Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

13 desember, 2003

Er alveg hræðilega timbraður. Timburmenn eru félagslegt fyrirbæri og það er fátt verra fyrir timbraðan mann en að hanga með öðrum timbruðum mönnum. Þetta veit Gummi Gils.

Við félagar fórum að lyfta í gærkvöld og fengum okkur nokkra kalda eftir æfingu. Síðan héldum við heim og kláruðum rommflöskuna hans. Hann var búinn að eiga hana í nokkrar vikur?! Hvernig er það hægt?

Svo vaknaði ég í morgun með æluna í hálsinum en tókst að gleypa hana áður en hún frussaðist út. Það er einungis tvennt hægt að gera þegar áfengisneysla hefur þessar afleiðingar. Annars vegar að liggja í rúminu eða drulla sér á lappir og gera eitthvað. Ég valdi seinni kostinn og dreif mig í ræktina. Það voru mistök. Mér líður skelfilega. Gummi vissi hvað klukkan sló og lá í rúminu. Held að hann sé þar enn þá.

Er að hugsa um að drífa mig upp í Egilsstaði og skella mér á ball með Stuðmönnum. Hef ekki farið á ball síðan í maí. Þá var það kosningavaka Samfylkingarinnar og ég dansaði eins og barbari. Minnir að ég hafi dansað erótískan dans við Guðrúnu Ögmunds en það er hugsanlega rugl. Bauð henni samt í glas að mig minnir. Gott ef það var ekki tvöfaldur vermút...almáttugur, ég þarf að æla...

En talandi um barbara. Ég held að ég sé búinn að redda mér helgarvinnu næsta sumar sem barþjónn. Ekkert öruggt í þeim efnum en líkur taldar góðar. Úff, mér er óglatt.

Djobbið verður tekið alvarlega. Ég mun veita persónulega þjónustu, svona freudíska.

Kv.

JK.

12 desember, 2003

Stundum reynir maður að gera lífið dramatískara með því að ímynda sér að það sé eitthvað að. Blúsinn er krufinn til mergjar líkt og maður sé að fara með hlutverk í bandarískri sápu. Kannski átti maður skilið öðruvísi foreldra? Kannski dó gæludýrið mitt of snemma? Stórar spurningar leita á mann og maður rembist við að finna svör en þau láta standa á sér.

Þegar ég er skýr í kollinum sé ég lausnina. Maður drekkur einfaldlega of mikið kaffi og þ.a.l. sefur maður ekki nóg. Lausnin er svo fjandi einföld og jarðbundin! Síðan gleymir maður svörunum og hellir sér út í gersamlega gagnslausar pælingar aftur. Og að sjálfsögðu með kaffibolla sér við hlið.

Snúum okkur að öðru. Er að fara vinna í plötubúðinni Tónspil í næstu viku. Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn í plötubúð sem mér finnst reyndar alveg ótrúlegt. Hef alltaf verið að bíða eftir því að einhver sjanghæi mig í svona vinnu en það hefur ekki gerst. Svo hitti ég Pjesa gamla á fylleríi einhvern tímann í haust og saman ákváðum við að þetta ætti ég eftir að gera. Ég held að ég sé alveg fæddur í þetta nýja hlutverk, nettur Rob (Highfidelitygaur) blundað í mér síðan ég var krakki.

Anyway, hlakka til að biðja fólk um að vera úti ef það ætlar ekki að kaupa neitt. Ef það segist ætla að kaupa eitthvað mun ég troða inn á það eftirfarandi plötum: Blood on the tracks, Harvest moon, Harvest, Pet sounds, Abbey road. London calling, Blue, ...ehhhh, er ég virkilega að telja upp plöturnar sem ég ætla að selja í næstu viku?

Ætla drífa mig heim og hlusta nýja Cowboy Junkies diskinn sem ég pantaði af Amazon um daginn. Sérfræðingar segja hann nokkuð góðan en ég hef átt annríkt undanfarið og ekki getað lagt sjálfstætt mat á hann. Á meðan hann rennur í gegn ætla ég að komast í gegnum eina blaðsíðu í greinasafni Mark Twain sem liggur á náttborðinu mínu. Ég hélt að kaldhæðni væri uppgötvun tuttugustu aldarinnar þar til ég byrjaði að lesa Twain fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég sofna þó örugglega áður en ég klára fyrstu setninguna.

Kv.

JK.

08 desember, 2003

Til að fyrirbyggja misskilning og martraðir skal það tekið fram að ég sit ekki fyrir í Bleiku og bláu. Þetta var grín, sprell eða hvað þið viljið kalla svona asnaskap.

Vinnudeginum er ekki lokið en það er stund á milli stríða sem ég ætla að nota fyrir ykkur, kæru vinir. Þannig er mál með vexti að það hefur lengi farið í taugarnar á mér hvað foreldrar mínir hafa litlar áhyggjur af kvennamálunum mínum eða öllu heldur skort á þeim. Það hefur pirrað mig óskaplega að fá ekki spurningar í hádeginu eins og: "Jæja Jón, eru engar skemmtilegar stelpur í bænum?", "Jón, ætlar þú ekki að fara finna þér einhverja góða stelpu sem getur séð um þig líkt og vinir þínir, þeir Adrian, Smith, Bruce og Dickinson?", "Jón, þú ert hrifinn af stelpum svona almennt er það ekki?", "Jón, það er rosalega skemmtileg stelpa byrjuð að vinna á sjúkrahúsinu" o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv.

Flestir vinir mínir sem eru einhleypir og barnlausir (fækkar ískyggilega hratt) fá svona spurningar reglulega og líður bölvanlega á jólunum yfir því að hafa ekki einhverja nýja til að kynna fyrir foreldrum sínum ("mamma og pabbi, þetta er hún Sigga"). Ég vil fá að vera með!

Nú, af hverju er ég með þetta nöldur? Jú, þau gáfu mér gamla hjónarúmið sitt í gær. Eru þetta einhver skilaboð um að ég eigi að fara gera eitthvað í mínum málum? Orðið er laust.

Kv.

JK.

Þið hélduð sennilega að ég væri brunninn út en svo er ekki. Það er bara obbosslega mikið að gera hjá mér í vinnunni þessa dagana og ég hef ekki nennt að segja ykkur frá því. Og síðan nenni ég ekki að segja frá því að ég nenni ekki að blogga. Þá er betra að sleppa því.

Það frásagnarverðasta síðustu daga er viðtal (byrja ég að tala um vinnuna...) sem ég tók við næsta forseta lýðveldisins, Snorra Ásmundsson. Það er engum blöðum um það að fletta að maðurinn er snillingur frá náttúrunnar hendi. Það verður svokallað "kanínupartí" haldið árlega á Bessastöðum ef hann verður...fyrirgefiði ÞEGAR hann verður forseti og hann er búinn að bjóða mér í fyrsta teitið. Sum sé, gott fyrir mig og gott fyrir Ísland ef hann verður forseti.

Síðan hef ég verið að hlusta óskaplega mikið á Joni Mitchell að undanförnu. Veit ekki af hverju en hún hefur einhver undarleg áhrif á mig. Ég verð einhvern veginn svo slakur og góður á því þegar Hejira eða Both sides now fara undir geislann. Alveg gasalega fínn tónlistarmaður - svona Dylan með englarödd.

Og ekki má gleyma því að vinkona mín gabbaði mig og ég verð í Bleiku og bláu einhvern tímann á næstunni. Sit fyrir nakinn með kanínueyru...

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker