Topp 5 ársinsAuðvitað byrja ég á mússíkinni...
Bestu plöturnar sem ég eignaðist 1. Cold roses með Ryan Adams
Þegar ég er niðri á jörðinni er ég almennt á þeirri skoðun að tónlistarmenn geri ekki fleiri en eitt meistaraverk á ferlinum. Augljósar undantekningar eru Miles (gerði þrjú), Bob (gerði þrjú og hann gæti jafnvel bætt við hinu fjórða) og Brian Wilson (gerði tvö en hið þriðja kemur aldrei).
Ryan gerði þrjár plötur á árinu. Fyrst Cold roses, síðan Jacksonville city nights og svo kom út platan 29 fyrir nokkrum dögum. Seinni plöturnar tvær eru góðar þó mér hafi ekki enn gefist tími til að melta 29 almennilega en Cold roses er meistaraverk – þetta fannst mér strax við fyrstu hlustun. Allir kostir Ryans sem túlkanda og lagahöfundar eru nýttir og síðan er hann með þetta ótrúlega band með sér sem grúvar eins og moðerfokker í hverju einasta helvítis lagi! Tvímælalaust besta back-up hljómsveit síðan The Band voru upp á sitt besta.
Ryan er ekki nema þrítugur og Cold roses er fyrsta meistaraverkið hans. Hann mun gera að minnsta kosti eitt í viðbót. Að öllum líkindum tvö.
2. Back in black með AC/DC
Þetta þarf ég ekki að útskýra en ég bið lesendur afsökunar á því að hafa ekki eignast hana fyrr en núna. En svo ég útskýri nú þá er málið þannig vaxið að Keli átti hana þannig að ég þurfti ekki að kaupa hana. En hann sagðist hafa týnt sínu eintaki þegar mig greip eitthvert AC/DC hungur fyrir austan um jólin og það var mér mikil ánægja að bæta úr því. Back in black er alveg jafn góð og hún hefur alltaf verið og “Let me put my love into you” hlýtur að teljast með betri lagatitlum rokksins.
3. Things we lost in the fire með Low
Mér hefur alltaf þótt Minnesota-fylki í Bandaríkjunum forvitnilegt af einhverri ástæðu en því miður var það ekki innifalið í Ameríkuferðinni minni í sumar. Low bætir skaðann tímabundið með þessari lágstemmdu plötu.
4. Bitches brew með Miles Davis
Ég hef skrifað um þessa einhvern tímann og nenni ekki að bæta neinu við.
5. The Country collection með Jerry Lee Lewis
Margir halda að Jerry hafi einungis gert Great balls of fire og Whole lotta shakin árið 1957 og síðan fuðrað upp. Það gæti þó ekki verið meiri vitleysa því Jerry átti skemmtilegan kántríferil á sjöunda áratugnum fram á þann áttunda. Þetta safn keypti ég í Memphis í sumar og ég tárast í hvert skipti sem Another time, another place byrjar. Fyrsta erindi textans má finna einhvers staðar á þessari síðu. Endilega lesið hann ef þið eruð í stuði fyrir smá sjálfsvorkunn.
Bestu bækurnar sem ég las
1. Hin feiga skepna eftir Philip Roth
Roth útskýrir af hverju menn á miðjum aldri fá gráa fiðringinn. Bók um kynlíf og dauða.
2. Glæpur og refsing eftir Dostójevskí
Bókin sýndi mér hvað menn geta gengið langt trúi þeir of heitt og blint á einhvern isma. Í lokin bjargar ástin hinni ólánsömu söguhetju og ég er sammála rithöfundinum að hún er eina göfuga kenndin sem mannskepnan býr yfir.
3. Minniblöð úr undirdjúpunum eftir Dostójevskí
Segir okkur hvernig einsemd fer með góða pilta. Glæpur og refsing gerir það reyndar líka en þetta er svona styttri versjón.
4. Lunar park eftir Bret Easton Ellis
Þvílíkt kombakk.
5. Sputnik sweetheart eftir Haruki Murakami
Ég hef ekki hugmynd um hvað bókin er en mikið var hún góð.
Það sniðugasta sem ég gerði á árinu
1. Ferðalagið til Bandaríkjanna
Ók frá Memphis TN til Vancouver í Kanada á tuttugu dögum. Þetta var gamall draumur sem loksins varð að veruleika þökk sé enskri vinkonu sem lét verkin tala og pantaði flugfar og bíl áður en mér tókst að hætta við.
2. Hætti í blaðamennsku
Hvað getur maður sagt? Ég hætti á Austurglugganum í ágúst eftir rúm tvö ár, vann á DV í tvær vikur og loks á Blaðinu í þrjá daga en gafst loksins upp, algerlega búinn að fá nóg af þessu djobbi. Horfi samt stoltur til baka og sakna tímans á Austurglugganum. Ég reikna ekkert frekar með því að maður fái aftur starf þar sem maður hefur algerlega frjálsar hendur. Ég er þakklátur þeim sem réðu mig þó þeir hafi drullað í buxurnar þegar þeir völdu arftakann (sem er fínasti kall þó hann búi til drepleiðinlegt blað. En þetta vildu þeir blessaðir...).
3. Byrjaði í skóla aftur
Eftir fimm ára hlé frá háskólanámi finn ég fyrir akademísku hungri.
4. Byrjaði að vinna á geðdeild LHS
Skemmtilegur vinnustaður og vanti yður ástæðu til að hætta að drekka eru þær auðfundnar á deild 33A.
Og þessu nátengt:
5. Bjórdrykkja með Sigurði og Huga
Ég á nokkra drykkjufélaga en þessir eru bestir (þeir eru líka fínir án áhrifa). Iðulega enda samverustundir okkar með rifrildi en það er allt í góðu.
Það sem ég ætla að gera á nýja árinu
1. Rækta tengsl við fjölskyldu og vini
Ég þykist vita að ég verði sjálfur að betri manni standi ég við þetta.
2. Fara í fjallgöngur eins oft og ég mögulega get
Ég og Hafliðinn gengum talsvert í haust eftir að við stofnuðum fjallgönguklúbbinn Tindabikkjurnar og í ár er ætlunin að gera enn betur. Hekla og Herðubreið here we come...
3. Halda áfram að uppgötva nýja gamla tónlist
Skefjalaus hlustun á Ryan Adams hefur opnað augu mín gagnvart Greatful dead en það verður fyrsta bandið sem ég ætla að kynna mér þegar aðeins dregur úr Ryan-æðinu, vonandi einhvern tímann í vor. Eins og allir alvöru tónlistarnördar á ég American beauty og Workingman’s dead sem báðar eru delisíus en ég vil meira, meira, meira!
4. Hætta að rífast um DV
Ég hef fært ótal rök fyrir því af hverju DV er gott blað og nú vil ég fá að hafa þessa skoðun í friði enda er hallærislegt að rífast enn um Dagblaðið á árinu 2006. Það er eitthvað svo last spring. Auðvitað drulla þeir á sig af og til en það gera hinir líka. Og þó það nú væri! Djöfull held ég að fjölmiðill með hreina bleiu yrði leiðinlegur.
5. Taka doktorsnámið með stæl
Þetta verður strembið verkefni en ég veit að ég mun klára það. Um jólin var ég spurður að því, á að giska þúsund sinnum, hvað ég ætlaði að gera að námi loknu og ég svaraði alltaf að ég vissi það ekki. Og það er dagsatt. Hvernig á maður sossum að vita það? Veist þú hvað þú ætlar að gera eftir fjögur ár? Ég hélt ekki.Líf manns væri nú óttalega litlaust ef svona hlutir væru á hreinu.
Skál fyrir 2006!
Kv.
Knúturinn.
ES. Já, og takk fyrir lesturinn. Það er ótrúlegt að einhver skuli nenna að lesa þessa hugaróra. Ekki veit ég af hverju en það er, eðli málsins samkvæmt, ekki mitt vandamál heldur þitt.
EES. Ég, ég meina hann, er enn í fríi.