Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

24 júlí, 2005

Panik

Úff, þvílíkt panik búið að vera í gangi. Var að vafra á netinu og endaði inn á Spámaður.is þar sem hægt er að reikna út "lífstölu" sem ég veit reyndar ekki hvað er. Allavega, maður setur inn fæðingardag, mánuð og ár og svo kemur tölvan með einhverja tölu - svokallaða lífstölu. Lífstalan mín er fjórir sem táknar grundvöll, reglu, þjónustu og hægan en stöðugan vöxt.

Var svona alveg bærilega sáttur við þetta þó talan hefði kannski mátt vera örlítið meira sexí. Eníveis, mig langaði til að tékka hvort einhverjir nafntogaðir menn í íslensku samfélagi væru með sömu lífstölu og ég og eyddi því drjúgum tíma í að finna kennitölur manna á borð við Sigurjón Sighvats og annarra sem ég lít upp til og smella þeim inní reiknilíkanið. En nákvæmlega ENGINN var með fjóra. Allir voru með einn eða eitthvað hrikalega svalt t.d. þrjá sem táknar tjáningu, félagsmótun, listir og lífsnautnir. Í svekkelsi mínu pikkaði ég inn fæðingardag Steingríms Njálssonar og DISKÓ! Auðvitað var Njálgurinn með sömu lífstölu og ég! Þvílíkt vonleysi! Þvílík ósanngirni!

Ég ákvað að una mér ekki hvíldar fyrr ég fyndi einhvern með lífstöluna fjóra. Klukkutíma síðar fann ég minn mann: Mr. David Oddsson.

Ég er farinn í háttinn.

Kv.

JK.

23 júlí, 2005

Back from da States

Bandaríkin voru eins og maður ímyndaði sér: Stór, viðbjóðsleg og frábær. Ég nenni ekki að fílósófera mikið um þessar vikur í fyrirheitna landinu en ég óttast að þetta ferðalag, sem hafði verið draumur minn í nokkur ár, muni verða kveikjan að fleiri ferðum til Bandaríkjanna. Gæti t.d. vel hugsað mér að dvelja í hálfan mánuð í Memphis TN og háma í mig mússíkmenninguna við Mississippifljótið - tveir dagar eru ekki nærri nóg. Svo væri gaman að fara aftur til San Fransisco. Held að maður falli ágætlega inn í hippakúlturinn þó maður sé lélegur hassreykingamaður.

Áfangastaðurinn í ferðalaginu var vitaskuld vegurinn sjálfur en við munum hafa ekið tæplega fjögur þúsund mílur á þremur vikum. Þar af ókum við frá Memphis til Las Vegas á fjórum dögum. Þvílíkt og annað eins! Það var einmitt í Oklahoma sem ég var böstaður af þjóðvegalöggunni fyrir of hraðan akstur. Ég ók "siðsamlega" eftir það enda vildi ég ekki fá annað trúfífl í löggubúningi með blikkandi ljós á eftir mér.

Við ókum meðal annars á hinum fræga Route 66 en hann er, eins og maður hefði getað sagt sér sjálfur, alltof kommersjal. Það var hægt að fá allt merkt Route 66 hvort sem það var "Route 66- hamborgari" eða "Route 66 - klósettpappír". Kaninn er voðamikið fyrir svona vörumerki eins og við vitum. Mæli frekar með þjóðvegi 1 sem liggur meðfram Kyrrahafsströndinni. Vegurinn er betri og annað, sem er mikilvægara; kaffið er þúsund sinnum betra. Þá er ekki fjörutíu stiga hiti við ströndina eins og í Nevada og Arizona. Guð, hvað mér leið illa þarna í eyðimörkinni.

Ég mun eflaust blogga meira um þessa ferð. Það verður þó að líða einhver tími því ég man ekkert í dag. Mér finnst þessi ferð ennþá svo óraunveruleg. Mér finnst eins og hún sé gamall draumur sem farinn er að dofna verulega. Ég man bara óljóst eftir hvítum sandi og háum öldum sem virtust vera miklu stærri en þær sem maður sér skella á Múlann.
...

En maður er sem sagt kominn aftur í þorpið og værð þess er smám saman að færast yfir mann. Ég hef verið duglegur að ganga á fjöll enda fer tækifærunum að fækka. Ég flyt frá Neskaupstað um miðjan ágúst og hef störf hjá hinu virðulega DV föstudaginn 19. ágúst. Mér er sama hvað fólk segir um Dagblaðið. Allt frá því að Mikael tók við því hef ég verið dyggur lesandi þó auðvitað finnist manni ýmislegt fara úrskeiðis. Hefði t.d. ekki verið með "Snyrtibudduna" áfram sem fastan lið í helgarútgáfunni.

Það er soldið skemmtilegt að segja fólki frá þessu. Það er engu líkara en að maður sé að fara vinna fyrir Satan sjálfan þegar maður segist vera fara á hið stórskemmtilega Dagblað. "Ég trúi því ekki að þú sért að fara á þetta sorprit," sagði einhver þorparinn við mig um daginn og mér var skemmt. Alltaf gaman að æsa fólk upp.

En hvaða rugl er þetta að DV sé sorprit? Að kalla DV sorprit er eins og að segja að Mogginn sé virðulegur! Fólk sem notar þetta orð yfir DV veit ekki um hvað það er að tala og hefur sennilega aldrei ferðast út fyrir Ísland - er því heimskt í upphaflegri merkingu þess orðs. Sorprit eru vissulega til en þau finnast ekki á Íslandi. Þú þarft að fara af þessu afskekkta skeri til að lesa alminilegan sora. Tékkið á Daily Sport næst þegar þið skreppið til Englands. Það er sannkallað sorprit og alveg djöfulli skemmtilegt sem slíkt. Daginn eftir sprengingarnar í London voru þeir með bera bossa á forsíðunni á meðan allir aðrir fjölluðu um hryðjuverkin þ.á.m. hið íslenska DV.
...

Mússíkneyslan hefur verið talsverð undanfarið. Geisladiskar eru ódýrir í Bandaríkjunum og keypti ég m.a. diska með Peter Gabriel, Marianne Faithful, Big Star og Little Feat. Allir diskarnir komast í spilarann en Gabriel oftast. Það kemur mér skemmtilega á óvart hvað So hefur elst vel þó hún sé smekkfull af eighties reverbi. Lögin standa fyrir sínu, sérstalega Red rain.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker