Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

22 febrúar, 2004

Jæja, tölum um eitthvað skemmtilegt. Ég fékk skyndilega þörf til að blogga og er að hugsa um að láta það eftir mér. Annars er þetta bölvaður hugsanaþjófur og í raun ekki skynsamlegt að blogga á hverjum degi. Í hvert sinn sem ég blogga þá gleymi ég einhverju mikilvægu eins og t.d. að vaska upp eða borga reikninga. Talandi um uppvask... nei annars, við skulum sleppa því.

Ástæða þess að ákveð að rjúfa þögnina er atburður sem átti sér stað í gærkvöld. Atburður sem sýnir svart á hvítu hvað maður getur verið óttalega leim ef út í það er farið.

Ég lá í sófanum og las slúðrið í DV. Á meðan kynnti Vélin Fyrst fréttir og eins og venjulega bar líkfundinn í Neskaupstað á góma. Ég er orðinn svo dofinn að ég nennti ekki einu sinni að leggja frá mér blaðið. En svo kynnti Vélin næstu frétt sem gekk út á misþyrmingu norskra hermanna á saklausum ferfætlingum, svokölluðum "hundum". Ég veitti fréttinni enga sérstaka athygli og hélt áfram að lesa um drykkjuvandamál Ben Afflecks en svo varaði Vélin við myndum sem fylgdu fréttinni og hvað haldiði? Auðvitað lagði ykkar maður frá sér bleðilinn og límdist við skjáinn. Gott ef hann sagði ekki: "Vá, þvílíkur viðbjóður!"

Svona er maður nú mikill fíkill í alls kyns viðbjóð og frá og með kvöldinu í gær er ég hættur að kenna fjölmiðlum um þessa ásælni.

Kv.

JK.






eXTReMe Tracker