Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 janúar, 2007

Lexíur

Stundum er vinnan mín skemmtileg. Reyndar svo skemmtileg að ég gæti auðveldlega lengt vaktirnar mínar um tvo klukkutíma án þess að taka eftir því. Ein besta lexían sem ég hef lært af "strákunum mínum" er að sigur er huglægur, hann er bara í hausnum á manni. Þannig gladdist einn af vinum mínum ógurlega í hvert skipti sem skorað var í gær og þá skipti engu hver eða hverjir skoruðu.

"En Danir unnu, maður!" sagði ég við vin minn í leikslok.

Hann yppti öxlum og skoraði svo á mig í fótboltaspilið. Mér tókst að skora tvö hundruð fjörutíu og sjö mörk áður en hann skoraði sitt fyrsta en þetta eina mark færði honum meiri ánægju en þessi tvö hundruð og eitthvað færðu mér samanlagt. Þegar hann var búinn að dansa sigurdansinn gekk hann til mín og klappaði mér á bakið. Hann hughreysti mig. "Það gengur betur næst," heyrðist mér hann segja og svo gekk hann fagnandi inn í svefnherbergi!

Nú veit ég vel að ég staðan var tvö hundruð fjörutíu og sjö mörk gegn einu mér í vil en samt tapaði ég!

Ég endurtek því: Þetta er allt í hausnum á manni.

30 janúar, 2007

Dánlód

Stal í fyrsta sinn hljómplötu á netinu. Nánar tiltekið nýju plötunni með Noruh Jones. Með bullandi sektarkennd yfir þessu. En fín plata engu að síður. Svona tvöfaldur latte-mússík.

Enn um Dylan

Þættirnar hans Magnúsar um Bob Dylan hafa ýtt mér útí endurskoðun á nokkrum plötum sem hingað til hafa ekki verið hátt skrifaðar hjá mér. Ég hef t.d. aldrei verið neitt óskaplega hrifinn af Desire frá 1976 en eftir umfjöllun meistarans sl. sunnudag hef ég hlustað á hana í nokkur skipti. Ég keypti Desire á sínum tíma af því að ég las einhvers staðar að hún væri jafn góð og Blood on the tracks en varð svo fyrir miklum vonbrigðum því Desire er allt öðruvísi plata en Blood. Desire er glaðleg og skemmtileg en Blood er dramatísk uppgjörsplata. Því skal þó haldið til haga að Sara, ein besta ballaða Dylans, er á Desire.

...

Og hvað er ég að lesa, spyrjið þið þá. Ég er að lesa sjálfsævisögu Mark Twains sem ég fann í bókabúð Máls og menningar síðast þegar ég var í bænum. Ég var að leita að annarri ævisögu um hann þegar ég rakst á þessa en ég vissi ekki einu sinni að hann hefði skrifað sjálfsævisögu. Eins og menn geta ímyndað sér, hafi menn á annað borð gaman af að lesa Mark Twain, skrifar hann drepfyndna sögu um sjálfan sig. Ég er kominn á þann stað í bókinni þar sem blaðamennskuferill hans er að hefjast. Twain skrifaði til að byrja með mest í héraðsfréttablöð og maður kannast óneitanlega við margt í lýsingum hans á vinnu héraðsfréttamannsins.

Til dæmis krafa þorparanna (fyrst og fremst ríkisstarfsmanna, íþróttafólks og eldri borgara) um að blaðamenn mæti á hvern einasta atburð, sama hversu ómerkilegur hann er, og skrifi um hann. "It was an awful slavery for a lazy man...," segir Twain í sjálfsævisögunni um svona vinnu og lýsir því síðan hvernig hann varð smám saman uppiskroppa með orð til að segja frá svona samkomum.

29 janúar, 2007

Eftirsjá

Mitt helsta áhugamál upp á síðkastið er rippun á plötusafninu mínu. Ég hef gripið í þetta reglulega síðan á föstudag og gengur svona ágætlega. Búinn að rippa um tvö hundruð diska og á, á að giska, tvö hundruð eftir. Ég hef verið virkur plötukaupandi í meira en tuttugu ár og hef örugglega keypt yfir þúsund plötur en ótal flutningar á sl. tíu árum hafa greinilega komið niður á safninu. Svo gaf Keli bróðir vinílplöturnar mínar á meðan ég var í Bretlandi. Það mun ég aldrei fyrirgefa honum.

Meðal þess sem Keli fór með í Kolaportið var árituð 12 tomma með Quireboys. Hvað haldið þið að þessi plata myndi kosta í dag? Þúsundir ef ekki milljónir skal ég segja ykkur.

...

Annars er ég búinn að vera hryllilega andlaus uppá síðkastið og get ekki einbeitt mér að neinu. Leiðindaatviki í vinnunni er sennilega þar um að kenna.

28 janúar, 2007

Eitt og annað smálegt

Er að hlusta á Megas flytja sögu Bob Dylans á Rás 2. Þetta eru frábærir þættir sem enginn áhugamaður um tónlist má missa af. Svona á útvarp að vera.

...

Fór á kommablót í gær. Það var gaman enda sat ég til borðs með skemmtilegu fólki. Annállinn var hins vegar alltof langur. Ég skil ekki af hverju þeir semja ekki þétta og góða fjörutíu mínútna langa innansveitarkróníku í staðinn fyrir þessa nær tveggja klukkustunda löngu fyllerísrevíu.

...

Ég sat m.a. með þremur Alcóum. Þeir virtust þreyttari en aðrir og geispuðu mikið.

25 janúar, 2007

Tíminn

Sit hér við nýju tölvuna mína og rippa safnið mitt inná hana. Núna er ég að rippa Love is hell með Ryan Adams. Hugsanlega var Ryan-æðið full yfirdrifið...

Toto

Við bræður erum búnir að kaupa okkur miða á Toto í sumar. Ég veit að sem rokksnobbari á ég ekki að snerta þessa tónleika "with a ten feet pole" en ég ætla að láta mig hafa það. Á svona tveggja ára tímabili frá 1994 til 1996 hlustaði ég mikið á þessa lífseigustu stofnun amerísks iðnaðarrokks en ég mun aldrei, aldrei, aldrei viðurkenna það. Opinberlega hlustaði ég á Beck og TheThe á þessum tíma.

Fórnarlambið

Það er orðið tabú á þessu fjandans Íslandi að vorkenna sjálfum sér. Fremji maður slíkan glæp er maður annað hvort að hegða sér eins og "fórnarlamb" eins og sérfræðingar í alkafræði segja eða eins og "píslarvottur" eins og hatursmenn alkóhólista segja. Nú og svo eru það þeir sem benda manni á allt liðið í Afríku sem sveltur. "Sjáðu þessi hungruðu börn og svo situr þú hérna og vorkennir þér, grúttimpraður," segir þetta lið og þykist vera voða sniðugt. Þykist hitta naglann á höfuðið! Aumingjar!

Svo það sé á hreinu þá aðhyllist ég ekki afstæðishyggju þegar kemur að aumingjaskap. Mér líður ekkert betur þó að það séu einhverjir til sem líður jafnvel enn verr. Ekki að ég segi neitt í þessum dúr við þetta lið. Ég segi bara "Ókei, ég skal drífa mig á fætur." Ég er svo mikill aumingi!

...

Tölvan mín kom biluð uppúr kassanum. Ég trylltist. Ég er að skrifa bók sjáiði til og svona lagað eyðileggur einbeitinguna. Þetta gerðist:

Jón: Djöfulsins kokksökkerar (átti við liðið hjá Tölvulistanum)!

Esther: Svona nú, Jón minn. Við skulum bara hringja í búðina. Það er örugglega ekkert mál að laga þetta. Ég skal meira að segja hringja fyrir þig, ókei?

Jón: Ókei. Enda myndi ég ekki bera ábyrgð á orðum mínum ef ég næði í þennan fokkins kokksökker!

Esther tekur upp símann og hringir: Hmmm...þeir svara ekki og ég sé á heimasíðunni þeirra að þeir lokuðu fyrir hálftíma.

Jón: Djöfulsins kokksökkerar! Hvernig stendur á því að ég kaupi alltaf bilaðar græjur! Er þetta eitthvað moðerfokkin djók?! Ég ætla að taka þennan kokksökker og slíta af honum nefið næst þegar ég sé hann! (þarna sparka ég í ryksugu og fæ rörið í hausinn. Þetta er ekki vont en samt leggst ég niður og emja. Eins og aumingi býst ég við).

Esther: Æi, greyið mitt!

Jón: Hvað er að gerast eiginlega?! Þessi dagur byrjaði svo vel!

Esther: Heyrðu, hringdu bara í þennan strák sem vinnur í búðinni og biddu hann um koma. Það er bara nýbúið að loka búðinni. Ég myndi allavega gera það. Þetta er ný tölva.

Jón: Ha?

Esther: Hringdu bara í strákinn. Nafnið hans hlýtur að vera á kvittuninni. Láttu hann bara heyra það! Ég væri allavega brjáluð útí hann ef ég væri þú.

Jón: Bíddu, ég fer ekkert að hringja í hann. Það er laugardagur.

Esther: Og hvað með það? Hann er örugglega ennþá í búðinni.

Jón: Heyrðu, ég læt það ekkert bitna á einhverjum afgreiðslumanni þó tölvan mín sé biluð. Er ekki allt í lagi hjá þér? Þetta er ekkert mál! Þetta er bara tölva!

22 janúar, 2007

Úff...

Keypti tölvu á hundrað og tuttugu þúsund og skilaði henni í morgun. Gat ekki ræst hana. Keypti mér lampa í IKEA á þúsund kall. Klikkar aldrei. Bitur? Ójá.

...

Blogger er í tómu veseni þannig að það verður lítið bloggað á næstunni. Kannski maður flytji sig yfir á Moggabloggið...Sorrí Stefán...

19 janúar, 2007

Drög að ferðahandbók fyrir Neskaupstað

Neskaupstaður er í mínum huga hringur eða rúntur og þess vegna skiptir ekki máli hvar ég byrja. Haldi maður sig við hringinn endar maður alltaf á sama stað. Það er eðli hringa eins og þið vitið. En við skulum ekki vera að flækja þetta. Við byrjum á byrjuninni sem í huga sumra er jafnframt endastöð.

Kirkjugarðurinn

Minnsti legsteinninn í kirkjugarðinum í Neskaupstað er legsteinninn hennar Siggu ömmu.

Þegar við fegðar setjum blóm á leiðið hennar á aðfangadag tökum við okkur góðan tíma því hafi snjóað getur tekið sinn tíma að finna það. Stundum, þegar menn heilsa upp á gamla kunningja í kirkjugarðinum, sparka þeir í legsteininn hennar ömmu haldandi að hann sé bara hvert annað grjót, grípa svo um tánna á sér og hvæsa, hoppandi um á öðrum fæti: “Djöfulsins, helvítis, andskotans…” Vegfarendur sem sjá þetta og heyra (og vita ekki enn hvað þessi minnsti legsteinn kirkjugarðsins í Neskaupstað er hættulegur) geta orðið skelkaðir og af þessum sökum eru margir Norðfirðingar, jafnvel á okkar upplýstu tímum, enn þann dag í dag hræddir við drauga.

Ég tel, og aðrir líka býst ég við, að legsteinninn endurspegli sjálfsmynd fjölskyldunnar. Steinninn hennar ömmu er ágætis dæmi um þetta. Við erum friðsamt fólk, við niðjar fólksins frá Krossi í Mjóafirði, og við flækjumst aldrei fyrir. Nema þá þegar einhver sparkar í okkur. Býst ég við. Við kunnum allavega að biðjast afsökunar.

Stærsti legsteinninn í kirkjugarðinum er legsteinn Ingvars Pálmasonar, framsóknarmanns og fyrrum alþingismanns og ráðherra. Ingvar er einn af fræknustu sonum Norðfjarðar og þess vegna er legsteinninn hans stór. Svo stór reyndar að hann varpar skugga á nágrannana. Ég hef einu sinni, þá verulega ölvaður af alveg hreint bærilegum landa sem frændi minn bruggaði, notað hann sem skjól fyrir austanrokinu til að kveikja mér í vindli. Ég biðst forláts á því auðvitað. Þá gengdi hann mikilvægu hlutverki í stjörnustríðsleikjunum í gamla daga. Ég biðst vitaskuld aftur forláts.

Aðrir legsteinar í kirkjugarðinum í Neskaupstað eru annað hvort stærri en legsteinninn hennar ömmu eða minni en legsteinninn hans Ingvars.

Nóg um það. Þegar ferðamaður heimsækir kirkjugarðinn í Neskaupstað er gott fyrir hann að taka með sér heimamann á sjötugsaldri. Með gott minni. Gamlar kjaftasögur, frá þeim tíma þegar Norðfirðingar voru ekki upplýstir, eru nefnilega mun betri en þær nýju. Og þegar ég segi “upplýstir” þá á ég við ljósastaura en ekki menntun. Ég vil að það sé á hreinu.

Vitinn

Örlítið utar við kirkjugarðinn er vitinn á Norðfirði. Fyrir Norðfirðinga fædda fyrir ’50 vísar vitinn sjófarandum leiðina inn Norðfjörð en fyrir Norðfirðinga fædda um og eftir ’70 (af X og @-kynslóðinni) er þetta nauðsynlegur áningastaður “rúntsins”. Þarna, á þessum endalokum veraldar (því austar kemst þú ekki akandi), snúum við Norðfirðingar við og ökum aftur inn í þorp. Við leggjum bílnum gjarnan í nokkrar mínútur við vitann og látum vélina ganga, slökkvum ljósin og horfum útá flóa. Vélin malar og vélarhljóð hafa löngum róað okkur Norðfirðinga. Og við látum okkur dreyma. Um alla skapaða hluti. Sumir láta sig dreyma um að fara en fyrir aðra er nákvæmlega þessi staður og þetta útsýni besta ástæða í heimi til að fara hvergi.

Ykkur að segja þá kyssti ég fyrstu kærustuna mína í fyrsta skipti við Norðfjarðarvita. Aðeins utar trúlofaðist ég henni. Það var nefnilega í tísku um miðbik síðasta áratugar aldarinnar sem leið að ungt fólk í Neskaupstað trúlofaði sig. Sex mánuðum síðar komst í tísku að skilja.

Fyrir innan vitann er tjaldstæði sem fyllist af ferðamönnum í júlí og ágúst. Þeim finnst skrýtið að sjá þessa miklu umferð niðrá vita. Bílarnir aka þangað niðureftir og aka svo til baka og koma síðan aftur eftir tíu mínutur eða korter og síðan endurtekur þetta sig aftur og aftur og aftur og aftur. Einu sinni spurði þýskur ferðamaður mig hvort þetta væri einhvers konar trúarathöfn eða “ritjúal”. Fíflið hélt sennilega að hann væri á meðal villimanna! Ég ansaði honum ekki. Sumt á maður ekki að útskýra.

Held að þetta sé þá bara komið.

18 janúar, 2007

Svona lítur hún út!

17 janúar, 2007

Þegar bloggarinn stíflaðist...með lappirnar á bólakafi í...Hér fást SS pylsur!

Í gær ritstíflaðist bloggarinn í fyrsta skipti síðan í júní á síðasta ári.

...

Ég sat fyrir framan skjáinn í þrjá klukkutíma og setti síðan saman þessa IKEA færslu sem þið lásuð í gær. Það er gamalt trix að skrifa um ritstífluna sína en ég ætla ekki að gera það. Allavega ekki í löngu máli. Vil bara segja þetta:

Ástæðan fyrir stíflunni er símtalið frá blaðamanninum - það fipaði mig og ég lenti á einu hrikalegasta hégómafylleríi sem ég hef lent á lengi. Ég gekk um bæinn, sperrtur og með galopin augu, og heilsaði fólki að fyrra bragði (sem ég geri aldrei) svo það myndi nú örugglega segja þegar það verður spurt af aðdáendum mínum frá útlöndum eftir nokkur ár að ég sé "alveg hrikalega alminilegur".

En ég kominn niðrá jörðina aftur. Tíu ára strákur með snjóbolta sá til þess. Krakkaandskoti!

...

Í kaupfélaginu á Egilsstöðum er kominn nammibar á stærð við Kínamúrinn (hlutfallslega séð) og svona heimsborgarahorn með mexikóskum og tælenskum mat. Búðirnar auglýsa ekki lengur "Hér fást pylsur!" heldur "Hér fást SS pylsur!" Mér líst ekki á blikuna. Esther langar til að flytja til Mjóafjarðar. Held barasta að ég sé að verða sömu skoðunar. Núna ætti ég að vinda mér í jarðaganga(gangna?)pistil en ég nenni því ekki.

...

Ég fer á kommablót í Neskaupstað undir lok mánaðarins. Hef aðeins farið tvisvar á þetta blót sem heimamönnum finnst jafnvel "skemmtilegra en Spaugstofan". Fyrst fór ég árið 1992 og síðan árið 2004. Fyrra skiptið var mun eftirminnilegra því það var þá sem ég var að gæla við kálfann á stelpunni sem ég var skotinn í (ég kallaði þetta lengi vel fótanudd). Seinna um kvöldið ákvað ég að fara "alla leið" en fór þá uppí klofið á Fjalari vini mínum sem sat við hliðina á henni. Hann var líka skotinn í henni. Ég mun aldrei gleyma því þegar hangikjötsbitinn hrökk uppúr honum og lenti á diski mannsins sem sat við hliðina á mér.

"Er ekki allt í lagi með þig?" spurði hann Fjalar.

Ég man ekki hverju Fjalar svaraði.

16 janúar, 2007

IKEA og blaðamaður hringir

Fór í IKEA um helgina og mikið helvíti var hressandi að vera ekki bitri piparsveinninn svona einu sinni. Ég og Esther leiddumst í gegnum þetta hof skandínavískrar velferðar og mér þótti sérstaklega gaman að blikka piparsveininn sem stóð fyrir framan Billy-hillurnar. Blikkið þýddi: Ég kaupi ekki lengur Billy (Billy er fyrir fólk sem hefur engan áhuga á hillum heldur á því sem það setur á hilluna - bækur og þess háttar. Dæmigert viðhorf einstæðinga). Ég sá piparsveininn svitna af bræði. Ég bætti svo um betur og kyssti Esther á ennið. Piparsveinninn rauk í burtu og ég heyrði hann segja: "Helvítis smáborgarar. Þið hættið saman eftir viku."

Hahaha! Djöfull er gaman að lifa.

...

Blaðakona af Fréttablaðinu hringdi. "Ertu að skrifa bloggbók?" spurði hún. Ég fékk hnút í magann og afneitaði öllu. "Þetta er allt umbanum að kenna! Ég er bara bloggari!" Ég hef alltaf verið góður í að skammast mín.

En já. Hvað getur maður annað sagt en "úps"?

11 janúar, 2007

Sjómaðurinn Kiddi segir Langa Kela og stubbunum til syndanna

Hér er haldið áfram að segja frá ævintýrum þungarokkshljómsveitar í smábæ austur á landi. Í þetta sinn hef ég logið svo miklu upp á mína gömlu félaga að ég var næstum því búinn að finna handa þeim ný nöfn. En málið er bara að Daddi er enginn Davíð, Einar Björn er enginn Þórður og Keli er aldeilis enginn Jói. Einhvern tímann svara þeir fyrir sig og leiðrétta sögu hljómsveitarinnar. Þannig er það alltaf.

- JKÁ

ES. Þeir sem reyna að finna boðskap, pólitík eða merkingu í sögunni verða hengdir.

Sögusvið:

Beituskúrinn sem hljómsveitin æfir í haustið 1989 er rétt utan við netagerðina þar sem menn fundu stungið lík af útlendingi fimmtán árum síðar. Skúrinn er klæddur bárujárni, þakið eldrautt og veggirnir gráir. Honum er haldið vel við og fólk sem heimsækir Norðfjörð árið 1989 segir að hann sé “rómantískur”. Í dag er hann “fallegur í ljótleika sínum” eins og borgarbúar segja gjarnan um fólk og fyrirbæri útá landi. Menningarsinnaðir þorpsbúar eru sammála.

Klukkan er hálf níu að kvöldi og skúrinn er eins hreinn og hann getur orðið. Gólfið er steypt og þar af leiðandi sleipt (vegna slors og bleytu) og það er erfitt fyrir meðlimi hljómsveitarinnar að beita sér alminilega. Ýmsar hreyfingar sem gítarleikarar þungarokkshljómsveita verða að kunna skil á (svo sem eins og að taka gítarsóló á hnjánum) þarf að æfa síðar. Sennilega ekki fyrr en í vor. Í skúrnum er hliðarherbergi þar sem karlarnir beita og ris þar sem þessir sömu karlar geyma allskyns drasl sem ég man ekki hvað heitir. Lyktin í skúrnum er hræðileg. Reynið bara að ímynda ykkur hana sjálf.



Eins og hjá öðrum félögum, eins og Rótarý eða Lions, erum við að tala um það sem okkur skiptir mestu:

“Hvað stendur W.A.S.P. eiginlega fyrir?”

Það er Keli bróðir sem spyr. Hann spilar á rauðan gítar sem búið að merkja í bak og fyrir með límmiðum. Þarna eru lógó uppáhaldshljómsveitanna: Guns and Roses, Aerosmith, Scorpions auk annarra sveita sem flestar eru gleymdar – allavega man ég ekki eftir þeim núna. Og þó. Ein þeirra hét Faster pussycat og árið 1989 sagðist hún ætla að verða stærri en Jesús.

“Ég veit það ekki,” segir Einar og dæsir. Hann spilar á gítar frá Fender og er eini meðlimur hljómsveitarinnar sem hefur raunverulega tónlistarhæfileika. Hann getur til dæmis spilað Eruption með Van Halen.

“We are satanic people,” ansar Daddi og kveikir sér í sígarettu. Hann reykir Lucky strikes. Aldrei þessu vant er hann í gallabuxum og í svörtum bol merktum Kiss en amma hans heimtaði að fá að þvo þröngu buxurnar með tígrisdýramynstrinu. Daddi er tiltölulega nýbyrjaður að safna hári: “Ég ætla að safna síðu hári að framan og svo ætla ég að klippa göt fyrir augun,” útskýrði hann fyrir tveimur vikum síðan. Hann er að grínast. Vonum við.

“Nei, W.A.S.P. stendur fyrir We are sexually perverted.”

Það er ég, trommarinn, sem segi þetta. Ég veit svona hluti af því að ég les mikið (Metal Hammer mánaðarlega og Kerrang vikulega).

“En stendur Kiss fyrir eitthvað?” Keli spyr. Hann er forvitinn í kvöld.

“Kids in Satan’s service,” segir Daddi ákveðið og er ánægður með sig.

“Rétt,” segi ég. Alvarlegur.

“Eigum við að halda áfram að æfa lagið?” segir Einar skapvonskulega (hann var alltaf soldið óþolinmóður og fannst sennilega að áhugi okkar á ævi og ástum rokkstirna væri á kostnað tónlistarinnar).

Ég tel niður: “One, two, three, four!”

Intróið spilum við á fullu blasti (við kunnum bara að spila á fullu blasti) og svo byrjar Einar að syngja:

“I got pictures of naked ladies
Lying on their beds…”

Textinn heldur áfram á þessum nótum þar til bandið stoppar og Einar öskrar í míkrófóninn:

“I fuck like a beast!”

Ég tek einfalt snerilbreik og svo kemur viðlagið:

“I come round, round I come, feel your love…”

Daddi og Keli syngja bakraddir og þeir syngja núna:

“I’m a manimal!”

Einar snýr sér við og veifar höndum til merkis um að ég eigi að stoppa. Ég stoppa lagið undireins.

“Hvað var þetta?” hvæsir hann. Venjan er sú að Einar byrjar að skamma Dadda og svo snýr hann sér að okkur bræðrum.

“Hvað meinarðu?” segir bassaleikarinn hissa. Og sennilega hræddur.

“Hvað varstu að syngja?” Þetta er yfirheyrsla.

Daddi segir eitthvað óskýrt en sekt hans er augljós. Hann spyr hvort það sé ekki kominn tími á pásu. Einar horfir á Kela og Keli ypptir öxlum: “Ég söng bara það sem Daddi söng." Einar hristir hausinn og segir "Djísús Kræst" og síðan: “Þið eigið að syngja: ”I’m an animal” en ekki “I’m a manimal”! Hvað í andskotanum þýðir eiginlega “manimal?”

Mér heyrist Keli segja að það þýði “spendýr” en hann lýkur ekki við setninguna því Einar kinkar kolli til mín og ég tel niður í lagið aftur.

Núna gengur það betur og reyndar svo vel að Daddi og Keli slaka á og æfa “saxið” þrátt fyrir erfið skilyrði. Þessi hreyfing á uppruna sinn hjá bresku rokkhljómsveitinni Status Quo en var svo fullkomnuð af Birminghambandinu Judas Priest fimm árum síðar. Hreyfingin vísar til þess að gítarinn sé vopn (líklega öxi) sem gítarleikarinn notar til að höggva óvini sína í spað. Óvinirnir geta verið foreldrar, eldri og íhaldsamari bræður og aðdáendur Stefáns Hilmarssonar. Aðrar hreyfingar sýna gítarinn sem getnaðarlim en aðalatriðið er auðvitað að hreyfingin sé ögrandi, hvað hún táknar nákvæmlega er aukaatriði.

Einar spilar gítarsólóið af innlifum og notar framtennurnar til að slá síðasta tóninn. Við lokum laginu eins og venjulega með ruslatunnuendi. Ég brýt kjuða og man um leið að Pjetur í Tónspil er farinn að geyma kjuðana á bakvið afgreiðsluborðið en ekki fram í búð eins og alltaf. Hann hefur hljómsveitina okkar (sem nýlega var böstuð fyrir innbrot í Shellskála bæjarins) grunaða um “þjófnaðarfaraldurinn” eins og hann kallar ástandið en eftir að við stofnuðum hljómsveitina fyrr um vorið hafa ekki bara kjuðar horfið heldur líka hljómsveitarnælur, bakmerki, gaddabelti og töff leðurbuxur með áfastri eldrauðri punghlíf. "Hefur þú nokkuð séð einhvern ganga í svona buxum?" spyr Pjetur eldri konur sem kaupa ný dönsk tímarit hjá honum. “Hvenær ætli ég geti farið að nota þær?” hefur Daddi verið að spyrja síðan í vor.

Hvað um það. Einar hrósar bandinu fyrir góða frammistöðu og allt í einu er Los Angeles ekkert svo langt í burtu. En gleðinni er lokið í bili.



“Þetta er nú meira ræflarokkið,” heyrist allt í einu sagt.

Maðurinn sem talar heitir Kiddi og hann er búinn að vera beita í hliðarherberginu. Hann er með afmyndað andlit en sagan segir að hann verið á balli á Seyðisfirði þegar honum datt í hug að gerast eldgleypir “til að ganga í augun á einhverri stelpu frá Bakkafirði” eins og heimildarmaður minn sagði mér núna um daginn og bætti svo við dapur á svip: “Það er enn í fersku minni hjá Seyðfirðingum þegar greyið hoppaði alelda og öskrandi útí sjó." Kiddi þessi var heiðraður á sjómannadaginn tíu árum síðar fyrir að hafa "stundað sjóinn af eljusemi og ósérhlífni" þá búinn að missa hægri handlegg upp að olnboga í vinnuslysi. Var að reyna að draga síldarnót um borð með handafli.

Kiddi er í ljósbláum gallabuxum, í blárri vinnuskyrtu, í hvítum stígvélum og með bláa derhúfu sem á stendur “Síldarvinnslan”. Með slorugum fingrum nær hann sér í sígarettu sem hann geymir á bak við eyrun. Kiddi kveikir í og horfir á okkur. Allt í einu verður hann undrandi og svo brjótast út læti - einskonar fagnaðarlæti býst ég við.

“Þið eruð allir rauðhærðir!”

Svo skellihlær hann: “Þið mynduð nægja í hárkarlabeitu fram á vor!”

Við roðnum.

“Hvað heitir svo bandið?” spyr Kiddi, flissandi.

Einar svarar feimnislega enda er nafnið glænýtt:

“Langi Keli og stubbarnir.”

Kiddi brestur í óstöðvandi hlátur og segir síðan, nær kafnaður: “Þið heitið bara næstum því sama nafni og Langi Seli og skuggarnir!”

Einar kinkar kolli og útskýrir: “Við hétum sko áður Sabotage.” Kiddi kinkar kolli brosandi og segir “aha”. Hann fær sér stóran smók og blæs reyknum í andlitið á Einari.

“Sabotage þýðir sko skemmdarverk,” útskýri ég og Kiddi lítur á mig og segir “aha”. Hann gengur að niðurfallinu fyrir framan trommusettið, hneppir frá buxunum og byrjar að míga. Hlandið er dökkgult og lyktar eins og kaffi. “Spilið þið ekkert með Grýlunum? Þið lítið nú soldið þannig út," segir hann með sígarettuna í munnvikinu.

“Nei,” segir Daddi. “Við spilum ekkert íslenskt nema Týndu kynslóðina með Bjartmari.” Kiddi segir “aha” og mér finnst eins og ég sjái hlandúðann leggjast yfir trommusettið, hægt og rólega. Eins og þoka. Ég færi mig í burtu en mér er sagt að ég sé óvenju pjattaður unglingur.

“Og hvað spilið þið þá?” spyr Kiddi. Hann grettir sig ógurlega. Reykurinn úr sígarettunni pirrar hann.

Einar fer yfir listann: “Við spilum lög með fullt af hljómsveitum sko. Kiss, Mötley Crue, AC/DC, Black Sabbath og lagið sem við vorum að spila er með W.A.S.P. sem stendur fyrir We are satanic people. ”

“Nei, We are sexually perverted,” leiðrétti ég.

“Ég hef aldrei heyrt um þessar hljómsveitir,” segir Kiddi og hlandbunan verður enn kraftmeiri og dekkri. “Og þið eruð allir síðhærðir nema þú,” stynur hann og horfir á mig. Ég fæ það á tilfinninguna að honum finnist hljómsveitin ekkert voðalega fyndin lengur.

En núna gerir Kiddi soldið skrýtið. Hann byrjar að rembast sem aldrei fyrr og notar svo bununa, sem er ótrúlega kraftmikil, til að skola slorið af fingrunum. Þetta gerir hann í um það bil fimm sekúndur eða þar til fingurnir eru tandurhreinir. Við göpum á hann en þorum ekki að segja neitt. Að þessu loknu girðir Kiddi sig og tekur sígarettuna úr munnvikinu. Hann horfir á okkur í drykklanga stund og segir svo:

“Vitiði hvað strákar. Ég hef verið að fylgjast með ykkur í allt kvöld og mér finnst þetta skrýtið. Maður kannast ekkert við þessi lög og svo lítið þið allir út eins og einhverjir hommar. Súellen syngja allavega um stelpur þó þeir líti vissulega út eins og hommar líka.” Svo gengur hann út og kveður okkur: “Bonsjúr madams”.

Við stöndum hljóðir í nokkrar sekúndur líkt og við séum að ákveða hvort við eigum að taka þetta nærri okkur. Daddi orðar hugsun okkar: “Djöfulsins kokksökker.” Hann kveikir sér í sígarettu. Við erum offisjallí orðin klíka.

Stefnan er tekin á Bandaríkjamarkað næsta sumar þannig að hljómsveitin hefur ekki tíma til að láta Kidda eyðileggja kvöldið. Og þar fyrir utan erum við ekkert með það á hreinu hvað hann á við. Við erum alltaf að syngja um stelpur og af hverju ættum við að vilja líkjast Súellen! Við höfum miklu, miklu, miklu háleitari markmið!

“Jón, teldu niður í AC/DC,” fyrirskipar Einar.

“Ókei,” segi ég og tel niður í Let me put my love into you. “One, two, three, four!” Þetta sama kvöld æfum við We’re not gonna take it með Twisted sister.

08 janúar, 2007

Ofboðslega sjálfsmeðvitaður og hæðinn pistill um prentvillur, nýja sýn á lífið og karlarokk

Umbinn sendi mér kápuna af bókinni um helgina. Höfundur bókarinnar er Jón Knútur Ásbjörnsson.

Ég er Ásmundsson eins og þið vitið.

Nú. Ég hef unnið við útgáfu vikublaðs og ég veit að sumar villur eru þeirrar gerðar að það er ómögulegt að laga þær. Ef ég reyni að laga þessa villu mun umbinn gera aðra villu og kalla mig Ásgeirsson eða eitthvað svoleiðis. Svona villur hverfa nefnilega ekki - ekki frekar en sígarettustubburinn í klósettinu.

Ég hef því ákveðið að grípa til eina ráðsins sem dugar. Ég ætla að fá mér ættarnafn. Framvegis heiti ég Jón Knútur Ásmunds, eða kannski frekar Jón Knútur Ásmundz. Akkúrat. Ásmundz er málið.

...

Bruni Guðlaugs Þórs hefur gefið mér alveg nýja sýn á lífið. Frásögn eiginkonu hans af slysinu í Blaðinu um helgina gerði pólitíkina eitthvað svo "mannlega" eins og svokallaðir "húmanískir" eða "sympatískir" fjölmiðlamenn segja gjarnan af því að þeir eru svo næmir á "hin margbreytilegu blæbrigði hversdagsins" og líka á það sem gerir "menn að mönnum".

Hvað um það. Við öskrum sennilega öll eins þegar við brennum og þá skiptir engu hvort við heitum Guðlaugur Þór eða Steingrímur J.

Ég ætla því að skila auðu í vor.

(Var þetta ósmekklegt grín? Er of stutt síðan þetta gerðist?)

...

Guði sé fokkin lof þá er kvenlega hommatímabilinu mínu lokið og Leonard Cohen er aftur kominn inní plötuskáp þar sem hann á heima. Í dag hlusta ég á realískt karlarokk þar sem karlar eru fyrirvinnur og konurnar eru heima (eða í illa launaðri vinnu sem skiptir engu máli fyrir efnahag heimilisins, í besta falli gott hobbí þar sem konan getur rætt um vaxmeðferðir, eldamennsku (helst bakstur þá) og Mr. Muscle hreinisefni við vinkonur sínar eins og þeim einum er lagið) að hugsa um hvað allt verði nú gaman þegar kallinn kemur heim.

Svona er dæmigerður karlarokktexti eftir Bon Jovi:

Tommy used to work on the docks
Unions been on strike
He's down on his luck...its tough, so tough

Gina works the diner all day
Working for her man, she brings home her pay
For love - for love

Sjáiði heiðarleikann, einlægnina og fórnfýsina! Það er sem ég sjái David Byrne (þann letihaug sem aldrei hefur fengið sigg nema þá kannski á heilann af því að hann hugsar svo mikið) semja eitthvað í líkingu við þetta, ha! Hann gæti aldrei samið lag um alvöru fólk! Um salt jarðar!

04 janúar, 2007

Það var þá einhver dáinn

- minningarbrot um líkfundinn í Neskaupstað.

Klukkan er hálf ellefu að morgni og ég sit inní Brennu með lappir upp á borði og fletti í gegnum nýjasta tölublað Austurgluggans. Efst uppí horninu stendur 12. febrúar 2004. Á forsíðunni er mynd af manni í stórhríð og myndatextinn segir eitthvað á þá leið að “veturinn sé heldur betur búinn að stimpla sig inn” og ég velti því fyrir mér hvaðan maður sækir slíkt líkingamál en gleymi slíkum pælingum þegar síminn hringir. Þetta er í fjórða sinn sem síminn hringir á klukkutíma og ég hef látið símsvarann taka þessi símtöl. En maðurinn í símanum leggur alltaf á. Eftir fyrstu tilraunina andar hann að nokkrum sinnum í talhólfið og ég ímynda mér, svona til að skemmta sjálfum mér, að þetta sé einhver símaperri að hringja í skakkt númer.

Þessi maður sem þarf nauðsynlega að ná í mig er líka búinn að reyna að hringja í gemsann minn en það blikkar alltaf “Private number” á skjánum og ég er búinn að venja mig á að svara aldrei slíkum símtölum. Mér finnst leiðinlegt að tala í símann sem ritstjóri og ef ég þarf að gera það vil ég vita hver það er sem vill ná í mig. Þá nota ég gjarnan fyrstu þrjár hringingarnar til að undirbúa fasið sem ég býð viðkomandi uppá. Ætla ég að vera “hress” eins og er þegar ég tala við mömmu, ætla ég að vera “ábúðarfullur” eins og ég er þegar ég tala við kollega eða ætla ég að vera “strangur” eins og ég þarf að vera þegar ég tala við lesendur. Þegar fólk notar leyninúmer þá get ég ekki farið í þessa undirbúningsvinnu og veit þess vegna ekki hvernig ég á að vera fyrstu þrjátíu sekúndur símtalsins og missi undirtökin.

En hvað um það. Síminn heldur áfram að hringja og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti kannski að svara. Ég er búinn að vera ritstjóri í rúmt ár og það er ekki líkt Bóthildi, eins og ég kalla reiða lesendur, að hringja svona oft. Í eitt andartak ímynda ég mér að náinn ættingi sé dáinn en það er áráttuhegðun sem ég er meðvitað að reyna að venja mig af. Ég hugsa: Kannski er þetta einhver svakaleg frétt sem einhver er að reyna að hringja inn en það getur varla verið. Ekki hér. Ekki á Austurlandi.

Síminn hættir að hringja og ég anda pínulítið léttar en finn að ég er smám saman að fyllast sektarkennd. Ég ætti auðvitað að svara í helvítis símann. Ég er jú ritstjórinn. En það kemur ekki til greina. Ekki uppúr þessu.

Ég er rifinn upp úr hugsunum mínum þegar Erla framkvæmdastjóri kemur inn á skrifstofuna. Henni fylgja læti sem ég læt fara í taugarnar á mér. Hún andar hratt eins og hún sé að koma úr fjallgöngu en ég veit að hún var ekki að koma úr fjallgöngu. Hún er í grænum snjógalla og vegna þess hve lítil og pattaraleg hún er minnir hún mig á einhvern ávöxt, peru sennilega, og mér dettur í hug að segja að hún sé “sumarleg”.

Erla er faktískt séð yfirmaður minn og faktískt séð gæti hún skammað mig fyrir að svara ekki en hún er í góðu skapi og kærir sig sennilega ekki um, ekki frekar en ég, að byrja aftur að vinna degi eftir útgáfudag. Við erum jú vikublað og faktískt séð ætti ég að vera heima hjá mér.

“Jæja, er blaðið gott?” spyr Erla brosandi. Ég minni sjálfan mig á að spyrja hana af hverju hún sé í góðu skapi þegar ég er búinn að svara þessari spurningu.

En áður en ég get svarað hringir síminn í fimmta sinn og núna er svarað áður en fyrsta hringingin klárast.

“Austurglugginn, Erla.”

(Þögn í fimm sekúndur)

“Það er til þín,” segir hún og spyr hvort ég hafi ekki verið hérna í morgun, að maðurinn í símanum hafi hringt “hundrað sinnum”. Ég tek á móti símanum brosandi og muldra eitthvað óskiljanlegt um að ég hafi verið “inní höfn”. Hef ekki tíma til að búa til skothelda afsökun.

“Jón Kn…,” segi ég og ætla að setja upp stranga fasið en maðurinn grípur strax fram í fyrir mér.

“Hvar í andskotanum hefur þú eiginlega verið!”

Ég þekki röddina en ég kem því ekki fyrir mér hver eigandi hennar sé.

“Ég var útí í höfn að taka út trillurnar. Taka myndir og svona.” Ég nota þessa lygi af því að reynslan hefur kennt mér að meðalkvartarinn, Bóthildur, sé sjálfbirgingslegur trillukarl sem finnst ekkert merkilegra en netatrossur og að mati þessarar manngerðar eru ný veiðarfæri efni í forsíður, sjónvarpsfréttir og leiðaraskrif. Ég er ósammála þessum manni í grundvallaratriðum en samt gríp ég til þessa ráðs. Sennilega einhvers konar nauðvörn. Ég hugsa: Djöfullinn! Maður á að segja “inní höfn” en ekki “útí höfn”.

“Jón, þetta er ég maður og ég veit að þú varst ekkert inní höfn. Ég þekki röddina. Þetta er vinur minn.

“Æi, þetta ert þú. Ég nennti ekki að svara,” segi ég en sé eftir því um leið – Erla situr enn við borðið sitt. En ég gleymi ekki bara Erlu heldur öllu í fortíð, nútíð og framtíð þegar vinur minn segir næstu setningu:

“Jón, það fannst lík hérna í morgun.”

Ég segi ekki neitt í símann en hugsa: Það var þá einhver dáinn.

Um nauðsynlegt og samfélaglegt mikilvægi þess að endurmeta framlag The Police til popp(mannkyns?)sögunnar

Um daginn eignaðist ég heimildarmyndina um The Police, Everyone stares, eftir trommarann Stewart Copeland. Í myndinni er splæst saman myndbrotum sem Copeland tók upp á árunum 1978 til 1984 og úr verður sæt poppsaga: Sakleysingjar breytast í gráðugar og spilltar rokkstjörnur en finna svo aftur frið þegar hljómsveitin hættir eða kannski frekar: Hljómsveitin hættir svo rokkstjörnurnar geti aftur fundið frið. Myndin var sýnd á Sundancefestivalinu og rokksnobbarar heimsins, eins og ég, hafa því gefið henni samþykki sitt. Þið megið fíla hana.

Af hverju?

Jú.

Sko...

Hið fallega við sögu Police er sú ákvörðun þeirra að hætta á toppnum og maður sá þá því aldrei verða hallærislega. Hið dapurlega við sögu Police eru eftirmálin því samkvæmt hefðbundinni söguskoðun hefur tónlist hljómsveitarinnar elst illa. Beri menn hana saman við tónlist samtíðarmanna eins og Paul Wellers og Clash er augljóst, segja hipsterarnir, að við vorum blekkt. Sting!? Þessi djöfull! Hleypið Mark Chapman út! Það þarf að myrða fleiri poppara! Segja hipsterarnir.

Ástæðan er vafalítið sú að fljótlega eftir að Sting hóf sólóferil breyttist hlustendahópur hans. Aðdáendur Police (allavega fyrstu þrjú árin) voru ungir pönkarar og nýbylgjunördar sem lásu New musical express og Melody maker en aðdáendur Sting (allavega eftir að hann söng með Bryan fokkin Adams og Rod fokkin Stewart) voru fyrst og fremst fjörutíu og eitthvað ára gamlir lesendur GQ, Financial times og framsóknarblaðsins Austra (djók). Fyrri hópurinn, þrátt fyrir að vera fullkomlega laus við nokkur raunveruleg völd sem skipta einhverju máli, skrifar poppsöguna í popptímarit sem menn eins og ég lesa.

Ergo: Sting, og allt sem hann hefur nokkurn tímann gert, er komið á sorphauga sögunnar og er þar í félagsskap hljómsveita eins og Uriah Heep, Styx, Boston og Bless.

En.

Police þarfnast endurskoðunnar og sú endurskoðun fór fram í íbúð 403, Kaupvangi 41, 700 Egilsstöðum, í gærkvöldi. Ég hlustaði og hlustaði og hlustaði og gapti stundum af undrun yfir kraftinum sem þetta tríó gat framleidd, sérstaklega á plötunni Regatta de blanc frá '79. Þá er læfplatan (sérstaklega fyrri helmingurinn) frá '95 groddalegt reggírokk af bestu gerð.

Síðan mundi ég líka hvað ég fílaði Stewart Copeland mikið á sínum tíma. Sem trommari hef ég aldrei nennt að æfa mig en ég gerði undantekningu haustið 1995 og eyddi nokkrum vikum í að pikka upp þessar amfetamínkeyrðu "flamstrokur" sem var svona signature brella Copelands. Ég náði þeim aldrei en eins og Copeland hafði ég tilhneigingu til að herða öll lög. Ég þurfti að vísu aldrei að æfa það. Er bara æstur að eðlisfari.

03 janúar, 2007

Jólablöð

Ég renndi yfir jólaútgáfur héraðsfréttablaðanna eystra í kaffitímanum áðan og get ekki sagt að ég hafi verið neitt sérstaklega impóneraður. Mikið af auglýsingum og leiðinlegu aðsendu lesefni. En aðsent efni þarf síður en svo að vera leiðinlegt og þess vegna eru leiðindi þessara blaða alfarið ritstjórunum að kenna.

Jólaútgáfur Austurgluggans og Eystrahorns eru fyrst og fremst fyrir auglýsendur. Þær ættu þar af leiðandi að vera ókeypis.

Sálumessa fyrir náunga á fertugsaldri

Þar sem ég stend fyrir framan spegilinn og ber næfurþunnt blátt rakgel á kinnarnar verð ég allt í einu var við að á einum pínulitlum og mjög afmörkuðum stað rétt neðan við kinnbeinið hægra megin er rakgelið örlítið blárra en það á að vera.

Ég þríf gelið í burtu með votum þvottapoka og færi mig nær speglinum. Ég horfi á sjálfan mig í dágóða stund til að staðfesta grun minn. Þarna, svona tveimur sentimetrum fyrir neðan hrukkuþyrpinguna undir augunum sem ég tók fyrst eftir í fyrrasumar, er ein einmana hrukka. Hún er á að giska átta millimetra löng en nokkuð djúp, svo djúp að það þarf talsvert magn af rakgeli til að sparsla uppí hana. Ég ræski mig og heyri sjálfan mig segja:

"Kræst."

Það tekur enginn eftir henni, hugsa ég og reyni að hughreysta sjálfan mig en ég veit mætavel að sýnileiki hennar skiptir ekki máli. Í mínum huga er þessi hrukka eins og fyrsta rispan á nýjum bíl - hún verður ósýnileg öllum nema eigandanum. Og varla þarf að taka fram að rispum fækkar aldrei.

Ég geng fram í stofu og sé að sígarettupakkinn sem ég keypti fyrir jól situr enn á bókahillunni. Ég hafði gleymt honum þar áður en ég fór niður á Norðfjörð til að dvelja hjá foreldrum mínum "því þeir eru ekkert að yngjast" (en þannig réttlætti ég fyrir sjálfum mér og vinnuveitanda mínum að taka frí yfir jólin. Mig grunar að þetta þýði eitthvað).

Ég stend á miðju stofugólfinu og horfi á sígarettupakkann. Mig langar í sígarettu en án nokkurrar fyrirhafnar man ég eftir orðum sextugs listmálara sem ég tók einu sinni viðtal við. Við sátum á bar við Laugarveginn og rétt áður en hann kveikti í fyrstu sígarettunni spurði ég hann hvort hann ætlaði ekki að fara hætta þessu "reykingarstússi" (hóstinn var svo ógeðslegur skiljiði).

"Nei," sagði hann. "Sígarettan er formalín æskunnar."

Fái ég mér ekki sígarettu fresta ég ellinni en um leið viðurkenni ég tilvist hennar. Ég hugsa þetta núna. Sex árum síðar.

Ég heyri sjálfan mig kyngja.

eXTReMe Tracker