Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 október, 2004

Með einfaldan smekk

Inn á milli rykfallinna vínylplatna, aðallega með þrjátíu ára gömlum progrokkböndum, rakst ég á álíka rykfallið eintak af Íslandsklukkunni. Ég blés efsta ryklagið af henni og spurði eigandann: "Finnst þér gaman að lesa?"

"Onei, ekki get ég nú sagt það," svaraði hann spakur en útskýrði svo nánar: "Ég þurfti að lesa hana í menntaskóla en síðan 1976 hef ég eingöngu lesið Dagblaðið."

Kv.

JK.


Úff, hvernig gat ég gleymt Chad Smith og Pjetri Hallgríms, ha? Það er sagt um Pjetur að hann hafi verið þriðji besti trommari landsins in the 70's á eftir Gunnari Jökli og Sigurði Karlssyni. Ef þið trúið mér ekki bið ég ykkur um að spyrja bara Pjetur sjálfan.

Kv.

JK.

Bestu trommuleikarar allra tíma

Ringo Starr og Charlie Watts
Allir rokktrommuleikarar eru beint eða óbeint undir áhrifum frá þessum. Gerir það í sjálfu sér Starr og Watts góða? Svarið er já í þessu tilfelli.

Mark Brzezicki (þurfti að fletta nafninu upp enda vonlaust að muna hvernig eftirnafnið er stafsett)

Trommarinn í Big country sem er vanmetnasta hljómsveit níunda áratugarins. Mark hætti þegar hljómsveitin var byrjuð að sökka og þá þurfti sjálfan Simon Phillips til að leysa hann af. Þarf að segja meira?

Neil Peart
Mér finnst trommusóló leiðinleg. Peart tekst hins vegar að búa til eitthvað allt annað og meira en eitthvað trommararúnk. Svo er hann líka hörku performer.

Jóhann Geir Árnason
Gleymi því aldrei þegar ég sá hann taka Slappaðu af á balli í Egilsbúð með Súellen. Á tímabili reyndi ég ekki bara að stæla stílinn hans heldur reyndi ég líka að stæla þennan sérstaka svip sem Jói setur upp þegar hann spilar. Hörkusvipur sem fer honum bara vel þegar hann er á bakvið trommusettið. Mér tókst aldrei að ná þessum svip. Leit bara út eins og ég væri u.þ.b. að kúka á mig. Nei annars, ég leit út eins og ég væri búinn að kúka á mig.

Chris Frantz
Hjúman bítbox sem spilaði með Talking heads. Less is more og allt það.

Max Weinberg
Úr E-street bandinu. Hlustið bara á Born to run og þið skiljið - alveg monster.

Jeff Porcaro
Allir sem hafa eitthvað fengist við trommuleik heyra fyrr eða síðar um Jeff Porcaro og sjöffulbítið í Rosanna. Ég reyndi árangurslaust í marga mánuði að ná því og svo er hann líka eini trommarinn sem hefur raunverulega dáið "in a bizarre gardening accident." Respect!

Náunginn sem spilar með Jeff Buckley á Grace
Hippatrommuleikur með pönkattitjúti. Næs.

Terry Bozzio
Verð nú seint talinn til mestu aðdáenda Steve Vai en trommuleikurinn í Be still my bleeding heart af Sex and religion er - svo ekki sé fastar að orði kveðið - óskiljanlegur og ótrúlega magnaður. Það eru til margir trommuleikarar sem leika óskiljanleg bít og breikin líkjast gátu, vafin inní þraut sem klædd er vesti (líkingin kemur frá Lisu Simpson), en Bozzio grúvar eins og moðerfokker. Sá er munurinn.

Stewart Copeland
Fékk Copeland algerlega á heilann þegar mér var gefin læfplata með Police í ammilisgjöf. Það er æsingurinn í trommuleiknum sem hlýtur að snerta alla sem fíla rokkmússík. Stíllinn er einskonar tvöfaldur pönk útí einfaldan reggí. Einhver sagði mér að Copeland væri núna að spila með 20th century doors sem er hálfgert skúffelsi. Hann á betra skilið. Við þetta má svo bæta að Jóhann Geir lánaði mér myndband með honum fyrir svona tíu árum sem ég barasta verð að fara skila.

Mæli með Ghost in the machine og Live.

Rabbi
Rabbi er keimlíkur Copeland og ég fíla hann af sömu ástæðu. Hlustið á 16 af Get ég tekið cjens.

Ingó í Síðan skein sól

Ingó spilaði á fyrstu plötum Sólarinnar, sem nota bene er besta ballband sem Ísland hefur átt fyrir utan Búálfana auðvitað, og hann er af þessum Copeland-skóla. Muniði eftir sjómannadagsballinu '91 í Egilsbúð? Þar fór hann á kostum í Klikkað.

Sigtryggur Baldursson
Trommuleikurinn á Stick around for joy er svo leikandi léttur og æðislegur að maður bababa...Það var alltaf sagt á sínum tíma að Björk væri senuþjófurinn á plötum Sykurmolanna. Á Stick around for joy tók trommarinn hins vegar völdin. Væntanlega eru allir sammála þessu.

Hal Blaine
Sessjóntrommari frá Amríku. Var hluti af krúinu sem spilaði á plötum Phil Spectors og þegar Brian Wilson hóf tökur á Pet sounds var Blaine kallaður til. Smekklegur svo af ber.

Allir trommarar Pearl jam
Pearl jam hefur einstakt lag á því að fá til sín góða trommara. Fremstur meðal jafningja er trommarinn á Vs. sem ég man ekki hvað heitir. Ef ég man rokklærdóminn rétt þá var hann rekinn úr bandinu fljótlega eftir útgáfu plötunnar vegna þess að hann auglýsti trommukjuða í Modern drummer magasíninu. Vedder og félagar eru nebbla á móti svona kommersjalisma.

Sterling Campell
Spilaði á Good stuff með B-52´s ásamt Jeff Porcaro. Popptrommuleikur par exelance. Man ekki eftir annarri spilamennsku hjá honum en við vinnslu þessarar greinar komst ég að því að hann gekk til liðs við Soul asylum sem sungu Runaway train þarna um árið.

Nú er ég farinn að leita að heimildum á netinu fyrir bloggið mitt og þá er best að hætta. Svo væri máske sniðugt að vinna soldið í dag.

Kv.

JK.

25 október, 2004

Funky

Stundum er lífið svo undarlegt og skrýtið að engin skáldsaga stenst því snúning. Síðasta dæmi um þetta í mínu lífi er símtal sem ég fékk sl. mánudag frá Stef þar sem mér var tjáð að ég ætti inni stefgjöld frá Sviss fyrir lagið “Funky starcase” sem ku hafa verið spilað nokkrum sinnum í svissneska útvarpinu. Ég man ekki eftir að hafa samið lagið “Funky starcase” og samdi það sennilega ekki en ég og konan frá Stef vorum sammála um að það myndi spara mikla pappírsvinnu ef ég myndi bara gangast við laginu þar til annað kemur í ljós. Frá og með mánudeginum er ég sum sé: Sonur, bróðir, blaðasnápur og lagahöfundur. Gott mál. Mjög gott mál. Vona bara að lagið sé gott, þetta Funky starcase.

Kv.

JK.

22 október, 2004

Bruno, þynnka og hin Rimbaudíska afstaða til tilfinninganna

Patrick Bateman, sá ágæti en morðóði verðbréfamiðlari, er með vonlausan tónlistarsmekk. Huey Lewis, Whitney Houston, Phil Collins og Chris De Burgh eru í hávegum höfð hjá honum eins og fram kemur í myndinni góðu - I rest my case. Aðeins þeir sem lesið hafa bókina vita hins vegar að sú plata (Patrick hlustar reyndar á geisladiska) sem hann hefur mest dálæti á er The Return of Bruno með Bruce Willis, hinum eina og sanna. Ég hef ekki heyrt hana en titillinn fékk mig til að flissa eins og kjáni. Ég vona að þetta sé grínplata því annars er þetta ekki fyndið.

...

Er að lesa ævisögu Shane MacGowan sem söng eitt sinn með Pogues og hafi ég lesið poppmagasínið rétt sem ég keypti hjá Pjetri á dögunum er hann byrjaður að syngja með þeim aftur. Þeir sem nenna að lesa slúðrið í dagblöðunum, eins og ég, vita að Shane er ekki síst frægur fyrir sukksamt líferni. Í gærkvöld las ég kaflann þar sem hann lýsir dögum sínum sem barþjónn á einhverjum pöbb í London. Þar segist hann hafa drukkið eina flösku af vodka í hverju hádegi og viðtalsform bókarinnar kallar beinlínis á næstu spurningu, nebbla: Varstu ekki ógeðslega þunnur þegar leið á daginn? Þynnkan virðist barasta ekki vera neitt issjú hjá Írum og Englendingum og þess vegna er svona spurningum sleppt.

Eitt sinn skrifaði ég um vin minn Ross á þessa síðu en ég gleymdi að segja ykkur eitt. Á meðan Ross var framí eldhúsi að malla sér enskan morgunverð klukkan hálf átta að morgni lá ég uppí rúmi með ælupest og með bullandi móral yfir einhverju sem ég hafði sagt kvöldið áður. Hann varð aldrei þunnur!

Þetta er enn ein sönnunin á því að þynnka er félagslegt fyrirbæri.

...

Eins og svo oft áður var ég að hanga á netinu í morgun á meðan verkefnin hrönnuðust upp. Fór ég óvænt inn á heimasíðu Pjaxa og þar fann ég ritdóm úr Mogganum um nýjustu bók Baj, sem er frægasta og besta skáld Norðfjarðar. Þið getið tékkað á þessu sjálf ef þið nennið en málsgreinin sem mér fannst skemmtilegust var þessi:

"Metrófóbía [nafnið á bókinni] er greinilega mjög andljóðræn ljóðabók, og það þrátt fyrir að vera rómantísk tilfinningasemi. Hún á ekkert skylt við kaldranalegar og fjarlægar lýsingar Bukowskis, eða Hals Sirowitz - heldur er hún þvert á móti hin Rimbaudíska afstaða til tilfinninganna, ofkeyrsla og upphleðsla, hormónafyllirí á máta sem hormónafyllirí hefur ekki verið reynt áður: ljóðrænulaus."

Taka skal fram að Mogginn lýgur aldrei og bókin er fjandi skemmtileg.

Kv.

JK.

19 október, 2004

Það er best að ég viðurkenni þetta bara. Ég sakna Dao formanns. There, I've said it.

Kv.

JK.

12 október, 2004

The tunes are back

Er með nýju REM plötuna á repít í vinnunni og er smám saman að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé þeirra besta verk síðan Automatic kom út fyrir tólf árum - Djísús hvað tíminn líður. Ég hef aldrei náð að tengja alminilega við síðustu plötu REM. Reveal hét hún og ég man að ég beið fyrir utan HMV-búðina í Leicester daginn sem hún kom út. Klukkan var níu að morgni og ég stóð einn í biðröð í enskri rigningu. Platan hafði fengið fimm stjörnur í Q og það var svaka bözz í gangi, allir að tala um kommbakk og þess háttar. Svo fór maður heim og hlustaði. Man að ég hugsaði: "Er ég að missa af einhverju? Skil ég ekki neitt?"

Hlustaði svo ótæpilega á hana í nokkrar vikur og ekkert gerðist. Í fljótu bragði man ég ekki eftir því að hafa gefið nokkurri plötu jafn mikinn séns og Reveal er í mínum huga bara eftirminnileg vegna þessarar þrjósku sem ég sýndi í hennar þágu. All the way to Reno er samt klassíkt og vegna þess sé ég ekki eftir því að vökna fyrir utan HMV um árið.

Enívei, nýja platan er með fullt af þessum dæmigerðu REM-húkkum og lögin festast auðveldlega í heilabúinu eitt af öðru. Gott mál.

Kv.

JK.

11 október, 2004

Fjölskyldualbúmið

Heyrði það í dag að einhverjir væru byrjaðir að kalla blaðið sem ég stýri "fjölskyldualbúmið". Ástæðan er auðvitað sú að óveðursgreinin mín í síðustu viku var að hluta til byggð á samtali við Halldór nokkurn Þorsteinsson í Neskaupstað en svo vill til að hann er náskyldur mér - bróðir pabba sko.

Sko! Krakkar mínir, í þeim tæplega sjötíu blöðum sem ég hef ritstýrt hafa mínir nánustu ættingjar komið fram fimm sinnum svo ég muni. Af hverju er ég að æsa mig? Þetta er bara fyndið.

Kv.

JK.

ES. Hahahahahaha...

Hefurðu dansað Office-dansinn nýlega?

Nei, er það ekki. Ég dansaði hann nefnilega um helgina í suðrænum takti. Geri aðrir betur og hananú!

Kv.

JK.

09 október, 2004

Þegar allt fór í vaskinn

Líkt og ég sagði í gær skrapp ég til Pjeturs laust fyrir þrjú og ætlaði að ná mér í eintak af hinu long-awaited Brosi sem blaðamaður Fréttablaðsins sagði að hefði verið þrjátíu og sjö ár í vinnslu. Það er rangt en Brian hætti við gerð Smile vorið 1967, þá búinn að vinna að henni hörðum höndum í tæpt ár. Í fyrra, einhvern tímann um haustið, hófst svo gerð plötunnar að nýju og lauk núna einhvern tímann snemmsumars. Þannig að segja má að platan hafi verið tæp tvö ár í vinnslu. Jæja, þetta er aukaatriði.

Ég skildi eftir haug af verkefnum í vinnunni og fór sum sé til Pjeturs. Klukkan að verða þrjú. Planið var að kaupa Brosið, fara rakleitt heim og hlusta á það. Síðan ætlaði ég að hugsa um það í nokkra klukkutíma - meta það. Var biðin þess virði? Hefðu orðið straumhvörf í popptónlistinni ef Smile hefði komið út í júní 1967? Hefðu Bítlarnir fallið í skuggann og hefði Sgt. Peppers orðið öðruvísi? Í stuttu máli: Ég ætlaði að svara mikilvægum spurningum í gærkvöld. Og svo var auðvitað ætlunin að æla þessu úr sér hér ykkur til óendanlegrar gleði og upplýsingar.

En svo verður ekki. Ég mætti Pjetri fyrir utan Tónspil þar sem hann var að loka búllunni. Ég kallaði:

"Pjetur, lofmér að kaupa Brosið áður en þú ferð!" Ég er búinn að tala svo mikið við sjálfan mig um þessa plötu að ég geri ráð fyrir því að allir þekki og viti um Brosið. En auðvitað kom Pjetur af fjöllum og vissi ekkert um hvaða Bros ég var að tala (hann býr nefnilega í sínum heimi og ég í mínum. Það var gott að rifja það upp).

"Þú veist, Smile. Nýja Brian Wilson platan," útskýrði ég og Pjetur brást við eins og við þekkjum öll - hann sló létt á ennið á sér and you know the rest (smellurinn bergmálar enn í höfðinu á mér).

Brosið var sum sé ekki komið og Pjetur gerði eins og allir hugrakkir menn gera þegar þeir standa sig ekki - hann kenndi öðrum um. Það var Skífan sem gleymdi að senda honum eintak eða eitthvað svoleiðis en það skal viðurkennast að ég veitti afsökunum litla athygli. Þær voru örugglega réttmætar en mér var slétt sama hverjum var um að kenna. Ég var ekki með fingurna utan um Smile og það eitt skipti máli. Þessi týnda plata poppsögunnar var orðin haldreipi mitt í lífinu, ljósið í myrkrinu. Platan hefði máske leyst öll mín vandamál.

En dílerinn minn hafði klikkað. Ég átti erfitt með öndun.

Kv.

JK.



08 október, 2004

Brosið er komið

Jæja, ætla að skreppa til Pjeturs og kaupa Brosið. Það ku vera komið. Kem með faglega rýni um það í dag eða á morgun.

Kv.

JK.

Í ræktinni

Við vorum nýbúnir að kúka á okkur í bekk þegar þessi orðaskipti fóru fram:

Egill: "Jón, hvaða æfing heldurðu að virki best fyrir bekkinn?"

(löng þögn)

Jón (í fullri einlægni): "Tja, spurning hvort við ættum að taka bekkinn..."

Eftir að hafa íhugað þessi orð vandlega komumst við að sameiginlegri niðurstöðu: Því meira sem við lyftum þeim mun vitlausari verðum við.

Kv.

JK.

03 október, 2004

Í Egilsbúð

Kristín Eysteinsdóttir og Kidda rokk skemmtu gestum í Egilsbúð í gær. Gestirnir voru af grófara tagi; karlmenn á sextugsaldri og pissfullir - verulega slæm blanda og trúbadorarnir áttu því mína samúð óskipta. Ég mundi hvers vegna ég gafst upp á spilamennskunni á sínum tíma en ekki má gleyma því að pissfullar konur á sextugsaldri eru talsvert verri. Sennilega er pissfullt fólk á öllum aldri leiðinlegt en það er önnur saga.

Í pásu þurfti Kidda að útskýra fyrir gestum hvaðan og hverra manna hún væri. Í ljós kom að Kidda var frá Akranesi sem vakti mikla kátínu viðstaddra - þarna voru sum sé staddir nokkrir Skagamenn. Og svo reyndi hún árangurslaust í fimm mínútur að rekja ættir sínar en Skagamennirnir hristu hausinn og voru engu nær fyrr en Kidda sagði: "Pabbi á rauðan Subaru."

"Já, ertu dóttir hans!" hrópuðu þeir himinlifandi. Óvissunni var eytt í eitt skipti fyrir öll og Kidda var í miklu uppáhaldi frá og með þessu.

Kv.

JK.


eXTReMe Tracker