Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

21 febrúar, 2005

Hunter

Bandaríski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Hunter S. Thompson fyrirfór sér um daginn eins og allir vita. Hunter var í fararbroddi hinnar svokölluðu "nýju blaðamennsku" sem átti sitt blómaskeið fyrir þrjátíu árum eða svo. Áhersla var lögð á skynjun blaðamannsins - hann átti að lýsa upplifun sinni og umfram allt átti blaðamaðurinn að leggja dóm á samfélagið sem hann lifði og hrærðist í. Þannig urðu þetta oft hápólitísk skrif og margir andstæðingar Hunters afgreiddu bækurnar hans sem skáldskap.

En það er rangt. Eftir kosningarnar 2003 las ég bókina Fear and loathing on the campaign trail '72. Í henni er greint frá forkosningu Demókrata og síðan forsetaslagnum á milli Nixons og George McGovern. Ég fékk skyndilega áhuga á pólitík þetta vor og las nokkrar svona campaign-bækur. Bókin hans Hunters var best. Hún var kannski ekki nákvæm og örugglega mátti finna böns af staðreyndavillum en lýsingin á kaosinu var sönn - í það minnsta fannst mér margt minna á kosningabaráttuna hér sem er mun lítilfjörlegri en sú ameríska svo ekki sé meira sagt.

...

Ég tók einu sinni viðtal við Magnús Tómasson listamann fyrir helgarblað DV þá undir sterkum áhrifum frá Hunter - þ.e. ég en ekki DV. Ég spurði Magnús á fimmta bjórglasi um konur og hvað honum fyndist um þær. Ég man ekki af hverju ég spurði en sem betur fer gerði ég það því svarið var svohljóðandi:

"Ég skal segja þér það kæri vinur," sagði Magnús, færði sig síðan alveg upp að mér og hvíslaði: "Snemma varð ég leiksoppur miðaldra kvenna sem vildu komast yfir minn liljuhvíta kropp."

Þvílíkt og annað eins! Svona one-linera gæti maður ekki einu sinni skáldað. Sennilega var svarið lengra en þetta var það eina sem ég hafði eftir honum.

Hunter hefði eflaust verið ánægður með viðtalið en ritstjóri DV var það ekki og tók mig á teppið. "Viðmælandinn er númer eitt. Ekki þú!" sagði hann og skipaði mér að taka viðtal við Þorstein Hilmarsson áróðursmeistara en í því átti Landsvirkjun að vera númer eitt.

"Þú ert nú meiri djöfulsins druslan!" hugsaði ég en sem betur fer segi ég yfirleitt ekki það sem ég hugsa. Ég settist því bara við skrifborðið mitt og hugsaði minn gang. Núna, fjórum árum síðar, er ég sammála ritstjóranum en af annarri ástæðu. Það er bara til einn Hunter og núna er hann farinn og blaðamennskan er fátækari fyrir vikið.

Leyfum Hunter að eiga lokaorðið:

"I've always considered writing the most hateful kind of work. I suspect it's a bit like fucking, which is only fun for amateurs. Old whores don't do much giggling."

Ég óttast að þetta sé satt og ætla mér því ekki að verða ellidauður í þessu djobbi.

Kv.

JK.

11 febrúar, 2005

Bob og ég

Var að panta frá Amazon fyrsta voljúm sjálfsævisögu Dylans. Hef aldrei lesið neina bók um Dylan en alltaf langað til þess. Las gagnrýni í Uncut um daginn þar sem blaðamaðurinn hélt vart vatni yfir snilldinni því bókin var að hans mati laus við allt slúðrið sem margir ævisöguritarar Dylans hafa velt sér uppúr (hassreykingar með Bítlunum, sjúklegur alkóhólismi undir lok áttunda áratugarins o.fl.). Er það gott? Hmmm...ég les mikið af svona rokkarabókmenntum og mér finnst slúðrið skemmtilegast. Skilst að Óli Palli hafi verið að fjalla um svona bækur í nýja bókaþættinum hans Þorsteins J. Sá hann einhver?

Hvað um það. Ég ætla að gefa þessari bók séns.

...

En me and Dylan go way back. Blood on the tracks, skilnaðarplatan fræga frá 1975, varð snemma ein af mínum uppáhalds. Pabbi átti hana á viníl og ég var sérstaklega hrifinn af fyrsta laginu, Tangled up in blue. Ég ætla ekkert að þykjast vera einhver annar en ég er og viðurkenni fúslega að fljótlega uppúr tólf ára aldri fór ég að hlusta á annars konar mússík (sjá nánar blogg 9.8.04) og ég og Bob vorum ekki neinir sérstakir trúnaðarvinir í mörg ár eða þar til ég byrjaði að hlusta á Blood on the tracks aftur sumarið 1995. Man ekki af hverju ég gerði það. Ég var alltaf að drekka viskíið hans pabba á kvöldin og sennilega var ég bara að fletta í gegnum plötusafnið hans og voila: Við urðum vinir aftur.

...

Það er soldið undarlegt með marga aðdáendur Dylans að þeir líta ekki á sig sem neina sérstaka aðdáendur. Auðvitað eru fanatískir aðdáendur inn á milli sem myndu ganga fram af bjargi ef Bob gæfi skipunina en flestir telja sig vera svona kasúal Dylanmenn. Og ég er einn af þeim.

Lausleg athugun á plötusafninu mínu leiddi hins vegar í ljós að ég á hvorki fleiri né færri en tuttugu diska með Dylan! Ég held að það séu bara Beach boys sem toppa það en ég á einhvers staðar í kringum fjörutíu með þeim telji ég diskana með Brian Wilson með. Af þessum tuttugu eru fimm sem ég hlusta mikið á. Þetta eru:

1. Blood on the tracks
2. Time out of mind
3. Oh mercy
4. Love and theft
5. Highway 61 revisited

Blonde on blonde er ekki á þessum lista þó flestir séu þeirrar skoðunar að hún sé meistaraverkið. Auðvitað er fullt af fínum lögum á henni en fyrir mér lýsir hún þessum dæmigerða Dylan sem flestir þekkja. Tónlistarnerðir fíla ekki að fíla það sem aðrir fíla.

...

Þó ég telji mig kasúal í mínum Dylanáhuga þá hef ég þegar myndað með mér alls kyns Dylansérvisku.

Þannig finnst mér frægustu lögin hans eins og Blowin in the wind, Rainy day women #12 & 35 og The times they are a-changin' ekkert sérstök. Þetta eru lög heillar kynslóðar og blablabla en ég vil frekar svona semí-þekkt lög eins og Simple twist of fate, Most of the time, Not dark yet og Mississippi. Persónuleg lög og laus við þessa öreigapólitík sem í raun og veru fer engum tónlistarmanni vel þegar hann er búinn að meika það.

Þá finnst mér ekki - eins og mörgum vinum mínum finnst - Dylan betri í flutningi annarra. Tvær undantekningar þó: All along the watchtower í flutningi Hendrix og Mr tambourine man í flutningi Byrds. En í flestum tilvikum eru lögin flottust hjá manninum sjálfum enda tengist hrifning mín að hluta til þessari fallegu en um leið ljótu rödd og ég þoli ekki þegar "góðir" söngvarar eins og Páll Rósinkranz syngja lög eftir Dylan.

...

En allavega. Ég var sem sagt að panta þessa bók.

Kv.

JK.

08 febrúar, 2005

Úr kosningabaráttunni

Er að leika mér að því að hringja í Samfylkingarmenn á Austurlandi, svona aðeins að taka púlsinn á þeim, hvar slær hjarta þeirra og svoleiðis. Ætlaði síðan að nota þessi "óformlegu" samtöl í grein fyrir næsta blað. Er efins núna. Það virðist öllum vera slétt sama um hver vinnur þetta. Svona getur raunveruleikaskyn manns brenglast þegar maður eyðir meiri tíma í að lesa blogg eða spjallsíður heldur en að vera "þarna úti" og tala við "venjulegt" fólk. Auðvitað er fólk ekkert að pæla í þessu! Það er að hugsa um Visareikninginn sem kom um síðustu mánaðarmót!

Hef enga sérstaka skoðun á þessu sjálfur. Fékk ógeð á Samfylkingunni eftir síðustu kosningar, sennilega vegna þess að ég vann hjá henni. Talandi um kosningar - allt í einu man ég sögu úr kosningabaráttunni.

Þannig var nú það að eitt af því sem ég gerði í Samfylkingarvinnunni var að skrifa greinar fyrir frambjóðendur sem voru of uppteknir til að tala við kjósendur. Einu sinni lenti ég t.d. í ritdeilu við ósýnilegasta þingmann allra tíma, Guðjón Guðmundsson frá Akranesi (þurfti að fletta honum upp á althingi.is á sínum tíma svo ég vissi í hvern ég átti að hjóla), og greinarnar birtust í leiðaraopnu Moggans. Þingmaðurinn, sem ég skrifaði fyrir, las greinarnar að vísu en hafði að öðru leyti takmarkaðan áhuga á ritdeilunni. Sagði bara: "Þetta er flott, endilega skrifaðu fleiri greinar fyrir mig. Geturðu ekki reynt að útskýra skattastefnuna okkar á mannamáli?"

Mig grunar hins vegar að Guðjón hafi tekið þetta mjög alvarlega og yfirleitt svaraði hann mjög málefnalega og vísaði í hinar og þessar OECD-tölur máli sínu til stuðnings. Ég man ekki um hvað þessa deila snerist en ég man hins vegar að ég svaraði aldrei málefnalega og rumpaði þessum greinum af milli þess sem ég talaði við trillukarla fyrir vestan en þeir vildu fá útskýringar á fyrningaleiðinni. Jahá barasta! Ég ætla að leyfa mér smá útúrdúr fyrst ég minntist á fyrningaleiðina. Einu sinni heyrði ég Jóhann Ársælsson þingmann segja að fyrningaleiðin væri góð og gild en vissulega væri erfitt að útskýra hana. Augljóslega var seinni helmingur setningarinnar réttur vegna þess að fyrri helmingurinn var rangur.

Hvað um það. Ég fékk einn morguninn það verkefni að skrifa grein fyrir Rannveigu Guðmundsdóttur. Ég spurði vinnufélaga minn sem þekkti betur til hennar hvernig grein þetta ætti að vera og fékk engin svör önnur en: "Hún skrifar nú yfirleitt fremur leiðinlegar greinar." Komst að því síðar að þetta er mjög almenn skoðun innan Samfylkingarinnar.

En eins og Ingibjörg Sólrún sagði á einhverjum peppfundi í upphafi baráttunnar þá er ekki til ómerkileg eða merkileg vinna. Aðeins illa og vel unnin vinna. Og með þessi orð að leiðarljósi settist ég við lyklaborðið og eyddi nokkrum klukkutímum í að berja saman lofrullu um Ingibjörgu Sólrúnu og hversu dásamlegur forsætisráðherra hún yrði. Ég var sannfærður um að mér hefði tekist að skrifa grein fyrir Rannveigu sem yrði lesin af fólki úr öllum flokkum. Allir myndu hrífast með og fylkja sér að baki ISG! Áfram konur!

Neinei, að öllu gríni slepptu þá vissi ég sossum að þetta myndi ekki hafa neitt að segja en ég var samt sem áður býsna ánægður með greinina og sagði allavega mömmu frá þessu. Hún las greinina nokkrum dögum síðar og var sammála mér. (“Rosalega fínt hjá þér, Nonni minn!”)

En staðreyndin er sú að enginn les svona greinar í kosningabaráttu nema sá sem er skrifaður fyrir þeim (ekki alltaf samt) og draugapenninn (les þær alltaf enda yfirleitt byrjandi í bransanum og finnst þetta voðalega merkilegt djobb). Kosningastjórarnir telja þetta einfaldlega saman mánaðarlega og svekkja sig yfir því ef einhver annar flokkur skrifar fleiri greinar í blöðin. Innihaldið skiptir engu máli.

En best að ljúka sögunni. Rannveig droppaði í heimsókn daginn sem greinin birtist og tók mig afsíðis. "Þakka þér fyrir vinur," sagði hún elskuleg eins og hún er nú blessuð kerlingin og bætti svo við: "Þú náðir stílnum mínum fullkomlega."

Ég var aðhlátursefni dagsins á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar.

Kv.

JK.


01 febrúar, 2005

Stóri dómur

Eftir hádegisrúntinn hef ég loksins komist að niðurstöðu. Besta rokklag allra tíma er (Don't fear) The Reaper með Bláu ostru költinu.

Nánari upplýsingar og frekari rökstuðning má fá í síma 895 9982. Þeir sem hafa snefil af þolinmæði geta staldrað við og beðið eftir næstu færslu sem mun einmitt fjalla um þessa sögulegu niðurstöðu.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker