Mússíkblogg
Ég hef lítið bloggað um mússík undanfarið en tilgangurinn með þessu bloggi hefur ávallt verið, bæði leynt og ljóst, að troða mínum smekk ofan í kokið á lesendum. Ætla því aðeins að fara yfir mússíkneyslu mína undanfarna daga og vikur.
Af efnahagsástæðum kaupi ég yfirleitt gamla diska og einhvern tímann í mars keypti ég katalogginn hjá Nick Drake eins og hann leggur sig - að vísu bara þrjár plötur. Þetta er döpur mússík sem á sér sínar skýringar því listamaðurinn var þunglyndur og fyrirfór sér í nóvember árið 1974. Ég fer samt ekki á neinn bömmer þegar Drake byrjar að muldra og mæli sérstaklega með síðustu plötunni hans Pink moon. Hinar eru mjög fínar en of pródúseraðar fyrir minn smekk. Á Pink moon er bara kassagítar, píanó og svartsýnisraus.
Svo keypti ég annað gamalt meistaraverk um daginn, nefnilega Who's next með Who. Fyrir þá sem eru svona skápaaðdáendur iðnaðarrokks á borð við Boston þá markar þessi plata upphaf slíkrar tónlistar. Það var samt kvikmyndin Rushmoore sem kveikti áhuga minn á Who fyrir nokkrum árum og ætlunin var alltaf að eignast eitthvað með þeim. Sá þessa hjá Pjetri á þúsund kall og lét slag standa - alltaf til í að taka áhættur eins og þið vitið. I live for danger.
Og fyrir tveimur vikum keypti ég nýjan disk sem ég geri mjög sjaldan. Fyrir valinu varð Real gone með Tom Waits. Heyrði lag í útvarpinu með svo hrikalega flottum kúbönskum fíling að ég fór rakleitt í Tónspil og eyddi tæpum þrjú þúsund krónum í einhverja spes útgáfu. Hún er ansi þung og ég er hræddur um að hún hleypi manni ekki að sér nema eftir nokkur glös af rauðvíni. Sem er sossum allt í lagi.
En fyrir þann sem er að byrja í Waits mæli ég ekki með þessari - Real gone er hinn skrýtni Waits. Taktu frekar Mule variations frá 1999. Þar er öllum höfundareinkennum Tom Waits blandað saman í einn hrærigraut, angurværar ballöður með smá dass af furðulegheitum. Hrein unun.
Kv.
JK.