Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

20 júlí, 2004

Knúturinn er farinn í stutt frí. Hann dvelur nú í Mjóafirði og kollektar dauðan fisk í búrum. Hann situr sáttur við sinn keip.

Kv.

JK.

07 júlí, 2004

Tek aftur allt sem ég hef sagt um nýju plötuna með Brian Wilson. Þetta það besta sem hann hefur gert í þrjátíu og fjögur ár. Hér verður hins vegar ekki rætt um B. Wilson heldur Fjalar nokkurn Jóhannsson, minn elsta vin.

---

Þannig er nú málum vaxið að Fjalar er að fara gifta sig um helgina og mér var sagt - ekki af honum svo það sé á hreinu - að það væri viðeigandi að ég myndi segja nokkur orð í veislunni. Ástæðan er náttla sú að ég er einn af hans elstu vinum ásamt Gumma Gils sem þið hafið lesið um á þessari síðu.

Nú jæja. Gott mál. Þetta er fínerís hugmynd og ég hef rætt þetta við Fjalar, ræddi þetta síðast við hann í dag, og það var ákveðið að ég myndi flytja stutta ræðu honum (og henni) til heiðurs. Og nú fer ég heim til mín og hugsa mitt mál. Hvað á ég að segja sem særir ekki móður hans sem ég dýrka og dái?

Þetta verður erfitt, helvíti erfitt.

Kv.

JK.




05 júlí, 2004

Nýja Brian Wilson platan er komin í hús og fór vitaskuld beint í spilarann. Nú er spurningin: Er hún góð eða er hún vond? Eftir eitt rennerí er erfitt að segja. Þetta er engin Pet sounds enda bjóst ég ekki við því. Þetta er heldur engin Smile og við því var heldur ekki að búast. Hef þegar lesið nokkra dóma um plötuna og sumir gagnrýna Brian fyrir að vera ótrúverðugur. Maður með slíka ævi að baki á ekki - samkvæmt þessum herramönnum - að semja og syngja lög um stelpur, lög eins og How could we still be dancing sem opnar plötuna.

Ég er þessu ósammála.

Brian Wilson hefur frá upphafi sleppt því að fjalla um sín persónulegu vandamál sem voru til staðar löngu áður en hann læsti sig inni í herbergi einhvern tímann um '70. Einstaka sinnum fengum við innsýn í hugarheim Brians í lögum eins og 'Til I die og In my room en yfirleitt samdi hann um brimstelpur, hjólaskautabörn, Johnny Carson og þess háttar. Það væri stílbrot ef hann færi allt í einu að syngja um geðsveiflur og dópneyslu. Og af hverju þarf hann sossum að taka Bubbann á þessu og velta sér upp úr einhverri óhamingju? Þetta er bara Brian Wilson eins og hann er árið 2004 - nákvæmlega eins og hann var árið 1964.

Svo við víkjum aftur að spurningunni: Er nýja platan góð? Veit það ekki ennþá en hún minnir óneitanlega á 15 Big ones og Love you við fyrstu hlustun - sem er bæði gott og slæmt. Gott vegna þess að hún er furðuleg - það gerir enginn svona mússík nema Brian Wilson. Þessar plötur sem ég minntist á voru afturhvarf til gullaldartímabils Beach boys og kannske má velta því fyrir sér hvað það þýði að endurtaka það sem í raun var endurtekning...

En þetta er slæmt vegna þess að maður heyrir að kallinn gengur ekki alveg heill til skógar. Röddin er rám og textarnir svo ægilega barnalegir að maður óttast að það sé bara tímaspursmál hvenær Brian hverfur aftur í herbergið sitt.

Mun blogga reglulega um þessa plötu í hvert sinn sem ég uppgötva eitthvað nýtt.

Kv.

JK.



04 júlí, 2004

Mikið ógeðslega er ég þunnur og tæpur í dag. Ástæðan er náttúrulega fyllerí gærkvöldsins en þessi nýi bar á Norðfirði, Rauða torgið, hefur gert það að verkum að ég drekk helmingi meira en venjulega. Þetta er þó engin voðaleg drykkja en vegna þess hvað ég var mikill félagsskítur í vetur þá hefur þessi staður umturnað lífi mínu.

Og nú sit ég í vinnunni með massívan timburmannakvíða og meðfylgjandi paranoju og mikilmennskubrjálæði. Það á að banna blaðamönnum að drekka.

Kv.

JK.

eXTReMe Tracker