Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

26 mars, 2005

Þegar afgreiðslufólkið hefur skoðanir

"Hvað kemur til að þú kaupir eitthvað óhollt?" spurði afgreiðslustúlkan í Sparkaup mig þegar ég rétti henni Smartiessúkkulaðistykki sem mig hefur langað í alla vikuna. Skyldi hún ekki hafa vitað að það er nammidagur hjá mér í dag? (Hún virtist allavega vita talsvert um mín daglegu innkaup. Best að ganga með hníf næstu daga).

Konan á eftir mér í röðinni veitti mér nauðsynlegan stuðning þegar hún sagði að það væru páskar og þess vegna hefði ég fullan rétt á soddan óhollustu. Hún hefur eflaust notað ýmsar réttlætingar í gegnum tíðina en eins og við vitum öll fer stór hluti ævinnar í að afsaka sig.

En sem sagt; hvar annars staðar en úti á landi lendir maður í svona löguðu?

Kv.

JK.

15 mars, 2005

Hinir góðu deyja ungir...?

Ég er nú fremur latur við að blogga og sennilega er þessi færsla dæmi um grjót og glerhús. Hvað um það. Tveir ágætir drengir, þeir Sævar Jökull og Hlynur, eru hættir að blogga. Ég las bæði þessi blogg því ekki fær maður fréttir af þessum mönnum öðruvísi. Er komið í tísku hjá yngri kynslóðinni að hætta að blogga?

...

Í gær gekk ég útí Páskahelli ásamt Sigga Kára og saman sátum við innst í hellinum og fylgdumst með briminu sem var stórfenglegt. “Neikvæðar jónir alls staðar,” sagði Siggi og ég hélt fyrst að hann væri að tala um mig. Ef ykkur fannst þetta ekki fyndið skulið þið tékka á þessu:

Við sáum nebbla ekki þessa stöku jaka sem talað var um í fréttum í gær en við vorum sammála um að það væri fyndið að tala um "staka jaka". Sú staðreynd að mér hafi þótt þetta fyndið gerir mig leiðan. Er ég virkilega að komast á fertugsaldurinn? Er ég virkilega ekki með fágaðra skopskyn eftir öll þessi ár?

Kv.

JK.

12 mars, 2005

Sko...

Hér er mikið skrifað um mússík en þið skulið ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki að til eru mikilvægari hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

Kv.

JK.

10 mars, 2005

Klassískt rokk

Ég og Keli bróðir minn búum yfir allt of mikilli vitneskju um klassískt þungarokk en draumadjobbið okkar beggja er að vinna í Tónspil ca. 1990. Þá sérhæfði búðin sig í þungarokki og var sú besta á landinu í þeim geira.

Þegar ég segi klassískt þungarokk á ég við hljómsveitir á borð við Black Sabbath, Deep Purple, Whitesnake, Uriah Heep, Led Zeppelin, Rainbow og fleiri. Við getum haldið upp samræðum um þessar hljómsveitir og neimdroppað í marga klukkutíma. Ættartré þessara hljómsveita er mjög tengt sem gerir þær að endalausri uppsprettu umræðna og spekúlasjóna. Til dæmis lék Don Airey, núverandi hljómborðsleikari Deep Purple, einu sinni í Black Sabbath (á Never say die plötunni frá '78) og seinna með Ozzy. Held að hann hafi síðan staldrað við í Uriah Heep á einni plötu. Og Ian Gillan, söngvari Deep Purple, söng á vanmetnustu plötu Sabbath, Born again, en á henni er einmitt lagið Stonehenge sem margir muna eftir. Og nú er spurningin bókstaflega æpandi! Hvernig hefði Sabbath hljómað með Coverdale? Veit að þetta er fáránleg hugmynd. Sorrí.

Ástæðan fyrir of miklu magni af slíkum upplýsingum í heilabúum okkar bræðra er nánast sjúklegur áhugi á sagnfræði þungarokksins og en við erum enn þann dag í dag dyggir kaupendur tónlistartímarita. Ég kaupi Uncut og Keli kaupir Classic rock. Þegar ég kíki í heimsókn til Kela verð ég fljótlega óviðræðuhæfur en Classic rock er stútfullt af nýjum upplýsingum um allar þessar gömlu og góðu sveitir. Til dæmis las ég um daginn að Rob Halford, söngvari Judas Priest, væri hættur að reykja og strákarnir í Europe voru í raun badass muthafuckers og gangbönguðu grúbbíur í massavís eftir tónleika. Í greininni segir að Tempestinn hafi hesthúsað þær í tugatali og eyðilagt hárgreiðsluna í leiðinni. Hver hefði nú trúað því fyrir tuttugu árum!

Við höfum ástríðufullar skoðanir á mönnum og málefnum í klassísku rokki og þær koma oft á yfirborðið þegar við fáum okkur rúnt. Við segjum fátt en þó eiga svona samtöl sér stað þegar Best of Van Halen (vol. 1) fer úr Hot for teacher af 1984 yfir í Why can’t this be love af eighties poppdraslinu 5150:

Jón: Djöfull urðu þeir leiðinlegir þegar Hagar kom inn í dæmið.

Keli: Ertu eitthvað ruglaður?! 5150 er besta platan maður!

Jón: Slakaðu á.

Keli: Slaka ég á?! Slaka þú bara á!

Þó að Keli hlusti miklu meira á þungarokk en ég þá er ég mun meiri pjúristi. Mér finnst fyrstu fjórar plöturnar með Sabbath bestar og að mínu mati eyðilagði Sammy Hagar Van Halen. Svo finnst mér allt sem Purple hefur gert eftir 1972 djönk (fyrir utan Burn frá 1974 en þar var það Coverdale sem bjargaði málunum). Keli er miklu umburðarlyndari og afar tryggur öllum þessum hljómsveitum. Ég hef hann til dæmis grunaðan um að finnast Tony Martin tímabilið með Sabbath best sem segir allt sem segja þarf um bróður minn. Hann er dásamleg mannvera en á köflum með vonlausan tónlistarsmekk. Sorrí bró...

Kv.

JK.

Smekklaus - aftur...

Og það er allt vitlaust í vinnunni aftur. Búinn að fá fimm símtöl frá austfirskum smásálum sem eru ósáttar við fyrirsögnina "Tengist Reykjavík ekki rassgat" á baksíðunni í dag. Síðasta orðið fer eitthvað fyrir brjóstið á þessu liði og mér finnst gaman að útskýra fyrir því að hér sé ekki beinlínis verið að tala um hringvöðvann sem slíkan. Fólki er skítsama og segir að þetta sé ósmekklegt.

Já...getur verið en hver vill svosem vera smekklegur hérna?

Kv.

JK.

03 mars, 2005

Egó

Því er oft haldið fram - réttilega - að fjölmiðlamenn séu sjálfhverfir. Mín skoðun er sú að þetta eigi fyrst og fremst við sjónvarpsfólk en það hverfist um sjálft sig af mikilli list. Til dæmis hafa sjónvarpsáhorfendur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þurft að horfa á Kristján Kristjánsson í Kastljósinu taka gítarsóló í beinni útsendingu, honum og vinnufélögunum eflaust til mikillar ánægju en öllum öðrum til mikillar armæðu.

En þegar betur er að gáð eru allar stéttir sjálfhverfar og ég hef ekki tölu á þeim fréttatilkynningum sem ég hef fengið frá stofnunum og fyrirtækjum um nýjar græjur og nýja þjónustu sem á ekkert erindi í blað sem frétt - það hefur enginn áhuga á svona lögðuðu nema fólkið sem starfar hjá viðkomandi apparati (eina blaðið sem birtir svona djönk er Mogginn og við vitum öll hvernig ástandið er á þeim bænum). Best að taka dæmi:

Fyrir stuttu kom ósk frá sjúkrahúsinu í Neskaupstað um að það yrði tekið viðtal við nýju ljósmæðurnar sem voru að flytja í bæinn. Og ástæðan? Tja, af því bara! Hef ekkert á móti nýjum ljósmæðrum en mamma er búin að vera ljósmóðir í tæp fjörutíu ár og ég er ekki enn búinn að taka viðtal við hana (ójá, það er ekki tekið út með sældinni að vera móðir ritstjórans). Það verður því í fyrsta lagi tekið viðtal við hinar nýju ljósmæður eftir tuttugu ár þ.e. ef þær verða ennþá búsettar hérna.

Allavega, fjölmiðlamenn eru egóistar og síðasta Austurglugga sló ég met. Ég setti mynd af sjálfum mér á forsíðuna...

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker