Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 nóvember, 2006

Rvk

Einu sinni öfundaði ég krakkana í bekknum mínum sem voru með spangir og teina. Mér fannst stálið svosem ekki fallegt en tíðar ferðir tannbarnanna suður til Rvk vöktu öfund mína. Mér fannst nefnilega svo gaman í borginni í denn. Hitta Loga frænda minn, kíkja í bíó og í plötubúðina á Laugarveginum sem átti alltaf eitthvað með Saxon og AC/DC. Núna þoli ég ekki Rvk. Verð svo paranojaður þar. Og svo kaupi ég mússíkina mína í Tónspil.

Hvað um það. Fer til Rvk í fyrramálið. Er með verk í maganum.

...

Svo gerðist þetta í morgun:

Ég sat á kaffistofu ME og drakk kaffi með Jóni Inga félagsfræðikennara. Jón var í miðjum klíðum að útskýra fyrir mér af hverju hnúfubakur er loðinn í munninum þegar við heyrðum kallað:

Guðbjörg!

Jón hætti að tala og við litum báðir á konu sem stóð í dyragættinni. Hún horfði á mig. "Æi fyrirgefðu," sagði hún. "Ég hélt að þú værir Guðbjörg."

28 nóvember, 2006

Ripp

Í dag lærði ég að "rippa" geisladisk. Mér leið mér vel. Fannst eins og þetta væri skref fram á við. Fyrir jól ætla ég að kaupa mér nýja tölvu og þið megið alveg koma með tillögur hér í kerfinu hvernig tölvu ég ætti að fá mér. Hún segir PC en hann segir Mac. Mig langar bara í tölvu svo ég geti lonsað útvarpsþættinum mínum fyrir áramót þar sem ég ætla að segja lygasögur af tónlistarmönnum sem ég held upp á.

...

Ég rippaði nýja diskinn með Belle and Sebastian, The Life pursuit. Mér finnst hann töluvert mikið betri en Dear catastrophe waitress sem félagar mínir í Coney Island Babies eru reyndar mjög hrifnir af. Nýja platan þeirra er melódískari og ég vil hafa poppið mitt melódískt. Þannig að.

Ég átti fríhelgi þegar B og S spiluðu á Borgarfirði í sumar en samt mætti ég ekki. Veit ekki af hverju.

27 nóvember, 2006

Flækjur

Af ýmsum ástæðum hef ég ekki notið þess á aðfangadagskvöld að vera yngsti sonur foreldra minna. Undanfarin ár höfum við Keli alltaf fengið jafn margar gjafir sem er ekki rétt því ég er yngri en hann og á sem yngsta systkinið að fá fleiri gjafir en hann. Þannig eru reglurnar. En í fyrra tók steininn úr þegar ég fékk ekki bara færri gjafir en Keli heldur fékk ég líka færri gjafir en pabbi minn!

Ég hef því ákveðið að ljúga því að foreldrum mínum að ég sé kominn með berkla og muni að öllum líkindum ekki lifa út janúar. Þetta gæti þýtt verulega aukningu á pökkum handa mér þó ráðabruggið sé augljóslega ekki fullkomlega hættulaust. Mamma er nefnilega svo fjandi praktísk að hún gæti túlkað þetta þannig að það taki því þá ekki að gefa mér neinar gjafir. Hún gæti jafnvel látið þau boð ganga til ættarinnar að ég sé dauðvona og því sé best að allar gjafir handa mér verði stílaðar á Kela.

En. Ég vona það besta.

...

Siggi afabróðir gaf okkur bræðrum páskaegg til margra ára. Halldór er fæddur um vor 1971 og fékk sitt fyrsta páskaegg frá Sigga þ.a.l. árið 1972, Keli fékk sitt fyrsta árið 1973 og ég fékk mitt fyrsta árið 1976. Árið 1987 ákvað Siggi að hætta að gefa okkur páskaegg. Sagði að við værum orðnir of gamlir fyrir þetta. Hefði ég ekki í raun átt að fá fjögur páskaegg til viðbótar?

...

Ég fór í partí í einhverri blokk, einhvers staðar á Egilsstöðum hjá einhverjum kennurum um helgina. Eins og venjulega fór ég beint í plötuskápinn og tók að mér hlutverk plötusnúðar. Það bað mig enginn um það en þar sem ég hef góðan og fágaðan smekk taldi ég mig vera í fullum rétti og í raun mat ég það svo að fólkið ætti að líta á það sem heiður að ég tæki að mér að þeyta skífum fyrir það. Í plötusafninu voru fáar perlur en ég spottaði þær á augabragði - hef vit á þessu sjáiði til. Fyrsta perlan sem ég setti á fóninn var Street life - safnplatan með Roxy Music og Bryan Ferry. Ég hef alltaf litið upp til Ferry og hann var fyrirmynd mín í fatavali til margra ára. Hann er sophisticated eins og ég.

En vitiði hvað? Þegar platan var búinn bauð ég náttla fram aðstoð við að finna aðra perlu í þessum mykjuhaug (eins og ég benti gesgjafanum á) en þá sagði gestgjafinn, þannig að allir heyrðu, "nei takk, við viljum hlusta á Whitesnake." Whitesnake?!

24 nóvember, 2006

Gordie - minning frá Leicester

- Sennilega gerist þetta einhvern tímann í febrúar, skömmu eftir að ég kynntist sambýlisfólkinu á Chaucerstræti þeim Antonis og Claudíu. Antonis var nýbúinn að stíga í vænginn við Evu og ég vissi ekki enn hvernig það allt saman fór.


Það liðu nokkrir dagar þar til ég hitti Antonis aftur. Claudía fór til Skotlands að heimsækja vin sinn og jafnvel þó hún hefði boðið mér að gista á Chaucerstræti ákvað ég að eyða nokkrum dögum í herberginu mínu við Regent road. Ég átti jú heima þar og ég vissi að Ross hafði verið að spyrjast fyrir um mig. Á einhvern hátt fannst mér ég vera skuldbundinn Ross og mér fannst líklegt að þriðjungur magaverksins sem hafði verið að pirra mig undanfarið væri vegna þessarar vanrækslu við drykkjufélaga/vin minn. En hann var ekki heima. Kínversk stelpa sem kallaði sig “Angelu” sagði mér að hann væri í London í heimsókn hjá kærustunni. Hann hafði farið fyrr um morguninn.

“Það var áfengislykt af honum,” sagði “Angela” með vanþóknunarsvip (sem virtist vera svipurinn sem fólk notaði almennt þegar það talaði um Ross) og var augljóslega að vona að ég tæki undir með henni. Ég lét það ekki eftir henni. Ég yppti öxlum og sagði eins kæruleysislega og mér var unnt: “Það er alltaf lykt af Ross.”

Í stofunni sat Gordie og horfði á sjónvarpsfréttir BBC. Hann var í hreinum hvítum hlýrabol eins og alltaf og í brúnum hermannabuxum með hliðarvösum. Þær voru ekki krumpaðar. Hann var berfættur en ég sá að sokkarnir hans láu á strauborðinu auk blárrar skyrtu en sú staðreynd að Gordie var sá eini á jarðhæðinni sem straujaði fötin sín var uppspretta ýmissa vangaveltna hjá mér og Ross. “Hvar er Írinn í þessum Íra?” spurði hann raunverulega hneykslaður þegar okkur vantaði umræðuefni yfir fyrsta bjórnum. Hann beið aldrei eftir svari heldur var þetta upphaf á stuttri einræðu sem hann hélt nokkrum sinnum sem endaði iðulega á spurningunni hvort Gordie væri týpan sem myndi einhvern tímann snappa og skjóta okkur öll í svefni. “Ég veit það ekki,” ansaði ég yfirleitt.

Þegar Gordie fékk að horfa á fréttirnar einn þá reifst hann við fréttaþulina eins og þeir stæðu í stofunni og væru að reyna telja honum trú um hvernig veruleikinn í Mið-Austurlöndum hefði verið í dag. Og Gordon var bara hreint ekki sammála hvernig þessir kommúnistar hjá BBC skilgreindu veruleikann! Hann benti á globbur í málflutningi þeirra, dró ályktanir útfrá einhverjum hallærislegum bröndurum sem fréttamenn segja gjarnan (“Myndi hann nota svona orð um íhaldsflokkinn ef þetta væru svertingjar!”). En það verður að segja Gordie til hróss að hann hrósaði fréttamönnunum líka ef honum fannst þeir eiga það skilið. “Svona gera fagmenn!” sagði hann þá. Einu fréttirnar sem hann treysti komu af einhverjum sjálfstæðum vefsíðum sem voru víst "ábyrgar".

Það virtist líka skipta hann máli að maður vissi hvenær honum leist vel á einhverja konu í auglýsinahléunum á Channel 4. Þá hrópaði hann upp yfir sig eitthvað eins og: “Check this out! What a nice piece of work!” Þetta fór í taugarnar á finnskum femínista sem gisti stundum á hæðinni okkar en flestir tóku hreinlega ekki eftir þessu. Flestir tóku reyndar ekki eftir Gordie yfirleitt. Hann var fremur fyrirferðarlítill þó hann væri húsfulltrúi okkar (starfið fékk hann án kosningabaráttu í upphafi annar og stóð sig afskaplega vel var mér sagt) og ég minnist þess ekki í fljótu bragði að hann hafi nokkurn tímann skandalíserað eins og henti flesta íbúa hússins að minnsta kosti einu sinni. Hann tók sjálfan sig full alvarlega fannst mér en hann hafði jú stór plön sem ég segi ykkur frá eftir augnablik.

Gordie vissi að hann hafði ekki þessar standard vinstrisinnuðu stúdentaskoðanir og horfði þess vegna yfirleitt ekki á fréttir með öðrum nema þá hugsanlega mér enda taldi hann að ég hefði engar skoðanir á heimsmálunum. Hefði ég einhverjar skoðanir sem honum fannst rangar gæti hann auðveldlega kennt mér nýjar. Það reyndi aldrei á þetta því ég var sammála öllu sem hann sagði. Það var fyrirhafnarminnst. Ég leyfði honum bara að láta dæluna ganga og oft kom jafnvel eitthvað skemmtilegt útúr því t.d. þegar hann sýndi mér á sjálfum sér hvernig yfirbuga ætti "mótmælanda" (sem var nákvæmlega orðið sem hann notaði) á innan við fimm sekúndum.

Eins og Ross benti á var Gordie fjarri því að vera dæmigerður Íri eins og maður ímyndar sér þá. Ef hann sat framí stofu með vískíflösku drakk hann sjaldan mikið, í mesta lagi tvö glös, og gekk síðan frá flöskunni inní herberginu sínu sem hann hafði alltaf læst. Hann bauð ekki öllum með sér, t.d. ekki Ross, en yfirleitt bauð hann mér og Kínverjunum (leit á það sem nokkurs konar landkynningardjobb). Ég held að hann hafi talið sjálfum sér trú um að við værum á einhvern ófyrirsjáanlegan hátt líkir eða öllu heldur skyldir. Sem við vorum kannski.

Þó Gordie væri að læra lögfræði var tilgangurinn með náminu ekki sá að verða praktíserandi lögfræðingur. Hann ætlaði að ná sér í gráðu svo hann kæmist fljótt í yfirmannastöðu í írska hernum. Allir dagar voru hugsaðir sem einhvers konar undirbúningur fyrir dvölina í hernum. Hann vaknaði klukkan sex á morgnana, klæddi sig íþróttagallann, skokkaði í klukkutíma, kom svo heim og bjó sér til einhvern orkugraut sem hann skolaði niður með einhverjum prótíndrykk. Svo hvarf hann í skólann. Þegar hann kom heim rauk hann inní herbergi og skömmu síðar heyrði maður taktfastar stunur og talningar. Hundrað armbeygjum og fimm hundruð kviðæfingum síðar birtist hann inn í eldhúsi, þá nýrakaður, nýsnoðaður, nýsturtaður og í nýpressuðum fötum. Hann eldaði sér síðan yfirleitt eitthvað með kartöflum. Þannig var hann kannski írskur.

Ég hugsa að Gordie hafi upplifað sig svolítið einan á báti þegar Ville Salonen fór heim um áramótin enda var fyrrum hermaðurinn hann Ville sá eini sem gat rætt um hernað af einhverju viti við Gordie. Þeir urðu svona dúó á tímabili, eins og ég og Ross, og ræddu þá yfirleitt stríðsrekstur á mjög praktískum nótum eins og t.d. hvernig væri best að kasta handsprengju og hvort byssustingir væru börn síns tíma.

Hvað um það. Ég missti fljótlega sambandið við Gordie. Ég fékk tölvupóst frá honum nokkrum vikum eftir að ég kom heim. Hann komst ekki í herinn en flaug hins vegar inní lögregluna í Birmingham. Ég var ennþá atvinnulaus og svaraði honum ekki. Ég ætlaði að svara honum þegar ég kæmist í vinnu sem ég var sáttur við. Ég hef ekki enn svarað honum. Ég svaraði honum heldur aldrei.

Ég ætlaði að bjóða honum með mér á pöbbinn þegar hann hrópaði upp yfir sig: “She’s hot!” og benti á skjáinn. Hann var ekkert frekar að tala við mig. Ég leit á skjáinn. Á honum var Billy Piper, nýjasta sjónvarps- eða poppstjarna Breta, að tala um naglalakk. Ég vildi ekki trufla hann og fór einn niðrí í bæ.

22 nóvember, 2006

Um lágstemmdan alt-kántrí fíling ala Lambchop á Nixon tímabilinu

Keilueyjarbörnin komu saman á sunnudag og mánudag og tóku upp grunn að nýju lagi. Lagið er svosem ekki nýtt í ströngum skilningi þar sem það var samið í fyrra eða hittiðfyrra. Það heitir Polly - tileinkað Polly Jean Harvey - og var ansi nettur poppsmellur með stóru gítarsólói ala The Edge. Einhvern veginn fannst okkur lagið ekki virka þegar við komum aftur saman í haust en þar sem okkur þykir vænt um Polly ákváðum við að gefa því einn séns í viðbót. Eftir margar tilraunir þar sem allt var prófað (pönk, rómantísk nýbylgja, plain popp o.fl.) fundum við því loksins farveg í lágstemmdum alt-kántrí fíling ala Lambchop á Nixon tímabilinu. Í mínum huga er lagið orðið að sándtrakki fyrir stillt síðsumarskvöld þegar vinir og vinkonur drekka rauðvín útá sólpalli, keðjureykja og segja skemmtisögur sem enginn fótur er fyrir. Ég vona að við gerum einhvern tímann heila plötu með svona lögum, svona okkar útgáfu af Harvest moon.

...

Bústónlist er tónlist sem nýtur sín best þegar hlustandinn er í áfengisvímu. Hún þarf ekki að vera mikil - bara nógu mikil svo um mann fari þessi létti fiðringur sem eitt eða tvö rauðvínsglös kalla fram. Sé andrúmsloftið þæglegt kemst maður í leiðslu og þá fæðast stundum skemmtilegar hugmyndir.

Mínar uppáhaldsbúsplötur eru eftirfarandi:

Gaucho/Steely Dan (Reyndar eru flestar plötur SD góðar búsplötur, sérstaklega tvær nýjustu og Aja, plús sólóplötur Fagens, Morph the cat og The Nightfly).

Gula safnplatan/Leonard Cohen

Mambo sinuendo/Ry Cooder og Manuel Galban

Harvest og Harvest moon/Neil Young

Closing time og Swordfishtrombones/Tom Waits

Kind of blue/Miles Davis

21 nóvember, 2006

Um þá sem þurfa ekki að roðna

"In an important sense there is only one complete unblushing male in America: a young married, white, urban, northern, heterosexual Protestant father of collage education, fully employed, of good complexion, weight and height, and a recent record in sports." (Stigma, bls. 128)

Svo skrifaði Erving Goffman árið 1963. Yngri félagsfræðingar hafa bent á að þessi athugun Goffmans sé komin til ára sinna enda skrifuð á tímum þar sem það þótti eðlilegasti hlutur í heimi að vera með félagaskírteini KKK í rassvasanum. Athugunin á almennt við í einsleitum samfélögum eða öllu heldur í samfélögum sem við teljum vera einsleit - það er munur á. En með örlitlum breytingum og flutningi til annars lands verður þessi athugun réttmæt að nýju.

Þessi athugun á t.d. ágætlega við hér á Íslandi, jafnvel hér á Austurlandi. Ef við rýnum í auglýsingaherferðir Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs fyrr á þessu ári sést með skýrum hætti hvernig við sjáum fyrir okkur hinn dæmigerða Austfirðing:

Hann er sterkbyggður karlmaður um fertugt. Hann vinnur hjá einkafyrirtæki. Hann á fallega og brjóstmikla konu. Hann á tvö börn. Hann borðar ekkert helvítis pasta. Hann borðar kjöt - fituríkt kjöt. Hann óttast ekki hjartasjúkdóma. Hann þolir ekki sálfræðinga. Hann kýs rétt. Hann er enginn hommi. Hann á byssu. Og akkúrat núna heitir hann Bjössi.

Bjössi hefur enga ástæðu til að óttast næsta þorrablót. Vilji svo ólíklega til að hann verði hafður að skotspæni þorpsgrínarans verður djókið góðlátlegt og meinlaust. Hann þarf ekki að roðna. Eftir þorrablótið getur Bjössi hringt í pabba sinn og sagt honum að hann hafi verið "tekinn fyrir" á þorrablótinu. Feðgarnir fagna. Loksins er strákurinn orðinn maður með mönnum.

Svona er þetta jafnvel þó hinn dæmigerði nýi Austfirðingur sé með brún augu, svart hár og aki um á gömlum Subaru.

19 nóvember, 2006

Bræðralag

Leyfði Kela að heyra nýja CIB lagið. Sátum heima í stofu.

Ég: Jæja, hvernig finnst þér svo, ha? (ánægður með sjálfan mig).

Keli: Tja...

Ég: Hvað þýðir "tja"?

Keli: Þetta er svona lala...

Ég: Hvað þýðir lala? Getur þú reynt að vera skýrari?

Keli: Sko...

Ég: Já.

Keli: Í fyrsta lagi finnst mér lagið leiðinlegt, í öðru lagi er sándið ljótt og í þriðja lagi væri auðveldlega hægt að flytja það betur.

(Þögn)

Ég: Hvað þykist þú vita um tónlist, ha! Og drullastu svo úr skónum! Ég á ekkert að þurfa skríða á eftir þér með gólftusku!

17 nóvember, 2006

CIB on line...

Ég var búinn að gleyma því að þetta kom upp fyrir löngu...

Fréttir utan af landi

Ég var að ganga út Lagarás þegar ég sá mann í sirka þrjú hundruð metra fjarlægð. Ég hafði hitt fleira fólk á göngunni en þessi vakti athygli mína. Sennilega var það fatnaðurinn því fólkið sem ég hafði hingað til mætt var klædd "eftir veðri" eins og sagt er þ.e. í úlpu með húfu og vettlinga.

Þessi maður var hins vegar í síðum leðurfrakka, í þröngum gallabuxum og ég get svarið að hann var í leðurstígvélum (einhver hefði sagt að þessi maður ætti skilið að fá kvef). Um leðurstígvélin get ég auðvitað ekkert fullyrt því ég var, eins og áður sagði, í þrjú hundruð metra fjarlægð.

Vinstri handleggur mannsins var útréttur og hann hélt á einhverju sem líktist fugli, stórum fugli. Ef til vill einhvers konar örn. Haförn kannski. Ég veit það náttúrulega ekki. Ég þekki ekki muninn á þessum kvikindum.

Fljótlega sá ég að þetta gat ekki verið neinn annar en Siggi Ingólfs. Vitaskuld klæðist hann ekki snjógalla, hugsaði ég. Hann er enginn lúði. Hann er skáld og fréttaritari á Austurlandi fyrir sjónvarpstöð í borginni. Og hann mundaði myndavél, ekki haförn.

"Sæll Siggi!" hrópaði ég um leið og ég taldi mig vera kominn í kallfæri. Við þekkjumst ágætlega.

"Blessaður!" hrópaði hann til baka.

"Hvað er verið að sýsla?"

"Það eru þessar árlegu snjómyndir," sagði fréttaritarinn mæðulega.

"Já, það hefur heldur betur snjóað," sagði ég svona til að að segja eitthvað. Ég vildi ekki vera fyrri til að gera lítið úr snjómyndatökunni.

"Jújú," sagði Siggi. "En það snjóaði líka svona í fyrra. Og í hittiðfyrra. Og í hittiðhittiðfyrra. Og árið þar á undan líka." Hann hló máttleysilega en ekki af því að honum fannst þetta skemmtilegt eða fyndið. Hann var bara uppgefinn sem er næstum því það sama og uppgjöf.

"Kannski þú ættir þá að nota sömu myndirnar og þú notaðir í fyrra. Ég myndi gera það,” sagði ég en fattaði strax að brandarinn missti marks. Ég stundaði nefnilega svona vinnubrögð á mínum eigin blaðamannaferli, átti sumsé dæmigerðar myndir fyrir hverja árstíð. Aðferðin er ekki fullkomlega hættulaus og mikilvægi þess að þekkja fólkið á myndunum persónulega verður ekki ítrekað nógu mikið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það er klaufalegt að birta gleðilega stemmningmynd af dánu fólki á forsíðu héraðsfréttablaðs! Tala nú ekki um ef um börn eða ungmenni er að ræða.

"Þú segir nokkuð," sagði hann svona hálfbrosandi og gekk frá myndavélinni í tösku. Við kvöddumst. Hann gekk inn götuna og ég út. Ég veit ekki af hverju en eftir fáein skref stoppaði ég og leit til baka. Ég virti manninn fyrir mér. Með myndavélina niðurpakkaða í tösku leit hann út eins og fiðluleikari. Það fór honum vel, hugsaði ég.

15 nóvember, 2006

Ryan

Er að hlusta á nýju plötuna með Willie Nelson og fíla hana ágætlega. Ég er enginn aðdáandi gamla mannsins en keypti plötuna af því að sjálfur Ryan Adams pródúserar hana og þetta er eina Ryan-tengda platan sem í boði er í ár.

Minn maður lætur plötuna hljóma eins og sína eigin sem fer eflaust í taugarnar á þeim sem fíla Nelson frekar en Ryan. Fyrir mig er þetta hins vegar akkúrat eins og ég vil hafa það. Held meira að segja platan hefði orðið mun meira en ágæt hefði Ryan séð um sönginn. Fíla ekki alminilega nefmælt kántrívælið í Nelson.

...

Mun blogga sjaldan á næstunni. Er bissí.

10 nóvember, 2006

Kúpan

Coney Island Babies komu saman í gær and my ears are bleeding. Hef ekki trommað jafn fast síðan á æfingum Kúpunnar sællar minningar en ég á afar góðar minningar um það band.

Kúpan var svokölluð súpergrúbba eins og Blind faith, Trúbrot og Supernova. Í henni voru tveir meðlimir LKOS (ég og Keli) og tveir meðlimir garage/pönk bandsins Amma var Hitler, þeir Fjalar og Snorri.

Kúpan var nokkuð lífseigt band og lifði með hléum frá september 1990 fram í desember 1992. Við gengum í gegnum afar blóðug gítarleikaraskipti þar sem við létum náfrænda okkar Snorra Hall víkja fyrir nýbylgju/Steve Vai fanatíkernum Sigga Óla og það tók mig mörg ár að sjá spaugilegu hliðina á þessu. Hér verður að koma fram að Snorri náði fram afar skemmtilegri hefnd í útvarpsþætti hjá Radíói VerkóAust:

Spyrill (ég): Jæja, Snorri. Nú varst þú einu sinni í Kúpunni. Af hverju hættir þú (alltaf betra að hætta en að vera rekinn fannst mér í gamla daga).

Snorri: Þú veist alveg að ég hætti ekkert. Hljómsveitin hætti bara í nokkrar vikur og byrjaði síðan aftur án mín.

Spyrill: Auglýsingahlé!

Allavega: Fjölskyldugrúbbur eru ekki góð hugmynd. Spyrjið bara Brian Wilson.

En Kúpan var semsagt merkilegt band. Hún spilaði nefnilega gruggtónlist áður en sú tónlistartegund barst til Íslands. Við vissum auðvitað ekki sjálfir að við værum að spila grugg en hvað getur það kallast þegar menn blanda saman Hendrix, Pixies, Cream, Bad news, Black sabbath, Jane's addiction og Bítlunum?

Ég segi því eins félagi minn Hilmar Th (og B. Wilson): I guess I just wasn't made for these times...

Góða helgi.

(Og ég er hættur að hugsa um Glúm.)

09 nóvember, 2006

Eitt í viðbót...

Í hádegisgöngunni áttaði ég mig á því að Glúmur hefur ótrúlegt költ pótensjal - meira en söngvarinn Richard Scobie og þótti hann nú verulegt efni á sínum tíma. Haldi Glúmur rétt á spilunum þarf hann allavega ekki að óttast hungurdauða verði hann ekki prófessjónal pólitíkus. Ég myndi í það minnsta kaupa plötuna The Glamorous Glum sings ballads of the 20's.

Og jafnvel þótt platan yrði ekki hitt á Íslandi held ég að það sé nú öllum ljóst að drengurinn yrði big in Japan, jafnvel huge...

Ég styð Glúm!

Myndatexti: Hér sjáum við Glúm slaka á heima hjá sér eftir velheppnað kokteilpartí í kínverska sendiráðinu í Brussel. Þar hitti hann m.a. hina íðilfögru Xia Ling (dóttur sendiherrans) og fékk hjá henni símanúmerið. Hann hinkrar í þrjá daga áður en hann hringir enda veit hann að það borgar sig að láta dömurnar bíða. Margborgar sig.

Ég hef fengið bágt fyrir að segja að Glúmur Baldvinsson sé ekki bara efnilegt þingmannsefni heldur líka einn mesti töffari landsins. Gagnrýnin hefur komið úr ýmsum áttum en þó helst frá femínistum og kommúnistum.

Ég ætla ekki að gerast sérstakur talsmaður Glúms á Austurlandi. Þess gerist heldur ekki þörf. Mér skilst nefnilega að hann hafi vakið talsverða lukku hjá kvenþjóðinni á Reyðarfirði um tíma í hittiðfyrra auk þess sem karlmennirnir vildu líkjast honum í útliti og framkomu.

Ég vil bara segja eitt og einungis eitt. Síðan skal ég þegja um Glúm.

Sko, ég gef mér náttúrulega að myndirnar á Glúmur.is endurspegli nokkuð akkúrat karakterinn þó augljósalega verði að taka þær með fyrirvara. Maðurinn er nefnilega fyndinn líka - enn einn mannkosturinn.

Glúmur minnir mig á þessa töffara/sjarmöra sem voru uppá sitt besta í kringum 1930 eða svona rétt fyrir hrunið á Wall Street. Þetta voru menn sem drukku martini á hverju kvöldi og kölluðu konur réttilega "dömur". Ég hélt að menn eins og Glúmur væru útdauðir.

Ég sakna þessara tíma (sem er skrýtið því ég fékk aldrei að upplifa þá. Fíflið hann Woody Allen var komið til sögunnar árið 1975) þegar menn fengu að vera alvöru karlmenn og þurftu ekki að afsaka eigið sexyness. Glúmur afsakar ekki neitt! Hann pissar sko ekki sitjandi! Glúmur er töffari!

Þess vegna segi ég: Kjósum Glúm! Kjósum karlmennsku!

08 nóvember, 2006

Gígalóinn

Sumum finnst þessi hallærislegur. Mér finnst það ekki. Hvað er að því að fá einu sinni einn gígaló inn á þing? Hvað er að því að fá einu sinni einhvern sem sefur hjá einhleypu (og þeim giftu líka)þingkonunum, einhvern sem rústar hótelherbergjum o.s.frv. Ég sá hann í Silfri Egils um daginn og mér fannst verulega frískandi að hlusta einu sinni á töffara tala um pólitík. Ég styð manninn. Í alvöru.

Unaðsplötur

Jæja, kominn tími á eitt mússíkblogg. Búinn að taka sjálfan mig alltof alvarlega uppá síðkastið.

Ég ætla að nota þennan vettvang til að vekja athygli á fimm plötum sem vekja hjá mér sérstaka unaðskennd sem sennilega er afbrigði af aulahrolli. Þegar ég hlusta á þessar plötur ímynda ég mér nefnilega að ég standi á risastóru sviði fyrir framan milljónir manna með gítar og dömurnar dýrka mig. Ég skammast mín fyrir þetta. Nattúrlich.

Af hverju gerir þú það, spyrjið þið.

Jú, ég held að á einhvern hátt sýni þetta að í mér býr hjarðmennskutilhneiging sem gengur þvert gegn þeirri "einn á móti öllum - blaðamannasjálfsmynd" sem hér hefur verið búin til. En best að þegja. Hér kemur listinn:

1. Definitely maybe - Oasis

Rock and roll star er mest grand upphafslag allra tíma.

2. The Bends - Radiohead

Ég gleymi seint þegar ég sá þá í Danmörku sumarið 1995. Þeir hituðu upp fyrir Neil Young og spörkuðu í punginn á gamla manninum af svo miklu afli að hann lá kylliflatur eftir.

3. Steeltown - Big country

Bóner útí gegn.

4. The Joshua tree - U2

Æi, maður þarf svosem ekkert að útskýra þetta. Hefði getað verið hvaða post-1983 plata sem er. Það kunna fáir betur að búa til dýrðarsöngva. Sennilega enginn.

5. Born to run - Bruce Springsteen

Svo kraftmikil og einlæg mússík að það jaðrar við heimsku að fíla hana.

(Bónus: Sam’s town – Killers

Verður ekki lengi á listanum en í augnablikinu nota ég hana í dagdraumatilgangi).

Í Bónus

Kunningi minn á sjötugsaldri, ættaður úr Jökuldalnum og alveg hreint afbragðs hagyrðingur (full klúr á köflum segja sumir), er alveg sammála Frjálslynda flokknum um að það beri að henda austur-evrópskum hópnauðgurum úr landi svo þeir geti hópnauðgað annars staðar.

"Veistu það, Jón minn," sagði hann við mig í gær í biðröðinni í Bónus, "að mér hefur verið hópnauðgað margoft og ég get fullyrt að það er lang, lang, lang, lang, lang best að lenda í íslenskum hópnauðgurum. Þeir eru nefnilega með minni typpi en hópnauðgarar af öðrum þjóðernum."

Hann er svo blátt áfram þessi kunningi minn að maður verður hreinlega stundum soldið vandræðalegur.

07 nóvember, 2006

Brjánsjóvið

Það er nýbúið að segja mér frá "rökræðu" um Brjánsjóvið (Queensjóvið) í Neskaupstað inná Austurland punktur is. Rökræðunni sýnist mér vera lokið sem er synd því ég hefði svo gjarnan vilja leggja orð í belg jafnvel þó ég hafi ekki séð sýninguna.

Í stuttu máli er rökræðan svona:

X segir: Mér fannst sjóvið ömurlegt.

Y segir: Þú ert ósanngjarn. Veistu hvað þetta var mikil vinna?

Gáfulegt, ha?

...

Ég hef sjálfur tekið þátt í svona umræðu við Brjánfélaga (við vini mína Smára Geirs og Bjarna Agga) þegar Helgi Seljan skrifaði krítík um Englandsveislu Brján í Austurgluggann í hittiðfyrra. Helgi var lítið hrifinn og sagði mér að loknu sjóvi að hann myndi skrifa grein sem að öllum líkindum yrði túlkuð sem "neikvæð" gagnrýni á sýninguna. Svo skilaði hann inn grein sem var að mestu lofrulla um sjóvið fyrir utan eitt eða tvö atriði þar sem hann gagnrýndi einhvern söngvara fyrir að syngja, tja...ekki illa en allavega ekki nógu vel, og svo fannst Helga að það hefði mátt hafa Iron Maiden og Clash á lagalistanum.

Hefði Helgi verið orðinn jafn góður fjölmiðlamaður og hann er í dag (og ég betri ritstjóri) hefði hann hraunað yfir sýninguna með mun eftirminnilegri hætti eins og hún átti skilið. Það fannst nefnilega öllum þetta drepleiðinleg sýning. Og tali maður við strákana í Brján í dag þá roðna þeir eins og smástrákar þegar minnst er á ensku sýninguna.

Allavega. Ég fékk að heyra að það ætti ekki að gagnrýna Brjánveislurnar "efnislega". Fyrst og fremst bæri manni "að vekja athygli á þessu frábæra framtaki". Þegar þið sjáið þetta svona á prenti þá skiljið þið hvað þetta er mikil vitleysa. Þetta er svona eins og að segja: "Æi, angans kallarnir mínir. Þetta var óttalega ömurlegt hjá ykkur en þið eruð svo góðir strákar að þetta var bara flott. Bravó fyrir ykkur!"

Þetta gæti ég hreinlega ekki sagt við vini mína og félaga í Brján. Ég ber alltof mikla virðingu fyrir þeim.

Það þarf nefnilega ekkert að klappa þeim endalaust á bakið! Þeir eru orðnir stórir strákar sem kunna til verka og það vita allir. Það þýðir bara ekki að sjóvin geti ekki verið alveg hundleiðinleg!

Enda hvernig væri það nú líka ef sýningarnar væru alltaf fullkomnar? Hvernig gera menn þá betur næst? Ha?

Bréf til Öllu Birgis

Kæra vinkona,

Örlög mín eru þau að ég mun ávallt teljast efnilegur í öllu sem ég tek mér fyrir hendur í lífinu. Yfirleitt ekkert minna en efnilegur en alveg örugglega aldrei meira.

Ég þótti t.a.m. efnilegur í líkamsræktinni í gamla daga, ég þótti efnilegur beitningamaður, efnilegur trommari, efnilegur netagerðarmaður (og þó…), efnilegur bankagjaldkeri, efnilegur kennari, efnilegur blaðamaður, efnilegur ritstjóri og einu sinni þótti ég efnilegur tengdasonur. En einhver illskiljanlegur breyskleiki hefur alltaf látið á sér kræla þegar á reynir og á ögurstundu klúðra ég málunum.

Ummæli þín hér neðra sýna hvernig þessi hörmungarsaga endurtekur sig:

Fyrir hádegi á föstudag þótti ég efnilegt þingmannsefni og var býsna montinn skal ég segja þér. En um kaffileyti sama dags var ég orðinn dæmigerður hræsnari sem skammar fólk fyrir að hafa ekki skoðanir án þess að þora að viðra mínar eigin. Og ég skal sko segja þér að ég skammaðist mín! Ég hef nefnilega alltaf þótt efnilegur í því líka. Jafnvel góður sagði amma gamla við mig einu sinni.

Ég á því ekkert erindi inn á þing eins og þú segir. Til þess er ég of hvatvís og skoðanir mínar of hreyfanlegar. Þú yrðir vonsvikin fyrr frekar en síðar.



Kæra vinkona,

Ég fór ekki öfugum megin fram úr rúminu í morgun og mig langar þess vegna að útskýra betur hvað ég ætlaði að segja á föstudaginn. Því þrátt fyrir heimskuna og hrokann leynist í skrifunum skoðun sem yfirveguðum penna hefði örugglega tekist að koma frá sér óbrenglaðri. Ég er nefnilega jafnaðarmaður eins og þú veist og ég hef hingað til kosið að kjósa Samfylkinguna en ekki VG.



Samfylkingin hefur alla burði í að verða stór flokkur en ég er hins vegar farinn að óttast (og skoðanakannanir sýna að sá ótti er eðlilegur) að Samfylkingin muni skíta í buxurnar í vor. Ég óttast að hún muni ekki einu sinni ná þessum þrjátíu prósentum sem hún náði þó síðast. Og þetta fer verulega í taugarnar á mér! Af hverju kemst flokkurinn ekki á flug!?

Maður hefur stundum velt vöngum yfir hugsanlegum skýringum og sú sem maður hefur staldrað hvað lengst við er að flokkurinn sé svo ungur, að það taki tíma fyrir hann að finna sig. Þú þekkir þennan málflutning og hann virkaði í það minnsta á mig. Ég kaus t.d. Samfylkinguna síðast af því að ég vildi gefa henni annan séns (ég kaus flokkinn ekki bara af því að ég vann fyrir hann. Það hefði enginn komist að því hefði ég kosið VG).

En heldurðu að þetta þyki ekki heldur hjákátleg afsökun fari svo að flokkurinn nái sér ekki á strik fyrir kosningarnar í vor? Á maður að kjósa hann í fjórða sinn árið 2011 í þeirri von að hann verði fullorðinn árið 2012? Hversu löng er eiginlega hönkin sem þessi “vandræðaunglingur” á uppí bakið á manni?



Mín kæra Alla,

Við vitum alveg hvað er að er það ekki? Flokkurinn talar bara einhverra hluta vegna ekki nógu skýrt jafnvel þó hann hafi fullt af fínum og flottum skoðunum. Menn geta sagt, eins og formaðurinn segir, að stór flokkur verði að “rúma margar skoðanir” en við vitum alveg að venjulegur kjósandi kaupir ekki slíka frasa. Hann vill eðlilega vita hvað hann fær fyrir atkvæðið sitt.

Ég vil að Samfylkingin, flokkurinn minn, tali skýrt í stóru málunum (ætlar hún t.a.m. að semja til hægri eftir næstu kosningar fái hún tækifæri til þess?) en ég vil að hún geri það líka í “litlu” málunum (er hún t.a.m. sammála mörgum Austfirðingum um að gera róttækar breytingar á heilbrigðisþjónustu á Austurlandi?). Ég vil ekki að hún sé með “hreyfanlegar” skoðanir eins og ég!

Samfylkingin á að vera svo sneysafull af sjálfstrausti og svo trú sinni stefnu að maður gefist hreinlega upp og viðurkenni að Samfylkingin sé barasta málið fyrir jafnaðarmann eins og mig og alla hina líka. Ég myndi kjósa slíkan flokk jafnvel þó ég væri honum ekki sammála í einu og öllu.

Þetta vildi ég sennilega segja á föstudaginn. Hvar ég, prívat og persónulega, vil hafa sjúkrahúsið er svo bara önnur saga og efni í annan pistil (sem ég nenni ekki að skrifa uppúr þessu. Sjá mína skoðun í kommentunum einhvers staðar fyrir neðan).

Með saknaðarkveðju,

Jón.

03 nóvember, 2006

Hvar vilja menn hafa sjúkrahúsið?

Fyrst maður er byrjaður að tjá sig um samfélagsmálin er best að halda því áfram. Lofa því að vera orðinn góður eftir helgi.

Um þetta snýst málið:

Eitt helsta þrætueplið á Austurlandi er sjúkrahúsið í Neskaupstað. Á það að vera þar áfram eða ber okkur að flytja það í Egilsstaði svo það sinni betur öllum Austfirðingum (segja þeir sem vilja flytja það)? Þetta er aldrei sagt svona en þetta er það sem fólk vill tala um þegar það vekur máls á þessu í eldhúskrókum Austurlands. Og flestir Austfirðingar hafa skoðun á þessu.

...

Jónína Rós Guðmundsdóttir heitir kona sem vill þriðja sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Um daginn var hún í viðtali hjá Austurglugganum þar sem haft var eftir henni að "á meðan sjúkrahúsið er í Neskaupstað þyrfti að bæta samgöngur til Norðfjarðar" (sá fyrirvari verður að vera á þessu kvóti að mér var sagt frá þessu. Ég nennti ekki lesa viðtalið við hana).

Norðfirðingurinn Elma vakti athygli á þessu orðalagi í þarsíðasta Austurglugga þ.e. hvort Jónína væri með þessu að segja að framtíðarstaðsetning sjúkrahússins væri þá ekki Neskaupstaður. Auðvitað er Elma erkitýpískur viðkvæmur Norðfirðingur en þetta var afar eðlileg ályktun sem hún dró. Það liggur í orðunum að Jónína sjái sjúkrahúsið einhvers staðar annars staðar í framtíðinni.

Jónína bregst við þessu í blaðinu sem kom út í gær og segir orðrétt:

"Ég er viss um að við Elma værum fínar í sama liðinu að berjast fyrir því að Fjórðungssjúkrahús á Austurlandi verði sem öflugast og geti sinnt Austfirðingum sem allra best. Ég tel hæpið að Fjórðungssjúkrahús á Austurlandi verði annars staðar en á Austurlandi, Elma.

Og svo gætum við líka barist saman fyrir því að fá fín jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, þú ert kannski til í að vera með mér í að berjast fyrir jarðgöngum milli Vopnafjarðar og Héraðs líka?

Austurland verður ekki öflugur fjórðungur meðan við erum í bullandi hrepparíg í stað þess að líta á hina mörgu kosti sem því fylgir að hafa Mið-Austurland fjölbreytt með miklum gæðum til sjávar og sveita og blablabla..." Framhaldið skiptir ekki máli, hún fer bara útí merkingarlaust þvaður sem ekki er hægt að vera ósammála. Getið lesið það sjálf.

...

Elma hefur eflaust verið með einhvern skæting (las ekki greinina hennar heldur) sem skýra ef til vill að einhverju leyti þessi morgunfúlu viðbrögð en ég vil samt segja tvennt:

Í fyrsta lagi: Hvað þýðir að vilja hafa Fjórðungssjúkrahúsið á Austurlandi á Austurlandi? Á þetta að vera eitthvað fokkins djók? Ef svo er þá ætti að henda rjómaköku í fésið á henni eins og gert er við misheppnaða trúða.

Í öðru lagi: Af hverju svarar konan eins og Elma sé eina manneskjan á Austurlandi sem vill hafa þessa hluti á hreinu? Af hverju þarf hún að snúa útúr og vera með einhverja frasa eins og að við "verðum að standa saman" og “að sjúkrahúsið sinni öllum sem best”?

Auðvitað verðum við að standa saman! Hver mótmælir því? Að vera á móti því "að standa saman" eða "að sjúkrahúsið sinni öllum sem best” er eins og að vera á móti astma eða líkþornum.

Kannski átti þetta líka að vera eitthvað djók en djókið verður hálf misheppnað þegar samfylkingarmaður á í hlut enda eru svona merkingarlaus og loðin svör regla fremur en undantekning í þeim flokki.

Það sem skiptir máli er að þetta er raunverulegt umræðuefni á Austurlandi og skýr svör óskast. Hvar vilja menn hafa sjúkrahúsið?

Bólugrafni unglingurinn fyrir austan

SSA (Samband sveitarfélaga á Austurlandi) ályktaði um fjölmiðla á síðasta þingi. Þið vitið, áskorun til fjölmiðla um að segja fleiri jákvæðar fréttir af Austurlandi. Ég þoli ekki þessa samsetningu en ég treysti því að lesandinn skilji við hvað er átt. Ef ekki þá er jákvæð frétt það sem kallast í daglegu tali "ekki-frétt".

...

Þegar maður býr á Austurlandi verður maður óneitanlega meira var við alla ljótu hlutina sem liðið fyrir sunnan er að segja um okkur. Af hverju eru þeir svona grimmir og vondir, spyr maður sjálfan sig og aðra Austfirðinga.

...

Gefum okkur að einhver fjölmiðlafræðingur myndi nú ráðast í það verkefni að meta hvort umfjöllun um Austurland væri óeðlilega neikvæð. Hann myndi hanna sérstakan jákvæðni/neikvæðni-kvarða og bera síðan allar fréttir um Austurland síðastliðin fimm ár saman við hann.

(Þetta er alveg raunhæft verkefni þó hugmyndin sé ekki bara asnaleg heldur líka yfirmáta andlaus. Við fjölmiðlafræðingar köllum þetta innihaldsgreiningu.)

Ég þori að fullyrða að fjölmiðlafræðingurinn fengi alltaf sömu niðurstöðuna: Það er enginn að ofsækja okkur. Og hafi móðir fjölmiðlafræðingsins staðið sig vel í uppeldinu kæmist hann líka að þeirri niðurstöðu að kvarðinn sem hann eyddi sex mánuðum í að búa til er gagnslaus, tilgangslaus en fyrst og fremst hlægilegur. Allavega fyndinn.

Af hverju? Jú, af því að spurningin er röng. Við eigum ekki að spyrja af hverju þeir eru svona vondir við okkur eða hversu mikið. Þeir mega nefnilega alveg vera vondir við okkur. Þeir mega meira að segja vera alveg rosalega vondir við okkur. Það eru engin lög sem banna það.

Rétt spurning er: Af hverju erum við svona viðkvæm?

...

Nú. Eru sveitarstjórnarmenn á Austurlandi sem sagt bara að ljúga þegar þeir saka fjölmiðla um að ofsækja sig? Neineinei! Auðvitað ekki! Ég þekki suma þeirra ágætlega og veit að þetta er ágætt fólk sem lýgur ekki. En rétt eins og óöruggi unglingurinn þolir ekki að fá bólu á nefið, tala nú ekki um ef einhver bendir honum á að hann sé með bólu á nefinu, þolum við ekki að við okkur sé sagt eitt styggðaryrði. Jafnvel þó stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar fari fram á lóðinni okkar.

...

Menn geta sagt, með réttu, að þessar framkvæmdir hafi farið illa með náttúru Austurlands en stundum hugsa ég að þær hafi farið mun verr með austfirsku "þjóðarsálina". Að minnsta kosti hefur umræðan um þessar framkvæmdir sýnt okkur að sjálfsmynd okkar er svo mölbrotin að henni verður ekki tjaslað saman með einu álveri.

Ennþá virðist nefnilega þessi spurning lúra undir yfirborði hins austfirska sálarteturs:

"Getur einhver sagt mér hvað ég er að gera hérna?"

...

Í fjölmiðlaályktun SSA endurspeglast vanmáttarkennd Austfirðinga sem hefur fengið að grassera of mikið, of lengi. Okkur hefur verið sagt, ekki síst af okkar eigin fulltrúum, að við séum aumingjar með hor í nös sem ekki geti bjargað sér nema með einu stykki álveri.

Fjölmiðlaályktun SSA er afsprengi þessarar vanmeta- og minnimáttarkenndar. SSA vill að fjölmiðlar staðfesti endanlega að ákvörðunin um álver og virkjun á Austurlandi hafi verið rétt. Þetta kallar óhjákvæmilega fram mikilvægustu spurninguna:

Trúa fulltrúar okkar því ekki sjálfir?

01 nóvember, 2006

Ridiculing the ridiculer...

Enski spaugarinn vinur minn hefur áhuga á hvalveiðum okkar Íslendinga. Ég er á móti þessum veiðum en lét samt hafa mig útí það að verja þær gagnvart hinum enska. Og hann var ekki einu sinni í sókn!

Jón Knútur Says: Well, I mean, people are doing worse things in this world. Killing people for instance...

The English Joker Says: Yes, I know. But that is not the reason why you are doing this, is it?

Jón Knútur Says: No, and I know this is stupid, you know, because of tourism and all that.

The English Joker Says: Why do you say that? Because of the Björk and Múm-thing I thought maybe it was a fashion-conscious decision for Cool Islandia. You know, cause whaling is very last century or even 19th century. I thought it was very retro chic...

Jón Knútur Says: Really? Well, maybe Mr. Loftsson is just being retro. I don't know.

Jón Knútur Says: Are you joking?

Ég þoli ekki þegar ég er hafður að háði og spotti eins og þarna. Ég! Spaugarinn sjálfur!

eXTReMe Tracker