Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

28 september, 2004

Gerði soldið um daginn sem segir örugglega ofboðslega mikið um mig en ég er of þreyttur og svangur til að fara diskútera það núna. Ég fletti sjálfum mér upp á Google. Samkvæmt leitinni er ég vetnissérfræðingur. Já...

Kv.

JK.

27 september, 2004

Smile

Smile, Ikarusinn hans Brians, kemur út á morgun en ekki í dag eins og ég hef einhvern tímann skrifað hér. Þetta er undarlegt. Veit ekki hvað ég hef eytt mörgum klukkutímum á netinu að reyna redda mér bútleggi af plötunni. Málið reddaðist þegar bekkjarsystir mín fann eintak í einhverri narðabúð í Vín. Hún færði mér eintak og ég verð henni ævinlega þakklátur.

Smile er að fá glimrandi dóma alls staðar en mest tek ég þó mark á Beachboys.com. Dómarnir þar eru lausir við þessa dýrkun sem einkennir ást margra á Brian (ég myndi - ef ég væri þú - ekki treysta minni dómgreind þegar Brian er annars vegar). Á síðunni fær Smile fimm stjörnur af fimm eins og Pet sounds. Á maður að trúa þessu?

Kv.

JK.

23 september, 2004

55 þúsund kall og málið er dautt

(Úr Austurglugganum í dag)

Sat á barnum á dögunum og ræddi við drykkjufélagana um tónlist eins og svo oft áður. Talið barst óumflýjanlega að Leoncie, hinni indversku prinsessu. Við vorum sammála um að Ást á pöbbnum væri sennilega eitt mest grípandi lag sinnar tegundar. Einhver hafði þó heyrt að prinsessan væri að flytja til Englands sem væri synd því margir austfirskir aðdáendur hafa aldrei barið hana augum. Og þessi einhver spurði þess vegna hvað það myndi kosta að flytja Leoncie austur. Enginn vissi svarið en oft gerir maður einfalda hluti flókna því vitaskuld hringir maður bara í prinsessuna og spyr. Ótrúlegt en satt er hún í símaskránni: Leoncie Martin, söngkona og lagahöfundur, sími 691 8123.

Og svona var símtalið:

JKÁ: Hæ, my name is Jón Knútur and I’m a journalist for Austurglugginn, the local paper here in the eastern parts.

Leoncie: Hæ.

JKÁ: Do you mind if I speak Icelandic?

Leoncie: No, whatever you want.

JKÁ: Ókei. Heyrðu, ég las í einhverju blaði að þú værir að flytja. Ætlar þú ekki að koma austur á land áður en þú ferð út?

Leoncie: Af hverju ekki? Þið þurfið bara að bóka mig.

JKÁ: Ókei. Og hvað kostar það?

Leoncie: Það kostar 55 þúsund krónur plús flugfar og gisting.

JKÁ: Bara fyrir þig?

Leoncie: Nei, ég fer ekki án boddígard.

JKÁ: Jafnvel þó þú sért bara að fara í sveitina?

Leoncie: Jájá.

JKÁ: Hefurðu einhvern tímann komið austur?

Leoncie: Sorrí en hvar er þessi staður sem þú hringir frá?

JKÁ: Hann heitir Fjarðabyggð. Hann er hérna fyrir austan.

Leoncie: Never heard of it.

JKÁ: Ókei en hefurðu skilaboð til aðdáenda á Austurlandi?

Leoncie: Yes, keep on rockin’ to Leoncie’s music, yeah!

Þar hafið þið það. Það kostar bara 55 þúsund kall (plús flugfar og gisting) að fá Leoncie austur ásamt lífverði. Eftir hverju bíða menn?

JK.






22 september, 2004

Death of a...

Jón Knútur Ásmundsson, Norðfirðingur, drapst í dag úr leiðindum tæplega tuttugu og níu ára að aldri.

Jón Knútur lauk prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og skilaði tilgangslausri MA-ritgerð um hip hop tveimur árum síðar. Námsráðgjafi varð hann við Verkmenntaskóla Austurlands árið 2002 og var strax þá nálægt því að deyja úr leiðindum. Hann varð ritstjóri Austurgluggans ári síðar og því starfi sinnti hann til dagsins í dag þegar hann féll frá. Talið er að hann hafi verið að fylla eindálk á menningarsíðu er hjarta hans hætti að slá.

Jón Knútur var ókvæntur og barnlaus.


Minning um verkfall

Verkfallið 1995 var dásamlegt. Var menntskælingur og þótt ótrúlegt megi virðast var ég mun hæfari til að leika mér þá en í verkfallinu 1984. Það var teflt og tekið í nefið alla daga fram á nótt en verður dægradvöl minni í verkfallinu 1995 ekki lýst nánar hér (börn eða veiklaðar konur gætu verið að lesa). Ég skil ekki þessa unglinga sem eru á móti verkfallinu. Kunna þeir ekki að skemmta sér?

Kv.

JK.

21 september, 2004

Kókomó for Kræsts seik!

"Beach boys" eru að koma og miðað við það sem áður hefur verið skrifað á þessa síðu væri það stílbrot ef Knúturinn hefði ekki skoðun á þessari heimsókn. Gæsalappirnar utan um Beach boys hér að framan skýra sig eiginlega sjálfar en fyrir þá sem ekki vita er það ansi útvötnuð útgáfa af hljómsveitinni sem Íslendingar fá að sjá í nóvember. Mike Love er eini orgínalinn í bandinu og flestir harðkjarna aðdáendur eru sammála um að hann sé vondi kallinn í Beach boys-tratigíunni. Það sé jafnvel honum að kenna að Brian Wilson hafi farið yfir um (það finnst mér nú full einföld útskýring á geðklofa. Maðurinn er örugglega leiðinlegur enda repúblikani en andskotinn hafi það! Þá væri tíðni sjúkdómsins enn hærri en hún er).

Nú þegar hefur Dr. Gunni viðrað skoðun sína á málinu og hann er lítt hrifinn - ætlar samt að mæta. Þarna endurspeglaði hann viðhorf margra áhugamanna um poppmússík því Brian Wilson er - eins og allir vita - að fara á kostum þessa dagana. Gaf út fína plötu í sumar og svo kemur Smile í búðir eftir viku. Það segir sig sjálft að auðvitað áttu menn að fá Brian til landsins en ekki þetta fyrirbæri sem gengur undir nafninu Beach boys. Það hefur ekki samið lag síðan 1988 og lagið hét Kókomó for Kræsts seik!

Samt ætla menn að mæta og það ætla ég að gera líka. Held nefnilega að þetta verði fínir tónleikar en það verður líkast til best að vera vel í glasi og ímynda sér að maður sé á balli með einhverju tribute bandi. Ef til vill Ðe lónlí blú bojs.

Kv.

JK.


20 september, 2004

Heyrði Don't let me down í útvarpinu í morgun. Færslan hér að neðan er því ekki lengur í gildi. Tek Bítlana fram yfir Stones á hvaða degi vikunnar sem er.

KV.

JK.

17 september, 2004

Bítlarnir eða Stones?

Einhvern tímann hef ég skrifað í þessa dagbók mína að ef einhver myndi spyrja mig hvort það væru Stones eða Bítlarnir sem væru svona frekar minn tebolli þá myndi ég svara: "Beach boys, helvítis viðrinið þitt!" En það hefur enginn spurt mig og þið vitið þá svarið ef ykkur dettur í hug að spyrja. Nú ætla ég samt að ímynda mér að einhver spyrji og ég ætla ekki að leyfa mér þennan þriðja kost. Ég má sum sé ekki segja Beach boys heldur verð ég að velja á milli Stones eða Bítla.

Já, maður finnur sér sko alltaf eitthvað að gera í vinnunni!

En sum sé. Bítlarnir eða Stones? Þetta er auðvitað brjálæðislega erfið spurning og líkast til er maður dæmdur til ævarandi sektarkenndar ef maður tekur afstöðu í þessu mikla hitamáli sem hefur sundrað '68 kynslóðinni í marga áratugi. Og svo er auðvitað búið að benda á að þetta er ekki þrætuepli minnar kynslóðar. Við ættum frekar að skoða þessar andstæður: Blur/Oasis, Duran/Wham!, SSSól/Sálin, Súellen/Bumburnar, Síva/Ósón (eða var það Ózón?) , Einar Ágúst/Hálfdán. Þið skiljið.

En ég ætla að staldra við Stones/Bítla-dilemmuna. Svarið er Stones þannig að þeir sem vilja geta hætt að lesa núna. Svo það sé á hreinu þá er ég með þessum orðum að gera lítið úr Rubber soul, Revolver, Hvíta albúminu, Let it be og Abbey road. Allt eru þetta fínar plötur, sérstaklega Rubber soul og Abbey road. Þær eru á sinn hátt fullkomnar og ef maður leggur þessar plötur saman (!) þá er útkoman eitt stórkostlegasta listaverk tuttugustu aldarinnar. Takið eftir: Ég sagði listaverk og það er líka helsti galli Bítlatónlistar post '66.

Fram skal tekið og bókað að Bítlarnir voru óumdeilanlega mun betri en Stones fyrir '65. Stones voru einhvers konar kóverband, eltandi dægursveiflur og flugur sem Bítlarnir sköpuðu, og áttu sér í raun engan hljóm eða rödd eins og poppspesjalistar (eins og Knúturinn) segja. Ef nánar er að gáð voru Stones eiginlega lakari fram undir '67 en það ár gáfu þeir út hina hörmulegu Their satanic majesties request sem var yfirfull af einhverjum indverskum hljóðfærum, sækadilíu og hipparugli. Alger vibbi. Næstum því jafn leiðinleg og Sgt. Peppers en sú síðarnefnda var þó orgínal - það má hún eiga. Samt alger vibbi.

Svo gerist eitthvað árið 1968. Stones byrja að skapa þá stórkostlegustu rokktónlist sem um getur - og það á færibandi, praise the Lord! Hef óljósan grun um hvað gerðist ef ég man ævisögu Keith Richards rétt. Brian Jones drukknaði, Mick stakk undan Keith og í kjölfarið byrjaði gítarleikarinn sorgbitni á metnaðarfullum sukktúr sem ekki er enn lokið. Og síðan hætti Mick að vera svona mikil kelling.

Voila! Afraksturinn var þvílík röð af meistaraverkum að engin hljómsveit hefur toppað þetta fyrr né síðar - ekki einu sinni Beach boys (þeim tókst aldrei að gera margar góðar plötur í röð). Fyrsta trompið var Beggars banquet, svo Let it bleed, þá Sticky fingers og loks Exile on Main st. Fullt hús stiga og menn eru einfaldlega steingeldir eða heyrnarlausir ef þeir kinka ekki kolli núna og samþykkja orð Knútsins. Þessar plötur fanga rokkið í allri sinni dýrð, alla lestina, svitann, ástríðuna og síðast en ekki síst úrkynjunina! Þetta var ekkert feik! Lesið bara ævisöguna hans Richards ef þið trúið mér ekki!

Og hvað voru Bítlarnir að gera á þessum sama tíma? Þeir voru einfaldlega uppfullir af því að þeir væru listamenn sem óneitanlega fæddi af sér margar fallegar poppflugur eins og Hey Jude og A day in a life. En fyrst og fremst voru þeir bara í einhverjum þykjustuleik, uppteknir af því að tónlistin þeirra væri list. Það er í góðu lagi út af fyrir sig en komm on! Þegar öllu er á botninn hvolft: Who gives a fuck?!

Það sem er heillandi við rokkið er ekki fágun og fegurð. Það sem heldur manni eins og mér enn í heljargreipum er greddan og löngunin til að öskra úr mér lungun á leiðinni yfir skarðið með mússíkina í botni. Þessi tilfinning - þetta kikk - sem kemur þegar ég hlusta á Monkey man af Let it bleed klukkan hálf níu á morgnana á hundrað kílómetra hraða. Þetta kikk kemur ekki þegar ég heyri Octopus garden eða Lady Madonna. Svo einfalt er það.

Stones eru örugglega ómerkilegri listamenn samkvæmt skilgreiningu en þeir eru án nokkurs vafa hinir sönnu flaggberar rokksins. And we salute you!

Kv.

JK.







16 september, 2004

And the geek shall inherit the earth!

Gleymdi að segja ykkur frá því að ég fór á tónleika með kanadísku narðahljómsveitinni Rush um daginn. Tónleikarnir voru í Birmingham og tólf þúsund aðdáendur sungu saman í kór af áður óþekktri innlifun í lok Xanadu: "And the meek shall inherit the earth!" Er nokkuð viss um að ég og Siggi Óla settum orðið "geek" í staðinn fyrir "meek". Það er réttara.

Hápunktur tónleikanna var þegar bandið renndi sér í Subdivisions, lag númer fjögur ef ég man rétt, sérstaklega lokabreikið hjá Neil Peart en þarna - og reyndar oft þetta sama kvöld - sýndi maðurinn að hann er og verður kóngurinn (ásamt Ringo og Charlie Watts). Hefði samt viljað sjá fleiri lög af Signals og fleiri lög af Grace under pressure. Þeir bættu það upp með fjórum lögum af “Myndaplötunni” sem er - þrátt fyrir allt - þeirra finest hour.

Fengum ömurleg sæti en ég og Gummi færðum okkur eftir tvö lög. Sessunautur okkar, sem var búinn að sjá bandið þrjátíu sinnum og ætlaði að elta það til Prag, sagði okkur að það versta sem gæti gerst væri ef öryggisverðirnir myndu skipa okkur að fara í gömlu sætin okkar aftur.

"That's a risk I'm willing to take," sagði hann. Veit ekki hvað það var en það var eitthvað við þennan mann sem fékk mig til að hugsa að þessi ákvörðun hans þ.e. að skipta um sæti væri sennilega mesta áhætta sem hann hefur tekið í lífinu.

Hef ekkert meira um þetta mál að segja í bili.

Kv.

JK.

14 september, 2004

Atkinskúrinn prófaður

Ákvað snemma á þessu ári að létta mig um svona tíu kíló eða svo. Hafði reynt nokkrum sinnum að bræða af mér spikið með svona kúrum einhvers konar en með engum árangri. Þyngist ef eitthvað er. Hef því fremur lítið álit á megrunarkúrum og sagði við sjálfan mig að ég þyrfti bara að hreyfa mig. "Þú þarft að breyta um lífstíl," sagði einhver hálfviti í sjónvarpinu við mig um síðustu áramót og ég tók hann á orðinu.

En þegar ég stíg á vigtina er alltaf sama þriggja stafa talan sem blasir við mér. Í sumarfríinu gekk ég á fjöll á hverjum degi og vigtinni var nákvæmlega sama. Hún refsaði mér hins vegar harkalega ef ég stalst til að fá mér eins og eitt Prins Póló.

Skrapp svo til Englands á dögunum og taldi upplagt að tékka á Atkinskúrnum svokallaða en Bretar eru frægir fyrir þykkar beikonsneiðar og djúsí egg – sem er víst það eina sem maður á að láta inn fyrir sínar varir ef maður tekur Atkins á þessu helvíti. Enskur morgunverður var því dagskipunin alla daga en ég skal sossum viðurkenna að einn og einn bjór, slatti af frönskum, mæjónes og súkkulaðikökur fengu að fylgja með (í morgunmat sko). Ég notaði hins vegar edik á kartöflurnar þannig að þetta átti að koma út á sléttu.

Steig svo á vigtina í morgun og viti menn! Þyngdist um fimm kíló á jafn mörgum dögum. Ef til vill er það sárabót að ég mun sennilega lifa lengur en aðrir ef á skellur hungursneyð.

Kv.

JK.

07 september, 2004

Hvað er að þér, drengur!

I

Hef aldrei skrifað minningargrein og ætla ekki að byrja á því núna. En Pétur Wigelund Kristjánsson, rokksöngvari, lést í síðustu viku og ég ætla að skrifa fáein orð af því tilefni. Pétur vissi ekkert hver ég var en samt spurði hann mig tvisvar á sinni stuttu ævi hvort eitthvað væri að mér.

II

Þeir segja að hann hafi verið einn fremsti tónlistarmaður sinnar kynslóðar. Ég veit ekkert um það enda nýfæddur þegar hann var upp á sitt besta. Ég verslaði hins vegar oft hljómplötur hjá honum og með fullri virðingu fyrir nafna hans í Tónspil í Neskaupstað held ég að þar hafi verið að verki einn besti sölumaður tónlistar sem Ísland hefur alið. Í það minnsta gekk ég ávallt út með fullan poka af hljómplötum þegar ég hafði heimsótt markaðinn hans í Perlunni í Reykjavík. Það var einmitt þar sem hann spurði mig í fyrra skiptið hvort eitthvað væri að mér.

Þá hélt ég á Rubber soul albúmi Bítlanna og gekk að Pétri þar sem hann var nýbúinn að sannfæra konu á besta aldri um að hún yrði að eignast ákveðna safnplötu með Doris Day – kannske lítið mál þegar maður hugsar út í það. Ég vissi vel að ég var með fingurna utan um besta albúm Bítlanna en mig langaði til að heyra álit Péturs - þó ekki nema bara til að eiga smá orðaskipti við þennan fræga söngvara.

Og ekki stóð á áliti Péturs: “Hvað er að þér, drengur! Áttu ekki þessa?” Ég gekk út með Rubber soul og fimm eða sex plötur í viðbót sem Pétur taldi rétt að ég eignaðist þ.e. ef ég vildi teljast maður með mönnum.

III

Við vorum allir innan við tvítugt og höfðum fengið “gigg” (innvígðir kalla tónleika “gigg”) á pöbb í Fellabæ. Við tókum strax eftir því að Pétur var í salnum enda í sínum fræga átján grýlna jakka og engan þarf að undra að það tók á taugarnar að vita til þess að Pétur W. Kristjánsson var meðal gesta þetta kvöld. Og kannske var það þess vegna sem prógrammið hjá okkur var óvenju gamaldags því ekkert nema Creedence og Stones var á lagalistanum. Það gladdi unga rokkara með viðkvæm hjörtu að sjá að Pétur virtist í raun vera að skemmta sér. Í það minnsta klappaði hann á milli laga sem er alls engin regla þegar bargestir eiga í hlut.

Við fengum það svo endanlega staðfest að Pétur var í góðum fíling þegar hann kom upp á svið til okkar og spurði hvort hann mætti ekki syngja með okkur lag eða tvö. Við héldum það nú! Búnir að bíða eftir þessu allt kvöldið. Tímasetningin hefði heldur ekki getað verið betri því ég var kominn á fremsta hlunn með að telja inn í gamla Troggslagið Wild thing, sem Pétur söng manna mest og kallaði Vældarann. En eitthvað fór niðurtalningin forgörðum hjá mér enda trúði ég því tæpast að gamli swingurinn væri upp á sviði hjá okkur. Án þess að það vottaði fyrir pirringi leit hann á trommarann og sagði ákveðinn: “Hvað er að þér, drengur! Skjóttu!

Kv.

JK.

01 september, 2004

Það rignir í Neskaupstað. Ef ég væri uppi á tímum þar sem leyfilegt væri að segja “ó” í upphafi dramatískrar fullyrðingar myndi ég segja: “Ó, það rignir í Neskaupstað.” Svo fallegur er þessi fjandans bær á meðan rigningin hreinsar í burtu draugana sem angra mann eftir fimm bjóra á Rauða torginu. Á morgun vakna ég svo í nýju þorpi. Og ég trúi því á þessari stundu að ég vakni með hreinan skjöld.

Kv.

JK.

Tvær óskir

Ég sagði einhvern tímann að ég ætti tvo drauma. Annars vegar vildi ég boða fagnaðarerindið og búa til þáttaröð um Beach boys. Þessi draumur varð að veruleika í fyrra. Hins vegar langaði mig til að starfa sem barþjónn í eitt kvöld - þessi ósk var uppfyllt um síðustu helgi.

Ástæðan fyrir seinni óskinni var jafn barnaleg og hún var einföld. Mér fannst bara kúl að vera barþjónn. Barþjónar eru bestu vinir manns, barþjónar leysa vandamál, barþjónar kunna svör við öllu og ef þeir kunna þau ekki er þeim alltaf fyrirgefið. Barþjónninn - he's the man!

En ég var ekki beðinn um neina visku um helgina. Gestirnir vildu aftur á móti láta hlusta á sig, ójá! Og þeir voru með sérþarfir, ójá! Tvær setningar standa upp úr:

"Hei, ég vil ekki svona glas! Ég vil dömuglas!"

Og hin línan var svo hljóðandi:

"Naunau, bara Dancing in the dark í útvarpinu! En það er nú ekkert gaman að dansa í myrkri."

Ójájá, óseisei.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker