Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 október, 2014

Fiskar og fuglar

Mamma segir að pabbi hafi aldrei geta skotið gæs. Honum hafi þótt hún of falleg. Sérstaklega til augnanna.

Öðru máli gilti hinsvegar um þorskinn. Hann var dreginn uppí bát og leyft að kveljast þar til pabba datt í hug að nú væri rétti tíminn til að blóðga fiskinn og slægja. Það gat verið hálftími, þessvega klukkutími ef fiskiríið var gott. Og þá var sá guli hvorteðer búinn að gefa upp öndina eftir langt - og ef til vill ólýsanlega kvalarfullt - dauðastríð.

Að skera fisk á háls var fyrir sjómanninn pabba eins og að slíta krækiber af lyngi. Ekkert tiltökumál. Ekkert til að velta sér uppúr eða hugsa um. Að horfast í augu við nýskotna gæs var hinsvegar too much fyrir sjómanninn með “Sailor’s grave” tattú á vinstri upphandlegg.

Ég er ekki sjómaður. Hef aldrei verið og mun líklega aldrei verða úr þessu og þótt samúð mín með fiski vaxi með ári hverju get ég ekki neitað því að það er erfiðara að drepa gæs en fisk.

Uppeldið niðrá fjörðum. Meingallað.

22 október, 2014

Um viðhorf á tímum flugbretta

Pabbi minn þótti sýna óvenjulega hegðun þegar hann var heima með okkur strákana fyrir hádegi. Fór svo í vinnu og vann fram á kvöld. Hvað er karlmaður að hanga heima með börnum voru einhverjir að spyrja sig því þetta var ekki normið, svo við grípum í félagsfræðilegt tungutak. Kynjahlutverkin um miðjan áttunda áratuginn voru enn það skýr að karlinn átti að vera í vinnunni og konan heima með börnin. Einfalt og þægilegt.

Ég veit ekki alveg hvernig pólitíkin var heima hjá mér fyrir fjörutíu árum. Félagshyggjufólk voru þau vissulega bæði en jafnvel félagshyggjufólki getur orðið á í jafnréttismessunni. Ég held að hefðbundin kynjahlutverk hafi verið hafin yfir sósjalisma í Neskaupstað og kallarnir verið Kallar og konurnar Kellingar þrátt fyrir ríkjandi vinstriviðhorf. Þekkjandi mína praktískt þenkjandi foreldra held ég að þetta hafi einmitt bara hentað. Pjúra praktík - engin hugsjón.

...

Hálft í hvoru endurtek ég leikinn. Ég er heima fyrir hádegi og fer svo að vinna. Reyni eftir bestu getu að fara með stelpuna út að ganga á morgnana og svo förum við í ungbarnasund tvisvar í viku. Munurinn á mér og pabba er sá að ég fæ borgað fyrir að vera heima en pabbi lengdi bara vinnudaginn svo þetta gæti gengið hjá þeim.

Og síendurtekið er mér hrósað fyrir að vera "duglegur með stelpuna". Jafnvel ókunnugt fólk hefur stoppað mig út á götu og hrósað mér fyrir að vera ganga með barn (og hund).

...

Veit eiginlega ekki hvaðan á mig stendur veðrið í þessu máli. Fyrst fannst mér kannski bara svolítið vænt um hrósið. Maður væri bara að standa sig vel, í það minnsta enginn ræfill, en þegar þetta barst mér til eyrna síendurtekið runnu á mig tvær grímur.

Hvers vegna ætti ég ekki að vera duglegur með barnið? Hvers vegna er konunni minni aldrei hrósað fyrir að vera dugleg með barnið? Ég get lofað ykkur því að hún er að standa sig býsna vel!

...

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að þrátt fyrir að ekki sé nema eitt ár þar til þetta kemur á markað eru gömul og úrsérgengin viðhorf (að ég hélt) býsna lífsseig. Það virðist vera að þar til maður sýnir fram á annað sé maður alvöru karlmaður sem lætur kellinguna um uppeldi barna og uppvaskið. Á meðan vinnur kallinn á daginn og glápir á fótbolta á kvöldin. Með einn ískaldan í glasi. Fer svo á skytterí með strákunum um helgar.

Eða sumsé: Scumbag þar til annað kemur í ljós.

15 október, 2014

Leonard Cohen: Leiðarljós gáfuðu konunnar?

Mér var bent á að tékka á nýrri plötu með Leonard Cohen og áður en lengra er haldið er ég afskaplega ánægður þegar fólk bendir mér á nýja tónlist þótt hún sé með gömlum hundum eins og Cohen. Bara ekki benda mér á að tékka á nýrri plötu með Dave Matthews eða einhverju slíku. Ég mun bara segja þér að hún sé ógeðsleg. Ógeðslegri en ebóla.

...

Fyrir nokkrum árum bloggaði ég um Dylan og nýju plöturnar hans. Þá var meistaraverkið Modern Times nýkomið út og í mínum fullyrðingasama bloggstíl fullyrti ég að nokkrir gamlir væru að eiga sitt blómaskeið á efri árum. Dylan var einn og Philip Roth var annar (nýbúinn að lesa Everyman sem mér fannst svaðalega fín). Ég er enn þessarar skoðunar. Mér finnst nokkrar gamlar hetjur vera gera fína hluti ennþá. Jafnvel sína bestu. Allavega er Dylan að gera plötur í dag sem eru jafn góðar og betri en það sem hann gerði fyrir fjörutíu og fimmtíu árum (ég tæki Love and Theft fram yfir Desire alla daga vikunnar).

Ég þekki ekki Cohen nógu vel til þess að taka svona poppgagnrýnendaflipp um að hann hafi verið að gera sína bestu plötu í fjörutíu ár eins og gagnrýnendur gera gjarnan. Hef tekið svona krampaköst þar sem ég hlusta þráhyggjukennt á hann en ég hef bara hlustað á þrjár plötur með honum að einhverju ráði: Í fyrsta lagi á gulu safnplötuna hans sem allir eiga, í öðru lagi á I'm your Man (ein af mínum uppáhalds 80s plötum) og í þriðja lagi á tónleikaplötuna I'm your Man þar sem aðrir flytja lögin hans. Sú síðastnefnda hafði talsverð áhrif því þannig kynntist ég Rufus Wainwright sem hefur fylgt mér síðan. Þar er líka finna síðasta lagið með U2 sem er skemmtilegt svona í raun og veru. Finnst mér.

Ég reyndi að hlusta á The Future þegar ég vann hjá Pjetri ein jólin fyrir margt löngu. Hann spurði hvort ég ætlaði að drepa alla úr leiðindum og skellti jólaplötu með Jethro Tull á fóninn. Hækkaði í botn. Stemmningin, maður! Stemmningin!

Allavega. Mér var bent á nýju plötuna um daginn og hún hefur fengið að rúlla nokkrum sinnum í morgun. Hún minnir mig soldið á I'm your Man. Útsetningarnar einfaldar og svona smá 80s keimur af hljómyndinni sem verður seint sögð mögnuð en það skiptir ekki máli því Cohen býr ekki til magnaðar hljóðmyndir svona yfir höfuð og yfirleitt. Þær myndu bara flækjast fyrir því sem hann vill segja og hann vill að við heyrum það sem hann hefur að segja.

Ætla ekki og nenni ekki að greina þessa plötu eitthvað frekar. Hún er bara góð og kannski endist hún mér út vikuna. Kannski bara daginn í dag. Kannski bara þennan morgun. Kannski verð ég enn að hlusta á hana í næsta mánuði en það finnst mér ólíklegt. Vegna barnastússins gleymi ég öllu. Man ekkert og festi ekki hugann við neitt. Living the dream sumsé.

Og rassvasaskýringin mín á því hvers vegna gamlir menn eru enn að gera merkilega hluti er sú að það eru allir hættir að fylgjast með þeim. Þeir starfa í friði. Engar væntingar gerðar til þeirra. Svona eins og mínar bestu pítsur eru bakaðar þegar ég er einn heima.

...

Cohen er soldið magnaður gaur og áhrif hans á kvenfólk eru soldið fyndin á svona hálf dapurlegan hátt (þannig er besti húmorinn oftast - eitthvað er fyndið vegna þess að það er svo sorglegt). Ég hef átt vinkonur í gegnum tíðina sem hafa hlustað á Cohen. Og reyndar rúmlega það. Þeim fannst hann æðislegur og ég er ekki nokkrum vafa að þær hefðu sofið hjá honum hefði tækifærið gefist. En tækifærið gafst aldrei og þær þurftu að sætta sig við einhverja aðra menn sem eftir á hyggja voru alltaf glettilega ólíkir Leonard Cohen. Svona harðhausar einhvers konar og þá velti ég fyrir mér hvort Cohen hafi verið flóttaleiðin þeirra. Einskonar Leiðarljós gáfaðu konunnar.

Þær voru undantekingalítið gefnar fyrir rauðvín og annað hvort hafði Cohen þau áhrif að þær opnuðu rauðvínsflösku eða þær settu Cohen á fóninn þegar þær voru búnar að skvetta soldið í sig. Þær klæddu sig í svart og höfðu mellankólískt fas. Húmorinn kaldur. Hefðu skrifað skáldsögur og ljóð ef einhver rithöfundasjóður hefði styrkt þær en þannig sjóðir styrkja bara "miðaldra karla" og það átti ég að vita.

Ég hef misst samband við þessar vinkonur (varla vinkonur lengur ef þær lesa þetta) en ég geri bara ráð fyrir því að þær séu fráskildar og drekki enn rauðvín og hlusti á Cohen syngja um frægar bláar regnkápur. Rauli með í línum sem minna þær á fyrrverandi eins og: "You're living for nothing now, I hope you're keeping some kind of record..."

...

En hérna, stelpur, kannski eru þið ekkert svona lengur. Kannski var Cohen bara tímabil og héddna núna eruð þið bara að hlusta á Siggu Thorlacius, Memfismafíuna, Mugison eða eitthvað. Héddna, bara, uhhh, prove me wrong? Og endilega tékkið á þessari nýju plötu. Svaðalega fín.

13 október, 2014

Smásögur Þorsteins Joð.

Það er auðvelt að láta Þorstein Joð fara í taugarnar á sér. Ef maður er þannig innréttaður gæti manni fundist hann ofboðslega tilgerðarlegur og uppskrúfaður vegna þess að hann leyfir sér að skrifa stíl sem fellur ekki undir reglur Jónasar Kristjánssonar um "alþýðlegan og einfaldan" texta sem allir fjölmiðlamenn eiga að tileinka sér (einkum fréttamenn).

Ég er á öðru máli. Þorsteinn Joð er minn eftirlætis fjölmiðlamaður og sá eini sem ég sakna þegar hann tekur sér eitthvað annað fyrir hendur en að stunda brimreiðar á öldum ljósvakans. Þá finnst mér virkilega vanta svolítinn "Þorstein Joð" í útvarps- eða sjónvarpsdagskránna.

...

Það er alltaf einn og einn blaðamaður sem hefur áhuga á "venjulegu" fólki. Víðasta skilgreiningin á venjulegu fólki er sú að það fólk sé allt fólk sem ekki gegnir áhrifastöðum í stjórnmálum, viðskiptum eða menningu. Ósjaldan beinist umfjöllun um venjulegt fólk að minnipokafólki (nenni ekki að setja gæsalappir utan um "minnipokafólk") sem lendir í útistöðum við kerfið, sérviturt fólk sem aldrei hefur séð sjónvarp og síðan allskyns útgáfur af viðtölum fólk sem tilheyrir hinni vinnandi stétt. Fólk (aðallega karlmenn) sem vinnur alvöru vinnu: Mokar skurði, keyrir jarðýtu, smyr tannhjól, veiðir fisk o.s.frv.

Megnið af þessu fólki, merkilegt nokk, býr útá landi. Held ég hafi hreinlega aldrei heyrt eða séð viðtal við skrifstofumann á Breiðdalsvík nema ef vera skyldi sveitarstjóra sem kvartar undan of litlum byggðakvóta. Það sé bara ekki nógu mikið að gera í plássinu.

...

Þorsteinn Joð nálgast hinn venjulega mann allt öðruvísi. Spyrji hann verkamann í slippnum í Reykjavík hvort "það sé mikið að gera" er það einmitt svona. Innan gæsalappa. Hann er það mikill mannþekkjari að hann veit hvað þetta er bjánaleg og í raun hrokafull spurning. Aldrei heyrir þú t.d. stjórnmálamann eða listamann spurðan að því hvort ekki sé örugglega mikið að gera hjá honum eða henni. Eingöngu iðnaðar- og verkamenn eru spurðir að þessu enda virðast margir halda að þannig fólk (nenni ekki að setja gæsalappir utan um "þannig fólk") sé mjög upptekið af því að hafa nóg að gera í vinnunni. Að það bara fríki út ef ekki sé unnið allavega fram að miðnætti. Þá gæti það haft tíma til að kíkja í bók og við vitum nú öll hvernig það gæti endað.

...

Að þessu sögðu langar mig til að mæla með Smásögum Þorsteins Joð á laugardögum á Rás 1. Afbragðs heimildaþættir um venjulega fólkið þar sem ekki er spurt um vinnuálag nema því fylgi þankastrik, þrípunktur, gæsalappir eða að minnsta kosti þrjú upphrópunarmerki.

Spurningin borin upp með með tungu kyrfilega í kinn. 

10 október, 2014

Að leika sér

Ég fór með dóttur mína í ungbarnasund á Fáskrúðsfirði. Tveir tímar á viku í mánuð. Í alls átta skipti fengum við okkur rúnt í gegnum göngin og skruppum í sund. Þetta var gaman og þótt ég sé ekki sundmaður sjálfur ætla að gera mitt besta til að dóttir mín fái að prófa sem mest hvort sem ég eða móðir hennar höfum gaman að því eða ekki. Hún er Reyðfirðingur og því mun ég grípa fyrsta tækifæri til að fara með hana á glímuæfingu þótt ég hafi aldrei átt neina drauma sjálfur um að verða glímukappinn ógurlegi. Alltof stirður sko.

En ég vil að hún læri að leika sér.

...

Ég veit ekki hvort ég geti með góðri samvisku þakkað foreldrum mínum þann tónlistaráhuga sem ég hef alltaf haft. Sennilega má það að einhverju leyti. Plötusafn foreldra minna þótti mér spennandi en ég var ekkert sérstaklega hvattur til að hlusta á plötur. Mér var heldur ekki sagt að gera það ekki.

Tónlist höfðaði bara til mín og þannig var það kannski bara óumflýjanlegt að ég myndi einhvern tímann snerta hljóðfæri. Trommur urðu fyrir valinu og ég hef ekki hugmynd um hvers vegna. Ég man eftir Halldóri að lúfta í herberginu sínu með eitthvað þungarokk á fóninum og þótt hann hafi aldrei lagt hljóðfæraleik fyrir sig kenndi hann mér nú samt að halda takti. Ég lærði að smella fingrum á tveimur og fjórum (en ekki á einum og þremur eins og þorrablótsgestir gera) hlustandi á In Transit með Saga í aftursæti bílaleigubíls í sumarið 1987 í Vestur-Þýskalandi. Hvers vegna hann vissi að rokkmússík swingar ekki nema downbítið sé á tveimur og fjórum veit ég ekki. Hann hefur bara verið grúvari frá náttúrunnar hendi býst ég við og hann kenndi mér þetta.

Ég er svosem bara að fabúlera. Örugglega er helsta ástæðan sú að bestu vinir mínir og Hrafnkell bróðir minn spiluðu á gítara og bassa (heimatilbúna) og kannski þurfti bara einhver að spila á Mackintoshbaukana. Þessi einhver var ég.

Tromma, ganga með hundinn, lesa, hlusta, skrifa og fleira mætti telja en þetta er sennilega það helsta sem ég dunda mér við. Skotveiði nýleg viðbót. Afleiðingin sú að mér leiðist sjaldan. Mér leiðist ekki einu sinni þegar ég bíð eftir einhverju. (Þá spila ég bara paradiddlur með löppunum og paradiddlur með lófunum. Annað hvort lófar eða lappir spila double time. Ferlega erfið æfing úr smiðju Simon Phillips sem krefst hvorki kjuða né æfingaplatta. Getur æft þig á þessu hvar sem er og tíminn flýgur.)

Enívei.

Kannski gerist þetta bara að sjálfu sér. Börn fara í leikskóla og þar læra þau líklega að leika sér (en hvað veit ég - fór ekki leikskóla frekar en Helgi Seljan í háskóla eins og alþjóð veit). Ég ætla samt að leggja mitt að mörkum svo að barnið fari ekki á mis við þetta.

Það væri afleitt að kunna ekki að dunda sér við eitthvað.

06 október, 2014

Sjónvarpsvísirinn

Horfði á 20 Feet From Stardom í gærkvöldi. Óskarsverðlaunamynd um örlög bakraddasöngvara. Mússíkheimildamyndir hafa verið í tísku síðustu ár. Varla til sú hljómsveit eða tónlistarmaður sem ekki hefur verið gerð mynd um. Þær eru afskaplega misgóðar. Alltof margar eru gerðar fyrir aðdáendur og segja manni lítið annað en einhver díteil úr bíógrafíu bandsins. Til dæmis hvers vegna trommarinn á annarri plötunni var rekinn. Dópið. Helvítis dópið. Og söngvarinn safnar hafnarboltaboltum. Áhugavert. Mjög áhugavert.

...

20 Feet segir vissulega frá ævi og örlögum nokkurra bakraddasöngvara en hún fjallar ekkert síður um fyrirbærið "background singers" og hvernig fólk sækir í þannig djobb. Það var áhugavert. Mjög áhugavert. Eins og titillinn gefur til kynna er þetta fólk ekki endilega að sjá það fyrir sér að verða bakraddasöngvarar allt sitt líf. Líta á þetta sem stökkpall í frægðarheima. Fá smakk af frægðinni og vilja gjarnan meira. En það segir eitthvað um þig virðist vera ef þú sækir í svona djobb. Kannski viltu ekki vera í sviðsljósinu. Ekki í raun og veru. Og þá kannski gerast ekki hlutirnir hjá þér.

Þannig að söguhetjurnar í myndinni reyndu gjarnan að verða poppstjörnur en mistókst. Darlene Love reyndi t.d. fyrir sér sem sólópoppari þegar hún hætti hjá Phil Spector. Eftir nokkrar misheppnaðar plötur byrjaði hún að skúra heimili fólks. (Meikar það svo í lokin eins og vera ber)

Vonbrigði eru sumsé soldið stór hluti myndarinnar. Söguhetjurnar voru vonsviknar.

...

En myndin fékk Óskarinn og ég skildi það mjög vel. Afbragðs mynd þannig lagað. Ég skildi það jafnvel betur í lokakaflanum þegar söguhetjurnar fengu einhvers konar lausn á sínum málum. Voru sáttar við hlutskipti sitt. Það er bara - þegar öllu er á botninn hvolft - flott að vera bakraddasöngvari. Færð meira að segja gigg í Disneymyndum og svoleiðis. Myndin endar á lagi þar sem allir syngja saman. Flott lag sem sýndi að heildin er stærri en summa partanna. Eða ég skildi atriðið þannig.

En.

Ég hugsaði: Hvers vegna er höfundur myndarinnar að gera þetta? Hvers vegna vill hann að myndin hafi Óskarverðlaunaendi? Hvers vegna má ekki sýna að fólk getur verið vonsvikið þar til yfir lýkur? Það er partur af lífinu hjá langflestum er það ekki?

...

Hefði Skandinavi gert þessa mynd hefði hún endað með sjálfsvígi eða innlögn á geðdeild. Þá hefði ég gefið henni fimm stjörnur. Þessi ameríska útgáfa fær bara þrjár. 

05 október, 2014

Rásin

Alltaf kemur reglulega upp sú umræða að selja Rás 2 og þess vegna neyðist maður til að hugsa um hana. Ekki að maður þurfi neitt að neyða sig. Mér þykir vænt um Rás 2. Hún er uppáhalds útvarpsstöðin mín. 

...

Held stundum að kvikmyndin Gargandi snilld hafi verið að það versta sem gat komið fyrir Rás 2. Þið munið þetta kannski ekki en myndin fjallaði um íslenskt tónlistarlíf uppúr aldamótunum og kvikmyndagerðarmaðurinn spurði hinnar áleitnu spurningar hvers vegna við værum svona stórkostlega frábær.

Svarið? Jújú. Bara það sama og við sögðum um útrásarvíkingana: Víkingaeðlið, náttúran og einangrun. Fyrsta flokks aðstæður til að búa til ubermenschen eins og Björk, Sigur Rós og Dr. Gunna. Mig minnir að allt þetta fólk sem talað var við í myndinni hafi tekið undir þetta. Í það minnsta hef ég hlustað á ótal viðtöl við tónlistarfólk þar sem ég heyri einhvers konar bergmál þessarar hugmyndar um eðlislægt stórkostlegheit okkar.

Það er auðvitað sexí hugmynd að það sé í eðli okkar að búa til frábæra tónlist sem náð hefur eyrum fólks langt utan landsteinanna. Hún rímar líka ágætlega við hugmyndafræði dægurtónlistar þar sem tónlistarmaðurinn (einstaklingurinn) er miðjan sem allt hverfist um. Hann er "átör". Hann er uppsprettan að snilldinni. Sækir innblásturinn í versta falli til æðri máttarvalda. 

Þegar fólk trúir svona löguðu er engin þörf fyrir ríkisaðstoð.

...

Ég er fæddur og uppalinn í Neskaupstað, í bæ sem er beinlínis landsþekktur fyrir að búa til góða hljóðfæraleikara. Það mætti nota víkingarökin eða náttúrurökin eða einangrunarrökin til að útskýra þetta. Egill rauði var víkingur sem nam land á Nesi í Norðfirði einhvern tímann fyrir árið 1000. Hann var örugglega frábær náungi. Fjöllin í kringum bæinn eru ekkert nema harðneskjan uppmáluð og þú þarft að keyra yfir eitt svona harðneskjulegt fjall og einbreið harðneskjuleg göng til að komast þangað. 

En það eru meira og minna allir sammála um hvers vegna tónlistarlíf þrífst í Neskaupstað. Ég veit það vegna þess að ég hef spurt ótal manns að þessu alveg eins og maðurinn sem gerði Gargandi snilld

Svarið er auðvitað dead boring en það felur í sér sannleikann engu að síður. 

Nefnilega...

Tónskólinn í Neskaupstað.

Þar hefur í gegnum tíðina unnið fólk sem kennir ekki bara krökkum að spila á hljóðfæri heldur tekur það virkan þátt í félagslífi nemenda sinna. Setur upp tónleika, setur upp hljómsveitarnámskeið, segir því að tékka á ákveðnum plötum. Sýnir áhugamálinu áhuga. Meira að segja ég, sem aldrei fór í tónskóla, var spurður ótal sinnum af Agga heitnum á hvað ég væri að hlusta og svo var rætt um trommuleik fram og til baka þar til ég var orðinn sannfærður um að Ringo Starr væri heilög vera. 

Þetta er langstærsta og mikilvægasta ástæða þess að tónlistarlífið þrífst í þessu blessaða krummaskuði. Þarna er fullorðið fólk sem kennir börnum ekki bara undirstöðuatriðin á hljóðfæri heldur sýnir því einlægan áhuga hvað það svo gerir með þessa færni og þekkingu. 

...

Stundum finnst mér Rás 2 vera soldið eins og Tónskólinn í Nesk. Þarna vinnur fólk sem hefur raunverulegan áhuga á tónlist (les Uncut, Mojo, Q, NME og allt þetta dót upp til agna). Þarna vinnur fólk sem gæti ekki unnið neins staðar annars staðar nema ef til vill í gamaldags plötubúð. Þetta er fólkið sem segir manni að maður bara VERÐI að hlusta á einhverja plötu, eins og líf manns liggi við. Ef ekki væri fyrir Óla Palla og kó hefði maður aldrei heyrt í Mammút, Moses Hightower, Hjaltalín, Prins Polo, Mugison, Hjálmum o.s.frv, o.s.frv. o.s.frv. Tónlist sem heyrðist fyrst á Rás 2. Og svo heyrðist hún aftur og aftur og aftur. Alltaf á Rás 2. Þar til hún varð vinsæl. Þá heyrðist hún á Bylgjunni.

Ég efast um að tónlistarlífið á Íslandi væri jafn merkilegt og raun ber vitni nema vegna Rásarinnar. Hugsið ykkur hvatninguna fyrir þessi bönd að fá spilun og viðtöl í útvarpi allra landsmanna? Meira segja ég veðraðist upp á gamals aldri þegar tekið var hálftíma viðtal við Coney Island Babies í Popplandi! Það hefði Ívar Guðmundsson aldrei gert. Hann hefði misst auglýsingasamninginn við Dominos hefði hann gert eitthvað í líkingu við þetta stönt hjá Óla Palla.

...

Þyki barninu manns einhver grautur vondur segja fræðin að maður eigi að prófa að gefa því þennan graut tíu sinnum. Hann gæti nefnilega vanist. 

Þetta er það sama og Rás 2 gerir. Þetta er það sama og Aggi gerði þegar hann beinlínis skipaði mér að hlusta á trommuleikinn á Rubber Soul-albúminu. Fylgdi því eftir þegar hann hitti mig næst og spurði hvort ég væri ekki örugglega búinn að hlusta. Og hvernig fannst mér hún þá? Fannst mér ekki innkoman hjá Ringo í Drive My Car sjúklega flott? Jú, reyndar. Mér fannst hún helvíti flott. Hvernig gerði hann þetta eiginlega? "Jújú," útskýrði Aggi. "Hann var nefnilega örvhentur að spila á sett fyrir rétthentan mann og hérna og svo blablablablabla..."

...

Það getur engin útvarpsstöð á Íslandi hagað sér svona nema hún sé ríkisrekin. Það getur engin útvarpsstöð í 320 þúsund manna landi leyft sér að spila tónlist sem útvarpsmönnunum finnst frábær en öllum öðrum leiðinleg. Tónlistarlífið á Íslandi þarfnast Rásar 2 eins og lyfjaiðnaðurinn þarfnast grunnrannsókna Háskóla Íslands. Á Rás 2 og í Háskóla Íslands eru framdir verknaðir sem enginn vill borga fyrir en eru samt samfélagslega og eftir atvikum lífsnauðsynlegir fyrir okkur.

...

Pólitíkusar sem vilja leggja niður Rás 2 halda sennilega við séum frábær og stórkostleg frá náttúrunnar hendi og skilja auðvitað ekki svona rökfærslur. Líklega finnst þeim ég vera boða kommúnisma með svona skrifum. 

01 október, 2014

Innhverf íhugun

Um helgina fer fram námskeið í innhverfri íhugun á Reyðarfirði eða TM eins og þetta kallað svona internasjónallí. Það er góðvinur minn og Norðfirðingurinn hann Egill Arnaldur sem kennir en mér vitanlega er þetta í fyrsta skipti sem hann fer út fyrir fjallahringinn til að kenna þessa tækni. Þótt fyrr hefði verið því það er ágætlega vel falið leyndarmál að nokkrir tugir Norðfirðinga kunna þessa tækni og í hverri viku hittast á bilinu fimmtán til tuttugu manns og íhuga saman í Nesskóla. Þetta þætti nú einhvern tímann saga til næsta bæjar held ég.

...

Ég lærði að íhuga, eins og innvígðir kalla þetta, í júní eða júlí 1992. Keli bróðir hafði lært þetta árið áður, var virkur notandi (s.s. íhugaði í tuttugu mínútur bæði kvölds og morgna) og hafði ekkert nema gott um þetta að segja. Ég var feiminn og taugaveiklaður sautján ára hreinn sveinn og mér datt í hug að þetta gæti hjálpað mér að slaka aðeins á taugunum. Og ég neita því ekki að ég var soldið forvitinn um þennan Egil sem allir voru að tala um. (Þessi leyndardómsfulli Egill sem ég hef þekkt í tuttugu og tvö ár og lít á hann sem einn af mínum bestu vinum en er samt alltaf að kynnast honum upp á nýtt.)

...

Hann boðaði mig og nokkra aðra vini í Kreml í Neskaupstað og kynnti fyrir okkur fyrirbærið. Hann var klæddur í jakkaföt og þá strax var hann búinn að setja einhvern hátíðlegan blæ yfir þetta sem maður hefur reynt að halda í síðan. Ef maður er í stuði kveikir maður á kerti og reykelsi áður en maður svífur inn í hina tæru vitund...

Tær vitund. Þetta var eitt af fyrirbærunum sem ég heyrði um í fyrsta skipti í Kreml. Eitt prósentið var annað. Þetta var dulspekilegasti fyrirlestur sem ég hafði farið á og ég kokgleypti þetta. Svo voru Bítlarnir náttúrlega virkir notendur og það skemmdi í það minnsta ekki fyrir. Ég var í hljómsveit sjálfur á þessum tíma og fyrst að þetta virkaði fyrir Ringo hlaut þetta að virka fyrir mig.

Fyrirlesturinn var haldinn á föstudagskvöldi og síðan lærði maður að íhuga dagana á eftir. Þetta var algerlega ógleymanlegt og ég man ennþá tilfinninguna þegar ég gekk útúr Kreml eftir fyrsta skiptið. Þetta hlaut að vera eins og að reykja hass, hugsaði ég, en komst að því síðar þetta var miklu betra og merkilegra en hassreykingar.

...

Síðan eru liðnir tveir áratugir og gott betur. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur og segjast hafa íhugað allan þennan tíma reglulega. Onei. Ég var duglegur fyrstu tvö árin. Man t.d. að haustið 1993 íhuguðum við nokkrir félagarnir eins og moðerfokkerar í menntaskólanum. Egill var byrjaður að kenna þar og okkur var ekkert að vanbúnaði. Við íhuguðum constantly! (þrisvar til fjórum sinnum á dag muni ég rétt) Ég tók aðra rispu í háskólanum en það var meira bundið við prófatarnir og önnur skólatengd stresstímabil. Ég íhugaði mjög mikið veturinn 2001 til 2002. Var kennari í VA og vinur minn Jón Hafliði var að lesa til tannlæknis á bókasafni skólans. Við gripum hvert tækifæri til þess að íhuga (og drekka bjór á kvöldin nota bene). Ég íhugaði mjög mikið í kringum útförina hans pabba. Nennti ekki að éta róandi töflur sem mér voru boðnar og náði lífsnauðsynlegri slökun þessa daga. Hún kom sér afar vel í öllu því party planning sem útfarir út á landi krefjast.

En allavega. Þið sjáið mynstrið. Ólíkt mörgum iðkendum gríp ég oftast í innhverfa íhugun þegar ég þarf á henni að halda. Það hafa komið tímabil þar sem ég íhuga án nokkurra ytri áhrifavalda. Það hafa verið góðir dagar og ég bölva sjálfum mér alltaf reglulega að ég skuli ekki vera virkari en ég er.

...

Það eru til ótal myndrænar lýsingar á innhverfri íhugun. Sú þekktasta er ef til vill um tjörnina með gáraða yfirborðið. Þegar maður íhugar sléttist úr henni. Ergo: Sálin verður slétt og felld. Maður strýkur yfir hana með sandpappír tvisvar á dag. Vandamálin festast ekki við slétt yfirborð eins og þið vitið...

Æi, ég veit það ekki. Svona lýsingar hafa voðalega lítið að segja fyrir mig. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað gerist eftir góða íhugun. Mér finnst ég komast næst einhverjum sannleika þegar ég ímynda mér að ég sé að tékka mig inn í Leifstöð. Veit ekki með ykkur en fyrir mig er ótrúleg slökun fólgin í að vera í einskismannslandi eins og flugstöð. Maður er kominn í frí, búinn að slökkva á símanum, búinn að panta sér bjór. You know the drill. Og þegar ég er kominn í þetta ástand, orðinn yfirvegaður, þá fer hugurinn af stað. Allt í einu sé ég lausnir sem ég sá ekki áður. Allt í einu fæ ég hugmyndir sem mér datt ekki í hug að detta í hug klukkustund áður.

Yfirvegun. Það er stóra málið. Þegar maður íhugar verður maður yfirvegaður. Og það er of langt mál að lýsa kostum þess að vera í slíku ástandi en ég held að óhætt sé að segja að það breyti ÖLLU.

Þannig að: Endilega setjið ykkur í samband við Egil Arnald ef þið viljið læra eina vinsælustu slökunarðaferð í heimi. Hann er í símaskránni.

eXTReMe Tracker