Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

29 apríl, 2005

Mússíkblogg

Ég hef lítið bloggað um mússík undanfarið en tilgangurinn með þessu bloggi hefur ávallt verið, bæði leynt og ljóst, að troða mínum smekk ofan í kokið á lesendum. Ætla því aðeins að fara yfir mússíkneyslu mína undanfarna daga og vikur.

Af efnahagsástæðum kaupi ég yfirleitt gamla diska og einhvern tímann í mars keypti ég katalogginn hjá Nick Drake eins og hann leggur sig - að vísu bara þrjár plötur. Þetta er döpur mússík sem á sér sínar skýringar því listamaðurinn var þunglyndur og fyrirfór sér í nóvember árið 1974. Ég fer samt ekki á neinn bömmer þegar Drake byrjar að muldra og mæli sérstaklega með síðustu plötunni hans Pink moon. Hinar eru mjög fínar en of pródúseraðar fyrir minn smekk. Á Pink moon er bara kassagítar, píanó og svartsýnisraus.

Svo keypti ég annað gamalt meistaraverk um daginn, nefnilega Who's next með Who. Fyrir þá sem eru svona skápaaðdáendur iðnaðarrokks á borð við Boston þá markar þessi plata upphaf slíkrar tónlistar. Það var samt kvikmyndin Rushmoore sem kveikti áhuga minn á Who fyrir nokkrum árum og ætlunin var alltaf að eignast eitthvað með þeim. Sá þessa hjá Pjetri á þúsund kall og lét slag standa - alltaf til í að taka áhættur eins og þið vitið. I live for danger.

Og fyrir tveimur vikum keypti ég nýjan disk sem ég geri mjög sjaldan. Fyrir valinu varð Real gone með Tom Waits. Heyrði lag í útvarpinu með svo hrikalega flottum kúbönskum fíling að ég fór rakleitt í Tónspil og eyddi tæpum þrjú þúsund krónum í einhverja spes útgáfu. Hún er ansi þung og ég er hræddur um að hún hleypi manni ekki að sér nema eftir nokkur glös af rauðvíni. Sem er sossum allt í lagi.

En fyrir þann sem er að byrja í Waits mæli ég ekki með þessari - Real gone er hinn skrýtni Waits. Taktu frekar Mule variations frá 1999. Þar er öllum höfundareinkennum Tom Waits blandað saman í einn hrærigraut, angurværar ballöður með smá dass af furðulegheitum. Hrein unun.

Kv.

JK.

28 apríl, 2005

Er Knúturinn ekki nógu frægur?

Mér var bent á það fyrir fáeinum augnablikum að ég væri ekki nógu frægur til að vera tekinn fyrir í kostum og göllum Dagblaðsins. "Heldurðu að Sigga á kassanum viti hver þú ert?" spurði einhver pirruð smásál.

Ég vísa þessu alfarið á bug. Ef maðurinn á við Siggu í Nesbæ þá er ég nokkuð viss um að hún viti uppá hár hver ég er. Þá held ég nú að flestir Íslendingar muni eftir hljómsveitinni Allod Immug að ógleymdri hljómsveitinni Sívu sem tryllti lýðinn um árabil. Og ef maður talar um "famous by association" þá má það alveg koma fram hér að í inboxinu mínu er tölvupóstur frá Páli Ásgeiri á dægurmálaútvarpi Rásar 2 - og nota bene: enginn helvítis fjöldapóstur. Síðan held ég nú að flestir hafi séð mig og Dána (í Djúpu lauginni) fá okkur kaffi saman á Prikinu.

Þannig að Knúturinn hefur fengið sinn skerf af frægðinni skal ég segja ykkur. Ójá...

...

Eitt sinn sló vinur minn Hálfdán Steinþórsson í gegn sem sjónvarpsmaður eins og allir vita. Dáni – eins og vinir hans kalla hann jafnan - er hjartahreinn og down to earth náungi og sleit ekki vinskapnum við lúða eins og mig þrátt fyrir að ég væri ekkert frægur. Eitt sinn - á hátindi frægðar sinnar - hringdi hann í mig og bauð mér á útgáfutónleika með Írafári í Borgarleikhúsinu og þar sem ég var atvinnulaus í kjallaraholu í Kópavogi kom þetta eins og himnasending.

Við ákváðum að hittast á barnum í Borgarleikhúsinu og fá okkur einn bjór fyrir tónleikana en ég mætti tíu mínútum of seint - vildi ekki standa einn við barinn eins og einhver fyllibytta. Þegar ég kom var vinur minn hins vegar mættur og umkringdur öðru frægu fólki, sennilega að ræða eitthvað sem þannig fólk ræðir um. Dáni tók strax eftir því að ég var mættur og hóaði í mig: "Komdu hérna!" galaði hann yfir salinn.

Ég varð auðvitað vandræðalegur og þau vandræði jukust til muna þegar hann byrjaði að kynna mig. "Þetta er Jón Knútur vinur minn. Hann er blaðamaður (Dáni vissi betur en Guð blessi hann samt)". Fræga fólkið kinkaði kolli og spurði hvar ég væri blaðamaður og ég hélt áfram að spinna lygavefinn, sagðist vera freelance. "Aha," sagði glamúrgengið nokkuð impressað held ég.

Allavega. Svo pikkaði eitthvert ljósmyndaragrey í bakið á Dána og spurði hvort hann mætti taka mynd af genginu fyrir Séð og heyrt. Allir voru til í það og menn byrjuðu að stilla sér upp - ég lengst til vinstri. Ljósmyndarinn mundaði vélina en sagði svo við mig: "Ert þú til í að fara úr rammanum?" Úff...say no more.

Dáni tók þetta ekki í mál og krafðist þess að ég yrði með á myndinni og ljósmyndarinn tók því mynd af frægu fólki og svo einhverjum lúða. Eftir því sem ég best veit var myndin aldrei birt. Ljósmyndaragreyið hefur örugglega verið skammað af Kristjáni ritstjóra fyrir að blanda saman frægu og fallegu fólki við eitthvert skömmbagg eins og mig.

Kv.

JK.

Er Knúturinn smástirni?

Knúturinn var tekinn fyrir í kostum og göllum Dagblaðsins í gær. Í þessum dálki er til dæmis sagt að ég sé taugaveiklaður og með fótastærð snjódýrsins ógurlega. Þá er sagt að ég sé óheppinn í kvennamálum sem er náttla algerlega útí hött. Ég hef ALDREI átt leiðinlega kærustu og tel mig raunar mun heppnari en þá sem sitja uppi með sama makann um hver áramót. Það eina sem ég tek undir (fyrir utan alla kostina sem upptaldir eru) er þetta með laumureykingarnar en þær eru víst úr sögunni frá og með deginum í gær - mamma og pabbi lesa DV. Reyndar kemur líka fram að mér haldist illa á peningum sem hlýtur að vera rétt ef marka má bankabókina mína.

Þessi gjörningur DV sannfærir mig endanlega um að Árni Magg verði að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum hið snarasta. Og þá ber líka að handtaka Helga Seljan blaðamann og flengja hann með blautu handklæði á álverslóðinni á Reyðarfirði.

Jæja, hvað um það. Minn gamli kennari Þórður nokkur Jóhannsson sagði allt sem segja þurfti um þetta mál þegar ég hitti hann á pósthúsinu í morgun: "Hvurnig er það, hef ég alltaf vanmetið mikilvægi þitt eða er gúrkutíð á DV?" Svo hristi hann hausinn af gömlum vana.

Kv.

JK.

25 apríl, 2005

PR áfall

Líkfundarmálið var tekið fyrir í hæstarétti í morgun en líkmennirnir ætla að fara fram á vægari dóm en þeir fengu í héraði. Ég ætla ekki að viðra neina skoðun á þessu máli enda hef ég hana sennilega ekki.

Það vakti hins vegar athygli mína að í fréttum RÚV í hádeginu var ekki talað um "Líkfundarmálið í Neskaupstað" heldur einfaldlega bara "Neskaupstaðarmálið". Það er engum blöðum um það að fletta að líkfundurinn 11/2/04 var PR-áfall fyrir Fjarðabyggð en þar hafa menn eytt drjúgum tíma í að sannfæra fólk um að staðurinn sé sá allra besti á Austurlandi, jafnvel í Evrópu. Það að málið skuli núna vera kallað Neskaupstaðarmálið er náttla enn eitt áfallið fyrir vin minn og PR-manninn Jón Björn Hákonarson sem undanfarin ár hefur reynt að selja mönnum flekklausa ímynd sveitarfélagsins.

Neskaupstaðarmálið? Djísús barasta! Eða er þetta kannski bara hið besta mál? Eigum við að fara ná okkur í túrista út á þetta? Veit kannski enginn að Neskaupstaður er í Fjarðabyggð?

Orðið er laust.

Kv.

JK.

19 apríl, 2005

Í þvottahúsinu

Tók mér frí í vinnunni í dag en ég hef ekki átt frí á þriðjudegi síðan ég var í skóla. Eins og sannur og krepptur nútímakarlmaður ætla ég að eyða deginum í þvottahúsinu - hef ekki þvegið í tvær vikur og það er orðið hættulega freistandi að leita að nýjum nærfötum neðst í þvottakörfunni. Langar einhvern til að vita meira? Hélt ekki.

Kv.

JK.

18 apríl, 2005

End of story

Á sunnudaginn var staða mín hjá Austurglugganum auglýst laus til umsóknar. Ég mun kveðja þennan vinnustað með söknuði enda hafa þessi tvö ár verið skemmtileg, sennilega skemmtilegustu ár ævi minnar (fram til þessa). Ég vil samt ekki taka neina sénsa og hætti áður en mér fer að leiðast.

En þessi ákvörðun var soldið undarleg. Ég vaknaði einn miðvikudagsmorgun í febrúar og fór í vinnu eins og venjulega. Í hádeginu skrapp ég í mat til mömmu og pabba og á meðan ég slafraði í mig skyri og sviðasultu ákvað ég að segja upp - bara svona allt í einu vissi ég að minn tími var kominn. Eftir vinnu skrifaði ég svo uppsagnarbréf. End of story.

Kv.

JK.

11 apríl, 2005

Knúturinn segir sannleikann um Hjálma

Almennt séð hafa tónlistargagnrýnendur yfir sér áru þess sem er fúll á móti - hrifnir af því sem almenningur hatar og öfugt. Þannig vill maður líka hafa þá, þeir eiga að skyggnast aðeins á bakvið tjöldin og benda á það sem hinn almenni hlustandi hefur ef til vill ekki forsendur til að taka eftir.

Þá eiga þeir líka að vera í hlutverki barnsins sem bendir á nýju fötin keisarans. Oft standa þeir sig vel og man ennþá eftir því þegar ég las dóm í blaði um þriðju plötu Oasis sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir. Mikil spenna var fyrir útgáfudaginn og langar biðraðir mynduðust fyrir framan allar helstu plötubúðir. Platan kom út og allir kölluðu "meistaraverk" en svo kom dómur annað hvort í NME eða Mojo þar sem platan fékk afleita dóma. Lýðurinn vaknaði og heyrði loksins að platan var drasl, kókaínflipp Gallagherbræðra. Í sögu rokksins hefur fáum plötum verið skilað í jafn miklu magni og þessari plötu Oasis.

...

Og stundum fara gagnrýnendur hamförum í lofi, svo mikið gengur á að það engu líkara en að þeir séu í keppni - hver lofar mest. Þarna kemur hjarðeðli tónlistargagnrýnenda í ljós. Þeir lesa sér til um plötur í öðrum blöðum og tímaritum og eru búnir að gera sér upp skoðun á þeim áður en þeir setjast niður til að skrifa sína rýni.

...

Hjálmar heitir reggíhljómsveit sem hefur fengið meira lof en nokkur önnur íslensk hljómsveit síðan Sigur Rós gaf út Ágætis byrjun (það lof var verðskuldað). Áður lengra er haldið vil ég taka fram að ég hef heyrt plötuna þeirra nokkrum sinnum og hún er ágæt. En er hún eitthvað tímalaust meistaraverk í íslenskri poppsögu? Jafnast hún á við bestu plötur Marley?

Nei, þetta er bara íslenskt reggí sem mönnum finnst athyglisvert í sjálfu sér, rétt eins og mönnum fannst athyglisvert í sjálfu sér þegar menn röppuðu á íslensku fyrir fjórum árum síðan.

Fyrir vikið fá menn forskot sem íslenskir tónlistarmenn þurfa ekki lengur á að halda og hafa yfir höfuð ekki gott af. Fyrir þá sem hafa gaman af reggí vill Knúturinn benda á að árið 1977 gaf Bob Marley út plötuna Exodus. Það er tímalaust meistaraverk. Platan með Hjálmum er fyrst og síðast hin sæmilegasta byrjun.

Kv.

Boðberi sannleikans

Á bókasafninu

Maður er greinilega kominn með badsassrepjuteisjon í Neskaupstað, allavega í bókasafnsgeiranum. Fór á föstudaginn á safnið og þá voru að eiga sér "vaktaskipti" eða eitthvað álíka því Margrét bókasafnsvörður var að fara og við tók, væntanlega tímabundið, eiginmaðurinn Már Sveinsson. Um leið og ég steig fæti inní safnið spurði Már hvort ég væri með skírteini og áður en mér tókst að svara sagði Margrét að ég væri með skírteini sem "væri sko lítið notað" og bætti svo við óumbeðin að ég "skilaði bæði seint og illa!"

Ég roðnaði en ekki af skömm heldur einfaldlega vegna þessarar athygli sem koma mín virtist vekja. Ég vissi nákvæmlega hvaða bók ég ætlaði að taka og eyddi engum tíma fyrst að heimsóknin byrjaði svona. Strunsaði beint að hillunni með nýju bókunum og tók Vernon God Little eftir DBC Pierre sem Bjartur er búinn að gefa út í þessum "Neonklúbbi". Ég hef lesið slatta af Neonbókunum og þær eru undantekningalítið skemmtilegar en sá galli er á gjöf Njarðar að kápurnar eru skelfilega ljótar. Til dæmis er kápan á þessari bók neonbleik sem varð sennilega til þess að ég fékk aðra athugasemd og núna frá afleysingamanninum:

"Jæja vinur, er þetta einhver klámskrudda?"

"Ha, neinei. Hún hefur hlotið mörg verðlaun."

"Jæja vinur, ég veit, það vantar alveg klámsögur hérna."

"Biddu Margréti um að kaupa Houellebecq," sagði ég og tók þar með einhverra hluta vegna þátt í þessu samtali ef samtal skyldi kalla. Var um það bil að fara að rifja upp samlokuatriðið í Áformum en lét það samt vera af ástæðu sem þið hljótið að skilja.

"Ég ræð engu hérna," sagði hann mæðulega og vissi greinilega ekki um hvaða Húlle-eitthvað ég var að tala. "Djöfulsins klámhundur," heyrðist mér hann síðan segja rétt áður en ég lokaði á eftir mér. Ég gekk út gáttaður á þessum móttökum og hugsaði um ágætan frasa úr einhverju popplagi, sennilega eftir Zappa: "Just because you are paranoid doesn't mean people aren't out to get you."

Kv.

JK.

ES. Sennilega var hann bara að segja "Vertu blessaður og eigðu góða helgi!"

eXTReMe Tracker