Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

15 desember, 2005

Frí

Gleymdi að segja ykkur að Knúturinn er farinn í frí. Hann kemur ferskur inn fyrir áramót með sína árlegu topp 5 lista.

Kv.

Knúturinn eða Kanúte eins og hann er kallaður í Afríku.

09 desember, 2005

Föstudagsspjallið

Var á sjálfsvarnarnámskeiði í dag. Lærði alls konar brögð en það eina sem ég man núna er "scream and run"-bragðið sem ég ætla að nota óspart ef ég lendi í einhverjum leiðindum.

...

Idolið áðan var ömurlegt og ég held ekki með neinum í úrslitunum sem voru að hefjast. Skil ekki sveitunga minn að velja sér ekki erfiðara lag en "Tætum og tryllum". Þegar menn eru komnir svona langt vill maður sjá einhver tilþrif og gamall Stuðmannaslagari býður ekki upp á nein slík tækifæri fyrir jafn ágætan söngvara og Sigfús er.

...

Er að lesa Hótel Kaliforníu eftir Stefán Mána. Er ekki búinn með nema svona fimmtíu blaðsíður en ég sé strax að þetta skyldulesning fyrir alla sem hafa unnið í frystihúsi og þekkja þennan helgarfyllerísriðma. Hann nær að fanga þetta andrúmsloft skuggalega vel og það fer um mig ískaldur hrollur þegar ég les lýsingar hans á hausaranum. Oh, the pain...

...

Í spilaranum er London calling með Clash. Ein af mínum eftirlætis plötum.

I've been beat up, I've been thrown out.
But I'm not down, I'm not down.
I've been shown up, but I've grown up.
And I'm not down, I'm not down.

Síðasta lag plötunnar, Train in vain, er magnað og ég breytist bókstaflega í dansfífl þegar ég heyri það. Allir sem þekkja mig vita að það, eitt og sér, er stórkostleg afrek hjá Strummer og félögum. Þetta lag heyrir maður hins vegar bara á 22 og ég nenni ekki lengur þangað.

Niðurstaða: Ég dansa aldrei. Og þó, það er lygi.

Góða helgi.

Knúturinn.

08 desember, 2005

Lazy eye?

Ég vil afsaka ummæli mín um Ívar Guðmunds hér fyrir neðan. Þegar ég skrifaði þetta var Ívar nýbúinn að segja að Írafár væri góð hljómsveit og ég fríkaði einfaldlega út. Þetta er bara enn eitt dæmið um að maður á aldrei að láta neitt frá sér þegar maður er reiður.

...

Það er ekki fallegt að gera grín að fólki sem er öðruvísi og ég var að ljúga þessu með sirkusferðirnar. Ég hef aðeins einu sinni farið í sirkus til að sjá frík en það var á Egilsstöðum árið 1985. Þeir voru með hrikalega sniðugan kall með þrjú augu til sýnis og ég hló mig máttlausan skal ég segja ykkur. En þetta var á þeim tíma þegar það var í lagi að sýna frík í sirkus þannig að maður er ekkert ógeðslegur í dag þó maður hafi skemmt sér yfir þessu fyrir tuttugu árum.

...

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst augun í Ívari Guðmundssyni (útvarpsmanni á Bylgjunni) eitthvað furðuleg. Hann var í Kastljósinu áðan, vöðvastæltur og flottur, en ég gat ekki hlustað á hann því ég starði látlaust á þessi undarlegu augu. Það er eins og hann nenni ekki að hafa þau opin, hefur bara smá rifu svo hann hitti nú örugglega oní klósettið þegar hann pissar. Undarlegt. Er þetta svokallað "lazy eye"? Þetta er ekki aulabrandari. Er einhver hérna inni sem veit hvað amar að Ívari.

...

Annars finnst mér fríksjóv agalega skemmtileg og ég reyni alltaf að fara í sirkus þegar ég er í útlöndum. Ég gapi hreinlega og dett alveg út þegar ég sé almennilegt frík.

Kv.

Knúturinn.

07 desember, 2005

Amazon

Var að ljúka við jólainnkaupin en að þessu sinni gerði ég þau á Amazon. Ég keypti fullt af bókum og diskum en samt slapp ég vel - sýndist tótal summan vera fyrir innan fimmtán þúsund kallinn. Guð blessi Amazon og Guð blessi hátt gengi krónunnar.

Kv.

Knúturinn.

05 desember, 2005

Matarboð

Aðalbjörn Sig, Blaðamaður, býður í mat í kvöld en hann er þekktur fyrir fáguð matarboð. Ég veit ekki hvort ég verð eini gesturinn en ég ætla að klæða mig líkt og það sé von á dömum (ég ætla að taka upp þann gamaldags sið á nýju ári að kalla konur "dömur") því A.Sig á stórt safn einhleypra vinkvenna. Samt er hann ekki hommi.

...

Sem sagt; skyrta og bindi er málið en svo mixa ég gallabuxum og Campersskóm við þetta svo ég komi ekki út eins og einhver schmuck (elska þetta orð). Svo er best að skreppa í tóbaksbúðina niðrí bæ og kaupa Dunhill-sígarettur. Annars verð ég hlédrægur og kurteis í fasi og líklega farinn heim fyrir klukkan ellefu. Að sjálfsögðu borða ég mig saddan áður en ég legg í hann svo ég geri mig ekki að fífli. Ég ætla að greiða hárið aftur (kominn með mikið hár) og sennilega verð ég órakaður (kominn með sjö daga skegg).

Myndin sem ég ætla að draga upp af sjálfum mér í matarboðinu verður þessi:

Fágaður einstaklingur (Dunhill, kurteis, borðar lítið, snyrtilegur til fara, fer heim snemma) en soldið dularfullur (segir ekki margt, notar vínrauða Campersskó við hefðbundinn snyrtilegan klæðnað, fer heim snemma) og sennilega soldið villtur (órakaður, í gallabuxum og gengur í Campersskóm). Gæti verið mjög bókmenntalegur (sem er jákvætt) í bólinu (hárgreiðslan) en kynhegðun hans er fyrst og síðast óskilgreinanleg - rétt eins og týpan sjálf.

Heildarlúkk og fas mun gera fólki ómögulegt að segja til um hvar þessi maður skemmtir sér eða hvort hann skemmtir sér yfirleitt. Hann gæti verið þunglyndur en tekur engin lyf. Vinnur líklega á auglýsingastofu en gæti líka verið einn af þeim sem er í "sérverkefnum".

Þetta getur ekki klikkað og dömurnar eiga eftir að hringja í Aðalbjörn og biðja um símanúmerið mitt allan morgundaginn. "Þú manipúlerandi djöfull," hugsa ég þegar mér finnst ég vera sniðugur eins og núna.

Kv.

Knúturinn.

02 desember, 2005

Föstudagsblogg

Horfði á síðasta þáttinn af America's top model í gærkvöld en þetta er - vegna þess að ég er alveg leiðinlega gagnkynhneigður - sjónvarpsefni sem mér finnst skemmtilegt af dýrslegum ástæðum þ.e. ég fíla þetta ekki á neinu félagsfræðilegu leveli. Ég hélt með ljóshærðu stelpunni sem lenti í öðru sæti en sú sem vann var líka helvíti mögnuð, sérstaklega on the catwalk (on the catwalk, yeah! Í hvaða lagi er þessi lína?). Ég er því sáttur við úrslitin...

Segið svo að maður sé hámenningarlegur? Einn daginn Dostó og hinn daginn raunveruleikaþáttur um fyrirsætur, ha?

...

Þátturinn um Playboy mansjonið er líka magnaður og gaman væri að vita hvað Jón Gnarr segði um hann í ofstækispistlunum sínum í Fréttablaðinu. Ef Gunnar í Krossinum ræður í himnaríki og Hugh Hef í helvíti þá...ég þarf ekki einu sinni að segja það.

Góða helgi.

Knúturinn.

01 desember, 2005

Smart

Hljómsveitin Smart hóf göngu sína í gærkvöld. Í henni eru auk mín bræðurnir Bjarni og Þorlákur og Einar Solheim. Ég var í bandi með Einari á árum áður og með Bjarna hef ég spilað margoft. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég spila með Þorláki í hljómsveit sem endist vonandi lengur en eitt gigg.

Þorlákur er barnastjarnan í bandinu og í gær leyfði hann okkur að heyra lög með nýjum hljómsveitum sem ég hef aldrei heyrt talað um eins og t.d. Maroon 5 sem hljóma nákvæmlega eins og Stevie Wonder fyrir þrjátíu árum. Þorlákur segir að svona mússík verði bandið að taka ef það ætlar sér að lifa af í bransanum eins og hann lítur út í dag. Maður verður að treysta honum þó mér finnist að pöbbabönd eigi fyrst og síðast að taka Stones, Bítla og CCR. Hver vill ekki heyra þessi bönd á þriðja glasi?

...

Annars finnst mér Búálfar skemmtilegasta pöbbabandið og synd að þeir skuli vera hættir. Þrátt fyrir írska andann voru þeir orðnir - svona hægt og bítandi - jafn norðfirskir og Jeff Clemmensen.

...

Það eru rétt um tvö ár síðan Knúturinn byrjaði að blogga og hann ætlar að óska sjálfum sér til hamingju. Bravó, þú ert stjarna!

Knúturinn er bloggsjálfið mitt og hann gæti hvergi annars staðar verið til en hér. Jafnvel þó að Knúturinn tali yfirleitt í fyrstu persónu á hann samt ekkert skylt við Jón Knút Ásmundsson. Ef Knúturinn talar um sjálfan sig í þriðju persónu er hugsanlegt (en alls ekki öruggt) að Jón Knútur - þ.e.a.s. ég - sé að skrifa og sé með því að gera góðlátlegt grín að þessu fyrirbæri sem kallar sig Knútinn. Hann fer sífellt meira í taugarnar á mér því hann er sjálfumglaður en um leið afar komplexeraður hálfviti sem mig dauðlangar til að snúa úr hálslið. Meira um það síðar. Knúturinn er mættur. Þú ert nú meira fíflið, ha? Frá hvaða leyndarmáli ætlar þú að segja núna?

Innskot: Í einni málsgrein bloggaði bloggarinn um sjálfan sig í fyrstu, annarri og þriðju persónu. Ég, ef mig skyldi kalla, hef áhyggjur af honum.

Hvað um það. Take it away, Knútur:

Ég man vel eftir því þegar ég byrjaði að blogga. Nóttin var dimm og það var mikill raki í loftinu...neinei. Hvaða rugl er þetta?! Byrjum aftur.

Ég man vel eftir því þegar ég byrjaði að blogga. Kvöldið var fagurt og...nei. Þetta gengur ekki heldur. Svona verður þetta:

Ég man vel eftir því þegar ég byrjaði að blogga. Ég var á skrifstofu Austurgluggans einhvern tímann seint að kvöldi, sennilega á þriðjudegi (ég gæti auðveldlega kannað það en mér finnst að minningin eigi að vera svona). Við Helgi Seljan kláruðum blaðið á þriðjudagskvöldum og yfirleitt hékk ég síðan í vinnunni í nokkra klukkutíma. Guð má vita af hverju.

Allavega, ég var með MSN-ið opið og um ellefu leytið fékk ég skilaboð frá Helga um að honum leiddist en við eyddum ótrúlega miklum tíma í að láta okkur leiðast fyrir austan sem var alger óþarfi eins og ég komst að seinna meir. Svona eftir á að hyggja held ég að þetta aðgerðaleysi hafi orðið til þess að við reyndum að gera Austurgluggann soldið síðdegislegan með “æsifréttum” á for- og baksíðu og slúðurdálki á blaðsíðu tvö. Við vildum gera lífið skemmtilegra og stundum tókst það meira að segja - segið mér bara að stríðsfyrirsagnirnar “Skógræktarstjóri ósáttur við feitt kjet” eða “Fræga og fallega fólkið flýr Fjarðabyggð” séu ekki skemmtilegar?

Auk þess vorum við báðir afar impóneraðir af nýja DV sem þá var að koma út aftur eftir langt niðurlægingartímabil. Fáir Austfirðingar deildu með okkur þessari hrifningu og þess vegna verður aldrei haldið rokksjóv tileinkað pönkinu.

Ég held að ég hafi fengið hugmyndina um að byrja blogga og við stofnuðum tvær bloggsíður, þessa sem þú ert að lesa núna og svo opnaði Helgi sitt eigið blogg. Ég man að fyrsta og síðasta færslan hans var um Þröst í Mínus. Hún var afskaplega skáldleg en það vita ekki margir (ekki einu sinni Helgi sjálfur) að í Helga býr mikið og gott ljóðskáld. Hann er jú barnabarn afa síns. Allavega, af einhverri ástæðu bloggaði hann ekki meira. En nóg um Helga. Tölum um mig, mig, mig!

Ég hélt hins vegar áfram og upphaflega markmiðið var að skjalfesta nokkrar sögur um vini mína og kunningja sem ég segi þegar ég er í glasi. En svo hætti ég því og byrjaði að blogga um aðra hluti.

Í þessi tvö ár hef ég kannski ekki verið duglegasti bloggari í heimi ef ég fráskil undanfarna þrjá mánuði. Ég hef verið í svona millibilsástandi og haft alltof mikinn tíma aflögu og aðgerðarleysið ýtir undir bloggskrif og reyndar almenna paranoju líka. Stundum líður mér nákvæmlega eins og Raskolnikof í sögunni eftir Dostójevskí þó mig langi ekki til að drepa gamlar konur. Ólíkt Rassa, eins og ég kalla hann, trúi ég ekki á neinn málstað (er ég kannski níhilisti?), allavega ekki svo heitt að ég vilji drepa fyrir hann. En einvera og aðgerðarleysi kalla fram alls kyns hugsanir sem ég ætla aldrei að festa á blað. Og þó...

Vonandi hætti ég að blogga þegar skólinn byrjar fyrir alvöru eftir áramót. Ég vona það í raun og veru því bloggið er eitt mesta rúnk sem til er. Þetta er betra dæmi um sjálfhverfu en eiginleg sjálfsfróun. Þetta blogg sem þú ert að lesa núna er t.d. alveg makalaust gott dæmi um þetta. Akkúrat núna er ég að blogga sjálfum mér til heiðurs! Þetta er afmælisgrein um sjálfan mig - eftir mig sjálfan! Hvaða endemis vitleysa er þetta?! Þetta er ekki hollt!

En fyrir hvern er maður að blogga? Æi, það skiptir kannski ekki máli. Af hverju bloggar maður? Já, eða kannski miklu frekar: Af hverju blogga ÉG?

Ég er auðvitað að skrifa fyrir sjálfan mig en ef það væri eina ástæðan myndi ég skrifa venjulega dagbók eins og annað fólk. Við skulum bara tala án tæpitungu og segja ömurlegan sannleikann: Ég vil að einhver lesi mig!

Og af hverju?

Mikið vildi ég eiga eitthvað skynsamlegt svar við þessari spurningu en jújú, þetta er bara gamaldags hégómi eins og þið vissuð eflaust. Mér finnst gott þegar einhver segir “djöfull var fyndin færslan um blablabla” og fleira í þeim dúr. I’m so fucking vain að ég trúi því stundum ekki.

Þið sem lesið bloggið hafið tekið eftir því að ég skrifa mikið um tónlist. Ég vissi auðvitað að ég hef mikinn áhuga á tónlist en það var ekki fyrr en ég las allt bloggið mitt um daginn (“þvílíkur egóisti,” hugsið þið réttilega) að ég skildi til fulls að tónlist er mín ástríða. Önnur hver færsla fjallar um tónlist! Um tónlist! Áhugamál táninga og dópista!

Og þarna – án þess að það hafi verið ætlunin - er ég sennilega kominn að kjarna málsins og búinn svara spurningunni skynsamlega eins og ég vildi. Ég blogga til að kynnast sjálfum mér. Það er allt og sumt. (Og þvílík mynd sem ég dreg upp! Niðurstaða rannsóknarinnar er Knúturinn! Uss suss suss...)

Jæja, við skulum ljúka þessu á léttu nótunum þó þjáning mín sé augljós. Ó, mig auman! Mín þjáning er ykkar, skriðdýr!

Neineinei! Á léttum nótunum væri endirinn svona: Sennilegast blaðra ég bara og blogga vegna þess að ég hef ekkert að gera og ég geri ekkert af því að ég er síblaðrandi og síbloggandi.

Úff, ég er farinn. Á barinn.

Með ástarkveðju,

Knúturinn.

(Sjáiði hvernig Knúturinn skrifar eins og allur heimurinn sé að lesa, ha? Finnst ykkur skrýtið að maður, þ.e. ég, vilji ganga frá honum?)

eXTReMe Tracker