Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

27 febrúar, 2006

Capote

Ég fór á Capote á laugardagskvöld en myndin er um rithöfundinn Truman Capote eins og þið eflaust vitið. Ég hef ekki lesið neitt eftir Truman Capote en hef þegar sett In cold blood og Breakfast at Tiffany's í Amazonkörfuna mína. Umfjöllunarefni myndarinnar er tímabil í lífi Truman Capote þegar hann vann að bókinni In cold blood. Hún fjallar um morð á fjölskyldu í smábæ í Kansas eða kannski á maður að segja að hún hafi fjallað um morðingjana en ekki morðið sjálft.

...

Titill bókarinnar á ekkert síður við um Truman Capote sjálfan og hvernig hann manipúleraði viðfangsefni sín á kaldrifjaðan hátt svo hann gæti skrifað "bókina sem mér var ætlað að skrifa" eins og hann er látinn segja í einu atriði. Kvikmyndin sýnir góðan blaðamann að verki og hvernig hann ávinnur sér traust viðfangsins svo það leysi frá skjóðunni í smæstu smáatriðum.

...

Átti sagan svo mikið erindi við fólk að réttlætanlegt var að fara svona með tvo menn sem fyrir verknaðinn voru bara dæmigerðir ólukkumenn? Var þjáning þeirra ekki nógu mikil fyrir? Eins og í öllum góðum bíómyndum býður Capote ekki uppá neina lausn. Áhorfandinn verður að meta það sjálfur hvort höfundurinn hafi gert rétt. Sjálfur var Truman Capote þjakaður af sektarkennd og gaf aldrei framar út bók. Hann drakk sig í hel langt fyrir aldur fram.

Ég er enn að hugsa málið. Þarf að lesa bókina fyrst.

...

Samt er staðreyndin sú að góður blaðamaður/rithöfundur er ekki endilega góð manneskja. Eðli vinnunnar býður ekki uppá neina manngæsku, allra síst þá yfirborðskenndu sem flest mannleg samskipti byggja á. Góður blaðamaður gefur engum grið. Ekki einu sinni ömmu gömlu.

Og sá sem treystir góðum blaðamanni fyrir leyndarmálum sínum er vitaskuld fáviti.

Kv.

Knúturinn.

24 febrúar, 2006

Fimmtudagar í Furunni

Hugi (karlmenn.is) segir frá fullkomnu kvöldi heima hjá sér þar sem hann situr í lazy boy-num, sötrar te og hlustar á Miles Davis. Hann segist hafa verið í náttfötum sem kemur á óvart því ég veit ýmislegt um svefnvenjur vinar míns.

Enívei. Í gær sat ég í mínum lazy-boy, í jogging buxum og Mötorheadbol og horfði á Splash TV. Þegar kynlífshjálpartækjahorn Herra Íslands byrjaði neyddi heilinn mig í 3. persónuhugsun og ég slökkti umsvifalaust á sjónvarpinu. Síðan grét ég mig í svefn.

Lag dagsins: Eitthvað með Sinead O' Connor.

Góða helgi.

Knúturinn.

20 febrúar, 2006

Til að árétta...

Vil taka það fram að lítið mál er að greina Austfirðinga frá Vestfirðingum hinum fyrrnefndu í vil. Fer allt eftir dagsforminu. Til dæmis er besta plötubúð landsins í Neskaupstað. Sem gerir Pjetur að besta plötubúðarmanni á Íslandi.
...

Kristján Hreinsson er augljóslega þátttakandi í samsæri Sylvíu Nætur gegn íslensku þjóðinni.

...

Yfirleitt fæ ég leiðinleg lög á heilann. Frá 13:34 til 23:57 í gær var ég t.d. með Hold me now með Johnny Logan á heilanum en í dag er ég með Bankrobber með Clash. Hjúkk.

Kv.

Knúturinn.

18 febrúar, 2006

Músík og myndir

Fór uppí Hamraborg í hádeginu á geisladiskamarkað Músík og og mynda. Þar er allt á hálfvirði og hægt að gera fín kaup ef maður gefur sér tíma. Samt er eitt sem ég skil ekki við þessa markaði, þennan t.d. og þann sem Pétur Kristjáns var með uppí Perlu. Af hverju tekst þeim alltaf að velja óeftirsóttustu titlana með snillingum eins og Lou Reed? Þarna voru fimm titlar með honum og aðeins einn eigulegur, New York. Hitt var eitthvað nineties drasl sem enginn vill eyða sínu hard earned cash í. Sama með REM. Í stað þess að bjóða upp á diska frá gullaldarárunum voru þeir með tíu eintök af Monster sem er tvímælalaust þeirra leiðinlegasta plata.

Hvað um það. Gekk út með tvöfalda safnplötu með Clash sem ég fékk á áttahundruð og fimmtíu kall.

Kv.

Knúturinn.

17 febrúar, 2006

Kæru Austfirðingar!

Sem Austfirðingur á ég að vita að það var fullkomlega óviðeigandi að tala um síðustu aftökuna á Austurlandi af slíkri léttúð og ég gerði í síðustu færslu. Ég bið alla hlutaðeigandi afsökunar. Þetta var smekklaust og algerlega ótímabært.

Með virðingu,

Knúturinn.

Ég er Austfirðingur

Þegar ég vinn heima hjá mér eins og í dag tek ég mér pásu frá hádegi fram til tvö. Tímann nota ég í smá útivist. Yfirleitt geng ég uppí Perlu og finn síðan einhverja leið niður að sjó. Þetta tekur sem fyrr segir um tvo klukkutíma og þetta er sá tími dagsins sem ég næ að hugsa. Undanfarið hef ég nær einungis notað þennan tíma til að pæla í ritgerðinni minni og hvernig best sé að byggja upp fyrsta hluta hennar. Í dag ætlaði ég að ganga þar til ég kæmist að niðurstöðu en ég gat ekki einbeitt mér. Eftir örlitla frústrasjón leyfði ég huga mínum að reika frjálst og hann stoppaði ekki fyrr en hann kom við á Vestfjörðum.

...

Ég hef alltaf haldið að ég ætti engin tengsl til Vestfjarða en fyrir stuttu kynntist ég vestfirskri stúlku sem reyndist í ofanálag vera frænka mín. Hún er í alla staði hin skynsamasta og dásamlegasta stúlka og afskaplega þægileg í umgengni. Hún á kærasta sem hún heldur mikið upp á og ég efast ekki um að þau eiga hamingjusamt líf í vændum. Þau munu eignast falleg og góð börn.

Svona stúlkur eru líka til fyrir austan en þó er einn stór munur á. Hver er hann spyrjið þið náttúrlega en þið verðið að bíða aðeins. Hægan, hægan.

...

Vestfirðingar eru nokkurs konar Vesturbæingar landsbyggðarinnar. Þið vitið að þegar Vesturbæingur verslar við kaupmanninn á horninu er hann ekki einungis að kaupa inn fyrir heimilið heldur er líka um að ræða pólitíska afstöðu. Heimsóknin til kaupmannsins er pólitísk aðgerð gegn hnattvæðingunni. Þetta er dagsatt.

...

Þið vitið líka alveg gegn hverju Vestfirðingar berjast og óþarfi að tíunda það. Þessi barátta og þessi eilífa vörn hefur mótað, já eða hreinlega búið til, ákveðna manngerð. Þessi manngerð fyrirfinnst líka annars staðar á landinu en þar er hún útlagi eða kverúlant sem ekki er mark á takandi. Fyrir vestan er hún normið. Frænka mín á Vestfjörðum, þessi duglega, hagsýna og skynsama sem ég sagði ykkur frá áðan kýs Frjálslynda flokkinn. Þessi fallega, heiðarlega og réttsýna frænka mín fyrir vestan er sem sagt róttæklingur.

Sem sagt: Svarið við spurningunni um muninn á skynsömum, heiðarlegum og fallegum stúlkum eystra og vestra er þetta:

Skynsamar, heiðarlegar og fallegar stúlkur á Vestfjörðum kjósa Frjálslynda flokkinn.

Skynsamar, heiðarlegar og fallegar stúlkur á Austfjörðum kjósa Framsóknarflokkinn.

...

Ég hef alltaf álitið hugtakið “landsbyggð” vera útí hött. Þetta hugtak táknar einhvern veruleika sem ekki er til. Austfirðingar og Vestfirðingar eru ágætis dæmi um þetta. Þessir landshlutar hafa báðir verið í vörn undanfarna áratugi en fátt eiga íbúarnir sameiginlegt. Á Austfjörðum hefur skapast hefð fyrir því að berjast ekki við kerfið. Austfirðingar eru praktískir og vita að kerfið verður aldrei sigrað. Þeir vita náttúrulega, enda eru þeir alveg jafn góðhjartað fólk og Vestfirðingar, að kvótakerfið er óréttlátt en þeir vita líka, sem þeir telja mikilvægara, að meiri ávinningur fæst með því að vinna með kerfinu en gegn því. Þeir vita hvað þeir hafa en vita ekki hvað þeir myndu fá og svo framvegis (og endalaust í þessum dúr). Meira að segja kommúnistarnir á Austfjörðum, sem eiga að bylta kerfinu samkvæmt skilgreiningu, eru helstu stuðningsmenn þess.

...

Vestfirðingar eru hugsjónarmenn eins Ólafur Ragnar og Jón Baldvin. Þessir menn voru kannski aldrei neitt sérstaklega vinsælir en þeir munu seint gleymast. Þeir eru ógleymanlegir pólitískir listamenn. Þegar ég kaus í fyrsta sinn árið 1994 var Lúðvík Jósepsson, frægasti stjórnmálamaður Austfjarða, þegar orðin óljós pólitísk minning. Með þessu er ég ekki að segja að Austfirðir hafi aldrei átt pólitíska hugsjónarmenn. Einn þeirra heitir til dæmis Hjörleifur Guttormsson en hann er álíka falleg minning í huga okkar Austfirðinga og síðasta aftakan á Mjóeyri við Eskifjörð.

...

Og hugsjónarmennskan brýst ekki einungis fram í pólitíkinni heldur líka í menningunni eins og eftirfarandi dæmi sýna:

a) Þeir eiga Stefán Mána, Rúnar Helga og Eirík Örn Norðdahl en við eigum slatta af klámfengnum hagyrðingum.

b) Vestfirðingar eiga hið gagnrýna og framúrskarandi góða Bæjarins besta og Austfirðingar eiga Austurgluggann (sem reyndar er framúrskarandi líka en á annan hátt).

c) Vestfirðingar eiga Mugison. Við eigum Rokksjóv Brján.

Þetta eru örlög hinna praktísku Austfirðinga og hinna hugsjónaríku Vestfirðinga.

...

Þrátt fyrir þessa andlegu fátækt okkar Austfirðinga stöndum við uppi sem sigurvegarar (og þetta höfum við alltaf vitað). Við trúum á kerfið og þess vegna, og eingöngu þess vegna, mun sólpöllum og nýjum fjórhjóladrifnum jeppum fjölga til muna í fjórðungnum næstu áratugina. Á sama tíma munu tíu Vestfirðingar flytja til Reykjavíkur í hvert skipti sem vestfirskur andans maður fæðist á fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Niðursveiflan á Vestfjörðum er nefnilega ekki hálfnuð.

...

Og hvar stend ég í þessu?

Orðum þetta svona: Ég á lögheimili fyrir austan og ég er að hugsa um að skella mér austur fyrir kosningarnar í vor. Ég mun eiga langt spjall við pabba minn um pólitík á kjördag og ég mun komast að þeirri niðurstöðu að best sé að setja x-ið við Biðlistann. Það sé eini valkosturinn fyrir anarkista eins og mig, hugsa ég. Síðan fer ég að kjósa. Ég mun ganga að kjörklefanum í Nesskóla, svipta tjaldinu frá af öryggi og fá mér sæti. Fullkomlega einbeittur og án þess að hugsa mig tvisvar um krossa ég síðan við Fjarðalistann sem er, eins og við vitum öll, Framsóknarflokkur í afneitun. Þegar ég kem út man ég ekki nokkurn skapaðan hlut.

Austurland mun nefnilega aldrei flytja frá mér þó ég sé fyrir löngu kominn í Kópavog.

Kv.

Knúturinn.

16 febrúar, 2006

Meiri Dostójevskí

Dostójevskí hefur verið minn uppáhaldsrithöfundur undanfarna mánuði. Það er erfitt að útskýra af hverju en sennilega er það vegna þess að hann hefur ótrúlegan skilning á mannlegu eðli og sumar (skuggalega margar reyndar) málsgreinar í bókunum hans eru svo “spot on” að það jaðrar við hið yfirnáttúrulega. Núna er ég að lesa Fávitann sem er flókin saga og augljóslega verk snillings. Ég passa mig á að lesa ekki meira en þrjátíu blaðsíður á dag svo ég hlaupi ekki yfir einhverja snilld sem er oft svo hógvær að auðvelt er að missa af henni.

Af þeim hundrað blaðsíðum sem ég hef lokið við er ein málsgrein sem mig langar til að deila með ykkur. Í henni lýsir sögumaður smeðjulegri eiturpöddu sem Myshkin fursti (þ.e. fávitinn), aðalpersóna bókarinnar, hittir í upphafi sögunnar rétt áður en hann kemur til Pétursborgar þar sem sagan á sér stað. Höfundurinn fangar hér kjarnann í ákveðinni manngerð sem ég hef hitt nokkrum sinnum á ævinni.

“Þessa alvitru herramenn rekst maður stundum á, jafnvel oft, í ákveðnum þjóðfélagshópi. Þeir vita allt, öll forvitni þeirra og hæfni beinist ómótstæðilega í sömu átt, að sjálfsögðu vegna skorts á merkilegri áhugamálum og skoðunum, eins og hugsuðir nútímans myndu orða það. Þegar við segjum að þeir “viti allt” erum við reyndar að tala um afmarkað og nokkuð þröngt svið: hvar einhver tiltekinn maður gegnir embætti, hverja hann umgengst, hvað hann á, hvar hann var áður sýslumaður, hverri hann er kvæntur, hversu mikinn heimanmund hann fékk með konunni, hverjir eru frændur hans í annan og þriðja lið...Og svo framvegis, endalaust í þessum dúr. Flestir þessara alvitru herramanna ganga um með göt á olnbogunum og fá 17 rúblur í laun á mánuði. Fólkið sem þeir kunna öll deili á gæti auðvitað aldrei látið sér detta í hug hvað þeim gengur til með þessu, en víst er að margir þeirra finna jákvæða hugsvölun í þessari þekkingu sinni, sem jafnast á við fræðigrein, öðlast með henni sjálfsvirðingu og jafnvel andlega fullnægingu. Enda er fræðigreinin heillandi. Ég veit um vísindamenn, rithöfunda, skáld og stjórnmálamenn sem hafa náð lengst einmitt í þessum fræðum, eiga þeim jafnvel allan frama sinn að þakka, og engu öðru.”

(Fávitinn, bls. 8-9)

Kv.

Knúturinn.

14 febrúar, 2006

Lífsmark

Best að sýna smá lit.

Hef verið latur í blogginu undanfarið. Og það er ekki því að kenna að ég hafi svo mikið að gera. Ég hef reyndar mikið að gera og lausa tímann á kvöldin nota ég til lesturs. Ef ég hefði einhverja nennu til að blogga myndi ég gera það.

...

Kafbáturinn í plötusafninu mínu er Peter Gabriel. Allt frá því að ég byrjaði að kaupa geisladiska einhvern tímann um '90 hef ég keypt einn og einn disk með Gabriel en aldrei tekið nein ofstopafull æði. Hugsanlega er ég að vinna mig uppí Gabrielmaníu núna en ég hef verið að hlusta mikið á So og PG 3. Delísíus stöff sem truflar mann ekki við fræðiskrifin.

...

Það er soldið sérkennileg tilfinning að skrifa fræðitexta aftur. Í blaðamennskunni var maður vanur að rumpa skrifunum af í einum grænum og ýmislegt var látið flakka sem hefði kannski betur verið látið ógert. Núna er ég sáttur ef ég skrifa tvö hundruð og fimmtíu orð á einum degi og kannski ekkert þann næsta.

...

Menn misskilja alltaf texta, og þá skiptir engu hversu meitlaður hann er, en í þessum skólaskrifum verður maður að minnsta kosti að reyna að ná misskilningslágmörkunarmörkum.

...

Annars er ótrúlegt hvað félagsfræðingar eru leiðinlegir skríbentar. Ég get ekki lesið eina málsgrein eftir Talcott Parsons án þess að fyllast kvíða og vonleysi og meira segja Goffman, sjálft idolið mitt, skrifaði óþarflega tyrfnar bækur.

...

Á þessu eru náttúrulega undantekningar. C. Wright Mills var skemmtilega hrokafullur og lipur höfundur og frægasta bókin hans, Hið félagsfræðilega ímyndunarafl, er bók sem allir geta lesið. En Mills er dauður.

...

Þetta er án vafa leiðinlegasta blogg sem þú hefur lesið. Best að slúðra aðeins svo þið hættið ekki að lesa Knútinn. Sat á kaffihúsi með kunningja mínum á dögunum og hann sagði mér að einhver nemandi við VA hefði verið rekinn úr skólanum fyrir að ryksuga á sér typpið. Hann seldi þetta ekki dýrara og allt það en varla fer svona saga af stað af tilefnislausu. Margar spurningar vakna þegar maður heyrir svona lagað. Til dæmis þessi:

Af hverju mega nemendur VA ekki lengur ryksuga á sér typpið? Átti skólinn ryksuguna?

Kv.

Knúturinn.

06 febrúar, 2006

Óskaplega eitthvað

Er á bókasafninu. Brothættur.

Ef bókasafnsvörðurinn tæki sig til og öskraði á mig færi ég að skæla. Ef stúlkan á móti mér myndi bora í nefið myndi ég skellihlæja. Þetta, dömur mínar og herrar, er þynnka. Ofnæmisástand.

Kv.

Knúturinn.

eXTReMe Tracker