Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

06 febrúar, 2014

Bekk

Beck gerir oftast sniðugar plötur. Svo sniðugar að það er ekki hægt að verða hugfanginn af þeim. Þær eru einfaldlega of hipp og kúl til að svo sé hægt. Undantekningin er Sea Change frá árinu 2002. Svokölluð skilnaðarplata þar sem hann sýndi loksins sinn innri mann. Massívt meistaraverk sem kinnroðalaust má setja á sama stall og Blood on the Tracks með Dylan og Blue með Mitchell. Þetta er ein af mínum uppáhalds plötum. Ein af þessum örfáu sem rata aftur og aftur í spilarann.

Síðan hafa liðið mörg ár og Beck haldið áfram með sitt póstmóderníska nostalgíusjóv sem manni finnst vissulega sniðugt en það er líka þreytandi (þess utan hefur enginn maður með viti áhuga á pómó lengur nema þeir sem eru á móti honum). Þegar Beck gefur út plötu þá verð ég mér útum þær en hlusta sjaldnast til enda. Það er eitthvað við menn sem vilja að maður viti að þeir séu hipp, að þeir séu with it. Eitthvað þreytandi.

(Af sömu ástæðu hef ég aldrei sokkið mjög djúpt oní David Byrne (bækurnar hans hinsvegar frábærar!), David Bowie, Frank Zappa o.fl. sem lenda í PM skúffunni).

Nýtt lag bendir til þess að hann sé í Sea Change-gírnum. Það gleður mig. Það gleður mig mjög.

03 febrúar, 2014

The Zombie Zyndrome

Barnauppeldi. Stærsta og mesta áskorunin til þessa? You bet. Það er ekkert skrýtið að við séum breyskar manneskjur. Það nær enginn tíu á þessu prófi. Uppeldi okkar allra mistókst.

...

Það eru allir foreldrar með sín ráð þegar kemur að uppeldi barna. Það er eðlilegt. Og í sjálfu sér er það fallegt að öll börn þurfi sínar spes remedíur sem einungis foreldrið kann skil á. Það gerir okkur bara meira hjúman að við séum ekki öll afsprengi uppeldishandbóka.

Held ég.

...

Ég, héddna, er sko ekki alveg svona heilagur og vitur klukkan fjögur á nóttinni þegar barnið er búið að vera at it í fimm klukkutíma. Þá líður tíminn hægt og maður hugsar kvíðafullur til morgundagsins: Hversu mikið zombie verð ég? Verð ég súper zombie sem ókunnugir halda að sé framheilaskaðað eða að minnsta kosti statt í miðju heilablóðfalli [Nú heyri ég Fjalar vin minn minna mig á að zombíar séu heilalausir - ég segi honum að ekki sé verið að nota orðið í bókstaflegri merkingu - bæti við að orðið ætti aldrei að nota í bókstaflegri merkingu enda zombíar ekki til í raun og veru - hann andmælir kröftuglega]?

Eða verð ég bara svona meðal zombie sem talar og hugsar óskýrt, segir óviðeigandi brandara, með rauð augu, úfið hár etc.

The zombie zyndrome. Úff. Verra en eyðni? [Rólegur Jón, rólegur...]

...

Besta ráðið fékk ég niðri Krónu (þaðan sem öll góð ráð koma hugsi maður útí það - verst hvað þau eru dýr):

Öll "tímabil" líða hjá. Maður þarf bara að bíða.

Ég notaði strætó þegar ég bjó í Reykjavík. Ræktaði þar heilbrigða þolinmæði. Finnst ekkert mál að bíða.

...

Á meðan ég beið horfði ég á þennan stúdíókonsert - þrisvar í röð. Radiohead að flytja The King of Limbs í hljóðveri.

Hafir þú einhvern tímann ekkert að gera og vilji þannig til að þú hafir sæmilegan áhuga á framsækinni rokktónlist skaltu tékka á þessu. Ég er einn af þessum sem fíla "Kid A-útgáfuna" af Radiohead - þessa tilraunakenndu, þessa óhræddu, þessa skrýtnu. Hér eru þeir í essinu sínu; sköpunarglaðir, hressir og skemmtilegir (eða eins hressir og skemmtilegir og þeir geta orðið).

Take a load off og njóttu.

eXTReMe Tracker