Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 nóvember, 2004

Smá frí

Krakkar mínir,

Ég hef ekki verið duglegur að blogga undanfarið og mun ekki vera það næstu vikur. Skýringin er sú að vinnan tekur tímann minn þessa dagana - fjandakornið barasta - og ég hef ekki nennu eða áhuga á að blogga þegar ég búinn að skrifa stanslaust frá morgni til kvölds. Knúturinn mun mæta aftur einhvern tímann milli jóla og nýárs og velja plötu ársins. Allir alvöru poppspekúlantar þurfa sko að gera svoleiðis. Skora á Trýtilbuxa, Hlyn, Sigga, Steinunni, Ástu og alla hina að láta til sín taka í hinum klassísku topp 5 listum fyrir árið 2004. Þarf ekki endilega að vera mússík. Getur t.d. verið listi yfir kynþokkafyllstu bloggarana (sénsinn að ég tapi því).

Bless í bili,

JK.

ES. Reiður lesandi hringdi áðan. Sagði Austurgluggann vera æsifréttablað og þagði svo bara. Beið sennilega eftir því að ég myndi verða reiður og neita því. Ég sagði ekki neitt. Og þá sagði hann ekki neitt. Ég sagði "bless". Og þá sagði hann "bless". Við vorum sáttir.

24 nóvember, 2004

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að bréfið er skáldskapur.

Kv.

JK.

Breaking news

Knúturinn er rannsóknarblaðamaður fyrst og síðast eins og allir vita. Fyrir nokkru var að hann gramsa í skjalageymslu Tónskólans í Neskaupstað og fann þetta bréf stílað á Ólaf Sigurðsson í Nesskóla. Málið snertir son hans og vin minn Sigurð Ólafsson en hann skráði sig í tónskólann í haust. Eitthvað hefur þetta nú farið forgörðum hjá félaga mínum en hann er ekki sá eini sem hefur klikkað á svona smáatriðum eins og mætingu. Þannig hef ég tvisvar skráð mig í tónskóla og í bæði skiptin hef ég hætt að mæta eftir viku.


24.11.2004
Sæll Ólafur,

Því miður er tilefni þessa skrifa ekki skemmtilegt en ég er búinn að draga það nógu lengi að skrifa þér og nú er mælirinn fullur. Málið snertir Sigurð son þinn sem skráði sig í gítarnám hjá okkur fyrr í haust. Hann ætlaði að mæta til okkar tvisvar í viku og virtist í upphafi hafa mikinn áhuga á náminu. Kennari hans, Jón Hilmar Kárason, var orðinn verulega spenntur og urðu meira að segja önnur áhugasöm börn að víkja svo sonur þinn kæmist að.

En ekki byrjaði þetta vel. Hann skrópaði í fyrsta tímann og þar með var tóninn gefinn fyrir mætingu Sigurðar í haust því það telst til tíðinda að hann sjáist einu sinni í mánuði. Afsakanir Sigurðar eru með þeim hlægilegustu sem við höfum heyrt - og trúðu mér; við höfum heyrt þær allar. Lengst gekk hann samt þegar hann sagðist vera kominn með Alzheimer og færði okkur falsað læknisvottorð því til sönnunar.

Sigurður er mesti slóði sem nokkurn tímann hefur stigið fæti inn fyrir dyr skólans og slær þar með út Þröst Rafnsson kennara sem kallaði heldur ekki allt ömmu sína þegar stundvísi og mæting var annars vegar.

Okkur þætti því vænt um að þú talaðir við son þinn og best væri að þú agaðir hann með öllum tiltækum ráðum. Ef við sjáum ekki breytingu í hegðun Sigurðar fljótlega neyðumst við til að grípa til okkar ráða.

Með virðingu og vinsemd,
...

18 nóvember, 2004

Latur

Í dag er ég latur og stundum þegar ég er latur fyllist ég kalvínískri sektarkennd og tel mér trú um að ég verði krossfestur - svona metafóríkli spíking - ásamt allri minni ætt eins og þeir gerðu í gamla daga. Svona var nú Guð réttlátur og miskunnarsamur.

En í dag vaknaði ég ánægður og sáttur við Guð og menn. Ég ætla að vera kátur í minni leti. Best að kíkja í Tónspil...

...

Er með laptoppinn í vinnunni og fann þessa örsögu í henni sem ég skrifaði í Fréttablaðið í kosningabaráttunni í fyrravor. Það var með einhvern svona fastan dálk sem kallaðist "Sagan" eða eitthvað svoleiðis og gekk þannig fyrir sig að höfundur hverrar sögu þurfti að skora á einhvern annan og svo koll af kolli. Æxluðust málin þannig að skorað var á framkvæmdarstjóra Samfylkingarinnar og tekin var sú ákvörðun á morgunfundi að sagan mætti ekki fara út fyrir flokkinn. Stjórinn skoraði því á Helga Seljan, Helgi skoraði á Björgvin Sig, Björgvin skoraði á mig, ég skoraði á Kristínu Atladóttur úberreddara, Kristín skoraði á Guðrúnu Ögmunds, Guðrún skoraði á Kristrúnu Heimisdóttur og eftir það hætti Fréttablaðið með dálkinn enda ekki ætlunin hjá því að dálkurinn yrði áróðurstæki fyrir Samfylkinguna. Skil þá vel en sumir eru ef til vill ekki sammála þessari túlkun hjá mér.

Allavega. Allar karlasögurnar voru karlasögur þ.e. fylleríssögur og ég lét þessa flakka. Um helmingur hennar eða svo er lygi.

Hræðileg endalok á efnilegu kvöldi

"Ég get ekki neitað því en ég er enn þá frekar efins hvort ég eigi að segja ykkur þessa sögu en einu sinni sagði góður maður við mig að það væri fyrsta og síðasta skylda hvers óþverra að fá fólk til að hlæja og því læt ég ‘ana flakka.

Þessi atburður átti sér stað á þorrablóti í febrúar árið 1992 austur á Norðfirði. Ég var sextán vetra gamall og var í fjötrum míns fyrsta ímyndaða ástarþríhyrnings þ.e. ég og félagi minn vorum hrifnir af sömu stúlkunni. Ég komst að því síðar að sú hrifning var ekki gagnkvæm hvað mig varðar en það er önnur saga og vandræðalegri.

Í febrúar – eftir langt og árangurlaust viðreynslutímabil - fékk ég gullið tækifæri til að sýna hvað í mér byggi því stúlkan bauð okkur báðum á þorrablót með fjölskyldu sinni. Þannig háttaði til að ég fékk sæti á móti henni við langborðið en félagi minn sat við hlið hennar - til vinstri frá mér séð. Ég hrósaði happi því með þessu móti gafst mér betra tækifæri til að ná þessu klassíska augnkontakti án þess að hafa mikið fyrir því. Eftir nokkra brennivínssjússa, söng og tralala lét ég slag standa og hóf svona kálfanudd undir borði. Svo við tölum bara tæpitungulaust: Ég byrjaði að káfa á henni.

Þessi aðferð virtist ekki virka neitt voðalega vel því þrátt fyrir hið erótíska nudd virtist hún hafa meiri áhuga á því að stinga augun úr einhverjum sviðahaus. Ég prófaði að nudda af meiri áfergju og að lokum ákvað ég að fara alla leið. Ójá...

Við þessa taktík tók ég eftir því að félagi minn og sessunautur stúlkunnar byrjaði að hósta upp úr sér súrmetinu og þegar ég þrýsti af meiri krafti engdist hann sundur og saman af kvölum – í það minnsta vona ég að það hafi verið sársauki sem orsakaði krampaköstin.

Nú, það er skemmst frá því að segja að ég rataði greinilega á rangan stað eða kannski er betra að segja að ég rataði á ranga manneskju. Við þessa uppgötvun afsakaði ég mig og gekk heim skömmustulegur og skammast mín reyndar enn þá. En ég þakka samt Guði almáttugum að ég notaði vinstri löppina við þennan dónaskap því hægra megin við stúlkuna sat pabbi hennar..."

17 nóvember, 2004

Rockin' an'a rollin' in da gymhouse

Skelfing var þessi Kastljósþáttur bjánalegur. Þjóðfélagið á öðrum endanum, bandittar að sprengja Íraka í tætlur og Rúv ákveður að eyða sjötíu mínútum í einhverja naflaskoðun! Innst inni var ég einmitt að vona að eitthvað fréttnæmt myndi gerast svo ég gæti sloppið við þetta. Það vantaði ekki fréttir á mánudaginn en allt kom fyrir ekki. Orðið fílabeinsturn kemur upp í hugann.

Enívei, á leiðinni upp í Egilsstaði samdi ég ræðu undir sterkum áhrifum frá Ramones anþólógíunni sem var í spilaranum. Ætlaði sko aldeilis að láta helvítin hafa það, ójá! Og klikkaði síðan á öllu. Bullaði bara eitthvað. Dæmigert.

...

Fór í ræktina áðan og skemmti mér konunglega. Strákur um tvítugt mætti nokkrum mínútum á eftir mér og skipti strax um tónlist enda var vælið úr barkanum á Jóni Sig að gera okkur báða vitlausa. Ég ætlaði ekki að trúa því þegar kunnuglegir hljómar fylltu salinn, nebbla Breaking the law með Judas Priest. Hlusta unglingar virkilega ennþá á Júðaprestinn?!

Greinilega og ræddi ég aðeins við unglinginn um þessa mússík. Fékk meðal annars að vita að söngvarinn, Rob nokkur Halford, er hommi. Ekki kemur það mér á óvart. Alltaf með úber hommalegt kaskeiti úr leðri á höfðinu, sérhannað fyrir leðurhomma. Svo var hann líka alltaf á einhverju Harley hjóli sem er mjöööög gei eins og allir vita. Allavega, skiptir ekki nokkru máli. Það er hommalegt að hlusta á Pet shop boys og ég á fjóra diska með þeim. West end girls er eitt besta popplag allra tíma. Djöfull er ég víðsýnn.

En aftur í gymmið. Skemmtilegast fannst mér samt þegar skrýtni kallinn kom inn í sal til að lækka í "þessu helvítis gargi" eins og mér heyrðist hann segja – hugsanlega ímyndun - en stundum ætlar skrýtni kallinn mann bara lifandi að drepa. Svo fór sá skrýtni aftur út til að gera það sem hann gerir einhvers staðar annars staðar og unglingurinn hækkaði í botn að nýju. Ekki liðu nema svona tvær mínútur þegar sá skrýtni kom aftur og lækkaði svo hann gæti lesið textavarpið sýndist mér.

Unglingurinn hélt sínu striki og hækkaði aftur enda var Túrbólover - eitt besta lagið með Júðunum - komið vel á skrið og homminn byrjaður að væla líkt og hann væri með Y á bólakafi í X. Skrýtni kallinn gafst hreinlega upp og rokkið sigraði að lokum eins og í öllum góðum sögum.

The wild and the young will always be free!
(Kevin DuBrow, 1986)

Kv.

JK.

14 nóvember, 2004

Fame! I'm gonna live forever...

Jæja, nú bendir allt til þess að Knúturinn fari í Kastljósið annað kvöld. Þetta breytir auðvitað öllu í hans lífi. Hafi hann skilið rétt slúðurdálkana í DV þarf hann að fá sér leyninúmer, lífvörð, mazebrúsa og margt, margt fleira. Svo má auðvitað ekki gleyma því að hann þarf að fara í ljós, fitusog og klippingu.

Ég hef nokkrum sinnum verið svona "tíðindamaður að austan" í dægurmálaþáttum í útvarpi og undantekningarlaust hefur mér fundist það leiðinlegt og í raun niðurlægjandi því spyrjendur tala alltaf við landsbyggðarfólk eins og það sé vangefið eða elliært. Tökum bara þáttinn Út og suður sem dæmi. Þar leitaði skrýtnasti fréttamaður landsins að skrýtnustu skrúfum landsins og útkoman varð hálfgert fríksjóv. Efast ekki um það eitt augnablik að þessi þáttur var liður í miklu samsæri ríkisins gegn landsbyggðinni.

Nú kann einhver að spyrja af hverju ég sagði "jájá" við manninn sem hringdi í gær og bað mig um að mæta. Þetta er réttmæt spurning og ástæðurnar eru þrjár.

1. Hann vakti mig og mótstöðuaflið var lítið. Ég hefði sennilega samþykkt að myrða mann í þessu ástandi sem ég var í. Þetta er ekki beint ástæða - fremur útskýring.

2. Ég bið fólk daglega um að koma í viðtal til mín og það væri þess vegna hálf asnalegt ef ég myndi svo alltaf neita sjálfur. Þetta er prinsipp hjá mér núna en það verður tekið til endurskoðunar fljótlega því mér finnst þetta leiðinlegt. Af hverju er gengið að því sem vísu að blaðamenn og sjónvarpsfólk hafi vit á öllu? Kommon! Það nægir að hlusta á Stefán Jón og Ingva Hrafn til að vita að svo er aldeilis ekki.

3. Umræðuefnið - framtíð og tilgangur RÚV - er þreytt en áhugavert og það vill svo til að ég hef skoðanir á þessu. Með öðrum orðum: Ég er ekki að fara í hlutverk hressa og vitgranna landsbyggðarmannsins sem kann öll "tíðindi" utanbókar. Það getur vel verið að ég sé vitgrannur en hress er ég ekki.

En allavega. Ég vona innst inni að það gerist eitthvað verulega fréttnæmt á morgun þannig að dagskrá Kastljóssins verði breytt og ég þurfi ekki að mæta. Fari svo að ég þurfi að mæta verð ég að vera flott klæddur. Ég rakaði mig í morgun þannig að ég get ekki verið drykkfellda, úrilla og þreytta blaðamannatýpan. Ég á bara tvo alminilega jakka og verður teinótti bleiserinn náttla notaður. Svo er spurning um buxur. Flauel eða galla? Ætli maður taki ekki gallabuxurnar. Best að vera soldið röff.

Bolur eða skyrta? Ég á tvo nýja boli - annars vegar svartan Mötorhead-bol og hins vegar ljósbláan Rush-bol með nöktum karli og písmerki framan á. En síðan á ég náttla Beach boys-skyrtuna skrautlegu sem ég pantaði frá Hawaii í janúar. Soldið hræddur um að hún beini athyglinni frá því sem ég ætla að segja. Sem ef til vill gott...?

Kæru vinir, endilega kommentið á þetta. Á ég að vera í skyrtunni eða hljómsveitarbol?

Kv.

JK.

13 nóvember, 2004

Nerds, nerds, nerds!

Hélt framhjá Tónspil og var að ljúka við massíva pöntun á Amazon. Í pakkanum er jólaserían frá Office, einhver stand-up pakki með Ricky Gervais, Revenge of the nerds (fyrsti og annar hluti) og svo eitthvað með Kalíforníurokkaranum Jackson Browne.

Veit að ég mun skemmta mér best yfir Office og Ricky Gervais og horfa á þetta látlaust yfir hátíðina en samt hlakka ég mest til að fá Hefnd busana. Ég sá þessa mynd fyrst um miðjan níunda áratuginn og þrátt fyrir að skilja lítið í henni - jic þá er þetta mynd um háskólanörda - varð þetta ein af þessum myndum sem ég tók reglulega á leigunni hjá Gils. Ofsalega verður gaman að endurnýja kynni sín við Gilbert, Lewis og síðast en ekki síst Hora (Booger) sem Curtis Armstrong lék. Curtis vinnur nú í sjónvarpi.

Eftirminnilegasta línan kom einmitt frá Hora þegar strákarnir voru búnir að setja upp kamerur í heimavistinni hjá gellunum: "We've got bush! We've got bush!"

Kv.

JK.

12 nóvember, 2004

Ævintýrið um Harry

Við höldum nú áfram með ævintýri einkaspæjarans Harry Joe Silverman sem reynir að leysa gátuna um Funky Starcase, lagið sem enginn veit hver á. Í þessum þætti áttar Harry sig á því að það er ekkert grín að vera einkaspæjari á Íslandi. Svo hittum við líka ofurgelluna Vivian Eastwood.

Harry Joe Silverman var uppgefinn þegar hann kom á skrifstofuna klukkan hálf tíu að kveldi. Hann kveikti á tölvunni og fór rakleitt inn á Knútinn og las um sjálfan sig. Hann var óánægður með skrifin. "Ég bý ekkert í ferðatösku, fjandinn hafi það!" hvæsti hann og hristi hausinn. Hann tók afsagaða haglabyssu sem hann geymdi undir borðplötunni og tók í gikkinn. Hann þurfti nýja tölvu.

Harry klæddi sig úr frakkanum og setti lappir upp á borð. Í efstu skúffunni fann hann vískípela og hellti í tvö glös. Annað handa sjálfum sér og hitt handa Steve. Hann var þreyttur og vonsvikinn en dagurinn var búinn að vera hreint helvíti. Fundurinn með Birni ráðherra var misheppnaður.

"Hva, ert'a fara?" hafði Harry spurt ráðherrann sem virtist hafa lítinn áhuga á þessu máli.

"Neinei," svaraði ráðherrann og var greinilega up to something no good. "Hver hleypti þessum lúnatik inn," hugsaði hann og rétt náði að hlaupa út og kalla á hjálp áður en Harry stökk upp úr stólnum. Hann ætlaði að stökkva út um gluggann en skrifstofan var gluggalaus. Ráðherrann býr nefnilega í kjarnorkubyrgi.

"Er þetta vegna þess að ég er nýbúi!" öskraði Harry á meðan tveir fílefldir lífverðir hentu honum út. "And don't come back," sagði annar þeirra sem Harry þekkti úr Dagblaðinu. Frægur handrukkari.

Harry vissi ekki sitt rjúkandi ráð og var um það bil að gefast upp og flytja aftur til Vestmannaeyja þegar síminn hringdi.

"Hæ, er þetta Þór?" hvíslaði röddin í símanum.

"Nei, ég heiti Silverman, Harry Joe Silverman."

"Núnú, afsakið." Og svo var lagt á.

Allt virtist því vera á niðurleið hjá Harry Joe Silverman. Frami á Íslandi var útilokaður á meðan málin stóðu svona. Yfirvöld voru á móti útlendingum og aðrir einkaspæjarar voru ósáttir við að hann líka. "Hann heldur launum okkar niðri!" hrópuðu þeir og Harry fannst sem heimurinn væri á móti sér. Aungvir vinir voru til staðar sem gátu drukkið með vesalings Harry og horft á sjónvarpið með honum. Hann ímyndaði sér að hann myndi deyja í bílslysi. Hvað skyldu margir mæta í jarðarförina? Hann sá fyrir sér minningargreinarnar í Mogganum sem dásömuðu hann í bak og fyrir. Menn myndu sjá eftir því hvað þeir voru leiðinlegir við Harry Joe Silverman. Ójá.

En þá bankaði ungfrú Vivian Eastwood sem í þessari sögu verður hið svokallaða femme fatalle sem allar spennusögur þurfa.

"Kom'inn," kallaði Harry en nennti ekki að standa upp. Alltaf var verið að trufla hann. Dagdraumarnir um bílslysið voru ljúfsárir og hann var allur að koma til.

"Hæ, ert þú Harry Silverman?" spurði Vivian. Hún leit nákvæmlega út eins og Siv Friðleifs.

"Já," sagði Harry og stakk myndinni af Steve í neðstu skúffuna – hann vildi forðast misskilning. Hann var strax búinn að gleyma öllum sínum vandræðum. Ef til vill yrði hann bara heppinn í kvöld en hann var nýbúinn að skipta um lak á bekknum á skrifstofunni.

“Viltu hressingu?” spurði Harry og færði Vivian vískíið sem hann hafði ætlað Steve.

“Ekki veitir af,” sagði Vivian og fór úr pelsinum. Hún settist niður andspænis Harry og sagði umsvifalaust: “Ég tel mig vita hver samdi Funky starcase.”

“Þú lætur ekki bíða eftir þér,” sagði Harry svalur enda ýmsu vanur í þessum bransa. Hann trúði þessu varlega og eina leiðin til að komast að hinu sanna var að ná henni á bekkinn. “Konur segja aldrei sannleikann nema eftir hálfa flösku af vískíi og kynmök,” hugsaði hann upphátt. Agalegur klaufi gat hann Harry verið.

Framhald í næstu viku.

Kv.

JK.

09 nóvember, 2004

Hægan, hægan

Sé að Trýtilbuxi fagnar því í kommentakerfinu að DMB sé á matseðlinum hjá mér þessa dagana. Vil biðja hann um að hafa sig hægan því þótt diskurinn sé á repít í vinnunni finnst mér þetta enn sánda líkt og Forrest Gump með plötusamning svo ég steli skemmtilegri samlíkingu frá einhverjum besservisser sem kallar sig TX á Amazon.

Svo er þetta óttaleg lagleysa á köflum en þetta kemur ef til vill úr hörðustu átt þar sem Rush, ókrýndir konungar lagleysu, hafa verið í uppáhaldi hjá Knútnum í fimmtán ár.
Kv.

JK.

08 nóvember, 2004

Agalegt

Ég heyrði lag í útvarpinu í gær og hugsaði með sjálfum mér: "Vá, djöfull er þetta flott grúv." Beið spenntur eftir því að lagið yrði kynnt og þá kom kjaftshöggið: "Já, þetta var Dave Matthews band og..." Ég heyrði ekki meira enda er ég yfirlýstur DMB-hatari. Alltaf fundist þeir spila klunnalegt iðnaðarrokk í anda Journey og Foreigner dulbúið sem einhvers konar djassrokk vs. Hootie and the blowfish. Gubb.

Þetta kom mér í mikið uppnám en til að ná botninum keypti ég disk með þeim í dag. Ó, mig auman!

Kv.

JK.

06 nóvember, 2004

Arafat og bara eitt og annað

Ég á kunningja sem heitir Heimir. Hann nær því samt varla heldur er hann góður vinur vinar míns. Þegar vinur minn gifti sig hitti ég Heimi í steggjapartíinu nokkrum dögum áður. Um þetta leyti var ég að vinna sem blaðamaður á helgarblaði DV og hann hafði komist á snoðir um atvinnu mína. Áður en ég segi ykkur meira um samskipti okkar Heimis langar mig aðeins til að útskýra hvers vegna ég nota orðalagið "að komast á snoðir um..."

Þegar ég var að byrja í þessum bransa fór ég ekki hátt um atvinnu mína þannig að þegar einhver spurði mig hvað ég gerði reyndi ég að skipta um umræðuefni. Þið kunnið að halda að þetta sé einhver feimni en svo er ekki. Það er bara þannig með suma að þeir umbreytast þegar maður segir þeim að maður starfi við blaðamennsku. Að "umbreytast" er kannski ekki rétta orðið en í augnablikinu dettur mér ekkert betra í hug.

"Nú ertu BLAÐAMAÐUR?" spyrja þeir og vilja að ég hafi hinar ýmsu skoðanir á mönnum og málefnum. Ef maður nennir ekki að ræða um pólitík breytist spurningin að ofan lítillega og verður:

"Nú ertu EKKI blaðamaður?"

Blaðamennska er fjarri því að vera eina starfsgreinin sem kallar á svona skilyrt viðbrögð hjá fólki. Í fyrra vann ég með Flosa nokkrum Eiríkssyni í kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Flosi er húsasmiður og afskaplega gáfaður maður. Ég spurði hann einhvern tímann hvort hann hefði aldrei íhugað að fara í háskóla. Hann þjáist ekki af minnimáttarkennd og móðgaðist ekki við spurninguna en ég man reyndar ekki hvort hann svaraði henni - held ekki. Flosi sagði mér aftur á móti frá tilraun sem hann gerði á fólki þegar hann fór út að skemmta sér.

Flosi er þekktur maður en stundum báru fyllibytturnar ekki kennsl á hann og spurðu hvað hann ynni við. Ef hann svaraði: "Ég er smiður" fékk hann undantekningarlaust spurninguna: "Núnú, er ekki mikið að gera?" Ef hann sagði: "Ég er sagnfræðingur" vildi fólk tala um Marshall-aðstoðina, kalda stríðið og fleira í þeim dúr.

En sumsé, ég var að tala um Heimi. Hann hafði heyrt að ég væri blaðamaður og sagðist hafa komið nálægt blaðamennsku sjálfur en hann skrifaði tónlistarkrítik í Moggann. Hann hafði hinsvegar áhuga á viðtalstækni og þess háttar og ég var það fullur af áfengi og sjálfum mér að ég fór að útlista hinar ýmsu leiðir til að "opna fólk" og umfram allt neimdroppaði ég eins oft og ég mögulega gat. Ég reyndi sumsé að koma öllu því fræga fólki sem ég hafði talað við á mínum stutta ferli á framfæri í leiðinni. Heimir kinkaði kolli með reglulegu millibili og sagði "einmitt" en greip svo orðið:

"Já, þetta er merkilegt. Ég hef reyndar tekið eitt viðtal."

"Núnú, hver var það?" spurði ég sjálfumglaður. Átti nú ekki von á því að hann hefði rætt við menn eins og Megas, Bó Hall og prinsessu frá Íran.

"Yasser Arafat."

Ég sagði ekki meira um viðtalstækni þetta kvöldið og við byrjuðum að tala um veðrið enda var sumarið í Reykjavík árið 2002 óvenju hlýtt.

Kv.

JK.

04 nóvember, 2004

Hið sanna um Funky starcase

Af því að ég er svo vel uppalinn eða bara svo agalega vitlaust þá ákvað ég að komast að hinu sanna í stóra Funky starcase-málinu. Kunni ekki við að fá greitt fyrir eitthvað sem ég ber ekki ábyrgð á og svo getur líka verið að lagið sé óbærilega leiðinlegt. Með því að slá titlinum inn í Google komst ég að því að hljómsveitin Mezzoforte á lag sem heitir Funky STAIRCASE.

"Aha," sagði ég við sjálfan mig og hallaði mér aftur í stólnum mínum. Mér leið eins og slísi prívat dikk úr sögu eftir Dashiell Hammet. Allt í einu tók einkaspæjarinn Harry Joe Silverman við málinu og skjólstæðingur hans var sumsé Jón nokkur Ásmundsson, landsbyggðarvargur með fullt rassgat af peningum. Arfur.

Eftirfarandi er frásögn af því hvernig Harry Joe Silverman tókst að leysa ráðgátuna um lagið Funky starcase sem Jóni Ásmundssyni hafði verið eignað. Jón kannaðist ekki við lagið en samt var hann að fá peninga frá Sviss fyrir að hafa samið það. Gat verið að það væri ekki allt með felldu? Gat verið að Jón væri ekki Jón? Og ef Jón er ekki Jón hver er þá Jón? Þessum spurningum átti Harry að svara.

Here we go:

Það var bankað á hurðina og taktföst höggin minntu Harry á samfarahljóðin í fólkinu sem bjó fyrir ofan hann á hótelinu vestur í bæ. Vegna þeirra hafði Harry oftast búið um sig á skrifstofunni og stundum bjó hann í risastórri ferðatösku sem mamma hans hafði gefið honum í jólagjöf. Hann greip pistóluna sína en hann átti alltaf von á heimsóknum frá drullusokkum í þessum bransa svo ekki sé minnst á afbrýðisama eiginmenn.

"Hver fer þar?" spurði Harry og hlóð byssuna.

"Það er bara ég," svaraði mjóróma rödd.

Eigandi hennar var Stacy, ritarinn. "Ég ætlaði bara að bjóða þér kaffi og bananatertu," sagði hún sakleysislega. Hann vissi sem var að þetta var bara afsökun. Hún var hrifinn af Harry enda myndarlegur maður hann Harry Joe Silverman - karlmennskan uppmáluð. Þetta var í tólfta skiptið þennan morgun sem hún bauð Harry kaffi og bananatertu og klukkan var hálf níu að morgni. Harry hafði þegið boðið í fyrstu átta skiptin en nú var honum orðið illt í maganum. Hún var farin að minna Harry á sígarettustubbinn inn á klósetti. Hann hafði reynt að sturta honum niður í sex vikur en stubburinn kom alltaf aftur. Löngu síðar komst Harry að því að Stacy var með Alzheimer.

"Ekki trufla mig, ljúfan - ég er að vinna," sagði Harry yfirvegaður en var í raun pirraður. Hann var kominn á fremsta hlunn með að leysa ráðgátuna. Hann klappaði henni létt á bossann sem var þrýstinn, afar þrýstinn og sagði: "Færðu mér bara tvöfaldan vískí og svo máttu eiga frí í dag, ljúfan." Stacy vildi ekki eiga frí en hún hlýddi skipunum. Þess vegna kunni Harry vel við hana. Hann vildi hafa undirgefna ritara í vinnu hjá sér. Og giftar. Harry fannst gaman að eiga við giftar konur. Það kitlaði egóið.

Þegar Stacy var farin gat hann aftur einbeitt sér. Hann hallaði sér aftur, setti lappir upp á borð og lét hugann reika. Hann kveikti sér í sígarettu úr nýopnuðum pakka. Harry reykti Winston.

"Í Mezzoforte leikur á bassa maður að nafni Jóhann Ásmundsson. Getur verið að Jóni og Jóa sé ruglað saman?" spurði Harry upphátt en það var enginn til að svara honum. Hann hafði mynd af Steven Guttenberg á skrifborðinu sínu en Steve, eins og Harry kallaði hann, var hetjan hans. Harry hafði á sínum tíma hrifist af tilbrigðaríkum leik Guttenbergs í fyrstu þremur myndunum um Lögregluskólann. Síðan þá leitaði hann reglulega ráða hjá þessum kynngimagnaða leikara.

"Hvað finnst þér, Steve?" spurði Harry og svaraði sjálfum sér eftir fáein augnablik: "Já, ég er sammála þér. Þetta er of einfalt." Hann var nýbúinn að lesa grein um geimverur í New scientist og var enn undir miklum áhrifum hennar.

"Getur verið að geimverur séu með þessu lagi að senda boð til annarra geimvera sem búsettar hafa verið á Íslandi í mörg ár? Með því að eigna Jóni lagið eru þær að hylja slóð sína! Er innrás yfirvofandi?" sagði Harry upphátt og fékk hroll við tilhugsunina. Hann þoldi ekki geimverur.

Harry hafði alla tíð treyst á eðlisávísunina og eitthvað sagði honum að geimverur væru tengdar málinu. Hann drap í sígarettunni, setti á sig hattinn og fór í frakkann. Hann átti stefnumót við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann varð að láta ráðherrann vita strax. Örlög Íslendinga voru í húfi.

(framhald í næstu viku)

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker