Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

31 júlí, 2006

Maraþon II

Var búinn að klæða mig í þýska landsliðsbúninginn og ætlaði að fara skokka. Leit útum gluggann: Rigning og rok.

"Ég skokka ekki í þessu helvíti," tautaði ég og settist í Lazy boyinn hans Kela. Ég tók ákvörðun:

Ég skokka ekki í dag. Ég skokka á morgun og síðan ekki söguna meir. Fram að keppnisdegi ætla ég aðallega að pæla í því hvernig ég ætla að vera klæddur. Útlit ofar innihaldi hef ég alltaf sagt, póstmódernistinn sem ég er. Finnst svona líklegast að ég verði í þýska landsliðsbúningnum en hann er að vísu frá HM '98. Ekki góð keppni hjá mínum mönnum minnir mig. Á líka Bowlingbúning sem ég gæti notað en hann er alltof urban. Ég vil vera soldið dreifbýlis í þessari keppni. Hmmm...vandamál, vandamál, vandamál.

Knúturinn.

Maraþon

Í gær fékk ég fyrstu alvöru efasemdirnar um að ég gæti klárað þetta Barðsneshlaup sem talið verður í eftir fimm daga.

Ég byrjaði að æfa mig fyrir tíu dögum síðan, hef skokkað fjóra kílómetra á hverjum degi og stundum, ef mig langar til að vera sexí, tek ég armbeygjur og svoleiðis. En það virðist ekki breyta neinu. Ég er alltaf orðinn móður og kominn með hlaupasting eftir fimm hundruð metra! Barðsneshlaupið er tuttugu og sjö kílómetrar! Í gær gafst ég upp eftir að hafa hlaupið í tíu mínútur, gjörsamlega að springa úr mæði. Til hvers var ég að hætta vindlareykingum ef þetta er niðurstaðan? Er þetta kannski genagalli?

Þjálfari minn segir að ef ég æfi mig sé þetta pís of keik. Snillingur. Hvað skulda ég þér?

...

Kræst, ég er örvæntingin holdi klædd og þjálfarinn fór í frí uppí Munaðarnes í fyrradag! Ef það eru einhverjir ráðagóðir hérna inni þá mega þeir láta ljós sitt skína í kommentakerfinu. Ekki vera feimin, hver sem þið eruð.

1. Það er mánudagur. Fimm dagar í hlaup. Á ég að hætta æfingum og vona að þetta reddist? Byrja jafnvel að reykja aftur?

2. Er mannorð mitt ónýtt ef ég byrja að skæla í Hellisfirði og biðja um mömmu mína?

3. Get ég notað genaafsökunina til að skrá mig úr þessu hlaupi?

Knúturinn.

30 júlí, 2006

740

"Vinur í raun" var alltaf svona temporary nafn á þessa síðu. Auðvitað á hún að heita "740".

Knúturinn.

29 júlí, 2006

Gamaldags blogg

Góður vinur minn – sem aldrei lýgur og býr fyrir ofan Bónus á Egilsstöðum – sagði mér í gær að hann sæi reglulega Kárahnjúkameðmælendur í ruslagámunum fyrir ofan Bónusbygginguna í leit að einhverju æti.

Ég veit eiginlega ekki hvað manni á að finnast um svona fréttir. Hálft í hvoru dáist maður að þessu fólki því það verður seint hægt að saka það um að vera ósamkvæmt sjálfu sér. Ekki sat það á fínum veitingastað, borðandi nautasteik, predikandi um hvernig við verðum að fara að hætta þessari gengdarlausu neyslu.

Og ef við myndum nú öll bara sætta okkur við að borða úr ruslagámum þá væri engin þörf fyrir álverksmiðjur og risavirkjanir. Þannig er það nú bara.

...

Ég hitti gamla vinkonu á Hótel Héraði í gærkvöld. Hún er listamaður í Reykjavík en bjó í Neskaupstað í nokkur ár. Ég tók eftir því að hún var með barmerki sem á stóð “Aldrei kaus ég Framsókn” eða eitthvað í þeim dúr. Framsókn er svo hrikalega out þessa dagana að maður man eiginlega ekki eftir öðru eins í pólítík.

Stjórnmálaflokkar eru að þessu leyti ekki ólíkir popphljómsveitum því það sem gerir þá óvinsæla á einum tíma mun svo seinna meir gera þá vinsæla. Haldiði ekki annars að eftir nokkur ár, þegar Samfylking og Íhald verða búin að leggja landið í eyði og Íslendingar komnir á kaf í einhvers konar trúarlegan neo-conservatisma, að Framsóknarflokkurinn meiki alveg hrikalegan sens?

Á flokksþinginu hjá Framsókn eiga menn að kjósa framsóknarlegasta framsóknarmanninn sem formann og bíða síðan bara eftir réttri vindátt.

...

Fáskrúðsfirðingur bloggar um kunnáttuleysi Austurgluggamanna í íslensku. Þetta er klassísk gagnrýni á blaðamenn og réttmæt.

En.

Mér finnst mikilvægast að menn hafi eitthvað að segja. Þá fyrirgef ég margar málfræði- og stafsetningarvillur. Það var t.d. fullt af villum í DV en þeir bættu það upp svo um munaði með krafti og spilagleði. Mogginn var meira og minna villulaus en hann hafði aldrei neitt að segja.

Kannski hef ég þessa skoðun vegna þess að hvernig sem ég reyndi fékk ég aldrei nema kannski sex í íslensku. Plain old minnimáttarkennd.

...

Hef horft talsvert á Skjá einn á morgnana undanfarið. Þeir spila stanslausa mússík og playlistinn þessa dagana samanstendur af indírokki sem ég, samkvæmt skilgreiningu, fíla í botn. Það er ekki hægt að neita því að Fake tales of San Fransisco með Artic monkeys er býsna skemmtilegt lag með alveg hreint delightful grúvi en af hverju þurfa þessi fjandans indíbönd alltaf að vera svona fokkin lúðaleg? Ég meina, what’s wrong with being sexy?

...

Horfði á The L-word um daginn en ættingi minn á sjötugsaldri, ættaður úr Jökuldalnum og alveg hreint afbragðs hagyrðingur sagði mér að þættirnir yrðu honum úti um rúnkfantasíur í a.m.k. viku.

En hérna sko, hversu mörgum hjálpartækjabröndurum er hægt að troða inní einn fokkins sjónvarpsþátt?!

“Ekki þessa neikvæðni, Knútur!” æpið þið. “Ókei, ókei, ókei,” segi ég og slaka aðeins á.

Sko, það hlýtur að vera heilög stund hjá öllum lesbískum pörum klukkan 23 á miðvikudagskvöldum. Sem er gott mál. Loksins kominn þáttur sem höfðar til þeirra. Og ekki má gleyma okkur hinum þ.e. normal fólkinu. Núna getum við loksins öðlast skilning á samfélagi samkynhneigða fólksins og þá getum við hugsanlega umborið það.

Ég vil þætti um og fyrir rauðhærða. Ég vil að það sé fjallað um kynlíf þeirra á hispurslausan en jafnframt skilningsríkan og hlýlegan máta. Jafnvel kómískan. Ég vil nefnilega vera umborinn líka.

Takk fyrir.

Knúturinn.

28 júlí, 2006

Sunny days (daze)

Um þetta leyti fyrir fimm árum síðan bjó ég í nýrri heimavist í Leicester við Putney road. Einhverjum vikum fyrr hafði ég flutt frá heimavistinni sem ég dvaldi í yfir veturinn við Salisbury road. Sú heimavist var í gömlu vinalegu múrsteinshúsi en sú nýja var risavaxinn múrsteinsklumpur með “álmum”.

Ég yfirgaf alla mína bestu vini og bjó núna með tveimur náungum frá Alsír og einum Kínverja sem ég drakk bjórinn frá á hverjum degi. Hann var kurteis og gerði aldrei neitt í þessu og ég var svo mikill töffari að mér fannst þetta hið besta mál, bara fyndið.

Ég ætlaði auðvitað að kaupa handa honum kassa áður en ég færi til Íslands í lok ágúst en ég keypti aldrei þennan kassa og var líka byrjaður að reykja sígaretturnar hans um það leyti sem ég fór. Og svo við sleppum allri tæpitungu þá langaði mig líka í kærustuna hans. Hún kallaði sig Denise eða eitthvað álíka alveg útí hött en hét Xiu.

...

Þegar ég gekk í vinnuna í gær í tuttugu stiga hita varð mér hugsað til Leicester. Þetta voru ekki minningar um neinn sérstakan atburð heldur bara einhvers konar leifar af tilfinningum sem ég upplifði þetta sumar í útlöndum.

Á svona heitum dögum fór ég ásamt Íberíugenginu Viktori, Antonis og Cláudíu í almenningsgarðinn og þar lágum við tímunum saman, hlustuðum á tónlist (þetta sumar var mikið hlustað á fyrstu plötu ótrúlega efnilegs söngvaskálds sem kallaði sig Badly drawn boy), drukkum bjór og reyktum sígarettur. Stundum kom Ross líka, enski böddíinn, en þá kom Cláudía ekki. Þau þoldu ekki hvort annað. Cláudía sagði að hann drægi fram það versta í mér og Ross sagði um Cláudíu að hún væri “a miserable cunt”. Þetta sagði hann um kærustuna mína í mín eyru. Mér fannst þetta alltaf jafn fyndið.

...

Þetta var síðasta sumarið mitt sem stúdent. Ég mun aldrei upplifa svona daga aftur. Ekki af því að svona aðstæður gætu ekki skapast aftur (kannski á styrk, útí útlöndum, úlala) heldur er ég bara breyttur sjálfur. Ég gæti ekki legið útí almenningsgarði tímunum saman, hálfdrukkinn af bjór og léttvíni um kaffileytið á þriðjudegi, með óopnaðan vískífleyg í jakkavasanum. Kvöldið galopið.

En já, mitt þrítuga sjálf myndi eflaust ganga framhjá mínu tuttugu og fimm ára gamla sjálfi og vinum þess og hugsa: “Af hverju notar drengurinn ekki sólaráburð?”

...

Eitt sinn bað ég róna um að útskýra fyrir mér af hverju hann lifði þessu rónalífi. “Ætli það sé ekki ævintýraljóminn sem fylgir þessu,” sagði hann og lýsti síðan heitum dögum á Austurvelli, drekkandi með vinum sínum. Hver vissi hvað myndi svo gerast?

Svo bætti hann við að það væri erfitt fyrir unga, alheilbrigða, reglusama og fullkomna menn eins og mig að skilja þetta.

Knúturinn.

25 júlí, 2006

A love supreme

Hvað gerir góða tónlist að góðri tónlist? Jú, þegar hún skilgreinir hvernig manni líður á þann hátt sem orð geta ekki. Orð flækjast alltaf fyrir hinum raunverulegu tilfinningum sem maður dílar við daglega er það ekki? Góð tónlist er hrein, hún kemur sér beint að efninu.

En stundum fattar maður ekki að maður er að hlusta á góða tónlist. Skilninginn vantar. Og raunverulegur skilningur kemur að innan eins og pabbi vinar míns skrifaði eitt sinn í bók.

Maður þarf sem sagt smá snefil af lífsreynslu til að skilja sumt. Eins og t.d. góðan djass.

...

Í fyrrasumar keypti ég plötuna A love supreme með John Coltrane. Þetta er frægasta plata saxófónleikarans og í djasssögunni markar hún þáttaskil. Ég man ekki af hverju hún gerir það en þetta er stendur allavega skrifað í djassbókinni hans Jóns Múla.

...

Þegar ég eignaðist plötuna var ég hamingjusamur ritstjóri héraðsfréttablaðs. Ég átti fallega og gáfaða kærustu og át yfir mig á hverjum degi. Ég var svo efnilegur skal ég segja ykkur! Innan tíðar myndi ég ná frama, innan tíðar myndi ég eignast enn fallegri kærustu og innan tíðar myndi ég eignast sólpall og jeppa!

“Þetta er ofmetnasta plata djassögunnar,” sagði ég því sjálfumglaður við kærustuna mína og vann mig síðan inní tónlistarpredikun sem ég get framkallað hvenær sem er: Sannur listamaður er ekki eingöngu meðvitaður um hver hann er, hann skynjar líka og er meðvitaður um veru sína á tilteknum tíma og í tilteknu rúmi. Listaverk hins sanna listamanns eldist ekki.

“Þetta er óspennandi, dæmigerður djass,” hélt ég áfram og lækkaði niður í trylltu trommusólói Elvin Jones á sjöttu mínútu Pursuance. Niðurstaða mín var þessi: “Þetta er bara klisjukennd bítnikkatónlist. Sándtrakk fyrir sumarið 1965. Hefur ekkert relevance í dag. Ekki frekar en fyrsta plata Paul Young!” Ég hló mig máttlausan. Djöfull var ég ánægður með mig. Sjaldan eða aldrei hafði mér tekist jafn vel upp!

En ég var svosem ekkert vonsvikinn enda batt ég engar vonir við plötuna. Þetta voru impulse-kaup og platan tæki sig eflaust ágætlega út við hliðina á Miles í djasshillunni. Og það að ég hefði rökstudda skoðun (og nota bene mjög kontróversjal) á því hvers vegna A love supreme væri ofmetin plata (og Coltrane verri listamaður en Davis) sýndi í hnotskurn hvers konar andans snillingur ég var orðinn. Þorpari með smekk og fágun heimsborgarans. Auðvitað var ég alltof góður fyrir Flíspeysuville! Ég meina, ég var hinn norðfirski Lester Bangs!

...

Sex mánuðum síðar:

Ég gafst upp á blaðamennsku fjórum mánuðum áður og endaði á geðdeild.

Að vísu sem starfsmaður en ég hefði auðveldlega geta fengið inni sem sjúklingur. Það hefði verið mjög, mjög, mjög auðvelt og gert þennan kafla lífs míns mun áhugaverðari.

Ég samsamaði mig ekki lengur við Lester Bangs. Ég var miklu frekar hinn norðfirski Raskolnikof; vænisjúkur og einmana, í kjallara í Kópavogi. Berklar hefðu verið kærkomnir því þá hefði vindlahóstinn sem ég var óðum að koma mér upp verið rómantískari. En nei. Þetta var bara ósköp venjulegur hósti, framkallaður af vindlareykingum sem Landsbankinn fjármagnaði.

En ég var við fulla heilsu, þ.e.a.s. þegar ég var í vinnunni. Ég fann þetta þegar ég klæddi mig í sjúkraliðafötin í upphafi vaktar. Ég stóð fyrir framan spegilinn í búningsklefanum og með hverri spjör varð heilsan betri og sjálfstraustið meira. Þegar ég var kominn inn á deild sáu skjólstæðingar mínir svo til þess að samanburðurinn yrði alltaf mér í hag. Ég fékk heilbrigðisvottorð í lok hvers vinnudags.

En lífið utan geðdeildar var fokkin leiðinlegt. Ég var rednekki í Kópavogi.

...

Sex mánuðum síðar:

Mér líður eins og ég sé loksins orðinn fullorðinn. Ég er nýbúinn að skrifa undir kaupsamning og kominn heim til bróður míns í útbæ Egilsstaða. Ég flyt inn eftir mánaðarmót. Vonandi. Ég er opinberlega orðinn Héraðsbúi.

Ég drekk Bragakaffi og á fóninum er A love supreme sem ég tók með mér frá Kópavogi fyrir slysni. Tónlistin sem ég heyri er lífið sjálft, með öllum þeim krókum og kimum sem í því leynast. Stundum er það dapurlegt bassasóló, stundum er það trylltur spunakafli sem erfitt er að finna taktinn í, stundum er það ljúf melódía úr saxófón. Akkúrat núna er það hratt trommubreik sem endar með snerilhöggi. Afmarkandi hljómur sneriltrommunnar markar upphaf einhvers. Vonandi er þetta byrjunin á svingkafla.

Knúturinn.

16 júlí, 2006

Ganga

Fyrstu alvöru fjallgöngunni í sumar er lokið. Ég og Jón Hafliði byrjuðum klukkan hálf níu í morgun á Mjóafjarðarheiðinni, gengum að Fönn, þræddum Eggjar út að Goðaborg og fikruðum okkur síðan niður í Fannardal. Þetta tók okkur tæpa átta tíma.

...

Ég stóð við hengiflugið, með Herðubreið glottandi í vestri, Mjóafjörð í norðri og endalausa fjallgarða í suðri. Þessi staðföstu austfirsku fjöll færðu yfir mig fullkomna ró. Allir bakþankar fuku útí buskann í suðvestan golunni.

...

Og það er eitthvað svo rómantískt þegar gangan endar í heimabænum.

Knúturinn.

ES. Er að hlusta á lag sem ég náði í á síðunni hans Dr. Gunna. Lagið heitir Young bride með bandi sem heitir Midlake. Búinn að hafa það á repít í klukkutíma.

14 júlí, 2006

Deep south, eastern gothic and more...

Ég finn að ég er að vinna mig uppí dæmigerðan male-autistic áhuga á Lynyrd Skynyrd. Poor man’s Led Zeppelin var sagt þegar þeir voru teknir inn í Rock and roll hall of fame í fyrra en mér gæti ekki staðið meira á sama. Hipsterarnir sem skrifa mússíkpressuna munu aldrei fíla einhverja landsbyggðarvarga sem spila lög sem heita Whiskey rock-a roller. Þeir vilja frekar Sonic youth eða Talking heads þessir hundarúnkarar sem aldrei hafa migið í saltan sjó, hafa aldrei verið fullir í meira en fimm daga og hafa aldrei vaknað með kúk í buxunum o.s.frv.

...

Byrjum á smá sagnfræði og skilgreiningum:

Suðurríkjarokkið var upp á sitt besta í kringum 1975 þegar bönd eins og Skynyrd, Outlaws, Marshall Tucker band og 38 Special voru að gefa út plöturnar sem gerðu þessa tónlist að sérstakri tónlistartegund. Í Suðurríkjarokki er blandað saman kántrí, soul, blús og gospel en hið sérstaka krydd, sem gerir Suðurríkjarokk að Suðurríkjarokki en ekki kántrírokki, er hinn þungi riðmi sem vafalítið kemur frá breskum þungarokksböndum eins og Cream og Led Zeppelin.

En hlutföllin í bestu Suðurríkjaböndunum voru alltaf kántríinu í vil og það er í harmrænum ballöðum sem bandi eins og Skynyrd tekst best upp. Þið kannist við Free bird og vitið því upp á hár um hvað ég er að tala. Og ekki skemmir mythológían fyrir því saga Skynyrd er ein sú flottasta í rokksögunni. Southern gothic eins og það gerist best. Sagan er efni í kvikmynd eða að minnsta kosti efni í annað blogg.

Þið trúið mér ekki?

Sko, af þeim átta meðlimum Skynyrd sem prýða umslag síðustu plötu sveitarinnar, Street survivors, eru allir dauðir nema tveir. Og annar þessara tveggja var nýlega settur í grjótið fyrir perraskap gagnvart börnum. Hvað gerðist í millitíðinni, spyrjið þið. Já, hvað gerðist eiginlega?

...

En líkt og íslenska harmonikkutónlistin staðnaði Suðurríkjarokkið og það varð smátt og smátt einhvers konar upphafning á einhverju ímynduðu Suðurríkjasamfélagi þar sem karlanir eru sterkir, konurnar stinnar og hommarnir á sínum stað í San Francisco. Útvötnuð útgáfa af Skynyrd túrar núna með Dixiefánann hangandi yfir trommusettinu og sungin eru lög sem heita Red, white and blue. Gott ef George Dubya var ekki sérstakur gestur á tónleikum hjá þeim um daginn.

...

Helsta von Suðurríkjarokksins er grúbba sem kallar sig Drive-by truckers frá einhverjum smábæ í Alabama. Þetta eru drengir á aldri við mig, já og reyndar ein stúlka, og þótt tónlistin þeirra sé að mörgu leyti hið dæmigerðasta Suðurríkjarokk er attitjútið ferskt. Þetta er Suðurríkjarokk Simpsonskynslóðarinnar.

...

Þau elska sveitina sína en eru ekki svo þjökuð af minnimáttarkennd að þau þori ekki að gagnrýna og gera grín að henni. Og þá eru þau sérlega lúnkin við að finna ný tilbrigði við úrsérgengin kántrístef eins og hið klassíska um hina óendurgoldnu ást.

Dæmi:

“Marry me, sweet thing won’t you marry me.
Your mama thinks I beat anything she’s ever seen.”

(Þegar ég heyrði Trukkana syngja þetta (þetta er partur úr viðlagi lagsins Marry me) varð mér strax hugsað til stelpunnar sem svaf hjá öllum kunningjum mínum en þegar ég lét á það reyna - vildi fá minn skerf - sagðist hún vilja vera vinur minn. "Ó, þín skelfilega, skelfilega, skelfilega smábæjarfortíð," hugsið þið núna.)

...

Trukkarnir eru meðvitaðir um verkefni sitt. Þeir segjast vera “afbyggja” goðsögnina um sveitina þar sem allir eru svaka happí. Þetta er goðsögn sem íhaldssamir heimamenn hafa búið til og andstæðan er vitaskuld stórborgin með lauslæti, morðum og dópi. Öllu saman stjórnað af frjálslyndum vinstrimönnum og eggjahausum. Fyrir Trukkana er þessi sveitarómantík eingöngu bókmenntaveruleiki. Þeir hafa aldrei haft neitt á móti malbikinu. “Our so-called southern hospitality is a little overrated,” segir aðal-Trukkurinn, Patterson Hood, sem er yfirlýstur Demókrati og andstæðingur almennrar byssueignar. Fyrir vikið hefur hann náttúrulega fengið heilu bílfarmana af hatursbréfum frá sveitungum sínum.

...

Ég þykist skilja Hood. Austurland er t.d. hinn yndislegasti staður með fallegustu náttúru í heimi en þú þarf ekki að leita lengi til að finna austfirskt goth. Sagan af síðustu aftökunni á Eskifirði, sagan af Vaidasi, sagan af síðasta þrælnum á Héraði, sagan af Vottunum sem voru grýttir á Reyðarfirði. Þær eru þarna - inn á milli fallegra fjalla - sögur af útlendingahatri, ömurlegri fátækt og heimilisofbeldi. Þetta er ekkert meiri sannleikur en sannleikurinn um sæluna í sveitinni en flækir engu að síður þá mynd sem við viljum draga upp af okkur. Það getur nefnilega verið mjög erfitt fyrir suma að trúa því að hryllingurinn geti líka átt heimilisfang í póstnúmeri 730. Tala nú ekki um núna, á tímum endurreisnarinnar.

Hvað um það. Tékkið á Trukkunum. Þeir semja texta sem Raymond heitinn Carver hefði slefað yfir og þó þeir séu ofboðslega pómó; snjallir, kaldhæðnir og meðvitaðir þá rokka Trukkarnir feitt.

Knúturinn.

eXTReMe Tracker