Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 maí, 2004

Jahérnahér. Það hefur verið nóg að gera undanfarið en samt hef ég ekki nennt að segja frá því. Ég fór t.d. á tónleika með Pixies fyrir sunnan um daginn, svo sá ég Klezmer Nova á Seyðisfirði á laugardagskvöldið og rúntaði til klukkan átta um morguninn. Soldið sem ég hef aldrei gert.

Leiðinlegt að geta ekki sagt: "Ég hef bara ekki rúntað svona mikið og lengi síðan ég var seytján." Var nebbla soddan nörd hérna í denn.

Í dag er ég hins vegar últra kúl. Nærri þrítugur og rúnta eins og unglingur með bólugrafið andlit. Hlýt að vera leit blúmer.

Kv.

JK.

22 maí, 2004

Intró:

Fór í Sparkaup áðan og keypti mér súkkulaði. Var næstum því búinn að missa það út úr mér við afgreiðslustúlkuna að Smile kæmi út á afmælisdaginn minn.

I

Mikið væri gaman að geta sagt hinum og þessum að maður hafi hlustað á Beach boys frá því að maður heyrði Pet sounds fyrst tíu ára gamall. Þá myndi maður virka alveg ógurlega reyndur aðdáandi sem enginn myndi þora að andmæla – maður deilir nefnilega ekki við sjóaða menn eins og pabbi minn segir alltaf.

En svo er ekki: Fyrstu kynni mín af strákunum voru ef ég man rétt haustið ’98 þegar ég sat kúrs í fjölmiðlafræði í HÍ. Stórvinur minn Siggi Óla hafði sagt mér frá kennaranum sem var að hans sögn bæði James Bond og Beach boys aðdáandi. Ég veit núna að þessi kennari er Bondmaður en hann er ekki Beach boys aðdáandi fyrir fimmaura en þetta kveikti samt áhuga hjá mér og ég skrópaði í skólann til að fara í Músík og myndir við Austurstræti og keypti Pet sounds – sem ég hafði auðvitað bæði heyrt og lesið að væri ein snjallasta og besta plata rokksögunnar. Man meira að segja að einhver Mausari afgreiddi mig, sennilega Birgir eða gítarleikarinn sem ég man ekki hvað heitir.

Svo tók ég sjöuna heim og lagðist upp í rúm með hedfón á hausnum og hlustaði á Pet sounds. Eins og með svo margar plötur í safninu mínu fór hún einu sinni í spilarann og svo upp í hillu. Það var ekki svo að mér hafi fundist hún leiðinleg eða neitt svoleiðis. Hún var bara ágæt og ég hugsaði með mér að hún kæmi vel út í safninu. Skyldueign allra poppáhugamanna nebbla.

II

Svo liðu nokkur ár og platan hafði ratað nokkrum sinnum í spilarann. Allavega það oft að hún var ein af tuttugu plötum eða svo sem ég tók með mér austur þegar flutti þangað eftir að félagsfræðináminu lauk, jólin ’99 ef ég man rétt, og hún rataði líka í diskamöppuna sem ég tók með mér til Leicester sumarið 2000. Þannig að bakterían hefur sennilega verið farin að grassera í mér en þó ekki búinn að ná tökum á mér.

Þegar ég svo kom aftur haustið 2001 var ég svo heppinn að fá hvergi vinnu. Þá hefur maður nebbla nægan tíma til að lesa og pæla í músík og það var nákvæmlega það sem ég gerði. Þá hófst klikkunin.

III

Ég byrjaði að hlusta á Pet sounds af áður óþekktri áfergju sem ég vona að endurtaki sig seinna með aðrar plötur því fátt er skemmtilegra en að sökkva sér niður í góða músík. Þannig las ég allt sem ég komst yfir um Beach boys – og þá aðallega Brian Wilson – og dellan tvíefldist þegar ég flutti austur í annað skipti jólin 2001.

Starf mitt sem námsráðgjafi við VA reyndist afar þægilegt fyrir mann með vaxandi Beach boys dellu því ég gat hangið endalaust á netinu og lesið mér til og pantað af Amazon líklega um þrjátíu diska með B. Boys og Brian svo maður minnist ekki á bækurnar um bandið. Mæli sérstaklega með Wouldn't it be nice, sjálfsævisögu Brians. Ein skemmtilegasta popparaævisaga, sennilega sú skemmtilegasta, sem ég hef lesið. Full af dópi, brennivíni, baktali og slúðri.

Ég hef verið spurður að því hvers vegna ég sé svona hrifinn af Beach boys og þarna er kominn hluti af skýringunni: Sagan.

IV

Þegar ég er spurður um ástæður þess að ég sé með ólæknandi Beach boys dellu nenni ég yfirleitt ekki að svara í löngu máli, kannske af því að ég hef ekki alminlega skilið hvers vegna ég læt svona. Ég ætla samt að reyna hér:

Í fyrsta lagi: Ég er óskaplega impóneraður af sögu Brians Wilsons. Hún er náttúrlega orðin menguð af lygi en rauði þráðurinn er barátta hans við geðklofa undanfarna áratugi og ólíkt Englum alheimsins þá virðist þessi saga ætla að enda vel.

Sagan af Brian, Dennis, Carl, Mike og Al er síðan eins og góð sápuópera, full af öllum þeim elementum sem eiga að einkenna slísí rokkarasögu: Málaferli, svik, dóp, dauði en samt er kærleikurinn á milli þeirra svo náinn og einlægur.

Í öðru lagi: Þetta er margnotuð og leiðinleg klisja en tónlistin færir mig á annað plan. Tónlist hefur yfirleitt þessi áhrif á mig en aldrei með jafn miklum krafti og þegar Beach boys eiga í hlut.

(Nú er mikilvægt að taka fram að tónlist Beach boys skiptist í nokkra hluta og verður útskýrt nánar hér í grófum dráttum. Þetta er innan sviga og mega þreyttir sleppa þessum lestri.

1960 til 1965

Þegar ég hlusta á plötur Beach boys frá þessum tíma hverf ég á vit einhvers áhyggjuleysis sem gerir tónlistina á þessum árum nauðsynlega ávanabindandi. Þessar plötur er best að hlusta á þegar maður keyrir upp í Hérað, nú eða þegar maður er að vaska upp, taka til eða eitthvað í þeim dúr.

Ég var soldið seinn að grípa þessar plötur en á þessum tíma gáfu þeir út lögin sem urðu síðar klassísk s.s. Surfin’ USA, I get around, Fun fun fun, California girls, Surfer girl, Little deuce coupe, Help me Rhonda, Barbara Ann, Do You Wanna Dance?

Þetta er músíkin sem “hinn almenni hlustandi” þekkir en veitir enga sérstaka eftirtekt. Kann þó að raula þau.

Lögin fjalla um stelpur, brimreiðar (stundum fjalla þau um “brimstelpur” s.b. Surfer girl), bíla og fleiri áhugamál unglinga.

Ég hef engan áhuga á þessu (jújú, kannske stelpum) en samt loka ég augunum og sé sjálfan mig syndandi í Kyrrahafinu jafnvel þó ég sé varla syntur, keyrandi um á amrísku tryllitæki þó ég kunni varla að keyra og deitandi litlar amrískar dúllur þó ég viti að þær eru bæði væmnar og leiðinlegar. Og allir þessir draumórar eiga sér stað í Kaliforníu í kringum ’60. Á strönd. Og það er sól.

Sennilega kallast þetta flótti frá raunveruleikanum en hverjum er ekki andskotans sama?

1965 til 1967

Brian Wilson tók einn við stjórninni og byrjaði að gera táningasinfóníur fyrir Guð almáttugan. Lögin og útsetningar urðu flóknari því maðurinn var byrjaður að líta á músíkina sem list en ekki kúlutyggjómúsík fyrir gelgjur. Þarna bjó hann til Pet sounds og Smile.

Þetta tímabil fílar maður vegna þess að hugmyndaflugið virtist takmarkalaust - hann var innan við 25 ára gamall (en samt finnst mér alltaf leiðinlegt þegar menn sem eru yngri en ég gera eitthvað sem telst sneðugt)!

Á þessar plötur hlustar maður einn með sjálfum sér og dáist að listinni. Það er sum sé fagurkerinn í manni sem fær uppreisn æru.

1967 til 1973

Brian klikkaðist árið 1967 og hinir urðu að bjarga sér. Til þess að ná þessu tímabili verður maður að leggjast í smá lestur. Maður áttar sig nefnilega ekki á því hvað það var gríðarlegt afrek hjá BB mínus B. Wilson að halda áfram þegar kallinn fór yfir um. Þarna blandast líka í söguna fjöldamorðinginn Charles Manson sem er afar skemmtilegt tvist.

Ég veit eiginlega ekki hvort ég hef meira gaman af BB bókunum mínum sem segja frá þessu tímabili eða plötunum. Sennilega finnst mér bækurnar skemmtilegri.


1974 til 1977

Brian snýr aftur. Fyrsta kombakkið hjá honum en hann hvarf fljótlega aftur. Plöturnar bera þess merki að Brian var ekki í lagi á þessum árum. Dæmi:

If Mars had life on it I might find my wife on it
Venus the goddess of love can thank all the stars above
Mercury's close to the sun
You'll see it when day is done

Solar system
Brings us wisdom
Solar system
Brings us wisdom
Solar

(Solar system af plötunni BB love you frá 1977)

Hér er líka gott að vera vel lesinn í Beach boys fræðum því það er náttla stórmerkilegt að Brian skyldi hafa tekist að gera nokkurn skapaðan hlut - kolruglaður maðurinn. Ég verð þó að viðurkenna að ég er feginn að hann tók upp plötuna Love you sem er ein af mínum uppáhalds BB plötum. Þetta er undarlegasta tónlist sem ég hef heyrt – ever.

1978 og áfram...

Ég hef engan áhuga á Beach boys eftir 1977. Þeir tóku meðvitaða ákvörðun um að hverfa aftur til 1964 og gera lög eins og í gamla daga. Það er ógurlega hallærislegt að heyra miðaldra kalla syngja lög um brimreiðar og stelpur. Ég nenni ekki einu sinni að hlæja að þeim. Svigi lokast)

Í þriðja lagi: Ég held með Beach boys! Ég held með þeim eins og aðrir halda með Crystal Palace. Þegar ég er spurður að því hvort það séu Bítlarnir eða Stones sem höfða til mín svara ég: “Beach boys maður, Beach boys!” Hef reyndar aldrei verið spurður að þessu en ef einhver myndi spyrja mig yrði þetta svarið.

Ég fylgist með fréttum af þeim og Beachboys.com heimsæki ég um leið og ég heimsæki Mbl, Baggalút, Amazon og einhverjar aðrar síður sem ég vil ekki nefna opinberlega.

V

Ég aðskil áhuga minn á Beach boys frá áhuga mínum á tónlist. Áhugi minn á Beach boys er miklu fanatískari. Dæmi: Ég sperri eyrun þegar einhver segir eitthvað sem byrjar á b-i í þeirri von að ég fái nýjar fréttir af mínum mönnum.

Sá sem telur þennan áhuga minn einkenni á einhverjum sjúkdómi vil ég segja:

FÁÐU ÞÉR Í GLAS OG FARÐU Á RÚNTINN, HELVÍTIS VIÐRINIÐ ÞITT!

Kv.

JK.














Smile, hið “týnda” eða óútgefna meistaraverk Brian Wilsons kemur úr í haust, en það var í september 1966 sem hann hóf gerð plötunnar ásamt Van Dyke Parks, fyrrum barnastjörnu, þáverandi intelektúal og “hipster” – hann var svona “with it” í þá daga if you know what I mean. Platan var sett í skúffu í maí 1967 eftir margra mánaða vinnu og viku síðar kom Pepperinn út. Allt breyttist - eða svo segja poppfræðingar. Smile hefur síðan þá orðið eitt stærsta spurningamerki í sögu rokksins.

"Hvað ef Smile hefði verið á undan?" spyrja nördarnir og skemmtileg en gagnlaus umræða um rokk og ról hefst. Yfirleitt uppskera nördarnir andvarp hinna venjulegu sem vilja komast á barinn sem fyrst.

Við gerð plötunnar missti Wilson tök á lífi sínu og of langt mál að rekja ástæður þess hér enda eru útgáfurnar svo margar að það er ekki nokkur leið að skilja né vita hvað er rétt og hvað ekki svo rétt. Síðan hann hætti við Smile hefur goðsögnin um Brian Wilson orðið einhvers konar sjálfstætt fyrirbæri sem lifir sjálfstæðu lífi fjarri manninum sjálfum.

Ég get tekið dæmi: Í hvert einasta skipti sem Wilson ákveður að halda tónleika má finna fleiri tugi greina, sérstaklega í bresku pressunni, þar sem endurkomu meistarans er fagnað og látið eins og hann hafi ekki komið fram á tónleikum í þrjá áratugi. Staðreyndin er hins vegar sú að Wilson hefur verið meira og minna á tónleikaferðalagi undanfarin fjögur ár. Og ekki má gleyma plötunum Imagination og svo hinni stórkostlegu Live at the Roxy.

En fólki finnst gaman að lesa um “kombökk” og Brian Wilson er konungur þeirra.

Næstu daga ætla ég að blogga reglulega um Beach boys og Brian Wilson. Gaman fyrir mig en kannske leiðinlegt fyrir ykkur. Þá það.

Kv.

JK.

ES. Meðan ég man: Smile kemur út 27. september og svo vill til að þetta er afmælisdagurinn minn. Ef ég væri álíka vænisjúkur og Dao formaður myndi ég þurfa að leggjast inn...

EES. Ef þið ýtið á efri "edit-me" hnappinn hérna til vinstri þá lendið þið á Beachboys.com. Hún er ekki "official" þ.e. ekki á vegum Beach boys sem gerir hana einfaldlega að bestu síðunni um strákana. Ef þið ætlið að kaupa ykkur eitthvað með þeim er gott að lesa dómana sem fylgja diskógrafíunni - yfirleitt mjög réttir og sannir.

14 maí, 2004

Spáðu í mig

Voðalega er ég latur að við þetta en eins og ég hef áður sagt þá nenni ég ekki blogga þegar ég hef ekkert að segja. Ég hef reyndar ekkert að segja akkúrat núna en ég er vonast til að það breytist þegar framar dregur.

Og hérna, tja, hvað á ég nú að segja ykkur...já! Einmitt! Nei annars.

Ég hef ekkert að segja nema kannske það að ég fór til spákonu í gær. Og meðan ég man: Framvegis ætla ég að skrifa kannski með e-i þ.e. kannske. Það er einhvern veginn austfirskara.

Sum sé, ég fór til spákonu í gær ásamt Erlu Traustadóttur, framkvæmdastjóra Austurgluggans, en ætlunin var að láta þrjár spákonur spá fyrir henni og bera síðan saman þessar spár, lýsingar eða hvað þetta er nú kallað. Þetta efni ætlaði ég síðan að nota í grein sem birtist í næstu viku í Glugganum góða.

Nema hvað að ein spákonan vildi endilega spá fyrir mér og ég lét það eftir henni enda orðinn mjög forvitinn. Ég hefði betur sleppt þessu því spáin mín var fremur dapurleg, allavega hvað eitt mál snertir. Hún sagði nefnilega hátt og snjallt: “Jón minn, þú átt eftir að klúðra þessu, ljúfur!”

Og hvað það er sem ég á eftir að klúðra læt ég liggja milli hluta.

Fyrst varð ég eilítið hvumsa enda hélt ég að spákonur myndu eingöngu segja manni frá því jákvæða sem bíður manns en eftir smá heilabrot sá ég að þær eiga auðvitað eingöngu að segja sannleikann og allan sannleikann. Það borgar sig ekki að hlífa fólki, það endar alltaf illa.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker