Sögur af örvæntingarfullum austfirskum séntilmanni

Hér er mikið skrifað um popptónlist en ekki halda eitt augnablik að ég viti ekki fullvel að til eru merkilegri hlutir undir sólinni - staða alþjóðamála og allt það.

11 nóvember, 2014

Farinn...

...hingað

Góðar stundir.

Knúturinn.

10 nóvember, 2014

Um mikilvægasta mál helgarinnar

Maðurinn talaði um hyski af landsbyggðinni. Hann sagði ekki að allt fólk af landsbyggðinni væri hyski var það? Hann átti bara við framsóknarmenn er það ekki?

Allavega. Ég tók þetta ekki til mín en hef þetta um málið að segja:

1. Var þetta skörp greining á ástandinu eða hnyttin athugasemd um stöðuna frá helsta rithöfundi þjóðarinnar?

Neeee...þetta var hvorki fugl né fiskur. Þetta var úrillur status á Facebook. Hef skrifað nokkra slíka sjálfur en þeir hafa ekki vakið neina athygli vegna þess að ég er ekki Einar Kárason. Fyrst og fremst var þetta merkilega tréhausaleg athugasemd og þá á ég bara við stílinn - ekki innihaldið sem var, eins og fyrr segir, hvorki fugl né fiskur. En við höfum svosem alltaf vitað að Einar Kárason er enginn Hallgrímur Helgason.

2. Var þetta til að bæta umræðuna?

Neeee...þeir einu sem eru ánægðir með sig í þessu máli eru framsóknarmenn sem fá kærkomna viðspyrnu í formi hrokafulla og lattelepjandi listamannsins úr 101. Þeir telja sig vita að miðbærinn sé morandi af þannig hyski en hvorki ég, né nokkur sem ég þekki, hefur hitt svona týpu í raun og veru. Og Einar Kárason er líka ánægður með sig en hann getur auðvitað ekki annað. Sagði í útvarpinu áðan að þetta hefði verið "úthugsað" hjá sér.

Hættu, Einar. Plís hættu.

3. Eru viðbrögð skrílsins verri en það sem var upphaflega sagt?

Auðvitað. Þau eru margfalt verri. Fátt slær út bókabrennur eða hótanir um slíkt þegar kemur að aumingjaskap eins og sagan hefur því miður sýnt okkur óþarflega oft. Það er líka merki um ræfilshátt/heimsku að hætta að kaupa bækur vegna þess að manni finnst persóna höfundarins ómerkileg eða skoðanir hennar vondar. Sé það á annað borð hægt á fólk auðvitað að aðskilja listamanninn frá listinni eins og milljón sinnum hefur verið bent á.

Ekki hætta að hlusta á John Lennon þótt hann hafi verið, á köflum í það minnsta, ömurlegur eiginmaður og faðir. Hættu vegna þess að allt sem hann gaf út eftir 1971 var arfaslakt.

Og hananú.


06 nóvember, 2014

Fyrr í vikunni...

...keypti ég lénið "jonknutur.is" og þangað fer þetta blogg innan tíðar. Þar ætla ég líka að geyma útvarpsþætti, allavega nokkra, sem ég vann fyrir RÚV í denn, og ýmislegt annað "lauslegt".

Í denn segi ég enda verið afar latur við þessa iðju undanfarin ár. Var spurður að því um daginn hvort ég væri hættur að gera útvarpsþætti. Svarið er já en kannski tek ég upp þráðinn aftur. Það er enginn annar að gera þætti hérna fyrir austan þannig að ætli maður verði ekki að gera eitthvað?

Þetta var grín. 

En samt ekki. 

Nýr útvarpsstjóri lofaði því að efla starfsemi RÚV útá landi. Ég vona að það þýði ekki bara öflugri fréttastarfsemi (á Akureyri myndu einhverjir skrifa). Ég vona að það þýði líka öflugri dagskrárgerð. Best að leiðrétta sig strax: Ég vona að það þýði að einhver dagskrárgerð sé fyrirhuguð þar sem fókusinn er á samfélagið á Austurlandi. Það er í raun stórmerkilegt að fjölmiðill allra landsmanna sinni þessu ekki en það er að vísu mjög margt stórmerkilegt í þessum heimi. Ýmislegt sem er stórmerkilegra en léleg þjónusta RÚV utan Reykjavíkur. 

Æi, á maður að nenna að tala um RÚV? Ég nenni því varla. Búinn að tala svo oft um þetta apparat. Svo á Hrafnkell Lárusson lokaorðið um fjölmiðlun á Austurlandi  - þ.m.t. RÚV - hvorteðer. Engu við það að bæta. 

...

Það rignir óskaplega á Reyðarfirði akkúrat núna. Hér er smá rainy day mússík fyrir ykkur:
05 nóvember, 2014

Umræðuhefðin í skemmtinefnd Nesskóla árið 1988

Jæja, þeir (þessir blessuðu "þeir") drógu tillögu um niðurskurð Stöðvarfjarðarskóla til baka. Lítill sigur fyrir unnendur almannaþjónustu í landinu. Stór sigur fyrir foreldra og börn á Stöðvarfirði.

...

Alltaf soldið athyglisvert (ætlaði að fara skrifa "skemmtilegt" en hætti við það) að fylgjast með umræðunni um þessi örfáu hitamál sem koma upp í örsamfélaginu Austurlandi. Vegna þess hve fjölmiðlar eru máttlausir hérna [ekki taka þetta til þín Gunnar Gunnarsson - þú stendur þig vel] fer umræða um samfélagsmál að mestu leyti fram á Facebook þar sem fólk skrifar með hástöfum og notar upphrópunarmerki eins það eigi allt skyr í heiminum til að sletta.

Tækifærin eru auðvitað fyrir hendi (svo augljós að ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að telja þau upp) vilji fulltrúar almennings viðra skoðanir sínar. En þeir gera það sjaldnast. Við fáum smá "glimpse" ef við nennum að horfa á bæjarstjórnarfundi og svo getum við séð hvaða statusa þeir "læka". Fleira er það nú ekki.

Veit ekki hvers vegna. Kannski finnst þeim þetta ekki skipta máli. Eða kannski kunna þeir ekki að skrifa. Kannski hafa þeir ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og treysta sér ekki til að taka slaginn. Sennilega nenna þeir því bara ekki og kannski skiljanlega. Enginn að kalla eftir neinu frá þeim.

Eða hver veit? Ekki ég í það minnsta. Ég er enginn sérfræðingur í mannlegu eðli.

...

Umræðan um þetta tiltekna mál var að sjálfsögðu fyrirsjáanleg. Svona endar öll umræða hér austur á útkjálka. Semsagt: Gagnrýni á tillöguna, sem ekki má lengur kalla tillögu heldur hugmynd, var afgreidd sem "karp" og flytjendur tillögunnar sögðust vera í fullum rétti til að viðra skoðanir sínar. Og hvers vegna kemur minnihluti bæjarstjórnar ekki með einhverjar "uppbyggilegar" og "málefnalegar" tillögur? Hvers vegna er umræðan á svona "ómerkilegu" plani?

Einmitt.

Akkúrat.

Það var og...

(Andvarp.)

Svona var umræðan líka í skemmtinefnd sjötta bekkjar Nesskóla árið 1988.

...

Stundum vildi ég að ég hefði lifað í bæjarstjóratíð Bjarna Þórðarsonar í Neskaupstað (´46 til ´73 fyrir þá sem vita ekki neitt). Á tímum þegar menn sögðu það sem þeir meintu og meintu það sem þeir sögðu. Menn móðguðust, jújú, en það var bara partur af prógramminu. Fólk móðgast alls staðar út af öllu en sólin heldur samt áfram að koma upp í austri. Þannig er það bara og þannig verður það að vera ef við ætlum ekki "snappa" einn góðan veðurdag. Þannig verður það að vera svo lengi sem við búum í lýðræðissamfélagi.

Við verðum að skiptast á skoðunum og umræðan á sem minnst að snúast um þann ákveðna verknað þ.e. um skoðanaskiptin sjálf og tilverurétt þeirra. Þau eiga að vera okkur svo sjálfsögð að með réttu ættu þau að vera ósýnileg. Hluti af veröldinni. Eins og andrúmsloftið.

02 nóvember, 2014

Hugsað upphátt um Stöðvarfjörð

Það er stutt síðan ég bjó í bæ þar sem allt var að "fara til helvítis". Meira að segja góða veðrið var farið suður (sumsé: til helvítis). Að vísu var næg vinna í Neskaupstað rétt fyrir síðustu aldarmót en það breytti því ekki að fólki fækkaði. Hægt og afar bítandi.

...

Þú getur ekki útskýrt móralinn á stöðum þar sem fólki fækkar fyrir fólki á suðvesturhorni landsins. Því miður. Það er einfaldlega ekki hægt. Ég held að þetta sé eitthvað sem þú þarft að upplifa svo hægt sé að ræða þetta við þig af einhverju skynsamlegu viti. Svona eins og þú talar ekki um sjómennsku við ósiglda menn eins og mig. Ég myndi bara stara á þig skilningssljóum augum og kinka kolli. Stundum á réttum stöðum í samtalinu - ef samtal skyldi kalla - en stundum á stöðum þar sem það meikar engan sens.

Fólkið sem hefur ekki upplifað svona ástand er sama fólkið og segir þér að tína fjallagrös þegar allt virðist í steik.

Djöfull er þetta lið firrt, hugsar maður.

...

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði maður barist gegn uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði og ég get sagt það núna, þessum árum síðar, að þetta er og verður sennilega skítsófrenískasta tímabil ævi minnar. Mínar vinstri rætur liggja ansi djúpt og það þýðir ýmislegt skal ég segja ykkur. Ég tortryggi t.d. stórfyrirtæki og ég tortryggi patríótisma (eins og t.d. þessa einstaklega spes þjóðrembu sem Austfirðingar fundu upp í Eyjabakkadeilunni).

En samt gat maður ekki annað en stutt þessar framkvæmdir. Afsakið, best að axla ábyrgð og segja þetta vafningslaust: En samt gat ÉG ekki annað en stutt þessar framkvæmdir.

Ég reyndi að gera það "málefnalega". Vildi t.d. ekki að Ómar Ragnarsson missti vinnuna hjá RÚV vegna skoðanna sinna sem þrátt fyrir allt lituðu bersýnilega þær fréttir sem hann flutti af málinu. Ég klappaði ekki við undirskriftina í íþróttahúsinu á Reyðarfirði, skaut ekki upp flugeldum eða dró fána Alcoa að hún þegar niðurstaðan um byggingu verksmiðjunnar lá fyrir.

Mig minnir að ég hafi ekki verið glaður. Mig minnir að ég hafi hugsað eitthvað á þessa leið:

"Ó, sjitt. Eins gott að þetta drasl virki."

Ég vildi bara að fólk hætti að flytja suður og tilgangurinn helgaði meðalið.

...

Og síðan þá hef ég varið þessa ákvörðun með ráðum og dáð. Kannski var það eftir á að hyggja vegna samviskubits sem maður gerði það. Kannski var hugsunin þessi: Best að ganga alla leið og styðja þetta þar til yfir lýkur svo maður verði ekki sakaður um það af hægrimönnum að vera ósamkvæmur sjálfum sér.

Nokkurn veginn klemma landsbyggðarkratans í hnotskurn frá árinu 1999.

Á þessari bloggsíðu má örugglega finna stuðningsyfirlýsingar útum allt fletti maður í möppum frá árunum 2003 til 2005. Ég nenni því ekki sjálfur. Mig langar ekki að lesa þær.

...

Sérstaklega núna. Á tímum þegar það á að fara flytja grunnskólabörn á milli bæjarkjarna í Fjarðabyggð vegna "loðnubrests". Ferðalag barnanna verður um einn hættulegasta veg landsins. Á hverjum virkum degi. Allan veturinn.

Maður hugsar:

Til hvers var barist þegar grunnþjónusta í álbænum Fjarðabyggð er skert vegna loðnubrests? Hvers vegna voru gljúfrin upp á hálendinu sprengd í tætlur ef það var ekki til bæta mannlífið m.a. á Stöðvarfirði?

Skoðum fleira:

Til hvers er maður stoltur af "lókal" stórfyrirtækjum eins og Síldarvinnslunni og sættir sig við það þegjandi og hljóðalaust að jafnaldrar manns á sjónum séu með a.m.k. fimmfalt grunnskólakennarakaup?

Hingað til hefur það verið vegna þess að maður trúir því að þetta sé "for the greater good".

Ef stórfyrirtækin hafa það gott þá hafa allir það gott. Ikke?

En þetta er sennilega bara kjaftæði er það ekki?

Komið mér endilega í skilning um annað. Endilega sýnið mér í næsta tekjublaði Austurgluggans að um leið og við skerðum þjónustu við börn á Stöðvarfirði taki milljónerar bæjarins á sig myndarlega launaskerðingu.

Það væri stórmannlegt er það ekki? Menn þyrftu kannski að skipta Landcruisernum út fyrir Skoda Octaviu og fara til Flórida með fjölskylduna ef til vill bara annað hvert ár. Vissulega fórn en við erum jú að tala um grunnskólabörn.

...

Fólki fækkar enn á Stöðvarfirði. Ég man hvernig tilfinning það var þegar enginn virtist vilja búa í bænum manns. Og hvað það er niðurlægjandi þegar "kerfið" skrúfar fyrir opinbera þjónustu þegar allt virðist í steik. Kallast að sparka í liggjandi mann og ég man líka hvað það var helvíti sárt.

En jafnaldrar mínir í bæjarstjórn virðast vera búnir að gleyma því.

Hvenær ætli þeir bjóði Stöðfirðingum að tína fjallagrös?

31 október, 2014

Fiskar og fuglar

Mamma segir að pabbi hafi aldrei geta skotið gæs. Honum hafi þótt hún of falleg. Sérstaklega til augnanna.

Öðru máli gilti hinsvegar um þorskinn. Hann var dreginn uppí bát og leyft að kveljast þar til pabba datt í hug að nú væri rétti tíminn til að blóðga fiskinn og slægja. Það gat verið hálftími, þessvega klukkutími ef fiskiríið var gott. Og þá var sá guli hvorteðer búinn að gefa upp öndina eftir langt - og ef til vill ólýsanlega kvalarfullt - dauðastríð.

Að skera fisk á háls var fyrir sjómanninn pabba eins og að slíta krækiber af lyngi. Ekkert tiltökumál. Ekkert til að velta sér uppúr eða hugsa um. Að horfast í augu við nýskotna gæs var hinsvegar too much fyrir sjómanninn með “Sailor’s grave” tattú á vinstri upphandlegg.

Ég er ekki sjómaður. Hef aldrei verið og mun líklega aldrei verða úr þessu og þótt samúð mín með fiski vaxi með ári hverju get ég ekki neitað því að það er erfiðara að drepa gæs en fisk.

Uppeldið niðrá fjörðum. Meingallað.

22 október, 2014

Um viðhorf á tímum flugbretta

Pabbi minn þótti sýna óvenjulega hegðun þegar hann var heima með okkur strákana fyrir hádegi. Fór svo í vinnu og vann fram á kvöld. Hvað er karlmaður að hanga heima með börnum voru einhverjir að spyrja sig því þetta var ekki normið, svo við grípum í félagsfræðilegt tungutak. Kynjahlutverkin um miðjan áttunda áratuginn voru enn það skýr að karlinn átti að vera í vinnunni og konan heima með börnin. Einfalt og þægilegt.

Ég veit ekki alveg hvernig pólitíkin var heima hjá mér fyrir fjörutíu árum. Félagshyggjufólk voru þau vissulega bæði en jafnvel félagshyggjufólki getur orðið á í jafnréttismessunni. Ég held að hefðbundin kynjahlutverk hafi verið hafin yfir sósjalisma í Neskaupstað og kallarnir verið Kallar og konurnar Kellingar þrátt fyrir ríkjandi vinstriviðhorf. Þekkjandi mína praktískt þenkjandi foreldra held ég að þetta hafi einmitt bara hentað. Pjúra praktík - engin hugsjón.

...

Hálft í hvoru endurtek ég leikinn. Ég er heima fyrir hádegi og fer svo að vinna. Reyni eftir bestu getu að fara með stelpuna út að ganga á morgnana og svo förum við í ungbarnasund tvisvar í viku. Munurinn á mér og pabba er sá að ég fæ borgað fyrir að vera heima en pabbi lengdi bara vinnudaginn svo þetta gæti gengið hjá þeim.

Og síendurtekið er mér hrósað fyrir að vera "duglegur með stelpuna". Jafnvel ókunnugt fólk hefur stoppað mig út á götu og hrósað mér fyrir að vera ganga með barn (og hund).

...

Veit eiginlega ekki hvaðan á mig stendur veðrið í þessu máli. Fyrst fannst mér kannski bara svolítið vænt um hrósið. Maður væri bara að standa sig vel, í það minnsta enginn ræfill, en þegar þetta barst mér til eyrna síendurtekið runnu á mig tvær grímur.

Hvers vegna ætti ég ekki að vera duglegur með barnið? Hvers vegna er konunni minni aldrei hrósað fyrir að vera dugleg með barnið? Ég get lofað ykkur því að hún er að standa sig býsna vel!

...

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að þrátt fyrir að ekki sé nema eitt ár þar til þetta kemur á markað eru gömul og úrsérgengin viðhorf (að ég hélt) býsna lífsseig. Það virðist vera að þar til maður sýnir fram á annað sé maður alvöru karlmaður sem lætur kellinguna um uppeldi barna og uppvaskið. Á meðan vinnur kallinn á daginn og glápir á fótbolta á kvöldin. Með einn ískaldan í glasi. Fer svo á skytterí með strákunum um helgar.

Eða sumsé: Scumbag þar til annað kemur í ljós.

eXTReMe Tracker