Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

16 september, 2008

Farinn aftur á Rauðhausa.

13 september, 2008

Um lífið í augnablikinu og fréttamennsku

Þar sem Rauðhausasíðan mín er á verkstæði sný ég aftur hingað tímabundið. Alltaf þótt vænt um "Knútinn" og bind margar fremur ljúfsárar minningar við hana. Gjarnan var skrifað hér eftir vinnu á þriðjudögum á Austurglugganum. Gjarnan með eina kippu af bjór í mallanum. En svo skrifaði ég auðvitað megnið af Nesk hér á meðan ég átti að vera skrifa doktorsritgerð. Þannig að. Veit ekki hvað skal segja. Ef til vill þegja?

...

Nokkrar fréttir af the Knút:

Vinnan: Var skorinn niður í júní. Í kjölfarið hættir yfirmaðurinn minn í mótmælaskyni. Ég fæ starf aftur en er þá eiginlega búinn að ákveða með sjálfum mér að hætta fréttamennsku (sem er ekki mennsk fyrir fimmaura. Meira um það neðra). Þá kemur upp ný staða: Afleysingastúlkan vill vera áfram og við ákveðum að skipta einu starfi á milli á okkar. Allir glaðir, right? Ekki alveg því Knúturinn fær nokkur kvíðaköst í framhaldinu. Fréttamennska borgar illa og ekki batnar það í hálfu starfi. Knúturinn skuldar íbúð og nýjar hljómflutningsgræjur. Hann er með ónýta tönn og þrjár tannskemmdir og til að bæta gráu oná svart eru gleraugun hans hægt og rólega að liðast í sundur.

Óttinn um að lifa í fátækt og vissan um að fréttamennska sé ekki þess verðug að missa hár (í bókstaflegri merkingu) yfir leiðir til þess að Knúturinn snýr aftur í fatlaða geirann en með nokkurs konar sidejob fram að jólum hjá Rúv sem dagskrárgerðarmaður.

Jebb. Þættir um Suðurríkjarokk verða á dagskrá Rásarinnar á sunnudögum í nóvember og desember.

...

Þá er ég að gera merkilega tilraun. Ríkisútvarpið borgar illa fyrir dagskrárgerð. Þrjátíu og fimm þúsund kall fyrir þátt og skiptir engu hvernig hann er unninn. Því hef ég ákveðið að kanna hvort fyrirtæki séu ekki tilbúin að styrkja gerð útvarpsþátta sem kalla á talsverðan kostnað og ef Guð , þ.e. Mammon, lofar get ég notað nokkrar vikur á næsta ári til að gera soldið spes útvarpsþætti. Veit ekki hvers vegna það ætti ekki að vera hægt en get ímyndað mér að einhverjir hugsi sig allavega tvisvar um áður en þeir styrkja gerð útvarpsþátta fyrir Ríkisútvarpið. Hvers vegna borgar ríkið þetta ekki bara, spyr peningamaðurinn. Réttilega.

Jamm. Maður spyr sig.

Maður spyr sig...

...

Það sem einkennir góðan fréttamann:

5. Hégómagirnd. Fréttamaður verður að fá kikk þegar hann sér sjálfan sig í sjónvarpinu, heyrir rödd sína í útvarpinu eða sér nafn sitt fyrir neðan grein í blaði. Þetta viðurkenna fréttamenn bara á þriðja glasi í öruggum félagsskap á næsta bar. En þetta er staðreynd: Þegar athygli fer af fréttamanni visnar hann upp og deyr. Það er engin tilviljun að þegar fréttamaður kemst á aldur og hættir deyr hann á innan við ári. Og furðulega fáir mæta í jarðarförina. Nema náttla að henni sé sjónvarpað.

Búi fréttamaður ekki yfir þessum eiginleika er mjög líklegt að hans karear í blaðamennsku endi í gerð fylgiblaða um vinnuvélar eða í almannatengslum.

4. Heimska. Fréttamenn verða að vera soldið vitlausir. Segir sig eiginlega soldið sjálft.

3. Siðblinda. Ég á enn eftir að kynnast þeim fréttamanni sem búinn er að vera í bransanum lengur en í fimm ár sem ekki er orðinn siðblindur. Þetta er ekki þeim sjálfum að kenna því eitt af því fyrsta sem maður lærir í fréttamennsku er að treysta aldrei á sjálfan sig og sína eigin dómgreind þegar kemur að fréttum. Það verður alltaf að vera einhver heimild.

Dæmi: Þú ert fréttamaður og þú horfir á flugslys. Þú sérð fólk brenna og öskra af kvölum og þegar viðbjóðurinn er um garð genginn ferðu ekki á skrifstofuna og skrifar um það sem þú sást. Þú leitar uppi mann í rannsóknarnefnd flugslysa, sem var víðsfjarri þegar flugslysið varð, og lætur hann lýsa því sem gerðist. Þú hefur jafnvel eftir honum að mjög líklega hafi "allir dáið samstundis."

Ef fréttamaður getur ekki sætt sig við þetta vinnulag missir hann smám saman vitið og endar á geðveikrahæli. Fyrst af öllu missir hann vitanlega vinnuna.

2. Alkóhólismi. Bestu fréttamennirnir eru alltaf alkar. Fréttamennskan gerir menn ekki að ölkum heldur gerir alkóhólisminn menn að góðum fréttamönnum. Ástæðan: Alkinn situr kvöld eftir kvöld og nótt eftir nótt á næsta bar og sértu eldri en tvævetur veistu að bestu sögurnar eru alltaf sagðar eftir klukkan þrjú á dimmum bar, einhvers staðar í miðbænum, með rigninguna grenjandi fyrir utan gluggann.

1. Forvitni. Þegar öllu er á botninn hvolft er það þetta sem skiptir öllu máli. Þú getur verið hégómagjarn og siðblindur vitleysingur á fimm vikna fylleríi en ef þig skortir forvitni verður þú aldrei góður fréttamaður. Þú verður bara hégómagjarn vitleysingur á fimm vikna fylleríi.

Forvitni fréttamannsins á sér engin mörk. Hann verður að vera forvitinn um allt. Allt! Honum verður að finnast ráðstefna um vísitölur jafn áhugaverð og morð því fyrir hverja morðfrétt þarf hann að gera um það bil sjötíu fréttir um vísitöluráðstefnur. Sértu ekki forvitinn endist þú aldrei lengur en sirka ellefu mánuði í fréttamennsku. Til dæmis frá desember 2007 til október 2008.

Ekki misskilja mig. Ég hef kynnst fullt af fréttamönnum sem ekki eru forvitnir. Og ef útí það er farið eru flestir fréttamenn sem ég hef kynnst ekkert sérstaklega forvitnir.

En.

Ég þekki heldur ekki marga góða fréttamenn.

eXTReMe Tracker