Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

03 ágúst, 2014

Sunnudagsmorgunn hjá JKÁ

Fyrir rúmri viku byrjaði Iðunn að skríða áfram en hún hafði náð býsna góðum tökum á að skríða aftur á bak. Sú tækni var farin að hefta hana allverulega enda leiddi það oftast til þess að hún lá föst einhvers staðar undir sófa. En nú kemst hún áfram hindrunarlaust, eykur hraða með hverjum degi og forvitnin á sér engin takmörk. Það er fulltime job að fylgjast með henni í rannsóknarleiðangrum en þeir hefjast snemma á morgnana, iðulega um hálf sjö, eða eftir morgunmat. Ég fylgist með henni bæði sem sérlegur eftirlitsmaður en auk þess set ég mig í félagsvísindalegar stellingar og fylgist með þessu ferli sem fyrstu skref smábarna eru.

Í morgun var verið að spila kvikmyndatónlist á Rás 1, fannst eins og þetta hefði verið score-ið úr einhverri ævintýramynd frá Hollywood, Indiana Jones eða eitthvað þvíumlíkt. Mjög viðeigandi og gerði þetta prívat bíó, sem dóttir mín býr til daglega, enn skemmtilegra.

...

Í dag er sunnudagur verslunarmannahelgar og klukkan er nýorðin sjö þegar þetta er skrifað. Úti er blankalogn og sólin skín eins og hún gerir bara fyrir austan. Sjórinn spegilsléttur. Iðunn farin inn að hvíla sig og mamma hennar sefur. Hvers vegna ekki að blogga, hugsaði ég og hér er ég fyrir framan gömlu tölvuna hans pabba sem ég fékk í arf sl. haust. Takkanir stífir enda kallinn búinn að eiga tölvuna í mörg ár. Nægjusamur með eindæmum, hann pabbi minn. Eins og flestir af hans kynslóð.

Eftir þrjú korter vaknar dóttir mín og ég gef henni að borða (að éta langar mig til að skrifa en svoleiðis segir maður ekki). Eftir klukkutíma vettvangskönnun í Sunnugerði skipti ég um bleiu og fagna ógurlega ef hún gerir "stórt". Finnst það svo mikil og merkileg tíðindi að þetta er eitt af því fyrsta (sennilega það fyrsta) sem ég segi Esther þegar hún fer á fætur: "Heyrðu, hún gerði bara stórt!"

Síðan tölum við um þetta og ég segi frá ævintýrum morgunsins. Við þreytumst ekki á að tala um dóttur okkar. Við gætum talað um hana endalaust og munum sennilega gera það þar til annað okkar geispar golunni í vonandi fjarlægri framtíð.

...

Á þessum tíma fyrir tuttugu árum var ég að skríða uppí rúm heima í Víðimýrinni. Búinn að vera fullur frá því einhvern tímann um kaffileyti daginn áður. Ef veður og stemmning leyfði var endað á bryggjunni og síðustu bjórbaukarnir tæmdir. Kassagítar aldrei með í för. Það hjálpar ekkert þegar maður er á bjór númer tuttugu og fimm að hlusta á einhvern böðlast í gegnum "Hjálpaðu mér upp" með Nýdönsk. Þá fyrst líður manni eins og þeim sorry sack of shit sem maður í raun og veru er.

Á bjór númer tuttugu og fimm, klukkan sex á sunnudagsmorgni árið 1994, vildi maður hlusta á ölduna klappa bryggjustólpum bæjarbryggjunnar fiðurlétt. Þannig framkallaðist létt ambíent bít undir morgunandakt Jónatans Livingstone mávs sem sveimaði glaður yfir langdrukknum Norðfirðingum. Aldrei morgunfúll sá.

Ballið löngu búið í Egilsbúð. Ballið bara búið svona almennt.

Við vorum flest um tvítugt en einstaka þorpari var kominn á fertugsaldur. Þá voru menn ekki lengur elegantly wasted. Þá voru menn að glíma við alkóhólisma. Börnin heima áhyggjufull og konan búin að gefa upp vonina. Ekkert rómó við það og enginn vildi tala við svoleiðis menn. Voru bara til ama og leiðinda.

...

Þetta var nú sérdeilis skemmtileg mynd sem ég teiknaði fyrir ykkur á þessum fallega sunnudagsmorgni.

Barnið rumskar. Best að hita grautinn.

01 ágúst, 2014

"Ógleymanlegu" augnablikin

Í gær sá ég hinar óviðjafnanlegu Ritvélar framtíðarinnar, hljómsveit Jónasar Sig, í Egilsbúð í Neskaupstað. Þetta er í annað sinn sem ég sé þetta band á tónleikum og ég held að það sé varla ofsagt að spilaglaðari hljómsveit finnist vart á jarðríki. Þvílíkir gleðigjafar!

Gagnrýnandinn í mér gleymdi sér á tímabili í vangaveltum um hvers konar tónlist þetta væri eiginlega en á endanum gafst ég upp. Þessi tónlist er alveg einstaklega sérviskuleg. Hún minnir mig á allt og ekki neitt. Jónas er eiginlega bara séní if there ever was one og alveg einstaklega mikill Íslendingur if there ever was one. Og tónlistin eftir því.

Mér fannst ég heyra einhverjar The The - tengingar en það var kannski bara vegna þess að síðasta lagið sem ég hlustaði á áður en ég renndi yfir Skarð var þetta:




Soldið Jónasarlegt er það ekki?

Allt er alveg ofboðslega merkingarþrungið hjá Jónasi Sig - rétt eins og hjá Matt Johnson. Hann setur ekki saman eina setningu án þess að meina hana bókstaflega. Engar klisjur. Ekkert sagt bara af því bara. Og það, minn kæri lesandi, er ekki sjálfgefið á þessum síðustu og verstu.

Rúsínan í pylsuendanum var svo flutningur á Ships, lagi eftir Coney Island Babies. Það var eitthvað súrrealískt við að sjá aðra flytja lag sem maður hefur sjálfur tekið þátt í að búa til frá grunni. Mómentið þegar brassveitin gekk á sviðið og blés upp lokakaflann er líklega augnablik sem ég mun aldrei gleyma. Það er alltaf gaman þegar maður upplifir eitthvað sem maður heldur að maður muni aldrei gleyma.

En. Eins og þið vitið, kæru lesendur, þá gleymir maður slíkum augnablikum oftast líka. Þannig er lífið eftir þrítugt.

...

Svo var farið út að borða líka. Kíktum á Hildibrand Hótel. Sumir voru búnir að fara oft en ég var að fara í fyrsta sinn. Ég ætla ekki að fara skrifa veitingahúsarýni enda sjá aðrir um það. Tek undir allt sem Siggi vinur minn segir. 

eXTReMe Tracker