Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

27 mars, 2004

Það er - þrátt fyrir allt - fátt skemmtilegra en að tengja við einhverja nýja manneskju. Þetta gerist með reglulegu millibili í lífi flestra en oftar hjá þeim sem nenna að lifa lífinu. Ég er sossum bara svona þokkalega duglegur að lifa lífinu en þetta hefur þó komið fyrir nokkrum sinnum hjá mér. Þessi tengsl geta rofnað jafn hratt og þau myndast og ég held að þarna skipti tímasetningin öllu máli. Fólk getur hentað hvort öðru á ákveðnu tímabili en svo súrnar sambandið og ef fólk er ekki viðbúið að viðurkenna það geta hlutirnir endað með ósköpum, leiðindum eða hvað sem við viljum kalla það. En stundum vara þessi tengsl svo lengi að maður getur einhvern veginn ekki ímyndað sér líf án þeirra. Ég tilheyri t.d. vinahóp sem ég efast um að muni nokkru sinni leysast upp. Þó veit maður aldrei.

En ég ætla að rifja upp hvernig ég kynntist Ross nokkrum Shepherd, haustið 2000. Þessi tengsl fuðruðu upp fljótt og örugglega en minningin er falleg.

Sum sé, ég var nýfluttur frá Neskaupstað til Leicester í Englandi og hann var nýfluttur frá Bolton til Leicester. Báðir ætluðum við að bæta við okkur meistaragráðum; ég í fjölmiðlafræði og hann í kennslufræði. Við bjuggum á móti hvor öðrum á heimavistinni við Regent götu númer 75, rétt hjá háskólalóðinni. Og saman eyddum við einni langri helgi í maríneringu að hætti enskra.

Það er erfitt að lýsa Ross í fáum orðum enda er hann einn margslungnasti persónuleiki sem ég hef komist í kynni við. Foreldrar hans komu úr verkamannastétt og hann var allt í senn: Drykkfelld og ofbeldisfull fótboltabulla, duglegur námsmaður, fyrrum sýruhaus, frábær kokkur og alveg hreint ferlegur sóði. Þannig ældi hann t.d. í herbergisvaskinn sinn einhvern tímann fyrir jól og stíflaði hann. Ég man ekki hvað langur tími leið en stíflan var enn þá þarna þegar ég kom heim úr jólafríinu. Eins og þið getið ímyndað ykkur var lyktin algjörlega óbærileg en ef einhver ljáði máls á þessu - sjáið til, lyktin náði langt út fyrir herbergið hans - fylltist hann réttlátri reiði og sakaði okkur um persónunjósnir og þaðan af verra.

Líkamlega var Ross ágætlega á sig kominn: Hann var tveir metrar á hæð, með sítt svart hár enda af ítölsku bergi brotinn en það mátti sjá að hann var smám saman að fá ístru. Hún átti sínar skýringar: Ég held nefnilega að hann hafi að öllu jöfnu drukkið eina kippu af Carling-bjór á dag og svo kassa á dag um helgar og ég tel ekki þau skipti sem hann datt í það eða "got loaded" eins og hann sagði - þá drakk hann eina flösku af vodka út í appelsínusafa. Og svo reykti hann einn og hálfan pakka af sígarettum á dag, Marlboro lights ef ég man rétt. En hann var sem sagt ágætlega á sig kominn.

Sækjast sér um líkir er sagt en ég held að þeir sem þekki mig séu kannske eilítið undrandi á því að Ross Shepherd hafi orðið sálufélagi minn þetta ár í Leicester. Við urðum "as thick as thiefs" eins og Tjallinn segir og hentuðum hvor öðrum fullkomlega í tólf mánuði. Ég var nýhættur með kærustunni minni og á þessum klassíska bömmer sem því fylgir. Mig bráðvantaði því einhvern til lyfta mér upp. Ross var orðinn þreyttur á háskólalífinu enda ekki þessi dæmigerði háskólaborgari og svo var hann orðinn leiður á kærustunni sinni sem hann hafði verið með í mörg ár. Hann sagði mér kvöldið sem ég hitti hann í fyrsta skipti að hans takmark væri að halda framhjá sem oftast á meðan hann byggi í Leicester en kærastan var að læra hjúkrun í London.

Þetta var auðvitað hin fullkomna blanda líkt og þegar skrattinn hitti ömmu sína. Saman vorum við fullir upp á hvern einasta dag í sex mánuði og fengum á okkur nafnið "the toxic twins" á vistinni. Á hverjum einasta degi klukkan fimm fórum við á pöbbinn á horni Regent götu og Waterloo strætis og pöntuðum okkur fyrsta drykkinn: "One pint of Carling, please." Um klukkan ellefu röltum við heim og studdum hvorn annan í áfengisvímunni. Ef við vorum enn í stuði fórum við á einhvern klúbbinn og drukkum okkur út úr heiminum. Ross tókst þó aldrei að halda framhjá enda var hann afskaplega brútal í öllu atferli. Ég skal taka dæmi:

Eitt sinn héldum við partí á vistinni og ung og bráðfalleg grísk stelpa kom inn í stofu sem við veittum báðir athygli enda fullir af hormónum og dómgreindarlausir vegna drykkju. Áður en ég gat opnað munninn og boðið hana velkomna sagði félaginn: "Oi luv, show me yer knickers (sýndu mér nærbrækurnar þínar)." Oft endaði kvöldið með því að Ross hringdi grátandi í kærustuna með slæma samvisku og keyrði ofurölvi til London og fékk syndaaflausn.

Þegar ég kom heim um jólin eftir fjóra mánuði ytra var ég með svo mikinn skjálfta að allar myndir sem teknar voru af mér voru hreyfðar.

En öll fyllerí taka enda og þetta tók enda einhvern tímann í febrúar 2001. Þá kynntist ég portúgalskri ungfrú og var kærasti það sem eftir lifði af dvöl minni í Leicester. Sem betur fer því annars hefði ég aldrei klárað skólann.

Vitaskuld var Ross lítið hrifinn af því að ég hyrfi svona úr lífi hans en það rann af honum líka um síðir. Við tókum þó vel á því u.þ.b. mánuði áður en ég fór heim og þá hlustuðum við á Gram Parsons og sungum með þar til við sofnuðum. Með betri kveðjustundum sem ég hef átt.

Ég hef hitt Ross einu sinni eftir þetta. Skrapp í skynditúr til Bolton sumarið 2002 og við máluðum bæinn rauðan. Fann það samt strax að það sem var yrði aldrei aftur. Helgin í Leicester var sem betur fer stutt en þeim mun fallegri er minningin.

Kv.

JK.











23 mars, 2004

Vorið er komið og grundirnar gróa eins og skáldið sagði. Vorið er tími upprisunnar og er mín uppáhalds árstíð. En það er nú þannig að ég minnist alltaf vorsins með sérstökum hætti. Það leitar á mig minningin um fallegan dag í upphafi níunda áratugarins sem mér tókst að sjálfsögðu að eyðileggja fyrir sjálfum mér og öðrum.

Sum sé, ég var átta vetra gamall þegar þessi atburður, sem mun að eilífu minna mig á vorið, átti sér stað. Ég og náfrændi minn vorum að leita að einhverju til að drepa tímann með. Þetta var fallegur dagur og við ákváðum að nappa kveikjara af heimili frænda míns sem móðir hans átti og kveika í einni þúfu í gilinu fyrir innan dvalarheimili aldraðra í Neskaupstað. Við völdum þúfu með hliðsjón af því að auðvelt væri að ráða við bálið ef það tæki upp á því að stækka.

Annað hvort vanmátum við mátt eldsins eða ofmátum hæfileika okkar til að stjórna honum en í það minnsta stækkaði bálið hratt og örugglega. Ég man enn þá hvað fyrstu mínúturnar voru spennandi. Þessi spenna sem fylgdi fyrstu logunum breyttist fljótlega í hræðslu og kvíða þegar það var orðið ljóst að við frændur myndum ekki ráða við eldinn. Fljótlega byrjaði fullorðna fólkið að hópast að og ég sé enn fyrir mér nágranna minn þáverandi, sem fyrir löngu er fluttur, í reykkófinu æpandi: “Hvað í andskotanum voru þið að hugsa drengandskotar!”

Ég ætla ekki að lýsa því í smáatriðum hvernig mönnum tókst að ráða niðurlögum eldsins. Í sem skemmstu máli tókust björgunaraðgerðir vel en gula fallega gilið var nú orðið kolsvart og minnti helst á vígvöll – sem það kannski var í vissum skilningi. Í barnaskap mínum fór ég seint heim í þeirri von að foreldrar mínir væru orðnir það áhyggjufullir að þeir myndu ekki skamma mig. Ég hafði rangt fyrir mér.

Í minningunni voru margir sem komu að björgunaraðgerðum en sama hvernig ég reyni þá man ég eiginlega bara eftir þessum eina manni sem skildi ekki hvað við vorum að hugsa. Sennilega hefur því bálið ekki verið jafn ógurlegt og ég hef hingað til talið sjálfum mér trú um.

En þessi atburður rifjast ávallt upp þegar vora tekur, minningin um fullorðið fólk æpandi og stökkvandi með fötur fullar af vatni. Hvar sem menn voru í flokki var það sameiginlegt átak sem kom í veg fyrir að Neskaupstaður brynni þennan fallega vordag í upphafi níunda áratugarins.

Kv.

JK.

20 mars, 2004

Það er þetta sem alkarnir kalla "a moment of clarity" eða þegar maður áttar sig á sinni stöðu í lífinu og hvernig ber að leysa úr þeim vandamálum sem að manni steðja. Manni finnst eins og maður sé að anda að sér hreinu lofti eftir marga daga, jafnvel ár, í reyk og skít eða kannski er betra að segja “í móðu”.

Ég hef upplifað þessa tilfinningu nokkrum sinnum þó ég sé ekki alki - allavega ekki opinberlega. Nú síðast í gærkvöld kom þessi tilfinning yfir mig af miklu afli – svo miklu afli að ég hætti öllu sem ég var að gera og byrjaði að tala við sjálfan mig:

“Jón, hvað ertu að gera?” spurði ég sjálfan mig.

“Ég er bara að fá mér túnfisk, ég er nefnilega svangur,” svaraði ég sjálfum mér óvenju stuttur í spuna.

“En af hverju svona?” spurði ég um hæl.

“Hvað meinarðu?” svaraði ég og spurði um leið.

“Af hverju ertu að borða hann beint úr dósinni?” spurði ég fremur hneykslaður.

Og þá fattaði ég hvað ég átti við. Ég var ósáttur við það að vera næstum því þrítugur að borða túnfisk beint úr dósinni og eingöngu í nærfötum í ofanálag (þ.e. ég en ekki túnfiskurinn (hahaha)). Ég ákvað hér með að hræra túnfisk í sýrðan rjóma. Það væri óneitanlega meiri klassi yfir því.

--

“Ég er sko búinn að borða minn skerf af túnfisk í dós,” tautaði ég við sjálfan mig þegar ég lagðist upp í rúm síðar um kvöldið með leifarnar af kartöfluflögum á milli tannanna. "Ég er sko búinn að borða nóg af túnfisk í dós," endurtók ég og sofnaði efnuðum svefni - drakk nefnilega eina rauðvín yfir föstudags-Disneymyndinni. Mig dreymdi að ég hefði hlotið Óskarsverðlaun fyrir aukahlutverk í gamanmynd eftir Coenbræður og vaknaði þegar J-Lo var um það bil að færa mér styttuna góðu með tilheyrandi kossum og faðmlögum. Dæmigert.

Kv.

JK.

14 mars, 2004

Trúir maður á örlög?

Já og nei býst ég við. Svona opinberlega gef ég lítið fyrir þau en ég verð víst að viðurkenna að ég les ársspána í Mogganum á hverjum gamlársdegi en tek svona hæfilegt mark á henni.

Og svo hef ég eytt fyrstu klukkutímum dagsins í dag að skoða stjörnuspá á netinu - einhver er trúin greinilega. Það er ýmislegt til í þessum bransa s.s. talnaspá, lófalestur og hefðbundin ársspá sem byggð er á afstöðu tungla og er eitthvað sem ég skil ekki. Síðan er hægt að fá skýrslu um hina ýmsu þætti lífsins. Ég get til dæmis pantað skýrslu um ástina og hvernig hún muni leika mig á næstunni og svo geta stjörnuvísindin svarað því hvort maður muni meika það svona careerlega séð.

Þannig má víst segja að maður trúir á örlög sem er auðvitað hið versta mál um leið og það er hið besta. Þetta er hið versta mál af því að maður sættir sig við alla skapaða hluti vegna þess að maður hefur talið sér trú um að hlutirnir séu eins og þeir eru af því að þeir eiga að vera eins og þeir eru. Mér tekst ekki eitthvað og það er ekki séns að mér takist það nokkurn tímann.

Að sama skapi er þetta lausnin á mörgum vandamálum og æðruleysislegt viðhorf til lífsins er að öllu jöfnu vænlegt. Af hverju að vera súr yfir einhverju? Það er ekkert sem ég get gert - þetta er allt skrifað í stjörnurnar.

Þegar ég er timbraður eins og í gær og í dag aðhyllist ég forlagahyggjuna með neikvæðum formerkjum. Ég mun deyja örvæntingarfullur og einmana. Sennilega fljótlega.

Aðra daga er ég bjartsýnn jafnvel þó ég trúi á örlög því framtíðin er björt og þessi heimur er sá allrabesti heimur sem til er eins og prófessor Altúnga sagði. Allt er í lagi, allt er í allrabesta lagi.

Kv.

JK.


eXTReMe Tracker