grænlendingi sem af lyktinni að dæma hafði augljóslega verið að drekka í morgun (lyktaði eins og strákarnir í Mínus). Æðasprungið nef benti til þess að fylleríið hafi byrjað í kringum áramótin 1981-1982. En ég bauð honum auðvitað góðan dag. Ég er umburðarlyndur og skilningsríkur eins og þið vitið.

Ég leit snöggt út um gluggann, svona rétt til að athuga hvort kötturinn væri þessa heims eða ímyndun. "Ó, Guð! Hann er þarna!" Augnaráðið var ískalt:

Ég veit að þú endist ekki lengi á bókasafninu. Þú kemur heim um hádegi af því að þú ert letingi. Ég ætla að bíða eftir þér og síðan ætla ég að nauðga þér.

Best að vera duglegur. Kannski verður hann farinn um fimmleytið. Það er harðbannað að drekka kaffi í dag! Og þú færð engan bjór um næstu helgi!

Kv.

Knúturinn.

14 október, 2005

Tilbrigði við stef í impostorfærslu Sigga Óla

Ef ég þyrfti að velja mér fyrirmynd og valið stæði á milli Megasar og hrafnsins sem ég gekk framhjá í Fossvoginum í morgun myndi ég velja Megas. Óveður hafa alltaf leitað Megas uppi en samt stendur hann uppréttur þegar því slotar. En eftir hvert óveður verður hann örlítið brothættari og veðurbarið andlitið er til vitnis um þær fórnir sem þarf að færa ef menn vilja standa á sínu. Aðdáunarvert en kannski ekki eftirsóknarvert.

En hugsum okkur nú að ég sé orðinn sjötugur og liggi á spítala með ónýtt hjarta og bilaðan heila eftir líf sem lifað var með Megas að leiðarljósi. Maður í gráum jakkafötum, og líkist einhverra hluta vegna Friedrich Nietzsche, stendur við sjúkrarúmið mitt og býður mér að fara til baka og velja aftur á milli hrafnsins og söngvaskáldsins.

Ég veit ekki með ykkur en hin niðurbrotna sjötuga versjón af mér myndi eflaust hugsa sig betur um. Augljóst æðruleysi hrafnsins þegar hann kallaði á nafna sinn í Fossvoginum var aðdáunarvert. Hann lifði í núinu og var laus við mannlega galla eins og stolt og hégóma (glysgjarn að vísu). Hann stjórnast einvörðungu af frumþörfunum og fær enga bakþanka. Engin sektarkennd, engar innri mótsagnir, ekkert vesen.

Og fyrir vikið verður hann fallegt lík.

Lag dagsins: Atlantic city með Springsteen.

Góða helgi.

Knúturinn.

13 október, 2005

Sjónvarp

Í gærkvöldi varð ég loksins leiður á sjónvarpinu en undanfarnar fjórar vikur hef ég að meðaltali eytt þremur klukkutímum á hverjum degi í sjónvarpsgláp. Það eru ansi margir klukkutímar á viku. Ég byrjaði að lesa bók sem ég pantaði frá Amazon einhvern tímann þegar ég átti pening og hef aldrei lesið. Það eru margar svoleiðis bækur uppí hillu hjá mér.

Ég er ekki að segja að sjónvarp sé í sjálfu sér verri fjölmiðill en bækur. Það eru til vondar bækur rétt eins og það er til vont sjónvarp. Bækurnar sem ég á ólesnar uppí hillu eru þó án nokkurs vafa betri en That 70's show, Amazing race eða Innlit/útlit.

Bókin heitir Portnoy's complaint og er eftir Philip Roth. Hún ku vera meistaraverkið hans. Legg þó bókina frá mér þegar Simpsons byrja enda er Roth ekki jafn mikill snillingur og Groening.

Kv.

Knúturinn.

ES. Vinur minn hann Kiddi er byrjaður að blogga. Slóðin er: http://kristinfraedi.blogspot.com/

12 október, 2005

Vetur

Esjan varð hvít um daginn og Reykvíkingar lýstu því yfir að vetur væri kominn. Í mínum huga hafði þetta enga þýðingu. En í morgun var jörðin (öllu heldur malbikið) héluð og þá fyrst áttaði ég mig á því að vetur var genginn í garð. Spáir reyndar vel fyrir helgina en hvað um það. Vetur er óneitanlega kominn. Í bili.

...

Ég man að þegar ég var í Leicester fór fyrsti snjórinn óskaplega í taugarnar á Grikkjunum, Spánverjunum og Portúgölunum. Líf þeirra yrði hjúpað myrkri fram að vori og þá fyrst færi að birta til.

...

Ég las sjálfsævisögu Dylans í sumar og þar lýsir hann m.a. uppvexti sínum í smábæ í Minnesota. Hann bjó ekki lengi þar og flutti til New York og varð frægur eins og frægt er orðið en í bókinni horfir hann til baka og metur hvað þessi fyrstu ár í norðurlöndum Ameríku kenndu honum. Niðurstaðan: Hin skýru skil á milli árstíða kenndu honum abstrakt hugsun. Hann vissi að eftir sumar kæmi haust, síðan vetur og þá vor. Það var ekki hægt að byggja áhyggjur sínar á veðurfari og hann hafði því áhyggjur af öðrum hlutum, eins og ójöfnuði og stríðsæsingi - eitthvað sem hann taldi sig geta haft áhrif á. Síðar gafst Dylan upp á þessu líka en strax í upphafi skildi hann að það var tilgangslaus tímasóun að streitast á móti árstíðaskiptunum.

Þarna held ég að Dylan hafi, eins og svo oft, hitt naglann á höfuðið. Í það minnsta fór fyrsti snjórinn í Leicester ekki í taugarnar á mér, Finnanum eða Norðmanninum. Við höfðum áhyggjur af öðru eins og t.d. stelpum. Eftir á að hyggja, svona eðli málsins samkvæmt, var líka tilgangslaus tímasóun að velta slíku fyrir sér.

Kv.

Knúturinn.

11 október, 2005

Barn að eilífu

Skrifaði dóm um nýju plötuna með Ryan Adams sem birtist vonandi í Blaðinu í dag - vil auðvitað ekki skúbba þá en sennilega er öllum sama. Lesendur Blaðsins fá styttri útgáfu - lesendur Knútsins fá auðvitað director's cut.

Ryan Adams and the Cardinals, Jacksonsville city nights:

Kántrí fyrir þá sem hata kántrí

"Þegar Ryan Adams yfirgaf hljómsveitina Whiskeytown fyrir sex árum og gaf út plötuna Heartbreaker reiknuðu flestir með því að ný súperstjarna væri fædd. Platan varð vinsæl og Adams skaust uppá stjörnuhimininn – átti meira að segja Hollywoodleikonuna Winonu Ryder fyrir kærustu - og var í fararbroddi bandarískra tónlistarmanna sem kenndu sig við svokallað “alternatívt” kántrí ásamt mönnum eins og Jay Farrar og Jeff Tweedy.

En svo liðu nokkur ár og augljóst að ný súperstjarna var ekki fædd. Á meðan Adams hóf glundroðakennda leit að sjálfum sér þar sem hann reyndi ýmist að umbreytast í Van Morrison (Gold, 2001), Strokes (Rock and roll, 2003) eða Jeff Buckley (Love is hell, 2004) gaf Jeff Tweedy út hvert meistarastykkið á fætur öðru með hljómsveitinni Wilco. Listamaðurinn Ryan Adams vissi augljóslega ekki hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór.

En í ár hefur hann aftur vakið verðskuldaða athygli sem sennilega hefði ekki tekist án hjálpar hinnar frábæru hljómsveitar The Cardinals. Fyrst lék hún með honum á hinni stórfínu Cold roses sem út kom í maí og núna, fimm mánuðum síðar, leikur hljómsveitin með Adams á Jacksonville city nights, sem er hans fyrsta raunverulega kántríplata.

Kántríáhrifin hafa að vísu alltaf verið augljós á öllum plötum Adams en aldrei hefur hann gengið alla leið eins og núna. Þetta er alvöru kántrítónlist sem alls ekki má rugla saman við þá ofurtilfinningasömu og óverpródúseruðu kántrítónlist sem menn eins og Garth Brooks hafa ælt uppúr sér undanfarna áratugi.

Eins og venjulega vitnar Adams vel og skilmerkilega í alla þá tónlistarmenn sem hafa haft áhrif á hann og á nýju plötunni eru það Gram Parsons og Hank Williams sem fylla hann andagift. Líkt og með þá félaga er Adams vonlaus rómantíker og á nýju plötunni syngur hann um óendurgoldna ást og hér um bil ekkert annað. Lagatitlar eins og One more kiss before I go, My heart is broken, Don’t fail me now og Dear John (dúett með Noruh Jones) segja í raun allt sem segja þarf. Adams er í ástarsorg og maður með rödd eins og hann á ekki erfitt með að koma depurðinni til skila.

Jacksonville city nights er vitaskuld engin frumleg, stórbrotin og mikilvæg tónlistarleg yfirlýsing en það er sennilega ekki lengur markmiðið hjá Ryan Adams. Þó hann verði aldrei súperstjarna er Adams - á góðum degi - einn af betri lagahöfundum dagsins í dag og núna hefur hann einfaldlega gefið út látlausa og hlýlega kántríplötu sem kántrípjúristar, og líka þeir sem hata kántrí, geta haft gaman af."

Fyndið að skrifa plötudóma. Mér líður eins og barni.

Kv.

Knúturinn.

ES. Þá heitir platan Jacksonville city lights í Blaðinu...

10 október, 2005

Bókhlaðan - vanmetnasta kaffihús borgarinnar?

Makalaust hvað það getur haft góð áhrif á afköst í fræðimennskunni að taka ekki með sér skólatösku á bókasafnið. Sýnir kannski hvað tilgerð og sá slæmi ávani að ljúga að sjálfum sér getur verið heftandi. Eða ætti ég kannski frekar að þakka monstersúkkulaðikökunni sem ég hesthúsaði af mikilli græðgi rétt í þessu og skolaði niður með tvöföldum espressó? Hmmm...

...

Það kom mér skemmtilega á óvart að finna nýja bók eftir Bret Easton Ellis í Pennanum við Austurstræti um helgina - ég hélt að hann væri dauður. Ellis er fyrsti rithöfundurinn sem ég fékk á heilann ef undanskilið er stutt tímabil einhvern tímann fyrir tvítugt þar sem ég las nær eingöngu Stephen King. Það var æskuvinur minn hann Björn Björgvin Halldórsson, aka Daddi djöfull, sem lánaði mér fyrstu bók Ellis, Less than zero, og formið og stíllinn heillaði mig uppúr skónum. Enginn kafli var lengri en ein blaðsíða og letrið var stórt - fullkomið fyrir mann eins og mig sem ólst upp við Sval og Val en ekki Bob Moran.

Það tók að vísu ekki langan tíma að lesa höfundarverk Ellis því hann hefur á tuttugu árum aðeins gefið út fimm bækur, nýja bókin meðtalin, og frægust er náttla American psycho sem ég hef lesið oftar en góðu hófi gegnir. En nú er sem sagt komin út ný bók og ég las fyrsta kaflann í búðinni þó aðstæður hafi ekki verið sem bestar. Beið eftir því að afgreiðsludaman segði: "Þetta er ekki bókasafn. Vertu vinsamlegast úti."

Aðalkarakterinn er byggður á Ellis, nokkurs konar "Bret Easton Ellis" en ekki Bret Easton Ellis, og í fyrsta kaflanum lýsir hann skrautlegu lífi rithöfundarins sem varð poppstjarna og dópisti á einni nóttu. Fílaði mig eins og ég væri að lesa góða rokkaraævisögu ("Ellis" djammar með Judd Nelson og fleiri eighties-stjörnum) en mér skilst að allt muni breytast á næstu blaðsíðum og bókin verði að skáldsögu þó enginn komi náttla til með að trúa því.

Eða í það minnsta mun enginn vilja trúa því. Ellis hefur sjálfur sagt í viðtali að þegar hann skrifar skáldskap saka gagnrýnendur hann um að byggja um of á eigin reynslu en þegar hann skrifar sjálfsævisögulegan texta ásaka hann allir um skáldskap.

Þetta er böl bloggarans í hnotskurn. Maður ýkir og bókstaflega lýgur (austurríska vinkona mín í færslunni um daginn sagði t.d. aldrei "Is it love or is it exploitation?" Það talar enginn svona tilgerðarlega en ef einhver gerði það væri sú austurríska í þeim hópi - og sennilega ég) en dagbókarform bloggsins kallar á játningar þó þær séu falskar. Þrátt fyrir þetta mun blogg aldrei verða viðurkenndur skáldskapur. Af hverju? Spyrjið liðið sem drullaði yfir bloggbókina hennar Betu rokk um árið.

Nýja bókin með Ellis heitir Lunar park. Tékkið á henni.

Kv.

Knúturinn.

Nýr tónn

Var bent á að hætta þessu væli á síðunni og Knúturinn mun að sjálfsögðu hlýða því. Hann mun aldrei framar minnast á peningaleysi og framvegis verður þessi síða vettvangur uppbyggilegrar og málefnalegrar umræðu um landsbyggðina. Hann mun ekki heldur nokkurn tímann skrifa um hluti sem ekki eru spaugilegir í eðli sínu en vissulega mun hann geta þess í framhjáhlaupi ef eitthvað spaugilegt gerist í kringum hann. Þá þarf hið spaugilega samt að hafa eitthvert augljóst spaugilegt mikilvægi eða gildi - svokallaðan spaugkjarna - sem allir - spaugsamir og non-spaugsamir - geta skilið. Knúturinn mun því ekki lengur reyna að gera hið non-spaugilega spaugilegt.

Kv.

Knúturinn.

07 október, 2005

Fyllerí

Fór á kvikmyndina Tarnation í Tjarnarbíói í gær. Var í svo mikilli flækju að sýningu lokinni að ég þurfti að fara á Grand rokk til að leysa hana og drakk bjór fyrir fjögur þúsund kall. Í dag langar mig helst til að hengja mig enda áttu þessir kallar að duga fyrir mat út næstu viku. Hvenær ætla ég að þroskast? Hjálpið mér!

Annars var þetta fínerís mynd.

Lag dagsins: Its all over now baby blue með Chocolate watchband.

Góða helgi.

Knúturinn.

06 október, 2005

Eldhúsdagsumræður

Horfði á eldhúsdagsumræður um daginn - betra en flest annað í sjónvarpinu það kvöldið. Steingrímur Joð var æstur eins og venjulega en uppgerðin var of augljós. Hann trúir greinilega engu sem hann segir lengur. Fannst prívat og persónulega þingmenn Frjálslynda flokksins bestir. Þeir eru eitthvað svo skemmtilega naív. Veit samt ekki alveg hvort þeir minna mig á börn eða hvort þeir eru barnalegir.

Hver fannst ykkur skemmtilegastur?

Lag dagsins: Fade into you með Mazzy star.

Knúturinn.

05 október, 2005

Ismar og hvernig þeir flækja líf þitt

Ég á ágæta vinkonu frá Austurríki. Öll hennar hugsun og þar af leiðandi hegðun er hugmyndafræðilega hlaðin. Þetta gerir líf hennar erfiðara en hjá flestu venjulegu fólki eins og t.d. mér og sennilega ykkur. Lofið mér að útskýra:

Við bjuggum í sama gangi á heimavistinni í Leicester og áttum það eitt sameiginlegt að hafa gaman af Gram Parsons. Aðdáun okkar var þó af ólíkum toga. Þegar Gram söng um eikina í Suður-Karólínu vakti hann hjá mér ljúfsárar minningar um heimahagana en vinkonu minni fannst hann einfaldlega svo yndislega kitch. Við áttum fátt annað sameiginlegt en meira þarf maður ekki þegar maður er einn útí útlöndum with no direction home eins og Dylan sagði. Viljinn til að tengjast einhverjum er meiri en svo að maður láti sameiginleg áhugamál eða sameiginlegan bakgrunn trufla sig.

Þegar ég lá í rúminu mínu á vistinni í erfiðu timburmannaþunglyndi kom hún og las fyrir mig skáldsöguna Kitchen eftir japanska rithöfundinn Banana Yoshimoto. Ég man ekki um hvað þessi saga var en þýski hreimurinn hennar bjó yfir svo miklum lækningarmætti að hann svæfði mig á korteri eða svo.

Hún hefur hins vegar aldrei átt ráðagóðan vin. Vandamálin hennar voru þess eðlis að hún lenti alltaf í hlutverki ráðgjafans - enginn gat gefið henni ráð. Það hafði sínar skýringar. Hún var svo gáfuð og vandamálin hennar voru svo flókin að þegar hún reyndi að ræða þau við mig lagði ég til að við færum í bíó og sá þannig til þess að við þyrftum ekki að tala saman. Ég veit. Þvílík lágkúra.

En eins og þið vitið náttúrulega er ég enginn skíthæll og nokkrum sinnum reyndi ég að hjálpa henni. Sagði henni t.d. að fá sér göngutúr þegar vandamálin voru að buga hana en hún brosti bara og spurði mig hvernig mér gengi í skólanum en þó án þess að tala niður til mín. Mínar lausnir voru alltof einfaldar og klisjukenndar fyrir stelpu eins og hana - taldi ég að minnsta kosti sjálfur. Hvað um það. Oftast hlustaði ég bara sem hún virtist kunna ágætlega að meta.

Vandamálin, eða öllu heldur hvernig hún túlkaði þau, tengdust því hvernig hún var alin upp - eins og hjá okkur hinum. Foreldrar hennar voru menntafólk - marxískur pabbi og freudísk mamma (algerlega deadly blanda) - sem voru í ofanálag gyðingar og gyðingar í Evrópu glíma við allskyns vandamál sem venjulegur Íslendingur hefur engar forsendur til að skilja.

Vandamálaorðfæri vinkonu minnar virtist svo hnökralaust að mig grunar að foreldrar hennar hafi aldrei sagt við hana: "Svona nú. Harkaðu þetta af þér stelpa. Á morgun kemur nýr dagur." Hún hefur bara talað og talað og talað og mamma og pabbi hafa kinkað kolli til skiptis og hugsað með sjálfum sér hvílíkt gáfumenni barnið þeirra væri orðið. Ég reikna svona frekar með því að þau hafi verið stolt af stelpunni.

Komplexarnir voru langflestir hugmyndafræðilegs eðlis. Á þessum tíma var ég að rembast við að gera það upp við mig hvort ég hneigðist til vísindahyggju í félagsfræði eða formgerðarhyggju en hún þurfti aldrei að standa í svoleiðis pælingum. Hún fékk alla isma heimsins með móðurmjólkinni og þeir lituðu allt hennar líf og öll hennar vandamál.

Hafði hún t.d svikið eitthvað eða einhvern þegar hún keypti brúna flauelsjakkann í Gap? Gat hún verið sannur Ný-marxisti þegar hún stalst til að fá sér einn espresso á Starbucks? Og var hrifning hennar af svarta stráknum á efri hæðinni ekki bara til vitnis um það að hún var jafn mikill kynþáttahatari og bekkjarbræður hennar heima í Vín sem kölluðu hana skítugan gyðing?

Ég man að þegar við ræddum þetta síðasta vandamál spurði hún svona hálfpartinn útí loftið: "Is it love or exploitation?" Ég gat ekki svarað svona spurningu og sjálfsagt átti hún að vera retórísk. Ég lá í rúminu mínu og þóttist vera djúpt hugsi en var sekúndubroti frá því að rísa upp við dogg og gefa henni það eina ráð sem tuttugu og fimm ára gamall unglingur frá Neskaupstað - sem heyrði fyrst talað um póstmódernisma þremur mánuðum fyrr - gat gefið, nefnilega: "Maybe you just need a good fuck?"

Sem eftir á að hyggja hefði kannski verið ágætis ráð en það hefði hins vegar örugglega kallað á frekari vangaveltur af feminískum toga. Væri hún ekki þar með að viðurkenna réttmæti hugmynda um að mannskepnan ætti sér meðfætt eðli - kynhvöt? Væri hún ekki að svínbeygja sig fyrir karllægum félagsvísindum byggðum á forsendum freudískrar sálarfræði sem hafa það eitt að markmiði að kúga konur allra landa? Þvílíkt og annað eins! Hún væri sko fyrir löngu búin að sjá að slíkar kenningar stæðust enga skoðun! Ég þyrfti ekki annað en að lesa Simone de Beauvoir eða kynna mér hina póstmódernísku afstöðu til hlutanna hefði ég einhverjar efasemdir!

Ég hef hvorki hitt vinkonu mína né heyrt í henni í tvö ár en síðast þegar við hittumst voru ismarnir enn að flækjast fyrir henni í hinu daglega lífi. Hún ætlar að heimsækja mig í vor og ég get bara vonað að nokkur ár í skóla lífsins hafi hjálpað henni meira en ég gat í herbergi númer A7 við Regent götu 75, í Leicester UK, veturinn 2000 til 2001.

Kv.

Knúturinn.

04 október, 2005

Hátíð

Eru ekki einhverjir menningarvitar sem lesa Knútinn? Hvað á maður að sjá á þessari kvikmyndahátíð?

Jón Ársæll does it again...

Ég gleymdi að minnast á Sjálfstætt fólk í bloggi gærdagsins en þátturinn sl. sunnudagskvöld var sá skemmtilegasti frá upphafi sögualdar. Viðfangsefnið var Leoncie Martin, söngkona og skemmtikraftur. Það var að vísu ekki hún Leoncie sem vakti athygli mína í þættinum. Maður veit orðið svo margt um hana og Jóni tókst ekki að bæta neinu við. Tilþrif Jóns voru hins vegar ógleymanleg.

Sérstaklega fannst mér ógleymanlegt að fylgjast með viðbrögðum hans þegar vesalings prinsessan fór að gráta. Hún var í miðjum klíðum að segja Jóni frá ofsóknum Sandgerðinga (nokkrir ofsækjendur voru síðar í þættinum teknir í viðtal hjá Jóni og greinilegt að paranoja prinsessunnar á við rök að styðjast) þegar hún brast í grát og fór inná klósett til að jafna sig.

Jón, þessi konungur viðtalstækninnar, svo næmur á mannlegt eðli, varð ekki vandræðalegur eins og Össur Skarp um árið þegar Ingibjörg Pálma féll í yfirlið fyrir framan hann í beinni útsendingu. Onei. Jón, þessi snillingur, svo mjúkur og sætur að það hefði verið hægt að bræða hann eins og smjör og nota hann í smákökubakstur um jólin eða strá honum eins og kanilsykri útá hrísgrjónagraut, notaði tækifærið og spurði:

"Er ég að græta þig, Leoncie?"

Og tryggði sér þar með Edduna aftur.

Kv.

Knúturinn.

03 október, 2005

Fjöllin syðra

Við Hafliðinn gengum uppá Hvalfell um síðustu helgi. Fimm tíma ganga með öllu tilheyrandi og ekki skemmdi fyrir þegar það byrjaði að snjóa á leiðinni niður. Fátt skemmtilegra en gönguferðir í snjókomu og byl - mun karlmannlegra en gönguferðir í sól og blíðu. Við höfum verið duglegir að ganga uppá síðkastið og fjöllin syðra eru loksins farin að jafnast á við fjöllin heima.

...

Rannsóknaráætlunin óðum að verða tilbúin. Klára hana í vikunni og legg síðan inn umsókn. Fresturinn rennur ekki út fyrr en um miðjan nóvember og ég treysti því að allt verði samþykkt. Ef ekki þá hef ég bara eytt níutíu dögum til einskis. Það er ekki neitt að því gefnu að ég verði hundrað og tíu ára gamall.

...

Heimsótti ömmu í gær. Töluðum um dauðann, gleymsku og þunglyndi aldraðra. Hún, eins og margir aðrir í minni fjölskyldu, ætlaði sér aldrei að verða svona gömul. Það bara gerðist.

Kv.

Knúturinn.

eXTReMe Tracker