Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

13 janúar, 2005

The Rockdogs og besta bíóið

Kunningi minn og fyrrum félagi í Rokkhundunum gerir athugasemd í gestabókina þess eðlis að ég hafi ekki sagt frá tónleikum hljómsveitarinnar á Rauða torginu um áramótin. Ég er sammála þessu. Það er auðvitað skandall að hafa ekki sagt frá þessum konsert - frá öðru eins hefur nú verið sagt á þessari síðu. Ég á mér enga afsökun aðra en leti og verður reynt að bæta úr þessu með nokkrum málsgreinum um þennan sögulega viðburð í norðfirsku menningarlífi og eftirmála hans:

Tónleikarnir tókust að mínu mati vel miðað við fyrirhöfn en eins og ég hef sagt við alla sem nenna að hlusta þá er erfitt að klúðra áramótagiggi - vilji fólks til að skemmta sér er mikill. Þannig var dansað og öskrað við hvert einasta lag sama hversu margar villur hljómsveitin gerði. Og söngvarinn sýndi af sér áður óþekktan kynþokka sem enginn vissi af - allra síst hann sjálfur. Slíkir voru mjaðmahnykkirnir að sjálfur Elvis - og jafnvel Helgi Bjarka - hefði roðnað af skömm eins og lítill skólastrákur sem nýbúið er að flengja með blautu handklæði.

Þetta breytir því ekki að Knúturinn sagði starfi sínu lausu daginn eftir giggið. Hann er útbrunninn eftir mörg ár í bransanum. Það er nefnilega satt sem einhver sagði um árið: "Rokkið, það fer illa með mann." En ég vona svo innilega að Rokkhundarnir haldi áfram á lóðaríinu enda hefur tómarúm myndast í austfirskri rokkflóru eftir að Ýmsir flytjendur hættu sællar minningar.

---

Topp 5

Jæja, best að bæta við einum topp fimm lista. Besta bíóið, vessgú:

1. Lost in translation

Julian Lennon var alger lúði í samanburði við pabba sinn. Francis Ford Coppola er lúði í samanburði við dóttur sína. Svo á Bill Murray náttla enn einn leiksigurinn og sándtrakkið er screaming masterpiece.

2. American splendor

Fjallar um teiknimyndasögukallinn Harvey Pekar. Hef aldrei lesið neitt eftir hann en myndin er dásamlega fyndin. Nálgunin er "hlý" og húmorinn er "þurr" eða þannig.

3. Old school

Veit reyndar ekkert hvenær hún kom út en ég sá hana á þessu ári. Einhvers konar skrumskæling á bandarísku háskólamyndunum sem voru vinsælar in da eighties. Þarna fylgjumst við með nokkrum thirty something náungum - sumsé líkt og ég - sem voru á háskólaaaldri þegar þessar myndir voru vinsælar. Örlögin haga því þannig að þeir ætla að endurupplifa skólaárin og blablabla. Takið hana bara, Will Ferrel leikur eitt hlutverkið sem er góð ástæða fyrir flesta.

4. Spiderman 2

Þessi mynd er auðvitað veisla fyrir augað fyrst og fremst en sagan er líka góð og þetta tvennt fer yfirleitt ekki saman í amerískum hasarmyndum. Svo er hún betri en fyrri myndin. Ekki spurning.

5. Monster

Ætlaði að velja eina í lokin sem er ekki amerísk en sökum þess hvað videóleigan hérna tekur lítið inn af myndum frá öðrum heimsálfum - svokallaðar foreign movies - sér maður lítið af þeim og þær fáu sem ég sá voru greinilega ekki það eftirminnilegar að ég muni eftir þeim hér og nú. Vel því Monster. Svona mynd um hórur, graða kalla, raðmorð og sifjaspell ef það segir ykkur eitthvað. Uppáhalds þannig myndin mín.

Kv.

JK.


eXTReMe Tracker