Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

27 september, 2014

The days run away like wild horses over the hill

Í dag er ég þrjátíu og níu ára. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að fá mér ískald vatn að drekka til að tryggja að mig væri ekki að dreyma.



26 september, 2014

Plötusafnið heima

Ég er nýbúinn að taka þátt í leik á Facebook þar sem maður á velja tíu áhrifamiklar plötur í lífi sínu. Ég notaði sjálfsævisögulega aðferð og reyndi velja plötur sem opnuðu einhverjar dyr í hausnum á mér. Þannig vakti Arena með Duran Duran áhuga minn á poppi og poppmenningu, þetta voru mínir One Direction, mínir Justin Bieber. AC/DC vakti áhuga minn á þyngra rokki og svo var bara eitthvað við fílósófíu bandsins, þessi jarðfesting; gallabuxur og hvítur bolur, sem höfðaði til mín. Mér fannst ég kannast við þessa menn (fyrir utan Angus - hann var af annarri plánetu). Þeir gátu alveg eins verið vélvirkjar hjá Dráttarbrautinni. 

Eins og pabbi. 


En það var búið að plægja þennan jarðveg. Ég kokgleypti við poppinu níu eða tíu ára gamall en ég var byrjaður að hlusta á tónlist úr plötusafni foreldra mína löngu áður. 

Þetta var fínasta safn, um hundrað plötur eða svo. Mamma átti klassíkina, meðal annars níundu sinfóníu Beethovens og allskyns greatest hits plötur með Mozard, Chopin og hvað þeir hétu nú allir.   Það voru hinsvegar plöturnar hans pabba sem höfðuðu meira til mín. 

Pabbi sigldi til Englands og Þýskalands á árunum uppúr 1960 og var duglegur að kaupa plötur. Ég man eftir stafla af sjö tommum sem geymdar voru í möppu með mynd af Elvis framan á. Og svo átti hann slatta af breiðskífum með Stones, Animals, Mannfred Man, Johnny Cash, Bob Dylan, Leonard Cohen svo eitthvað sé nefnt. Merkilegt nokk átti hann enga Bítlaplötu. “Tyggikúlupopp,” sagði hann um tónlist Bítlana fyrstu árin, eða eitthvað þvíumlíkt, og svo hafði hann enga sérstaka þolinmæði gagnvart Sgt, Peppers og framúrstefnupoppinu eftir 1967. Hefði pabbi minn ekki verið nema svona þremur eða fjórum árum yngri hefði hann verið hluti af ‘68 kynslóðinni og þá hefði plötusafnið hans örugglega litið öðruvísi út. Lifun með Trúbrot hefði t.d. örugglega leynst í því og annað hrútleiðinlegt hippadrasl.

Hann keypti plötur fram yfir ´70 (og mamma reyndar líka) og eitthvað mildaðist smekkurinn hjá honum með árunum. Þegar ég fæddist hélt pabbi upp á það með því skjótast í plötubúð Höskuldar Stefánssonar og keypti Blood on the Tracks með Dylan. Sú plata átti seinna meir eftir að verða ein af mínum uppáhalds plötum, ein af þessum sem ég hef þurft að kaupa nokkrum sinnum því ég gef alltaf eintakið mitt. 

Mér til er til efs að pabbi hafi keypt plötu eftir 1980. Plöturnar sem hann eignaðist eftir það voru gjafir frá okkur strákunum. Síðasta platan sem ég gaf honum var með Howlin' Wolf en blúsinn virtist alltaf höfða til hans. Eins og hann hefur gert hjá mér í seinni tíð. Aldrei meira en nú reyndar. Hvað um það. Það er enginn tími til að hlusta á plötur með þrjá athyglissjúka stráka í fanginu. Ég á eina stelpu og ég hlusta umtalsvert minna á tónlist núna en ég gerði barnlaus. Og kaupi færri plötur. Loksins. 

...

Ég veit hvaða lag það var sem kveikti áhuga minn á rokktónlist og hafði þar af leiðandi meiri áhrif en allar tíu plöturnar á listanum mínum á Facebook samanlagt. Þetta lag var orsökin - hitt var afleiðing. Þetta fannst mér svo ÓGEÐSLEGA flott að ég hlustaði á lagið aftur og aftur og aftur. Gerði eins og maður gerði í gamla daga og hlustaði gat á plötuna. Og kóverið, maður! Þvílíkir andskotans töffarar! Sennilega hef ég verið átta eða níu ára þarna en hefði ég verið búinn að ná sama andlega þroska og ég bý yfir núna hefði ég skilið að þessir menn nutu ekki ásta. Þeir riðu. Mikið. Lengi. 

Þetta var semsagt fyrsta lagið á Out of our Heads með Stones frá árinu 1965. Mér finnst "She said yeah" alveg jafn magnað lag núna og mér fannst fyrir þrjátíu árum. Ég skil líka betur að það var langt á undan sínum samtíma. Þetta er pönkið í hnotskurn og auðvitað miklu betra og hættulegra en það sem kom tíu árum síðar. Þetta er bara skíturinn! Punktur.



23 september, 2014

Húsfaðirinn

Ég hef verið óvenju duglegur að blogga undanfarið. Skýringin er sú að ég er í "fríi" á morgnana eða það kalla sumir fyrirbærið fæðingarorlof en þetta er auðvitað ekki frí. Þetta er erfiðasta vinna í heimi.

Dóttir mín vaknar oftast í kringum sex. Stundum sefur hún til sjö og stundum til fimm. Stundum sefur hún skemur en aldrei lengur. Hún er morguntýpan eins og ég. Um átta leytið leggur hún sig í klukkutíma og kannski aðeins betur og þann tíma ákvað ég þegar ég byrjaði í orlofinu að nota til að skrifa.

Ég hef ekki sinnt þessu gamla áhugamáli mínu að neinu viti undanfarin ár og ég veit ekki hvers vegna. Ég veit það í alvörunni ekki. Þetta er ekki spurning um tíma - þetta spurning um eitthvað allt annað. Góður vinur minn sagði við mig um daginn, eða sennilega var það í fyrra eða hittiðfyrra, að ég væri bara ekki nógu beiskur lengur. Ég hefði ekki lengur allt á hornum mér. Væri ekki jafn komplexaður. Væri með öðrum orðum (mín orð - ekki hans) plain boring. Hefði ekkert lengur til að skrifa um og væri of happí til að lita fortíðina einhverjum skemmtilega hæðnum litum.

Það getur vel verið að það sé skýringin. Á síðustu árum hefur líf mitt komist í fastari skorður. Ég á hús, ég á konu, ég á hund og núna á ég litla stelpu. Og ekkert rígfestir mann í skorðurnar eins og smábarn.

...

En það má alveg skrifa og hugsa um þetta líf sem maður lifir þessa stundina. Þar sem fyrirsjáanleikinn er svo algjör að ég ætti í raun að geta spáð nokkuð nákvæmlega hvernig þriðjudagur í þarnæstu viku muni verða. Eða svoleiðis.

Þetta var reyndar ekki svona fyrstu mánuði í lífi Iðunnar. Ekkert bjó mig undir þann kafla nema ef vera skyldi verstu vaktirnar á geðdeild númer 33A. Að hlusta á barn grenja á hæsta styrk í sex klukkutíma samfleytt, frá því klukkan eitt eftir miðnætti til sjö morguninn eftir hefur hrollvekjandi áhrif á mann. Svo ég vitni aftur í sama vin og áðan þegar hann lýsti sinni reynslu:

"Maður er ekki eins næs gæi og maður heldur sjálfur."

Sumt sem ég hugsaði þessar nætur man ég því miður enn og það mun allt saman fara með mér rakleitt í gröfina.

...

Þegar maður ræðir þessa hluti við vini og kunningja segja allir sömu söguna. Maður verður ekkert hamingjusamari með því að eignast börn. Allavega er það þannig að ef maður er óhamingjusamur fyrir þá mun maður ekki finna hamingjuna með því að minnka svefn um helming eða svo í hálft ár. Maður verður jafnvel á tímabili óhamingjusamari (og þetta skilst mér að sálfræðingar hafi sýnt fram á með rannsóknum) en svo gleymist þetta og áður en maður veit af er komið annað barn. Þetta verður að gleymast því annars myndi fólk aldrei eignast fleiri börn.

...

Pabbi minn sagði engar sögur af mér í brúðkaupsveislunni minni eins og pabbar gera stundum. Þegar ég spurði hversvegna sagðist hann bara ekkert muna. Hann sagðist muna glefsur úr æsku Halldórs en það sem kom í framhaldinu var allt í einum hrærigraut. Mér fannst hann tala eins og skotgrafarhermaður sem barðist á vesturvígstöðvunum 1916. Mundi bara ekki neitt. Hugurinn tók af honum völdin, tók úr honum minnið, bara svo hann gæti lifað með sjálfum sér!

Ég móðgaðist örlítið við pabba minn þegar hann sagði þetta. Mundi hann í alvörunni ekki eftir MÉR? Þessu stórkostlega barni?!

En. Það er allt fyrirgefið. Ekki vegna þess að hann er farinn yfir móðuna miklu og mér ber að fyrirgefa honum allt. Neineinei. Ég skil hann bara ósköp vel. Þrjú börn, fimm ár. 1971, 1972 og 1975. Fuck that shit! Ef þetta kallar ekki yfir mann áfallastreituröskun með tilheyrandi minnistapi þá veit ég ekki hvað gerir það. 

19 september, 2014

39

Er að verða þrjátíu og níu ára. Ég er að verða jafn gamall pabba mínum þegar fjölskyldan fór í sæluhús til Hollands í Kembervennen. Í fyrsta skipti til útlanda ef ferð til Færeyja er undanskilin en ég get nú varla kallað Færeyjar útlönd. Mitt annað föðurland.

...

Sumir jafnaldrar mínir segjast ekki finna fyrir þessu. Finnst eins og þeir séu alltaf tuttugu og fimm ára, alltaf á leiðinni á skrall í Egilsbúð. En ekki mér. Menn geta verið þrjátíu og níu ára eins og Maggi Scheving og menn geta verið þrjátíu og níu ára eins og ég. Ekki degi yngri en kannski nokkrum árum eldri en þeir eru í raun og veru. Stundum, þegar dóttir mín vaknar hress og kát klukkan hálf fimm á morgnana, grípur mig óstjórnleg þörf til að rita erfðaskrá því tíminn er jú að renna út. Svo fæ ég mér kaffi og fatta að ég á ekkert sem nánustu ættingjar hafa minnstan áhuga á að erfa.

Nema hugsanlega hálsmen sem læknar flösu.



Fátt setur hlutina í meira perspektív en að eignast barn. Ég er late bloomer í þessum efnum. Var nýorðinn þrjátíu og átta ára þegar dóttir mín fæddist. Þegar pabbi minn var þrjátíu og níu ára var hann búinn að eiga þrjá stráka í átta ár. Þann elsta var hann búinn að eiga í tólf ár.

Hann varð fullorðinn tuttugu og sjö ára þegar Halldór fæddist. Ég frestaði því að verða fullorðinn í fjórtán ár til viðbótar. Fór í heimsreisu þrjátíu og fimm ára og gifti mig á Kyrrahafseyju, gaf út hljómplötu í hittiðfyrra og þar fram eftir götunum.

Nái ég sextíu og níu ára aldri eins og pabbi minn mun ég deyja árið 2044. Þá verður Iðunn þrjátíu og eins árs. Verði hún jafn seinþroska og ég verður hún ennþá barnlaus. Ég mun því ekki kynnast barnabörnunum og þau ekki mér.

...

Þökk sé perspektívinu byrjaði ég í megrun um síðustu áramót og hún stendur enn. Ég er átta kílóum léttari. Ég SKAL ofdekra þessi barnabörn.

18 september, 2014

Geðbilun í ættinni

Ég er ekki viss um hvenær ég heyrði nafn Jónasar Skálda fyrst nefnt. Líklega var amma mín búin að segja mér frá honum einhvern tímann eða pabbi. Þau voru stundum dugleg að segja manni frá forfeðrunum en því miður lagði ég sjaldnast við hlustir. Ég var of ungur og hafði engan áhuga á ættingjum mínum. Nema ef vera skyldi þeim sem voru á svipuðum aldri og ég.

Og stundum er bara erfitt að muna nákvæmlega hvar og hvenær maður heyrir eitthvað fyrst. Gæti sennilega logið einhverju fyrst ég er að skrifa um þetta. Hreinlega nenni því ekki. Nenni ekki lengur að ljúga meiru en ég þarf. Það var hvorteðer tímaspursmál hvenær ég kæmist að einhverju um Jónas Skálda.



Nokkrum árum eftir að Keli bróðir minn veiktist, einhvern tímann í kringum síðustu aldamót, fletti ég upp í ættarskrám föðurfólksins í Íslendingabókinni hans Kára Stefáns. Það var í tísku á þessum árum - og er kannski enn í dag - að finna genetískar orsakir allra skapaðra hluta. Geðveiki þar á meðal. Ég hafði svosem spurt ættingjana um þetta og flestir svöruðu því á þann veg að það væri barasta engin geðbilun í ættinni. Keli var bara óheppinn. Einhver kom mér samt á sporið og sagði mér frá manni í móðurfjölskyldu föður míns sem mögulega gæti hafa verið geðbilaður.

Kallaður hinu leyndardómsfulla nafni “Skáldi”. Hann var afi Siggu ömmu minnar.

...

Í Íslendingabók segir um Jónas “Skálda” Þorsteinsson:

“Fæddur í Skuggahlíð í Norðfirði 11. apríl 1853. Látinn 16. október 1921. Tók sinnisveiki rúmlega tvítugur og orti mikið í veikindum sínum. Vinnumaður í Mjóafirði og Norðfirði, stundaði lækningar. Tómthúsmaður í Harðangri í Norðfirði 1921.”

Sinnisveikur!? Stundaði lækningar!? Jahá! Ég hafði fundið einn geðbilaðan í ættinni. Og ekki bara geðbilaðan heldur orti hann líka. Hann var skáld! (Svona til að bæta gráu ofan á svart) Hljómar kannski undarlega en það var á sinn hátt gaman að finna einn svona í ættinni í kringum alla fiskimennina. Einn sem var sinnisveikur. Einn sem bjó til ljóð og stundaði lækningar. Þetta fannst mér virkilega spes!

...

Þetta er allt um garð gengið og bróður mínum líður vel (annars væri ég sennilega ekki að skrifa um þetta). Ég velti ekki lengur fyrir mér “orsökum” veikindanna. Hann veiktist bara. Fékk bara kvef í höfuðið blessaður sem hann losnaði síðar við. Á sínum tíma, þegar Keli var vissulega fárveikur, held ég að vitneskjan um þennan forföður minn hafi hjálpað til í mínu eigin “bataferli” eins og sagt er á tæknimáli.

Og hvað á ég eiginlega við? Sennilega eitthvað í þessum dúr:

Jónas “Skáldi” var “sinnisveikur”. Um það verður ekki deilt. Hann lagðist upp í rúm og bjó til ljóð á meðan aðrir ábúendur Skuggahlíðar voru útá túni að heyja. Maðurinn var geggjaður! En hann var ekki bara geðsjúklingur. Hann var ýmislegt annað þ.m.t. skáld og hómópati. Ég gerði mér að sjálfsögðu ekki grein fyrir þessu á augnablikinu sem ég fletti upp í ættartalinu en þetta var mikilvægur lærdómur. Komst að því síðar.

16 september, 2014

Point Arena

Nokkrum árum eftir að ég kom til Point Arena á vesturströnd Bandaríkjanna, rétt norðan við San Fransisco, gúggla ég staðinn. Eini frægi maðurinn sem tengist staðnum virðist vera Jim nokkur Hodder, sá sem trommaði með Steely Dan á fyrstu tveimur plötunum. Jim þessi hafði misst tökin á lífi sínu og endaði það í sundlaug í Point Arena sumarið 1990. Þetta er bæjarins claim to fame.



Pete nokkur Rose bjó í Point Arena. Hitti hann á bar við ströndina eitt kvöldið og ég spurði hann hvernig væri að búa í bæ sem ég fyndi ekki einu sinni á kortinu mínu. Hann yppti öxlum og svaraði mér ekki. Sagði mér frekar frá því að í skóginum fyrir ofan bæinn byggju hippar eða “draft dodgers” sem ekki hafði spurst til síðan á tímum Víet Nam stríðsins.

Hann pantaði bjór handa okkur. Veskið fullt af seðlum. Eitt andartak datt mér í hug að Kerouac hefði skrifað hann svo ferðalagið mitt um Bandaríkin yrði viðburðaríkara. Hann talaði hratt og eingöngu um sjálfan sig – spurði mig aldrei útí neitt jafnvel þótt ég væri Íslendingur sem flestum fannst “awesome”. Ég var feginn enda orðinn dauðleiður á svara spurningum um huldufólk, álfa, Björk og annað fólk sem ég hafði aldrei séð.

Pete var hollensk ættaður Portúgali. Hafði búið í Bandaríkjunum allt sitt líf. Sagðist hafa átt góða ævi fram þrítugu. Þá var hann handtekinn fyrir mannrán. Núna, tíu árum síðar, sat á hann á bar við höfnina í smábæ sem finnst ekki á korti ásamt vinkonu sinni Nabinu sem starfaði sem grasalæknir í litlum bæ nálægt Los Angeles.

“They found the guy who did it and let me out – gave me lots of money,“ sagði Pete Rose og skálaði við ferðamanninn.  „Never have to work again.”

“He’s telling the truth,” bætti Nabina við, horfði á mig og kinkaði kolli í sífellu. Grasalæknar eru eflaust vanir að bera kennsl á hina vantrúuðu. Ég sannfærðist enn frekar um að ég væri að drekka bjór með glæpamönnum.

“They’re writing a book about it,” sagði Pete. Ég kinkaði kolli, enn vantrúaðri. Við drukkum bjór í tvo tíma og spjölluðum. Come Away with Me með Noruh Jones í hljóðkerfinu og um það leyti sem Nabina sýndi mér hálsmen sem læknar flösu var mannræninginn sofnaður fram á barborðið.



Nokkrum árum síðar gúgglaði ég Pete Rose. Hann sagði satt. Hann sat saklaus í grjótinu fyrir glæp sem hann framdi ekki. Að vísu mannrán OG nauðgun. Vildi sennilega ekki hræða mig. Vesalings túristann.

14 september, 2014

Skokkað í Naustahvammi

Í Naustahvammi. Ský hylja toppa fjallsins ofan við þorpið sem stundum er nefnt Nípa einu nafni. Tindarnir, skörðin og hnjúkarnir bera þó allir saman sín sérstöku nöfn. Reykurinn úr síldarbræðslunni berst úteftir.

...

Stebbi Þorleifs er nýsnúinn heim úr íþróttakennaranámi. Fyrsti íþróttakennarinn á Norðfirði. Fyrsti maðurinn í plássinu sem hreyfir sig vegna þess að honum finnst það gaman og veit að það er hollt. Hann sést á skokki en er ekki endilega að sækja eitthvað. Hann skokkar bara.

...

Náunginn veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar Stebbi hleypur fram hjá.“Hva, bara verið að hlaupa,” kallar hann á eftir skokkaranum sem svarar engu en veifar vinsamlega til baka. Má samt eiginlega ekki vera að því. Náunginn sættir sig ekki við svona dræm svör. Gengur rösklega frá húsinu sínu niðrá veg og hrópar hátt á eftir skokkaranum:

“Heyrðu góði, hvert er verið að æða?!”

Skokkarinn heyrir ekki spurninguna og heldur sínu striki.  Þyrlar upp ryki og hverfur sjónum. 

13 september, 2014

Mundi NK

Á dögunum eignaðist ég þessa mynd af pabba. Hún sýnir kallinn um borð í Munda NK 61 en þetta var í síðasta skipti sem pabbi rak útgerð.


Pabbi endaði sjómannsferilinn eins og margir aðrir sjómenn sem trillukall. Eða þannig var það í "gamla daga". Menn voru á allskyns skipum og bátum í ár og áratugi en þegar þá langaði í land var skrefið kannski ekki alveg tekið til fulls og menn keyptu sér trillu. Þarna var engin rómantík með í för enda var pabbi minn búinn að horfa á eftir vinum og félögum í sjóinn. Svoleiðis vill slökkva soldið á þannig tík.

Þetta var einfaldlega eitthvað sem hann kunni. Hann byrjaði að róa vel innan við tvítugt og ég hugsa að hann hafi verið orðinn atvinnusjómaður sextán eða sautján ára. Hann hætti á sjónum um það leyti sem við bræður komum til sögunnar en var viðloðandi sjómennsku þar til hann seldi Munda NK-61 haustið 1990.

Sjálfur fetaði ég aðra slóð í lífinu en ég minnist þess aldrei að pabbi hafi hvatt mig til að fara á sjóinn. Honum hefði sennilega þótt það soldið skemmtilegt hefði ég tekið nokkra túra - getað rætt við hann af einhverju viti um þessa hluti og svona - en mig grunar að hann hafi verið feginn að ég tróð mér ekki í sjóstakkinn hans (svo ég komi nú einni nýrri sjómennskulíkingu í þetta blogg). Og mamma var nú held ég alveg sérstaklega fegin. Hjá fólki eins og foreldrum mínum var þetta bara vinna og í ofanálag stórhættuleg vinna - það var því nákvæmlega engin sjómennskurembingur á heimilinu. Ég man t.d. aldrei eftir pabba mínum eða Dóra bróður hans að tala um síldarárin með blik í auga og tár á hvarmi. "Slíkt gerir bara fólk sem vann aldrei í síld," man ég eftir Dóra segja einu sinni í hálfgerðu gríni. Hálfgerðu, nota bene.

Samt var ég nú þátttakandi í þessu með honum undir lokin. Þegar pabbi keypti Munda var ég þrettán ára og það var strax ákveðið að ég myndi beita hjá honum á sumarvertíðinni. Ég hafði lært að beita hjá Dóra sem gerði út Veiðibjölluna NK-16 og við Logi frændi minn, sem kom sérstaklega austur frá höfuðborginni til að beita fyrir Munda NK, urðum starfsmenn útgerðarinnar. Pabbi gekk svo langt að kalla mig landformanninn sinn og einu sinni gerði ég þau mistök að kalla mig þetta sjálfur í viðurvist annarra. Þau mistök gerði ég bara einu sinni.

...

Ég held að þessi mynd sé tekin sumarið 1990. Pabbi réri á Munda í tvö ár, fyrra árið á línu en þarna eru engir beitustampar um borð þannig að líklega er þetta tekið seinna árið þegar ég fór að beita fyrir Kidda Ingvars og pabbi hélt fiskiríinu áfram á færum. Um haustið seldi hann og hætti. Ef hann fór á sjóinn eftir þetta var það allt annars konar sjómennska. Hann sigldi með túrista sumarið 1995 fyrir Palla Sigurjóns og svo var hann á björgunarskipinu Hafbjörginni í nokkur ár.

Í hittiðfyrra keyptu hann og Dóri lítinn bát með utanborðsmótor í þeim tilgangi einum að ná sér í soðið. Pabbi var að verða sífellt meira upptekinn af sjálfsþurftarbúskap undir það síðasta en eins og með sjómennskuna var hann ekki drifinn áfram af neinni rómantík. Honum fannst bara fullkomlega eðlilegt að sækja fiskinn sjálfur í sjóinn. Og kartöflurnar með soðningunni voru náttúrulega líka úr hans eigin garði. Smjerið var sennilega keypt hjá Kolfinnu en hefði hann lifað lengur hefði hann sennilega ættleitt kú. Nú eða geit. Hvað veit maður?

...


Þessi ár í beituskúrunum hjá Dóra og pabba eru mér bæði ógleymanleg og ómetanleg. Um leið og ég kynntist pabba mínum og bróður hans á allt annan hátt komst ég líka í samband við einhverja sögu. Ég lærði að beita en ég lærði ekki bara einhverja vinnu. Ég lærði handtök sem ekki bara pabbi minn kunni, heldur líka afi og sennilega langafi líka. Á einhverjum tíma í lífi okkar unnum við allir við það sama!

Er það ekki soldið spes?

eXTReMe Tracker