Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

12 ágúst, 2013

Júlímorgunn í Neskaupstað

Af fremur óheppilegri ástæðu gisti ég eina nótt í Neskaupstað fyrir stuttu. Ég vaknaði fyrir klukkan sjö, eins og maður gerir, og fékk mér göngutúr.

...

Ég gekk inn Mýrargötuna en er ég nálgaðist Þiljuvelli sá ég mann koma á móti mér. Hann var í herralegum brúnum jakka og í buxum sem voru hvorki úr gallabuxnaefni né flís. Hann hélt á skjalatösku. Sannarlega anómalí í Neskaupstað sem og öðrum smáþorpum Íslands. Ég var á leiðinni niðrí bæ og velti því fyrir mér eitt andartak hvort ég ætti að gefa í og vera á undan þessum manni og taka beygjuna niður Sverristún um það bil tíu skrefum á undan honum. Það er nefnilega svo leiðinlegt að lenda á eftir fólki á göngutúrum í smábæjum nema svo ólíklega vilji til að þú gangir á sama hraða og hinn þorparinn. Það gerist afar sjaldan hjá mér því ég geng fremur hratt - að jafnaði á sirka 6,6 km. hraða - og þá þarf maður stundum að taka fram úr fólki.

Og það - kæri lesandi - er einfaldlega bara kjánalegt - sérstaklega í smábæjum! Í þeim verður maður nefnilega alltaf að viðurkenna tilvist þess sem maður mætir eða tekur fram úr með því að bjóða góðan dag eða segja eitthvað sniðugt eins og: "Varúð, hætta á ferð!" Hinn kosturinn er að hægja á sér en það er jafnvel verri kostur því þá fer hinn hugsanlega að hægja meira á sér. Og þá getur það gerst að maður gengur á eftir einhverjum í fimm mínútur og áður en maður veit af eru kannski ekki nema fimm skref sem skilja okkur þorparann að. Þá fyllist maður ofsameðvitund. Heyrir andardrátt þorparans og hjartslátt greinilega. Taktur göngunnar herðist. Fer að líkjast ofsafengnu afróbíti í lagi með Fela Kuti. Manni fer að líða eins og Ted Bundy og það - kæri lesandi - er aldrei góð tilfinning.

Allavega. Ég gaf í en þorparinn náði samt að taka beygjuna á undan mér. Munaði ekki nema um átta skrefum, líklega gekk hann á 7 km hraða, svona sirkaabát. "Voðalega er þessi stressaður," hugsaði ég og hægði á mér. Fann hvernig gremjan tók völdin. Með þessu áframhaldi yrði ég ekki kominn niðrí bæ fyrr en um hádegi!

08 ágúst, 2013

Summer's almost gone...

...söng Jim Morrison um árið og fékk sér vænan slurk af vodka dry. Svo drapst hann í París. Segja Þeir. Fékk hjartaáfall í baði. What a way to go...

...

Sumarið er indeed farið, bara dreggjarnar eftir og ég gleðst yfir því. Sumarið er erfiðasti árstíminn (þeir eru auðvitað allir erfiðir) en þegar veðrið er svona gott eins og það er búið að vera grípur mann einhver framkvæmdafasismi. Sól má ekki sjást á lofti og þá bara verður maður að fara út og "gera eitthvað" eins og sagt er. Í eðli mínu er ég intróvert og innipúki (fer eiginlega alltaf saman) og kann best við mig uppí sófa að "gera ekki neitt". Veturinn er þar af leiðandi einna skástur.

...

Einn af hápunktum sumarsins voru tónleikar með Nick Cave í Keflavík, þeim volaða stað. Kallinn var einfaldlega frábær og hljómsveitin líka. Eiginlega get ég sagt að konsertinn hafi verið klikkaður í orðsins fyllstu merkingu. Hann datt af sviðinu, bað tónleikagest um að totta sig og svo framvegis. Miðaldrapönk fyrir snemmmiðaldra Austfirðing.

...

Fyrir utan tónleikastaðinn hitti ég kanadískt par sem vildi endilega tala við mig. Fann á mér undireins að ég nennti því ekki en maður er auðvitað enginn dóni eins og margoft hefur komið fram. Þau vildu vita hvers vegna íslensk ungmenni væru svona hrifinn af rauðum buxum og voru greinilega soldið ánægð með sig að hafa tekið eftir þessu. Hann spurði hvort þetta væri eitthvað tengt "the viking legacy". Hún hló að hnyttni kærastans. Ég sagði þeim að þetta væri líklega tengt aðdáun okkar á jólasveinum, við værum svo hrifin af þeim að við ættum ein þrettán stykki. Þetta höfðu þau aldrei heyrt og vildu vita meira um jólasveinana, Grýlu, Leppalúða og alla hina. Ég andvarpaði hátt og dramatískt og benti þeim á leitarvélina Google og íslenskar túristabúðir í Reykjavík. Þær seldu eflaust bækur um þessa hluti, T-boli með einhverjum fyndnum frösum, harðfisk, lopapeysur og lyklakippur með mynd af lunda og/eða tröllskessu.

Jújú, maður er vissulega skrýtinn Íslendingur en so fucking what? Ég bara einfaldlega nennti ekki að leika "Íslendinginn" til að geðjast fullum Kanadamönnum! Ég var að fá mér í glas og mig langaði í Hlöllabát sem ég ætlaði að sporðrenna áður en Cave teldi í! Ég mátti bara engan tíma missa!

Jebb. Sakleysið er augsýnilega horfið. 

eXTReMe Tracker