Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 október, 2006

Fighting the machines...

- nokkur orð í aðdraganda kosninga.

Einu sinni var ég að vinna fyrir Samfylkinguna í húsi sem nefnt var þá "Top shop húsið" niður við Lækjargötu. Pásurnar tók ég í bakgarðinum sem er eitt best geymda leyndarmál Reykjavíkurborgar. Hann virðist vera týndur eða að minnsta kosti án hlutverks sem er synd því þarna er skemmtilegur skúlptur eftir Magnús Tómasson og góðir bekkir til að tæma úr einum kaffibolla eða svo.

...

Þarna var líka hægt að horfa inní bakherbergi kosningamiðstöðvar Sjálfstæðisflokksins í McDonaldshúsinu (ég nota þetta orð viljandi til að móðga Reykvíkinga sem lesa þessa síðu). Róbótarnir sem unnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn voru ljóshærðir í bláum drögtum/jakkafötum. Þeir sleiktu frímerki og blésu í blöðrur af taktfastri eljusemi. Þeir minntu mig á meðlimi Kraftwerk.

Eitt sinn, þegar ég var að virða þá fyrir mér í gegnum gluggann, tók ég eftir spegilmynd minni. Ég var illa rakaður í Hawaii-skyrtu, eins og Brian Wilson á niðurtúrnum í upphafi áttunda áratugarins. Kontrastarnir voru augljósir og ég hugsaði að sennilega myndi Samfylkingin ekki fá þessi fjörutíu prósent sem nýjasta skoðanakönnun Fréttablaðsins spáði.

Ég settist niður við skúlptúrinn hans Magnúsar, andvarpaði og fékk mér sopa af kaffinu sem var nýbúið að ná notalegu hitastigi en hrökk í kút þegar einhver æpti:

"Góðan daginn! Eru menn ekki að vinna!?" Þetta var Stefán Jón Hafstein, fjölmiðlamaður, sem mig minnir að hafi verið í framboði.

"Ha, já..." sagði ég en svelgdist svo illilega á kaffinu að ég byrjaði að hósta eins og aumingi með hor í nös. Mér tókst að stynja uppúr mér: "Ég þurfti bara að komast út til að hugsa..."

"Hugsa!" æpti Stefán Jón og hló valdsmannslegum hrossahlátri en hann hafði víst aldrei heyrt aðra eins firru er mér sagt. Svo hvarf hann inní Top Shop húsið. Hlæjandi.

Ég sannfærðist endanlega um að stríðið við Sjálfstæðisflokkinn væri tapað. Ég hafði misst lystina á kaffinu og tæmdi úr bollanum á bekk sem róbótar Sjálfstæðisflokksins notuðu í þessum örpásum sem þeir tóku tvisvar á dag. Ég fylgdist stundum með þeim í þessum pásum. Þeir töluðu aldrei saman. Kláruðu bara úr bollunum sínum í tíu jafnstórum sopum. Líkt og þeir væru að medikera sig fyrir næstu átök. Eða öllu heldur að smyrja sig.

Hvað um það. Hryðjuverk eru viðbrögð örvæntingarinnar eins og þið vitið.

Ég fetaði í humátt á eftir Stefáni. Niðurlútur.

...

Ég settist við skrifborðið mitt, kveikti á tölvunni minni og andvarpaði í sífellu.

"Hvað er að þér, Jón minn?" spurði Flosi Eiríks, minn helsti samstarfsmaður. Hann sat á móti mér.

Ég sagði honum frá því sem gerst hafði fyrir utan hús þ.e. frá þeim hluta sem sneri að róbótum Sjálfstæðisflokksins því ég var bara rétt í þessu að muna eftir senunni með Stefáni.

"Hafðu ekki áhyggjur af þessu, Jón minn, " sagði hann hughreystandi. "Við erum bara meira hjúman. Annars skulum við fara drífa okkur í pásu. Klukkan er langt gengin í fjögur."

Við gengum af taktfastri eljusemi uppá Ölstöfu og hittum þar fyrir Helga Hjörvar sem hafði mætt um þrjúleytið. Þó hann biði einn eftir okkur lét hann sér ekki leiðast og fór með gamanmál fyrir barþernuna.

30 október, 2006

Surfin’ USA

- sjálfsævisögulegur skáldskapur um ferðalag og ef til vill ást.

Íslendingurinn ég og Englendingurinn Sas ókum frá Memphis til Kaliforníu á sex dögum. Við byrjuðum í Tennessee og svo héldum við í vestur og ókum þvert yfir Arkansas, Oklahoma, pönnuskaft Texas, Nýju Mexíkó og Arizona. Í Arizona tókum við beygju til hægri til Nevada. Eitt fylki á dag og ég man óskaplega lítið eftir þessum fyrsta hluta ferðalagsins. Bara svipmyndir og ég veit ekki hvort þessar myndir sem ég hef í höfðinu eru úr ferðalaginu eða úr kvikmyndum. Eins og ferðalagið sjálft eru minningarnar sundurtættar og sundurlausar. Ef það er eitthvað samhengi í þessum texta er það alfarið eftirhyggju bloggarans að þakka. Ef ekki þá er þessi texti bara nákvæm lýsing á ferðalaginu.

Og byrjum þá bara einhvers staðar...

Í Las Vegas voru um fjörutíu og átta gráður í lok júní í fyrra og í svona hita finnst manni maður vera fórnarlamb einhvers samsæris. Þetta skrifaði ég t.d. í dagbókina mína við sundlaugarbakka á Sahara hótelinu/spilavítinu sem er frægt fyrir að hýsa Presley, Monroe og Kennedy á sjötta áratugnum. Núna býður það bara ódýrasta dílinn.

Skriftin er illlæsileg:

“Þetta er úthugsað hjá þeim sko. Maður gengur eftir “The Strip”, sem er svona Egilsbraut/Hafnarbraut þeirra í Las Vegas, og venjulegur túristi meikar að vera úti í svona um það bil tvær til þrjár mínútur og þá kemur hann sér inní næsta loftkælda spilavíti. Þar tekur á móti honum spilakassaorkestra sem ærir allt venjulegt fólk en hljómar eins og Mozart í eyru spilafíkilsins. Við förum síðan öll á hausinn einhvern veginn, einhvern tímann.”

(Síðustu setninguna get ég með engu móti útskýrt. Hitinn kannski?)

Á minnisblaðinu er tómatsósublettur. Hann sullaðist af pylsu sem risavaxinn svertingi seldi mér í hótellobbíinu. “One hot dog for the ladies man,” sagði hann ruddalegur og horfði síðan á kærustuna mína sem var í bláu bíkíni. Ég tók skjálfhentur við pylsunni og skjálftinn fór ekki fyrr en ég hafði drukkið tvo ískalda bjóra við sundlaugina. Þá skildi ég af hverju hann var fúll. Ég gleymdi að gefa honum þjórfé en útá það gengur þessi bær. Daginn eftir fór ég í klippingu og borgaði fjörutíu dollara fyrir hana. Sjálf klippingin kostaði fimmtán dollara. Hárgreiðslukonan, sem var af grískum ættum, kvaddi mig innilega og kyssti mig í bak og fyrir.

Ég fór í vont skap og drakk mig fullan á hótelbarnum á klukkutíma og fór svo upp á herbergi. “Þeir eru svo kammó hérna í Vegas,” sagði ég við Sas og hoppaði uppí vatnsrúmið. “Ó, hvað þetta er smekklegt lak,” sagði ég svo en það var tígrismynstrað og eins og flauel viðkomu. Fremur hóruhúsalegt ímynda ég mér. Ég lyktaði af bjór. Ímynda ég mér.

“Mér leiðist þessi endalausa kaldhæðni í þér,” sagði Sas. Við höfðum verið saman í bíl í fimm daga streit.

...

Las Vegas er, og þetta hef ég sagt við alla sem hafa spurt mig um borgina, helvíti á jörðu. Borgin er byggð á gjaldþrotum heimskra, hvítra karlmanna og meira að segja íbúarnir sjálfir, sem samkvæmt skilgreiningu ætti að þykja vænt um bæinn sinn, segja að fyrr eða síðar hirði Las Vegas af þér það sem hún gaf þér og meira til. Svona söng meira að segja kántrísöngvarinn Gram Parsons um eftirlætis bæinn sinn:

This old town is filled with sin,
It'll swallow you in
If you've got some money to burn.
Take it home right away...

Hann óverdósaði á Joshua Tree mótelinu skammt frá Vegas árið 1973. Lokahnykkurinn á góðu fylleríi skilst mér.

...

Ég var feginn þegar ég ók yfir borgarmörkin en vonbriðgðin létu ekki á sér standa því við tók endalaus akstur í eyðimörk. Ég man ekkert eftir þessum akstri. Ég man bara að stundum var eyðimörkin gul eins og eyðimerkur eiga að vera en stundum var hún rauð. Gæti hafa verið hitinn að rugla í mér.

Eftir fjögurra tíma akstur ókum við framhjá litlu skilti sem á stóð: “California-Welcome”.

“Við erum að aka yfir landamærin til Kaliforníu og þau eru merkt með litlu tréskilti! Þetta er eins og í vestra!” sagði Sas en líkingar sóttar í kvikmyndir voru oft notaðaðar til að lýsa stöðum og fólki sem urðu á vegi okkar. Við ókum í klukkutíma án þess að mæta bíl. “Þetta gæti ekki einu sinni gerst á Melrakkasléttu,” sagði ég áhyggjufullur.

En skýringin kom stuttu síðar því allt í einu horfðum við niður í dal sem var bæði óvinsamlegur og fjandsamlegur. Þetta var leiðin til Kaliforníu í gegnum Death Valley - Dauðadal. “Heitasti staður á jarðríki” stóð í Lonely Planet þó mig gruni að það sé bara túristakjaftæði. Mér fannst allavega Vegas verri. Allavega ekki skárri.

Við sáum enga bíla og þögnin var algjör. Ég leit á hitamælinn á mælaborðinu en það þurfti auðvitað engan hitamæli til að segja mér að það var heitt eins og í helvíti. Mér varð hugsað til kistulagningar ömmu minnar ellefu árum fyrr. Ég mundi að í kapellunni var notalega svalt en auðvitað langaði mig ekki aftur í tímann þó ég hafi hugsað það.

Við ókum inní eyðimörkina aftur og tókum stefnuna lengra norður og komum inní Kaliforníu hjá Yosemite-þjóðgarðinum. Þar var snjór enn í fjöllum. Í millitíðinni var ég böstaður fyrir of hraðan akstur.

...

Eins klisjukennt og það hljómar skilur maður betur raunsæisbókmenntir Steinbecks þegar maður kemur til Kaliforníu. Þetta er eflaust vilji til ákveðinnar minningar en mér fannst eins og allt yrði betra þegar ég kom til “gullna fylkisins”. Allt í einu sá ég alminilega grænan gróður, allt í einu sá ég ávexti hangandi á trjám, allt í einu varð kaffið sterkara, allt í einu var bragð af matnum, allt í einu varð fólkið vinsamlegra og fallegra.

Og allt í einu lifnaði yfir okkur Sas en mórallinn í bílnum fór hratt versnandi eftir böstið. Helvítis svínið sagði mér að “fokkast” út úr bílnum og las yfir mér í korter á meðan hann strauk kylfuna eins og hann væri að íhuga hvort eitt gott högg á nefið myndi kenna mér að virða lög og reglur Bandaríkjanna. Kannski ætlaði að hann gera eitthvað annað með kylfunni. Kannski ekki.

En hvað um það. Þegar hann skilaði mér aftur til kærustunnar var hann allavega búinn að gelda mig og í nokkra klukkutíma gat ég einungis hugsað um grein sem ég las í héraðsfréttablaði á einhverri vegasjoppu í Texas um mann sem var settur í grjótið fyrir kjúklingastuld. Frasinn “Three strikes and you are out” bergmálaði í höfðinu á mér. Skyldi ég vera kominn á einhverja skrá hjá þessum helvítis fasistum?

Ég lét Sas heyra það og sagði henni það margoft að hún væri vonlaus aðstoðarbílstjóri.

...

En Kalifornía kom til bjargar eins og góður Beach Boys standard...

Því miður man ég ekki hvað bærinn hét sem við dvöldum í. En þetta var svona lítill, friðsæll bær þar sem allir eru hraustir, brúnir, stæltir, lífrænir og liberal. Ég ímyndaði mér að í þessum bæ myndu allir prófa alla skapaða hluti að minnsta kosti einu sinni. Hippinn, sem í mér blundar, naut sín vel þarna og ég drakk bjór og las greatest hits með Nabokov megnið af deginum. Seinni partinn dró Sas mig í langa göngutúra og á kvöldin borðuðum við lífræna grænmetisborgara. Hægt og bítandi urðu ferðalangarnir vinir aftur.

Síðasta kvöldið sátum við á bar og drukkum lífrænan bjór með félagslega meðvituðum bandarískum hjónum sem kynntust á tónleikum með Paul Simon í L.A. árið 1986. Einhvern veginn þróuðust samræðurnar þannig að ég fann mig knúinn til að útskýra fyrir þeim hvernig veiðar á hval væru hluti af íslenskum menningararfi. Neo-hippahjónin kinkuðu kolli skilningsrík. Ekki af því að þau voru sammála. Þau voru bara svo múltikúltúral, svo hip, svo víðsýn. Og örugglega svo skökk. Þau voru einhvern veginn þannig fannst mér.

Þegar við gengum heim í stjörnubjörtu myrkrinu sagði ég við Sas: “Hingað komum við aftur. Það er ákveðið.”

Hún sagði ekkert en kór skordýra sá til þess að þögnin yrði ekki vandræðaleg. Mér fannst eins og krybburnar væru inní hausnum á mér.

“Nei,” sagði hún loks. “Lífið er of stutt og heimurinn of stór til að heimsækja sama bæinn tvisvar.”

Ég sagði ekki neitt.

“Finnst þér ég ekki vera skáldleg?” sagði hún eftir nokkur andartök og brosti.

“Úff, ég hélt að þér hefði verið alvara,” sagði ég og meinti það sem ég sagði.

Daginn eftir ókum við vestur í átt að Kyrrahafsströndinni.

27 október, 2006

Bloggfrí

Kæru vinir,

Eins og hefur verið bent á er ég þessi týpa sem finn mér alltaf eitthvað annað að gera en það sem ég á að vera gera. Ég hef bloggað mikið undanfarið vegna þess að ég á að vera skrifa doktorsritgerð. Nú er mál að linni. Ég bara verð að feisa veruleikann og þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er erfitt fyrir póstmódernista eins og mig að lúffa fyrir veruleikanum.

En bloggfríið verður ekki langt. Í mesta lagi fram yfir helgi. Hafið það gott á meðan.

...

Er að hlusta á sándtrakkið úr Lost in translation. Guð hvað ég fíla My Bloody Valentine! Af hverju gat ég ekki verið trommarinn í þessu bandi? Alveg passlega frumstæður til þess.

...

Góð grein um Mýrina eftir umbann.

...

Aimee Mann er búin að gefa út jólaplötu. Á þessu átti maður ekki von. En svoleiðis er það nú oft þegar góðir tónlistarmenn eru annars vegar.

26 október, 2006

Drullusokkurinn

Þetta gerðist síðasta sumar. Ég lá á grasblettinum fyrir ofan Bónus á Egilsstöðum í glampandi sólskini. Þetta var einn af þessum sjaldgæfu dögum þegar maður er sáttur við Guð og menn. Hlýt að hafa verið skotinn í stelpu eða eitthvað því ég man hvað mér fannst grasið grænt og himininn ofboðslega blár og skýin...og skýin maður! Þau voru nú something else...

Niðrá Bónusplaninu sá ég mann. Hann nálgaðist mig. Hann var svona meðalmaður á hæð og þyngd, með kolsvart hár og lítið yfirvaraskegg undir risavöxnu nefi. Um fertugt býst ég við. Aðeins rúmlega það kannski. Hann bar tvo poka, var í hvítum stuttbuxum og í gulum Lacoste-bol. Hann var berfættur í sandölunum. Eftir um það bil fimmtán sekúndur myndi hann bera kennsl á mig.

Eins og lýsingin gefur til kynna var þetta útlendingur. Íslendingar eru aldrei berfættir í sandölum. Íslendingar eru í sokkum. Þessi maður hafði fundið starf á Íslandi í gegnum internetið en hann var frá Bandaríkjunum, nánar til tekið frá New York. Hann sagðist vera doktor í heimsspeki frá háskólanum í Nashville en ég vissi aldrei hvort það var satt. Það skiptir engu máli núna.

Það sem skiptir máli núna er að hann var gyðingur. Og hann var að eigin mati ofsóttur gyðingur frá New York. Hann var “street smart” og “tough talking” intellektúal sem yfirgaf Bandaríkin af því að stjórnmálaástandið í landinu var óþolandi og hann óttaðist um líf sitt. "The winds are weird in the west now," sagði hann við mig og útskýrði í tíunda skipti hvernig hann hrökklaðist úr einhverri prófessorsstöðu í Iowa vegna pólitískra skoðana sinna. Svona frasar voru hans einkennismerki. Hann var konungur "one liner-anna" og hann gat verið, það verður að viðurkennast, soldið fyndinn.

En fyrst og fremst var hann óþolandi. Einu sinni sátum við á kaffihúsi og ræddum um kenningar Karl Marx sem honum fannst vera úreltar. Sagðist vera hrifnari af Weber. Ég sagði:

"Well, maybe some of the things Marx said are not valid today but the purpose of his perspective is..."

Þá greip hann frammí fyrir mér, ofboðslega umdeildur að venju:

"I don't believe in purpose."

Og sló þar með öll vopn úr hendi minni! Þessi drullusokkur!

Ég efast ekki um það eitt augnablik að hann naut sín í hlutverki hins ofsótta manns. Eðlilega hefði ég aldrei getað fengið hann til að viðurkenna það en eins og þið vitið þá verður ekki bara hvaða slúbert sem er fyrir pólitískum ofsóknum. Það eru mikilvægir menn sem verða fyrir slíku og William, eins og ég kýs að kalla hann núna, leit á sig sem mikilvægan mann. Ég hugsa að hann hafi jafnframt álitið sig vera "stórhættulegan" og jafnvel "þjóðhættulegan". Sennilega hélt hann að það væri bara tímaspursmál hvenær íslensk stjórnvöld ræku sig úr landi.

Nú. Hvernig þekkti ég þennan William, spyrjið þið. Það er fremur stutt saga en samt of löng og flókin til að rekja hér. Í sem skemmstu máli áttum við báðir enskar kærustur á sama tíma í fyrra. Og í fámenninu hér á Egilsstöðum urðu náttúrulega ensku kærusturnar vinkonur. Þetta þýddi að ég fór stundum út að borða með William og við urðum svona kunningjar í máttlausustu merkingu þess orðs.

En allavega svo miklir kunningjar að hann tók stefnuna rakleitt til mín þegar hann sá mig liggjandi í grasinu. Þegar William var kominn upp að mér lagði hann frá sér pokana og gaf þannig til kynna að hann langaði til að spjalla.

"Hello Jón! Long time no see!" sagði hann, glaðlegur en þreytulegur.

"Hello William. I thought you had left by now," sagði ég, svona bærilega glaðlegur þó ég væri það náttúrlega ekki. En ég er enginn dóni eins og þið vitið.

"No, but they are cutting down my salaries so I don't know if I'll stay here next winter. I love the people and the nature but I've gotta earn money you know."

"Yes, yes I know."

"So, how is, what's her name, Clarissa (mín fyrrverandi)?"

"We broke up last January. She went to Arabia."

"I hate it when that happens!" Við hlógum. Ég sagði ykkur að hann gæti verið fyndinn með þessa “one line-era” sína.

"Where is Julia?" spurði ég en vissi fullvel að Julia yfirgaf hann um vorið. Hún sagðist, var mér sagt, ætla að skreppa til Englands í tvær vikur og hitta foreldra sína en kom aldrei aftur. Fór þess í stað til Belgíu að læra á píanó. William var víst miður sín og byrjaði, að eigin sögn, að drekka ótæpilega. Og hann íhugaði innlögn á Vog. Var mér allavega sagt.

"Oh man! My dear Julia. I haven't been thinking about her lately actually."

Ég dauðsá eftir að hafa spurt því nú fengi ég löngu, löngu, löngu versjónina af sambandslitunum, drykkjunni í kjölfarið og hugsanlega var hann kominn svo langt í sorgarferlinu að ég fengi að heyra um endurreisnina líka.

"Man, she was the best idea in the world and the worst one and let me tell you that...," hélt William áfram en það kom ekki til greina að eyða besta degi sumarsins í að hlusta á eitthvað djöfulsins væl! Ég greip frammí fyrir honum strax. Svona áður en hann kæmist alminilega í gang:

"Listen William or Bill or whatever you call yourself these days. I'd really like to stay here and chat but I really have to go now, right? Vertu blessaður!"

Ég hef ekki hitt hann síðan. Sem er skrýtið. Þetta er jú lítill bær. Hann þarf ekkert að vera hræddur við mig. Ég fyrirgaf honum fyrir löngu.

Bjössi

Ég hef alveg gleymt að minnast á hvað Björn Malmquist er að standa sig vel í fréttunum hjá RÚV. Fyrir þá sem ekki vita er hann kallinn með hvíta hárið sem segir okkur fréttir frá U. S of A óvenju oft í hverri viku. Fréttirnar eru alltaf lifandi og nánast alltaf "on location" en Björn er með metnaðarfyllri fréttamönnum sem ég hef kynnst. Hafi einhver verið of stór fyrir Austurland þá var það hann.

...

Björn las allar fréttir í svæðisútvarpinu eins og um hörmungarfréttir væri að ræða. Ef maður var með kveikt á svæðisfréttum, og hafði tækið það lágt stillt að maður heyrði ekki hvað var verið að segja, hélt maður að Austurland væri að farast, að liðsmenn Al-Kaída hefðu rænt silfurhafanum Vilhjálmi, að til stæði að sprengja ráðhúsið í Fjarðabyggð í loft upp, að Smári Geirs hefði fríkað út og lamið Þorberg Hauks í hausinn með sleggju. "Hvað gengur eiginlega á," umlaði maður og teygði sig í volume takkann og hækkaði. Björn öskraði eins og sært ljón:

"KVENFÉLAGIÐ NANNA Í NESKAUPSTAÐ ÆTLAR AÐ GEFA FJÓRÐUNGSSJÚKRAHÚSINU FJÖGUR EINTÖK AF ÍSLENSK/PÓLSKRI ORÐABÓK EN PÓLVERJUM FJÖLGAR HRATT Í FJARÐABYGGÐ UM ÞESSAR MUNDIR OG..."

Hann var andstuttur og æstur.

...

Ég heyrði alltaf strax hver var mættur þegar hann heimsótti mig á ritstjórnarskrifstofu Austurgluggans. Hann reif upp útidyrahurðina af slíku offorsi að litlu mátti muna að hún rifnaði af, svo sparkaði hann skónum af sér og hljóp (stökk jafnvel) upp stigann inn á skrifstofu til mín. Ég heyrði alltaf fyrir mér brjálæðislega æsilegt fréttastef sem þagnaði um leið og hann æpti: "Eitthvað að frétta!? eða "Björn er mættur!" Gólfið á skrifstofunni minni blautt enda gaf hann sér aldrei tíma til að hrista af sér snjóinn. Þvílíkur fréttahaukur!

...

Það gefur augaleið að það var auðvelt að láta manninn fara í taugarnar á sér. Þannig var það allavega með mig og ég lét hann fara svakalega í taugarnar á mér. Hvernig hann hló (hló þannig að það átti ekki fara framhjá neinum Austfirðingi að honum þætti eitthvað fyndið), hvernig hann "skúbbaði" okkur ("Er ekki erfitt að vinna á vikublaði, Jón? Er ekki erfitt að vera skúbbaður á hverjum degi?") og fleira í þessum dúr. Endalaust að stuða mann.

En Björn er eins og allir góðir menn: Hann vex við viðkynningu. Hjartahreinn og sanngjarn náungi. Dásamlega ómeðvitaður um hvað hann er meðvitaður.

Og hefði ekki verið fyrir hann hefðum við Helgi Seljan og Björgvin Valur ekki haft um neitt að tala í þau þrjú ár sem hann gerði Austurland að the place to be. Eða allavega finnst mér Austurland aldrei vera í fréttum RÚV eftir að hann fór héðan. Jú, stundum í tíufréttum.

25 október, 2006

Næturvaktin

Jæja, er kominn á næturvakt. Ég er enginn nátthrafn og hef aldrei verið. Næturvaktir finnst mér því leiðinlegar en þar sem ég er svo gífurlega ofmenntaður í starfið þá gefa þær þokkalega í aðra hönd. Ég læt mig hafa það. Ég fórna mér fyrir doktorsnafnbótina.

...

Næturvaktir á geðdeildinni voru kvíðavænleg fyrirbæri því manni var aldrei boðinn vakt nema eitthvað skelfilegt væri í aðsigi - einhver lúnatik væntanlegur eða eitthvað svoleiðis. Maður svaf lítið á þessum vöktum og fór heim eins og útspýtt hundskinn. Einu sinni sofnaði ég í strætó á leiðinni í Kópavog. Ég vaknaði uppí Breiðholti og var enn í hvítu sjúkraliðafötunum. Þótt strætóinn væri fullur af fólki virtist múnderingin ekki vekja neina athygli. Fólki virtist finnast það fullkomlega sjálfsagt að hafa starfsmann af geðdeild um borð.

Geðveiki

Er að lesa fræga mannfræðistúdíu eftir bandaríska mannfræðinginn Nancy Scheper-Hughes um geðveiki á Írlandi en tíðni geðklofa var (er?) óvenju há meðan ungra karlmanna í dreifbýli Írlands. Áhugaverð lesning þó mér finnist yfirleitt að orsakapælingar eigi ekki að vera viðfangsefni mannfræðinga. Þeir eiga að lýsa fyrirbærum.

Ekki að þeir geti ekki komið með trúlegar skýringar en styrkur góðs mannfræðings er fólginn í hæfileika hans til að taka eftir smáatriðunum í mannlegum samskiptum og draga frumlegar ályktanir af þeim. Hvað segir þú um þetta, Steinunn?

Annars er ég alltaf að komast betur og betur að því að félagsfræði og mannfræði er sama fræðin þó sjálfsmynd félagsfræðinga og mannfræðinga sé ekki sú sama: Félagsfræðingar vilja vera vísindamenn en mannfræðingar vilja vera skáld og rithöfundar.

Minning um Memphis, sumarið 2005

Ég fann það um leið og ég steig útúr flugvélinni að mér leið vel í Memphis og eftir að hafa lesið lókalblöðin sá ég að þarna var iðkaður túrismi að mínu skapi. Tónlist, tónlist, tónlist! Tónlist er alls staðar í Memphis! Göturnar heita Rufus Thomas Street og Elvis Presley Boulevard og söfnin heita í höfuðið á gömlum tónlistarmekkum; Stax og Sun studio svo maður minnist nú ekki á Graceland, heimili kóngsins. Þvílíkt og annað eins!

En ef þú ferð til Memphis, og þarft að velja á milli Sun eða Graceland, veldu þá Sun. Meiri saga, minni sölumennska.

Og þó. Auðvitað verður þú að heimsækja Graceland. Líkt og Hearst-höllin í Kaliforníu er Graceland dæmi um hvað gerist þegar venjulegur Ameríkani eignast of mikið af peningum. Smekklausara en Arnarnesið segi ég. Og þó.

24 október, 2006

Það er kominn vetur

Ók uppí Hérað áðan. Einhvern veginn var ég þannig þenkjandi að mér fannst Oddsskarðið og Fagridalur vera eins Suðurskautslandið. Það er kominn vetur. Bömmer.

...

Hékk yfir þessari síðu í gærkvöldi: http://www.seashepherd.org/

Merkileg síða en núna finn ég ekki sumt af því sem ég las í gær. Til dæmis var þarna svar við spurningunni af hverju Íslendingar veiða hvali. Íslendingar veiða nefnilega hval af því að hvalir eru fallegri og gáfaðri en íslenska þjóðin. Sem sagt: Plain old minnimáttarkennd.

Þetta vissi ég ekki.

23 október, 2006

Hlaupið

Umbinn hringdi í dag, bláedrú, og bað mig um að skrifa enskan texta inn á heimasíðu Barðsneshlaupsins en auk ýmissa vefrænna verkefna hefur hann umsjón með vef hlaupsins. Mér er auðvitað bæði ljúft og skylt að verða við þessari bón umbans. Þetta er númer þrjú á verkefnalista vikunnar.

...

Það er umbanum að þakka að ég dreif mig í hlaupið í sumar og ég á alveg eftir að koma því að á þessa síðu að ég lauk því. Ég lauk því á þremur klukkutímum og fimmtíu og átta mínútum sem mér er sagt að sé ágætur tími fyrir amatör eins og mig. Geir Sigurpáll, meðhlaupari minn, stal þó senunni: Hann æfði ekki neitt, fór á ball nóttina fyrir hlaup og kom í mark átta mínútum á eftir mér eftir að hafa fengið slæman sinadrátt við Grænanes en þá eru örugglega fjórir eða fimm kílómetrar eftir af hlaupinu. Hann er fokkin nöttkeis í bestu merkingu þess orðs.

...

Í gær tóku Coney Island Babies upp þrjá trommugrunna á þremur klukkutímum. Mikið óskaplega finnst mér gaman að vinna með mönnum sem láta smáatriði ekki fara í taugarnar á sér. "Þetta er bara organískt," segir Geiri þegar ég kvarta undan hraðabreytingu eftir eitthvert breikið og Haffi mælir gæði trommuleiks eftir því hvort hann grúvi eða ekki. Og hvorugum finnst merkilegt að ég sé nokkurn veginn búinn að negla niður sjöffulbítið í Roseanna með Toto. They don't give a shit og ég er bara býsna ánægður með það.

Í gamla daga, þegar ég var einu sinni þátttakandi í gerð plötu, tók það að minnsta kosti þrjá klukkutíma að ná þokkalegu snerilsándi. Síðan tók það allavega þrjá klukkutíma að ná sæmilegu sándi á settið og svo þrjá klukkutíma að ná almennilegu teiki. Með fokkins klikktrakki! Svona vinnubrögð, plús spilamennska á þorrablótum, spiluðu stóran þátt í því að ég lagði frá mér kjuðana í sex ár.

Ég man að þegar við tókum sánd fyrir böll var aðalatriðið að ná sóninum úr sneriltrommunni. Fyrst var reynt að tjúna hann í burtu en svo var bara notast við gamla góða bómullartrikkið og sónninn kæfður. "Þetta er flott," sögðum við svo og tókum okkur pásu. Ótrúlegt hvað maður var fullur af kreddum í gamla daga um hvað væri réttur og góður hljómur.

Coney Island Babies tjúna ekki trommusett og við vinnum eftir þeirri reglu að andrúmsloftið tjúni það og það hljómar eins og það gerir af því að það vill hljóma eins og það gerir akkúrat þá stundina. Við trúum ekki á sjálfstæðan vilja trommusetta en þetta er góð réttlæting fyrir menn sem nenna ekki að ná góðum hljóm (eins og góður hljómur er skilgreindur í kennsluvídjóum) úr trommusettum. Og þetta er auðvitað kredda líka. Það þarf ekki að benda okkur á það. En við erum sáttir við þessa kreddu.

Svona hugsun er almennt prinsipp í bandinu. Ef við kunnum ekki eitthvað (og viljum ekki læra það) þá er það bara þannig. Við gerum allt eins vel og við getum með þeim hæfileikum og þekkingu sem við höfum. Þetta er mjög frelsandi hugmyndafræði. Við bjuggum hana auðvitað ekki til, þetta er bara pönk.

Við tókum upp þrjú gömul lög í gærkvöld, eða lög sem við sömdum árið 2004. Við virðumst hafa verið meiri melódíukallar í gamla daga og ég raulaði sjálfan mig í svefn í nótt.

22 október, 2006

Á göngu

Er enn á Norðfirði. Ætlaði í fjallgöngu í morgun en breytti því í innanbæjargöngu inn að smábátahöfn. Tók tæpa tvö tíma. Með mér í var Sigurður Ólafsson, minn trausti vinur.

Við gengum framhjá gili við Hlíðargötu þar sem ég sá klámblað í fyrsta sinn. Þetta var fyrir tuttugu árum en ég var að hreinsa gilið ásamt tvíburum á svipuðum aldri og ég. Ég man ekki hver rak augun í klámblaðið, sennilega var það bara ég, og þegar ég hugsa útí það var þetta sennilega ekki heilt klámblað, þetta var bara ein síða úr dönsku klámblaði sem hét Rapport. Í stað þess að henda henni í ruslapokann og halda áfram hreinsuninni lögðum við frá okkur pokann og tókum okkur tíma til að yfirfara myndina:

Þetta var ljóshærð stúlka, auðvitað eldgömul fannst okkur, en hún lá allsnakin á rúmi með sleikjó í munninum. Undarleg mynd og við rifum hana. Við rifum hana þ.e.a.s. í þrennt: X fékk miðjuna, Y fékk höfuðið og ég fékk brjóstin. Ég veit ekki með félaga mína en ég átti mína mynd lengi enda þótti ég, og þyki enn, með afbriðgum nægjusamur.

...

Það voru fáir á kreiki í morgun og Siggi sagði það vera vegna þess að samfélagið væri timprað eftir skemmtun í Egilsbúð. En þegar við gengum framhjá manni á áttræðisaldri, sem mér er örlítið í nöp við, hugsaði ég:

Ætti ég að segja: "Sæll vertu góði maður!"

Þá hefði hann sagt: "Sælir ungu menn!"

Þá ætlaði ég að segja óvenju upphátt við Sigga: "Sem minnir mig á það. Hugsar þú stundum um dauðann?"

Sem betur fer hélt ég mér saman. Ég ólst upp við strangan aga.

21 október, 2006

Sennilega um gildi þess að gera ekki neitt

Jón Eyjólfsson var bóndi og harðduglegur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan fimm og byrjaði að gera það sem bændur gera.

En í honum bjó líka skáld sem hann gaf lausan tauminn eins oft og hann gat.

Hann vissi að hann var skáld að eðlisfari en hvort hann var gott skáld var önnur saga. Þessi efi var óþolandi og þegar hann var sem mestur drakk hann sig útúr heiminum og lagðist í þunglyndi. Á meðan hann lá í bælinu sá eiginkonan, hún Rósa Bjarnardóttir, um húsverkin, hver sem þau nú voru. Hún gerði það þegjandi og hljóðalaust enda var Jón að hennar mati snillingur sem einhver átti bara eftir að uppgötva.

Í einu þunglyndiskastinu vann Rósa yfir sig og dó, langt fyrir aldur fram. Það vakti athygli hvað Jón grét ofboðslega mikið og hátt í jarðarförinni og sumir fóru meira að segja hjá sér. "Reyndu nú að hemja þig, drengur," sagði mamma Jóns sem sat við hlið hans á fremsta bekk í kirkjunni.

En það sem fólkið vissi ekki var að Jón var ekki bara að kveðja Rósu heldur líka skáldaferilinn. Jón vissi að framvegis gat enginn gert það sem bændur gera þegar andinn kom yfir hann. Þess vegna grét hann. Vissulega saknaði hann Rósu líka, hvernig hún hló, hvernig hún huggaði o.s.frv.

Jón ákvað að semja eitt ljóð í viðbót og svo ætlaði hann að einbeita sér að búskapnum eingöngu. Hann lá yfir hverjum staf, hverju orði og hverri setningu frá morgni til kvölds í margar vikur og útkoman var hans besta ljóð - ekki bara að hans mati heldur líka þeirra sem þekktu til í ljóðabransanum. Ljóðið var tileinkað Rósu. Svona byrjaði það:

Þar liggur falin í foldu,
fegursta "rósin,"
hjá mér við guðs ástar geisla,
er greri í næði,
horfin er brosfagur bjarmi,
blíðustu sólar,
ást þín og umhyggjan trúa,
árvekni og hógværð.

En á meðan Jón samdi ljóðið dóu börnin hans úr hungri. Sjálfur dó hann svo úr sektarkennd tveimur árum síðar. Hundurinn fór þremur vikum eftir fráfall húsbóndans.

...

Svo líða hundrað og fimmtíu ár. Kennari stendur fyrir framan bekk af nemendum á Egilsstöðum. Hann les úr bók:

Þar liggur falin í foldu,
fegursta "rósin,"

O.s.frv.

Kennarinn leggur bókina frá sér. "Þetta er ekki það sem ég ætlaði að lesa," segir hann og rótar í einhverjum blöðum á kennaraborðinu. "Ekki leggja þetta á minnið, krakkar mínir. Þetta var minniháttarmaður."

20 október, 2006

Á rúntinum og fleira smálegt

Skrapp niður á Norðfjörð en jaðarbandið Coney Island Babies ætlar að hittast í kvöld og búa til heimasíðu. Ég nota orðið "jaðarband" meðvitað en tónleikahaldari nokkur hringdi í mig um daginn og bauð okkur að taka þátt í "jaðartónleikum" á Norðfirði á milli jóla og nýárs. Mér finnst gaman þegar við heimfærum svona glóbal-hugtök yfir á okkar litla lókal-þorpsveruleika. Prófið bara að segja "East coast" í staðinn fyrir "East-fjords". Meira grand er það ekki?

Þetta verður fyrsta giggið okkar í langan, langan tíma. Mig minnir að síðasta giggið okkar hafi verið um sjómannadagshelgina í fyrra og við vorum ekkert sérstaklega góðir - fórum á taugum og sögðum alltof marga brandara á milli laga.Vanmáttarkenndin að drepa okkur. Það er ekkert grín að vera öndergránd í sveitinni. Soldið eins og að vera þorpshomminn býst ég við.

...

Ég sat með Þorgeiri Jónssyni í rútunni í morgun. Þorgeir, eða Toggi eins og Norðfirðingar kalla hann, er besti vinur Halldórs bróður míns. Ég naut góðs af því að vera bróðir Halldórs í gamla daga þegar til stóð að lemja mig í frímínútum og ég man að allavega einu sinni skipaði Toggi stigamönnum að láta mig í friði. "Þetta er bróðir Halldórs, fíflin ykkar," sagði hann en benti síðan á Símon eða Gumma eða einhvern af mínum bestu vinum og sagði: "Þið megið aftur á móti lemja þennan."

Toggi varð frægur á Íslandi þegar hann fann líkið af Vaidasi við netagerðarbryggjuna í ársbyrjun 2004. Í ljósi þess að til stendur að gera leikna heimildarmynd um líkfundarmálið fannst mér viðeigandi að spyrja Togga útí málið og hvort hann hefði einhverja skoðun á því hver ætti að leika hann. Toggi kom af fjöllum. Hann vissi ekkert um þessa leiknu heimildarmynd. "Djöfulsins vitleysingar," sagði hann bara og átti við kvikmyndagerðarmenn svona yfir höfuð.

Þegar við ókum í gegnum Oddsskarðsgöngin spurði ég hann útí slagsmálin í þeim fyrir nokkrum mánuðum. Toggi vissi auðvitað allt um þau en þagði þunnu hljóði enda tengist góðkunningi hans málinu. Ég læki slíkum upplýsingum í fjölmiðla, hugsaði Toggi sennilega.

"Þetta snerist um það að hvorugur vildi víkja er það ekki?" sagði ég og reyndi að opna ísmanninn.

"Jú, eitthvað svoleiðis."

"Og hvorugur þekkti regluna?"

"Einmitt."

"Hver er reglan aftur?"

"Það á alltaf að víkja fyrir Norðfirðingum hvort sem þeir eru að koma eða fara."

18 október, 2006

Bonny

Einu sinni var Prefab Sprout uppáhalds hljómsveitin mín. Fyrir neðan er texti lagsins sem ég hélt mest uppá. Lagið minnir mig einhverra hluta vegna á Jón Hilmar Kárason, bláa úlpu með neonbleikum kraga og hvít gúmmístígvél - einkennisbúningur Jóns á tímabili. Þeir segja að Paddy, aðalsprauta Sprout, sé snillingur og það má vel vera. Í það minnsta er þetta góður texti:

I spend the days with my vanity

I'm lost in heaven and I'm lost to earth
Didn't give you minutes not even moments
All my life in a tower of foil
Shaded feelings, don't believe you
When you were there before my eyes
No one planned it took it for granted

I count the hours since you slipped away
I count the hours that I lie awake
I count the minutes and the seconds too
All I stole and I took from you

But Bonny don't live at home, he don't live at home
Words don't hold you, broken soldiers

I count the hours since you slipped away
I count the hours that I lie awake
I count the minutes and the seconds too
All I stole and I took from you

But Bonny don't live at home, he don't live at home
Words don't hold you, broken soldiers

All my silence and my strained respect
Missed chances and the same regrets
Kiss the thief and you save the rest
All my insights from retrospect

But Bonny's not coming home, he don't live at home
Save your speeches, flowers are for funerals

...

Er að lesa Plötusnúð Rauða hersins eftir einhvern Rússa sem ég ég man ekki hvað heitir í augnablikinu. Góð bók. Mæli með henni.

...

Þá legg ég til að einhver framkvæmdastjóri einhverrar útihátíðar ráði sem skemmtikraft svertingjann sem hermdi eftir hljóðum í tölvuleikjum í Lögregluskólanum eitt. Það er með ólíkindum hvað þetta fólk er fyndið.

...

Þá var gaman að sjá myndirnar af Hval 9 sigla inní Hvalfjörð í gær. Framsýni Íslendinga í atvinnumálum er með ólíkindum þessi misserin.

...

Ég var rétt í þessu að segja við stúlkuna sem ég deili vinnuaðstöðu með að ég hafi "sjálfsmynd rauðhaussins" þó ég geti varla talist alminilega rauðhærður lengur.

"Hvað þýðir það?"spurði hún.

"Það þýðir að maður er ávallt viðbúinn því að vekja athygli."

"Var þér strítt í skóla?"

"Nei, en einn kennarinn spurði mig einu sinni hvernig það væri að vera rauðhærður."

"Af hverju gerði hann það?"

"Ég man það ekki. Þetta var í líffræðitíma og hann var að tala um zebrahesta."

"Bíddu, ég skil ekki tenginguna."

"Ekki ég heldur."

16 október, 2006

Skuggahliðar hnattvæðingar

Þegar ég kem heim að loknum vinnudegi sest ég út á svalir, kveiki mér í vindli, hlusta á róandi mússík, næ mér niður. Í fyrrakvöld horfði ég útí myrkrið og hlustaði á gymnópedíurnar hans Erik Satie. Ég var að hlusta á þær í fyrsta sinn í nokkur ár en Norðmenn eyðilögðu verkið þegar þeir notuðu það í auglýsingu fyrir Knorrsúpur eða sósur. Man það ekki nákvæmlega.

Fáránlega einfalt stefið er sefandi og þess má geta í framhjáhlaupi að þegar ég keypti plötuna þurfti ég raula það fyrir afgreiðslumanninn í klassísku deildinni hjá Japis:

"Kannastu ekki við þetta," sagði ég og raulaði: "Dammdamm, dammdamm, dadadadada..."

"Hmmm..."sagði afgreiðslumaðurinn og hristi hausinn. "Ekki viss. Danni! Komdu hingað!" Danni hélt að þetta væri eitthvað með George Michael en gömul kona sem gekk framhjá okkur fyrir tilviljun bar kennsl á lagið umsvifalaust. Gymnópedíurnar keypti ég svo í flutningi franska píanistans Jacques Loussier. Hann djassar þær upp en mér finnst nú einföld píanóútsetning á verkinu henta því best. Þá er flott útgáfa á annarri plötu Blood, sweat and tears, svona impressíónistísk djassrokk útgáfa. Sagan á bakvið verkið er líka skemmtileg en Satie vildi semja lag sem allir gætu spilað. Það finnst mér soldið flott, soldið pönk.

...

Þar sem ég sat á svölunum, hlustaði á Satie og reykti vindil, hugsaði ég: Hvernig stendur á því að sveitapilturinn ég hef svona fágaðan tónlistarsmekk? Og þvílík sena: Sit hér í nýrri blokk nýbúa á Héraði (hér býr fullt af liði frá útlöndum og ég heilsa því kumpánlega á morgnana) og hlusta á síð-nítjándualdar franskt tónverk. Þvílíkur heimsborgari sem ég er! Ég er svo multikúltúral! Kannski ég ætti að fara í framboð fyrir Samfylkinguna?

...

Ég gerði undantekningu þetta kvöld og reykti tvo vindla - venjulega reyki ég einn og það nægir mér alveg ágætlega. Frekari reykingar eru svik við foreldra mína og sektarkenndin étur mig upp að innan.

Ég drap á þeim fyrri með gömlu aðferðinni, þ.e. ég traðkaði á honum, en sóðaskapurinn fór í taugarnar á mér þannig að ég henti þeim næsta útí myrkrið. Ég fylgdist með honum falla til jarðar og taldi upphátt sekúndurnar sem það tók hann að svífa niður. Þegar hann átti eftir u.þ.b. þrjú fet feykti vindkviða honum í átt að blokkinni. Ég fékk verk í magann: "Guð minn almáttugur! Hvað ef hann hefur fokið inn um glugga! Ég verð að láta fólkið vita! Það búa falleg hjón úr Skriðdalnum á neðstu hæðinni með þrjú börn á leikskólaaldri!"

Ég hljóp fram á gang í dauðans ofboði, fór í skó, klæddi mig í græna hermannajakkann og stökk niður stigann - fjögur þrep í einu. Það kom ekki til greina að taka lyftuna. Hún gæti bilað. Ég var kominn niður þegar ég mundi að ég hafði gleymt að slökkva á kaffivélinni. Ég hljóp því upp aftur (ég bý á fjórðu hæð), slökkti á kaffivélinni og setti í leiðinni smá salt í hafragrautinn sem ég hafði reyndar gleymt að slökkva undir líka.

Ég var kominn hálfa leið niður í annað sinn þegar ég snarstoppaði:

"Hvaðahvaða! Voðalegur æsingur er þetta! Pólsku hjónunum í kjallaranum verður auðvitað kennt um brunann! Það vita allir að þau reykja eins og strompar! Fýlan er útum allt hús!" Ég rölti heim til mín í rólegheitunum - eitt þrep í einu.

"Voðalega get ég nú verið nojaður," sagði ég við sjálfan mig og dró sængina upp að höku. Ég sveif inní draumalandið áreynslulaust. Svona æsingur þreytir mig.

Það þarf vart að taka fram að ég svaf eins og engill í tíu klukkutíma og vaknaði endurnærður. Að vísu fann ég brunalykt og auðvitað gladdi það mig að hún reyndist vera af hafragrautnum. Ég er enginn skíthæll.

11 október, 2006

Ónýtt sunnudagskvöld

Þó ég sé duglegur og samviskusamur að eðlisfari var ég búinn að fá nóg. Eftir sunnudagsvaktina ákvað ég að fara á barinn á Hótel Héraði og drekka mig svona pínuponsulítið fullann og endurheimta pínulítið af sjálfstraustinu.

Barinn er ósköp notalegur en þó laus við allan sjarma. Fáir vita af barnum á Hótel Héraði og það er hans helsti kostur. Á svona vætusömu sunnudagskvöldi er hann uppá sitt besta og minnir mig á Bláa barinn, hinn sáluga, sem var eini alvöru rökkurbarinn í Reykjavík.

Ég valdi mér sæti í sama horninu og venjulega. Þarna sit ég alltaf enda vil ég svona yfirleitt ekki snúa baki í fólk. Ég vil sjá hverjir drekka með mér. Ég veit ekki af hverju. Sennilega er ég paranoid.

Ég hafði barinn út af fyrir mig í tæpan klukkutíma en þá steig inn um dyragættina ljóshærður maður á fimmtugsaldri. Ég hafði séð hann áður. Hann var í síðum dökkbláum frakka, í ljósblárri skyrtu með gult bindi. Mér sýndist hann vera í kakíbuxum og skórnir voru nýpússaðir. Brúnir leðurskór ef ég man rétt. Sennilega úr Dressman. Mér sýndist reyndar allt átfittið vera úr Dressman ef útí það er farið. Allt gott um það að segja.

"Get ég fengið stóran bjór?" sagði maðurinn við barstúlkuna. Röddin var mjúk. "Þú ert ný hér," sagði hann svo og afgreiðslustúlkan, sem átti ekki von á þessu, fipaðist og kom því klunnalega útúr sér að hún væri nýflutt í þorpið. Stúlkan er falleg, falleg eins og módel, og klunnaskapurinn gerði henni ekkert nema gott - afhelgaði hana örlítið. Kannski ég reyni við hana einhvern tímann, hugsaði ég og afklæddi hana, svaf hjá henni, giftist henni og skildi við hana á innan við fimm sekúndum.

"Það er bara svona," sagði ljóshærði maðurinn og fann sér síðan sæti við glugga.

Mér leið betur að hafa þennan mann á barnum. Hann hafði "þægilega nærveru", eins og tíðkast að segja þessa dagana um meinlaust fólk. Hann kom sér fyrir og byrjaði að lesa erlent dagblað. Með vanaföstum hreyfingum húkkaði hann úr vasanum pakka af Cafe Creme vindlum og kveikti sér í einum án þess að taka augun af greininni sem hann var að lesa. Hún fjallaði um ástandið í Norður-Kóreu.

Ég hugsaði: "Maðurinn sem samdi og söng Can't walk away reykir sömu tegund og ég. Ætti ég að segja honum að Hollywood hafi hljómað í útvarpinu þegar ég missti sveindóminn?"

Ég hló með sjálfum mér. Mér leið betur og ákvað að sníkja einn vindil af þessu útbrunna eightiesþunnildi.

Ég gekk til hans og sagði: "Sæll Herbert! Gæti ég nokkuð fengið einn vindil hjá þér?"

"Nei vinur," sagði Herbert. "Ég á ekki nema fimm eftir. Annars hefði þetta ekki verið neitt mál."

04 október, 2006

Enskur brandari

Ókei. Verð aðeins að rjúfa þetta blogghlé. Þið munið eftir enska vini mínum sem sagði að Íslendingar væru ekki fyndnir? Allavega, ég bað hann um að senda mér nýjan enskan brandara og þennan fékk ég í póstinum í morgun:

Q: How do you stop a dog humping your leg?

A: You pick it up and suck its cock.

...

Setti saman mínípöntun á Amazon í morgun. Einhverjar aðferðafræðiskræður en svo pantaði ég nýja breska kvikmynd sem heitir Confetti með leikurum úr Office og Spaced. Sándar alveg skelfilega vel.

02 október, 2006

Draumalandið

Lét loksins verða af því að kaupa Draumalandið hans Andra. "Þetta er merkileg bók," sagði konan í Office 1 þegar ég lagði bókina á afgreiðsluborðið. "Ertu búin að lesa hana?" spurði ég. "Ójá," sagði hún og horfði á mig hálf undrandi. "Hei fífl, auðvitað er ég búin að lesa hana," var hún sennilega að hugsa.

...

Ég las fyrstu hundrað og fimmtíu blaðsíðurnar á tveimur klukkutímum. Ég hef ekki rifið bók í mig af jafn mikilli áfergju síðan ég las Hina feigu skepnu eftir Philip Roth í fyrra. Ég veit ekkert hvort Draumalandið er meistaraverk eða ekki en mikið djöfulli er hún vel skrifuð og mikið djöfulli er þetta klár rithöfundur. Hann jaðrar við að vera of snjall og vittí og maður má passa sig á að nota það ekki gegn honum. Þetta er skyldulesning fyrir alla Íslendinga eins og Vigga Pres segir á forsíðunni.

Mun blogga meira um hana síðar.

...

Umbinn hringdi í mig í fyrrakvöld. Hann var að vísu oggulítið í glasi en hann sagði að lætin undanfarna daga sýndu að alger viðhorfsbreyting hefði átt sér stað í umhverfismálum á undanförnum árum. Það er rétt hjá honum.

Ég vona bara að þessi hópur, og ég vona það svo innilega, verði jafn hávær þegar menn ráðast í risavaxna atvinnuuppbyggingu á SV-horninu með virkjunum og alles. Því ef hann gerir það ekki fær öll þessi umræða á sig annað yfirbragð.

Margir myndu reyndar segja að hún geri það nú þegar. Af hverju nota menn t.d. ekki strætó í höfuðborginni? Ég ferðaðist með strætó í nokkur ár og eina fólkið sem ég ferðaðist með voru námsmenn og eldra fólk, þroskaheftir, drykkjumenn og Grænlendingar! Af hverju? En þetta er nú bara cheap trick hjá mér. Auðvitað nota þeir Ómar, Bubbi og félagar strætó. Þeir eru engir hræsnarar.

...

Ég fékk martröð í nótt. Ég man ekki útá hvað hún gekk en ég man að ég var í sama liði og Birna Þórðar. Skrýtið.

...

Hér verður ekkert bloggað í viku vegna anna.

eXTReMe Tracker