Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

15 ágúst, 2005

Last day on earth

Síðasti dagur minn á Norðfirði er smám saman að renna sitt skeið á enda. Á morgun, vonandi stundvíslega klukkan átta, legg ég í hann til Reykjavíkur og verð þar í ótilgreindan tíma. Ég vona að mér sé fyrirgefið þó ég sé svolítið dapur yfir þessu. Það er erfitt að segja bless við þennan stað, óvenju erfitt.

En það eru örlög flakkarans að kveðja eins og einhver sagði.

...

Undanfarin fimm ár hef ég flutt þrisvar sinnum aftur til Norðfjarðar eftir stutta dvöl í borginni. Ég hef aldrei yfirgefið Reykjavík sjálfviljugur heldur hafa aðstæður einfaldlega ekki boðið upp á annan kost en brottflutning austur á land. Ég kann vel við höfuðborgina því undir sléttu og felldu landsbyggðaryfirborði Knútsins býr sófakommi sem kann hvergi betur við sig en á Mokkakaffi.

Satt best að segja hef ég oft verið verulega ósáttur við að kveðja Reykjavík. Ég hef setið atvinnulaus í kjallaraholu í Kópavogi og ekki yfirgefið hana fyrr en allir vasar voru þurrausnir. Og þá hafa Norðfirðingar komið til bjargar og reddað mér vinnu. Einhverjum kann að finnast nú að ég reiði mig of mikið á gæsku annarra hvað atvinnu snertir en það finnst mér ekki. Ég hef reynt að vera frílans blaðamaður í borginni en það er ekki létt verk þegar maður hefur enga kontakta og svo litla reynslu að hana er varla að marka. Þá má ekki gleyma því að Knúturinn var í denn með mjög dýran lífstíl. Hann eyddi t.d. námslánum desembermánaðar 1999 í rautt bindi og leðurskó frá Sævari Karli. Svo fékk hann sér vænan yfirdrátt og keypti sér brún jakkaföt frá Hugo Boss í stíl. Knúturinn þurfti þar af leiðandi fastar tekjur - helst myndarlegar.

Hvað um það.

Ég hef þrisvar sinnum flutt austur síðan um aldamót. Þannig var það haustið 1999 að Smári Geirs bauð mér að koma og kenna í Verkmennaskólanum og þannig var það haustið 2001 að Jói Stef, þáverandi skólameistari sama skóla, bauð mér að koma og kenna í tvær annir. Þá hafði ég verið atvinnulaus í einn og hálfan mánuð í höfuðborginni sem mér fannst algerlega óskiljanlegt, nýkominn frá Bretlandi með MA-gráðu í farteskinu. Óskiljanlegt!

En sjaldan launar kálfurinn ofeldið eins og sagt er og ég hef alltaf gripið fyrsta tækifæri til að komast suður aftur. Snemma árs 2002 bauðst mér að koma á DV um sumarið og þá hélt ég að mér væri borgið - Reykjavík myndi ekki hafna mér framar. En svo varð ekki. Blaðið var í fjárhagslegum kröggum og Óli Björn ritstjóri gat ekki eða vildi ekki fastráða mig í lok sumars. Atvinnuleysi var óumflýjanlegt.

Í annað sinn eyddi ég drjúgum tíma í kjallaraholunni í Kópavogi atvinnu- og kærustulaus og var um það bil að fara austur aftur þegar Kalli Th. bauð mér vinnu í kosningagengi Samfylkingarinnar. Reyndar skrifaði ég eitt útvarpshandrit um Beach boys í kjallaranum og drög að skáldsögu sem ég mun líkast til aldrei ljúka. Hún var svona módern nálgun á hið klassíska "sveitarstrákur í stórborg"-þema. Eftir á að hyggja er augljóst að ég var að skrifa um heimsborgarann í sjávarþorpinu og landsbyggðarvarginn í stórborginni. Ég var sem sagt að skrifa um mig og þær hugmyndir sem ég hafði um sjálfan mig fyrir þremur árum síðan.

Svo leið að lokum kosningarbaráttunnar og þegar mér bauðst að taka við Austurgugganum þáði ég boðið undireins enda orðinn of skuldugur til að eyða fleiri stundum atvinnulaus í holunni. Ég ætlaði að vera í tvö ár í Neskaupstað en svo ætlaði ég suður aftur - pottþétt plan.

Og í þessi tvö ár hef ég fílað mig vel. Ég hef endurnýjað vinskapinn við nokkra gamla kunningja (sem ég er einmitt að fara drekka með í kvöld - nokkurs konar erfisdrykkja Knútsins); síðan greip mig fjallgöngudella sem er sennilega hætt að vera della; þá hef ég fyrirgefið foreldrum mínum fyrir að vera svona skrítnir og svo hef ég reynt eftir fremsta megni að fyrirgefa sveitungum mínum fyrir að vera svona sveitó en það er stundum djöfulli erfitt. Hvernig er annars hægt að fyrirgefa fólki sem er með númeraplötu á bílnum sínum sem á stendur ALCOA?

Með öðrum orðum: Mér finnst eins og ég hafi að mestu náð sáttum við þorpið mitt. Norðfjörður er órjúfanlegur partur af mér og tilgangslaust að afneita því. Hvort ég komi aftur er engin leið að vita en tilhugsunin um að koma aftur böggar mig ekki lengur.

Með kveðju,

JK.

ES. Ekki verður bloggað meira í nokkrar vikur.

11 ágúst, 2005

Tom

Stórleikarinn Tom Cruise setti mikinn svip á ferðalagið mitt til Bandaríkjanna. Í hvert sinn sem ég kveikti á sjónvarpinu á mótelinu eftir átta tíma akstur var Tom í fréttunum með skandal dagsins. Fyrst fríkaði hann út hjá Opruh og hoppaði í sófanum hjá henni. Ég nennti aldrei að setja hljóðið á þannig að ég veit ekki hvað var í gangi. Nokkrum dögum síðar sprautaði einhver snillingur vatni framan í hann útá götu (you're a jerk! you're a jerk!) og svo lauk þessu með öðru fríkáti í einhverjum spjallþætti þar sem hann reyndi að sannfæra þáttastjórnandann og áhorfendur um ágæti vísindakirkjunnar.

Amerískir fjölmiðlar spurðu hina ýmsu PR-snillinga og slúðurdálkahöfunda hvort þetta myndi skaða feril leikarans og hvort Tom væri orðinn heilaþvegið sækópat. Þegar ég kom til Englands fann ég síðan opnuviðtal við Tom í Observer sem Neil Strauss tók en Neil þessi skrifaði hina nú þegar klassísku ævisögu Mötley Crue - The Dirt.

Í þessar fjórar vikur var Tom sem sagt helsta umfjöllunarefni vestrænna fjölmiðla.

Og á meðan brann Írak.

...

Mér finnst Tom reyndar fínn leikari og hann er svona yfirleitt gæðastimpill á myndir. Á þessu eru nokkrar mikilvægar undantekningar t.d. Far and away, Top gun og Days of thunder. Hef reyndar ekki séð neitt með honum í nokkur ár en leiksigur hans í Magnoliu var nóg til að sannfæra mig um leikhæfileika mannsins. Þá var hann fínn í Viðtali við vampíru.

En hann er augljóslega kolklikkaður.

...

Í dag kemur út fyrsti Austurglugginn með nýju ritstjórnarkrúi. Ég hlakka til að fara í búðina og kaupa mér eintak. Siggi Aðalsteins er reyndar ekki mættur til leiks en nýr blaðamaður er kominn í aksjónið sem ég man ekki hvað heitir og Rúnar afleysingamaður ritstýrir. Þetta eru Héraðsmenn og agalega held ég nú að það fari í taugarnar á sveitungum mínum sem margir hverjir virtust telja fréttirnar frá Norðfirði í hverri viku og notuðu síðan þá vitneskju sem mælistiku yfir gæði hvers tölublaðs.

Fyrsta árið lét ég þetta fara óskaplega í taugarnar á mér því ég og Helgi Seljan blaðamaður ókum um fjórðunginn þveran og endilangan til að fylla blaðið að einhverju skemmtilegu - að mér fannst sjálfum allavega. Svo kom blaðið út og um tvö leytið á fimmtudegi fékk ég símtal frá einhverjum snillingi: "Hvurnig er það, er þetta einhver Héraðssnepill?"

Smátt og smátt hætti ég þó að fara í fýlu en ég sver það að ég eyddi stundum meira en klukkutíma í símanum við svona fólk og reyndi að útskýra stefnu blaðsins. Maður var soddan sakleysingi...

Ég man eftir því þegar einhver hringdi inn í lok desember í fyrra og sagði að við hefðum aðeins einu sinni haft spurningu vikunnar á Fáskrúðsfirði á árinu. Ég fletti í gegnum heilan árgang með manninn í símanum og fann það út að við hefðum haft hana þrisvar á Fáskrúðsfirði. Þar að auki hefðum við haft hana þrisvar á Stöðvarfirði og þar sem þessi sveitarfélög væru sameinuð þá hefði spurning vikunnar verið tekin alls sex sinnum í Austurbyggð. Þetta gerði ég eingöngu til að geta sagt: "Og hafðu það!"

Kallinn lét ekki segjast og hafði örugglega gaman af að stríða mér: "Mér er sama," sagði hann. "Mér finnst ekkert vera í þessu blaði nema einhver kommaáróður frá Smára Geirssyni."

Ég sagði Smára frá þessu seinna og honum var skemmt enda var hann duglegur að skamma mig fyrir að vera "neikvæður" í garð Fjarðabyggðar.

Kv.

JK.

10 ágúst, 2005

Ekkert að frétta

Mikið ógeðslega gott er að vera í fríi! Það er ekkert sem ég þarf að gera (fyrir utan að redda fjármálunum mínum) áður en ég fer suður og eyði tíma mínum þess vegna í rauðvínsdrykkju og vídeógláp. Síðasta myndin sem ég horfði á var Citizen Kane en ég keypti hana á DVD í Bretlandi um daginn. Ég er ekki nógu vel skólaður í kvikmyndasögu til að skilja samstundis hvað sé svona merkilegt við þessa mynd en maður þarf svosem ekki að vera langskólagengin til að falla fyrir þessari sögu og ekki síður leik Orson Welles. Og þá má ekki gleyma því að eftir að hafa séð myndina skil ég loksins nokkrar senur í Simpsons sem ég botnaði aldrei í - flestir sem lesa þessa síðu eru Simpsonsnördar og þið vitið þá hvaða mynd þið takið næst.

Myndin er byggð á ævi milljónamæringsins W.R. Hearst en ég fór og skoðaði kastalann sem hann bjó í San Simeon í Kaliforníu - í Citizen Kane heitir kastalinn Xanadu. Þetta var tvímælalaust einn af hápunktum ferðalagsins og ef ég fer aftur til Kaliforníu mun ég skoða kastalann betur enda kominn með þetta karlfrík á heilann eins og stundum hendir mig (ég hef örugglega fínt stalker-potential). Búinn að lesa eina bók um hann og önnur er í pöntun á Amazon.
...

Þá er ég að fara í þriggja daga göngu á morgun. Dóri frændi ætlar að skutla mér, kærustunni og Huga útá Barðsnes og þaðan ætlum við imprúvísera nokkrar göngur í þrjá daga. Ef einhver lesandi hefur gengið um þetta svæði þá má hann endilega koma með tillögur í kommentakerfið.

...

Í mússíkinni er ekki mikið að gerast. Er enn að melta stöffið frá Ameríku og núna er það hljómsveitin Little feat sem á hug minn allan. Þetta er suðurríkjarokk af sama toga og Lynyrd Skynyrd en þeir eru miklu sterkari melódíusmiðir en Skynyrdinn og þar sem ég er soddan sökker fyrir flottum laglínum þá féll ég undireins fyrir þeim. Mæli eindregið með plötunni Dixie chicken frá 1973 - algerlega pottþétt plata og minnir á það besta sem Stones voru að gera þremur árum fyrr. Sailin' shoes frá '72 er fín líka en á henni eru of margir fillerar.

Nú og þá má ekki gleyma því að hljómsveitin mín, Coney island babies, hefur sótt um að komast á Iceland airwaves í haust. Ég er svartsýnn að eðlisfari og geri mér því ekki of miklar vonir um meik í Reyk en mikið væri nú gaman að spila á svona hátíð. Ég missi þó engan svefn verði okkur hafnað.

Ég veit að my good friend Hlynur hefur sótt um með Tabúluprojektið sitt sem ég var einu sinni þátttakandi í og ég vona svo innilega að hann komist að. Drengurinn er mesta poppmússíktalent sem nokkurn tímann hefur komið frá Neskaupstað og bara tímaspursmál hvenær einhver útgefandinn exploitar hann.

Segjum þetta gott í bili.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker