Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 maí, 2013

Nei, ég er ekki dauður...

...fékk bara skrýtið símtal frá Noregi frá manni hvers rödd ég hef ekki heyrt svo árum skiptir. Hann vildi vita hvort ég gæti hjálpað sér að klára blað. Sem og ég gerði. Maðurinn heitir Kiddi á Sjónarhól, eiginlega goðsögn á Norðfirði (if there ever was one), og blaðið var Sjómannadagsblað Austurlands. Það fór í prentun í morgun og ætti að berast austur með morgunskipinu.

...

Er þessa stundina að hlusta á nýju plötuna með The National, Trouble Will Find Me heitir hún. Ég er orðinn of gamall fyrir uppáhalds hitt eða þetta en myndi þó segja að ég hafi ekki orðinn jafn hugfanginn af einu bandi og þessu hin seinni ár. Byrjaði að hlusta á þá 2008 þegar þeir gáfu út Boxer en plöturnar þeirra eru algerlega pottþéttar ef frá er talin sú fyrsta. Frá með Alligator (2005) hafa þeir ekki tekið feilspor og mér heyrist nýja stöffið vera nokkuð sólid.

...

The National er indíband en alls ekki af krúttlegu gerðinni. Þeir minna á Bad Seeds og Tindersticks en eru þó heldur aðgengilegri - án þess þó að vera nokkur léttavara. Tvennt gerir það að verkum að ég hlusta meira á þetta band en t.d. þessi tvö fyrrnefndu: Í fyrsta lagi grípa textarnir mig. Þeir eru vel ortir og svo eru þeir  fyndnir. Það finnst mér ótrúlega mikill kostur í popptónlist. Humor does indeed belong in music. Húmorinn finnst mér t.d. stundum vanta hjá Cave. Hann er svo alvarlegur alltaf blessaður kallinn! Það í sjálfu sér getur náttúrulega verið fyndið en ég er vaxinn uppúr því að hafa gaman af að hlæja að tónlist - ég vil fremur hlæja með henni.

Í öðru lagi er trommarinn frábær sem er því miður ekki alltaf raunin hjá þessum indígreyjum. Ekki að hann sé breikandi útí eitt heldur tekst honum aftur og aftur og aftur að finna einhvern nýjan flöt á hinum hefðbundna 4/4 takti sem flest popplög byggjast á. Ég hef meira að segja séð skrif poppspekúlanta sem segja hann of góðan fyrir bandið, að hann steli athyglinni einhvern veginn, að þetta sé trommaratónlist. Það er náttúrulega rugl.

Allavega. Hér er fínt dæmi um skapandi trommuleik í hefðbundnu rokklagi í 4/4 takti.


Hér er annað dæmi um skemmtilegt 3/4 bít (eða ég held að það sé í 3/4):


Ég er ekki einn af þessum trymblum sem slefa yfir óvenjulegum taktafbrigðum og reyndar finnst mér af og til að þau trufli lög sem væru bara prýðileg í 4/4 takti. Stundum er þetta hinsvegar svo snyrtilega gert að maður tekur ekki eftir því að lag sé í "undarlegum" takti. Þannig var það t.d. með lagið Demons af nýju plötunni. Ég greip það undireins, enda grípandi lag, en þegar ég fór að "lúfta" með því heyrði ég að ekki var allt með felldu. Lagið er nefnilega í 7/4.



16 maí, 2013

Yfirlýsing frá höfundi

Tímarnir hafa breyst. Það eru flestir hættir að blogga og þar af leiðandi henti ég nokkrum nöfnum af síðunni minni. Kæri mig ekki um að vera einhvers konar líkvagn. Siggi helst inni þar sem það eru innan við tvö ár frá síðustu færslu. Orri fékk að fjúka en kemur inn strax og hann byrjar aftur (þetta er sumsé hvatakerfi, Orkó minn).



Ljómi Austurlands - Austurland's finest

Nágranni minn hlóð vegg á tveimur dögum. Hleðsluvirkið mitt var tvo mánuði í smíðum. Hvað er eiginlega í gangi?

...

Elvar Jónsson er orðinn skólameistari VA. Þetta þykja mér góð tíðindi og alls ekki vegna þess að ég er sammála honum í pólitík. Þekki hann oggulítið, aðallega í gegnum konuna mína, og veit að þarna fer duglegur og metnaðarfullur náungi sem á eftir að gera þessum skóla gott. Held að hann þarfnist þess.

Og svo er auðvitað frábært að X-kynslóðin sé búinn að eignast fulltrúa í valdastéttinni eystra. Reynum nú að koma okkur fyrir áður en þessi hræðilega krúttkynslóð vex úr grasi! Það er engin smá meiriháttar "égáheimtinguáhinuogþessualltafallsstaðar"-hópur, ha?! Fólk sem gengur um og segist vera þannig eða hinsegin "-istar" og að það aðhyllist þennan eða hinsegin "-ismann"!

Ég meina, hver er í alvörunni svona vitlaus!?

Ég er að djóka, maður! Slakaðu á!

...

Pólar 2013 heitir ný tónlistarhátíð sem haldin verður á Stöðvarfirði um miðjan júlí. Að vísu sömu helgi og Eistnaflug sem er nú kannski óþarflega brött tímasetning hjá þeim þarna suðurfrá. En...sóbíit. Kvartið og kveinið að austan (og já, kæri lesandi, menn kvörtuðu í alvöru yfir þessu framtaki Stöddarana) kom reyndar ekki frá Neskaupstað heldur frá Seyðisfirði en þar á bæ heyrðust raddir um að þetta væri aðför að LungA.

Vona að þetta sé ekki almenn skoðun þarna og efast reyndar um að svo sé. Þekki nógu marga Seyðfirðinga til að vita að undir Bjólfinum býr ljómi Austfjarða - Austurland's finest.

Hingað til hefur Seyðisfjörður verið eina þorpið á Austurlandi sem hagar sér eins og heimsborg. Mér þætti vænt um ef það breyttist ekki.

...

Á Reyðarfirði er verið að byggja "mótel". Það fyrsta á Austurlandi kannski? Frömuður í ferðaþjónustunni eystra sagði við mig að þetta væri "fínt" fyrir Reyðarfjörð. Aðrir staðir þyrftu eitthvað meira kósí.

Hvar í helvítinu bý ég eiginlega?

14 maí, 2013

Grín

Ég les úberhipsteravefinn Pitchfork daglega, sennilega fyrsti eða annar vefurinn sem ég opna á morgnana. Þar les ég um allt það nýjasta og "besta" í framsækinni popptónlist í dag. Ég er löngu hættur að nenna að eltast við nema pínulítið brotabrot af því sem vefurinn mælir með en hef þó í gegnum tíðina komist í kynni við allskyns mússík í gegnum hann t.d. bönd eins og The National, Local Natives, og Animal Collective sem núna eru hluti af mínu reglulega mússíksvolgri.

Í dag fjalla þeir um hljómplötuna Green, sjöttu plötu REM, og þá fyrstu sem gefin var út af stórfyrirtæki (Warner Bros). Platan kom upphaflega út í nóvember 1988 og kemur núna út í einskonar viðhafnarútgáfu, rímasteruð, með aukalögum og svo framvegis og framvegis.

Platan er tímamótaverk í sögu hljómsveitarinnar því þarna hvöttu eighties-hipsterarnir bandið umvörpum og sneru sér að öðru. REM varð almannaeign og það er auðvitað eitur í beinum "hipper than thou" liðsins. En fyrir táning í Neskaupstað voru REM últra kúl hljómsveit og Green hljómaði mjög fersk í mín eyru (þau orðin langþreytt á Ozzy, Mötley, Def Leppard og öllum hinum hárprúðu metalböndunum). Ég keypti þessa plötu í Tónspil einhvern tímann veturinn '89-'90 auk Document, Life's Rich Pageant og safnplötunnar Eponymous og óhætt að segja að hugmyndir mínar um tónlist - og um leið mig sjálfan - hafi tekið miklum breytingum um þetta leyti.

Það tók tíma að koma útúr skápnum með REM og reyndar fleiri bönd eins og That Petrol Emotion, The Stone Roses svo einhver séu nefnd og ég faldi þessar plötur fyrir Kela bróður sem gekk um alsæll í þeirri vissu að ég væri enn að hlusta á WASP.

How fucked up is that?

Á Pitchfork fær Green ekki jafn afgerandi frábæra dóma og endurútgáfur IRS platnanna (fyrstu fimm plöturnar). Ég er nýbúinn að vera hlusta á plötuna eftir að um hana var fjallað á Rás 1 (nema hvað!) og get í sjálfu sér tekið undir að hún hljómar soldið "deituð", sérstaklega rokklögin og þá einkum trommusándið sem er afar late-eightieslegt (skemmir líka Camper Van Beethoven sem komu útum svipað leyti).

En það breytir því ekki að lögin sjálf eru frábær. Þau flottustu eru þessi köntrí-og blúgrassskotnu. Stuttu seinna kom auðvitað í ljós að þau voru forsmekkurinn að því sem koma skyldi og grunnurinn að ofsavinsældum bandsins uppúr 1990.

Hairshirt er besta lag plötunnar að mínu mati. Michael Stipe upp á sitt allra, allra besta. Þetta er einfaldlega meistaraverk og enn fæ ég gæsahúð þegar Stipe "teygir sérhljóðana" að hætti köntríkrúnersins sem hann er eða getur verið þegar sá gállinn er á honum. Ef Green væri Zeppelinplata þá væri hún Led Zeppelin III.





11 maí, 2013

Smá um smámál

Fyrir nokkrum mánuðum deildu menn um gjaldskrá almenningssamgangna í Fjarðabyggð. Í sem skemmstu máli var ákveðið að gjaldið tæki mið að því hvaðan farþeginn kæmi. Dæmi: Það er dýrara fyrir Norðfirðing - eða Stöðfirðing - að fara til Reyðarfjarðar og eiga fund á bæjarskrifstofunni en það er fyrir Eskfirðing. Þetta er kjarni málsins og svo geta menn farið í gegnum þessa umræðu ef þeir vilja það á heimasíðu Fjarðabyggðar. Bæði meirihluti og minnihluti viðruðu sín sjónarmið og eins og gengur höfðu örugglega báðir eitthvað til síns máls. En þetta var þó án nokkurs vafa þrælpólitískt mál, sem eru tíðindi útaf fyrir sig í sveitarfélagi eins og Fjarðabyggð, þar sem ágreiningur - og þá sérstaklega þessi pólitíski - kemur sjaldan upp.

Allavega.

Líða nú nokkrar vikur og á föstudegi fyrir ekki alls löngu fæ ég Austurgluggann minn eins og venjulega - og þennan föstudag fengu reyndar allir íbúar bæjarins blaðið. Ég elska auðvitað Gluggann minn en samt kom það okkur hjónum (sem er Esther Ösp Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans ef einhver vissi það ekki) á óvart hvursu margar fréttir voru sagðar af Fjarðabyggð og rúsínan í pylsuendanum var síðan drottningarviðtal við Jón Björn Hákonarson, oddvita framsóknarmanna og forseta bæjarstjórnar. Þar rakti hann m.a. þetta gjaldskrármál og rökstuddi ákvörðun meirihlutans um hvers vegna réttlætanlegt væri að mismuna bæjarbúum. Svo allrar sanngirni sé gætt rakti hann líka málflutning minnihlutans og gerði það auðvitað með sínum hætti sem eðlilegt er. Viðtalið var jú við hann.

Ekkert af þessu efni var merkt Fjarðabyggð en svo kom seinna í ljós að allt þetta efni - þ.m.t. viðtalið við forsetann um pólitískt hitamál í bænum - var keypt. Kaupin fóru þannig fram - ef einhver skyldi ekki átta sig á því nú þegar - að sveitarfélagið var reiðubúið að nota útsvarið okkar til að kaupa frídreifingu undir blaðið gegn því að það fengi að koma að fréttum og viðtölum í blaðið. Ég leyfi mér að fullyrða - og ég vona heitt og innilega að ég hafi rétt fyrir mér - að þetta sé í fyrsta skipti sem sveitarfélag kaupir sér beinlínis ritstjórnarefni í Austurglugganum. Menn hafa vissulega keypt sig inn í blaðið áður en þá er það í formi fréttablaða sem skotið er inní blaðið og merkt rækilega þannig að allir sjái að um keypta umfjöllun sé að ræða. Í þessu tilviki ákvað einhver að betra væri að umfjöllunin væri ómerkt enda tækju þá kannski fleiri mark á henni. Ég þykist vita að sú huggulega hugmynd hafi kviknað hjá bænum. Einhverjum fannst voða sniðugt að kaupa ekki bara dálksentimetra heldur agnarögn af trúverðugleika líka.

Úff, segi ég. Þetta er rangt á svo mörgum "levelum" að ég veit í alvörunni ekki hvar ég að byrja.

Auðvitað er auðveldast að ráðast á blaðið. Ég er áskrifandi að Austurglugganum og ég einfaldlega krefst þess að blaðið sé skrifað með mína hagsmuni að leiðarljósi en ekki fyrirtækja eða stofnana útí bæ. Segjum að Alcoa vilji kaupa sér umfjöllun (sem það gerir) vil ég vita hvaða efni það er sem fyrirtækið ber ábyrgð á því þá les ég það með allt öðrum augum en annað efni blaðsins sem ég veit að blaðamaður ber ábyrgð á. Sú er einmitt raunin. Efst á "Alcoasíðu" Austurgluggans, í hægra horninu, trónir lógóið þeirra.

En. Ég veit nákvæmlega hvernig það er að vinna á Austurglugganum og ég veit nákvæmlega hvernig tilfinning það er að vita ekki hvort maður geti endurnýjað prentarann á skrifstofunni, keypt kaffi eða - sem er verst - borgað starfsmönnum laun. Þegar maður er desperat (eins og allir ritstjórar Austurgluggans undanfarin ár hafa verið þ.m.t. sá sem hér skrifar) er maður tilbúinn í ansi margt og það kemur mér í raun ekkert á óvart að menn láti freistast. Í mínum huga er sá seki í svona málum alltaf kaupandinn en ekki seljandinn. Enginn blaðamaður með vott af sómakennd gerir svona með glöðu geði. Hann einfaldlega gerir þetta því hann telur sér trú um að hann verði að gera þetta. Hann hugsar eins og örvæntingarfull vændiskona.

Til þess að svona endurtaki sig ekki legg ég til við stjórn Austurgluggans að starfsmönnum verði settar siðareglur sem einfaldlega banna þeim að selja efni merkt ritstjórn. Punktur. Vilji menn kaupa sér viðtöl eða fréttir bera menn sjálfir ábyrgð en láta ekki okkur blaðamannsdruslurnar sitja upp með skömmina.

...

Nú. Ég hef auðvitað haft tök á því að fylgjast með þessu máli í gegnum konuna mína og viðbrögðin eru óhuggulega fyrirsjáanleg. Enn sem komið eru þau að minnsta kosti af þrennum toga:

Í fyrsta lagi finnst háttsettum embættismönnum og "PR-deild" Fjarðabyggðar ekkert athugavert við þessi vinnubrögð. Það hef ég fengið staðfest og jafnframt að þeir sjá ekki ástæðu til þess að gerðar verði reglur um þessi mál þannig að þess sé gætt að starfsmenn bæjarins hygli ekki ákveðnum pólitiskum sjónarmiðum t.d. með því að kaupa undir þau dálksentimetra í bæjarblaðinu. "PR-deildin" vill þó að það komi skýrt fram að bærinn hafði ekki frumkvæði að viðtalinu eins og hann gerði með hinar "fréttirnar" heldur einungis "lagt til" að talað yrði við forsetann og að spurt yrði um gjaldskrármálið. Hvað þetta á að fyrirstilla veit ég ekki en ég veit þó að þetta er svo yfirgengilega mikið yfirklór að mig langar til að borða kaktusinn minn. Og ég elska kaktusinn minn! En með því að borða hann, með tilheyrandi sársauka, myndi ég kannski gleyma því hvaða skoðun "PR-deildin" hefur greinilega á almenningi í þessum bæ. AUÐVITAÐ KEYPTI BÆRINN VIÐTAL VIÐ FORSETANN ALVEG EINS OG HANN KEYPTI FRÉTTIR UM HVAÐ ALLT SÉ ÆÐISLEGT Í FJARÐABYGGÐ! HALLÓ!!! ÞETTA ER EKKI FLÓKIÐ!

Í öðru lagi er Esther sökuð um að vera gera mikið úr litlu. Gerir úlfalda úr mýflugu eins og sagt er. Vissulega mun enginn verktaki fara á hausinn og enginn mun deyja þótt útsvarið mitt sé notað til að dreifa pólitískum skoðunum sem ég er ósammála. Er samt ekki hægt að reyna gera lífið hérna yndislegra fyrir alla með því að sleppa svona löguðu?

Allavega. Ég hlakka til að heyra umræðuna um þetta mál á bæjarstjórnarfundi í næstu viku. Hvernig rökstyðja menn að þetta sé smámál? Hvernig rökstyðja menn að þetta sé "eðlilegt" þegar það má ekki einu sinni segja að bærinn hafi haft frumkvæði að viðtalinu heldur einungis "lagt til" við ritstjórann að það yrði tekið? Ef þetta er svona fjandi eðlilegt má þá ekki bara segja sannleikann umbúðalaust?

Í þriðja lagi er Esther sökuð - og passiði ykkur nú - um að vera með samsæriskenningar. Úúúú...þabbarasona. Ætli hún verði ekki bara næst sökuð um að bera "æsifréttir" í fjölmiðla?

Samkvæmt kenningunni er hún að saka starfsmenn bæjarins um að ganga erinda meirihlutans. Ef þetta væri almennileg samsæriskenning - sem þetta er ekki - hefði forsetinn auðvitað beðið bæjarstjórann um að millifæra af útsvarsreikningnum yfir á reikning Austurgluggans svo blaðamaðurinn gæti heimsótt hann og diktað upp viskuna. En málið er - og það þykist ég vita - að forsetinn vissi ekkert að "PR-deildin" var búinn að kaupa viðtalið. Hann hélt bara að blaðamaðurinn hefði áhuga á honum og hugmyndum hans um lífið og tilveruna. Hefur örugglega verið óskaplega upp með sér, sem eðlilegt er, þegar blaðamaðurinn bankaði á dyr. Boðið honum í betri stofuna, gefið honum kaffi og konfekt sem keypt var í fríhöfninni í hittiðfyrra. Ólíkt öðrum forsetum á Austurlandi þurfti forsetinn í Fjarðabyggð ekkert að standa í neinu puði og betla viðtal. Embættismenn bæjarins ákváðu sjálfir að það væru hin eðlilegustu vinnubrögð að græja það fyrir hann.

Ó, hvað forsetinn er fokking heppinn!

Í framhaldi af þessu er nauðsynlegt að taka fram að Esther hefur hvergi sagt að starfsmenn bæjarins gengju erinda meirihlutans í þessu máli. Líklega eru þetta bara kærulaus og vissulega vanhugsuð og óvönduð vinnubrögð hjá sveitarfélaginu. Því trúir Esther. Og ég líka reyndar. En það verður að halda því til haga að í versta falli er hér um grímulausa misnotkun á valdi að ræða.

Þarna liggur efinn sem allir vita er móðir tortryggninnar.

Til þess að uppræta hann er hægt að setja reglur þannig að svona staða komi ekki upp aftur. Það er einfaldlega best fyrir alla pólitíkusa Fjarðabyggðar - í nútíð og framtíð - að vita að heimsókn blaðamannsins er að hans eigin frumkvæði. Enginn keypti undir hann bílfarið nema áskrifendur blaðsins. Ég hugsa að meira segja framsóknarmenn muni fagna slíkum reglum þegar og ef Fjarðalistinn kemst í meirihluta einhvern tímann. Það hlýtur að vera gott að vita að bæjarsjóður verði ekki notaður til að kaupa viðtöl við fólk eins og Esther Ösp Gunnarsdóttur.

...

Og hvernig ætli þetta fari svo? Nú veit ég að búið er að funda um þetta mál og fjalla um í nefndum bæjarins. Niðurstaðan virðist vera sú að ekkert sé athugavert við þetta. Að menn séu bara með leiðindi, flaggandi hinum ógurlegu "samsæriskenningum" út og suður. Þegar svona er í pottinn búið er engin ástæða til bjartsýni og þegar hugmyndir manns um mannasiði eru svona algerlega á skjön við "alla" aðra verður maður soldið  frústreraður.

Soldið mikið frústreraður eiginlega.

Fokk it.

Held ég borði kaktusinn minn.   

08 maí, 2013

CIB anno 2013

Ég gekk í klúbb í febrúar 2004 sem fáeinum misserum síðar fékk heitir Coney Island Babies. Þessi klúbbur, sem er raunar hljómsveit, er enn starfandi og við gáfum reyndar út plötu í fyrra sem vakti svona skítsæmilega athygli. Platan heitir Morning to Kill og var samvinnuverkefni okkar félaga en auk þess fengu við góða hjálp frá Guðjóni Birgi Jóhannssyni sem er græjuóður Nobbari.

Mér finnst ekki gaman að hlusta á fólk af landsbyggðinni kvarta undan því að enginn sýni því og gjörðum þess áhuga. Á það að vera hvati til þess að gera eitthvað að einhver sýni því áhuga? Jújú, í vissum skilningi má segja það. Mér finnst voðalega gaman að konan mín hafi gaman af þessu hljómsveitarstússi mínu, eða ég vona það allavega, og í raun dugar það mér alveg. Ég tromma af því að það er gaman og Coney Island Babies spilar vegna þess að það er gaman. Það er hinsvegar ekki gaman að plögga og þess vegna slepptum við því og því fór sem fór. Fáir tóku eftir plötunni.

Sem er soldil synd því ég hefði haft gaman af að lesa einhvern dóm um plötuna okkar. Ég er alveg nógu rýninn á sjálfan mig til að geta haldið því fram blygðunarlaust að hún átti það skilið.

En þá er auðvitað bara best að skrifa smá prívat umsögn sjálfur sem verður fáránlega biased.

Polly Fyrsta lagið á plötunni og eini alvöru rokkarinn. Þennan óð til PJ Harvey skrifaði Geiri einhvern tímann í blábyrjun. Hugsa að þetta sé fyrsta almennilega lagið okkar en ég man reyndar ekkert eftir því hvernig það var samið. Haffi heldur því fram að þetta hafi komið fram í djammi og það er örugglega rétt hjá honum. Við djömmuðum mikið in the early days. Við höfum spilað þetta lag oft læf og þess vegna var lítið vandamál að taka það upp. Eina vandamálið var "sólóið" sem endaði svo bara sem Neil Young-ísk gítarriff sem G-strengurinn - eða The G-man - hamrar af saklausri snilld. Trommurnar voru teknar upp í september 2009 og þær upptökur eru elsti hluti plötunnar.

Next to You Haffi og Geiri sömdu þetta þegar ég fór í útlegð til RVK veturinn 2005 til 2006. Ef eitthvað lag nær því að vera fönkí á plötunni þá er það þetta. Lokakaflinn er pjúra djamm og ég hef aldrei verið ánægður með hann. En...mér finnst brjálæðislega gaman að spila þetta læf og að mínu mati (og öll þessi skrif eru mitt mat) er þetta mesti "grower-inn" á plötunni. Og afskaplega vel tekið upp hjá Guðjóni.

I Never Loved You Eitt af fyrstu lögunum okkar, samið einhvern tímann um haustið 2004. Eini pótensjal hittarinn á plötunni en Esther segir að okkur hafi ekki tekist vel upp í stúdíóvæðingu lagsins. Það sé of "þungt" eða eitthvað slíkt. Ég er eiginlega sammála þótt ég muni aldrei viðurkenna það. Uppáhalds kaflinn minn er slidesólóið hans Gumma í lokin.

Feeling Better Ég held að það sé óhætt að segja að við séum undir áhrifum frá Nick Cave and the Bad Seeds og þetta lag ber þess afar glöggt vitni. Eins og Next to You sömdu Haffi og Geiri þetta þegar ég var í útlegð. Þeir gerðu demó af þessu lagi sem er enn þá til einhvers staðar og mér finnst það skemmtilegra en það sem fór á plötuna. Það mun fylgja með deluxe endurútgáfunni árið 2022. En þetta er örugglega eitt besta lag plötunnar og það er ekki síst samsöng þeirra feðginna, Rannveigu og G-man, að þakka. Gítarinn hans Gumma er líka yndislega Talk Talk-skotinn en við félagar erum að minnsta kosti sammála um að The Colour of Spring sé ein besta plata allra tíma. Þá var ákveðið á seinni stigum að hafa millikaflann í 4/4 (annað er í 3/4) sem setur skemmtilegt tvist á þessa ballöðu um glataða ást.

Morning to Kill Þetta lag er líka eitt af fyrstu lögunum okkar og átti að vera REM slagari. Þegar Gummi kom í bandið 2009 breyttist það í eitthvað allt, allt annað. Þetta er klárlega Mómentið hans á plötunni en þegar upptökum á sólóinu lauk á sunnudagsmorgni í Sláturhúsinu á Egilstöðum þurfti Gummi að leggja sig. Ef við þurfum að sanna það fyrir fólki - sem gerist sjaldan - að við kunnum eitthvað fyrir okkur þá tökum við þetta lag.

Miss You Geiri á þetta lag skuldlaust og mig minnir að það sé eldra en bandið. Lentum í vandræðum með útsetninguna en það endaði sem köntrískotin ballaða. Þetta er eitt af síðustu lögunum sem við kláruðum og örugglega það lag sem við Haffi fílum minnst. Ekki vegna þess að það sé slæmt heldur vegna þess að við vissum hvorugir hvað við áttum að gera í því. Svo finnst mér það líka alltof langt. Afskaplega fá lög þola að vera lengri en fimm mínútur. Miss You er tæpar átta...

Perfect Síðasta lagið sem við kláruðum áður en platan fór í framleiðslu. Lagið kemur líka frá Geira og við vorum búnir að vandræðast með það lengi. Upphaflega var þetta Neil Young-legur ballöðurokkari en það endaði sem svona dramtísk "sjálfsvígsballaða" hvað sem það nú er. Mitt framlag til þessa lags er afar lítið, kitlaði snerilinn örlítið og lét ískra í Dream-cymbalanum mínum. Guðjón og Geiri eiga eiginlega mest í þessu ef minnið svíkur mig ekki.

Ships Besta lagið á plötunni að mínu mati. Þriðja lagið sem kemur úr smiðju Geira en honum er örugglega sama þótt ég segi að lagið hafi tekið stórkostlegum breytingum í okkar meðförum. Lokakaflinn er gæsahúðarmómentið mitt á plötunni. Þar fer allt af stað sem mér finnst nauðsynlegt í rokk og róli. Feedbakk, miskunnarlaust cymbalawash, negldur bassi og gítarsamspil hjá Geira og Gumma sem þeir geta verið stoltir af. Trommuleikurinn er undir miklum áhrifum frá Larry Mullen og gaman að koma honum, þessu gamla átrúnaðargoði mínu, á plötuna. Textinn er líka kapítuli útaf fyrir sig. Algerlega frábær.

...

Og meðan ég man. Við erum byrjaðir aftur eftir langt vetrarfrí. Hungraðir sem aldrei fyrr.


Merkilegt hvað...

...mússík hefur öflug áhrif. Svaf lengur en ég ætlaði annan daginn í röð og fór hálf tuskulegur í vinnuna. Þegar ég var kominn yfir brúnna heyrði ég harmonikkutónlist og hélt auðvitað fyrst að einhver væri að "blasta" henni með ghettoblaster. En þetta reyndist vera spilari af holdi og blóði:


Ég veðraðist allur upp við þessa sjón, fór inná skrifstofu og náði myndavél. Mér fannst þetta svo merkilegt að ég fór aftur út og tók vídjó af manninum. Held ég geti í sannleika sagt að þetta sé merkilegasti viðburður í sögu Reyðarfjarðar frá því að fyrsta skóflustungan var tekin á álverslóðinni. 

01 maí, 2013

Æi já...

...það er 1. maí. Til hamingju kæri verkalýður!

En auðvitað tekur þetta enginn til sín lengur. Það eru allir í millistétt eða í efri millistétt eins og Tryggvi Þór.

...

Ég var beðinn um að halda ræðu á Reyðarfirði 1. maí í hittiðfyrra. Versta gigg ever. Stóð eins og fífl á miðju gólfi í safnaðarheimilinu á meðan krakkaskríll lék sér fyrir framan mig. Þau orð sem börnunum tókst ekki að yfirgnæfa voru kæfð í smjatti, kaffisötri og almennu blaðri sem örugglega var ekkert ómerkilegra en mitt.

Einu sinni var hljómsveitin Síva fengin til spila á svona skemmtun. Við tókum Sweet Home Alabama. Því fagnaði enginn.

Þoka bara skilur...

...ekki að hún megi koma upp í sófa til mín. Hárlos? Who gives a shit!

...

Þessi skepna er svona half and half dekruð/öguð hjá okkur. Hlýðir oftast en samt ekki alltaf. Frá upphafi hefur Esther séð um mestu skammirnar, ég sé um skemmtilegheitin. Göngutúra, mússíkhlustun og þess háttar.

...

Ég tek smá törn á æfingaplattann á morgnana ef það er mögulegt. Venjulega sefur Þoka á meðan en stundum, eins og í dag, lætur hún mig ekki í friði og potar í mig með trýninu. Held að þetta gerist sérstakega í paradiddlunum sem Þoku finnst ég spila illa.


eXTReMe Tracker