Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 maí, 2005

Jamm...

Nú situr maður bara og bíður eftir próförkunum en þegar yfirlesturinn er búinn í dag lýkur mínum ferli á Austurglugganum - í bili skulum við segja. Vel má vera að ég leysi af í nokkra daga í júlí og ágúst en ég mun vonandi ekki bera ábyrgð á neinu. Og svo getur vel verið að maður vinni aftur á Glugganum í framtíðinni en hvað veit maður svosem um það fyrr en á morgun eins og einhver bloggari sagði.

...

Í gær reyndi ég að berja saman svona kveðjupistil en hætti við það eftir nokkrar árangurslausar tilraunir. Skrifaði heldur um sjómenn og sjómannadaginn og hnýtti aftan við það einhverju rausi um starfslokin. Hvursu dramatískur getur maður eiginlega verið þegar starfstíminn var ekki nema tæp tvö ár?

...

Ég hef aldrei verið á sjó og var reyndar á tímabili með bölvaða minnimáttarkennd út af því en sjómennska er svona ultimate experience úti á landi eins og við vitum - nokkurs konar MA-próf í karlmennsku ef við gefum okkur að BA-prófið gangi útá að grafa skurði. Það þótti til dæmis ekki mjög macho af mér þegar ég þáði vinnu sem gjaldkeri í Landsbankanum í Neskaupstað sumarið 1997. Gagnrýnendur mínir gleymdu því hins vegar að ég tók þessa vinnu vegna þess að ég er svo hrikalega öruggur um mína karlmennsku og ég dreg þá ályktun að gagnrýnendurnir - sem flestir eru enn á lífi í dag - séu allir sem einn gersamlega logandi hýrir.

...

Anyway, ég er farinn í frí en held eitthvað áfram að blogga næstu daga. Það verður ekki oft sem ætti þó ekki að breyta miklu fyrir aðdáendur Knútsins. Þeir hafa jafnan þurft að bíða lengi eftir Orðinu, blessuð greyin.

Kv.

JK.

24 maí, 2005

Allt í hassi

Ég taldi mig finna hasslykt á skemmtistað í borginni á dögunum en slík lykt fyllir mig yfirleitt mildri ógleði. Gamlar minningar komu þó upp á yfirborðið...

Ég kannast við þessa lykt vegna þess að ég hef gert nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að venjast hassi. Þá fyrstu gerði ég hér í Neskaupstað einhvern tímann fyrir tvítugt en hætti því fljótlega. Ekki vegna þess að mér fannst ekki gaman að vera stónd heldur vegna þess að liðið sem maður neyddist til að reykja með var hundleiðinlegt. Þannig brustu menn óvænt í umræður um breytingar á nótaskipinu Beiti NK eftir nokkra smóka sem var engan veginn í takti við þær væntingar sem ég gerði til hassneyslu. Ég vildi - eins og skáldið sagði - push the bounds of reality og gera eitthvað fríkað. Hefði til dæmis vel getað hugsað mér að þessum tilraunum fylgdu möguleikar á grúbbusexi en það voru engar stelpur að reykja í mínum hópi. Eingöngu afdankaðir sjómenn.

Aðra tilraun gerði ég í Háskóla Íslands og sú tilraun mistókst í raun af sömu ástæðu og sú fyrsta. Mér fannst ekki leiðinlegt að vera skakkur en hassfélagi minn var kominn með talsvert meiri reynslu en ég og orðinn allsvakalega nojaður. Hann bannaði manni t.d. að tala eftir nokkra smóka vegna þess að veggirnir á heimavistinni voru "svo þunnir" og síðan vildi hann jafnan horfa á MTV þegar hann var kominn í vímu sem er auðvitað svo mikil tímasóun að það tekur ekki nokkru tali. Jim Morrison hefði allavega aldrei farið að glápa á imbakassann eftir eina feita. Ég hætti því fiktinu aftur og lét hassið eiga sig þar til ég fór til Englands tveimur árum síðar.

Þá kynntist ég Spánverja sem hét og heitir enn Victor Garcia. Victor notaði hvert tækifæri til að fá sér smók - var sem sagt svokallaður dagreykingamaður. Og af og til fékk ég mér jónu með honum.

Einhvern tímann sagði hann mér að ekkert væri betra en að mæta í tíma með "smá reyk í höfðinu" og þessa iðju praktíseraði hann alla daga vikunnar án þess að það hefði nokkur sjáanleg áhrif á námið. Hann var ótrúlega ófeiminn við að kveikja sér í og ég man eftir einu skipti þar sem hann fékk sér jónu fyrir framan öryggisverði á útitónleikum með Morcheeba í Leicester. Verðirnir litu á hann og vonuðust sennilega til þess að Victor dræpi í en Spánverjinn tók ekki eftir neinu og sagði bara "mmmm...this is good shit" eftir hvern smók. Hann var algerlega laus við þessa leiðinlegu noju sem einkennir íslenska hassneytendur. Hann var bara happí stóner og loksins fékk maður tækifæri til að reykja með alminilegum manni.

Smám saman komst ég þó að því að hassið var ekki minn tebolli eða þannig. Mér varð undantekningalaust óglatt þegar ég reykti. Ef ég svo mikið sem fékk mér einn smók leið ekki á löngu þar til ég skreið uppí rúm og sofnaði.

Þessu nennti ég ekki og hef látið hassið eiga sig síðan - fæ mér bara bjór ef ég þarf að komast í vímu. En þessi reynsla í Englandi sannfærði mig um að hasshausar eru meinlausir og ég get engan veginn skilið hvers vegna við erum að bögga þá. Auðvitað er hass ekki hættulaust en ef við viljum nota hættuna sem tylliástæðu til að svala einhverri refsifýsn legg ég til að við byrjum örlítið fyrr. Til dæmis á góðborgurunum sem fá sér tíu tvöfalda vodka útí kók um helgar og eru ekki bara sjálfum sér verstir eins og hausarnir.

Kv.

JK.

23 maí, 2005

Júróvisjón...

Það er hálf hallærislegt að tjá sig um Júróið því það þýðir eiginlega að maður taki þetta fríksjóv alvarlega.

En allavega. Af öllum þeim fíflum sem settu lit sinn á laugardagskvöldið í Kíev komst enginn með tærnar þar sem Gísli Marteinn hafði hælana. Hann var auðvitað aldrei fyndinn - í það minnsta ekki viljandi - og með þessu beiska rausi í stigagjöfinni sýndi hann svart á hvítu að hann er ekki boðberi nýrra hugmynda í stjórnmálum frekar en Dagný Jóns. Hann er kaldastríðs-warrior eins og B.B. sem er víst leiðarljósið hans í pólitík. Þetta sífellda tuð um samsæri "Austurblokkarinnar" var gersamlega óþolandi og varð næstum því þess valdandi að ég henti Jack Daniels-flösku í sjónvarpið hjá Sigga og Jónu. Sem betur fer var ekki boðið uppá Jack í partíinu heldur pitsu og bjór.

Og hvað var síðan allt þetta þotulið að gera þarna? Var Logi Bergmann virkilega í tíu daga á launum hjá Ríkinu við að gera Júróvisjónfréttir!? Ég segi því eins og Jón Gnarr um árið: Tökum þetta pakk, flengjum það með blautu handklæði og sprautum Bernaisesósu uppí rassgatið á því. Neinei, bara segisona...

Kv.

JK.

22 maí, 2005

Er Knúturinn póstmódernisti?

Samkvæmt þessu prófi er maður barasta póstmódernisti. Mikið er gott að vita þetta fyrir næsta atvinnuviðtal.

http://quizfarm.com/test.php?q_id=23320

Kv.

JK.

17 maí, 2005

Eitt og annað

Ég hef lítið bloggað undanfarið og það er ekki vegna þess hvað ég er bissí. Ég hef eiginlega of lítið að gera ef eitthvað er og þegar þannig er ástatt nenni ég ekki að gera neitt, allra síst að blogga.

Aðgerðaleysi er reyndar það ástand sem ég blómstra í. Ég ligg uppí sófa, hlusta á mússík (á nýju plötuna hans Ryan Adams) og les (Philip Roth en dónalegri rithöfund hef ég ekki lesið síðan ég tók Bukowskiæðið fyrir þremur árum síðan. Það er svosem ekki hægt að líkja þessum mönnum saman að öðru leyti. Roth er alvöru höfundur sem getur skrifað allskyns bækur en Bukowski skrifaði í raun og veru fyrstu bókina sína aftur og aftur og þegar maður var búinn að lesa sex eða sjö stykki var maður orðinn leiður á honum. Mæli samt með því að þið lesið Post office en fyndnari bók hef ég ekki lesið nokkurn tímann og Notes of a dirty old man, greinar úr einhverjum obskjúr jaðartímaritum frá áttunda áratuginum). Í þessu ástandi á ég heima.

...

Það er samt ekki alveg tíðindalaust á mínum vígstöðvum. Ég er fluttur úr gettóinu á Nesbakka og í augnablikinu bý ég hjá kærustunni. Hún er að fara eftir nokkrar vikur og þá flyt ég til Snorra frænda míns og verð þar þangað til ég flyt suður í ágúst eða september. Við flutninginn sá ég að ég átti alltof mikið af pappírum og drasli sem þjónar engum tilgangi. Til dæmis átti ég fleiri tugi kílóa af glósum frá háskólaárunum og bækur frá þessum sömu árum sem ég á aldrei eftir að lesa aftur. Til dæmis var þarna doðrantur þar sem einhverjir fjölmiðlafræðingar "orðræðugreina" (rosalega er langt síðan ég notaði orðið "orðræða") nokkrar Hollywoodkvikmyndir. Meðal þessara mynda er hasar/on the road-kvikmyndin Thelma and Louise og mörgum blaðsíðum er eytt í að útlista þann lesbíska undirtexta sem klárlega á að einkenna myndina.

Æi, who gives a shit!

Auðvitað er mikilvægt að skoða og greina poppmenningu samtímans í ljósi hinna ýmsu isma en hvaða máli getur það nokkurn tímann skipt þó að Tinni og Kolbeinn séu flaming gay?

Hvað um það. Ég henti glósunum mínum á haugana og gaf bókasafninu bækurnar mínar. Það eru hverfandi líkur á því að þær verði einhvern tímann lesnar þar en þó meiri en ef ég geymdi þær áfram í kassa.

...

Þá fór ég suður um hvítasunnuhelgina. Fyrst og fremst fór ég til að flytja búslóðina mína, sem samanstendur af sex hundruð geisladiskum og bókahillu frá Ikea, og svo fór maður náttla til að hitta einhverja stórlaxa í fjölmiðlageiranum en ég verð víst atvinnulaus einhvern tímann í sumar. Allt er opið enn þá eftir þessa reisu en kannski ekki alveg galopið. Núna klárar maður bara þessi þrjú blöð sem eftir eru og fer svo í sumarfrí. Þessi mál verða hugsuð í rólegheitunum.

Annars er ástandið í mínum geira ótrúlega skemmtilegt þessi misserin. Fyrir ekki nema svona tveimur árum hefði maður stokkið á fyrsta tilboð og unnið fyrir smánarlaun. Núna getur maður stokkið á tilboð númer tvö eða jafnvel þrjú og unnið fyrir smánarlaun.

...

Ég er spenntur að sjá hver tekur við djobbinu mínu. Ég hitti áhrifamann í Fjarðabyggð á dögunum sem lýsti þeirri skoðun sinni að mikilvægt væri að fá heimamann í ritstjórastólinn. "Hann verður að vera í góðum tengslum við samfélagið og blablabla," sagði þessi ágæti maður og er ekki einn um þessa skoðun. Þetta viðhorf er hins vegar gallað og þeir sem tala svona hafa að öllu jöfnu aldrei starfað við blaðamennsku.

Þessi skoðun er samt auðvitað rétt upp að vissu marki. Blaðamaður sem skrifar um pólitík verður t.d. að tengjast pólitík og pólitíkusum því annars sæi hann einfaldlega ekki skóginn fyrir trjám. Sama gildir um ritstjóra héraðsfréttablaðs. Því tengdari sem hann er samfélaginu þeim mun næmari verður hann fyrir því sem telst vera frétt.

En það getur verið erfitt að fjalla um málefni samfélagsins sem maður sprettur uppúr. Maður þekkir nánast alla með nafni og flest viðfangsefnin hittir maður í matvörubúðinni tvisvar í viku. Ef ritstjórinn á að vera heimamaður þá þarf hið sósíópatíska element í karakternum að vera ráðandi - hann þarf að kæra sig kollóttann um almenningsálitið. Ég er ekki enn kominn á þetta þroskastig og kann ennþá að skammast mín. Þar af leiðandi hef ég átt nokkrar svefnlausar nætur í Neskaupstað undanfarin tvö ár.

Kv.

JK.

01 maí, 2005

1. maí

Í dag er 1. maí og það eru því tuttugu og fimm ár síðan ég fór í bíó í fyrsta skipti á ævinni. Það var í boði Verkalýðsfélagsins á Norðfirði sem ég sá ameríska kvikmynd um tíkina Lassie. Hef aldrei skilið af hverju þeir sýndu ekki norðfirskri æsku einhverjar alminilegar áróðursmyndir eftir Eisenstein. Hinar vestrænu lygar trufla mig enn: Eru hundar virkilega einstaklingar?

...

Stundum tekur maður viðtöl við menn sem tala í fyrirsögnum. Sumir vita hvað það er sem blaðamaðurinn vill heyra og gera þetta meðvitað en svo eru aðrir sem eru fullkomlega ómeðvitaðir um snilldina sem hrýtur fram af vörum þeirra áreynslulaust. Gvendur Stalín er einn af þeim. Í tilefni dagsins birti ég brot úr viðtali sem ég tók við hann í fyrra en fyrir þá sem ekki vita er Gvendur áttræður Stalínisti í Neskaupstað. Hann heitir fullu nafni Guðmundur Sigurjónsson og honum þykir gaman að vera kallaður Stalín. "Mér hefur alltaf þótt vænt um kallinn," sagði hann við mig einu sinni.

Eftirfarandi málsgrein er úr hluta viðtalsins sem fjallaði um uppgjörið en eins og allir alvöru kommúnistar gekk Gvendur í gegnum tímabil þar sem hann efaðist um réttmæti ýmissa ákvarðanna sem teknar voru í Kreml. Hann gerði sum sé upp við kommúnismann en það komst í tísku fyrir nokkrum árum og náði hámarki á Íslandi með Náðarkrafti Guðmundar Andra Thorssonar.

...múrinn í Berlín var rifinn niður og kommúnisminn riðaði til falls undir lok síðustu aldar. Í kjölfarið fóru menn að gera upp við kommúnismann. Af svörum Guðmundar má dæma að hann trúir enn á hugsjónina þó mennirnir sem hafi ætlað að koma henni í framkvæmd hafi oft ekki breytt rétt: “Við vildum trúa því að það væri verið að byggja upp nýtt samfélag,” segir hann. “Og maður stóð sjálfan sig oft að því að vera réttlæta það sem stjórnin í Kreml gerði.” Þarna á hann t.d. við innrásina í Ungverjaland árið 1956 en þegar hann var spurður álits á þeirri innrás svaraði hann á sínum tíma: “Þeir gerðu þetta ekki nema að það væri rétt.”

Síðasta tilvitnunin segir allt sem segja þarf um praktíska nytsemi hugsjóna og isma af öllu tagi. Ég er því níhilisti og trúi ekki á neitt.

...

Það hefur komið fram á þessari síðu að ég held mikið upp á Ryan Adams en í þessari viku kemur einmitt út ný plata með honum - sú fyrsta af þremur á þessu ári - sem heitir Cold roses. Á meðan ég pikka inn þessi orð er ég að hlusta hana en plötuna má heyra í heild sinni á offisjal heimasíðunni ryan-adams.com.

Við fyrstu hlustun minnir hún um margt á plöturnar sem hann gerði með Whiskeytown og hljóta margir harðkjarnaaðdáendur - sem skipta þúsundum á Íslandi - að varpa öndinni léttar. Þrátt fyrir að ég fíli síðustu plötuna hans í spað er ekki sömu sögu að segja um alla. Á henni spilaði Ryan alt-kántríið sem hann er þekktur fyrir en vitnaði grimmt í Smiths, Springsteen, Stones o.fl. og á meðan þessi bræðingur hitti beint í mark hjá mér hrópuðu aðrir: Júdas! Ég var svona hálfpartinn að vona að hann myndi halda áfram á þeirri braut þó ég fíli auðvitað kántríið í botn. Hann heldur kannski áfram tilraunastarfseminni á næstu plötu sem kemur út í sumar og mun heita Jacksonville. Gott ár framundan hjá mér, jafnvel það besta til þessa.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker