Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 nóvember, 2003

Fór að lyfta í kvöld. Er búinn að vera nokkuð duglegur í ræktinni en því má helst þakka Gumma nokkrum Gils sem dregur mig út af stakri hörku. Hann hlustar ekki á neitt múður - onei, ekki hann Gummi.

En talandi um íþróttir. Ég skal sko segja ykkur að líf mitt hefur ekki verið neinn dans á rósum hvað varðar sportið.

Þannig var það að haustið 1986 eða 87 fór ég á nokkur skáknámskeið hjá Gísla skólastjóra og þó ég segi sjálfur frá náði ég ágætri leikni í þessari íþrótt. Eitt leiddi af öðru og ég tók þátt í skákmóti á vegum Nesskóla og lenti - að ég hélt sjálfur - í fremur léttum riðil. Í honum voru auk mín: Jói Sveins, Snorri frændi minn og svo einhver stelpa sem ég var skotinn í á tímabili, býr held ég úti í útlöndum núna.

Ég taldi mig nokkuð öruggan í annað sætið. Ég myndi að sjálfsögðu bursta stelpuna, Snorra myndi ég hafa, kannski ekki auðveldlega en ég hafði haft hann undir í nokkrum æfingaleikjum dagana á undan. Jói myndi sennilega taka mig í bakaríið enda var hann sá öflugasti í íþróttunum í gamla daga. Jói og bróðir hans Dóri voru einfaldlega bestir og ég á örugglega eftir að segja ykkur fleiri frægðarsögur af þeim. Dagana fyrir mótið æfði ég stíft og var...já, bara helvíti ánægður með mig þegar að stóra deginum kom.

Mótið hófst og mín fyrsta viðureign var við stelpuna sem ég var skotinn í en býr núna í útlöndum. Skákin var jöfn fyrstu tvær mínúturnar en ég man að það kom mér í opna skjöldu hvað hún reyndist sterkur andstæðingur. Sennilega var ég hrifnari af henni en hún af mér því hún sýndi mér enga virðingu og vann mig tiltölulega auðveldlega. Síðan greip um sig einhver undarleg gleði meðal foreldra að hún skildi hafa unnið. "Hún lætur sko ekkert þessa stráka vaða yfir sig" heyrði maður foreldrana segja fram á gangi og fleira í þeim dúr líkt og ég væri einhver ófreskja. Eftir að hafa grenjað í tíu mínútur eða svo hófst viðureignin við Snorra. Hann vann mig í þremur leikjum. Jú, jú, það var heimaskíturinn á þessu helvítis helvíti.

Eftir þennan ósigur gerði ég upp veikindi og fór heim. Minnir að ég hafi logið því að ég væri með skarlatssótt. Það er ekkert verra en tapa fyrir frænda sínum. Þannig er það bara.

Þessir ósigrar hafa dregið dilk á eftir sér. Alltaf þegar ég tefli nú til dags er það sama sagan. Mér gengur vel til að byrja með og sýni jafnvel meistaratakta ef út í það er farið. En svo líða nokkrir dagar og ég sé í andstæðingnum stelpuna sem ég var hrifinn af á tímabili. Sjálfstraustið hverfur og fimm ára barn gæti mátað mig. Krass, búm, bæng.

Segi ykkur síðar söguna af Austurlandsmóti fimmta flokks í knattspyrnu síðla sumars 1987. Ég fékk að vera inn á í nokkrar mínútur en það var eingöngu vegna kröftugar byggðastefnu sem þjálfarinn rak. Ég skal líka segja frá því þegar ég var í markinu hjá Eldingu, knattspyrnuliði sem Keli bróðir stofnaði, í leik gegn Þrumunni (Bakkabúar). Staðan var 17-0 fyrir Þrumunni í hálfleik og mér var skipt út af. Staðan var 17 - 17 í leikslok. Af hverju er ég að segja ykkur þetta!?

Þar til næst.

Kv.

JK.

25 nóvember, 2003

Jæja, enn einu blaðinu lokið. Finnst þriðjudagskvöld alltaf jafn yndisleg. Mér líður eins og það sé frí framundan en það er auðvitað óttalega vitleysa. Puðið byrjar strax í fyrramálið

Það tvennt sem ég vil segja ykkur frá í kvöld. Annars vegar er ég orðinn vörumerki – eða öllu heldur tákn - og hins vegar er ég að öllum líkindum að fara í mesta narðapartí sem sögur fara af um næstu helgi.

Byrjum á vörumerkinu. Ég veit ekki hvort einhver hérna inni les DV en ég mæli með því að þið nælið ykkur í eintak næst þegar blaðið fjallar um aukið ofbeldi í samfélaginu sem er svona ca. tvisvar til þrisvar í viku. Takið eftir framhandleggnum og búrhnífnum. Ekkert voðalega brútal framhandleggur, fremur skrifstofulegur ef út í það er farið. En mikið rétt, þetta er minn framhandleggur og hann hefur meðal annars verið notaður til að myndskreyta leiðara hjá Jónasi Kristjáns og einu sinni var hann á forsíðu DV. Ég gleymi því ekki af því myndin var notuð þegar blaðið reyndi að breyta um ímynd einhvern tímann í vor - vildi vera meira aggressív.

Í Silfrinu var fjallað sérstaklega um þessa forsíðu og Egill sagði eitthvað á þá leið að það væri langt síðan DV hefði "oppereitað á þessu leveli" svo vitnað sé í hans orð og síðan notaði hann myndina sem dæmi um þetta level. Gleymi því ekki hvað ég var stoltur. Ekki amalegt fyrir framhandlegginn minn að vera orðinn abstrakt tákn fyrir ofbeldi í samfélaginu og kannski líka tákn fyrir ákveðna tegund blaðamennsku. Geri aðrir framhandleggir betur og hananú!

Svo er það partíið. Sum ykkar vita hvað ég er veikur fyrir kanadíska þungarokkstríóinu Rush. Hef fílað þá í sextán ár og ég er stoltur af því að eiga allar plöturnar þeirra. Það er ekki hægt að neita því að þetta er tónlist fyrir nerði og ég ætla nota næstu línur til að sanna þá fullyrðingu. Þannig er mál með vexti að á dögunum kom út nýr DVD diskur með hljómsveitinni sem ég keypti náttla samstundis jafnvel þó ég eigi ekki DVD spilara né hafi aðgang að slíku tæki dags daglega. Nema hvað að ég talaði Pjetur í Tónspil til og hann er nú að íhuga að bjóða mér og félaga mínum í partí um helgina þar sem tónleikarnir verða spilaðir á fullu blasti.

Nú vil ég að þið takið ykkur nokkur augnablik og veltið þessu fyrir ykkur. Hvað sjáið þið? Mig langar eiginlega ekkert til að vita hvað þið sjáið en ég sé þrjá fullorðna piparsveina að lúfttromma blindfullir inni í stofu einhvers staðar úti í bæ. Þrír nerðir að njóta þess að vera saman í vernduðu umhverfi. Vill einhver elska svona menn?

Látum þetta nægja í bili.

Kv.

JK.

23 nóvember, 2003

Ýmsar æskuminningar komu fram á yfirborðið þegar og horfði á Brennidepilinn á RÚV áðan. Þau rifjuðust upp árin þegar ég stundaði yfirgripsmikið hnupl í verslunum á Norðfirði ásamt vinum mínum, þeim Adrian og Smith. Fyrir valinu urðu aðallega flugmódel frá franska fyrirtækinu Revel sem bjó einnig til lí­m undir sama heiti.

Eins og allt í l­ífinu var þessi þjófnaður partur af rútí­nu dagsins. Fyrst fór maður í­ sund þar sem Óli Sig kenndi manni réttu sundtökin og eftir sturtu var strunsað niður í bæ og leikfangadeild Kaupfélagsins (guð blessi minningu þess) heimsótt. Ég man ekki alveg hvernig við gerðum þetta. Mig minnir að Adrian hafi reynt að dreifa athygli afgreiðslustúlkunnar með því­ að ræða við hana um heimsins gagn og nauðsynjar og á meðan stungum við Smith einu til þremur módelum í íþróttatöskuna mína. Til að vekja ekki of miklar grunsemdir keyptum við módel af og til og venjulega notuðum við til þess peninga sem við stálum frá foreldrum okkar - slí­k var bíræfnin.

Þetta voru góðir dagar og við lifðum í­ vellystingum. Ó boj! Það voru flugvélar úti um allt herbergi! Þýskar, enskar, amrí­skar, í­talskar, japanskar, júneimit - við áttum allt! Við drukkum Kókómjólk í­ hvert mál og lifðum eins og hver dagur væri sá síðasti. Við vorum kóngar á Norðfirði. Módelkóngar í lí­mvímu.

En allt sem fer upp kemur niður. Við urðum gráðugir. Í stað þess að stela einum skopparabolta (við vorum byrjaðir að færa okkur upp á skaftið og stálum skopparaboltum, spilastokkum, kertum o.fl) stálum við tveimur og stungum inn á okkur. Ég meina kommon! Ekki einu sinni vitlaus búðarloka trúir því­ að tíu ára strákar séu með tröllvaxin eistu! En slí­k var firringin orðin og hið óumflýjanlega gerðist. Við vorum gómaðir.

Ég man þetta lí­kt og það hafi gerst í­ gær. Þetta hróp: "Hei, strákar! Eru þið að stela!" Guð minn almáttugur - ég fæ hroll bara við tilhugsunina. Og eins og þetta hafi ekki verið nóg lét hann okkur sækja skopparaboltana ofan í buxurnar fyrir framan aðra viðskiptavini. Gott ef hann lét okkur ekki sækja boltana í­ buxurnar hjá hver öðrum en það gæti verið í­myndun.

Eftir þetta var sjálfstraustið horfið. Við gátum ekki hnuplað kexpakka án þess að vera gripnir. Einu sinni stóð gömul sjónlaus kelling mig að verki þegar ég var í­ miðjum klíðum að troða Frón-kexpakka ofan í­ dökkbláu DonCanobuxurnar mínar­. Þvílík hörmung! Ojbarasta bara!

En svona fór þetta og við lærðum okkar lexíu. Ég myndi ekki stinga inn á mig súkkulaðistykki í­ sjoppunni þó ég væri Palli einn í­ heiminum. Bara get það ekki.

Hafið það gott og vonandi lærið þið af þessu,

JK

21 nóvember, 2003

Jæja, pressan er byrjuð. Ég ætlaði ekki að segja neinum frá þessu en lenti svo á egótrippi og sagði öllum sem ég þekki frá blogginu mínu. Ég get svo svarið að aldrei hefur blogg verið lesið jafn oft af einum manni í sögu bloggsins. Hef lesið mitt eigið blogg ca. þúsund sinnum yfir og breytt og bætt lí­kt og öll veröldin sé að fylgjast með stí­l og orðalagi. Ég veit að svo er ekki en hvað um það: I'm so vain.

En það er alveg rétt, pressan er byrjuð. Félagi minn sagði að ég þyrfti að toppa sjálfan mig á hverjum degi framvegis og að þessi skrif væru orðin partur af rútí­nunni þ.e. guardian.co.uk, nytimes.com, mbl.is og svo auðvitað Knúturinn. Ég hef ákveðið að gefast upp strax, byrja að drekka ótæpilega og vorkenna sjálfum mér. If you need me I'll be at the bar, eins og Joni M. söng um árið.

Annars mundi ég eftir svolitlu sem gerðist um daginn en var bara nýverið að fatta. Ég var á barnum og lenti á spjalli við einhvern sem var voðalega dán. Hann var á móral yfir því að öllum þætti hann leiðinlegur og óspennandi karakter. Nú, ég var í­ rétta stuðinu til að hjálpa til og byrjaði að messa af þvílí­kri innlifun. Kom með frasa eins og:

"Það er innri maðurinn sem skiptir máli", "ekki stjórnast af ytri viðmiðum" og "viðurkenning annarra skiptir ekki máli" osfrv. Það skal tekið fram hér að ég trúði þessu öllu en þegar samtalinu lauk fór ég á barinn of pantaði mér einn tvöfaldan viskí án klaka (mjög mikilvægt að sleppa klakanum, meira kúl skilurðu). Svo leysti ég efsta skyrtuhnappinn frá, svona til að lúkka meira sexí, og skimaði í­ kringum mig í leit að einhverri dömu til að höstla (ú beibí je!!!). Allt í­ einu fann ég þessa lykt sem var svo sterk að það er óhætt að tala um fnyk. Eftir fáein augnablik átta ég mig á því að þetta var lyktin af sjálfum mér - lykt af Dreamer ilmvatninu sem ég hafði úðað á mig fyrr um kvöldið.

"Þvílíkur hræsnari," sagði ég við sjálfan mig á leiðinni í­ vinnuna í morgun. Ég hef ákveðið að baða mig ekki framar, ég ætla ekki að bursta tennur, þ.e. ég ætla ekki fara eftir reglum samfélagsins svo lengi sem ég lifi. Viðurkenning annarra skiptir ekki máli. Amen.

Yðar einlægur,

JK.

Ætli það sé ekki best að ég klári söguna með kúrekaplaymóið og "Hóruhúsið Hugarró". Við vorum sem sagt að leika okkur ég, þessi strákur sem keypti sér nammi í kjörbúðinni mörgum árum síðar (köllum hann Adrian) og einn annar góður drengur sem við skulum kalla Smith.

Það var mjög skýr valdastrúktur í þessu playmói og við Adrian vorum stórbændur og áttum bæði hesta og sauðfé. Saman mynduðum við teymi og kúguðum Smith sem gekk illa að byggja upp búgarðinn sinn enda réðumst við á hann reglulega og komum í veg fyrir að hann gæti byggt upp "heilbrigt velferðarkerfi" eins og þetta kallast nú til dags.

Nú, til að gera langa sögu stutta vorum við Adrian samt ekki alger fól og opnuðum hóruhús - Hóruhúsið Hugarró. Ég man ekki hvers vegna en að öllum líkindum vorum við að horfa á einhvern vestra skömmu áður en leikar hófust og þar sáum við örugglega starfsemi af þessu tagi. Við vorum hins vegar bara með þessar playmókonur sem voru alltaf óléttar og Smith fékk að dúsa í hóruhúsinu, eignalaus og allslaus, en hann fékk allar konurnar frítt - slíkir öðlingar vorum við Adrian. Konur og bús for frí.

Smith mótmælti þessu harðlega og sagðist ekkert vilja vera á hóruhúsinu. Adrian
átti nú svar við þessu: "Hvaða vitleysa, mér sýnist nú kallinn þinn vera brosandi."

Þar til næst,
JK.

Gamli ritstjórinn hringdi áðan og vakti mig. Hann hneykslaðist á því að ég væri ódrukkinn á útgáfudegi. Hann er jú blaðamaður af gamla skólanum og það er enginn maður með mönnum nema drukkinn sé í fermingaveislu frænku sinnar. Ég er af yngri kynslóðinni, stunda líkamsrækt á morgnana og les uppbyggilegar bækur fyrir svefninn.

Hitti gamlan félaga í kjörbúðinni rétt fyrir lokun í dag. Við vorum saman í grunnskóla og lékum okkur oft saman í Playmo í gamla daga. Ég man alltaf eftir því þegar ég, þessi félagi minn og einn annar kunningi vorum saman að leika okkur og við opnuðum svona Playmo-hóruhús. Við vorum ekki nema svona kannski átta ára gamlir og samt höfðum við vit á þessu. Við vorum jú í kúrekaplaymói. Ég man að hórukofinn var kallaður "Hóruhúsið Hugarró".

Allavega, ég skal segja ykkur frá þessu síðar. Sum sé, ég hafði ekki hitt hann í nokkrar vikur og ég tók eftir því að hann var með fullan poka af sælgæti. Ég spurði hvort það væri veisla og hann svaraði: "Nei, ég er með hausverk." Þar með var það útrætt mál. Fannst þetta soldið sniðugt og vildi deila þessu með ykkur.



bara að prófa. frábært.

eXTReMe Tracker