Blogg um...Austurgluggann!Stjörnublaðamennirnir á Austurglugganum taka heila færslu af þessum vef og nota í blaðið sem kom út í gær. Það má segja að þar hafi komið vel á vondan enda var það í valdatíð minni sem þessi liður var tekinn upp. Hann var alla tíð umdeildur og fékk ég nokkur hatursbréf frá bloggurum eystra þar sem ég var beðinn um að hætta þessu hið snarasta. Að sjálfsögðu hlýddi ég því. Ég skildi nefnilega alveg af hverju menn urðu súrir. Bloggið var ætlað vinum, familíu og kunningjum til aflestrar en ekki lesendum Austurgluggans.
Ég hafði því þá reglu að ef menn kvörtuðu ekki þá leit ég á það sem samþykki fyrir birtingu. Hitt er svo annað mál að það gat enginn bannað manni að nota upplýsingar af bloggsíðum í fréttaskrif enda á blaðamaður ekki að vera háður neinum þegar hann aflar sér upplýsinga. Og áður en lengra er haldið er rétt að halda því til haga að ég ætla ekki að kvarta yfir þessu. Austurglugginn má alveg nota bloggið frá mér enda sýnist mér þeim ekki veita af...
Hmmm...ætli maður verði ekki að botna þetta diss fyrst að maður er byrjaður.
...
Nú veit ég að nýr ritstjóri var bara að byrja og maður skal gefa öllum tíma til að finna sig. En ef síðustu fjögur blöð eru lýsandi fyrir það sem koma skal þá finnst mér ekki skrítið þó að Bæjarslúðrið hafi fyrir skemmstu kallað Austurgluggann ómerkilegustu blaðtusku er komið hefur út á Íslandi.
Ég nenni svosem ekki að fara diskútera hvort blaðið sé fyndið eða skemmtilegt enda væri ég þá í leiðinni að segja að ég, Helgi Seljan og Björgvin Valur hefðum verið rosalega fyndnir og skemmtilegir - sem við vorum nú bara stundum. Og ekki skal gleyma að nýi Austurglugginn hefur nú þegar komið mér til að skellihlæja. Mér fannst það nefnilega drepfyndið þegar þeir slógu því upp á forsíðu að hafnar væru tannréttingar á Egilsstöðum. Það að þetta hafi verið aðalfrétt vikunnar hlýtur að þýða að undanfarna áratugi hafi Héraðsmenn þurft að nærast í gegnum plaströr vegna lélegrar tannheilsu - þetta vissi ég ekki. Þeir fá alla mína samúð. Í dag erum við öll Héraðsmenn.
En afsakið útúrsnúninginn. Ég hef meiri áhyggjur af öðrum hlutum.
...
Ég hef t.d. áhyggjur af því ritstjórnarstefnuleysi að blaðamenn megi ekki segja skoðun sína í blaðinu. Þessi breyting var kynnt lesendum blaðsins viku eftir að ég fór suður nú í ágúst og með þessu er auðvitað verið að hefta frelsi blaðamanna til að sinna sínu djobbi. Auðvitað eiga þeir ekki bara að segja "hlutlausar fréttir" (sem er reyndar gölluð hugmynd í eðli sínu) heldur eiga þeir líka að mynda sér skoðanir á því sem gerist í kringum þá. Slík skrif þjóna þeim tilgangi að lýsa lífinu á Austurlandi rétt eins og fréttir og það er vonandi ennþá markmið Austurgluggans.
En nú segir eflaust einhver að þegar blaðamaður lýsir skoðun sinni á einhverju að þá sé hann um leið vanhæfur til að fjalla um sama mál sem "hlutlaus" fréttamaður. Ég hef ekki tíma til að útskýra af hverju þessi fullyrðing stenst enga skoðun en segi þó þetta:
Getur einhver haldið því fram í fullri alvöru að hinir skoðanalausu blaðamenn sem nú starfa á Austurglugganum séu betri en Helgi Seljan og Björgvin Valur sem tjáðu sig án tæpitungu í hverri viku í tvö ár? Er Ómar Ragnarsson verri fréttamaður en Ágúst Ólafsson af því að sá fyrrnefndi segir skoðun sína á Kárahnjúkavirkjun en sá síðarnefndi ekki jafnvel þó að hann hafi hana og allir viti það? Gerir þagnarbindindið menn sjálfkrafa að betri blaðamönnum?
...
Ég vona að Siggi vinur minn Aðalsteinsson láti af þessari vitleysu og leyfi sjálfum sér og blaðamönnum sínum að segja eitthvað annað en að sláturtíð sé hafin. Hann gæti haft slík skrif á þar til gerðri leiðaraopnu ef hann óttast að einhver ásaki hann um að blanda saman fréttum og skoðunum. Og hann þyrfti ekki að halda að með þessu væri hann að gera eitthvað rosalega provókatíft sem gæti hugsanlega farið í taugarnar á stjórn Útgáfufélags Austurlands því meira að segja Mogginn leyfir blaðamönnum sínum að hafa skoðanir. Sú staðreynd hlýtur nú að róa allar brothættu sálirnar fyrir austan sem fara í kerfi þegar einhver ræskir sig og gerir síðan eitthvað alveg útúrflippað eins og að halda því fram að framsóknarmenn séu nú ekki alveg í lagi þessi misserin.
Kv.
JK.