Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

30 september, 2005

Í strætó part II

Utan á strætó auglýsa þeir tískuvarning og flugferðir til framandi landa. Þegar maður stígur innfyrir blasa hins vegar annars konar auglýsingar við manni t.d. frá Rauða krossi Íslands - hjálparsíminn 1717. Stundum líður manni nefnilega illa og stundum líður manni nefnilega mjög, mjög illa. Ergo: Þér hlýtur að líða illa fyrst þú tekur strætó.

Samfélagið hefur með þessum hætti viðurkennt að eldri borgarar, nýbúar og nemendur eiga undir högg að sækja. Það er ágætis byrjun.

...

Annars sá ég aðstoðarmann forsætisráðherra í gær á Laugarveginum. Hann var helvíti flottur í tauinu og ég hugsaði með sjálfum mér: "Svona fær maður bara hjá Sævari Karli." En nei, hann staldraði við í Dressmann og skoðaði vetrartískuna m.a. fallega frakka og hlýjar ullarskyrtur. Það er kalt á toppnum.

...

Lag dagsins: No milk today (my love has gone away) með Herman's Hermits. Pælið í þessu! Kærastan dúmpar manni og maður ætlar að hressa sig við með svosem eins og einu mjólkurglasi en nei! Engin mjólk í ísskápnum - bara gamall laukur, hrukkóttur og skorpinn eins og andlitið á Bryan Adams. Bömmer.

Kv.

Knúturinn.

29 september, 2005

Blankur

Hef held ég bara aldrei verið eins blankur á ævinni. Eyddi klukkutíma í morgun í leit að tíköllum í kjallaranum og fann tíu stykki þ.e. hundrað krónur - að því gefnu að ég kunni að leggja saman. Einn var undir koddanum mínum en hina fann ég í krukku. Mig minnir að ég hafi ætlað að safna klinki í þessa krukku og gefa bágstöddum börnum í einhverju vanþróðuðu ríki í þriðja heiminum. Þannig fór nú það...

Fór svo í Nóatún og keypti einn pakka af kaffi. Tók tvö hundruð og fimmtíu krónur af debetkortinu mínu en afganginn borgaði ég með cash. Vill einhver elska svona mann?

Djöfull er allt tal um peninga niðurdrepandi. Hvað sagði aftur fíflið hann Prince? Money don't matter tonight eða eitthvað svoleiðis. Fokk jú sexí moðerfokker! Má ég frekar biðja um heimspeki í boði ABBA takk fyrir.

Lag dagsins: If I were a rich man dædle dídle dædla dædla dídle döm með Roger Whittaker.

Kv.

Knúturinn.

ES. Áður en einhver annar tekur það fram þá á maður í minni stöðu auðvitað ekki að versla í Nóatúni.

EES. Á morgun ætla ég að leita að hundraðköllum.

28 september, 2005

Ammilið

Kæru vinir!

Takk fyrir kveðjurnar í gær. Þetta var djöfulli fínn dagur og ekki skemmdi fyrir þegar félagar úr Jeeves mættu með viskíflösku í Kópavoginn í gærkvöld. Flaskan var kláruð og ég er með massívan hausverk í dag. Æði.

Lag dagsins: Love in vain með Stones.

Kv.

Knúturinn

26 september, 2005

Bissí

Verð fremur að latur í blogginu næstu daga. Er að vinna að rannsóknaráætlun og get því ekki sagt ykkur neinar fréttir af jarðgöngum og sameingaráformum eystra. Bömmer. Þið getið hins vegar náð ykkur í upplýsingar á Bæjarslúðrinu sem er óðum að verða besta héraðsfréttablað landsins.

...

Styrmir og Jónína Ben bara lovers, ha? Maður væri svosem ekkert að pæla í þessu ef Styrmir hefði verið örlítið kynferðislegri í skrifum sínum í gegnum tíðina. Kannski fáum við kynferðislegt Reykjavíkurbréf um næstu helgi. Maður lifir í voninni.

...

Tökum upp sorglegra hjal. Knúturinn verður þrítugur á morgun. Blóm og kransar eru afþakkaðir en ef einhver býður honum glas mun lund hans lyftast töluvert...

Kv.

Knúturinn

22 september, 2005

Að "reinventa" sig

Ég hlustaði á Joni Mitchell á meðan ég drakk morgunkaffið og las Fréttablaðið. Ég á nokkuð margar plötur með Joni en undanfarið hef ég verið að hlusta á þær sem hún gaf út frá 1974 til 1980. Á þessum tíma "reinventaði" eða enduruppgötvaði hún sig sem listamann en fyrir þennan tíma var hún svona hippalegur singer-songwriter eins og Donovan eða James Taylor. Það er reglulega gaman að hlusta á Blue frá 1970 og setja síðan Don Juan's reckless daughter frá 1977 á fóninn. Við fyrstu hlustun eiga þessar plötur ekkert sameiginlegt. Sú fyrri er angurvær og rómantísk kassagítarsplata en hin er rafmögnuð, harðgerð og flókin, á köflum nánast óskiljanleg. Smátt og smátt finnur maður svo einhvern sameiginlegan hljóm. Einhvern kjarna sem gerir Joni að einstökum listamanni. Í kringum 1980 reinventaði hún sig aftur en ekki með eins góðum árangri. Níundi áratugurinn fór illa með marga eins og við vitum.

Fimm vel heppnuð reinvent:

1. Achtung baby/U2 (1991)

2. Sunflower/Beach boys (1970)

3. Time out of mind/Bob Dylan (1997)

4. Hissing of the summer lawns/Joni Mitchell (1975)

5. Sweetheart of the rodeo/Byrds (1968)

Fimm misheppnuð reinvent:

1. Þessi þungu högg/Sálin hans Jóns míns (1993)

2. Trans/Neil Young (1983)

3. Mötley Crue/Mötley Crue (1991)

4. Þrír heimar/Bubbi (1994)

5. Toppurinn að vera í teinóttu/SSsól (1991?)

...

Nú ætla menn að fara sameina fyrir austan. Kosið verður um sameiningu Fjarðabyggðar, Austurbyggðar, Fáskrúðsfjarðarhrepps og Mjóafjarðar. Ég talaði í landsímann í gær og heimildarmaður minn eystra segir að Norðfirðingar séu verulega hræddir við þessa sameiningu. Þeir segja að ef þetta verði samþykkt sé Neskaupstaður offisíalli orðinn að jaðarbyggð...

Við hefðum kannski gott af því að prófa. Ég sé Stöðfirðinga í anda að taka undir með Dylan:

How does it feel
To be on your own
With no direction home
Like a complete unknown
Like a rolling stone?

Kv.

Knúturinn.

21 september, 2005

Fimm staðreyndir

Ég hef hugsað um þetta látlaust síðan skorað var á mig en ég held að lesendur Knútsins viti allt sem þeir vilja vita um hann og meira til. Hann er jú einlægasti bloggari Evrópu.

1. Ég heiti Jón og ég er vog.

2. Það er ekki lengur hægt að ganga fram af mér. Á tímabili taldi ég þetta bera vott um afar þroskað umburðarlyndi en það er ekki málið. Mér er bara sama.

3. Ég er mjög meðvitaður um sjálfan mig. Þetta kemur mér oft í vandræði því jafnvel við einföldustu verk hugsa ég um sjálfan mig í þriðju persónu. Gerðist t.d. oft í fótboltanum í gamla daga. Dæmi: Þarna kemur hann á fullri ferð, einn á móti tómu marki, þetta verður einföld afgreiðsla. Nei! Hann skýtur framhjá! Hvað var hann að hugsa?! Af hverju var hann að hugsa?!

4. Ég er laumureykingamaður. Kaupi mér einn Bagatellovindil á dag og reyki hann í einrúmi.

5. Ég er hundrað og tvö kíló. Mest vöðvar, þykkt skinn og þung bein.

Agnes, Orri, Siggi, Hugi, Trýtilbuxi, Stefán og allir hinir. Þið eruð næst.

Kv.

Knúturinn.

ES. Eitt í viðbót. Mér finnst Stones betri en Bítlarnir.

19 september, 2005

Stór

Heyrðu, breytum aðeins spurningunni. Hvað var ætlunin að verða þegar þið voruð lítil? Ég ætlaði að verða flugmaður þegar ég var tíu ára. Sextán ára var stefnan tekin á rokkstjörnuna, tvítugur pældi ég í því í eina viku að læra netagerð, tuttugu og tveggja ára langaði mig til að verða fræðingur af einhverju tagi, tuttugu og fimm ára blaðamaður. Þrítugur...I don't know.

...

Tók mig til í gærkvöld og hlustaði á allar gömlu plöturnar með REM þ.e. frá Murmur til Document. Þær eru óneitanlega misjafnar en Murmur, Life's rich pageant og Document eru hreinlega dásamlegar. Háskólarokk af bestu gerð og tilvalið að endurnýja kynni sín af þeim nú þegar maður orðinn stúdent aftur. Hlustaði mikið á REM þegar ég var í Leicester, sérstaklega Up frá '98. Afskaplega vanmetin plata.

...

Spurning hvort maður verði jock eða nerd að þessu sinni. Hef nú í gegnum tíðina alltaf hallað mér að nörðunum en eftir alla líkamsræktina fyrir austan er spurning hvort maður eigi ekki frekar heima í AlfaBeta...

Kv.

Knúturinn

18 september, 2005

Jájá...

Ég hafði ekkert að gera í gærkvöld annað en að horfa á sjónvarpið. Ég horfði á einhverja rómantíska gamanmynd með Diane Keaton og Jack Nicholson sem var einfaldlega bráðfyndin og verð ég nú seint talinn mikill aðdáandi rom/comkvikmynda. Jack sýndi enn einu sinni að hann er besti kvikmyndaleikari sögunnar. Hann er svo mikill persónuleiki að honum verður aldrei líkt við neinn. Hann stendur einn á stalli - einstakur.

...

Svo horfði ég á Stelpurnar á Stöð 2 og hafði gaman af. Sérstaklega fannst mér skrumskælingin á Sex in the city skemmtileg. Ef þessi Carrie væri í vinnu á íslensku blaði fengi hún nákvæmlega þrjátíu og fimm þúsund kall á mánuði en andlitið á henni væri örugglega að finna á flettiskildum og strætóskýlum. Og auðvitað kæmi hún fram hjá Sirrý tvisvar í mánuði, nema hvað.

Svona er blaðamennskan í dag. Keyrð áfram af harðasta húsbóndanum: Hégómagirndinni.
...

Einu sinni var ég að pæla í því að starta svona kynlífsdálki í Austurglugganum. "Kynlíf í krummaskuðinu" átti hann að heita.

...

Og ein spurning í lokin til þeirra sem lesa Knútinn:

Hvað ætlið þið að verða þegar þið eruð orðin stór?

Kv.

JK.

16 september, 2005

Blogg um...Austurgluggann!

Stjörnublaðamennirnir á Austurglugganum taka heila færslu af þessum vef og nota í blaðið sem kom út í gær. Það má segja að þar hafi komið vel á vondan enda var það í valdatíð minni sem þessi liður var tekinn upp. Hann var alla tíð umdeildur og fékk ég nokkur hatursbréf frá bloggurum eystra þar sem ég var beðinn um að hætta þessu hið snarasta. Að sjálfsögðu hlýddi ég því. Ég skildi nefnilega alveg af hverju menn urðu súrir. Bloggið var ætlað vinum, familíu og kunningjum til aflestrar en ekki lesendum Austurgluggans.

Ég hafði því þá reglu að ef menn kvörtuðu ekki þá leit ég á það sem samþykki fyrir birtingu. Hitt er svo annað mál að það gat enginn bannað manni að nota upplýsingar af bloggsíðum í fréttaskrif enda á blaðamaður ekki að vera háður neinum þegar hann aflar sér upplýsinga. Og áður en lengra er haldið er rétt að halda því til haga að ég ætla ekki að kvarta yfir þessu. Austurglugginn má alveg nota bloggið frá mér enda sýnist mér þeim ekki veita af...

Hmmm...ætli maður verði ekki að botna þetta diss fyrst að maður er byrjaður.

...

Nú veit ég að nýr ritstjóri var bara að byrja og maður skal gefa öllum tíma til að finna sig. En ef síðustu fjögur blöð eru lýsandi fyrir það sem koma skal þá finnst mér ekki skrítið þó að Bæjarslúðrið hafi fyrir skemmstu kallað Austurgluggann ómerkilegustu blaðtusku er komið hefur út á Íslandi.

Ég nenni svosem ekki að fara diskútera hvort blaðið sé fyndið eða skemmtilegt enda væri ég þá í leiðinni að segja að ég, Helgi Seljan og Björgvin Valur hefðum verið rosalega fyndnir og skemmtilegir - sem við vorum nú bara stundum. Og ekki skal gleyma að nýi Austurglugginn hefur nú þegar komið mér til að skellihlæja. Mér fannst það nefnilega drepfyndið þegar þeir slógu því upp á forsíðu að hafnar væru tannréttingar á Egilsstöðum. Það að þetta hafi verið aðalfrétt vikunnar hlýtur að þýða að undanfarna áratugi hafi Héraðsmenn þurft að nærast í gegnum plaströr vegna lélegrar tannheilsu - þetta vissi ég ekki. Þeir fá alla mína samúð. Í dag erum við öll Héraðsmenn.

En afsakið útúrsnúninginn. Ég hef meiri áhyggjur af öðrum hlutum.

...

Ég hef t.d. áhyggjur af því ritstjórnarstefnuleysi að blaðamenn megi ekki segja skoðun sína í blaðinu. Þessi breyting var kynnt lesendum blaðsins viku eftir að ég fór suður nú í ágúst og með þessu er auðvitað verið að hefta frelsi blaðamanna til að sinna sínu djobbi. Auðvitað eiga þeir ekki bara að segja "hlutlausar fréttir" (sem er reyndar gölluð hugmynd í eðli sínu) heldur eiga þeir líka að mynda sér skoðanir á því sem gerist í kringum þá. Slík skrif þjóna þeim tilgangi að lýsa lífinu á Austurlandi rétt eins og fréttir og það er vonandi ennþá markmið Austurgluggans.

En nú segir eflaust einhver að þegar blaðamaður lýsir skoðun sinni á einhverju að þá sé hann um leið vanhæfur til að fjalla um sama mál sem "hlutlaus" fréttamaður. Ég hef ekki tíma til að útskýra af hverju þessi fullyrðing stenst enga skoðun en segi þó þetta:

Getur einhver haldið því fram í fullri alvöru að hinir skoðanalausu blaðamenn sem nú starfa á Austurglugganum séu betri en Helgi Seljan og Björgvin Valur sem tjáðu sig án tæpitungu í hverri viku í tvö ár? Er Ómar Ragnarsson verri fréttamaður en Ágúst Ólafsson af því að sá fyrrnefndi segir skoðun sína á Kárahnjúkavirkjun en sá síðarnefndi ekki jafnvel þó að hann hafi hana og allir viti það? Gerir þagnarbindindið menn sjálfkrafa að betri blaðamönnum?

...

Ég vona að Siggi vinur minn Aðalsteinsson láti af þessari vitleysu og leyfi sjálfum sér og blaðamönnum sínum að segja eitthvað annað en að sláturtíð sé hafin. Hann gæti haft slík skrif á þar til gerðri leiðaraopnu ef hann óttast að einhver ásaki hann um að blanda saman fréttum og skoðunum. Og hann þyrfti ekki að halda að með þessu væri hann að gera eitthvað rosalega provókatíft sem gæti hugsanlega farið í taugarnar á stjórn Útgáfufélags Austurlands því meira að segja Mogginn leyfir blaðamönnum sínum að hafa skoðanir. Sú staðreynd hlýtur nú að róa allar brothættu sálirnar fyrir austan sem fara í kerfi þegar einhver ræskir sig og gerir síðan eitthvað alveg útúrflippað eins og að halda því fram að framsóknarmenn séu nú ekki alveg í lagi þessi misserin.

Kv.

JK.

15 september, 2005

Ég er engin helv. eilífðarstúdent!

Jamm og jæja. Meistaragráðan mín er orðin að doktorsgráðu og í morgun tókst mér loksins að finna hentugan leiðbeinanda sem getur vísað manni veginn í þessi fjögur ár sem þetta mun taka. Vinur minn kallaði mig eilífðarstúdent í gær þegar ég sagði honum frá planinu en ég get ekki tekið undir það nema að hluta til. Ef ég lendi í banaslysi vorið eða haustið 2009 má grafskriftin mín vera: "Hann óð á súðum en fyrst og fremst var hann í skóla."

En ef ég verð hundrað og tíu ára gamall, sem ég óttast að verði raunin (langlífi er algengt í föðurættinni), er nú tæpast hægt að kalla mann eilífðarstúdent jafnvel þó maður eyði tuttugu og fimm árum í skóla eða hvað?

Æi, hverjum er ekki sama. Það er gaman að læra og kalliði mig þá bara eilífðarstúdent. Ég þoli það alveg eins og ég þoldi í mörg ár að vera kallaður Jólaklútur af vissum einstaklingum innan föðurættarinnar. You know who you are...

Kv.

JK.

14 september, 2005

Meira um jarðgöng

Knúturinn ætlar að halda áfram að fjalla um jarðgöng lesendum sínum til mikillar ánægju. Hann hefur nú þegar skrifað meira um jarðgöng sl. tvo daga en hann gerði í tvö ár á Austurglugganum. Kannski er þetta bara þroski.

Það er langt síðan maður heyrði fyrst hugmyndir um T-göng á milli Norðfjarðar, Mjóafjarðar, Seyðisfjarðar og Héraðs (eru þetta ekki annars kölluð T-göng?). Samkvæmt heimildum mínum að austan eru slík göng ekki lengur ranghugmyndir og draumórar geðsjúkra steypuperverta heldur raunhæfur möguleiki - komin á teikniborðið ef svo má segja. Menn ganga jafnvel svo langt að halda því fram að þetta muni gerast á allra næstu árum.

(Þetta kemur jarðgangapervertum örugglega ekki á óvart því eflaust eru til einhverjar hundgamlar skýrslur og ályktanir um akkúrat þessi göng.)

Ef eða öllu heldur þegar þessum framkvæmdum lýkur (plús náttla ný jarðgöng á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar) verður loksins hægt að tala um eitt atvinnusvæði á Mið-Austurlandi - þetta er absólút forsenda fyrir blómlegri byggð! Álver án betri samgangna er bara steypa. En hvað með betri samgöngur og ekkert álver? Hvað segja lesendur um það?

Það er ótrúlegt hvað manni þykir vænt um Austurland þegar maður býr í kjallara í Kópavogi.

...

Neil Young var að gefa út plötu sem fær fimm stjörnur í Uncut. Gagnrýnendur Uncut eru að vísu full duglegir fyrir minn smekk að hæpa upp plötur eldri borgara. Nýja platan með Stones fær t.d. líka fimm stjörnur og það sem ég hef heyrt af henni er vissulega betra en flest allt frá Stones undanfarin fimmtán ár eða svo - ég var reyndar nett hrifinn af Voodoo lounge frá '94. En samt er nýja platan ekkert í líkingu við þær bestu sem þeir gerðu í kringum 1970, þá á ég við plötur eins og Sticky fingers og Let it bleed. Það eru alvöru fimmstjörnu-plötur.

Hvað um það. Nýja Young-platan heitir Praire wind og er líkt við meistarastykkið Harvest moon frá 1993 sem er mín uppáhalds plata frá þessum annars mistæka snillingi. Ég hef kosið að treysta Uncut núna. Best að drífa sig í Skífuna...

Kv.

JK.

13 september, 2005

Jarðgöng og kosningar

Í fyrsta skipti í sögu þessa bloggs ætla ég að tala um steinsteypu. Ég er haldinn gríðarlegum fordómum gagnvart steypu og vinnuvélum og m.a. vegna þessa fannst sumum ég heldur ómerkilegur ritstjóri. Austurglugginn átti nefnilega öðru fremur að segja frá hverri skóflustungu er tekin var á Austurlandi. En mér fannst og finnst enn svona fréttir vera uppfyllingarefni - nokkurs konar steypa.

Ég ætlaði hins vegar ekki að tala um Austurgluggann. Ég ætlaði að tala um steypu. Ástæðan er sú að það hafa verið tekin ný jarðgöng í notkun fyrir austan og sagði vinur minn - sem er yfirlýstur anarkisti og álversandstæðingur - að þetta sé einfaldlega bylting. Menn eru núna tíu mínútur að rúnta frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar og ekki nema svona rúman klukkutíma á Djúpavog (getur það verið? Er ekki Berufjörðurinn endalaus?). Auðvitað á þetta ekki að koma manni á óvart en það er samt gaman að heyra þetta.

Nú þarf bara ný jarðgöng á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar og þá er loksins hægt að ímynda sér að á Mið-Austurlandi geti vaxið blómleg byggð. Tala nú ekki um ef þeir bora til Mjóafjarðar líka. Þá verður gaman að lifa. Í Mjóafirði þ.e.a.s.

...

Maður missir því miður af kosningunum næsta vor en ég pældi stundum í því að vera á Glugganum fram yfir þær. Ég gerði það hins vegar ekki.

En af hverju er slæmt að missa af þessu?

Jú, hafandi tekið þátt í einni kosningabaráttu og verið fréttaritari DV í Neskaupstað í annarri veit ég að flestir sem koma nálægt þessu fara að minnsta kosti einu sinni á taugum. Ágætustu menn sem að öllu jöfnu eru rólegheitin uppmáluð á milli kosninga fríka út síðustu daga kjörtímabilsins. Ég gleymi því t.d. ekki þegar Magni Kristjáns hringdi í mig nokkrum dögum fyrir kjördag í maí 2002 brjálaður yfir því að ég væri í liði með Fjarðalistanum. Hann hafði á mig viðtalið við Smára Geirs sem ég tók hálfu ári áður og nú var komið að skuldadögum.

"Hvenær fáum við okkar viðtal?" spurði hann og þóttist vera klókur en eins og svo margir hélt hann að það væri einhvers konar kvótakerfi í vali á viðmælendum hjá öllum blöðum. Hann vissi ekki að þannig er það bara hjá RÚV. Á fjölmiðlum hins frjálsa markaðar ræður eftirspurnin mestu og eftirspurn eftir viðtali við Smára á tímum Eyjabakkadeilunnar var talsverð. Eftirspurn eftir skoðunum oddvita sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð var engin.

Daginn eftir kom hann í heimsókn í kosningamiðstöð Biðlistans í kaupfélaginu í Neskaupstað og fyrir tilviljun var ég einmitt að fá mér kaffi og kleinu með kunningjum mínum sem fyrir aðra tilviljun voru í framboði fyrir Biðlistann. "Ertu hérna sem blaðamaður eða stuðningsmaður?" hreytti kallinn útúr sér og rauk í burtu áður en ég gat svarað. Hann hefði hvorteðer aldrei trúað því að ég var hvorugt. Ég kaus Smára og Gumma Bjarna eins og ég hélt reyndar að Magni hefði gefið sér þegar hann hringdi í mig daginn áður.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi þar sem ólíklegustu menn buðu mér annað hvort í glas eða skömmuðu mig degi fyrir kosningar en hvar sem þeir voru í flokki áttu þeir sameiginlegt að muna ekki eftir neinu viku síðar. Meira að segja Magni varð ljúfur og blíður og heilsaði mér í kaupfélaginu eins og ekkert hefði í skorist. Ég heilsaði honum líka. Allt var orðið eðlilegt í þorpinu aftur. Kosningarnar voru bara einhvers konar geðklofakast með nojunni og öllu sem tilheyrir en svo fjaraði það út um leið og menn voru búnir að telja uppúr kjörkössunum.

En þessu missi ég af. Enginn stjórnmálamaður á eftir að skamma mig eða sleikja á mér rassinn núna þegar maður er orðinn vesæll háskólanemandi. Djöfullinn bara! Eða nei annars. Þetta er ágætt.

Kv.

JK.

12 september, 2005

Það er gaman í strætó

Ég var búinn að gleyma því hvað það er gaman að ferðast með strætó. Sérstaklega hef ég gaman af að hlusta á strætóstjórana bölva öðrum ökumönnum. Sá sem ók mér í morgun var óvenju hress og skemmtilegur og þar sem strætó var fullur af gamalmennum og menntaskólabörnum neyddist ég til að standa við hlið hans. Þetta virtist á einhvern hátt gleðja hann. Það var næstum því eins og nærvera mín hefði hvatt hann til frekari dáða í þessum barningi sem líf strætóstjórans hlýtur að vera.

"Það er ótrúlegt hvað menn þekkja umferðarreglurnar illa," sagði hann þegar hann þurfti að snarhemla á gatnamótum Miklubrautar og Snorrabrautar. Reyndar var messan miklu lengri og ég hélt á tímabili að hann væri að skamma mig sérstaklega. Hvernig veit hann að ég kann engar umferðarreglur?

Svo hringdi hann í einhvern Kára á miðstöðinni og kvartaði:

"Heyrðu Kári, af hverju eru ekki réttar merkingar á blablabla og hvenær ætla menn að breyta þessu og blablabla."

"Vertu nú bara rólegur. Það er óþarfi að gera mál úr þessu strax," svaraði Kári.

"Mál?! Ég er ekkert að gera mál úr neinu. Ég er bara að spyrja! Og ég er pollrólegur þakka þér fyrir."

(Þögn í svona þrjátíu sekúndur. Strætóstjórinn greinilega pirraður og hugsi.)

Og svo kom bomban: "Heyrðu Kári, láttu mig bara vita ef þú þolir ekki spurningar."

(Þögn)

Kári svaraði ekki og strætóstjórinn glotti, ánægður með sjálfan sig. Þarna malaði hann helvítis fíflið á stöðinni sem nagar blýanta og talar í símann allan daginn.

Kv.

JK.

08 september, 2005

Kverúlantaparanoja og kettir

Las dásamlega frétt í dag um mann sem kýldi einhvern réttargeðlækni fyrir sakir sem ég nennti ekki að leggja á minnið, minnir þó að þetta hafi verið forræðisdeila. Allavega, menn komust að þeirri niðurstöðu að árásarmaðurinn væri haldinn "kverúlantaparanoju" sem ku vera þekkt afbrigði vænisýki innan geðlæknisfræðinnar. Ja hvur andskotinn! Þá veit maður loksins hvað er að hrjá menn eins og Ástþór! Og þó, eins og Zappa sagði: "Just because you are paranoid doesn't mean people aren't out to get you". (Hef notað þetta kvót áður á þessari síðu og það getur vel verið að ég hafi eignað einhverjum öðrum það þá. Mjög Zappalegt samt.)

...

Fylgdist með ketti í morgun á meðan ég beið eftir strætó (losaði mig við bílinn fyrir helgi). Greyið var að rembast við að klófesta einhverja smáfugla en bjallan sem hann var með um hálsinn kom í veg fyrir að áformin lukkuðust. Hann minnti mig örlítið á félaga minn Ross í Englandi þegar hann reyndi við allar konurnar á barnum án árangurs. Ross var að vísu ekki með bjöllu um hálsinn en hann var andfúll og með bjórvömb.

Kv.

JK.

06 september, 2005

Knúturinn tekur U-beygju

Jæja, ég sagði upp á DV um helgina eftir tvær vikur og er kominn aftur í skóla. Þetta kann að hljóma sem einhver örvæntingarfull tilraun til að finna tilgang í lífinu að nýju og það er rétt. Kannski ekki örvæntingarfull en tilraun engu að síður.

...

"Life is what happens while you are making other plans" sagði John Lennon og það er rétt og rúmlega það (hann sagði reyndar líka "Nothing's gonna change my world" og síðan var hann skotinn þannig að maður veit hreinlega ekki hvað maður á að halda). Það má eflaust lesa þetta blogg mitt nokkra mánuði aftur og komast að þeirri niðurstöðu að höfundurinn sé kominn með lífsleiða. Kannski er það of mikið sagt en einhvern leiða engu að síður. Eftir gott samtal við góðan vin í heita pottinum í nýju sundlauginni í Kópavogi ákvað ég að hætta þessu hjakki og viðurkenna fyrir sjálfum mér að tími er kominn til að finna sér aðra hillu í lífinu - jafnvel hillusamstæðu.

...

Geðheilsufélagsfræði varð fyrir valinu og er ég sum sé að hefja meistaranám í félagsfræði í vikunni og eins og staðan er núna langar mig til að einbeita mér að geðsjúkdómum og endurnýja kynni mín við Goffman og þessa kalla. Ef ég verð ekki búinn að finna eldinn að nýju um áramót getur vel verið að maður geri eitthvað útúrfríkað. Gæti til dæmis alveg hugsað mér að flytja til San Francisco, nú eða bara til Kópaskers. Hver veit sossum hvað bíður manns? Allavega ekki ég! Ég er enginn sérfræðingur...

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker