Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 ágúst, 2006

Bob

Keypti deluxe útgáfu af Modern times í gær. Hulstrið er ekki þetta dæmigerða plasthulstur heldur er það úr stífum pappír og með fylgir DVD-diskur eins og er í tísku þessa dagana. Búinn að hlusta nokkrum sinnum á plötuna og hún minnir um margt á Love and theft, sama sánd, sami andi. Hún er persónuleg en umfram allt er hún sérviskuleg sem er einkenni á merkilegum plötum.

Á DVD-inu er nýleg læf upptaka af Love sick. Holningin á Dylan er sú sama og fyrir fjörutíu árum síðan. Andlitið þó veðurbarið. Orðið "karisma" kemur upp í hugann.

Dylan sýnir engin svipbrigði og engar tilfinningar, brosir ekki einu sinni þegar áhorfendur klappa í lokin. Hann er bara working stiff eins og við hin að vinna vinnuna sína. Það þarf ekkert að þakka honum.

Knúturinn.

30 ágúst, 2006

Tindabikkjur - í hvaða veðri sem er

Gönguhópurinn Tindabikkjur stillir sér upp fyrir ljósmyndara eftir vel heppnaða atlögu að Herðubreið. Frá vinstri: Jón Hafliði Sigurjónsson, Birgir Björnsson, ég sjálfur og Guðmundur F. Gilsson. Á myndina vantar Huga Þórðarson sem komst ekki í gönguna.

Jamm, þið fáið ekki svona kálfa í World class skal ég segja ykkur! Onei.

...

Jón hefur verið minn göngufélagi allt frá því að dellan varð að ástríðu fyrir fjórum árum síðan fyrir utan einn vetur þegar Gummi leysti hann af. Jón er mikill útivistarmaður frá náttúrunar hendi og getur borið kennsl á sama fjallið frá mörgum sjónarhornum. Væri ekki fyrir hann hefði ég orðið úti fyrir mörgum árum síðan. Hræið af mér væri uppí fjalli einhvers staðar, fimm hundruð metrum frá Fjarðabyggð.

Gummi er naglinn. Hann heldur alltaf áfram no matter what. Ég hef aldrei séð hann gefast upp fyrir fjalli. Gummi er ódrepandi og ef eitthvað réttlæti væri til í þessum heimi væri stytta af Gumma inná öllum betri heimilum. Gummi skar skálmarnar af gallabuxunum sínum í göngunni og varð fyrir vikið útgáfa útivistarmannsins af Kurt Cobain.

Með Birgi hef ég ekki gengið nógu oft til að fella neina dóma um hann. Það verður vonandi fljótlega. Hann minnir mig óneitanlega á ungan Gumma en Birgir er þó flottari í tauinu. Á myndina vantar kúrekahattinn sem hann bar í göngunni.

Ég er tískulöggan í hópnum. Eins og sést á myndinni eru fötin mín flottari (og dýrari) en þeirra. Svo næ ég Stallone betur en þeir til samans (hafiði séð annan eins hörkusvip?).

...

Annars var gangan á Herðubreið vel heppnuð. Vorum tvo og hálfan upp og klukkutíma niður. Hef eiginlega ekkert meira um gönguna að segja en það segir í sjálfu sér sína sögu. Þetta var svona ganga fyrir fólkið sem gengur Esjuna tvöhundruð sinnum á ári og tekur tímann á sér í hvert skipti. Fjallið er bratt og athygli manns fer fyrst og síðast í gönguna sjálfa. Þegar maður kemst upp á sléttuna taka við stökk á milli blágrýtishnullunga þar til maður snertir geirvörtuna sjálfa. Síðan nýtur maður útsýnisins í korter og svo hleypur maður niður á fullu blasti (þvílíkt og annað eins stuð!). Þetta er því draumur útivistarfólks sem fílar í raun betur að hlaupa á bretti í World class.

Mínar eftirlætis göngur eru af öðru tagi. Kem að því síðar.

Knúturinn.

Kennslustund

Arnar Eggert, mússíkblaðamaður Íslands nr. 1, fagnar nýja Dylan-albúminu í Mogganum í dag og kallar hana meistaraverk. Ég reyni nú að lesa flest sem Arnar skrifar í Moggann (í þau fáu skipti sem ég les blaðið yfir höfuð) og ég leyfi mér að fullyrða að þetta orð notar hann ekki oft.

Arnar rifjar upp í greininni þegar hann heyrði Time out of mind í fyrsta skipti. "Já, þetta er alvöru dæmi, Dylan er kúl og hefur eitthvað að segja," segir hann og ég man að það voru svipaðar tilfinningar sem fóru um mig þegar ég heyrði plötuna fyrst. Maður átti auðvitað gömlu meistaraverkin Highway og Blood og svo einhverjar safnplötur en maður fílaði Dylan á svipaðan máta og maður fílaði gömlu Stones-plöturnar - Dylan var einskonar minnisvarði um hvað popptónlist var einu sinni góð. Það síðasta sem maður átti von á var að Dylan myndi nokkurn tímann eiga daga aftur eins og hann átti fyrir þrjátíu árum síðan. Maður gapti hreinlega þegar Time out of mind rann í gegn. Hvað kom eiginlega fyrir? Af hverju er þetta ferskasta plata ársins en ekki eitthvað með young guns eins og Smashing pumpkins?

Fyrir mér er tíundi áratugurinn fram til þessa dags eftirlætis tímabilið mitt með Dylan. Kóverplöturnar As good as I have been to you og World gone wrong eru báðar frábærar (þá seinni tók ég með mér í Laufskálann hjá Ásgrími Inga á ritstjóraárunum) og frá og með útgáfu þeirra hefur Dylan alltaf gert eitthvað sem skiptir máli.

...

Allt saman er þetta efni í annan pistil sem einhvern tímann verður skrifaður á þessa síðu (eftir fjörutíu ár, ég lofa) því þessi frjósemi hins hálfsjötuga Dylans sýnir hvernig sú hugmynd um að aldur merki hnignun og dauða er fullkomið bollocks. Tveir meistarar bandarískrar menningar, Dylan og Philip Roth, eru að gera sín bestu verk á eftirlaunaaldri!

Þannig að:

Páll Ásgeir: Þú ert ekki of gamall til að fara í Barðsneshlaup að ári.

Pabbi: Þú þarft ekki að fíla harmonikkumússík eftir fimmtán ár. Þú mátt halda áfram að hlusta á bandarískan blús.

Ég sjálfur: Ósk þín um að verða gamall langt fyrir aldur fram er ókei. Mjög skiljanleg reyndar.

...

En svona án gríns eru Roth og Dylan að gera verk sem menn gera ekki án lífsreynslu. Þeir eru sáttir við að eldast enda er útí hött að gera það ekki, þá myndu þeir bara vera eins og Mick Jagger - hálfvitalegir, og þeir eru að gera það sem eldra fólk gerir best. Þeir eru að kenna okkur unga og hrokafulla fólkinu mikilvægar lexíur: Þá mikilvægustu kenna þeir okkur með sínu eigin lífi, nefnilega þá að maður útskrifast ekki fyrr en maður hættir að anda. Þangað til á lífið að vera barningur og þangað til fær maður alltaf annan séns.

Knúturinn.

27 ágúst, 2006

Dylan

Nýja Dylanplatan fær fullt hús hjá bandaríska tímaritinu Rolling stone. Þá held ég að það sé útséð með það að hún fái líka fullt hús í Mojo, Uncut og öllum þessum biblíum. Ég fann það á mér að hún yrði svona critics favorite. Það eru auðvitað talsverðar líkur á að Dylan fari á kostum á nýju plötunni en ekki má heldur gleyma hjarðeðli tónlistargagnrýnenda.

...

Margar plötur hafa verið hæpaðar upp í hæstu hæðir eins og virðist vera gerast með Dylanplötuna núna. Þegar ég var úti í Bretlandi var pressan uppfull af því að Reveal með REM væri það besta síðan byrjað var að selja niðursneitt brauð en þegar menn vöknuðu úr transinum kom í ljós að svo var ekki. Hún var í raun óttalegt prump.

Svipaða sögu má segja um seinni Stone roses plötuna - með öfugum formerkjum að vísu. Second coming var hökkuð í spað áður en hún kom út en platan hefur staðist tímans tönn með prýði og ef eitthvað er hefur hún elst að minnsta kosti jafn vel og debjútið (talandi um Roses, er að hugsa um að kaupa eitt verk af John Squire til að hafa í stofunni, tékk it !).

Þannig að það er bara að bíða og sjá. Vonandi stenst Dylan væntingar. Ég hugsa að hann geri það.

Knúturinn.

Leyndarmálið

Er kominn með flensu í annað skiptið í sumar. Þessi er samskonar og sú síðasta. Hausverkur og allsherjar dislocation fílingur. Drullan sem vellur uppúr mér er hvít og...æi, sleppum þessu.

...

Kiddi P. heitir maðurinn sem ætlar ritstýra og gefa út fyrstu bókina mína. Áætlað er að hún komi út einhvern tímann áður en ég dey. Hún verður um Norðfjörð á einhvern hátt. Ævisaga þorps og ungs þorpara. Þorparinn er ég auðvitað. Best að reyna ekki að ljúga öðru. Ef ég klára hana ekki þá klára ég hana ekki.

...

Ef ég fæ einhverju ráðið verður hún bara seld í Tónspil og ef Herr editor tekst að plata mig í upplestur (í Tónspil) ætla ég að grafa upp Einar Björn Jónsson, sólógítarleikara og leiðtoga Langa Kela og stubbanna, og fá hann til að spila undir. Á titilsíðu bókarinnar mun standa: "Hann gerði ekki margt af sér um ævina en hann viðurkenndi allt - óumbeðinn."

...

Kidda P. fannst síðasta færsla of fáguð eða "raffineruð" eins og hann orðaði það. "Þú ert að verða meðvitaður," bullaði hann og vildi meira af þessu "ómeðvitaða" röff stöffi. Ég nennti ekki að ræða þetta við hann enda var þetta tóm steypa í honum. Hvernig get ákveðið að skrifa ómeðvitað? Er það ekki soldið meðvitað?

...

Mér virðist ganga illa að taka gagnrýni. Spyrjið bara vesalings fólkið sem gagnrýndi Austurgluggann á sínum tíma. Annað hvort tók ég brjálæðiskast eða þunglyndiskast. Þunglyndiskast ef gagnrýnandinn var einhver sem ég tók mark á en brjálæðiskast ef það var einhver fáviti að biðja um að spurning vikunnar yrði tekinn oftar á Fáskrúðsfirði.

("Bíddu, bíddu, bíddu. Ertu að segja mér það að þú hafir tekið þá ákvörðun í morgun að eyða símtali á mig af því að þú ert ekki enn búinn að lenda í spurningu vikunnar? Segðu mér, býrðu einn? Er sjónvarpið besti vinur þinn? ERTU DJÖFULSINS VIÐRINI SEM HEFUR EKKERT BETRA AÐ GERA EN AÐ TRUFLA MIG !?")

...

En. Ég tek auðvitað mark á Kidda P. Drengurinn er tempraður og tilgerðarlaus bóhem úr 101(líður í raun og veru vel innan um liðið á Sirkus) og svo sagði hann við mig nokkrar setningar í fyrrahaust sem sitja í mér. Við sátum á Dillon og Kiddi hafði talað non-stop í tvo klukkutíma um kvikmyndir einhverra Evrópumanna sem ég hafði aldrei heyrt um. Ég var löngu dottinn út og byrjaður að hugsa dónalegar hugsanir um stelpuna sem afgreiddi á barnum en datt allt í einu inn aftur þegar hann sagði:

"Þú átt ekki að vera hæðast að fortíðinni, þér á að þykja vænt um hana." Hann var að tala um einhverja þungarokksminningu sem ég hafði skrifað hér á vefinn. "Hættu að skrifa eins og blaðamaður og reyndu að skrifa eins og rithöfundur."

Hann var auðvitað pissfullur. En samt. Þetta voru ekki bara orð. Hann var að segja eitthvað.

...

Allavega. Framvegis ætla ég að blogga um samskipti okkar Kidda. Gæti orðið skemmtilegt.

Knúturinn.

25 ágúst, 2006

Smábæjarkvíði

Með fullri virðingu fyrir Hunter S. Thompson stóð ég á franska mel, mitt á milli Miðgarðs og Melagötu, þegar vímuefnin byrjuðu að virka. Ég hafði setið að drykkju heima hjá einum af lókalgleðimönnunum ásamt nokkrum útbrunnum sjómönnum frá klukkan þrjú um nóttina til klukkan átta um morguninn. Þá læddist ég út, búinn að fá uppí kok af sögum um breytingar á togveiðiskipum flotans. Það var enn myrkur enda fyrsta vika janúar ekki liðin.

Ég hafði gengið þessa leið oft. Það er að segja út Miðgarð, yfir franska mel, síðan út Melagötu og svo áleiðis heim á Víðimýri. Reyndar gekk ég ekki alltaf sömu leiðina þegar ég var búinn að ganga Melagötuna því þá gekk ég stundum niður í bæ eða upp á Hlíðargötu og þaðan heim. Ég þekkti leiðina svo vel að það skipti mig engu máli hvort ég sæi framfyrir mig eða ekki. Þannig að oftast horfði ég niðurfyrir mig.

Þegar ég gekk þess leið tíu ára gamall gleymdi ég mér í allskyns pælingum um hvað morgundagurinn bæri í skauti sér. Ég sá fyrir mér að ég, Gummi og Fjalar, sem báðir bjuggu í Miðgarði, færum með snjósleðana okkar upp í fjall að þessu sinni og kannski gætum við fengið að gista saman ef foreldrarnir leyfðu, sem þeir gerðu nú svona yfirleitt.

Þið sem vitið að franski melur er grafreitur franskra sjómanna finnst kannski undarlegt að barn skuli hafa haft gaman af að ganga á frönskum líkum. Það er kannski skrýtið en dauðinn og allt sem honum viðkemur hefur bara aldrei verið neitt issjú hjá mér - ég óttast hann hvorki né þrái. Og svo fannst mér ef til vill heillandi að heimsækja stað sem kallaður var "franski melur" - nær útlöndum kæmist maður sennilega ekki í Neskaupstað þó ég hafi ekki áttað mig á því þá.

En ég veit ekki hvað það var. Undanfarið hafði ég gengið þessa leið og horft niðurfyrir mig eins og venjulega, yfirleitt ölvaður, en gaf morgundeginum engan gaum. Ég vissi alveg hvað biði mín. Ég þyrfti að vakna klukkan sjö og drullast í netagerðina þar sem ég hafði unnið frá því í apríl árið áður. Um hádegisleyti hyrfi þynnkan og við tæki nokkurs konar hlutleysisástand; ekki þunnur, ekki edrú, ekki neitt; þar sem ég reyndi að hafa gaman af fólkinu sem ég vann með. Um fjögurleytið fór ég að ímynda mér hvort við félagarnir gætum ekki fengið okkur í glas saman á Króka, þorpsknæpunni sálugu.

En það var laugardagsmorgunn, það var stjörnubjart og stillt, og umfram allt þurfti ég ekki að fara vinna. Í kringum hálfsjöleytið, einum og hálfum tíma fyrr, hafði ég prófað töfrasveppi í fyrsta skipti á ævinni og hafði nokkur hávær orð um það í partíinu að það "væri bara ekkert að gerast í hausnum á mér!" Þeir sögðu mér að slaka á: "Þetta kemur allt saman." En þetta "Þetta" kom ekkert. Mér leið ekki vel í þessum félagsskap. Þetta var ekki minn heimur. Á meðan þessir strákar voru á sjó var ég alltaf í landi.

En svo byrjaði ég að taka eftir marrinu í snjónum. Með hverju skrefi sem ég tók varð marrið greinilegra og svo nákvæmt að mér fannst eins og ég gæti skilgreint það og útskýrt hvers vegna hljóðið var eins og það var nákvæmlega upp á hár. Ég byrjaði að ganga hægt og vandaði mig við hvert skref, svona eins og ég væri að æfa mig að skrifa gotneskt letur í fyrsta skipti. Hefði einhver verið að ganga Hafnarbrautina, neðan við melinn, og séð mig hefði sá hinn sami sennilega haldið að Frakkarnir væru afturgengnir.

Tíminn sem það tók að ganga frá enda Miðgarðs upp á melinn virtist vera heil eilífð þó þetta séu örfáir metrar og á miðri leið tók ég mér hvíld. Ég settist á stein og fann sígarettu í innanávasa svarta leðurjakkans sem ég hafði fengið í tvítugsafmælisgjöf frá foreldrum mínum þá um haustið. Líklega hafði ég stolið henni frá einhverjum í partíinu því yfirleitt reykti ég ekki sígarettur. Ég reykti smávindla eins og Bono í U2. Í vasanum var líka zippókveikari og ég man að ég lofaði sjálfum mér að skila honum strax í næsta partíi sem að öllum líkindum yrði næstu nótt.

Ég kveikti á henni og hljóðið í brennandi sígarettunni var jafn nákvæmt og marrið í snjónum nokkrum augnablikum fyrr. Sennilega pældi ég í hljóðinu í dágóða stund því ég rankaði ekki við mér fyrr en sígarettan brenndi vísifingur hægri handar. Ég hrökk við og leit upp í fyrsta skipti síðan ég fór úr partíinu. Ljósin í þorpinu spegluðust á sjónum og þorpið virtist mun stærra en það var í dagsbirtunni. Aðra eins ljósadýrð hafði ég aldrei séð; ljóstaumarnir virtust umlykja mig, rauðir, grænir, bláir, appelsínugulir, hvítir. Þeir voru allsstaðar og ég reyndi að snerta þá.

Ég byrjaði að hlæja, skellihlæja. Ég skildi að bara með örlítilli hjálp ofskynjunarlyfja hafði ég breytt Neskaupstað í Los Angeles.

24 ágúst, 2006

Rockstar

(Sorrí Agnes en ég hugsa að Magni detti út í næstu viku).

...

Flutningur Magna á Fire í gær var, eins og T. Lee sagði, ridiculous. Ástæðan fyrir þessum frábæra performans var sú að Magni er ekki egóisti og hann leyfir bandinu að blómstra - bandið blómstrar ekki hjá Dilönu, Lukas, Ryan eða Storm - þau eru nefnilega of miklir egóistar.

Í skotinu þar sem Magni dró sig til baka og sneri sér að trommaranum og bassaleikaranum á meðan gítarleikarinn tók völdin minnti hann mig á Springsteen en Springarinn dregur sig alltaf í hlé þegar svarti fitukeppurinn tekur saxasóló. Að öðru leyti líki ég honum ekki við Bruce - svo mikill er Magni ekki. Segjum bara að í gær var hann The Boss (orðið er ekki bara gælunafn fyrir Springarann heldur líka einskonar illskilgreinanlegt attitjút. Kannski má segja að hans vegna hafi húsbandið orðið meira en summa einstaklinganna í því. Skiljiði?)!

...

Magni þarf ekki að sanna neitt frekar fyrir mér. Hann er kannski ekki rokkstjarna en hann er rokkari. Svona eins og ég og þú.

Knúturinn.

ES. Upphafleg yfirskrift þessa pistils var: "Er Magni Jón Kristjánsson rokksins?" Einhvern tímann svara ég þessari spurningu en ekki í dag. Þarf endilega að nota daginn í eitthvað annað.

23 ágúst, 2006

Rockstar

Það var svona bissness as júsjúal hjá Magna í gær. Þetta var fínt og allt það en ég er kominn með verulegar efasemdir um að hann verði í topp 3. Hugsa að Ryan verði í úrslitunum með Lukas og Dilönu. Ryan virðist vera óskrifað blað og getur nánast farið í hvaða gervi sem er til að þóknast sukkurunum í Supernova. Magni hefur verið atvinnutónlistarmaður í mörg ár og fyrir löngu búinn að "finna sjálfan sig" hvað sem það nú þýðir í raun og veru. Með Magna er það bara what you see is what you get og þar fram eftir götunum.

...

Tommy Lee, the wild man of rock himself, kom með nokkur gullkorn í gær. Hann lagði til að Magni myndi brjóta gítar í næsta performans og því miður jánkaði Magni og tautaði eitthvað á þá leið að það væri góð hugmynd.

Já...þabbarasona.

Þið afsakið en á svona tékklistahugsun heima í rokk og róli? Vitaskuld ekki. Ef Magna langar til að brjóta gítar þá gerir hann það nákvæmlega á þeirri stundu sem honum dettur í hug að brjóta gítar. Hann hugsar ekki: "Ókei, hálf mínúta eftir af laginu, best að brjóta gítarinn núna svo ég hafi tíma til að öskra "Rock will never die" í ruslatunnuendinum. Bíddu, þá er ég búinn með þetta, þetta og þetta og á bara eftir að gera þetta." Svona gerir enginn sannur rokkari.

Hvað um það. Tommy Lee, the wild man of rock himself, hugsar eins og eyðublað. Amazing.

...

Annars er Tommy Lee augsýnilega einn af þessum mönnum sem er ástfanginn af eigin goðsögn. Hann notar hvert tækifæri til að næra hana og sýna að hann er hinn eini sanni wild man of rock. Eitthvað virðist eiturlyfjaneyslan vera farinn að trufla eðlilega heilastarfsemi því í lok þáttarins í gær var sýnt örstutt myndbrot þar sem the wild man of rock himself fór í sleik við bolabít. Þetta var í besta falli hallærislegt en í versta falli ógeðslegt og í lang versta falli óhuggulegt.

...

Sko, fyrir tuttugu og fimm árum beit Ozzy höfuðið af hænu og það var rokk. Myndi Tommy Lee kannski gera eitthvað annað við hænuna? Látum okkur sjá, kannski eitthvað svona:

"Hei Tommy, djöfull varstu magnaður í Vegas, maður! Ha, þú drakkst bara alla undir borðið! Þú ert maníak! MANÍAK, segi ég og skrifa, ha! Nei, ertu með hænu? Flottur, maður! Það hefur enginn drepið hænu á sviði síðan Ozzy um árið, ha? Tommy, af hverju ertu að girða niður um þig? Hvað ertu að gera við vesalings hænuna? Tommy? Ertu ekki í lagi? Neineinei!!! Ekki gera þetta!!! Aaaaarrrgghhh!!!"

Tommy stendur útí horni og snýr baki í áhorfendur. Hann hristist eins og hlaup í krukku við verknaðinn og fólk trúir ekki eigin augum. Þegar hann hefur lokið sér af snýr hann sér við og æpir í myndavélarnar, augljóslega sturlaður: "Anybody want this?" og bendir á fiðraðan skaufann. Nokkur bimbó á fremsta bekk svara kallinu: "Me, me, me!" Sandra, brúnhærð, hálffertug, situr á þriðja bekk. Hún sér ljósið á þessu augnabliki og ákveður að fara heim. Hérna finnur hún ekki nýjan pabba handa hinum átta ára gamla Mark sem hún átti með rótara hljómsveitarinnar L.A. Guns. Og Brooke Burke ælir vitaskuld grænmetisbuffinu sem hún borðaði í hádegismat.

Þannig að: Tommy, ef þú ætlar eitthvað að eiga við þennan bolabít í næstu viku vertu þá alvöru rokkari og skerðu höfuðið af skepnunni. Þá getur þú drukkið blóðið úr henni eða eitthvað þannig lagað. Miklu meira töff, skilurðu. Allavega meiri metall.

Knúturinn.

22 ágúst, 2006

Good ol' lynchin', down in good ol' Dixie

Á síðustu dögum mótmæla hér eystra tóku synir Reyðarfjarðar sig til og framkvæmdu það sem foreldrarnir hugsuðu. Þeir grýttu eggjum á tjaldbúðir mótmælenda. Þetta mun vera fyrsta eggjagrýtingin á Austurlandi síðan Vottar Jehóva voru grýttir í lok níunda áratugar aldarinnar sem leið.

...

Viðbót kl. 13:40.

Það er stundum mjög erfitt að vera stoltur Austfirðingur. Merkimiðinn gefur til kynna að maður sé stóriðjusinnaður framsóknarmaður (ekki endilega í flokknum enda er framsóknarmennska lífsviðhorf, ekki flokksskírteini) og einhvern veginn virðist það vera sjálfgefið að maður kvitti undir svona barbarisma eins og lýst var fyrir ofan.

Málin flækjast síðan enn meir þegar maður er í raun og veru fylgjandi álversframkvæmdum á Austurlandi. Mér líkar nefnilega jafn illa við að vera kallaður stuðningsmaður þjóðarmorðs í Írak (eins og umræðan byrjaði í fáein augnablik að snúast um vegna Draumalandsins hans Andra) og að horfa upp á ofbeldi sem sveitungar mínir beita fólki sem hefur fullan rétt til að vera á Reyðarfirði og mótmæla.

Með öðrum orðum:

Ég styð álversframkvæmdir á Austurlandi en samt...

a) ...stóð ég ekki upp og klappaði þegar Einar Rafn Haraldsson og félagar hans í Afli fyrir Austurland skoruðu á RÚV að reka Ómar Ragnarsson fyrir hlutdrægan fréttaflutning.

b) ...hlakkaði ekki í mér þegar félagar í Afli fjölmenntu á aðalfund Náttúruverndarsamtaka Austurlands og breyttu stefnuskrá þeirra. Hjörleifur Gutt líkti þessu við nauðgun. Það var nokkuð til í því.

c) ...stunda ég meiri útivist á Austurlandi en þorri álversandstæðinga.

...

Já, það eru þversagnakenndar tilfinningar sem maður berst við og hefur barist við síðustu tíu ár eða svo. Og það er fokkin töff að þurfa að díla við þetta nánast á hverjum degi.

Já, það er töff að vera ég.

Ég segi því eins og Jóhanna Kristjónsdóttir sagði einu sinni að loknu viðtali sem ég tók við hana fyrir löngu. Ég man ekki hver spurningin var en svarið var svona: "Ef þér finnst skoðanir mínar mótsagnakenndar er það vegna mótsagnanna í mér."

Gáfuð kona, hún Jóhanna. Og hún á gáfaða syni, gáfaðar dætur og gáfuð barnabörn. Þetta segi ég þó ég sé álverssinni.

Knúturinn.

17 ágúst, 2006

Rockstar

Ég óttast að Magni missi sjálfstraustið eftir tíðindi gærkvöldsins. Perfomansið hjá honum í fyrrakvöld var augljóslega nógu gott til að koma honum áfram án þess að hann þyrfti að sanna tilverurétt sinn frekar í þessum botnslag í nótt. Starman var ekkert brilljant hjá honum en fínt samt sem áður.

...

Kannski fer það í taugarnar á fólki hvað Magni virðist hafa haft lítið fyrir þessu undanfarnar vikur og ef til vill ætti hann að gera sér upp einhvern rembing í næstu viku. Þá fengi fólk kannski meiri samúð með honum, þið vitið, "hann er allavega að reyna" og allt það. Það virðist vera skila Ryan áfram.

...

Síðasta setningin í fyrstu málsgreininni er kannski aðalatriðið. Allt sem Magni gerir, svona hvað sönginn varðar allavega, er nefnilega fínt; ekkert minna en því miður aldrei neitt meira heldur. Ef hann væri sessjónhljóðfæraleikari væri hann fullkominn.

En. Hann er að sækja um djobb sem rokkstjarna.

...

Hluti af sjarma rokkstjörnunnar er einmitt sá að hún er mannleg, helst ofurmannleg, og mannlegum mönnum verður stundum á í messunni. Auk þess er allt sem rokkstjarnan gerir í einhverjum öfgafullum hlutföllum (rokk og ról snýst um öfgar). Þegar henni tekst vel upp er hún guðleg vera en þegar hún gerir mistök eru þau hryllileg, verri en nokkur dauðleg vera gæti nokkurn tímann gert. Rokkstjarnan er breysk og við sættum okkur við það í þeirri góðu trú um að næst geri hún eitthvað stórfenglegt, eitthvað out of this world.

...

Magni er í mínum huga fyrst og síðast klassískur strákur úr sveitinni með heilbrigt vinnusiðferði. Í hans huga er ekki til leiðinleg vinna, það er einungis til vel eða illa unnin vinna. Þetta gerir hann eflaust að góðri manneskju en um leið verður hann alltaf fremur róbótísk rokkstjarna.

Sem sagt: Þegar allt kemur til alls er aumingja Magni sennilega ekki nógu mikill skíthæll til að sigra keppnina.

Knúturinn.

15 ágúst, 2006

Alkóhólismi

Blogg á að vera persónulegt og egósentrískt raus. Þetta er bara mín skoðun og þess vegna finnst mér bloggið fullkomið fyrir egósentrískan rausara eins og mig.

...


Í morgun ætlaði ég að skrifa um alkóhólismann minn (við sem drekkum erum öll alkar). Þetta átti að vera saga hans frá því að ég datt í það í fyrsta skipti með Dadda vini mínum uppí beituskúrsrisi sjómannadagshelgina 1989 fram til dagsins í dag. Ætlunin var að velja nokkur afdrifarík fyllerí, greina frá afleiðingum þeirra og hugsanlega meta framlag þeirra í sköpunarsögu Jóns Knúts Ásmundssonar. Þetta átti allt að vera mjög kómískt og kaldhæðið og þannig ætlaði ég að baktryggja að ég gæti svarað neitandi spurningunni um hvort sögurnar væru sannar.

En. Ég hætti við.

Ég fann að þegar ég byrjaði að hamra á lyklaborðið blossaði upp í mér þetta meðfædda snobb fyrir áfengi. Það er nefnilega einhver hluti af mér sem alltaf hefur fundist flott að drekka og þess vegna var ég byrjaður að tíunda í smáatriðum hvað og hve mikið við Daddi drukkum þetta júníkvöld um árið (fyrir þá sem snobba fyrir brennivíni er spurningin um magn lykilatriði - því meira, því meiri karl í krapinu).

...

Ég þekkti ekki pabba mömmu minnar en hann var víst "old school" alki. Hann hét Halldór og ég veit bara að hann brann út fyrir fimmtugt. "Við vorum nýbúin að borða þegar hann stóð upp og sagðist ætla að leggja sig," sagði amma þegar ég bað hana um að rifja þetta upp einhvern tímann í fyrrahaust. "Síðan sofnaði hann og vaknaði ekki aftur."

Niðurstaða ömmu minnar var á þá leið að lífskraftur eiginmanns hennar hefði klárast. Ef til vill hefði hún sagt sannleikann umbúðalaust við einhvern annan en mig þ.e.a.s. að kallinn drakk sig einfaldlega í hel langt fyrir aldur fram.

...

Nú. Af hverju er ég segja ykkur frá afa mínum, manni sem ég kynntist aldrei?

Ég er ekki viss um að ég viti það sjálfur. Ég held samt að hefði ég þekkt hann og séð hvernig hann fór með sjálfan sig og fjölskyldu sína væri ég laus við þetta brennivínssnobb. Því það er eins með brennivínssnobbið og síldarævintýrið: Þeir sjá það í hillingum sem ekki tóku þátt í því. Hinir - hinir raunverulegu þátttakendur - eru enn að jafna sig og sjá nákvæmlega ekkert rómantískt við slitgigtina og bakverkina.

...

Stundum set ég popptexta inn á þessa síðu. Ykkur kann að þykja það easy way out en stundum negla popparar þetta Þetta (með stórum staf) svo vel niður að það væri rugl að nýta sér það ekki. Þessi heitir The girl of the north country og er eftir meistara Bob Dylan. Lagið má finna á Freewheelin'.

Þarna er hann eflaust (vonandi) að syngja um einhverja stúlku sem hann skildi eftir í Minnesota þegar hann ákvað að fara til NYC og meika það. Eftirsjá er uppspretta alls þess besta í poppbókmenntum. Finnst mér.

Well, if you're travelin' in the north country fair,
Where the winds hit heavy on the borderline,
Remember me to one who lives there.
She once was a true love of mine.

Well, if you go when the snowflakes storm,
When the rivers freeze and summer ends,
Please see if she's wearing a coat so warm,
To keep her from the howlin' winds.

Please see for me if her hair hangs long,
If it rolls and flows all down her breast.
Please see for me if her hair hangs long,
That's the way I remember her best.

I'm a-wonderin' if she remembers me at all.
Many times I've often prayed
In the darkness of my night,
In the brightness of my day.

So if you're travelin' in the north country fair,
Where the winds hit heavy on the borderline,
Remember me to one who lives there.
She once was a true love of mine.

Knúturinn.

11 ágúst, 2006

Orðsnilld

"Hvernig færi ef verð á matvöru lækkaði? Þjóðin keypti svo mikið og yrði svo feit að þrjú hundruð þúsund hræðurnar sprengdu utan af sér landrýmið og margir yrðu að búa á rússneskum megrunarprömmum?"
(DV, 11. ágúst)

Þórbergur eða HKL? Ég segi Guðbergur, Guðbergur, alltaf Guðbergur.

Knúturinn.

Bob

Horfði endursýninguna á Rockstar í gær...hvað get ég sagt? Þættirnir eru einfaldlega mínir uppáhalds þessa dagana og ástæðan fyrir því að ég ákvað að redda mér sjónvarpi í nýju íbúðina. Ætlaði að hafa hana sjónvarpslausa en who am I kidding? Ég er borderlínu sjónvarpssjúklingur.

Það var leiðinlegt að missa Josh úr þessari keppni svona snemma. Hann átti augljóslega ekki heima í Supernovu en það var hrein unun að hlusta á hann taka Bad company slagarann í gærkvöld. Storm, Ryan, Patrice og Z hefðu öll mátt fara á undan.

...

Í lok mánaðarins kemur út ný plata með meistara Bob Dylan. Þetta eru virkilega stór tíðindi í tónlistarheiminum því síðustu tvær plötur meistarans voru ALVÖRU meistarastykki: Time out of mind er sennilega ein af hans allra bestu, á stalli með Highway 61 revisited, Freewheelin' og Blood on the tracks og Love and theft er síðan ein af hans allra, allra bestu síðari tíma plötum, ekki síðri en gullmolinn Oh mercy frá '89.

Nýja platan hans heitir Modern times og miðað við stuðið á meistaranum undanfarin tíu ár eða svo (fyrir utan góðar plötur þá skrifaði hann góða bók) er óhætt að búast við veislu. Bözzið er að þetta sé einhvers konar blanda af Time og Love; angurværð og ambience hinnar fyrrnefndu blandað saman við spilagleði hinnar síðarnefndu. Ég hlakka til. Hún verður spiluð non-stop í innflutningspartíinu í haust.

Knúturinn.

10 ágúst, 2006

Rockstar

Horfði á Rockstar í nótt og þykist vita hvernig þetta fer allt saman:

Dilana: Tvímælalaust besti túlkandinn í þessari keppni og mér hefur fundist frá byrjun að hún sé of góð fyrir þessa útúrsukkuðu afsökun fyrir súpergrúbbu. Ég vona ennþá að stúlkan sigri ekki því sigur yrði áfall fyrir hana þó hún viti það ekki sjálf. Hún hlýtur bara að eiga eitthvað annað og betra skilið en að túlka lög Supernova.

Dilana kemst ekki hjá því að komast í úrslit en samt vil ég taka fram að hún fer sífellt meira í taugarnar á mér eftir því sem kynnin af henni verða meiri. Af hverju var hún t.d. að smjaðra svona fyrir Gilby "ekki einu sinni footnote" Clarke í gærkvöld? Veit hún ekki að þáttur hans í sögu Guns and roses var afar léttvægur (spilaði á einni kóverplötu með hljómsveitinni sem er verri en Thank you - hið alræmda kóveralbúm Duran Duran) og henni er enginn heiður sýndur með því að fá að koma fram með honum.

En. Hún bara veit þetta ekki. Ekki ennþá. Skilningurinn kemur síðar. Vonandi.

Ryan Star: Peter Gabriel wannabe verður aldrei söngvari hljómsveitar sem hefur Tommy Lee innanborðs. Intellekt og rokkmússík eiga ekki samleið.

Z: Stúlkan er hvítrusl/frík en slík frík hafa sossum meikað það í rokkinu. Þá var krakkhórunálgun hennar á I'm not an addict verulega sannfærandi. Ég fékk hroll. En það var bara tímabundin snilld, nokkurs konar geðrof. Í eðli sínu er hún illa blönduð blanda af glamrokki og shockrokki. Hún á heima annars staðar. Í sirkus sennilega. Í búri með hinum fríkunum.

Lukas: Það er augljóst að hinir útbrunnu meðlimir Supernova eru illa haldnir af mikilmennskubrjálæði og halda í sinni útúrsukkuðu sturlun að þeir hafi eitthvað fram að færa. Eitthvað ferskt og spennandi. Lukas passar vel inní þessi fáránlegu plön og hann mun að öllum líkindum sigra keppnina. Drengurinn er talent - á því er enginn vafi - og hann leikur hlutverk hins kvalda listamanns uppá tíu. Kannski er hann meira að segja kvalinn í alvörunni? Synd að honum skuli verða fórnað.

Magni og Toby: Ef það væri heil brú í heilabúi Supernova myndu þeir láta Magna eða Toby sigra. Þeir eru klassískir "one of the boys" rokkarar og stúlkurnar virðast fíla þá. Með þeim gæti hljómsveitin gert gamaldags rokkplötu sem yrði náttla hundómerkileg en yrði hljómsveitinni þó allavega ekki til skammar.

Magni verður vonandi í topp 3 ásamt Dilönu og Lukas en þar verður hann látinn fjúka. Það verður aldrei nein rökræn ástæða fyrir dömpinu því Magni er frábær söngvari og eini keppandinn sem nær einhverju kontakti við þetta húsband þannig að úr verði eitthvað kemmestrí á sviðinu. Hann vantar bara eitthvað sem Dilana og Lukas hafa.

Ég man ekki eftir hinum keppendunum sem segir allt um þá sem nokkurn tímann þarf að segja.

Knúturinn - með innsæið á hreinu.

09 ágúst, 2006

Vinur í raun

Ættingi minn sagði mér að hann ætti þessa "740" hugmynd. Og af því að um blóðbönd er að ræða hef ég ákveðið að taka aftur upp fyrra nafn.

...

Ég fékk gæsahúð þegar Magni söng þetta hundleiðinlega lag með Live í nótt. Drengurinn er þvílíkt að blómstra. Kannski hann vinni þetta bara.

Knúturinn.

02 ágúst, 2006

Eftirsjá og þrá

If I ventured in the slipstream
Between the viaducts of your dreams
Where mobile steel rims crack
And the ditch and the backroads stop
Could you find me
Would you kiss my eyes
And lay me down
In silence easy
To be born again

-Van Morrison

...

Hef ekkert skokkað undanfarna daga. Ég datt hins vegar í það með vinafólki á mánudagskvöldið og var yfirlýsingaglaður að venju. Hélt því m.a. fram að það eina sem gæti bjargað Austurlandi væru fimm þúsund innflytjendur frá Póllandi því þá myndum við kannski hætta að borða þorramat, drekka landa og yrkja ferskeytlur. Ég var óvenju skemmtilegur skal ég segja ykkur.

Knúturinn.

01 ágúst, 2006

Lester

“My most memorable childhood fantasy was to have a mansion with catacombs underneath containing, alphabetized in endless winding dimly-lit musty rows, every album ever released.”

Svo skrifaði Lester Bangs eitt sinn. Sætt? Nei, varla. Fremur nöturlegt myndi ég segja.

...

Ég er byrjaður að fá draslið mitt að sunnan. Kaffivélin mín, bækurnar mínar og geisladiskarnir. Þetta er það eina sem ég átti fyrir stuttu. Og dugði mér ágætlega.

...

Í einum kassanum voru nokkrar bækur sem ég held upp á. Þarna eru t.d. Notes of a dirty old man (stuttir pistlar eftir Charles Bukowski), The last picture show eftir Larry McMurtry og svo bækurnar hans Lesters. Ekki nema tvær að vísu og báðar gefnar út eftir hans dag.

...

Sennilega er Lester Bangs sá rithöfundur sem hvað mest áhrif hefur haft á mig en mér dettur ekki í hug að fara analísera það neitt frekar. Hann er allavega sá eini sem ég nenni að lesa aftur og aftur.

...

Lester var rokkjúrnalisti á tímum þegar sumir héldu að rokktónlist hefði eitthvað gildi umfram afþreyingu – að hún gæti jafnvel breytt einhverju. “This threat is cathartic,” skrifaði hann um Igga Pop löngu áður en hann þótti fínn pappír “...and the end is liberation.” Þegar menn trúa svona innilega á möguleika rokktónlistar verða vonbrigðin gríðarleg þegar sannleikurinn kemur í ljós.

Hann dó fátækur og einmana þann 30. apríl 1982, 33 ára gamall. Ég ætla ekki að fara útí smáatriði. Ég vil ekki drepa ykkur úr leiðindum.

...

Ykkur kann að finnast þetta lítilfjörleg bloggfærsla en trúið mér: Það er átak að viðurkenna fyrir sjálfum sér að uppáhalds rithöfundur manns hafi einungis getað skrifað um sjálfan sig og rokktónlist.

...

Leyfum Lester að eiga lokaorðið. Textinn virkar svo einfaldur en samt er vonlaust að stæla hann. Trúið mér, ég hef reynt. Margoft.

Vessgú:

“I was obviously brilliant, a gifted artist, a sensitive male unafraid to let his vulnerabilities show, one of the few people who actually understood what was wrong with our culture and why it couldn’t possibly have any future, a subject I talked about/gave impromptu free lessons on incessantly, especially when I was drunk, which was often, if not every night, a handsome motherfucker, good in bed though of course I was blessed with wisdom beyond my years and gender...I was fun, had a wild sense of humor, a truly unique and unpredictable individual, a performing rock and roll artist with a band of my own, perhaps a contender if not now then tomorrow for the title Best writer in a America. Who was better? Bukowski? Burroughs? Hunter Thompson? Gimme a break. I was the best.”

Knúturinn.

eXTReMe Tracker