Klassískt rokkÉg og Keli bróðir minn búum yfir allt of mikilli vitneskju um klassískt þungarokk en draumadjobbið okkar beggja er að vinna í Tónspil ca. 1990. Þá sérhæfði búðin sig í þungarokki og var sú besta á landinu í þeim geira.
Þegar ég segi klassískt þungarokk á ég við hljómsveitir á borð við Black Sabbath, Deep Purple, Whitesnake, Uriah Heep, Led Zeppelin, Rainbow og fleiri. Við getum haldið upp samræðum um þessar hljómsveitir og neimdroppað í marga klukkutíma. Ættartré þessara hljómsveita er mjög tengt sem gerir þær að endalausri uppsprettu umræðna og spekúlasjóna. Til dæmis lék Don Airey, núverandi hljómborðsleikari Deep Purple, einu sinni í Black Sabbath (á Never say die plötunni frá '78) og seinna með Ozzy. Held að hann hafi síðan staldrað við í Uriah Heep á einni plötu. Og Ian Gillan, söngvari Deep Purple, söng á vanmetnustu plötu Sabbath, Born again, en á henni er einmitt lagið Stonehenge sem margir muna eftir. Og nú er spurningin bókstaflega æpandi! Hvernig hefði Sabbath hljómað með Coverdale? Veit að þetta er fáránleg hugmynd. Sorrí.
Ástæðan fyrir of miklu magni af slíkum upplýsingum í heilabúum okkar bræðra er nánast sjúklegur áhugi á sagnfræði þungarokksins og en við erum enn þann dag í dag dyggir kaupendur tónlistartímarita. Ég kaupi Uncut og Keli kaupir Classic rock. Þegar ég kíki í heimsókn til Kela verð ég fljótlega óviðræðuhæfur en Classic rock er stútfullt af nýjum upplýsingum um allar þessar gömlu og góðu sveitir. Til dæmis las ég um daginn að Rob Halford, söngvari Judas Priest, væri hættur að reykja og strákarnir í Europe voru í raun badass muthafuckers og gangbönguðu grúbbíur í massavís eftir tónleika. Í greininni segir að Tempestinn hafi hesthúsað þær í tugatali og eyðilagt hárgreiðsluna í leiðinni. Hver hefði nú trúað því fyrir tuttugu árum!
Við höfum ástríðufullar skoðanir á mönnum og málefnum í klassísku rokki og þær koma oft á yfirborðið þegar við fáum okkur rúnt. Við segjum fátt en þó eiga svona samtöl sér stað þegar Best of Van Halen (vol. 1) fer úr Hot for teacher af 1984 yfir í Why can’t this be love af eighties poppdraslinu 5150:
Jón: Djöfull urðu þeir leiðinlegir þegar Hagar kom inn í dæmið.
Keli: Ertu eitthvað ruglaður?! 5150 er besta platan maður!
Jón: Slakaðu á.
Keli: Slaka ég á?! Slaka þú bara á!
Þó að Keli hlusti miklu meira á þungarokk en ég þá er ég mun meiri pjúristi. Mér finnst fyrstu fjórar plöturnar með Sabbath bestar og að mínu mati eyðilagði Sammy Hagar Van Halen. Svo finnst mér allt sem Purple hefur gert eftir 1972 djönk (fyrir utan Burn frá 1974 en þar var það Coverdale sem bjargaði málunum). Keli er miklu umburðarlyndari og afar tryggur öllum þessum hljómsveitum. Ég hef hann til dæmis grunaðan um að finnast Tony Martin tímabilið með Sabbath best sem segir allt sem segja þarf um bróður minn. Hann er dásamleg mannvera en á köflum með vonlausan tónlistarsmekk. Sorrí bró...
Kv.
JK.