Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

29 september, 2006

Meira um I'm yer man...

Á I'm your man sándtrakkinu er varla slæmt augnablik. Ég er þegar búinn að lýsa ánægju minni með Antony en þá er þarna líka náungi sem heitir Teddy Thompson sem syngur Tonight will be fine eins og engill. Beth Orton syngur Sisters of mercy eins og sannur þunglyndissjúklingur og Rufus Wainwright fær mann til að tárast með alveg hreint breathtaking versjón af Chelsea hotel no. 2.

Þeir eru svo næmir þessir hommar, ha!

(Þögn)

Ég á við Rufus. Ég er enginn hommi.

...

Eina lagið sem ég nenni ekki alltaf að hlusta á er, ótrúlegt en satt, með Nick Cave. Hann syngur m.a. titillagið I'm your man en vegna big-band útsetningarinnar beitir hann full mikilli hörku og lagið verður á köflum örlítið aggressívt en það fer engu lagi með Cohen vel. Söngur hans í Suzanne er aftur á móti fallegur en þar syngur Julie Christiansen, sem ég veit ekki hver er, með honum.

En jæja, góða helgi.

Túrisminn

Pælingin hans Ómars er alls ekkert svo slæm. Stærsta ónotaða stífla heimsins yrði örugglega merkilegt fyrirbæri sem hefði mikið aðdráttarafl. Þar fyrir utan myndum við ganga í augun á útlendingum og það er nú heldur betur okkar tebolli. "How do you like Iceland?" yrði ekki lengur spurning heldur orð í orðabók.

...

Túrismi er ekki óþekkt fyrirbæri hér eystra og ég er svo heppinn að þekkja nokkra austfirska ferðamálafrömuði persónulega. Þetta fólk minnir mig á ákveðna týpu blaðamanna, þessa týpu sem telur sig vera að bjarga heiminum einu sinni á dag.

Liðið í túristaiðnaðinum er álíka andsetið (en þó yfirleitt miklu skemmtilegra en blaðamenn) og það er tilbúið að leggja á sig gríðarlega vinnu til að láta dæmið ganga upp. Starfið er köllun og áhugamál og það myndi vinna við það ókeypis ef það þyrfti ekki að greiða af húsnæðisláninu um hver mánaðarmót.

...

Túrismasamfélag yrði samfélag sem Austfirðingar þekkja ágætlega því síldarárin myndu einfaldlega endurtaka sig. Það yrði sjálfsagt rómantík í kringum túrismann enda einkennist slík vinna af næturbrölti og yfirvinnu en hægt og rólega myndi allt venjulegt fólk brenna út og fá sér kósí vinnu annars staðar. Sennilega fyrir sunnan ef við eigum að vera raunsæ.

...

Austfirskt samfélag þarf vinnustað eins og Fjarðarál. Vinnustað þar sem fólk vinnur sína átta tíma en stimplar sig svo út. Ég sé fyrir mér að í fyrsta sinn vaxi úr grasi austfirsk kynslóð sem hefur tíma til að leika sér. Þetta verður kynslóðin sem eyðir tíma með börnunum sínum, gengur á fjöll í hverri viku, skrifar ljóð, smíðar falleg hús en umfram allt verður þetta kynslóðin sem ríður meira. Hún mun fjölga sér hratt, líkt og nagdýr.

(Sleppum þessu með ríðingarnar og nagdýrin. Ef til vill rétt en ósmekklegt að segja það. Allt hitt stendur.)

28 september, 2006

Íslensk fyndni

Er að detta í einhvern gír í náminu. Kannski var næturvaktin í gær einmitt það sem ég þurfti. Svefnleysið gerir mig ruglaðan og það er sennilega kostur í þessum pælingum.

...

Björgvin Valur hélt því fram um daginn að enginn Íslendingur hefði nokkurn tímann í sögunni sagt brandara sem útlendingur fílaði. Ég sendi fyrirspurn á enskan vin minn sem bjó á Íslandi í eitt ár. Er þetta rétt, spurði ég og eftir nokkra daga fékk ég svar:

"Perhaps the humour in Iceland is more anecdotal - but I have to say I can't think of any good jokes I heard while I was there!"

Þar hafiði það. Þetta er álit heimsmeistaranna í húmor.

Kassar

Í gær fékk ég fullt af kössum með bókum, geisladiskum, gömlum ljósmyndum og allskyns drasli sem ég hef ekki séð lengi, sumt ekki í nokkra mánuði og annað hef ég ekki séð í nokkur ár. Ótal minningar, margar daufar, sumar ljóslifandi, koma upp á yfirborðið.

Þarna eru t.d. ljósmyndir frá Grikklandi en þangað fór ég eftir kosningarnar 2003. Ég var búinn að gleyma því að ég eyddi einni helgi í smábæ á norðurströnd Pelopsskaga. Ég vaknaði eldsnemma á laugardeginum og synti í sjónum á meðan gestgjafinn bjó til fetabökur. Um kvöldið var horft á Eurovision og mig langaði til að gráta þegar Birgitta steig á sviðið en setti frekar upp töffarasvip og sagði að hún væri glötuð.

...

Þarna eru líka nokkrar bækur í heimspeki (Berger og Luckman, Foucault, Goffman) frá þeim dögum þegar mér fannst mikilvægt að staðsetja mig fræðilega. Í dagbók sem ég hélt í Leicester er þessi lína, eða spurning - vonandi átti hún að vera retórísk en þekkjandi mitt 25 ára gamla sjálf ágætlega held ég að mér hafi verið fúlasta alvara: "Hvað ætli ég sé? Ætli ég sé social constructionisti?"

Vandamál drengja eru margskonar.

...

En þarna eru líka Frelsið eftir J.S. Mill frá þeim sem ég hélt að ég aðhylltist hægrisinnaða nytjahyggju. Anarchism and other essays eftir Emmu Goldman frá þeim tíma sem ég hélt að ég væri anarkisti og Homage to Catalonia eftir George Orwell sem ég keypti undir sterkum áhrifum frá spænskum félaga. Þá hélt ég að ég væri...mmm...já, ég hélt að ég væri rómantískur sósíalisti.

Núna er ég mömmustrákur.

...

Svo voru í kössunum tæplega fjögur hundruð geisladiskar. Tónlistarsmekkur minn hefur ekki breyst svo mikið undanfarin ár þannig að fátt kom á óvart. Samt var gaman að finna loksins Massive attack diskana mína sem ég hélt að ég hefði týnt þegar ég flutti suður í fyrrahaust. Á kóverinu á Protection er dökkur brunablettur sem kunningi minn frá háskólaárunum ber ábyrgð á. Hann var í mikilli hassneyslu o.s.frv.

27 september, 2006

I love the smell of urine in the morning...

Eitt af því sem við dreifbýlismenn segjum þegar við erum beðnir um að telja upp kosti þess að búa úti á landi er fullnægingin sem felst í því að anda að sér hreinu lofti á morgnana. Þessi lífsgæði heyra sögunni til hér á Héraði. Ég gekk í vinnuna áðan (byrjaður að kalla námið vinnu) og það lá við að ég fengi astmakast þegar ég gekk yfir Fagradalsbrautina. Hæfileg hlandlykt í loftinu og þetta hefði verið nákvæmlega eins og Hlemmur á miðvikudagsmorgni. Miðborgin er komin til mín. Loksins.

...

Hér var gengið gegn virkjun í gær. Missti af því. Sá bara gamla forsetann okkar í viðtali á RÚV í gær. Hún sagði eitthvað svona: "Þessir atburðir eiga sér stað svo langt í burtu að það tekur tíma fyrir fólk að vakna til vitundar um þetta."

Ég hef aldrei fengið það jafn sterklega á tilfinninguna að ég sé "Þeir" í "Við og Þeir". Mér leið satt best að segja eins og væri fátækur nýlendubúi á Indlandi og forsetinn minn gamli væri rómantískur enskur rithöfundur sem krefðist þess að ég yrði áfram göfugt villimenni, dansandi nakinn á túninu, étandi villisveppi.

...

Annars er ég að hlusta á sándtrakkið úr I'm your man, heimildarmyndinni um Leonard Cohen. Útgáfa Antony af If it be your will er fallegasta mússík sem ég hef heyrt á þessu ári. Ef það væri einhver töggur í ykkur þá mynduð þið kíkja á Pjetur í Tónspil og kaupa eintak.

...

Ég er 31 árs í dag. Til hamingju, drengur!

26 september, 2006

The Glorious CIB's!

Coney Island Babies komu saman í gær og kláruðu lag sem akkúrat núna kallast Thrust - afar kynferðislegur slagari eins og titillinn gefur til kynna. Eins og venjulega kom Geiri með gítarstef sem við Haffi prjónuðum oná. Haffi kom með pönkaða bassalínu ala Peter Hook og Mike Mills og mér tókst loksins að koma fyrir svona þunglamalegu Velvet underground bíti í CIB lag. Geiri fór náttla á kostum í fítbakkinu og óverdrævinu og samdi killer Frank Black meets Bob Dylan laglínu.

Hryllilega groddalegt allt saman und we likes it.

Við vinnum nú að því í rólegheitunum að koma okkur fyrir á My space þar sem lögin okkar verða á útsölu for yer aural pleasure...

Og meðan ég man, við Haffi rödduðum í viðlaginu. Hvorugur okkar kann að syngja en við létum okkur hafa það fyrir listina. "Vá maður," sagði Haffi þegar við hlustuðum á playbakkið. "Við sándum bara eins og Yo la tengo, ha!" Ég jánkaði en Geiri sagði: "Já, strákar, þið sándið nákvæmlega eins og Yo la tengo."

25 september, 2006

Rokkstarbakþankar

Í síðustu Lesbók er lesið í Silvíu Nótt og Magna. Silvía táknar svart og Magni hvítt samkvæmt blaðamanninum, Silvía er borgin, Magni er sveitin, Silvía er yfirborðskennd, Magni er innihaldsríkur, Silvía er vond, Magni er góður o.s.frv.

...

Ég er hrifinn af því þegar menn over-intellektúalisera poppmússík og vona að Lesbókin haldi því áfram. Kannski ég sendi þeim einhvern tímann grein sem ég skrifaði þar sem ég segi frá ótrúlegum líkindum Guns and roses og Albert Einsteins og frá óvenjulegum tengslum G N' R við þýskan expressjónisma (þá á ég að sjálfsögðu við ímynd Guns and roses áður en Use your illusion plöturnar komu út). Ég held því líka fram að rétt eins og Clinton var fyrsti Elvis bandaríska forsetaembættisins sé Bush jnr. fyrsti Duff McKagan. En þetta hljóta allir að sjá og þess vegna hef ég ekki alminilega þorað að senda þeim greinina.

Kannski ég sendi þeim þá greinina þar sem ég segi að ljóshærða villidýrið, hann Helgi Seljan jnr, sé fyrsti Robert Downey jnr. Ríkissjónvarpsins.

...

Kiddi vinur minn, kallaður umbinn á þessari síðu, sagði við mig um daginn, kófdrukkinn að vísu, að viðbrögð helstu álitsgjafa íslensku þjóðarinnar við Rokkstar undirstrikuðu minnimáttarkennd hennar. "Það er eins og við séum alltaf að segja, hikk: "Þið platið okkur sko ekkert! Við vitum alveg að þetta er bara venjulegur sjónvarpsþáttur þó þið séuð að reyna láta okkur halda að þetta sé raunverulegt! Við erum sko engir hálfvitar þó við séum sveitó!" Af hverju, hikk, geta menn ekki skilið að þetta er bara, hikk, leikur?"

Ég móðgaðist þegar hann sagði þetta en Kiddi sagði að það væri óþarfi: "Þú ert ekki einn af helstu álitsgjöfum íslensku þjóðarinnar, Jón minn, hikk."

En eins og svo oft hefur umbinn rétt fyrir sér. Svona eftir á að hyggja.

Jón.

23 september, 2006

Skrifað af engu tilefni

Egilsstaðir, staðir Egils! Heimili Héraðsmanna! Nei. Þetta er ónothæft.

...

Pilturinn í grænu lopapeysunni var heima hjá sér en samt var hann að heiman...nei, gengur ekki heldur.

...

Mér hefur alltaf þótt erfitt að blogga í helgarfríum.

...

Blogg lítur út eins og blogg, knappt og ónákvæmt, vegna þess að þú bloggar í pásum. Klukkan er kannski hálf fjögur og þú átt að mæta í vinnu klukkan fjögur. Á þessum þrjátíu mínútum skrifar þú nokkrar línur í hasti og smellir svo á Publish Post. Allt skal látið flakka, sama hversu heimskulegt það gæti hljómað á morgun. Enginn tími fyrir bakþanka.

Þetta er bloggregla nr. 1 og þú brýtur hana eingöngu til að sanna hana.

...

Vegna þessa tímafaktors lætur bloggarinn ýmislegt frá sér fara sem er óskynsamlegt og heimskulegt.

En.

Hinn dæmigerði bloggari í tímaþröng hlýtur að krefjast þess að allt sem hann skrifar sé tekið með fyrirvara. Hann krefst þess að lesandinn segi ekki hluti eins og: "Undarleg skoðun hjá þér í dag. Hún var allt önnur í gær." Hinn dæmigerði bloggari fullyrðir að þær hafi báðar verið réttar á meðan hann skrifaði þær - eða báðar rangar. Það skiptir einfaldlega ekki máli. Á nákvæmlega þeim tíma sem hann setti hugsun sína í orð var hann einlægur, hann hafði ekki tíma fyrir annað. Hugsunin var tær. Og sönn.

...

Annars stal ég þessari speki frá Dylan (sem skemmtilegt nokk er nýbúið að kæra fyrir ritstuld). Hann sagði þetta í einhverju viðtali þegar blaðamaðurinn var að herma upp á hann einhverja úrsérgengna hippaspeki löngu eftir daga sixtís. "Ég meinti þetta þá," ansaði hann önugur og málið var útrætt.

21 september, 2006

Waits

Ég hef alltaf litið á mig sem svona mátulegan Tom Waits aðdáanda. Ég er ekki svona fanatískur eins og Geiri vinur minn sem gleymir sér stundum í vinnunni af því að hann er pæla í því hvað hann myndi elda oní Waits ef söngvarinn myndi nú droppa við eitt kvöldið. "Hann fílar örugglega hvítlaukspastaréttinn sem ég eldaði einu sinni fyrir þig," segir hann dreyminn á svip í, að því er virðist, fullri einlægni. Geiri vinur minn á fjölskyldu og einbýlishús og finnst mér þess vegna fremur óhuggulegt þegar hann lætur svona.

...

Ég á Closing time, Nighthawks at the diner, Small change, Swordfishtrombones, Rain dogs, Bone machine, Mule variations og Real gone. Margir eiga fleiri plötur með Waits og margir eiga færri, jafnvel enga. Af þessum plötum er Swordfishtrombones sennilega sú sem ég hef spilað mest þó mér finnist Real gone líka frábær. Vantaði bara eina ballöðu og þá hefði hún verið hér um bil fullkomin, fullkomin líkt og fyrsta platan hans, Closing time, sem ég er einmitt að hlusta á núna (hann hefði mátt skippa Ice cream man) og verður bráðum uppáhalds Waitsinn minn.

...

Swordfishtrombones keypti ég útí Leicester á útsölu í miðbænum en ég hlustaði aldrei á hana. Einhvern veginn tókst mér ekki að týna henni þegar ég flutti heim og hún týndist ekki heldur þegar ég flutti til Norðfjarðar árið 2003 til að ritstýra blaðinu.

Plötuna tók ég svo með mér þegar ég keyrði út jólapakka á aðfangadagsmorgun 2004. Hún reyndist vera hið bærilegasta sándtrakk fyrir Norðfjörð, fannst mér. Svo tók ég annan rúnt um kvöldið og þá varð hún meira að segja betri. Steinsteypuljónin fyrir utan húsið á Þiljuvöllum meikuðu loksins sens, furðulegt þorp varð furðulegra, varð furðulegast ef útí það er farið.

En allavega. Ætlaði að mæra Closing time í þessari færslu. Svona er maður nú einbeittur þessa dagana.

Jón.

(Knúturinn er farinn yfir móðuna miklu)

20 september, 2006

Þegar Langi Keli og stubbarnir komust í hann krappann

Í fjörunni fyrir neðan Sparisjóð Norðfjarðar er blár beituskúr. Ég man ekki hvenær hann var byggður og ég veit ég ekki hvort hann hefur alltaf verið blár. Ég man hins vegar ekki eftir honum öðruvísi. Og standi maður á götunni fyrir ofan hann og horfi maður lengi á vesturhlið skúrsins má sá örlitla litabreytingu. Hægra megin við hurðina er eins og skúrinn sé örlítið dekkri.

Þetta er sennilega óskhyggja hjá mér. Skúrinn er örlítið blárri þarna af því að ég vil að hann sé örlítið blárri. Ég veit nefnilega af hverju hann ætti að vera blárri á þessum stað. Hann er blárri þarna af því að eigandi skúrsins, pabbi sólógítarleikara Langa Kela og stubbanna, þurfti einu sinni eftir erfiðan dag, að mála yfir rauða stjörnu sem hann hafði séð á skúrnum fyrr um morguninn, sennilega um fimmleytið, eða um það leyti sem hann fór í róður. “Djöfulsins krakkavitleysingar,” fussaði hann um leið og hann ákvað að taka drenginn í gegn þegar hann kæmi heim um fjögurleytið. Drengurinn yrði að finna annan beituskúr til að æfa sig í.

...

Mér finnst líklegt að Daddi hafi fyrstur okkar séð spreybrúsann. Hann var bara einhvern veginn þannig, þ.e. hann Daddi, með sitt síða og eldrauða hár, með sínar kolsvörtu augabrúnir, í sínum neongrænu níðþröngu buxum með tígrisdýramunstri og í ermalausum Mötley Crue bol. Þannig að auðvitað tók Daddi fyrstur eftir spreybrúsanum og auðvitað sá hann strax notagildi fyrir hann.

Hann hefur eflaust setið á beitningarbala, eitthvað að plokka í sinn sundursagaða bassa, þegar hann sá brúsann í gluggakistunni fyrir ofan beituskurðarhnífinn. Hann hefur gengið yfir gólfið, næstum dottið á hausinn þegar hann steig á úldna afbeitu sem ekki hafði farið í sjóinn í hreingerningunni fyrr um daginn, hann hefur haldið ótrauður áfram, náð sér í hvítan fiskikassa, snúið honum á hvolf, staðið á honum og teygt sig í brúsann. Síðan hefur hann haldið á brúsanum og spurt Einar Björn frænda sinn, sem var í sínum eigin heimi að æfa sig á gítarsólóinu í Sweet child o mine, hver ætti spreybrúsann.

...

Gítarleikarinn leit upp, strauk toppinn frá augunum svo hann gæti séð eitthvað en nennti ekki að svara. Sagði bara:

“Láttu hann í friði.”

Þó Daddi bæri mikla virðingu fyrir frænda sínum gat ekkert stöðvað hann - hann var maður með markmið. Hann stökk af fiskikassanum og gekk ákveðinn yfir gólfið og út á bryggjuna fyrir neðan skúrinn. Stuttu síðar heyrðum við: Pssssss...

Þegar við komum út stóð Daddi á bryggjunni og fínpussaði listaverkið sitt. Hann hafði skrifað “LKOS” þvert yfir bryggjuna en hann varð að skammstafa nafnið vegna smæðar hennar. Eða öllu heldur vegna þess hve nafnið var stórt og tignarlegt.

Við horfðum á hann í dágóða stund og leyfðum honum að klára verkið áður en við tókum brúsann af honum. Við vildum líka setja mark á okkar á bryggjuna. Keli skrifaði “Ozzy”, ég skrifaði “Angus” en Einar Björn eignaði okkur skúrinn með því að spreyja á hann stjörnu. Þetta var einkennisstjarna þungarokksins sem prýddi m.a. umslag plötunnar Shout at the devil, bestu plötu Mötley Crue að okkar mati.

...

“Pabbi er brjálaður.”

Það var liðinn sólarhringur og það var Einar Björn sem talaði. Hann sat á samanpakkaðri netatrossu og át kaffisúkkulaði sem hann skolaði niður með Sóló, appelsínugosdrykk sem hætt er að framleiða.

Ég hélt ég myndi kasta upp. Ef þetta yrði eitthvað mál myndi mamma taka mig í gegn í annað sinn á þessu ári en fyrr um veturinn hafði hljómsveitin verið gómuð við innbrot í söluskála Skeljungs fyrir neðan Landsbankann. Ég laug því blákalt í mömmu að ég hefði ekki tekið þátt í innbrotinu en allt kom fyrir ekki: “Af hverju ertu þá með súkkulaði á hökunni og af hverju ertu með fimm kókflöskur í úlpuvasanum?” spurði hún og skipaði trommuleikara einu þungarokkshljómsveitarinnar á Norðfirði að bursta tennur og hunskast í bólið.

Það gat verið djöfulli erfitt að vera heigull í hljómsveitinni Sabotage sem gerði það að vana sínum, eða skyldu sinni, að brjóta rúðu eftir hverja einustu æfingu. Eðlilega var eina síðhærða þungarokkskombó bæjarins grunað um myrkraverkin, ekki síst í ljósi nafnsins. Þess vegna breyttum við um nafn.

“Og hvað ætlar hann að gera?” spurði ég og reyndi að leyna skjálftanum í röddinni.

“Hvað ætlar hann að gera?” sagði Einar Björn hneykslaður og hermdi eftir röddinni í mér. “Hann ætlar bara að komast að því hverjir gerðu þetta og síðan ætlar hann að kæra þá. Og síðan verða sumir settir í fangelsi.”

Ég starði á hann. Skelkaður.

“Bíddu, veit hann ekki að við gerðum þetta?” Það var Keli bróðir sem spurði, heldur rólegri en litli bróðir en samt undrandi. Það átti ekki að fara á milli mála hverjir skemmdarvargarnir voru þegar það stóð á bryggjunni með risastórum og eldrauðum stöfum “LKOS”.

“Nei,” sagði Einar Björn. “Ég spurði pabba hvort honum dytti virkilega í hug að við værum svo heimskir að skrifa okkar eigið nafn á bryggjuna.”

“Og hvað sagði hann?” spurði Keli.

“Hann var sammála því,” sagði Einar Björn. “Hann sagði að svo heimskir gætum við auðvitað ekki verið.”

“Hjúkk,” sagði Daddi og andaði léttar eins og ég. “Þar munaði litlu.”

19 september, 2006

Handbók sorpblaðamanns

Á Hamborgarabúllu Tómasar í Reykjavík hanga blaðaúrklippur uppá vegg. Ein þeirra er baksíðufrétt úr Austurglugganum frá janúar 2005:

Yfirfyrirsögn: Hamborgarabúlla opnar útibú á Egilsstöðum

Aðalfyrirsögn: Ekki bakslag í baráttunni gegn offitu á Héraði

Ég skrifaði fréttina. Sannleikurinn kemur henni ekki við enda trúi ég því, svona yfirleitt allavega, að það trúi honum enginn hvorteðer.

...

Það er viðeigandi að þessi frétt hangi inná skyndibitastað enda var þessi frétt skyndibiti og sorp en náttúrulega æsandi - svona eins og borgararnir hjá Tomma. Í besta falli átti lesandinn að flissa og kannski segja, svona hálft í hvoru við sjálfan sig: "Voðalegir vitleysingar eru þetta." Í versta falli (sem var alls ekki slæmur árangur fannst mér) átti lesandinn að reiðast og hringja í blaðið og kvarta. Auðvitað var leiðinlegt ef menn dúmpuðu blaðinu en ef menn gerðu það í æðiskasti var ég sáttur. Það kostaði Austurgluggann að vísu 1200 krónur á mánuði en ég sannfærðist um að ég væri lifandi og maður hefur alltaf verið tilbúinn að borga uppsett verð fyrir þá tilfinningu.

Í fréttinni kristallast sýn mín á blaðamennsku. Í það minnsta á tímabili trúði ég því að frétt væri ekki þess virði að skrifa, og ennþá síður að lesa, ef ekki væru átök í henni. Átakalaus texti og átakalaus frétt er álíka tilgangslaus og "samtal við stein uppí fjalli", svo ég vitni nú í viðfang skemmtilegustu æsifréttar sem ég hef skrifað (og um hana verður bloggað einhvern tímann). Þetta tókst ekki nærri því alltaf en þegar það tókst var deginum bjargað. Hjá mér allavega.

...

Þegar þessi stefna er praktíseruð á héraðsfréttablaði fær fréttin á sig yfirbragð fáránleikans því jafnvel þótt lífið úti á landi sé fjarri því að vera átakalaust er hefð fyrir átakaleysi í héraðsfréttablöðum. Tökum bara dæmi. Svona er semsagt hefðbundið að vinna á héraðsfréttablaði:

Þegar maður fær fréttatilkynningu um að það standi til að opna nýjan hamborgarastað á Egilsstöðum er rétt að endurskrifa nokkrar setningar í fréttatilkynningunni, hringja í eigandann og fá mynd af brosandi starfsfólki og birta síðan fréttina á innsíðu. Ef maður er metnaðarfullur blaðamaður hringir maður í einhverja hressa stelpu sem vinnur í grillinu og fær hana til að segja eitthvað hressandi eins og: "Maður verður að taka þátt í uppbyggingunni" eða (ef menn eru til í smá fíflagang) "Þetta eru bestu borgarar norðan Alpafjalla."

En hvað myndi sorpblaðamaðurinn gera? Jú, hann gerir eitthvað í þessum dúr:

Ef sorpblaðamaðurinn er þegar búinn að skrifa slatta af átakalausum fréttum um heilsuátak á Héraði t.d. með opnun nýrrar líkamsræktarstöðvar er hann strax kominn með skemmtilegan flöt, svokallaðan átakaflöt, þegar Tommi hamborgari sendir honum tilkynningu um væntanlega opnun: "Hvað er þessi Tommi að vilja upp á dekk, ha? Við Héraðsmenn erum búnir að léttast um tíu kíló og svo kemur bara einhver Reykvíkingur og eyðileggur allt!"

Og sorpblaðamaðurinn getur gert fréttina enn safaríkari með því að láta íþróttakennara staðarins neita tilvist offituvandamálsins. "Ég kannast nú ekki við þetta offituvandamál sem þú ert sífellt að tala um," segir hann kannski og þó að blaðamaðurinn fórni æru sinni með hinni heimskulegu spurningu er sagan (og fréttin) orðin skemmtilegri og hvað gera menn ekki fyrir málstaðinn, ha?

En semsagt. Þannig leikur sorpblaðamaðurinn sér með héraðsfréttamennskuhefðina og svo getur hann líka sagt, ef liðið fattar ekki þessa bókmenntafræðileikfimi, að þetta sé satíra, beint gegn æsifréttamennsku DV eða gegn þorparahætti Austfirðinga. Nú svo má líka með nokkurri lagni og góðum vilja segja að þetta sé ádeila á líkamsdýrkun nútímamannsins. Niðurstaðan er allavega sú að fólk nennir kannski að lesa fréttina sem hlýtur að vera markmið allra sem vinna við að selja blöð.

Tökum annað "raunverulegt" dæmi:

Þegar hryllings- og sjokkrokkarinn Alice Cooper tilkynnir (eða tilkynnir ekki, það skiptir ekki máli) komu sína til Mjóafjarðar myndi hefðbundinn héraðsfréttablaðamaður hringja í manninn sem flytur Alice inn og spyrja hvað "rokksöngvarinn vinsæli" ætli að gera í Mjóafirði og þar fram eftir götunum. Ef héraðsfréttablaðamaðurinn er skemmtilegur þá klykkir hann út með einhverju eins og "Mjóifjörður er svo sannarlega staður fræga fólksins" eða "Ætli Alice sé búinn að flytja lögheimilið sitt?"

Sorpblaðamaður fer öðruvísi að. Ef það kemur í ljós að Alice er ekkert að koma og að þetta er bara raus í einhverjum vitleysingi þá er sagan samt efni í nothæfa, meira að segja mjög nothæfa, æsifrétt. Það er lítið mál að gera manninn sem kom sögunni af stað að perverti (það er á færi barns ef ég á að segja ykkur alveg eins og er).

Góður sorpblaðamaður veit líka að á tónleikum í London árið 1977 beit Alice Cooper höfuð af hænu og það er til mynd af honum að eiga við hænuna í Rokkbók Fjölva. Góður héraðsfréttablaðamaður veit að Anna á Hesteyri er dýravinur. Ergo: Það eru komin átök í söguna. Hvað finnst t.d. Önnu á Hesteyri um að annálaður dýramorðingi sé á leiðinni í Mjóafjörð? Hyggst hreppstjórinn setja upp vegartálma og stöðva dýramorðingjann? Eru menn búnir að hlaða haglabyssurnar? Eru menn búnir að svelta varðhundana?

Jamm. Það er engin frétt svo ómerkileg að ekki sé hægt að gera fyrirtaks æsifrétt úr henni sem nota bene á ekki heima á neinni fjandans innsíðu.

Knúturinn - hinn norðfirski W. R. Hearst.

Góð ráð

"Fyrsta skrefið er að vita hvað maður ætlar að segja og svo getur maður byrjað að skrifa."

Þetta ráð gaf Karl Th. Birgisson mér einu sinni þegar ég sat fyrir framan tölvuna mína í Brennu í Neskaupstað sem þá var ritstjórnarskrifstofa héraðsfréttablaðsins Austurlands. Kalli var ritstjóri og þetta var fyrsti dagurinn minn í fyrsta blaðamannadjobbinu.

Ég átti að skrifa frétt um vélsleðaslys sem kunningi minn lenti í en ég vissi ekki hvernig ég átti að byrja. Ég sat fyrir framan tölvuna með fingurna á lyklaborðinu en ekkert gerðist. Átti ég að lýsa slysinu nákvæmlega? Nei, fjölskylda hans myndi fríka út. Átti ég að leggja mat á vélsleðaíþróttir? Nei, það gekk ekki heldur. Bróðir minn myndi taka mig í gegn ("vélsleðar drepa ekki fólk o.s.frv.").

Sennilega var verkefnið svo einfalt að ég varð að gera það flókið. En að lokum skrifaði ég mína fyrstu frétt með hjálp ritstjórans. Hún var stutt en rataði á forsíðu. Í eindálk vinstra megin.

Ég minnist þessa góða ráðs núna þegar ég sit og reyni að skrifa abstrakt fyrir doktorsstílinn minn. Skjárinn er skelfilega tómur og þegar mér tekst að fylla örlítið í hann með fáeinum orðum, stundum heilli setningu, stroka ég þau jafn óðum út. Þetta er ekki nógu gott, hugsa ég. Þetta er ekki það sem ég ætla að segja.

Knúturinn.

18 september, 2006

D og D, Shane og CIB

Brúðkaup "Dóra og Dittu" var skemmtilegt. Ég og pabbi tróðum upp saman, hann sagði sögur og ég sá um útúrdúra og útúrsnúninga. Það er gaman að vera brandarakall í brúðkaupum.

...

Er að endurlesa nokkra kafla ævisögu Shane MacGowans, söngvara Pogues. Ásamt sjálfsævisögu Dylans er hún einfaldlega ein besta rokkaraævisaga sem ég hef lesið og hef ég lesið nokkuð margar í gegnum tíðina. Shane er ekki bara frábær söngvari og lagahöfundur. Hann er líka heimspekingur og kennari.

...

Hljómsveitin Coney Island Babies æfði í kvöld. Við sömdum hörku rokkslagara í anda Sonic Youth og PJ Harvey og ég er ekki frá því að þetta sé okkar einlægasta lag til þessa og köllum við nú ekki allt ömmu okkar í þeim efnum. Okkur leiddist og við vorum reiðir og það heyrðist í laginu. Einhvern tímann, vonandi fyrir áramót, byrjum við að dæla efni á netið. Það er hundleiðinlegt að vera skúffuskáld.

Knúturinn.

13 september, 2006

Farinn í brúðkaup til Reykjavíkur!

Ég á að halda ræðu í veislunni en er í miklum vandræðum. Hugsa samt að ég segi söguna af því þegar ég hitti mágkonu mína í fyrsta sinn í desember 1998, ógeðslega timpraður og paranojaður.

Ég: Sæl, ég heiti Jón.

Ditta: Bytta.

Ég hugsa: Þvílíkur dóni!

Ég segi: Nújá? Heyrðu, gaman að hitta þig líka!

Sagan er náttla um mig. Dæmigert fyrir egósentríska yngsta soninn.

...

Viðbót kl 13

Þegar ég vann á DV fyrir nokkrum árum tók ég einu sinni viðtal við kyn(lífs)fræðing sem var fenginn til að hafa álit á öllum kynferðislegum álitamálum í þjóðfélaginu á þeim tíma. Ég hitti hana í Perlunni og hún talaði non-stop í heilan klukkutíma um kynlíf og af hverju kynlífsumræða þyrfti að vera opinská og ávallt uppá borðinu.

"Ég meina, við eigum ekki að skammast okkar fyrir það sem við viljum og fyrir það sem við erum, ha?" sagði hún og ég man að ég hugsaði: "Djöfull er hún eitthvað opin. Ég vildi að ég væri svona opinn og sjálfsöruggur."

Síðan birtist allt í einu lítil stúlka við borðið okkar. Hún horfði á okkur til skiptis þar til augu hennar staðnæmdust við kynlífsfræðinginn. Svo spurði hún líkt og ekkert væri sjálfsagðara:

"Mamma, er þetta sálfræðingurinn þinn?"

Vildi bara deila þessu með ykkur. Veit ekki hvort þetta segi okkur eitthvað.

Knúturinn.

12 september, 2006

Ballaðan um Antonis Foukarakis

1.

Antonis Foukarakis var eins og landi sinn Sókrates; bestur í samræðum. Hann var bestur á kaffihúsi og hann var í essinu sínu þegar hann vafði sígarettur og drakk rótsterkt espresso kaffi á eina kaffihúsinu í Leicester sem fagurkerinn Antonis fílaði. Það var ekki gríska kaffihúsið. Hann þoldi ekki gríska kaffihúsið ekki frekar en hann þoldi “ekta” írska pöbba í miðbænum.

Hann var lengi að vefja sér sígarettur, en þær voru svo vel vafðar að ég skildi stundum ekki hvernig hann tímdi að kveikja á þeim. "Geturðu vafið eina handa mér," sagði ég eitt sinn þegar hann var búinn að dunda lengi við eina. En Antonis skildi ekki svona nastí og tilgangslaust grín heldur vafði bara handa manni eina rettuna enn, eða bara eins margar og maður vildi, á meðan hann útskýrði í smæstu smáatriðum hvenær og hvers vegna Woody Allen missti mojoið. Ef Antonis gat valið á milli þess að gefa manni álit sitt í löngu eða stuttu máli valdi hann alltaf löngu og flóknu leiðina, sem var full af meðvituðum mótsögnum og sub-álitamálum.

Hann tók allt alvarlega.



Í kennslustofunni var Antonis yfirvegaður akademíkus og einn af þeim fáu sem kom með athugasemdir eða spurningar sem skiptu einhverju máli. Og það sem meira var: Hann vissi ekki svörin fyrirfram. Hann spurði af því að hann var raunverulega forvitinn sem er einkenni á greindu fólki. Þegar Antonis talaði, talaði hann hægt og bar fram hvert einasta orð þannig að það átti ekki að vera hægt að misskilja hann. Hann var maður rökræðunnar og fílaði Habermas í botn.

Af ástæðu sem ég nenni ekki að rekja hér fékk ég tækifæri til að kynnast Antonis utan kennslustofunnar en hann leigði íbúð á Chaucer-stræti, nálægt skólanum.

2.

Hann vaknaði yfirleitt aldrei fyrr en um hádegi. Ég heyrði þegar hann staulaðist á fætur og þegar hann dró síðan lappirnar eftir teppinu inn á klósett. Þar sat hann oft í dágóða stund og las þessar þykku helgarútgáfur enskra dagblaða. Þegar hann kom niður í stofu kastaði hann kveðju til manns - ekki glaður, ekki morgunfúll, bara í einhverju millibilsástandi sem varði þangað til hann fór í körfubolta um tvöleytið. Hann spilaði einn, í það minnsta aldrei með löndum sínum enda þoldi hann ekki Grikki. "Þetta eru vitleysingar," sagði hann og útskýrði síðan nokkuð nákvæmlega hvernig og af hverju ungir Grikkir misnotuðu breskt menntakerfi. Hann deildi fáum skoðunum með löndum sínum en hann átti sér samt dæmigerðan grískan draum: Hann langaði til að opna taverna þegar hann lyki námi.

Í ísskápnum sínum átti hann alltaf til fetaost, jarðarber og grískt jógúrt. Hann át tvisvar á dag og fyrri máltíðin samanstóð af jarðarberjum og jógúrti en sú seinni innihélt fetaost í miklu magni og svo eitthvað meðlæti. Ég er ekki að segja ykkur frá matarsmekk Antonisar af því að ég haldi að hann segi ykkur eitthvað mikilvægt um Antonis (sennilega gerir hann það samt) heldur var þessi reglufesta grundvallareinkenni á vini mínum. Allt hans daglega athæfi stjórnaðist af einhverjum reglum sem hann hafði komið sér upp. Það var t.d. bannað að setja diska í uppvöskunargrindina ef það var ekki búið að skola af þeim sápuna með heitu (ekki köldu) vatni fyrst.

Tækist honum að ljúka deginum í fullkomnu samræmi við settar reglur trúi ég að Antonis hafi farið sáttur að sofa.



Antonis var ekki þunglyndur en hann var þjakaður af einsemd. Kærastan hans til margra ára varð eftir í Aþenu þegar hann yfirgaf Grikkland og ári áður en ég kynntist honum hafði hún slitið sambandinu. Antonis var ekki enn búinn að jafna sig enda hafði hann ekki um neitt annað að hugsa. Ekki hugsaði hann um námið. Það var víst.

Einmanaleikinn sem hrjáði Antonis kom fram í gengdarlausri söfnunaráráttu. Hann safnaði allskyns hlutum; ljósmyndum úr dagblöðum, geisladiskum, tölvuleikjum. En safnið sem hann var stoltastur af var VHS-safnið sem þakti alla veggi stofunnar og fyllti svefnherbergið hans. Hann var áskrifandi af einhverri kvikmyndastöð og á hverjum degi tók hann upp að minnsta kosti eina mynd. Þetta voru flest allt myndir eftir leikstjóra sem ég kannaðist ekki við en ég man að Woody Allen og Jim Jarmusch voru í sérstöku uppáhaldi. Þið hefðuð allavega ekki fundið í safninu neinar myndir eftir George Lucas.

Ég sá hann hins vegar mjög sjaldan horfa á þessar myndir. Hann horfði bara á spólurnar sjálfar og horfði á safnið stækka og það var oft rætt að einhvern tímann ættum við elda góðan mat og horfa á nokkar kvikmyndir. Það varð aldrei neitt úr því og þegar Antonis yfirgaf Leicester haustið 2001 fór hann með safnið sitt á haugana.



Einsemd og vanlíðan vinar míns stafaði ekki bara af ástarsorg. Vandamál hans voru af öðru tagi líka:

Þegar Antonis yfirgaf Aþenu ætlaði hann ekki einungis að sækja sér menntun. Námið hafði veitt honum undanþágu frá herskyldu í nokkur ár en skrifstofa hersins var byrjuð að þrýsta á Antonis að koma heim. Hann var semsagt flóttamaður.

Herinn táknaði í huga Antonisar allt það sem hann taldi sig ekki vera: "Ég veit alveg hvernig týpur þetta eru sem eru í þessu," sagði hann einu sinni við mig. "Þetta eru strákar eins og eru með okkur í bekk, rugludallar sem hafa gaman af að skjóta úr byssu. Ég veit ekki hvernig ég kemst í gegnum þetta.” Ótti Antonisar við herinn átti eftir að draga hann útí enn meiri vandræði síðar. Þegar ég hitti hann í Aþenu tveimur árum síðar var hann nýbúinn gefa sig fram við yfirvöld: "Hefði ég ekki gefið mig fram núna hefði ég getað átt fangelsisvist yfir höfði mér," sagði hann. "Pabbi laumaði mér inn á krappameinsdeildina sem hann vinnur á og með sjúklingana í kringum mig emjandi af sársauka sá ég að í minni stöðu voru einungis tveir valkostir: Ég yrði annað hvort að fara í herinn eða gera mér upp samkynhneigð og sleppa þannig við herskyldu. Seinni kosturinn kemur ekki til greina. Ég geri foreldrum mínum það ekki,” sagði Antonis og hló. Þetta var samt ekki grín.

Ég held, svona eftir á að hyggja, að heimþráin hafi þjakað hann meira en hann lét uppi. Hann var, eins og aðrir útlagar, alltaf með hugann við heimabæinn.

3.

Ég trúi á ást við fyrstu sýn vegna þess að ég hef orðið ástfanginn við fyrstu sýn. Það gerðist í stofunni á jarðhæð hússins við Regent-veg númer 75 í Leicester. Stúlkan hét Eva og þegar ég sá hana fyrst byrjaði rödd mín að titra og ég gat ekki lokið við eina einustu setningu. Það voru engin orð nógu góð fyrir Evu. Vöxtur hennar var fullkomin kvenlegur vöxtur sem dró fram alla galla fullkomins karlmannsvaxtar. Hún var svo fínleg og svo rétt einhvern veginn. Og svo hafði hún þessi brúnu augu sem ég myndi semja lag um ef ég gæti.

En. Hún hafnaði mér.

Ég lét á það reyna að bjóða henni út þegar ég hafði legið andavaka í nokkrar nætur, hugsandi um hvernig við Eva gætum látið hjónaband okkar ganga, hvar ætluðum við að giftast, hvar við ætluðum að búa og hvaða tungumál börnin okkar ættu að tala.

Áður en ég gat borið fram spurninguna þ.e. hvort hún vildi koma á pöbbinn með mér sagði hún: “Jú, en bara sem vinir.” Þetta gerðist í lok september 2000 og það sem eftir lifði vetrar gat ég ekki horft framan í hana. En skömmin varð minni eftir því sem leið á veturinn því hún hafnaði fleirum. Þegar hún hafði hafnað Íslendingnum hafnaði hún Norðmanninum og síðan Spánverjanum. Við vissum aldrei hvernig Finnanum Ville Salonen gekk. En sem sagt, höfnunin var sem sagt ekki bundinn við mig persónulega, hugsaði ég. Hún hafnaði öllum.

Spánverjinn Viktor komst að sömu niðurstöðu og ég. “Hún er lessa,” sagði hann og málið var dautt hvað hann snerti.



Antonis hafði heyrt af þessari Evu og hitti hana síðan í partíi sem ég og félagi minn Ross héldum í tilefni af afmæli þess síðarnefnda. Þetta var í febrúar og Antonis hafði smátt og smátt verið að skríða útúr skelinni (með minni hjálp trúi ég). Hann og Eva náðu strax vel saman enda bæði tvö með áhuga á evrópskum kvikmyndum og ólíkt öllum öðrum í húsinu voru þau ekki orðin kófdrukkin um tíuleytið. Þau sötruðu fáein glös af rauðvíni.

Daginn eftir vaknaði ég heima hjá Antonis að venju og þegar ég kom fram í stofu var Antonis breyttur maður. Hann ljómaði allur og gerði góðlátlegt grín að ævintýrum íslensku fyllibyttunnar kvöldið áður. Hann var satt best að segja hálf manískur.

“Það er naumast þú ert hress?” sagði ég, röddin rám og þumbaraleg. Ég vissi auðvitað alveg af hverju Antonis var svona hress. Antonis, líkt og ég nokkrum mánuðum áður, var ástfanginn af Evu. Í gærkvöld hafði hann komist lengra en ég, Spánverjinn og Norðmaðurinn og það skipti Antonis máli. Ég veit það.



En andleg heilsa Antonisar varð aldrei betri en þetta. Næstu vikurnar sáum við honum hraka hratt og örugglega og við vissum að þetta myndi enda með hörmungum. Það var erfitt að fylgjast með þessu en það er ekki hægt að vara menn við sem langar að deyja píslarvættisdauða. Ég held nefnilega að Antonis hafi mjög fljótlega áttað sig á því að hann myndi aldrei komast alla leið með Evu. Þess í stað ætlaði hann sér alla leið á botninn. Hann ætlaði að niðurlægja sjálfan sig og fórna sér þarmeð fyrir einhvern málstað. Á þessum vikum og mánuðum breyttist líf hans í listaverk, harmrænt listaverk, og hann sýndi okkur hinum hvernig örvænting og einmanaleiki geta farið með ósköp venjulega stráka.

Þegar Eva hafði sagt Antonis að “vegir þeirra myndu ekki liggja saman með þeim hætti sem hann vildi” (hún sagði þetta nákvæmlega svona ef marka má orð Antonisar) byrjaði hann, taktvisst og örugglega, að brjóta sjálfan sig niður. Hann byrjaði að senda henni blóm sem hún neitaði að taka við, hann skrifaði henni bréf sem hún neitaði að lesa og síðan byrjaði hann að nota rannsóknarhæfileika sína (sem voru talsverðir) til að rannsaka fortíð Evu.



“Hver er þessi Ville Salonen?”

Ég þekkti röddina í símanum en spurði samt hver þetta væri. Klukkan var hálf tvö að nóttu til og ég þurfti að mæta snemma í skólann. Með því að spyrja var ég að vonast til að Antonis myndi afsaka sig og bjóðast til að hringja síðar. Hann gerði það ekki:

“Þú veist alveg að þetta er ég! Hver er þessi Ville Salonen?” endurtók Antonis.

Ville Salonen var frá Finnlandi og bjó á sama stigagangi og ég fram að áramótum en þá fór hann heim. Hann var stór og þrekinn náungi með myndarlegt tattú á hægri handlegg. Tattúið var einkennismerki fyrir herdeildina sem hann var í tveimur árum áður en hann hafði verið friðargæslusveitum Nato í Kosovo. Ville var að læra viðskiptafræði og hann var fínasti náungi og ekki jafn týndur og við hugvísindamennirnir. Hann vissi alveg hvað hann vildi útúr í lífinu og hafði engan tíma til að pæla í neinum tilvistarlegum spurningum. Eva var að læra listfræði og var eflaust orðin hundleið á mönnum eins og mér, Viktori og Antonis. Það var hægt að slaka á með Ville.

En ég veit ekki hvað gerðist á milli hans og Evu. Eitthvað gerðist allavega. Líklega sváfu þau saman. Það sögðu allavega sögurnar á heimavistinni en Ville var þögull. Ég spurði hann heldur aldrei að þessu þó samskipti okkar hefðu verið með þeim hætti að slík spurning hefði verið fullkomlega eðlileg. Ég þoldi sennilega ekki að heyra svarið.

“Ville? Ertu að meina Finnann?” sagði ég og lék heimskingjann. Ég ætlaði ekki að láta draga mig útí þennan forarpytt.

“Var eitthvað á milli hans og Evu?”

“Ég veit það ekki.”

“Hvernig náungi var þetta?”

“Æi, þetta var svona hermannatýpa…” Ég sá um leið og ég sleppti orðinu að ég hafði gert skelfileg mistök. Ég þarf varla að útskýra hvers vegna…

4.

Það er óþarfi að tíunda frekar þá niðurlægingu sem Antonis gekk í gegnum. Hann fann að lokum einhvern botn og hófst þá handa við að koma sér upp aftur. Hann fór heim til Grikklands haustið 2001, nokkrum vikum eftir að ég fór heim til Íslands.



Ég hitti hann aftur í maí 2003. Við mæltum okkur mót á huggulegu kaffhúsi sem ég valdi, við rætur Akrópólíshæðar. "Dæmigert fyrir túrista að velja svona dýran stað," sagði hann hálfsvekktur þó við værum að hittast í fyrsta sinn í tæp tvö ár.

Við sátum og drukkum kaffi og hann vafði sínar sígarettur á jafn yfirvegaðan hátt og hann hafði gert fyrir daga Evu. Hann var auðvitað áhyggjufullur enda stóð til að hann hæfi herskyldu eftir tíu daga en þó mátti greina sátt í fari hans. Það var loksins kominn einhver niðurstaða. Ekki niðurstaðan sem hann vonaðist eftir en þó niðurstaða samt sem áður. Seinna frétti ég frá vinkonu hans að á þessum tveimur árum í hernum hefði Antonis haft umsjón með litlu bókasafni í lítilli herstöð á Krít. Sennilega átti reglufestan í hernum vel við hann því honum leið vel í fyrsta sinn í mörg ár.

En við sátum í dágóða stund á kaffihúsinu undir Akrópólíshæð og spjölluðum. Við eyddum ekki einu orði á Evu. Við ræddum þess í stað “örugg” umræðuefni eins og tónlist. Þegar hann hafði sagt mér frá kostum og göllum Nocturama, nýjustu afurðar Nick Cave, í löngu máli sagði hann allt í einu:

“Ég er kominn með kærustu.”

“Nú?”

“Já, kynntist henni á tónleikum um daginn. Þú myndir kunna vel við hana. Hún spilar á gítar í Mötorhead kóverbandi.”

Ég hló enda átti ég erfitt með að ímynda mér Antonis á tónleikum með Mötorhead kóverbandi. Ég ætlaði að fara segja eitthvað hnyttið þegar Antonis bætti við:

“Ég þarf einmitt að drífa mig í apótek fyrir hana og kaupa svefnlyf. Hún hefur ekkert sofið í þrjár vikur.”

Ég sagði ekki neitt og spurði einskis. Ég gat það ekki. Þetta var jú sjálfur Antonis Foukarakis, maðurinn sem valdi alltaf flóknu leiðina sem var full af meðvituðum mótsögnum og sub-álitamálum.

11 september, 2006

Tónspil á fallegum degi í september

Ég: Jæja, eitthvað títt?

Pjetur í Tónspil: Jájá, ég er með það hérna á afgreiðsluborðinu.

Ég: Ég spurði nú hvort að það væri eitthvað títt en ekki hvort þú værir með eitthvað nýtt.

Pjetur: Ég veit það.

Ég: Nú? Jæja.

Geng að borðinu og renni yfir nýju sendinguna í rekkunum á afgreiðsluborðinu.

Ég: Æi, maður kaupir nú yfirleitt aldrei neitt nýtt. Nýjustu diskarnir manns voru gefnir út fyrir þrjátíu árum.

Pjetur: Hehe.

Ég: Það er satt!

Pjetur: Eins og þú sérð er mestmegnis nýtt/gamalt í þessari sendingu.

Það er rétt hjá honum. Sendingin inniheldur bönd eins og Kansas, King Grimson, Yes og svo meistaraverkið Bitches brew með Miles Davis. Hann fær náttla líka nýtt og ferskt stöff með state of the art-böndum eins og Rush og 38 Special.

Ég: Djöfull fíla ég Bitches brew.

Pjetur: Já er það? Hún er full sýrð fyrir minn smekk.

Ég: Já, finnst þér það?

Pjetur: Já.

Ég: Ég byrjaði að fíla hana þegar ég keyrði einu sinni suðurleiðina til Reykjavíkur. Fínt sándtrakk fyrir Vatnajökul.

Pjetur: Þú hefur semsagt fengið hjálp?

Ég: Hehe.

Gekk síðan út með Small change og Closing time með Tom Waits.

Knúturinn.

Tindabikkjur

Knúturinn hefur ekki nægan orðaforða til að lýsa fjallgöngum. Jón Hafliði skrásetur þær framvegis. Tékkið á þessu.

Knúturinn.

10 september, 2006

Þegar söguhetjan ykkar var minnt á stöðu sína í heiminum

Eftirfarandi er skrásetning á samskiptum mínum við afgreiðslustúlku í Kaupfélagi Héraðsbúa sl. laugardag. Þetta var seinni heimsókn mín í búðina en í fyrra skiptið gleymdi ég nefnilega að kaupa saltfisk sem ég steikti svo á pönnu um kvöldið.

Ég: Góðan dag.

Hún: Góðan dag...aftur.

Ég: Það er bara svona! Ég hélt að í augum afgreiðslufólks væri bara til einn andlitslaus og nafnlaus kúnni.

Hún: Nei, ekki alltaf.

Ég (hrikalega ánægður með sjálfan mig): Jahá. Og þú manst kannski hvað ég keypti síðast?

Hún (ögn pirruð): Heyrðu, ég man bara eftir þér af því að Helgi Seljan var fyrir aftan þig í röðinni.

Ég: Ó, ókei.

...

Viðbót kl. 13.

Tilbrigði við innblásin mússíkpistil sem finna má efst á bloggsíðu Einars Solheim:

"Jamm, ég mundi það um leið og ég ýtti á "senda" takkann að ég hafði séð nokkrar post-Fish plötur með Marillion í safninu þínu.

En það er þetta með poppmússík og hækkandi aldur. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfan mig en ég þykist vita hvernig mér tókst að endurnýja áhuga minn á popptónlist:

Þegar ég var unglingur voru tónlistarmennirnir ekkert síður mikilvægir en tónlistin sem þeir bjuggu til. Maður leitaði að fyrirmyndum og ég gleymi ekki hvað ég var ánægður þegar ég sá ljósmynd af REM í fyrsta skipti inní kóverinu á Document. Þetta voru nördar með gleraugu eins og ég! Þegar maður varð aðeins eldri og aðeins öruggari með sjálfan sig fór þetta að skipta minna máli.

Síðar, svona um tvítugt, lagði maður sífellt meiri áherslu á að leita uppi tónlist sem insperaði mann sem hljóðfæraleikara. Maður var að leita að flottum töktum og flottum breikum og hlustaði þal á bönd eins og Police, Rush og Genesis. Þegar maður lagði síðan kjuðana á hilluna hafði þessi athöfn, þ.e. að hlusta á tónlist, eiginlega engan tilgang lengur.

Áhugi minn á tónlist kviknaði svo aftur rækilega þegar ég fór til Englands haustið 2000 og kynntist þar náunga sem hafði brennandi áhuga á kántrítónlist, að vísu bundinn sérstaklega við Gram Parsons. Þessi félagi minn var almennt listhneigður og sagði við mig að til að njóta tónlistar "eftir gelgjuárin" yrði maður einmitt að nálgast hana útfrá þeirri forsendu að um list væri að ræða. Þetta væri nokkurs konar "leap of faith" því það væri ekki sjálfgefið að líta á popptónlist sem list (þetta er etv að hluta til það sem þú meinar þegar þú segir að maður verði að "gefa af sér").

Þetta hef ég reynt að gera allar götur síðan. Ég geri sem sagt allt aðrar kröfur til tónlistar en ég gerði áður. Og þar af leiðandi kaupi ég ekki lengur plötur bara af því að þær eru vinsælar heldur á ég mér bara lítinn hóp tónlistarmanna sem ég fíla sem listamenn; þeir búa til tónlist sem kennir mér eitthvað um sjálfan mig og tilveruna (þessi krafa hefur m.a. gert það að verkum að margar gamlar hetjur (s.s. Fish og Marillion) eru ekki lengur í miklu áliti hjá mér enda sér maður, svona eftir á að hyggja, að þetta voru og eru óttalegir vitleysingar).

En hvað um það. Ef popptónlist, og list yfir höfuð, kennir manni ekki eitthvað þá er hún ekki þess virði að veita neina athygli. Það er mín skoðun. Og þess vegna mun ég ekki syrgja popptónlist þegar (og ef) hún hættir að skilja eitthvað eftir sig."

Knúturinn.

08 september, 2006

Hilmar og Heart

Ég á nokkra sérvitra vini en sá sérvitrasti er tvímælalaust Hilmar Th. Bjarnason (símanúmerið hans endar á 007). Honum kynntist ég fyrst árið 1998 þegar hann kenndi mér fjölmiðlafræði í HÍ og áhrif hans, þá meina ég langtímaáhrif, eru talsverð á líf mitt. Í fyrsta lagi sagði hann mér fyrstur manna frá göldrum Pet sounds með Beach boys sem var upphafið á ástarsambandi mínu við Brian Wilson; í öðru lagi sagði hann mér frá Háskólanum í Leicester sem ég svo skráði mig seinna meir í og núna (s.s. í þriðja lagi) hefur hann sannfært mig um að hljómsveitin Heart er mun betra band en Led Zeppelin. Tékkið á plötunni Little queen og þið skiljið hvert ég er að fara.

Knúturinn.

07 september, 2006

Mömmustrákurinn Lúkas

Ég er fyrir löngu búinn að missa áhugann á Rockstar en horfði samt í gær. Magni var þreytulegur og augljóst að hann hefur engan áhuga á þessu giggi. Toby sýnir spretti og mun toppa á réttum tíma í næstu viku, Dilana er útbrunnin og Lúkas siglir áfram af sjálfsöryggi manns sem veit (og hefur vitað lengi segir heimildarmaður minn á Héraði) að hann mun sigra. Hann var eini afslappaði performerinn í gær (fyrir utan Magna sem nennir þessu ekki) og þess vegna var "þægilegast" að fylgjast með honum.

...

Sniðugt hvernig markaðsmennirnir hafa verið að pródúsera þáttinn undanfarið. Sé kenningin rétt um að Lúkas hafi átt að vinna frá byrjun er augljóst að "bad boy" ímyndin var ekki að virka á allt fimmtán ára liðið (fimmtán ára lið á öllum aldri) sem horfir á þáttinn og upp á síðkastið hafa þeir verið að sýna Lúkas sem "ég er sko einn af ykkur" - gæja. Hann Lúkas er semsagt alveg rosalega fínn (spilar borðtennis eins og við hin) þó þjáning hans sé meiri en okkar. Og svo er hann ógeðslega hæfileikaríkur í ofanálag.

...

Svo er þetta mömmudæmi hans líka alger killer. Mömmustrákar eru næmar tilfinningaverur sem kveljast fyrir okkur hin, eins og þið vitið. Toby er andstæðan. Augljóslega pabbastrákur með mynd af Steve Irwin upp á vegg í herberginu sínu. Þetta er barátta á milli þeirra tveggja.

Knúturinn - the cynical bastard.

06 september, 2006

Issjúið

Frétti í gær að mamma og pabbi væru að skilja. Hringdi í pabba:

"Ertu að skilja?"

"Skilja hvað, gæskur?"

"Nú, ókei. Þarf að þjóta, pabbi minn. Er bissí."

...

Þannig var það nú. Þvílík vonbrigði. Ég varð svo spenntur þegar ég heyrði þetta. Ég hugsaði: Loksins fæ ég eitthvað alvöru issjú til að skrifa um! Loksins verð ég skilnaðarbarn! Loksins verður líf mitt eitthvað annað en dans á rósum!

Eins og staðan er núna hef ég engin issjú. Nákvæmlega engin! Meira að segja kennarafíflin sem kenndu mér í grunnskóla gátu ekki drullast til að misnota mig.

Knúturinn.

05 september, 2006

Rokland

Jamm, nú á að filma Rokland. Fékk bókina í jólagjöf og hámaði hana í mig af krafti, var byrjaður að lesa næstu bók að kvöldi jóladags. Það þurfti engan snilling til að sjá að Hallgrímur skrifaði bókina vitandi að einhver myndi kvikmynda hana. Frásögnin er mjög cinematísk.

...

Ég var mjög hrifinn af Roklandi og lánaði Agli, mínum bókmenntamentor, bókina með þeim orðum að hún væri stórkostleg. Egill Arnaldur er vanur lesandi og segir bækur ekki stórkostlegar nema að vandlega íhuguðu máli. Þremur dögum síðar fékk ég bókina til baka með þeim orðum að þetta væri "þokkaleg saga en misheppnað listaverk." Samtalið var einhvern veginn svona:

Ég: Misheppnað listaverk? Halldór Guðmundsson var hrifinn, kallaði þetta 550 Sauðárkrók, sagði að bókin negldi niður lífið úti á landi eins og 101 negldi lífið í borginni.

Egill: Finnst þér hún gera það?

Ég: Uuuu...já, er það ekki.

Egill: Fannst þér kaflinn þar sem sjómennirnir voru að kasta barninu á milli sín löðrandi í sannleika um lífið úti á landi? Pabbi þinn er sjómaður úti á landi, myndi hann hafa tekið þátt í þessu?

Ég: Tja...

Egill: Hallgrími finnst sjómenn greinilega voðalega skrýtnir fuglar.

...

Egill var ekki að segja að Rokland væri "neikvæð" í garð lífsins úti á landi. Egill er ekki með svo lítið hjarta. Hann var bara að segja að þetta væri fyrst og fremst sýn Hallgríms, sýn manns úr 101 Rvk , á lífið úti á landi. Böddi, menntamaður og rehabiliteraður landsbyggðarmaður, fellur ekki í kramið í samfélagið á Sauðárkróki aðallega vegna þess að hann er svo klár. Fólk úti á landi er kannski ekki vitlaust en það nennir ekki lesa. Við, liðið úti á landi, erum saklaus náttúrubörn sem þarf að vernda fyrir stórfyrirtækjum eins og Alcoa... en þetta er eiginlega annar pistill.

...

Rokland, ekki frekar en Hafið hans Ólafs Hauks, gerir sem sagt ekki það fyrir landsbyggðina sem Rvk 101 gerði fyrir miðborgina. Slíkt segja eingöngu þeir sem hafa einungis komið útá land sem túristar. Hallgrímur náði essensinu í 101 af því að hann er miðbæjarrotta og skilur lífið í þessum "landshluta" innanfrá. Hann þarf ekki að setja sig í einhverjar mannfræðilegar stellingar eins og hann gerir í Roklandi.

Það verður þar af leiðandi Stefán Máni sem einhvern tímann nær smábæjaressensinu þegar hann skrifar bókina sem honum var ætlað að skrifa. Svona þegar hann hættir að vera reiður útí ræturnar.

Knúturinn.

04 september, 2006

Bob

Guðmundur Andri segir í síðustu Lesbók að nýja Dylan sé ekki sú besta síðan Blood on the tracks (þessa sölubrellu, þ.e. "sú besta síðan Blood", hafa útgefendur Dylans notað í mörg ár). Að mati Guðmundar er Oh mercy sú besta síðan Blood.

...

Á laugardaginn var ég sammála honum (ég vel að vísu Time out of mind). Mér fannst nýja platan eiginlega full lík þeirri síðustu, það vantaði eitthvað prógressjón. En þegar ég hlustaði á hana í gærkvöld var eins og eitthvað gerðist. Platan komst á annað level hjá mér. Hún opnaði sig örlítið.
...

Nýja platan dregur fram gallana á Time og Mercy því þó þær séu báðar stórkostleg listaverk eru þær ekki gallalausar. Galli þeirra beggja felst í þessum hljómi sem finnst á öllum plötum er upptökustjórinn Daniel Lanois kemur nálægt (U2, Robbie Robertson o.fl). Sérstaklega verður maður var við þetta á Time. Dylan vill greinilega fara ofan í ræturnar, semja gamaldags lög og flytja þau á klassískan hátt en Lanois vill jafnframt að þau hljómi gamaldags (mjög áberandi á Dirt road blues) og fyrir vikið verður platan, á köflum í það minnsta, örlítið - dirfist maður að segja þetta? - tilgerðarleg.

Eða nei, segjum frekar að hún sé ofhlaðin - á köflum.

Á nýju plötunni er andinn sá sami og á Time en hún er hins vegar löðrandi í áreynsluleysi. Það er ekki kostur í sjálfu sér en fyrir Dylan, sem verður bráðum sjötugur, er það aðdáunarvert.

Knúturinn.


01 september, 2006

Smá tilraun með möguleika internetsins

Þið sem þekkið mig hafið stundum spurt mig um doktorsverkefnið og útá hvað það gangi. Þið hafið fengið stutt og óskýr svör einfaldlega vegna þess að ég veit ekki svarið fullkomlega sjálfur. Um daginn var tekið viðtal við mig sem fer í fréttablað Geðhjálpar í haust og þá varð ég að leggja höfuð í bleyti og hugsa um verkefnið á íslensku.

Ég ætla að láta viðtalið flakka hérna (og skúbba Geðhjálp) og endilega ekki lesa þetta ef ykkur finnst fræðilegar pælingar þreytandi.

En ef þú nennir að lesa og ef þú kemur frá smábæ og átt einhverjar minningar (þetta skýrist betur í viðtalinu) endilega segðu frá þeim í kommentakerfinu (það skiptir ekki máli hvort þú ert anonymous eða ekki. Nafn þitt skiptir ekki máli) eða sendu mér tölvupóst á jka2@hi.is eða hringdu í mig í 895 9982, nú eða addaðu mér á MSN-ið (jonknutur@hotmail.com) og spjöllum. Ef þér finnst þetta bara áhugavert og vilt tala um þetta á einhvern hátt hafðu þá samband. Ég hef alltaf áhuga.

...

Rannsókn á tíðni og viðhorfum geðsjúkdóma á landsbyggðinni. Hvers vegna þetta rannsóknarefni?

Erlendar rannsóknir sýna að tíðni geðsjúkdóma virðist vera sú sama í þéttbýli og dreifbýli. Þetta er því ekkert sérstaklega rannsókn á tíðni geðsjúkdóma á landsbyggðinni heldur er meginmarkmið mitt er að draga upp mynd af hugmyndum fólks um geðsjúkdóma og geðsjúklinga þ.e. hvað þýðir það að vera geðveikur í litlu samfélagi. Geðsjúkdómar eru, eins og fleiri sjúkdómar eins og eyðni og berklar, nokkurs konar “móralskir” sjúkdómar í þeim skilningi að í huga fólks eru þeir miklu meira en einhver líffræðilegur kvilli sem við ráðum ekki við. Við höfum hugmyndir um hvernig týpur geðsjúklingar séu og hvaða týpur séu líklegastar til að fá geðsjúkdóma; við höfum hugmyndir um hvernig sé best að lækna geðsjúkdóma og koma í veg fyrir þá. Þessar hugmyndir geta síðan varpað ljósi á þau gildi sem ríkjandi eru í samfélaginu um hvað sé gott, hvað sé slæmt, hvað sé eftirsóknarvert, hvað sé hollt og hvað ekki. Í þessum skilningi lendir geðsjúkt fólk stundum í þeirri stöðu að verða einhvers konar hirsla fyrir “óæskilega” eiginleika; það er latt til vinnu, það er ófyrirsjáanlegt, ójarðbundið, óskynsamt, hættulegt og þar fram eftir götunum.

Má ætla að viðhorfin til geðsjúkdóma séu á einhvern hátt önnur úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu?

Ég hef ekki hugmynd um það en ég veit að það er hafin rannsókn á viðhorfum til geðsjúkra um land allt. Þetta er fjölþjóðleg rannsókn þannig að það verður hægt að bera Ísland saman við önnur lönd í þessu tilliti.

Nú er ef til vill meira skeytingarleysi um hag náungans í fjölmennari samfélögunum en úti á landi. Má ætla að umhyggja fyrir þeim sem höllum fæti standa sé meiri út um land en í borginni?

Ef fólk á góða fjölskyldu og er með einhverju móti tengt samfélaginu sem það býr í (er t.d. í vinnu, sækir sjálfshjálparfundi og þess háttar) þá er slíkur stuðningur afar mikilvægur og lykilforsenda þess að fólk geti náð sér – ég veit ekki hvort stærð samfélagsins geti verið einhver frumorsök mikillar eða lítillar umhyggju. Hitt er svo annað mál að í litlu samfélagi fylgjast íbúarnir ef til vill betur með hver öðrum en erlendar rannsóknir sýna að fólk sem glímir við geðsjúkdóma getur upplifað slíka “vöktun”, hvort sem hún er raunveruleg eða ekki, sem álag en það getur líka upplifað hana sem væntumþykju.

Oft eru fordómarnir sagðir meiri úti á landi en í borginni. Telur þú að þetta sé raunin?

Þetta viðhorf tengist ímyndinni um ómenntaða og ósiglda sveitamanninn sem veit lítið og óttast það sem hann þekkir ekki. Líklega eru fordómar í garð geðsjúkra allsstaðar álíka miklir. En þetta þarf að skoða.

Viðtöl við geðsjúka út um land. Hvernig lýsir það fólk reynslu sinni?

Ég er ekki enn kominn á það stig í rannsókninni að taka systematísk viðtöl við fólk með geðsjúkdóma og get því ekki svarað þessari spurningu af neinu viti. En rannsókn á því hvernig fólk með geðsjúkdóma upplifir lítil samfélög er eitt af því sem ég hyggst einbeita mér að í minni rannsókn á seinni stigum hennar. Við erum með allskyns hugmyndir um hvernig lítil samfélög séu og af hverju þau ættu að vera góð eða slæm fyrir fólk með geðsjúkdóma. Umfram allt er þetta spurning sem geðsjúkt fólk á að svara. Mér finnst til dæmis nálægðin við há og brött fjöll einn af helstu kostum þess að búa á Austurlandi en á ég að reikna með að öðrum finnist það líka? Sumir gætu fyllst innilokunarkennd.

Þeir sem heilbrigðir eiga að teljast, hvernig lýsa þeir skoðunum sínum og viðhorfum gagnvart geðsjúkum?

Það sama er upp á teningnum hér. Ég hef aðeins tekið fáein viðtöl og á þessu stigi er allt of snemmt að fara greina frá einhverjum sameiginlegum þræði í viðhorfi fólks til geðsjúkra. Það eina sem ég get sagt er að það er alveg augljóst að fólk hefur ákveðnar hugmyndir um geðsjúkt fólk og allir virðast eiga sér einhverjar minningar um geðsjúkt fólk úr æsku og það er athyglisvert í sjálfu sér að skoða þessar minningar. Ég talaði við konu í Reykjavík sem bjó í smáþorpi á Austfjörðum á fimmta áratug síðustu aldar og það var áhugavert að hlusta á hana tala t.d. um Kleppspítala. Hún sagði að ef það fréttist að þú hefðir farið til Reykjavíkur á Klepp hafi það verið nokkurs konar dauðadómur. Það var ekki nokkur leið fyrir þig að snúa til baka í þorpið. Þetta hafði maður svosem heyrt áður en síðan byrjaði hún að segja mér frá starfseminni á Kleppi þ.e. hvað voru sjúklingarnir látnir gera. Það var ekki síður áhugavert því henni var sagt að sjúklingar mokuðu sandi í tóma tunnu allan liðlangan daginn, alla daga ársins.

Þá sagði hún mér frá draugagangi í þorpinu sem hún bjó í en vofa hafði víst sést á kreiki nokkrar nætur í röð og íbúarnir voru hræddir. Vofan var í hvítum kufli og gekk líkt og hún væri þyngdarlaus. Lögregluþjónninn í plássinu setti upp tilkynningu á ljósastaur fyrir utan kaupfélagið og þar kom fram að íbúum væri leyfilegt að skjóta drauginn. Eftir þetta hvarf draugurinn. Lögreglan lagði saman tvo og tvo (draugar gátu ekki verið hræddir við dauðann!) og fór beinustu leið heim til “Erlu Klikk” (það gat ekki verið nein önnur) og fann þar bæði hvítt lak og gorma sem hún hafði fest við fæturna!

Þetta eru auðvitað stílfærðar sögur og viðmælandi minn var ekki að segja mér þetta sem einhverjar objektívar frásagnir . Við vorum bæði meðvituð um að hún var að segja mér sögur en svona man hún þetta samt sem áður og ég hef heyrt fleira fólk úr sama þorpi segja mér þessa sömu sögur – jafnvel fólk sem var ekki fætt þegar þetta gerðist. Sagan er því orðinn hluti af sameiginlegu minni bæjarins. Ég vil taka fram að mér finnst þetta, eins og svo mörgum öðrum, bráðfyndin saga en bæði þessi saga og minningar viðmælanda míns um Klepp ýta upp á yfirborðið ansi lífseigum hugmyndum um geðsjúkdóma og geðsjúklinga þ.e. að þeir séu óútreiknanlegir, ekki hægt að nota í vinnu og kannski ekki síst að geðsjúkt fólk sé í endalausu sturlunarástandi.

Ég á svona minningar líka. Ég er fæddur og alinn upp í smáþorpi og man eftir að hafa heyrt sögur um skrýtna fólkið í bænum og kenningar um hvernig það hafi orðið skrýtið. Til dæmis var einn af þeim skrýtnu fullkomlega eðlilegur þar til hann fór suður til Reykjavíkur í Háskólann. Þar las hann víst yfir sig og kom til baka stórfurðulegur, byrjaður að safna hári, skeggi og nöglum! Það þekkja flestir þennan frasa “að lesa yfir sig” og í þessu tilviki segir frasinn manni hvernig við tengjum geðsjúkdóma við eitthvað “útlent”, eitthvað sem við teljum að standi okkur fjarri og ógni okkur jafnvel.

Ég held að það sé ekki nein oftúlkun að segja að þessar hugmyndir tengist tortryggni þorparans (sem þarf ekkert endilega að búa á landsbyggðinni) í garð menntamanna, stundum kallað menntahatur (anti-intellectualism), og höfuðborgarinnar (birtist t.d. í hinu háðska orði SAS-ari - sérfræðingur að sunnan sem kann ekkert þó hann hafi háskólapróf). Að tengja sjúkdóma við "þá" eða "hinn" (the other) endurtekur sig í mannkynssögunni. Til dæmis kölluðu enskir sárasótt í lok fimmtándu aldar "french pox" og Parísarbúar kölluðu hana "morbus Germanicus".

Telur þú að viðhorfin gagnvart geðsjúkdómum sé mildari nú en áður. Hveru hefur aukin umræða og meiri upplýsingar breytt?

Þau hafa vafalítið breyst og auðvitað hefur aukin vitneskja um geðsjúkdóma leitt til betri meðferðarúrræða. Bandarísk rannsókn sem ég las fyrir stuttu sýndi þó að þar hafa fordómar fólks síst minnkað á undanförnum árum. Við virðumst t.d. enn halda að fólk með geðsjúkdóma sé líklegra til að beita ofbeldi en annað fólk. Og maður þarf svosem ekkert að horfa lengi á sjónvarp til að sjá að geðsjúkt fólk er representerað með mjög ákveðnum hætti í bíómyndum - geðsjúki raðmorðinginn er auðvitað klassískt dæmi. Ég held að þarna séu fjölmiðlar ekki að búa til neinn veruleika. Slíkar hugmyndir virðast einfaldlega vera rótfastar í samfélaginu.

Af hverju valdir þú þér þetta ritgerðarefni?

Bróðir minn veiktist af geðklofa fyrir nokkrum árum en hefur náð ótrúlega góðum bata. Um það leyti sem hann veiktist byrjaði ég í félagsfræði við Háskóla Íslands og ætlaði að gera BA verkefnið mitt um stöðu geðsjúkra á Austurlandi en ég vissi ekki hvernig ég ætlaði að fara að því. Hugmyndin var því sett í pækil í nokkur ár. Eftir BA námið fór ég til Englands í meistaranám og fékk þar áhuga á því sem kallast menningarfræði, sem er svona blanda af hinum ýmsu félags- og hugvísindum, og þar kynntist ég aðferðum sem ég gat notað til að skoða þetta viðfangsefni eins og mig langaði til að skoða það. Á þessu stigi rannsóknarinnar hef ég fyrst og fremst áhuga á hinni huglægu stöðu geðsjúkra í huga fólks og hvað þessar hugmyndir segja okkur um samfélagið sem við búum í.

eXTReMe Tracker