Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 apríl, 2006

Kosningar og saga af klassísku hljómsveitarvandamáli

Vor, einhvern tímann fyrir '90: Ég, Keli og sennilega Daddi gengum á milli kosningaskrifstofa í Neskaupstað og fengum barmerki frá öllum flokkum. Ég man að mér leið illa með D- og B- merkin á mér og fljótlega var bara G- merkið eftir sem ég bar með stolti bókstafstrúarmanns.

Þetta hafði ekkert með málefni að gera. Ég var bara með sósíalisma í blóðinu.

("Er Brésnef dáinn?" sagði pabbi minn undrandi (kannski sorgmæddur) þegar tíðindin bárust eitthvert kvöld í nóvember 1982. Þegar Lennon dó var ekkert sagt nema hugsanlega: "Mér fannst nú Stones alltaf betri.")

...

Ég hef því aldrei þurft að gera upp hug minn á kjördag.

...

En menn eins og ég (?) missa auðvitað áhuga á pólitík fyrr en síðar. Eins og staðan er í dag skila ég auðu ef ég nenni að kjósa, hugsanlega slysast ég til að merkja við Biðlistann eða (sem er vel hugsanlegt) fer ég í kóma í kjörklefanum og krossa við Smára Geirs - genetísk nauð sjáiði til. Eða kannski geri ég eitthvað útúrfríkað og kýs Sjálfstæðisflokkinn (þarf að vera mjög drukkinn svo það gerist og sennilega vinn ég veðmál fyrir vikið).

...

En auðvitað skiptir þetta engu máli. Eða hver er munurinn á sjálfstæðis- og jafnaðarstefnunni í skólpmálum Fjarðabyggðar? Hvernig birtist framsóknarstefnan í gatnagerð? Í Fjarðabyggð er bara kosið um mál sem allir hljóta að vera sammála um. Í Fjarðabyggð erum við á móti ranglæti en með réttlæti.

...

Já og alveg rétt! Síva spilar í kvöld og því gaman að rifja upp eina svona pólitíska poppsögu. Hún er byggð á trúverðugu en að öðru leyti lygi.

...

Einhvern tímann árið 1994 fékk Síva sér umboðsmann. Það var enginn aumingi heldur Kiddi á Sjónarhól, athafnaskáld með meiru. Hann ætlaði að gera okkur fræga á einum vetri. "Strákar, ef við spilum á Raufarhöfn lofa ég ykkur fullu húsi og síðan falla hinir staðirnir fyrir ykkur kylliflatir; Þórshöfn, Bakkafjörður, Vopnafjörður, júneimit," sagði hann en lítillæti var ekki helsti galli nýja umbans.

Á þessum tíma hétum við Allod Immug og af auðskiljanlegum ástæðum vildi umbinn skipta um nafn. Hann kallaði okkur því til sín á kvöldfund einhvern tímann í nóvember 1994.

"Strákar, við verðum að skipta um nafn," sagði hann. "Þetta Allod-dæmi er ekki að virka. Ég fékk hugmynd og mig langar til að heyra álit ykkar á henni."

"Endilega leyfðu okkur að heyra," segir Einar Solheim og teygir sig í kexköku úr Ritzkexpakkanum sem liggur á hliðinni á eldhúsborðinu. Dáni hristir pakkann og heyrir að hann er tómur. "Áttu nokkuð til meira af svona Ritzkexi?" spyr hann en við sitjum heima hjá umbanum á Sjónarhóli.

"Jújú, bíddu aðeins," segir umbinn og skreppur fram í búr. Hann kemur aftur með óopnaðan pakka í fjölskyldustærð. "Viljiði sultu eða vínber með?" spyr hann.

"Getum við fengið bæði?" segi ég.

Umbinn horfir skilningssljór á okkur. "Ha?"

"Já, sultu og vínber," segi ég og Dáni bætir við: "Áttu nokkuð til osta líka?" Umbinn fer aftur fram í búr og einhver (sennilega Addi rótari) kallar á eftir honum: "Áttu nokkuð til bjór?"

"Jú, einhvers staðar á ég nú til bjór," heyrum við hann segja.

Við brosum til hvers annars og trúum ekki okkar eigin heppni. Ókeypis bjór, úlala.

Umbinn snýr aftur með fullar hendur af bjór, ostum og vínberjum og leggur veisluföngin á eldhúsborðið. Við bíðum ekki eftir neinu og byrjum að úða í okkur.

"Jæja strákar," segir umbinn svo, búinn að koma sér valdmannslega fyrir við enda borðsins. "Sko, nýja nafnið okkar þarf tvö element (hann notaði nákvæmlega þessi orð)" en kemst ekki lengra því Einar grípur framí fyrir honum af fullkomnu virðingarleysi.

"Af hverju ertu ekki hrifinn af Allod Immug?"

(Það sem umbinn vissi ekki var að Einar var sá eini sem lagðist gegn því að Kiddi væri ráðinn fjórum vikum áður. Einari fannst þetta álíka heimskuleg hugmynd og þegar Dáni stakk upp á því að við létum smíða líkkistu fyrir okkur sem nota átti sem snúrutösku. "Pælið í því þegar við rennum inní Egilsstaði með líkkistu á toppnum, þetta verður geðveikt prómó!" hafði hann sagt og seldi mér, Fjalari, Jóni og Adda þarmeð hugmyndina á innan við sekúndu.)

Umbinn hlær góðlátlega: "Tja, eigum við ekki bara að segja að það sé örlítið sveitó ef þið skiljið hvað ég meina. Out-dated ef þú vilt."

Allir í hljómsveitinni fyrir utan Einar kinka kolli og þykjast skilja. Einari langar til að segja eitthvað enda móðgaður. Hann átti nafnið Allod Immug.

"Sko, strákar, tölum í alvöru," segir umbinn. "Allod Immug gengur ekki ef þið ætlið að meika það í bænum. Þið eruð sætir strákar (hann sagði þetta í alvöru) og þið þurfið nafn sem hæfir ykkur. Allod Immug er fínt fyrir eitthvað lókal þorraband sem spilar gömlu dansana en við erum að hugsa stærra en það, ekki satt? Hef ég ekki rétt fyrir mér eða er ég að eyða tíma mínum og orku í vitleysu?"

Það ríkir þögn meðal hljómsveitarinnar enda er þetta í fyrsta sinn sem gefið er í skyn að við gætum átt raunverulegan séns á allsherjarmeiki, ekki bara á Austurlandi heldur líka í höfuðborginni. Ég finn reiði í garð Einars. Af hverju skilur hann ekki að Allod Immug er vonlaust nafn? Af hverju er hann alltaf svona þrjóskur?

Umbinn heldur áfram: "Ég get sagt ykkur það strákar mínir að ég get gert ýmislegt annað við tíma minn en að hjálpa hljómsveit sem hefur það eitt að markmiði að spila á þorrablóti hérna í sveitinni."

(Þögn)

"Viljið þið frægð?" spyr hann og setur upp óræðan Elvis-svip sem ég hef aldrei séð aftur, hvorki fyrr né síðar.

"Ég sagði: VILJIÐ ÞIÐ FRÆGÐ!" Hljómsveitin hrekkur í kút en einhverjum tekst að tísta "Jájá." Ég man ekki hver.

"Gott." Umbinn hefur náð undirtökunum. Hann bíður með að segja eitthvað og horfir á okkur eins og hann sé ekki alveg búinn að fyrirgefa okkur hikið. (Sennilega hugsar hann: Ég verð að passa mig á þessum Einari. Fæ strákana til að reka hann.)

"Mér datt í hug nafn sem hentar ykkur," segir hann loks. "Nafn sem tryggir ákveðinn trúverðugleika, nafn sem segir: Hér komum við og það er best að þið læsið dætur ykkar inni! Það þarf að hafa sex appeal en það þarf líka að segja: Við erum Nobbarar og við erum stoltir af því! Tvö element muniði."

Það er engu líkara en að hljómsveitin sé í dái. Ég missi bjórdós í gólfið og innihaldið flæðir útum allt. Við vöknum.

"Hv...hvernig hljómar það?" spyr Dáni. Ég er í spreng og þarf nauðsynlega að fara á klósettið en ég get það ekki og æpi:

"SEGÐU OKKUR ÞAÐ NÚNA!"

Umbinn brosir, búinn að koma sjálfum sér í vímu.

Svo æpir hann eins og hann sé að tilkynna sigurvegara í fegurðarsamkeppni Austurlands:

"Herrar mínir, má ég kynna: G-blettinn!"

"Vei!" æpir Fjalar en áttar sig um leið að það er ekki viðeigandi að fagna. Hann smyr sér eina Ritzkex. Með sultu að mig minnir. Og þó, sennilega bara smurostur. Með rækjum. Nei, beikoni. Það skiptir ekki máli.

(Þögn)

"G-bletturinn," endurtekur umbinn, ekki alveg eins sjálfsöruggur og heldur í sér andanum.

(Þögn)

"G-bletturinn?" segir Dáni, hikandi.

"Ég skil ekki," segir Einar og mig grunar að hann hafi undireins áttað sig á niðurlægingu umbans. "Af hverju G-bletturinn?" spurði hann allavega og rétti umbanum nokkra nagla í líkkistuna.

"Ja sko, G-ið stendur náttúrulega fyrir Alþýðubandalagið sem allir tengja við Neskaupstað og svo þekkið þið náttúrulega G-blettinn hjá konum er það ekki? Þið skiljið, sko, sex appealið sem ég var að tala um..." Hann klárar ekki setninguna enda líkkistan fullkláruð.

(Grafarþögn)

Bjórdós er opnuð, einhver (Fjalar?) ropar feimnislega, líkt og hann vilji ekki að athyglin beinist að sér. Dáni klárar Ritzkexið en biður ekki um meira sem er ólíkt honum.

Það verður einhver að segja eitthvað og eins og venjulega þegar eitthvað þarf nauðsynlega að gera er það Einar sem tekur af skarið:

"Eru Simpsons byrjaðir?"

Spurningin virkar sem merki um að núna eigi hópurinn að forða sér og hljómsveitin ryðst út með offorsi. Í flýtinum passa menn sig ekki einu sinn á því að fara í rétta skó og daginn eftir sé ég að ég hef óvart farið í hvíta lakkskó, sennilega í eigu umbans. Þegar við erum komnir útá stétt verðum við ákveða í snatri hvort við eigum að kveðja Kidda en hann situr enn inní eldhúsi, hugsanlega niðurbrotinn. Líkt og áðan er það Einar sem tekur af skarið:

"Getum við fengið lánaðan svosem eins og einn Ritzkexpakka?"

Knúturinn.

27 apríl, 2006

Sektarkennd

Það er sorglegt að sjá hvernig sveitungar mínir fara með vesalings angaskinnin á Eskifirði. Mér er sagt að flokkur Norðfirðinga fari í skjóli nætur yfir skarð og steli sementi sem síðan er notað við gerð nýrrar sundlaugar á Norðfirði. Afleiðingarnar eru hryggilegar: Við hvern metra sem sundlaugin á Eskifirði styttist, sökum skorts á sementi, lengist hún um metra hér. Og enginn segir eða gerir neitt!

Í dag erum við öll Eskfirðingar.

Knúturinn.

26 apríl, 2006

Eilíf ást

Kom austur í gær. Gekk út að vörðu og síðan upp í skógrækt í morgun. Samband mitt við þennan fjörð hefur ekkert lengur að gera með fólk. Fjöllin eru einfaldlega fallegust hér.

...

Það biðu ekki neinir aðdáendur á vellinum í gærmorgun. Hvað er að gerast?

...

Þrír íhaldsflokkar í framboði í Fjarðabyggð sagði Siggi A. ritstjóri Austurgluggans í sjónvarpinu í gær. Mikið rétt hjá honum. Skil ekki af hverju þessir flokkar bjóða ekki bara fram saman gegn Biðlistanum.

...

Siggi var flottur í gær. Vinur minn sagði að hann hefði verið nokkurs konar Jekyll-útgáfa hins klassíska sveitamanns ef við gefum okkur að Gísli Einarsson sé Hyde (eða var það öfugt?). Vinur minn er náttla ekki í lagi.

Kv.

Knúturinn.

20 apríl, 2006

Endurkoman

Ég kláraði Samkvæmisleiki eftir Braga Ólafsson núna rétt í þessu. Afskaplega riðmísk bók. Eingöngu bassaleikari af nýbylgjukynslóðinni hefði getað skrifað hana. Progrokkbassaleikarar skrifa eins og Hallgrímur Helgason.

...

Lubbi Klettaskáld er með ljóð í Fréttablaðinu í dag. Ég fíla Lubba. Hann er fyndinn en harmrænn.

...

Vona að félagar mínir í Sívu séu tilbúnir að taka eitthvað af frumsamda efninu okkar. Mikið væri gaman að endurvekja lagið Frávik, félagsfræðilega meðvitað epískt stórvirki í fjórum hlutum (tók tólf mínútur í flutningi) þar sem tekið er á alvarlegum hlutum í íslensku samfélagi s.s. heimilisofbeldi og pedófílíu. Ætla að leggja til að við bætum nokkrum erindum við lagið þar sem m.a. verði fjallað um stöðu samkynhneigðra og nýbúa á landsbyggðinni.

Fæstar hljómsveitir í dag hafa hugrekki eða siðferðisþrek til að fjalla um
slíka hluti fordómalaust.

In fact: Ætla að leggja til að við tökum upp tólf laga plötu þar sem hvert lag fjallar um stöðu tiltekins minnihlutahóps á landsbyggðinni.

...

Já, það er því ekki einungis gaman að Síva hafi verið endurvakinn heldur beinlínis nauðsynlegt og gott fyrir íslensk samfélag.

Knúturinn.

19 apríl, 2006

Kombakk aldarinnar

Það eru níutíu og níu prósent líkur á því að Síva mæti í afmælisveislu VA í lok mánaðarins og rokki húsið niður (e: "rockin' the house down"). Vantar enn staðfestingu frá Fjalari og Talentinu en eins og glöggir lesendur kommentakerfisins vita varð sá síðarnefndi óður af bræði þegar ég gaf í skyn að hann hefði ekki tíma í svona vitleysu. Hið rétta er að hann er "mjög spenntur" og finnst þetta "gott tækifæri til gefa samfélaginu eitthvað til baka."

Sorrí bróðir sæll. Ég er fífl.

Á lagalistanum verða eflaust gamlir hittarar á borð við Just around the corner, Proud Mary og hver veit nema við teljum í Þúsundfalt:

1, 2, og...

Sólin kveikir eld,
sólin kveikir ástareld (eða var það "sólin brennir ástarfeld"?)
Myrkrið stígur halt,
sólin hitar þúsundfalt (má líka segja: "fáum okkur hjartasalt").

Stay tuned.

Knúturinn.

04 apríl, 2006

Ímyndaður þroski

Þegar Össur Skarp tapaði fyrir ISG í formannskjörinu byrjuðu einhverjir fjölmiðlamenn að tala um að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann væri orðinn “wise old man” í pólitík, hokinn af reynslu og gæti þess vegna hætt með sæmd og skrifað bækur. Hann gerði það ekki og hélt áfram í pólitík.

Hann tók hins vegar þetta “wise old man” kjaftæði alvarlega og undanfarið ár, eða allt frá tapinu, hef ég æ oftar tekið eftir því hvernig hann talar í föðurlegum tón og af talsverðu yfirlæti til annarra stjórnmálamanna (það er fullkomlega eðlilegt að tala niður til þeirra en það er önnur saga). Ég man svosem ekki eftir neinum dæmum en þið eruð skynsöm og hafið eflaust tekið eftir þessu líka.

Nú. Ég hef aðeins heyrt einn mann segja opinberlega að hann hafi þroskast alveg rosalega. Það var Hannes H. Gissurarson.

Niðurstaða: Aðeins óþroskað fólk segist vera þroskað.

...

Jón Hilmar hringdi í kvöld og færði mér þær fréttir að eftirspurn væri eftir kombakki hjá Sívu. Fyrir þá sem ekki vita var Síva besta ballhjómsveit Austfjarða um miðjan tíunda áratug aldarinnar sem leið. Ég sagði gítarleikaranum að ég væri til og eftir því sem ég best veit eru hinir til í tuskið líka. Að vísu hefur ekki enn tekist að ná í stjörnuna eða “talentið” eins og ég kalla Dána Steinþórsson þegar hann heyrir ekki til.

Við vorum með kombakk í sumar sem gekk svona líka ofboðslega vel. Við vorum of fullir, of hressir og spiluðum öllum okkar trompum út á fyrsta hálftímanum. Þetta var þó hið besta mál því skortur á prófesjónalisma þýðir einungis að aldurinn hefur ekki kennt okkur neitt og þar af leiðandi erum við enn sannir rokkarar.

Ef “talentið” hefur tíma kemur Síva saman í lok apríl. Stay tuned.

...

Ég er að hlusta í fyrsta sinn í mörg ár á plötuna Invincible summer með kanadísku dívunni K.D. Lang. Plötuna keypti ég í Leicester degi áður en ég fór með einum af þessum fyrrverandi kærustum á roadtrip. Ég man ekki hvert. Til vinstri kannski?

Fyrstu hljómarnir kalla fram minningar um brosandi stúlku, græna hóla, gula akra og þessi sérstöku einmana tré sem ég tek aðeins eftir í Englandi (það er eins og þau séu alltaf að sitja fyrir). Seinna, þegar komið er kvöld, fæ ég mér bjór og franskar kartöflur. Hún segir að ég noti of mikið salt og við gerum okkur upp hjónarifrildi. Við vitum bæði að þetta er þykjustuleikur. Rifrildið verður eftirmálalaust.

Svo lít ég út um gluggann. Það er snjókoma. Börn eru að grenja einhvers staðar fyrir ofan mig (ég bý sko í kjallara) og Halldór Ásgrímsson er forsætisráðherra.

Stundum sakna ég Englands svo mikið að það meikar hreinlega sens.

Kv.

Knúturinn.

eXTReMe Tracker